Lasagna með beikoni, salami og rjómaostasósu


IMG_7172Ég hef verið að prófa allskonar uppskriftir af öðru lasagna en því sem ég geri oftast nær, þessu hér. Flestar uppskriftirnar hafa verið góðar, en hingað til hafa engar slegið mínu lasagna við. Ég hef ekki einu sinni séð ástæðu til að setja þau hingað á bloggið. Karlmennirnir í fjölskyldunni sérstaklega voru hins vegar afar hrifnir af því lasagna sem ég gerði um síðastliðnu helgi og Elfar er búinn að spyrja mig oft hvort ég ætli ekki örugglega að setja það á bloggið!

Ég fann uppskriftina í Delicious Magazine og þar kallast það hvorki meira né minna en “Really very good lasagne”! Mér fannst uppskriftin hljóma mjög spennandi, ekki síst fyrir það að í henni var dálítið rauðvín! Okkur hjónunum finnst voða gott að fá okkur eitt vínglas með matnum um  helgar (þá sjaldan sem Elfar er ekki á bakvakt) en við látum aldrei verða af því. Mér finnst nefnilega alltaf svo mikil sóun að opna heila vínflösku en taka bara af henni tvö glös, svo eyðileggst afgangurinn. En þarna sá ég mér leik á borði, við gætum dreypt á smá rauðvíni og notað afganginn í matinn, ekkert færi því til spillis! 🙂 Þetta lasagna verður afar bragðgott  með rjómaostasósu auk beikons, salami-pylsu og rauðvíns meðal annars. Þetta er tilvalinn réttur til að dunda sér við um helgi með smá rauðvín í glasi og hlusta á góðan djass á meðan! 🙂

Uppskrift f. 4 

  • 150 ml rauðvín
  • 150 ml kjötkraftur
  • 100 gr beikonteningar
  • 1 rauðlaukur, fínsaxaður
  • 2 rósmarínkvistar, blöðin tekin af og söxuð smátt
  • 2 tsk oregano (þurrkað krydd)
  • 1 msk ólífuolía
  • 2 hvítlauksrif, söxuð fínt
  • 500 nautahakk
  • 150 g góð pylsa, t.d. salami, skorin í litla bita (má sleppa og bæta við meira hakki í staðinn)
  • 1 dós niðursoðnir tómatar
  • 2-3 msk tómatpúrra
  • 1 tsk púðursykur
  • fersk basilika
  • lasagnaplötur
  • rifinn ostur

IMG_7147

Rjómaostasósa:

  • 40 g smjör
  • 40 g hveiti
  • 300 ml rjómi
  • 300 ml mjólk
  • salt og pipar
  • smá múskat
  • rifinn piparostur (í 85 g öskju)

IMG_7158

Bakarofn hitaður í 200 gráður, undir- og yfirhita. Rauðvíni hellt í lítinn pott, suðan látin koma upp og rauðvínið soðið niður um helming. Þetta tekur ca. 2-3 mínútur, látið rauðvínið svo bíða í pottinum.

Beikonið er steikt á pönnu. Því næst er lauk, rósmarín, oreganokryddi bætt út. Ef með þarf er hægt að bæta við smá olíu og jafnvel smjör bragðsins vegna. Blandan látin malla á meðalhita í ca 6-8 mínútur. Þá er hvítlauk bætt á pönnuna og hann steiktur í stutta stund. Svo er hakki og pylsu bætt út í.

Nú er kjötkraftinum bætt út í pottinn með rauðvíninu, suðan látin koma upp og blandan látin sjóða kröftugt þar til hún hefur soðið niður um helming (tekur ca. 2-3 mínútur). Þá er blöndunni hellt út á pönnuna með hakkinu. Tómötum í dós, tómatpúrru, púðursykri, salti og pipar bætt við. Kjötsósan látin malla í allavega 10 mínútur til viðbótar (því lengur því betri verður hún) og hún smökkuð til með kryddum. Á meðan er rjómaostasósan búin til.

Rjóma og mjólk hellt í lítinn pott og látið hitna dálítið á vægum hita (það kemur í veg fyrir að sósan kekkist). Smjörið er brætt í potti á meðalhita og hveitinu hrært út í. Þá er rjóma/mjólkurblöndunni bætt út í smátt á smátt. Hrært í stöðugt á meðan við meðalhita. Þá er osti bætt út og hann látin bráðna í sósunni og hún krydduð með salti, pipar og múskati.

Dálítið af ostasósunni er hellt í eldfast mót, því næst er lasagnaplötum raðað yfir, þá kjötsósu og síðan er ferskum basilkublöðum raðað yfir kjötsósuna. Þetta er gert til skiptis, endað á ostasósu. Að lokum er ferskum osti dreift yfir og bakað í miðjum ofni í ca. 25-30 mínútur. Borið fram með góðu salati og brauði (og ekki gleyma rauðvíni í glasi! 🙂 ).

