Rabarbara- og perubaka með stökkum hafrahjúpi


Rabarbara- og perubaka með stökkri mylsnu

Ég er afar veik fyrir pæjum eða bökum eins og þau kallast á íslensku. Svíar eru mikið bökufólk, það eru alltaf til góðar bökur á kaffihúsunum þar í landi, til dæmis eplabökur og hindberjabökur. Það tók mig nokkur ár að taka í sátt að Svíar bera alltaf fram vanillusósu með bökunum (og eplakökum) en núna finnst mér vanillusósan óskaplega góð – sem minnir mig á að ég þarf að setja inn hingað uppskrift af slíkri sósu! Ég hef sett inn hingað á síðuna nokkrar góðar bökuuppskriftir. Til dæmis þessa uppskrift af kryddaðri eplaböku með hnetum, hún er ákaflega einföld og dásamlega gómsæt:

Krydduð eplabakaKrydduð eplabaka 

Ef þið hafið ekki enn prófað Key lime bökuna þá eruð þið að missa af miklu, hún er hnossgæti!

Key lime bakaKey lime baka

Þessi epla- og hindberjabaka er mjög fljótleg og yndislega góð.

Epla- og hindberjabaka

Epla- og hindberjabaka

Banana-karamellubakan er ein af mínum uppáhalds, ég mæli sannarlega með þessari dásemd

Banana-karamellukaka

Banana-karamellubaka

Að síðustu verð ég að nefna góðu berjabökuna hennar Jóhönnu Ingu, hún er ljúfmeti!Berjabaka

Berjabaka

Að þessu sinni ætla ég að setja inn uppskrift af feykigóðri rabarbaraböku með perum. Mér finnst voðalega gott að setja eitthvað sætt með í rabarbarabökurnar, það gefur svo gott jafnvægi við súran rabarbarann. Stundum set ég hindber með en að þessu sinni notaði ég perur, það kom ofsalega vel út. Ef þið eruð hrifin af hvítu súkkulaði þá er sannarlega ekki verra að strá yfir rabarbarabökuna dálítið af hvítum súkkulaðidropum. Hafrahjúpurinn ofan á bökunni er meðal annars með púðursykri og sírópi sem gefur henni stökka áferð og karamellukennt bragð – ljúffengt!

IMG_1944

Uppskrift:

  • 500 g rabarbari, skorinn í bita
  • 2 stórar perur, afhýddar og skornar í bita
  • 1 msk kartöflumjöl
  • 1 dl sykur + 1 msk
  • 1 dl púðursykur
  • 2 dl haframjöl
  • 2 dl hveiti
  • 1/2 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk vanillusykur
  • 1/2 dl ljóst síróp
  • 125 g smjör
  • 1/2 dl rjómi

Ofninn er stilltur á 150 gráður undir- og yfirhita. Rabarbaranum og perunum er dreift í smurt form og 1 msk af sykri og kartöflumjöli er stráð yfir. Smjörið er brætt í potti ásamt rjómanum. Þurrefnunum er blandað saman í skál ásamt sírópinu og brædda smjörinu og rjómanum er svo hrært út í. Blöndunni er því næst dreift jafnt yfir rabarbarann og perurnar. Bakað í ofni við 150 gráður í ca. 40 – 50 mínútur. Bakan er borin fram heit með þeyttum rjóma eða ís.

IMG_1948

Hvítt súkkulaðifrauð með hindberjasósu


Hvitt súkklaðifrauð með hindberjasósu

Mikið væri gaman ef þið ykkar sem eruð á Instagram mynduð „hashtagga“ myndir af útkomunni á Instagram þegar þið prófið uppskriftir héðan af Eldhússögum! Þá sem sagt takið þið mynd af réttinum, setjið hana á Instagram og merkið undir myndina #eldhussogur. Þannig safnast saman allar myndirnar undir því „hashtaggi“ og með því að slá inn „eldhussogur“ í leit á Instagram er hægt að sjá allar myndirnar með þessari merkingu. Ég heyri frá svo mörgum og af svo mörgum sem nota uppskriftirnar á Eldhússögum. Mér finnst það eiginlega dálítið óraunverulegt að svona margir séu að búa til þessa rétti sem ég dunda mér við að gera í eldhúsinu mínu. Þess vegna væri voðalega gaman að sjá útkomuna hjá ykkur hinum – nú bíð ég spennt! 🙂

