Fiskisúpa með karrí og eplum


IMG_3375

Mér finnst fiskisúpur með bestu súpum sem ég fæ. Alla helgina var ég búin að vera með löngun í góða fiskisúpu og ég hlakkaði mikið til að komast í fiskbúð í dag, kaupa ferskan fisk og búa til gómsæta súpu. Ég sótti innblástur frá nokkrum öðrum súpum á blogginu mínu og mér fannst útkoman satt best að segja himneskt góð … svona fer nú lítið fyrir hógværðinni hjá mér! 😉 En mér til varnar voru fjölskyldumeðlimirnir alveg sammála mér og við Elfar borðuðum gjörsamlega yfir okkur af þessari dásamlegu súpu.

IMG_3379

Uppskrift:

 • olía til steikingar
 • 3 hvítlauksrif, söxuð
 • 1 ferskur rauður chili, fræhreinsaður og saxaður
 • 1 msk ferskt engifer, rifið
 • 30 g ferskt kóríander, stilkar og blöð saxað í sitt hvoru lagi
 • 4 tsk karrímauk, rautt eða grænt (curry paste)
 • 1 líter fiskisoð (gert úr 3 fiskiteningum)
 • 1 dós kókosmjólk (ca. 400 ml)
 • 2.5 dl rjómi eða matreiðslurjómi
 • 3 msk tómatmauk (tomato paste)
 • ca. 500 g kartöflur, flysjaðar og skornar í bita
 • 1 stórt grænt epli, flysjað og skorið í bita
 • 800 g þorskhnakkar (eða annar góður þéttur, hvítur fiskur), skorinn í bita
 • 1 ½  límóna, safinn (lime)
 • 2 tsk sykur
 • 2 tsk fiskisósa (fish sauce)
 • pipar

Olía hituð í stórum potti og hvítlauki, chili, engifer og kóríander stilkum ásamt karrímauki  bætt út í pottinn og steikt í um það bil 2 mínútur. Því næst er fiskisoði, kókosmjólk, rjóma, tómatmauki, eplum og kartöflum bætt út og soðið í 10-15 mínútur eða þar til kartöflurnar eru hér um bil soðnar í gegn. Þá er fisknum bætt út í súpuna og hún látin malla í stutta stund þar til hann er soðinn í gegn. Að lokum er  söxuðum kóríanderlaufum bætt út í ásamt límónusafa og súpan smökkuð til með sykri, fiskisósu og pipar. Súpan er gjarnan borin fram með góðu brauði.

IMG_3380

Tómatsúpa með tortellini og mozzarella


IMG_0164

Ég hef áður fjallað hér á síðunni um fyrirtækið Eldum rétt sem er með frábærlega sniðuga þjónustu. Fyrirtækið býður upp á matarpakka þar sem maður fær sent heim hráefni og uppskriftir fyrir kvöldmáltíðir vikunnar. Í næstu viku verða Eldum Rétt með þrjá nýja rétti sem byggðir eru á vinsælum uppskriftum af Eldhússögum.

lax

Lax með pekanhnetusalsa, blómkálsmús og chili-smjörsósu

bollur

Epla og beikon kjötbollur  með ofnbökuðum kartöflum og fetaostasósu

kjúlli

Ítalskur parmesan kjúklingur með hrísgrjónum og salati

Þetta er frábær leið til að gera matargerðina einfalda. Þið leggið einfaldlega inn pöntun og fáið sent heim brakandi ferskt hráefni sem passar nákvæmlega fyrir uppskriftirnar þrjár. Matargerðin verður leikur einn, engar innkaupaferðir og spurningin „hvað á ég að hafa í matinn?“ heyrir sögunni til. Ég hvet ykkur til að prófa – pöntunarfrestur rennur út á miðnætti í kvöld! 🙂