IMG_7169

Key lime baka


IMG_7288Í dag er stóra stelpan okkar 19 ára! Tíminn líður svo ótrúlega hratt, það hljómar eins og klisja en er þó svo satt. Maður er svo önnum kafin við uppeldið þegar börnin eru lítil að tíminn líður án þess að eftir því sé tekið. Skyndilega einn daginn eru litlu börnin horfin og í staðinn komnar fullorðnar manneskjur! Ótrúlegt og dásamlegt en kannski örlítið tregafullt líka! 🙂

Að vanda fær afmælisbarnið á heimilinu að velja uppáhaldsmatinn sinn, að auki er boðið upp á köku, pakka og afmælissöng. Það kom mér ekki á óvart að Ósk valdi sushi í afmælismatinn.

IMG_7224Það kom mér heldur ekki á óvart að hana langaði hvorki í köku né eftirrétt, hún er ekkert hrifin af sætmeti. Algjör synd því mér finnst skemmtilegast að búa til eftirrétti og baka kökur! Ég lét það þó ekki á mig fá og notaði tækifærið að búa til böku sem ég er búin að horfa til lengi. Þó svo að afmælisbarnið vildi ekki böku þá komu amman og afinn í heimsókn og nutu góðs af henni með okkur fjölskyldunni. Og það má með sanni segja að þessi baka hafi slegið í gegn! Að vísu fannst yngstu krökkunum hún ekkert sérstök en okkur hinum fannst hún svo afskaplega ljúffeng, hún fór til dæmis strax á topp fimm kökulistann hjá Alexander. Þið verðið að prófa þessa dásemd!

IMG_7258

Þessi baka kemur líka úr uppskriftabók Hummingbird bakaríisins eins og ostakökubrownie kakan. „Key lime pie“ er bandarískur eftirréttur gerður úr limesafa, eggjarauðum og niðursoðinni sætmjólk. Ofan á bökuna er settur þeyttur rjómi en upprunalega var sett þeytt eggjahvíta ofan á bökuna, sem sagt marengs. Nafnið er dregið af Keys í Florída eftir límónunum (lime) sem vaxa þar. Þær eru talsvert minni (þarf að nota ca 12 á móti 4 venjulegum) og beiskari en þessar hefðbundnu límónur sem við þekkjum. Key límónurnar hafa einstaka sinnum verið til í Hagkaup. Í þessari uppskrift er gert ráð fyrir hefðbundnum límónum. Ég er ekkert mikið fyrir rétti með miklum sítrusi en þessa böku á ég klárlega eftir að búa til aftur, hún er dásamlega fersk og góð. Kjörin eftirréttur til dæmis eftir þunga máltíð. Næst er ég spennt fyrir því að prófa hana með marengs þó svo að þeytti rjóminn passi líka afar vel við bökuna.

sætmjólkVarðandi sætu niðursoðnu mjólkina þá fæst hún í Kosti, Melabúðinni, búðum sem selja asískar vörur og stundum í Hagkaup. Hafið þið kannski séð hana í fleiri búðum? Þegar ég fór í Kost síðast fann ég ekki þessa sætu mjólk og þurfti að spyrja um hana. Þá var hún falin einhverstaðar á bakvið. Stúlkan sagði að þeir mættu í raun ekki lengur selja hana. Mér skilst að þetta snúist um hvernig þessi mjólk er tolluð. Ég keypti allavega nokkuð margar dósir, það er svo mikið af skemmtilegum réttum sem hægt er að nota þessa sætu niðursoðnu mjólk í. Ég tala nú ekki um að búa til gómsæta karamellusósu úr henni!

Nýjasta græjan í eldhúsinu kom sér vel við eftirréttagerðina í dag. Inga frænka gaf okkur þetta Microplane úr Kokku í jólagjöf, alveg magnað áhald við til dæmis rif á sítrónum og límónum. Mæli sannarlega með því!

IMG_7201

Sushi kvöldsins kom frá Tokyo sushi, við erum mjög hrifin af því, frábært sushi á mjög góðu verði.

IMG_7223

En þá að uppskriftinni af þessari ljúffengu límónuböku!IMG_7257Uppskrift Key Lime baka:

Botn:
400 g Digestive kex (1 pakki)
200 g brætt smjör

Fylling:
8 eggjarauður
1 dós sæt niðursoðin mjólk (condensed milk)
safi af 4 límónum (lime)
4 dl rjómi, þeyttur

Ofninn stilltur á 175 gráður, undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við brædda smjörið. Blandan sett í bökunarform með lausum botni eða bökuform og henni þrýst i í botninn og upp í hliðarnar á forminu. Bakað í ofni í ca. 20 mínútur. Þá er bökubotninn kældur. Þar sem mér liggur alltaf á setti ég hann út í smástund þar til hann var orðin nægilega kaldur til að fara í ísskáp. Botninn þarf að vera alveg kaldur þegar fyllingin er sett á hann.
Ofninn lækkaður í 150 gráður. Athugið, þegar fyllingin er blönduð saman á að nota venjulegan þeytara ekki rafmagnsþeytara eða hrærivél. Eggjarauðum, niðursoðnu sætu mjólkinni og safanum frá límónunum (lime) blandað saman í skál og þeytt með handafli í smá stund þar til blandan þykkist örlítið. Þá er fyllingunni hellt ofan á kaldan botninn og bakað í ofni í 20-35 mínútur (ég bakaði bökuna í 25 mínútur). Kælt í ísskáp í minnst klukkutíma, helst lengur. Áður en bakan er borin á borð er þeytti rjóminn settur yfir bökuna (ég notaði rjómasprautu), gjarnan skreytt með dálítlum fínrifnum límonuberki. Njótið! 🙂