IMG_1926

Ég uppgötvaði að ég hef ekki enn sett inn hér á síðuna uppskrift af miklum uppáhalds eftirrétti, hvítu súkkulaðifrauði með hindberjasósu. Í réttinum er hvítt súkkulaði sem mér finnst afar gott en það þarf að vera í afar passlegu magni finnst mér, það má alls ekki vera yfirgnæfandi. Í þessum rétti er það einmitt þannig, hvíta súkkulaðið er í frábærri blöndu við hindberin og rjóma. Þetta er fljótlegur réttur að gera og ákaflega þægilegt að geta gert hann með góðum fyrirvara. Mér finnst alltaf svo gott að vera með þannig eftirrétti þegar ég held matarboð, eftirrétti sem hægt er að taka tilbúna úr ísskápnum og setja beint á borðið.

IMG_1915

Uppskrift, passar í 5 – 6 skálar:

  • 350 g frosin hindber, afþýdd
  • 2 msk sykur
  • 2 msk Grand Marnier
  • 5 dl rjómi
  • 200 g hvítt súkkulaði
  • 1-2 dropar rauður matarlitur

IMG_1909

4 og 1/2 dl rjómi þeyttur. Hindberin sett í blandara og þau maukuð vel. Því næst eru þau sett í sigti og berjahratið þannig síað frá. Til þess að hraða fyrir þessu þá hræri ég stöðugt og vel í sigtinu og hraða þannig ferlinu. Berjahratinu er hent, sykri og líkjöri er bætt við sléttu berjasósuna og hrært vel saman. Hvíta súkkulaðið er brætt í potti ásamt 1/2 dl af rjóma við vægan hita og hrært í á meðan, potturinn er tekinn strax af hellunni þegar blandan er tilbúin og ca 1 msk af berjablöndunni bætt út í ásamt matarlitnum. Þá er blandan kæld að stofuhita. Nú er súkkulaðiblöndunni blandað saman við þeytta rjómann. Best er að blanda súkkulaðiblöndunni smátt og smátt út í rjómann og hræra á milli. Því næst er berjablöndunni blandað út í en gott er að skilja smávegis eftir af berjablöndunni til þess að skreyta með. Að lokum er blöndunni skipt í 5- 6 glös eða skálar. Fallegt er að skreyta hvern skammt með smá berjablöndu og jafnvel hindberjum og ferskri myntu eins og ég gerði hér á myndunum. Kælt í ísskáp í minnst þrjá tíma.

10425Sævar vínþjónn mælir með ljúffenga eftirréttavíninu Concha Y Toro late harvest Sauvignon Blanc frá Chile með þessum rétti.

Lýsing: Sítrónugult. Múk fylling, sætt, fersk sýra. Sítrus, apríkósa, hunang.

IMG_1923

Dásamlegar kjúklingavefjur með mangósósu


t´oðu

Dásamlegar kjúklingavefjur með mangósósu

Núna erum við loksins öll komin í sumarfrí nema auðvitað stóru krakkarnir sem vinna eins og hestar í allt sumar. Ég er aðeins að reyna að halda mig frá tölvunni til þess að njóta frísins betur. Það er nefnilega afar tímafrekt að halda úti svona uppskriftabloggi ef vel á að vera. Til dæmis er eiginmaðurinn farinn að kalla bloggið mitt „Kvöldsögur“ þar sem að lunginn af kvöldunum fara oft í að blogga! 🙂 Ég gat samt ekki hamið mig að kíkja hér inn og gefa ykkur uppskrift af dásamlega góðum kjúklingavefjum. Við fórum í skemmtilega dagsferð til Vestmannaeyja núna fyrir helgi og ég útbjó þessar vefjur til þess að taka með í nesti (ég setti inn myndir frá þeim degi á Instagram, endilega fylgist með Eldhússögum á Instagram!). Þessar vefjur eru frábært nesti í ferðalög, þær eru hollar, ákaflega góðar og jafngóðar heitar sem kaldar. Það er svo lítið mál að útbúa þessar vefjur og skella þeim í kælibox. Þá sleppur maður við að koma við í óspennandi vegasjoppum og eyða háum fjárhæðum í oft og tíðum óhollan og lítt gómsætan mat.