Í dag ætla ég að setja inn uppskrift að súpu sem er afar vinsæl hjá öllum fjölskyldumeðlimum. Eftir að við fjölskyldan fórum í frábæra ferð til Toskana á Ítalíu í sumar er ég ekki frá því að mozzarella, tómatar og basilika séu orðin ein aðaluppistaðan í matargerðinni á heimilinu. Í þessari súpu sameinast allt sem okkur fjölskyldunni finnst gott og það er alltaf einstaklega gaman að geta boðið upp á kvöldmat sem hugnast öllum jafnvel, bæði börnum og fullorðnum.  Ekki er verra hversu fljótgerð þessi súpa er, það er stór kostur í amstri hversdagsleikans. Mozzarella osturinn og basilolían setja punktinn yfir i-ið og hver súpuskeið færir okkur tilbaka til sólríkra sumardaga á Ítalíu þrátt fyrir að haustið bíði handan við hornið.

IMG_0167

Uppskrift: 

 • 1 meðalstór laukur, saxaður smátt
 • 2-3 hvítlauksrif, söxuð smátt
 • 180 g grilluð paprika í olíu, söxuð smátt
 • 2 msk ólífuolía til steikingar
 • 1 msk balsamedik
 • 2 dósir niðursoðnir tómatar, bragðbættir með basiliku, hvítlauk og oregano (ca 400 g dósin)
 • 1 l kjúklingasoð (1 l sjóðandi vatn + 2 msk kjúklingakraftur eða 2 teningar)
 • 2 dl rjómi eða matreiðslurjómi
 • 1 tsk oregano
 • 1 tsk basilika
 • chili krydd eða flögur
 • salt og pipar
 • 250 g tortellini
 • 120 g ferskur mozzarella, skorin í litla bita

Basilolía:

 • 30 g fersk basilika
 • 1/2 dl ólífuolía
 • salt og pipar

Ólífuolía hituð í stórum potti. Laukur, hvítlaukur og grilluð paprika steikt við meðalhita í 3-4 mínútur þar til mjúkt. Þá er balsamediki, niðursoðnum tómötum, kjúklingasoði og rjóma bætt út í ásamt kryddi. Þegar súpan nær suðu er tortellini bætt út í og látið malla þar til tortellini er passlega soðið. Undir lokin er nokkrum smátt söxuðum basiliku laufum bætt út í og súpan smökkuð til með kryddum við þörfum. Súpan er borin fram með ferskum mozzarella og basilolíu.

Basilolía: Afganginum af fersku basilikunni er maukað saman við ólífuolíuna í matvinnsluvél eða með töfrasprota, smakkað til með salti og pipar. IMG_0166 IMG_0163

Ítölsk kjúklingasúpa með tortellini


IMG_8722

Þetta er uppskrift sem ég vil klárlega eiga hér í uppskriftasafninu mínu. Þessi súpa finnst mér dásamlega einföld og góð. Ég elska uppskriftir sem eru svona fljótlegar, öllu hent í einn pott og útkoman ljúffeng – allt á örstuttum tíma. Ég nota oftast ferskt tortellini, það munar ekki svo miklu í verði en mér finnst það svo mikið betra. Að þessu sinni keypti ég ferskt tortellini í Bónus fyllt með ricotta og basiliku og mér fannst það gefa súpunni afar gott bragð.

 • 700 g kjúklingalundir, skornar í bita
 • 1 gulur laukur, saxaður smátt
 • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
 • 1 stór paprika skornar í bita
 • 1 brokkolíhaus (ca. 250 g), skorinn í bita
 • 1 msk ólífuolía
 • 1,5 l vatn
 • 3 teningar kjúklingakraftur
 • 2 msk tómatpúrra
 • salt & pipar
 • ítalskt pasta krydd (Santa Maria) og ítölskhvítlauksblanda (Pottagaldrar) eða önnur góð krydd
 • 250 g tortellini (t.d. ferskt tortellini með ricotta og basiliku)
 • 4 -6 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
 • 30 g fersk basilika, söxuð
 • rifinn parmesan ostur (hægt að sleppa)