IMG_7281

Ostakökubrownie með hindberjakremi


Ostakökubrownie með hindberjakremi

Hummingbird bakaríið í London opnaði í Notting Hill árið 2004 og sérhæfir sig í amerískum kökum og bakkelsi. Nú hefur bakaríið opnað fleiri útibú og er orðið afar vinsælt og þekkt. humrecipeHummingbird bakaríið hefur einnig gefið út vinsælar uppskriftabækur. Í annarri bókinni er uppskrift af þessari dásamlegu köku, Ostakökubrownies með hindberjakremi. Þessi kaka er þekkt í matarbloggsheiminum í mörgum löndum og ég gat auðvitað ekki annað en prófað hana líka.

Í gærkvöldi var kjörið tækifæri til þess, matarboð fyrir fjölskylduna sem var eiginlega fyrirfram þrettándaboð. Þar sem við vorum tæplega tuttugu ákvað ég að hafa kjúklingasúpuna góðu og prófa þessa köku í eftirréttt. Ég átti að skila því hér frá matarboðsgestunum að þessi kaka fengi fullar fimm stjörnur af fimm! 🙂 Ég get nú ekki annað en verið sammála, þetta er ótrúlega góð kaka. Ef þið ætlið bara að prófa eina köku af síðunni minni þá er þetta mögulega sú kaka! Sjálf browniekakan er ótrúlega bragðgóð og passlega blaut, þá kemur bökuð amerísk ostakaka sem er afskaplega ljúffeng. Frísklegt og flauelsmjúkt hindberjakremið bindur svo saman kökuna, algjört hnossgæti! Ég þarf að baka þessa aftur fljótt og taka betri myndir af henni, matarmyndartaka fer oft fyrir ofan garð og neðan þegar maður er með stórt matarboð!

Athugið að í upphaflegu uppskriftinni eru hinberin maukuð og svo hrærð saman við 100 gr af flórsykri, því næst er blöndunni bætt við þeytta rjómann. Ég sá hins vegar á sumum matarbloggum að mörgum fannst kremið verða of linnt. Ég breytti því uppskriftinni og blandaði hindberjunum við sultusykur í staðinn sem gerir það að verkum að kremið hleypur betur en er samt kremkennt. Mér fannst það koma mjög vel út og held mig við þá útfærslu. En ef einhver prófar að nota flórsykurinn þá væri gaman að heyra hvernig það kemur út! 🙂

IMG_7132

Brownie
  • 200 g dökkt súkkulaði (ég notaði blöndu af suðusúkkulaði, 56% og 70% súkkulaði)
  • 200 g smjör
  • 250 g flórsykur
  • 3 egg
  • 110 g hveiti

IMG_7100Súkkulaðið er brætt yfir vatnsbaði. Flórsykur og smjör er hrært í hrærivél þar til blandan verður létt og ljós. Þá er eggjum bætt út í, einu og einu í senn. Því næst er hveitinu bætt út í smá saman. Í lokin er brædda súkkulaðinu bætt út í og hrært þar til allt hefur blandast vel saman. Deiginu er hellt í ferkantað brownie-form, sem er annað hvort mjög vel smurt að innan eða klætt bökunarpappír (ca 33×23 cm), og slétt vel úr því með spaða eða sleikju. Þá þarf að búa til ostakökudeigið.

Ostakaka:

  • 400 g rjómaostur (ég notaði Philadelphia)
  • 150 g flórsykur
  • 1 tsk vanillusykur
  • 2 egg

Bakarofn hitaður í 170 gráður. Rjómaostur, flórsykur og vanillusykur hrært saman í hrærivél á fremur lágum hraða þar til blandan er orðin jöfn og slétt. Þá er eggjunum bætt út í, einu í senn og hrært á meðan þar til blandan er orðin jöfn og kremkennd. Það getur verið gott að nota sleikju öðru hvoru til þess að losa blönduna úr hliðum skálarinnar. Það er gott að hafa hrærivélina á lágum hraða í lokin til þess að osturinn skilji sig ekki.

IMG_7107Ostablöndunni hellt varlega ofan á browniedeigið. Dreift úr jafnt úr blöndunni með spaða eða öðru hentugu áhaldi. Það er mikilvægt að reyna að slétta jafnt úr bæði browniedeiginu og ostakökublöndunni til þess að útkoman verði sem best.

Kakan er bökuð í miðjum ofni við 170 gráður í 30-40 mínútur eða þar til ostakakan er orðin ljós í miðjunni, kantarnir orðnir ljósgylltir og hafa losnað aðeins frá brúnunum. Kælið kökuna alveg. Setjið svo plastfilmu yfir kökuna og setjið í kæli í minnst tvo tíma (gjarnan yfir nóttu). Þá er komið að hindberjakreminu.