IMG_1760

En og aftur er hægt að undrast yfir hvað hægt er að útbúa ljúffengan mat úr fáum hráefnum og með lítilli fyrirhöfn. Ég held að það sé hjónaband kjúklingsins, mangósósunnar, cashew hnetanna og ferska mangósins sem gerir vefjurnar svona gómsætar. Þessar vefjur eru í miklu uppáhaldi hjá okkur öllum, ég hvet ykkur til að prófa!

IMG_1771Kaldar kjúklingavefjur – tilbúnar í ferðalagið!

Uppskrift fyrir 4 vefjur:

  • 1 poki kjúklingalundir frá Rose Poultry (700 g)
  • gott kjúklingakrydd (ég notaði salt, pipar, best á allt frá Pottagöldrum og chili explosion)
  • kál
  • klettasalat
  • tómatar, skornir í bita
  • gúrka, skorin í bita
  • ferskt kóríander, saxaður gróft
  • 1 stór ferskur mangó, skorinn í bita
  • cashew hnetur, saxaðar gróft
  • tortilla pönnukökur
  • mangósósa
mangósósa uppskrift:
  • 200 g grísk jógúrt
  • 3 msk mango chutney
  • 1 tsk karrí
  • 1 vænn biti ferskt mangó – (líka hægt að nota nokkra bita af frystu mangói)
  • salt og pipar eftir smekk

IMG_1746

Öllum hráefnunum í sósuna er blandað vel saman í matvinnsluvél. Smakkað til með salti, pipar og meira karrí ef með þarf.

Kjúklingalundirnar eru skornar í hæfilega stóra bita og kryddaðar eftir smekk. Ég kryddaði þær með salti, pipar, best á allt frá Pottagöldrum og chili explosion). Kjúklingurinn er steiktur á pönnu. Tortillurnar eru hitaðar og á þær eru settar kál og klettasalat, tómatar, gúrkur og mangó ásamt kjúklingnum. Ofan á þetta allt er svo dreift cashew hnetum, kóríander og vel af mangósósu. Vefjunni er svo rúllað upp. Bæði hægt að bera vefjurnar fram kaldar og heitar.

IMG_1775

Sænsk prinsessuterta


IMG_1528

Það er eiginlega skandall að ég, sem hef sænskan ríkisborgararétt (auk þess íslenska auðvitað), hafi ekki bloggað enn um sænsku prinsessutertuna! Hins vegar er varla hægt að velja betri dag en í dag, 17. júlí, til þess að birta uppskrift að hátíðartertu á síðunni minni. Í dag eigum við hjónin nefnilega 20 ára brúðkaupsafmæli! Fyrir tuttugu árum gekk ég upp að altarinu í Kópavogskirkju á þessum degi, þá nýorðin 21 árs, og gekk að eiga Elfar minn – mín stærstu gæfuspor í lífinu. ♥ Ég kíkti á færsluna sem ég skrifaði í fyrra á sama degi, hún er hér. Þá hafði ég sett inn uppskrift af dásamlega góðu naan-brauðunum. En það sem vakti athygli mína var yndislega veðrið sem var á sama tíma í fyrra, eitthvað annað en núna!

Ég held að flestir sem eitthvað þekkja til Svíþjóðar kannist við prinsessutertuna. Prinsessuterta er nokkurskonar þjóðar-hátíðarterta Svía. Við hinu ýmsu tímamót sem ber að fagna með tertuáti þá birtist sænska prinsessutertan í allskonar myndum. Sú hefðbundnasta er græna prinsessutertan með bleiku rósinni. Hún fæst í hverju einasta sænska bakaríi. Það er nefnilega afar algengt í Svíþjóð að prinsessutertan sé keypt tilbúin í bakaríum fremur en bökuð heima.