IMG_8724

Laukur, hvítlaukur, paprika og brokkolí léttsteikt upp úr ólífuolíu í stórum potti. Því næst er vatni, kjúklingakrafti, tómatpúrru bætt út í pottinn ásamt kryddunum. Suðan látin koma upp og kjúklingnum bætt út í. Kjúklingurinn er látinn sjóða í ca. 7 mínútur. Þá er tortellini, sólþurrkuðum tómötum og 2/3 af basilikunni bætt út og soðið eins lengi og segir til um á tortellini pakkningunni. Smakkað til með kryddunum við þörfum. Borið fram með restinni af basilikunni og rifnum parmesan osti ásamt góðu brauði.

IMG_8720

Sweet chili núðluréttur með kjúklingi eða kjúklingasúpa


Sweet chili núðluréttur með kjúklingi eða sweet chili kjúklingasúpa IMG_6733Þessi réttur er býsna skemmtilegur því fyrir utan það að vera framúrskarandi gómsætur þá er hægt að útfæra hann á tvo vegu. Ég byrjaði á því að prófa mig áfram með kjúklingasúpu. Þegar ég fór að smakka hana til þá sá ég í hendi mér að núðlur færu feikilega vel með þessum súpugrunni. Ég get satt að segja ekki komist að niðurstöðu um hvor útfærslan er betri – ég elda þær alltaf til skiptis því báðar eru lostgæti. Það kemur á óvart hversu mikið núðlurnar breyta súpunni. Ég læt ykkur um að velja hvort þið viljið ljúffenga kjúklingasúpu eða kræsilegan núðlurétt.

IMG_6712

IMG_6726Sweet chili núðluréttur með kjúklingi eða sweet chili kjúklingasúpa f. 4

 • 700 g kjúklingalundir frá Rose Poultry, afþýddar og skornar í bita
 • 2 msk ólífuolía
 • 1/2 rauðlaukur, saxaður smátt
 • 150 g sveppir, skornir í sneiðar
 • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
 • 1/4 – 1/2 rautt chili pipar, fræhreinsaður og saxaður smátt
 • 1 lítil eða ½ stór rauð paprika, skorin í bita
 • 1 lítil gul eða ½ stór paprika, skorin í bita
 • 100 g Philadelphia ostur með sweet chili
 • 600 ml kjúklingakraftur (600 ml sjóðandi vatn + 3 tsk kjúklingakraftur frá Oscar)
 • 2 dl rjómi
 • 1/2 dl sweet chili dip sauce
 • 2/ 3 dl fersk steinselja, söxuð smátt
 • 1/2 -1 tsk paprika (krydd)
 • ¼ -1/2 tsk chili krydd (t.d. chili explosion eða chili duft)
 • 150 g medium egg núðlur frá Blue Dragon (ef útbúa á núðluréttinn)
 • ca 200 g brokkolí, skorið í bita
 • saltflögur og grófmalaður svartur pipar

Ólífuolía hituð í stórum potti og laukur steiktur þar til hann er orðinn mjúkur. Þá er sveppum, hvítlauki, chili pipar og papriku bætt út í og steikt í smá stund. Því næst er Philadelphia ostinum, kjúklingakraftinum, rjómanum, sweet chili sósunni, steinseljunni og kryddunum bætt út í og látið malla í 2-3 mínútur. Svo er kjúklingum bætt út í, suðan látin

koma upp og látið malla í um það bil 6-8 mínútur eða þar til kjúklingur er hér um bil eldaður í gegn. Að lokum er brokkolí bætt út og látið malla í 4-5 mínútur til viðbótar. Ef útbúa á núðluréttinn er núðlunum bætt út með brokkolíinu og látið malla þar til núðlurnar eru passlega soðnar. Smakkað til með salti, pipar og papriku og chili kryddi eftir smekk.