Hindberjakrem: 
  • 300 gr. frosin hindber sem búið er að afþýða
  • 1 dl sultusykur með pektíni
  • 2 tsk vanillusykur
  • 3 dl rjómi

Hindber maukuð í matvinnsluvél eða með töfrasprota og sett í pott ásamt sultusykrinum, suðan látin koma upp. Blandan tekin af hitanum og vanillusykri bætt við, blandan látin bíða. Rjóminn þeyttur. Þegar hindberjablandan er orðin köld og farin að stífna, en rennur þó lítilsháttar enn til er henni blandað saman við þeytta rjómann. Hindberjakreminu er svo dreift yfir ostabrowniekökuna. Kakan skorin í ferkantaða bita sem eru gjarnan skreytir með ferskum hindberjum og myntublöðum.

Það kemur fram að vel sé hægt að geyma kökuna í ísskáp í allavega tvo daga en það mun ekki reyna á það hjá okkur ….

IMG_7136

Cacciatore kjúklingaréttur


IMG_7084Það er gaman að sjá hversu mikið vinsældalistarnir hér á síðunni eru notaðir. Það kemur mér ekki á óvart að kjúklingaréttirnir eru mest skoðaðir. Kjúklingur er léttur og góður matur eftir hátíðarnar en er líka almennt alltaf vinsælasta hráefnið. Ég nota kjúkling afar mikið enda hægt að gera svo ótrúlega margt gott úr honum. Í gærkvöldi gerði ég þessa einföldu og bragðgóðu Cacciatore kjúklingauppskrift sem öllum í fjölskyldunni þótti rosalega góð. Cacciatore þýðir veiðimaður á ítölsku en í matargerð er vísað til sósu sem byggð er upp á tómatsósu, lauk og kryddjurtum, stundum líka papriku og jafnvel víni.

Ég átti svo mikið eftir af fersku rósakáli eftir hátíðarnar sem ég ákvað að nýta með kjúklingnum. Ég veit að margir eru ekki hrifnir af rósakáli en mér finnst það ofsalega gott, sérstaklega ferskt rósakál. Það er hægt að elda það á svo marga vegu. Í gær eldaði ég það í rjóma og chilisósu! Hljómar kannski undarlega en öllum fannst það afskaplega gott. Ég læt uppskriftina fylgja með hér að neðan. Að auki bar ég kjúklinginn fram með perlukúskúsi.

Uppskrift:

  • 6 kjúklingabringur
  • 5-6 skarlottulaukar, fínsaxaðir
  • 5 hvítlauksrif, fínsöxuð
  • olía til steikingar
  • 2 dósir tómatar í dós (ég notaði bragðbætta með basilku)
  • 1 dós mascarpone ostur
  • 1 box basilika (30 gr), söxuð gróft
  • salt og pipar
  • kjúklingakrydd

Skarlottulaukur og hvítlaukur steiktur upp úr olíu á pönnu þar til laukurinn verður mjúkur og glansandi. Þá er tómötunum bætt út í og sósan látin malla í 10-15 mínútur. Á síðustu mínútunum er mascarpone ostinum bætt út í og hann látinn bráðna í sósunni auk 2/3 af basilikunni. Á meðan eru kjúklingabringurnar kryddaðar með kjúklingakryddi (ég notaði líka basilikukrydd), salti og pipar og þær snöggsteikar örstutt á háum hita á báðum hliðum til þess að loka þeim. Bringurnar eru svo lagðar í eldfast mót, tómatsósunni hellt yfir og bakað í ofni við 210 gráður í 20-25 mínútur (fer eftir stærð kjúklingabringanna). Restinni af basilikunni stráð yfir áður en rétturinn er borinn fram. Borið fram með hrísgrjónum, kúskús eða ofnbökuðum kartöflum og salati.

IMG_7091

Rósakál í rjóma og chilisósu:

  • 1 poki ferskt rósakál
  • 2 skarlottulaukar, saxaðir smátt
  • 2 dl rjómi
  • smá svetta chilisósa
  • salt og pipar

Rósakálið skolað og hreinsað, skorið í tvennt. Rósakál og skarlottulaukur steikt á pönnu við meðalhita. Rjóma bætt út í og látið malla á vægum hita í ca 10 mínútur. Saltað og piprað eftir smekk og smá chilisósu bætt út í.

IMG_7090

Fiskisúpa með kókos og karrí


IMG_6710Á milli jóla og nýárs voru tveir virkir dagar og ég var með matarboð báða dagana! Ég er búin að hlakka svo til að losna við ritgerðina af bakinu, geta átt eitthvað félagslíf aftur og boðið fólki í mat! Annað kvöldið komu bræður mínir tveir og mágkonur í mat og við spiluðum fram eftir nóttu. Ég ákvað að hafa fiskisúpu eftir þungar máltíðir jólanna. Þó ég sé ekki súpumanneskja þá var ég svo hrifin af fiskisúpunni að vestan að ég ákvað að reyna að útfæra einhverja svipaða uppskrift. Ég keypti inn hráefni sem ég taldi að pössuðu vel saman og mallaði svo súpuna. Mér fannst súpan verða rosalega góð og það hljómaði á gestunum að þeir væru sammála mér. 🙂 Ég hripaði niður það sem ég gerði, ég vona að ég geti komið því sæmilega skýru frá mér þannig að hægt sé að endurtaka leikinn. Ég notaði skötusel og lúðu en það er hægt að nota hvaða fisk sem er, helst þó fisk sem er þéttur í sér.