prinsesstarta

En prinsessuterturnar koma líka í ýmsum litum sem hæfa hverju tilefni. Bleikar og bláar fyrir skírnir, hvítar fyrir brúðaup, gular fyrir páskana og svo framvegis. Þessi prinsessuterta var til dæmis til sölu í öllum sænskum bakaríum þegar nýjasta sænska prinsessan, Estelle, var skírð fyrir ári síðan, „skírnarterta Estelle“ kallaðist hún:

estelle skírnarterta

Upprunalega uppskriftin af prinsessutertu kemur úr uppskriftabók frá 1948 eftir sænskan hússtjórnarkennara. Hún kenndi yfirstéttarstúlkum heimilisfræði, meðal annars þáverandi sænsku prinsessunum. Þær voru afar hrifnar af þessari tertu, þaðan kom nafnið.

Tertan er í raun afar einföld. Uppistaðan í henni er svampbotn, sulta (þó ekki alltaf – sumir Svíar telja það landráð að setja sultu í tertuna þar sem hún er ekki í upprunalegu uppskriftinni!), vanillukrem, rjómi og marsípan. Í Svíþjóð er hægt að kaupa þetta allt tilbúð og þá þarf bara að setja tertuna saman. Hér á Íslandi er í raun hægt að gera það líka nema að vanillukremið fæst ekki tilbúið. Það eru líka smá vandræði með tilbúna marsípalokið. Hér er hægt að kaupa tilbúið marsípanlok frá Odense ofan á tertuna en það er bara til í einum óspennandi drapplituðum lit. Í Svíþjóð er hægt að kaupa það grænt og bleikt eins og sést hérna:

marsipanlock í ICA

Það er lítið mál að baka svampbotninn og í raun er ekkert mál að búa til vanillukremið en það eru margir sem hræðast það. Það er alveg óþarfi, það þarf bara passa að það brenni ekki við, það getur gerst hratt þegar maður er til dæmis með spanhellur. Vanillukremið finnst mér sjúklega gott og það gerir prinsessutertuna svona góða. Svo er það bara þessi blanda, mjúkur svampbotn, hindberjasulta, vanillukrem, rjómi og marsípan, hún er einfaldlega svo konunglega góð! 🙂

sænsk prinsessuterta

Þegar við bjuggum í Stokkhólmi þá bjuggum við beint á móti bakaríi/kaffihúsi. Það besta sem Vilhjálmur minn vissi var að setjast niður á kaffihúsinu eftir leikskólann og fá að gæða sér á einni sneið af prinsessutertu. Stundum gerðum við það svona spari! 🙂 Þegar Vilhjálmur átti afmæli um daginn þá stóð prinsessuterta efst á hans óskalista fyrir afmælisveisluna. Ég kaupi oft tilbúna marsípanið í Svíþjóð og tek með mér heim en að þessu sinni átti ég það ekki til og keypti þetta ljósa sem fæst hér. Það er ekkert fallegt á litinn og hálfgegnsætt í þokkabót en það er bragðgott. Svo er auðvitað hægt að búa til sitt eigið marsípan, setja í það matarlit og fletja út – en þar dreg ég mörkin!

Uppskrift:

Svampbotn:

  • 3 egg
  • 2 dl sykur
  • 1 dl kartöflumjöl
  • 1 dl hveiti
  • 1 tsk lyftiduft

Ofninn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita. Egg og sykur er þeytt saman þar til það verður létt og ljóst. Kartöflumjöli, hveiti og lyftidufti bætt varlega út í með sleikju. Deiginu er hellt í smurt smelluform (ca 22 cm) og bakað við 175 gráður í ca. 35 mínútur. Botninn er látinn kólna.

Á milli botnanna og ofan á tertuna: 

  • 1/2 líter rjómi
  • 150-200 g frosin hindber, afþýdd
  • vanillukrem
  • Odense marsipanlock

Vanillukrem:

2 eggjarauður
3 dl mjólk
3 msk sykur
1 msk kartöflumjöl
1 vanillusöng

Vanillustöngin klofin á lengdina, fræin skafin innan úr stönginni og þau sett í pott ásamt restinni af hráefnunum. Suðan er látin koma varlega upp og á meðan er stöðugt hrært í blöndunni með písk. Athugið að þegar kremið fer að þykkna þá gerist það fremur snöggt. Það þarf einnig að passa að kremið brenni ekki við botninn í pottinum á meðan suðan er að koma upp. Um leið og vanillukremið er orðið passlega þykkt (þannig að það haldist vel á kökubotni án þess að leka- ekki ósvipað hlaupi) er potturinn tekinn af hellunni og kreminu hellt í skál – látið kólna.