IMG_6707

IMG_6731

Gúllassúpa


GúllassúpaVikan hefur liðið hratt að vanda. Öllum kvöldunum í síðustu viku eyddi ég fyrir framan tölvuna við að skipuleggja sumarfrí okkar fjölskyldunnar. Við erum að fara í langa og ótrúlega spennandi Bandaríkjaferð næsta sumar. Við munum heimsækja tvær stórborgir í nokkra daga og eyða nokkrum vikum í minni borg þar sem við gerum húsaskipti. Jóhanna Inga dóttir mín á sér þrjá drauma. Það er að borða á veitingastað á Ítalíu, sjá Effelturninn í París og fara upp í frelsisstyttuna í New York. Sá hinn síðastnefndi mun rætast næsta sumar og öll fjölskyldan er yfir sig spennt yfir væntanlegu ævintýri sumarsins.
Um helgina fór ég í skemmtilegt konuboð. Í vinnunni vorum við nokkrar starfssystur að ræða rauðvín og súkkulaði í kaffitímanum – hvað annað! Í kjölfarið var ákveðið að hafa boð með gæðasúkkulaði- og rauðvínshlaðborði. Dásamlega gott og skemmtilegt!IMG_3758

Súkkulaðið var allstaðar að.

IMG_3781

Nóg af rauðvíni!

IMG_3783

Íslenskt gæðasúkkulaði frá Hafliða í Mosfellsbakaríi ásamt allskonar erlendu gæðasúkkulaði.

IMG_3787

Konurnar ánægðar með hlaðborðið

IMG_3795

IMG_3802

Gúrmei!

IMG_3805

IMG_3813

IMG_3836

Ég og gestgjafinn góði.

Uppskrift dagsins er hins vegar bragðmikil og góð gúllassúpa. Það er hægt að skipta út gúllasinu fyrir nautahakk og þá þarf súpan bara að malla í stutta stund áður en hún er tilbúin.

Uppskrift:

 • 600 g gúllas
 • 1 rauð paprika, skorin í bita
 • 1 gulur laukur
 • ca. 6 meðalstórar kartöflur
 • ca. 3 meðalstórar gulrætur
 • 1 msk paprika (krydd)
 • 1 1/2 tsk cummin (ath. ekki kúmen)
 • salt & pipar
 • chili krydd eftir smekk (ég notaði chili explosion)
 • 2 msk ólívuolía
 • 1 líter kjötkraftur (nautakraftur og vatn)
 • 3 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
 • 2 msk smjör
 • 1-2 msk tómatpúrra
 • sýrður rjómi

Kjötið er skorið í minni teninga ef með þarf. Kartöflur, laukur og gulrætur flysjaðar og skornar í meðalstóra teninga. Kjöt, laukur og paprika er steikt upp úr olíu í stórum potti og öllum kryddunum bætt út í.  Þegar kjötið hefur fengið lit er nautakraftinum og tómatpúrrunni bætt út í pottinn og suðan látin koma upp. Þá er smjörinu og hvítlauknum bætt út í. Látið malla í ca. 50 – 60 mínútur – súpan verður enn betri ef hún fær að malla lengur! Þegar um það bil 20 mínútur er eftir af suðutímanum eru kartöflunum og gulrótunum bætt út súpuna. Borin fram með sýrðum rjóma og góðu brauði.

IMG_2995

Jólagrauturinn hennar ömmu


Jólagrautur

Aðfangadagur er runninn upp og það ríkir mikil tilhlökkun hér á heimilinu. Allir krakkarnir (líka þessi stærstu) fengu náttföt í skóinn en Kertasníkir hefur aldrei brugðið útaf venjunni varðandi þá hefð. Auk þess er þar alltaf að finna gúmmelaði sem gott er að maula yfir barnaefninu og ásamt ískaldri kók í gleri sem ratar ávallt í skóinn á aðfangadag . Hann er sniðugur þessi Kertasníkir! 🙂