Talandi um fiskisúpuna að vestan þá átti ég leið framhjá veitingastað um daginn sem selur súpu og brauð í hádeginu. Í glugganum á veitingastaðnum blasti við mér þetta stóra plakat með svona líka girnilegri súpu og brauði!

súpa og brauðVeitingastaðurinn hefur greinilega ákveðið að fá myndina mína ,,lánaða“ og prenta hana á auglýsingaspjald á þess að spyrja kóng, prest né mig! Ég átta mig á að þegar myndir eru settar á netið getur hver sem er notað þær og ég hef ekkert á móti því að fólk nýti sér myndir frá síðunni minni til persónulegra nota í tengslum við uppskriftirnar. Hins vegar dreg ég mörkin við að myndirnar séu notaðar í auglýsingagerð án þess að ég sé spurð leyfis. Mér finnst slík notkun vera lélegir viðskiptahættir. Ef fyrirtæki nota ekki eigin myndir við auglýsingagerð þá er venjan að þau nýti sér myndabanka og greiði fyrir notkun mynda þaðan. Ég reikna allavega fastlega með að ég fái vel matreidda fiskusúpa að vestan á þessum veitingastað endurgjaldslaust hvenær sem er! 🙂

Uppskrift f. 8

  • 600 g skötuselur, skorin í munnbita
  • 600 g lúða, skorin í munnbita
  • 500 g rækjur
  • 1 líter fiskisoð (fiskikraftur og sjóðandi vatn)
  • 2 dl hvítvín (eða Mysa)
  • 3-5 dl rjómi
  • 3 stórir skarlottulaukar, skornir fremur fínt
  • 3 hvítlauksgeirar, saxaðir fremur fínt
  • smjör til steikingar
  • 1 púrrlaukur, saxaður meðalgróft
  • 1 paprika, skorin í bita
  • 3-4 gulrætur, skorin í bita
  • 1 fennika, skorin í bita
  • 3 tsk madraskarrí (eða venjulegt karrí)
  • 2 msk tómatmauk
  • fersk basilika, söxuð meðalgróft
  • ferskur graslaukur, saxaður fínt
  • ferskt kóríander, saxað gróft
  • 2 dósir kókósmjólk
  • Salt og pipar
Fiskisoði, hvítvíni og rjóma hellt í stóran pott, skarlottulauk og hvítlauk bætt út í. Suðan látin koma upp og leyft að malla í ca. 10-15 mínútur. Á meðan er smjör sett á pönnu og grænmetið steikt á pönnunni ásamt karríinu og tómatmaukinu. Grænmetinu er svo bætt út í súpupottinn ásamt kókosmjólkinni, graslauk og basiliku. Bragðbætt með salti, pipar og meira karrí ef vill, einnig er hægt að bæta út í meiri fiskikrafti ef með þarf. Leyft að malla í dálitla stund. Þá er fisknum bætt út í og hann látin malla í súpunni í örfáar mínútur eða þar til hann er soðin í gegn. Rétt áður en súpan er borin fram er rækjunum bætt út í. Þegar súpan er borin fram er fersku kóríander stráð yfir súpuna.
IMG_6707

Vinsældalistinn


vinsældalistinnEins og ég lofaði er komin nýjung á síðuna. Við hliðina á uppskriftaflipanum hér að ofan er kominn flipi sem heitir ,,vinsælustu uppskriftirnar„. Hann hefur að geyma rúllulista með helstu uppskriftaflokkunum. Innan hvers flokks er vinsælustu uppskriftunum raðað í röð, efst kemur sú vinsælasta meðal lesenda og svo koll af kolli. Ég hef lengi ætlað að setja svona lista inn. Þegar ég skoða matarblogg þá er þetta það fyrsta sem ég leita að. Mér finnst gott að geta skoðað strax vinsælustu uppskriftirnar til að athuga hvort þar sé eitthvað sem mér líst á. Ég vona að ykkur líki þessi listi! 🙂 Hann verður svo uppfærður reglulega, væntanlega munu einhverjar uppskriftir detta út af listanum og aðrar koma inn í staðinn. Þetta er fyrsta breytingin á síðunni á nýju ári en ég fyrirhuga fleiri breytingar, þær koma væntanlega inn mjög fljótlega!