IMG_1387

Tertan sett saman:

Þegar hindberin hafa þiðnað eru þau maukuð saman með gaffli (hægt að bæta við 1 tsk af sykri). Gott er að sía frá svolítið af vökvanum þannig að kökubotninn verði ekki alltof blautur undan hindberjamaukinu. Svampkökubotninn er skorinn í þrennt. Ég nota svona sniðuga græju frá Íkea til þess að skurðurinn verði jafn:

4027323-origpic-806cdc

Hindberjamaukinu er smurt á fyrsta botninn. Þá er næsti botn settur á og vanillukreminu smurt yfir hann. Því næst er síðasti botninn lagður ofan á. Rjómanum er þá dreift yfir alla tertuna, þunnt lag á hliðarnar en mest ofan á botninn. Rjóminn er mótaður keilulaga þannig að mest sé af honum í miðjunni, það kemur fallegast út undir marsípaninu. Að lokum er marsípanið lagt varlega yfir alla tertuna og brotið snyrtilega inn á hliðarnar. Ég skar ræmu af marsípaninu, rúllaði þvi upp og lagði í kringum tertuna til að fela samskeytin. Að síðustu er örlitlum flórsykri sigtað yfir tertuna. Ég skrifaði töluna með gel-lit frá Wilton.

IMG_1422Langt frá því að vera bakarís-falleg en góð er hún! 🙂

Grilluð tikka masala kjúklingapizza


Grilluð tikka masala pizza

Ég er ákaflega spennt að setja inn þessa uppskrift en í henni mætast tveir gómsætir matarheimar, sá ítalski annars vegar og hins vegar sá indverski. Þeir sem hafa prófað að grilla venjulega pizzu á útigrilli vita hversu góðar slíkar pizzur eru. Hér nota ég naan-brauð sem botn og ofan á þennan indversk ættaða pizzubotn bjó ég til gómsæta indversk/ítalska pizzusósu og  karamelluseraðan lauk. Einnig setti ég á naan-pizzuna papriku, mozzarella ost og tikka masala kjúkling auk tandoori kjúklings. Með þessum fáu hráefnum og einföldu matargerð skapaði ég himneskar naan-pizzur sem bæði börn og fullorðnir á heimilinu kolféllu fyrir. Naan pizzurnar eru ljúfengar á bragðið og það kemur á óvart hversu vel passar að nota naan brauðin sem pizzubotn. Með því að grilla brauðin fæst gómsætur botn sem er passlega mjúkur í miðjunni, með mátulega stökkum köntum og smellpassar við áleggið. Ég prófaði að nota bæði tikka masala kjúkling og tandoori kjúkling.

IMG_1573Hráefnið í Tandoori pizzuna

Hvor tveggja var ákaflega gott, mér fannst fyrrnefnda útgáfan aðeins betri en það voru skiptar skoðanir í fjölskyldunni hvor sósan væri betri. Það tekur smá tíma að karamellusera laukinn en það er alveg þess virði, bragðið af honum verður svo sætt og gott.

IMG_1632Tandoori kjúklingapizza

Ég er mikið búin að nota innfluttan frosinn kjúkling frá Rose Poultry undanfarið. Þegar ég bjó í Svíþjóð notaði ég alltaf frystan kjúkling og fannst hann afar bragðgóður en umfram allt meyr. Mér finnst kjúklingurinn frá Rose Poultry í sambærilegum gæðaflokki, hann er ofsalega mjúkur og meyr. Svo finnst mér æðislega þægilegt að eiga alltaf frystar kjúklingalundir, úrbeinuð innanlæri eða aðra kjúklingabita tilbúna í frystinum. Kjúklingalundirnar þiðna á örskömmum tíma og þær smellpassa á þessar gómsætu naan-pizzur.