Ég er farin að huga að jólamatnum en í kvöld koma foreldrar mínir til okkar auk ömmu, afa og Ingu frænku. Það verður ekki brugðið útaf venjunni í kvöld frekar en önnur aðfangadagskvöld. Amma mun koma með jólagrautinn sem hún verður búin að standa yfir og elda með natni í nokkrar klukkustundir. Hún hefur eldað jólagrautinn á sama hátt í 60 ár og það er ekkert sem slær honum við, hann er dásamlega þykkur, mjúkur og gómsætur. Það er einn af hápunktum jólanna að borða jólagrautinn hennar ömmu með ljúffengri heimatilbúinni krækiberjasaft og kanelsykri. Hefðirnar eru það miklar í kringum jólagrautinn að amma kemur meira að segja með sérstakt kar og skeið undir kanelsykurinn sem er frá langömmu minni.

IMG_6486Mikil spenna ríkir varðandi möndluna og það er regla að sá sem fær möndluna feli hana þar til allir eru búnir að borða grautinn sinn. Þegar krakkarnir hafa fengið möndluna hafa þau verið ótrúlega klár að halda pókerandliti og fela möndluna undir tungunni alla máltíðina, jafnvel þó þau hafi verið mjög ung að árum. 🙂 Hér vann hins vegar amma möndluna! 🙂

amma

Jólasteikin okkar er hamborgarhryggur með dásamlega góðri sósu og hefðbundu meðlæti og í eftirrétt er heimatilbúinn Toblerone ís og vanilluís ásamt konfekti að sjálfsögðu. Ég ætla að skrá hjá mér hér í uppskriftasafnið á Eldhússögum uppskriftina að jólagrautnum hennar ömmu þó svo að ég viti að það sé varla hægt að elda grautinn eins og hún gerir hann.

IMG_6469Við mamma í eldhúsinu, ég í meðlætinu og mamma að hella jólagrautnum yfir í tarínuna.

IMG_2395

Uppskrift:

 • 4 bollar hrísgjón (River)
 • vatn
 • 3 lítrar nýmjólk + 1 líter
 • salt

Hrísgrjónin sett í pott ásamt vatni (vatnið látið fljóta aðeins yfir hrísgrjónin). Suðan látin koma upp, hitinn lækkaður og hrísgrjónin soðin í klukkutíma, vatni bætt við eftir þörfum. Eftir klukkutíma eru þremur lítrum af mjólk bætt við smátt og smátt út í pottinn og hrært oft og reglulega í grautnum. Grauturinn er smakkaður til með salti. Eftir þrjá tíma kemur amma með grautinn heim til mín, hitar hann upp aftur í pottinum og hrærir um það bil 1 líter af mjólk út í grautinn eða þar til hann verður mátulega þykkur. Grauturinn er borinn fram með krækiberjasaft og kanelsykri.IMG_6482

Blómkálssúpa með heimagerðum brauðteningum


Blómkálssúpa með heimagerðum brauðteningumÉg ætlaði að byrja þessa færslu með sömu rullunni og svo oft áður þegar ég blogga um súpur, að í raun sé ég ekkert sérstaklega hrifin af súpum en þessi súpa sé ein af undantekningunum. Þá rann upp fyrir mér ljós að það gæti eiginlega ekki verið rétt. Ég hef sett hingað á Eldhússögur margar súpuuppskriftir sem mér finnst allar ægilega góðar, sérstaklega fiski- og kjúklingasúpurnar. Mér finnst eiginlega bara tvennt dálítið pirrandi við súpur. Það er þegar þær eru sjóðheitar og brenna mann á tungunni og þegar þær skvettast út um allt! Hvort tveggja er auðvelt að laga. Láta bara súpuna standa í smástund og leyfa henni að kólna dálítið áður en hún er borðuð og ekki borða með brussugangi og látum! Niðurstaðan er sem sagt sú að með bættum borðsiðum þá geta súpur vel verið í uppáhaldi hjá mér! 🙂 Í kvöld bjó ég til ákaflega góða súpu úr hráefnum sem ég fann í ísskápnum hjá mér. Það er alltaf jafn gefandi að búa til góðan mat og nýta hráefnin í ísskápnum út í ystu æsar í leiðinni. Til dæmis gerði ég þennan brauðrétt í fyrradag og skar af brauðinu alla skorpu. Ég notaði skorpuna til að búa til gómsæta brauðteninga sem pössuðu eins og hönd í hanska við blómkálssúpuna í kvöld. Í súpuna notaði ég Philadelphia ost með chili og okkur fannst hann gefa súpunni afar gott og mikið bragð. Fyrir þá sem vilja mildari súpu er hægt að nota natural Philadelphia ost.