Næsta uppskrift sem ég ætla að setja inn á síðuna er af ljúffengri fiskisúpu með kókos og karrí. Einmitt það sem maður þarf í kroppinn eftir allar stórsteikurnar undanfarið! Uppskriftin kemur inn seinna í dag! 🙂

Freyðandi myntu- og sítrónudrykkur og ársuppgjör matarbloggara! :)


IMG_0748

Það er við hæfi að líta tilbaka á síðasta degi ársins og gera upp árið 2012 (þið sem kíktuð bara inn til að fá uppskrift af drykknum ættuð bara að skrolla neðst niður hið bráðasta, þetta verður langloka hjá mér! 😉 )! Þegar ég settist niður við tölvuna laugardaginn 9. júní síðastliðið sumar til að kíkja á tölvupóstinn minn í flýti (var á leið í afmælisveislu til pabba) þá grunaði mig ekki að ég myndi standa upp skömmu seinna sem matarbloggari! Ég opnaði þetta blogg eiginlega án alls undirbúnings. Ég var aðeins búin að gæla við hugmyndina en fannst ég langt frá því að framkvæma hana. Nafnið, Eldhússögur, laust niður í huga mér þegar ég var að skrá mig hér á WordPress sem hýsir bloggið og þar sem boðið var upp á undirtitil lá í augum uppi að Eldhússögurnar væru ,,úr Kleifarselinu“.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Fyrstu fimm mánuðina setti ég inn uppskrift á hverjum einasta degi. Mér fannst það bara verða vera þannig, ef maður ætlar að blogga á annað borð þá þarf það að vera almennilegt! 🙂 Sjálfri finnst mér bara gaman að lesa blogg sem eru uppfærð oft. Ég hélt það ekki alveg út allt árið en næstum því! Undir lok ársins varð eitthvað að gefa sig, ég var að skila af mér meistararitgerð, vinna hlutavinnu og að auki með sex manna heimili. Færslurnar urðu 174 á 206 dögum sem er nú alveg ágætis frammistaða samt! Ég var spurð að því um daginn hvort ég væri eitthvað að græða á blogginu. Satt að segja var það fyrsta sem kom upp í huga mér: aukakíló og svefnleysi! 🙂 En vissulega hef ég grætt ákaflega margt á þessu bloggi. Fyrst og fremst hef ég grætt það að hafa sjálf tekið miklum framförum við eldamennskuna. Einnig er ég komin með gott safn af uppskriftunum mínum sem er mér alltaf aðgengilegt, það var eitt af markmiðunum með þessu bloggi. Auk þess hefur bloggið hefur leitt mig í kynni við frábært fólk, ykkur lesendur,  og skemmtileg verkefni.

Áskoranirnar hafa verið afar margar. Minnsta málið er að elda og baka, það er ekkert mál! Það sem hefur verið áskorun fyrst og fremst er að finna, þróa og skrá góðar uppskriftir, það er afar tímafrekt. Í öðru lagi er það myndartakan. Satt best að segja er ég engin sérstök áhugamanneskja um ljósmyndun. Ég hef samt alltaf tekið mikið af myndum en aðallega í skráningarlegum tilgangi ekki fagurfræðilegum. Ég byrjaði á því að taka matarmyndirnar á ,,auto“ stillingunni á myndavélinni sem er nokkuð auðvelt ef maður er með þokkalega myndavél og góða dagsbirtu. En svo neyddist ég til að fara í ,,manual“ stillingar núna í vetur þegar dagsbirtan hætti að vinna með mér. Það hefur tekið dálítið á og verið þolinmæðisverk að finna út úr því. Að auki þarf að vinna myndirnar eftir á sem er einnig tímafrekt. Það er líka áskorun að halda úti góðri vefsíðu. Það finnst mér reyndar mjög skemmtilegt og það kemur aðeins inn á námið sem ég er að ljúka núna, bókasafns- og upplýsingafræði. Ég fór meðal annars í kúrs um heimasíðugerð sem ég hef getað nýtt mér hér. Ég hef samt ekki haft tíma til að að breyta og bæta síðuna eins og ég hefði viljað. Í sannleika sagt hef ég oftast nær sett inn færslur hingað á nóttunni! 🙂 Svo stilli ég á að þær birtist á kristilegum tíma þannig að allir þeir sem fá tölvupóst um nýja færslu verði ekki vaktir um miðja nótt með pípi frá símanum sínum! Stundum hef ég, svefndrukkin um miðjar nætur við tölvuna, velt því fyrir mér af hverju ég sé að þessu og hvort ég ætti ekki bara að hætta þessu rugli! 😉 En núna þegar ég stend við þröskuld nýs árs, búin með ritgerðina mína, aðsóknarmet slegið á síðuna mína í fyrradag og ég fæ fullt af fallegum og hlýjum kveðjum frá ykkur lesendum er ég uppfull af eldmóði! Ég er með ótal hugmyndir og áform fyrir síðuna mína sem ég hlakka til að koma í verk á nýju ári. Ein nýjungin mun birtast á síðunni strax á morgun, nýársdag, ég er afar spennt yfir því!

En fyrir þá sem vildu fá uppskrift af góðum áramótadrykk þá var ég með þennan um daginn í Kalkúnaboðinu góða. Mér finnst freyðivín svona lala gott og kampavín bara alls ekki gott! En hérna er sæt sítrónu/myntu blanda sett út í freyðivínið sem gerir freyðivínið algjört sælgæti. Þetta er ofsalega ferskur og góður drykkur, mæli með því að skála með honum í kvöld fyrir nýju ári! GLEÐILEGT NÝTT ÁR! 🙂

Uppskrift (6 glös):

04037Sævar vínþjónn mælir með Jacob’s Creek Chardonnay Pinot Noir Brut freyðivíninu fyrir þennan drykk. Það er sítrónugult með mjúkri fyllingu, sætt, fersk sýra. Sítrus, apríkósa, hunang.