kjúklingur1

Uppskrift fyrir 4-5:
  • 700 g kjúklingalundir (ég notaði 1 poka af frystum kjúklingalundum frá Rose Poultry)
  • 1/2 krukka Tandoori paste eða Tikka masala paste frá Patak’s
  • 1/2 dós grísk jógúrt (eða ca. 170 g)
  • ca 1 1/2 msk ólífuolía
  • 2/3 tsk salt
  • 1 stór laukur
  • 1/2 dós niðursoðnir tómatar (ca. 200 g)
  • 1/2 rauð paprika
  • ca. 200 g rifinn mozzarella ostur
  • 3 Naan brauð (ég notaði „garlic & coriander“ naan brauð frá Patak’s)
  • ólífuolía til að pensla naan brauðið
Kjúklingalundirnar eru afþýddar og skornar í hæfilega stóra bita. Tandoori eða tikka masala maukið og gríska jógúrtin eru hrærð saman í skál og kjúklingnum blandað út í. Látið standa við stofuhita á meðan laukurinn er skorinn í sneiðar og paprikan skorin í fremur þunna strimla. Ólífuolía er sett á pönnu eða í pott við meðalhita og lauknum og saltinu bætt út í. Laukurinn er látinn malla við vægan hita í ca. 20-30 mínútur. Lauknum er snúið reglulega, hann á að brúnast en ekki brenna. Olíu er bætt við ef með þarf og jafnvel örlitlu vatni. Á meðan laukurinn mallar er kjúklingurinn í sósunni steiktur upp úr ólífuolíu á pönnu þar til hann er steiktur í gegn. Þá er kjúklingurinn veiddur af pönnunni en eins mikið af sósunni og hægt er, skilin eftir á pönnunni. Tómötunum er bætt út á pönnuna og þeir hrærðir vel saman við sósuna. Sósan er látin malla við meðalhita í nokkrar mínútur þar til hún hefur þykknað dálítið. Naan brauðið er smurt með ólífuolíu á báðum hliðum og sett á grillið í 2-3 mínútur á hvora hlið við góðan hita eða þar til grillrenndur eru komnar í brauðið.
Þá er brauðið tekið af grillinu og það er smurt með sósunni. Því næst er sett dálítið af rifnum osti, þá er kjúklingnum dreift yfir, því næst lauki og papriku og endað á rifna ostinum.
Naan-bauðið er sett aftur á grillið og slökkt undir þeim brennara sem er beint undir brauðinu en annar og/eða þriðji brennarinn stilltur á fremur háan hita. Grillinu er lokað og naan-pizzan grillað í um það bil 8-10 mínútur. Fylgast þarf með hitanum og færa bauðið til ef það fer að verða of dökkt. Njótið!
IMG_1650
Tikka masala kjúklingapizza
Hér er smá myndasería af pizzugerðinni:
IMG_1583
Naan-brauðið grillað
IMG_1596
Smurt með tikka masala sósu
IMG_1584eða tandoori sósu
IMG_1605
Rifnum osti dreift yfir sósuna og því næst kjúklingnum
IMG_1607Þá er lauk og papriku dreift yfir (gott að hafa meiri lauk en á myndinni).
IMG_1593Það er endað á rifnum osti
IMG_1645
Grillað við óbeinan hita í ca. 10 mínútur
IMG_1658
Njótið vel!

Draumaterta með fílakaramellukremi


Draumaterta með fílakaramellukremi

„Hvaða hrúgald er þetta“, gætuð þið réttilega spurt ykkur að – „Draumaterta með fílakaramellukremi!“ svara ég þá! Það mætti halda að við lifðum á tertum í sumarfríinu.  Svona slæmt er þetta nú samt ekki alveg hjá okkur. Ástæðan fyrir öllum kökuuppskriftunum hér á síðunni upp á síðkastið er sú að ég var með afmælisveislu um daginn og prófaði nokkrar nýjar tertur sem mig langar að setja hér í uppskriftasafnið mitt.