Uppskrift:

 • 1 stór blómkálshaus
 • 1 meðalstór gulur laukur
 • 2-3 tsk olía
 • 1.2 l kjúklingasoð (4 tsk kjúklingakraftur leystur upp í 1.2 líter af sjóðandi vatni)
 • 1 msk hveiti
 • 1 dós Philadelphia ostur með chili (eða natural fyrir mildari súpu)
 • salt og pipar

Blómkálið er skorið í hæfilega stóra bita og laukurinn saxaður smátt. Laukurinn er steiktur  upp úr olíu í stórum potti þar til hann verður mjúkur. Þá er blómkálinu bætt út og það steikt í smá stund þar til það hefur tekið dálítinn lit og mýkst, hveitinu er þá bætt út í pottinn. Því næst er kjúklingasoðinu hellt út í og súpunni leyft að malla undir loki í ca. 20 mínútur eða þar til blómkálið er orðið vel mjúkt. Þá er Philadelphia ostinum bætt út í og súpan krydduð eftir smekk. Það er hægt að mauka súpuna með töfrasprota eða bera hana fram með blómkálsbitunum í. Borin fram með brauðteningum. Ég setti líka nýjar og ferskar baunspírur út í súpuna sem komu til mín í áskrift í dag sem gáfu súpunni extra gott bragð.

IMG_1937

Brauðteningar:

 • Brauð eða skorpa af brauði
 • ólífuolía
 • heitt pizzakrydd (eða mildara ítalskt krydd fyrir þá sem vilja bragðminni brauðteninga)
 • salt & pipar

Ofn hitaður í 200 gráður. Brauðið er skorið í hæfilega stóra bita og settir í skál. Ólífuolíu hellt yfir brauðteningana og þeim velt vel upp úr olíunni ásamt kryddinu. Passa þarf að nota vel af olíu. Brauðteningunum er því næst raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír og bakað í ofni í ca. 10 mínútur eða þar til brauðteningarnir hafa náð góðum lit.IMG_1929IMG_1938

Kjúklingasúpa með karrí, eplum og ananas


Kjúklingasúpa með karrí, eplum og ananas

Ég veit að þetta er klisjukennt en ég get svarið það, mér finnst stöðugt vera helgi – tíminn líður svo hratt! Núna eru haustveikindi skollin á hérna í Kleifarselinu. Greyið Vilhjálmur minn fékk yfir 40 stiga hita í marga daga og það kom í ljós að hann var kominn með bæði lungnabólgu og eyrnabólgu. Nú krossleggjum við fingur að restin af fjölskyldunni sleppi við svona leiðindarveikindi. Eiga ekki einmitt kjúklingasúpur að vera svo góðar fyrir veikt fólk? Ég bjó til svo góða kjúklingasúpu í vikunni sem leið. Þó svo að hún hafi ekki náð ein og sér að lækna lungnabólgu þá nutu allir fjölskyldumeðlimar þessarar ljúffengu súpu. Súpan er dálítið sterk (styrkleikinn fer þó eftir smekk) og þá finnst mér afar gott að hafa eitthvað sætt með í súpunni, að þessu sinni notaði ég epli og ananas í súpuna og fannst það súpergott!