 

Sítrónusafanum hellt í pott og suðan látin koma upp, sykrinum bætt út í. Hrært í blöndunni þar til hún bráðnar. Látið kólna (athugið að gera þetta með nokkuð góðum fyrirvara því það tekur drjúga stund fyrir blönduna að kólna alveg). Blöndunni skipt í sex glös, nokkur myntublöð sett ofan í hvert glas og þau síðan fyllt með köldu freyðivíni! SKÁL!
IMG_0747

Innbakaður brie með sultu í smjördeigi


BrieÍ gær áttum við skemmtilegan dag með bæði leikhúsferð og bíóferð. Um daginn fórum við fjölskyldan saman í Þjóðleikhúsið og skemmtum okkur dátt yfir Dýrunum í Hálsaskógi. Um kvöldið fórum svo við hjónin ásamt Vilhjálmi í bíó á Life of Pi. Ég var búin að lesa bókina sem er frábær og ég varð ekki fyrir vonbrigðum með myndina. Mér fannst mikið afrek að geta gert svona frábæra bíómynd eftir þessari sögu sem er sannarlega ekki auðveld að kvikmynda. Í dag erum við að fara í jólaboð en fyrst ætla ég að setja inn eina uppskrift hingað á bloggið.

Brie

Ég hef áður talað um dálæti mitt á ostum og ég er stöðugt á höttunum eftir góðum uppskriftum með ostum í. Um daginn þegar við fórum á jólaball gerði ég einfaldan og góðan ostarétt til að setja á hlaðborðið. Þetta er innbakaður brie með sultu í smjördeigi. Einfalt og gott! Rétturinn er langbestur heitur en það er líka hægt að bera hann fram kaldan. Tvennt þarf að hafa í huga. Annars vegar að það er allt í lagi þó að það „blæði“ aðeins osti og sultu út um degið við baksturinn og hitt er að passa að setja nóg af osti og sultu. Þó svo að ostbitinn virðist stór í byrjun þá bráðnar hann við bökunina. Í þetta sinn notaði ég hindberjasultu og blandaða sultu en næst ætla ég að prófa að nota chilisultu sem mér finnst svo góð með ostum. Þessi smáréttur sómar sér vel með freyðivíninu á gamlárskvöld! Nú eða hafa til að maula í láréttri stöðu í sófanum á nýársdag yfir endursýndum annálum! 🙂

Uppskrift:

  • 1-1½ brieostur eða annar góður ostur
  • sulta, t.d. hindberjasulta, chilisulta eða önnur góð sulta sem passar við osta
  • 1 pakki tilbúið frosið smjördeig
  • 1 egg
  • 1 msk mjólk
  • hnífsoddur salt

IMG_6326IMG_6328Ofn hitaður í 190 gráður undir og yfirhita. Egg, mjólk og salt þeytt létt saman. Dreift úr smjördeigsplötunum og þær látnar þiðna (tekur ca. 15 mínútur). Þá eru plöturnar smurðar vel með eggjahrærunni (hún er „límið“ sem lokar bitunum) og síðan er hver plata skorin í 6-8 jafna ferninga. Osturinn skorin í stóra bita (næst ætla ég að hafa þá stærri en á myndinni hér að ofan því deigið er það mikið) og ostabiti lagður ofan á annan hvern ferning. Því næst er sett passlega mikil sulta ofan á ostbitana. Þá er hinn helmingurinn af smjördeginu lagður ofan á og samskeytin lokuð vel með gaffli allan hringinn. Bitunum er raðað á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Hver biti er svo smurður með eggjahrærunni og þeir síðan bakaðir í miðjum ofni við 190 gráður í 12-14 mínútur eða þar til bitarnir eru orðnir gullinbrúnir (það er allt í lagi þótt það leki svolítið úr þeim).

IMG_6330

Bismarkbaka með súkkulaðisósu


IMG_6924Mikið var gaman að sjá viðbrögðin við færslunni hér að neðan með uppáhaldseftirréttunum mínum en þetta innlegg var heimsótt 7 þúsund sinnum á bara einum degi. Flestir leggja mikið upp úr matnum á gamlárskvöld og greinilegt að margir eru að leita að góðum uppskriftum fyrir kvöldið.