Fyrir löngu síðan prentaði ég út tertuuppskrift og setti í uppskriftamöppuna mína. Ég man ekki lengur hvaðan uppskriftin kom en mér leist vel á hana og hafði hugsað mér að prófa þessa tertu við gott tækifæri. Uppskriftin féll hins vegar í gleymskunnar dá þar til ég tók til í eldhússkápunum um daginn . Ég ákvað að prófa tertuna og bjóða hana í afmælisveislunni hans Vilhjálms. En þegar ég hafði bakað botnana þá leist mér ekkert á þá. Mér fannst þeir verða harðir og bakast afar ójafnt. Ég skellti nú samt rjóma á milli botnanna og kreminu ofan á kökuna (ég smakkaði á kreminu og það var ljúffengt!). Svo tilkynnti ég afmælisgestunum að þessi kaka væri alveg misheppnuð (í ofanálag lenti hún í óhappi í ísskápnum og var hálf-löskuð!). Ég sagði gestunum að þeir mættu gjarnan smakka á tertunni, svona til að staðfesta að hún væri misheppnuð, en þyrftu ekki að vera kurteisir og klára hana. Hins vegar fór svo hún var kosin besta tertan (í afar óformlegum kosningum!) á kaffihlaðborðinu! Tertan var það vinsæl að ég náði bara einni pínulítlli sneið, eða ekki einu sinni sneið, meira svona lítilli hrúgu, til þess að taka mynd af. Myndir af þessari tertu eru því bæði af skornum skammti auk þess sem hún var ekkert sérlega falleg! Þið verðið því að taka viljann fyrir verkið og trúa afmælisgestunum mínum þegar þeir segja að tertan hafi verið ljúffeng! 🙂

Uppskrift:

  • 200 g sykur
  • 3 egg
  • 100 g pecanhnetur, saxaðar meðalgróft
  • 100 g döðlur, saxaðar meðalgróft
  • 100 g suðusúkkulaði, saxað meðalgróft
  • 50 g kornflex
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1/2 líter rjómi

IMG_1379

Fílakaramellukrem:fílakaramella

  • 200 g fílakaramellur
  • 1 dl rjómi

Ofn hitaður í 200 gráður. Egg og sykur þeytt mjög vel saman. Þá er
pecanhnetunum, döðlunum, suðusúkkulaðinu ásamt kornflexinu og lyftidufti bætt út í varlega með sleikju.

IMG_1381

Tvö smelluform (ca. 24 cm) smurð og deiginu skipt á milli þeirra. Bakað við 200 gráður í um það bil 20-30 mínútur. Tíminn getur verið dálítið misjafn eftir ofnum, það þarf að fylgjast með botnunum og meta tímann. Botnarnir eru kældir.
1/2 líter rjómi þeyttur og settur á milli botnanna. Ég skildi dálítið eftir að rjóma til að skreyta tertuna með.

Fílakaramellur settar í pott ásamt rjómanum og hitað við vægan hita þar til karamellurnar eru bráðnaðar og hafa blandast saman við rjómann. Þá er kremið látið kólna þar til það er hæfilega þykkt – það er að það sé hægt að hella því yfir tertuna án þess að það leki of mikið. Eftir að kremið er sett á kökuna er hún geymd í ísskáp þar til að kremið er orðið kalt og stífnað.  Þá er kakan skreytt með afgangnum af þeytta rjómanum. Ég skar niður nokkrar fílakaramellur smátt og dreifði yfir tertuna en ég mæli reyndar ekki með því. Mér fannst karamellurnar of seigar undir tönn til þess að nota þær sem skraut.

IMG_1419

Afmæliskaka


Afmæliskaka

Hann Vilhjálmur minn átti afmæli um daginn og að sjálfsögðu var haldin afmælisveisla fyrir fjölskylduna. Bekkjarafmælið fær að bíða þar til seinna í sumar þegar allir eru komnir úr sumarfríi. Vilhjálmur vildi fá afmælisköku fyllta með Skittles sælgæti og að sjálfsögðu varð ég við þeirri ósk.