IMG_0522

Uppskrift:

 • ca 700 g kjúklingur (lundir, bringur eða úrbeinuð læri), skorinn í litla bita
 • smjör til steikingar
 • salt og pipar
 • 1 msk karrí
 • 1  meðalstór rauðlaukur, saxaður fínt
 • 1 stórt epli, afhýtt, kjarnhreinsað og skorið í litla bita
 • lítil dós ananashringir (227 gramma dós), skornir í litla bita + safinn
 • 1/2 -1 rauður chili pipar, saxaður fínt (gott að prófa sig áfram með magnið, chili piparinn getur verið misstór og missterkur)
 • 1 dós niðursoðnir tómatar (411 g – ég notaði frá Hunts með basilku, hvítlauk og oregano)
 • 1 dós kókosmjólki (400 ml)
 • 2-3 dl rjómi
 • 1 msk + 1/2 msk kjúklingakraftur
 • ferskt kóríander, saxaður(má sleppa)
 • sýrður rjómi til að bera fram með súpunni

Kjúklingurinn er kryddaður með salti og pipar og steiktur upp úr smjöri á pönnu. Á meðan hann er steiktur er 1/2 msk af kjúklingakrafti dreift yfir kjúklinginn. Hann er svo steiktur þar til hann hefur náð góðum steikingalit. Þá er hann tekinn af pönnunni og settur til hliðar. Smjör og/eða olía er set í stóran pott. Eplabitar, ananasbitar, laukur, karrí og chili pipar sett út í pottinn og steikt á meðlahita þar til laukurinn er orðin mjúkur. Þá er tómötum í dós, kókosmjólk, ananassafanum og rjóma ásamt 1 msk af kjúklingakrafti bætt út í og súpan látin malla í 10 mínútur. Í lokinn er kjúklingnum bætt út og súpan smökkuð til með salti og pipar (og jafnvel chilidufti eða flögum fyrir þá sem vilja sterkari súpu). Súpan er borin fram með ferskum kóríander og sýrðum rjóma. Ekki er verra að bera fram með súpunni nýbakað Naanbrauð!

IMG_0530

Tælensk kjúklinga- og sætkartöflusúpa


IMG_9654

Ég tók eftir því um daginn að nú býður WordPress upp á að setja inn skoðanakannanir hingað á síðuna. Ég er dálítið veik fyrir svoleiðis! Ég vissi svo sem ekkert hvað ég átti að kanna en ég varð samt að prófa. Nú getið þið sagt til um hvaða uppskriftir þið viljið sjá á síðunni, það er hægt að krossa við fleiri en einn valmöguleika.

Ég er voðalega spennt að setja þessa uppskrift inn í dag. Þessi tælenska kjúklinga- og sætkartöflusúpa er algjört æði! Ein sú einfaldasta súpa sem ég hef gert en með þeim allra bestu. Ég mæli algjörlega með þessari! 🙂

IMG_9651

Uppskrift:

 • olía til steikingar
 • 3 hvítlauksrif, söxuð
 • 1 ferskur rauður chili, fræhreinsaður og saxaður
 • 1 msk ferskt engifer, rifið
 • 30 g ferskt kóríander, stilkar og blöð saxað í sitt hvoru lagi
 • 4 tsk karrímauk, rautt eða grænt (curry paste)
 • 1200 ml kjúklingasoð (gert úr 3 kjúklingateningum)
 • 1 dós kókosmjólk
 • ca. 800 g sætar kartöflur, flysjaðar og skornar í bita
 • 800 g kjúklingabringur, skornar í bita
 • 1 ½  límóna, safinn (lime)
 • 2 tsk sykur
 • 2 tsk fiskisósa (fish sauce)
 • grófmalaður svartur pipar

IMG_9644

Olía hituð í stórum potti og hvítlauki, chili, engifer og kóríander stilkum ásamt karrímauki  bætt út í pottinn og steikt í um það bil 2 mínútur. Því næst er kjúklingasoði, kókosmjólk og sætu kartöflunum bætt út og soðið í 10-15 mínútur eða þar til sætu kartöflurnar eru tilbúnar. Þá er súpan maukuð í matvinnsluvél eða með töfrasprota þar til áferðin er mjúk og kekklaus.  Svo er kjúklingnum bætt út í súpuna og hún látin malla þar til hann er soðinn í gegn. Að lokum er kóríander bætt út í ásamt límónusafa og súpan smökkuð til með sykri, fiskisósu og pipar.