Við stórfjölskyldan verðum enn og aftur saman á gamlárskvöld, við fáum greinilega ekki nóg af hvert öðru yfir hátíðarnar! Að þessu sinni verðum við enn fleiri en á aðfangadagskvöld og verðum heima hjá foreldrum mínum. Í forrétt verður grafin nautalund með piparrótarsósu (hér er uppskrift af sósunni), í aðalrétt verður kalkúnn með dásamlega góðu meðlæti en ég mun svo sjá um eftirréttinn. Ég ætla ekki að hafa neinn af eftirréttunum 15, þó þeir séu allir afskaplega góðir. Ég ætla að hafa eftirrétt sem ég hef ekki enn sett inn uppskrift af hér á bloggið. Þetta er Bismarkbaka með súkkulaðisósu sem ég gerði í fyrsta sinn fyrir jólin í fyrra, sá eftirréttur komst strax í uppáhald hjá fjölskyldunni enda afskaplega jólalegur og góður. Ég sendi uppskriftina meira að segja í uppskriftasamkeppni Nóa og Siríus í fyrra, fullviss um þessi dásemd myndi myndi rústa keppninni ….  sem hún gerði svo reyndar ekki! 🙂 Ég efast því eiginlega um að Nói og félagar hafi prófað uppskriftina því hún er svo hrikalega góð! 😉 Þessi eftirréttur er afskaplega einfaldur og þægilegur að gera, það er hægt að útbúa hann með góðum fyrirvara og setja í frysti. Súkkulaðisósuna er líka hægt að gera áður og hita hana svo bara aftur upp rétt áður en hún er borin fram.

fluff1Eina sem gæti verið snúið við þessa uppskrift er að nálgast marshmallow-fluff-234x300Marshmallow fluff sem er sykurpúðakrem. Það er oftast til í Hagkaup en þó ekki alltaf. Það hefur alltaf verið til á Amerískum dögum en stundum líka þess á milli. Ég keypti það í Hagkaup núna rétt fyrir jól og reikna því með að það sé til enn. En svo ætti nú líka að vera hægt að nálgast það í Kosti. Tegundin sem ég keypti í Hagkaup núna lítur út eins og þessi til vinstri, „Jet-Puffed marshmallow creme“ en dósirnar geta líka litið út eins og þessi til hægri, „Marshmallow Fluff“

IMG_6891

Botn

  • 20 kexkökur með súkkulaði (ég nota súkkulaði Maryland kex, fyrir Oreoaðdáendur er t.d. hægt að nota Oreokex)
  • 2 msk. kakó
  • 25 g brætt smjör

Kexið er maukað fínt i matvinnsluvél ásamt kakói og smjöri, blandað vel saman. Fóðrið botninn á 24-26 cm smellumóti með smjörpappír. Þrýsitð kexmylsnunni vel í niður á botninn í forminu og setjið í frysti á meðan kremið er útbúið.

Krem

  • 5 dl rjómi
  • 1 dós Marshmellow krem (Marshmallow fluff eða Marshmallow creme)
  • nokkrir dropar piparmintu Extract
  • nokkrir dropar rauður matarlitur
  • 1 dl  Bismark brjóstsykur frá Nóa og Siríus (+ til skreytingar)

Þeytið rjómann og blandið Marshmellowkreminu varlega saman við með sleikju. Passið samt að leyfa kreminu að halda „fluffinu“, þ.e. Marshmellowkremið á að vera í „klumpum“ í rjómanum. Bætið við Piparmintu extract eftir smekk (gætið þess samt að nota ekki of mikið af því, bara örfáa dropa). Setjið 1/3 af kreminu í aðra skál og leggið til hliðar.

Brjótið Bismark brjóstykurinn í morteli eða í matvinnsluvél. Blandið saman við stærri hluta kremsins og setjið ofan á botninn.

Takið afganginn af kreminu og setjið nokkra dropa af rauðum matarlit saman við það. Setjið nú rauða kremið ofan á það hvíta.

Setjið í frysti í minnst fimm tíma og takið út ca. einum tíma áður en hún er borin fram. Skreytið með Bismark brjóstsykri.

Súkkulaðisósa

  • 125 g suðusúkkulaði
  • 75 g smjör
  • ½ dl. sykur
  • ½ dl síróp
  • ½ dl. vatn

Hitið súkkulaði, smjör, sykur, vatn og síróp saman í potti við hægan hita. Hrærið í öðru hverju þar til blandan er orðin slétt og samfelld. Berið fram heita með Bismarkbökunni.

IMG_6894

Eftirréttir fyrir gamlárskvöld


Núna eru áramótin að bresta á og ég sé á heimsóknunum á síðuna mína að margir eru að leita að góðum eftirréttum fyrir gamlárskvöld. Á mínum 15-topplista eru eftirfarandi eftirrréttir. Ég gat ekki gert upp á milli þeirra þannig að þeir eru ekki í neinni sérstakri röð:

Browniekaka með hindberjarjóma

IMG_0594

Mascarponeþeytingur með berjum og Toffypops

IMG_9068

Súkkulaðikaka með Pipp karamellukremi

IMG_8701

Súkkulaðitvenna með hindberjum

IMG_8453

Pavlova í fínu formi

IMG_8322

Hindberjabaka með Dulce de leche karamellusósu

cropped-img_71572.jpg

Ostakaka með mangó og ástaraldin

IMG_7757

Ís með heimatilbúnu frönsku núggati og súkkulaðisoðnum perum

IMG_6042

Pannacotta með hvítu súkkulaði og ástaraldin

IMG_5967

Frönsk súkkulaðikaka

IMG_5368

Súkkulaðifrauð

IMG_3961

Pavlova

IMG_3270

Banana-karamellubaka

IMG_3193

Dásamleg kirsuberjaterta

IMG_7176

Bakaðar perur með mjúkum marengs og súkkulaði

IMG_4782