IMG_9652

Rjómalöguð fiskisúpa með chili


IMG_0110

 

Ég er búin að komast að því að mér finnst fiskisúpur bestu súpurnar. Mér finnst líka fiskisúpur ákaflega sparilegar, eiginlega hátíðarmatur. Þar sem ég stóð í fiskbúðinni í upphafi vikunnar fannst mér ég ekki geta verið með fiskisúpu á hversdagslegum mánudegi, það væri bara alltof sparilegt. En svo áttaði ég mig á því að þetta væri algjör vitleysa í mér, auðvitað er tilvalið að njóta hátíðarmáltíðar á mánudegi! Í raun eru fiskisúpur ekki bara sparilegar heldur eru þær mjög hagkvæmar máltíðir. Það er fljótlegt að laga þær, allt er sett í einn pott og hráefnið er ódýrt því það þarf ekki jafn mikið af fiski eins og fyrir venjulegar fiskmáltíðir. Ég hef sett inn tvær aðrar uppskriftir af fiskisúpum sem ég held mikið upp á hingað á síðuna og þessi uppskrift fór umsvifalaust á sama stall.

IMG_0097

Ekki hræðast chili-piparinn í uppskriftinni, súpan er ekkert sterk, bara bragðmikil og einstaklega bragðgóð. Annars heyrði ég einhversstaðar að þegar velja á chili-pipar væri gott að hafa í huga að því oddmjórra sem chilið væri, þeim mun sterkara. Ég veit ekki hvort það er rétt en kenningin hljómar allavega vel! Mér finnst Philadelphia osturinn með sweet chili svo góður og leita stöðugt eftir tilefni til að nota hann. Hann passaði einstaklega vel út í þessa súpu. Mér fannst súpan mikið sælgæti – ég hvet ykkur til að prófa!

Uppskrift f. 4

 • ca. 800 g góður þéttur fiskur, skorin í hæfilega stóra bita (ég notaði 400 g af þorskhnakka og 400 g af blálöngu)
 • olía til steikingar
 • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
 • 1 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður smátt
 • 1/2 gul paprika, skorin í bita
 • 1/2 rauð paprika, skorin í bita
 • 5 dl fiskisoð
 • 2 dl rjómi
 • 200 g Philadelphia ostur með sweet chili
 • 3/4 dl tómatpúrra
 • ca. 20-30 g kóríander, blöðin söxuð
 • 2 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð
 • 1/2 tsk chili-krydd
 • 1/2 tsk engifer
 • 1/4 tsk cumin
 • 1 msk sykur (má sleppa)
 • 1/2 – 1 msk kartöflumjöl (má sleppa)
 • salt & pipar

IMG_0113

Aðferð:

Laukur, chili og paprika steikt í stórum potti þar til mjúkt. Þá er rjómaostinum, fiskikraftinum, rjómanum, tómatpúrrunni, kryddunum og sykrinum bætt út í. Því næst er kóríander bætt út í súpuna og suðan látin koma upp. Hvítlauknum er svo bætt beint út í súpuna. Hrært vel og súpan látin malla í ca. 5 mínútur. Til þess að þykkja súpuna er hægt að hræra karföflumjölið út í örlitlu vatni og bæta svo út í súpuna. Að lokum er fisknum bætt út í súpuna og hún látin malla í nokkrar mínútur í viðbót þar til fiskurinn er soðin í gegn. Súpan er smökkuð til með salti og pipar og jafnvel bætt við meira af kryddunum af hráefnalistanum. Súpan er borin fram með góðu brauði.

IMG_0115