IMG_1453Fyrir um það bil ári síðan setti ég inn hér uppskrift af skúffuköku. Þessi uppskrift hefur legið lágt og ekki verið mikið deilt. Hins vegar er þetta sú uppskrift á blogginu sem hefur flestar stjörnur og þriðja mest lesna uppskriftin hér á Eldhússögum frá upphafi. Ég er ægilega ánægð með þessa uppskrift sem ég þróaði sjálf og af ummælunum að dæma þá eru fleiri sammála mér. Ég notaði þessa uppskrift til þess að búa til tvöfalda súkkulaðiköku sem óvænt hafði að geyma sælgæti! Það var afar vinsælt. Kökuna skreyttum við með litlum uppblásnum vatnsblöðrum á grillpinnum, nokkuð sem mér fannst afar afmælislegt og skemmtilegt.

IMG_1393

Þegar ég spurði dóttur mína af hverju hún þyrfti endilega að gretta sig á hverri einustu mynd þá svaraði hún því til að það væri kærkomin tilbreyting frá því að brosa alltaf á myndum! 🙂

IMG_1427Fánaborðan fékk ég í Søstrene Grene fyrir nokkru síðan. Okkur fannst hann svo skemmtilegur að hann hékk uppi í þónokkurn tíma eftir afmælið!

IMG_1474Krakkarnir byrjuðu öll á mini-pizzunum, þær eru alltaf jafn vinsælar.

IMG_1475Ávaxtaspjótin eru ómissandi.

IMG_1462Mamma, amma og Inga frænka flottar!

IMG_1495Þessar voru spenntar fyrir litlu blöðrunum og eru báðar „fjögurra ára!“

IMG_1508Uppskriftina af afmæliskökunni hér að neðan er í þeim hlutföllum að hún passar í tvö 24 cm form eða í stóra ofnskúffu.

Uppskrift:

  • 3 dl sykur
  • 3 dl púðursykur
  • 250 g smjör, brætt
  • 3 egg
  • 7 1/2 dl hveiti
  • 1 1/2 tsk. matarsódi
  • 1 1/2 tsk. lyftiduft
  • 1 1/2 dl vatn, sjóðandi heitt
  • 4 tsk. vanillusykur
  • 1 1/2 dl. kakó, sigtað
  • 3 1/2 dl súrmjólk með karamellu
  • Skittles

Byrjið á því að taka út úr ísskáp smjör í kökukremið svo það verði mjúkt. Hitið ofninn í 200 gráður. Bræðið smjörið og látið það kólna aðeins. Hrærið saman öllum hráefnunum, fyrir utan vatnið,  þar til deigið verður slétt. Gætið þess að hræra ekki of lengi. Bætið heita vatninu við og hrærið í þar til það hefur blandast deiginu. Hellið deginu í tvö smurð bökunarform (24 cm) eða ofnskúffu  og bakið í miðjum ofni í ca 20 mínútur eða þar til kakan hefur losnað frá köntunum og er bökuð í gegn í miðjunni. Ef notuð eru tvö kökuform og það á að fylla kökuna af sælgæti þá er skorið úr miðju kökunnar og hún fyllt af sælgæti. Kreminu smurt á milli kökubotnanna (bara að sælgætinu) og svo er kreminu smurt utan á kökuna.

IMG_1389

Súkkulaðikrem:

  • 225 smjör, mjúkt
  • 300 g flórsykur
  • 5 msk kakó
  • 3 msk síróp

Hrærið smjörið þar til það er orðið kremkennt. Sigtið flórsykur og kakó saman og blandið því síðan smátt og smátt við smjörið. Ef kremið er of þykkt er hægt að bæta við örlítilli mjólk. Hrærið að lokum sírópi saman við. Smyrjið kreminu á kalda kökuna.

Afmæliskaka

Ostakaka með crème brûlée


Ostakaka með creme brulee

Ég er afar hrifin af öllum eftirréttum – nema reyndar ís, ég get alveg lifað án hans. Mér finnst líka gaman að prófa mig áfram með ýmsar samsetningar á eftirréttum sem kannski eru ekki fyrirsjáanlegar. Hér er ég til dæmis með uppskrift af pönnukökum í suffle-formi – ofsalega gott!

IMG_9205

Ég hef líka prófað að gera bakaða ostaköku sameinaða með pecanhnetuböku, ljúffengt!

IMG_7826

Annað dæmi um vel heppnað eftirréttahjónaband er ostakaka, brownie og hindberjakrem, þvílíkt lostæti!

img_7125

Browniekakan með hindberjarjómanum er líka æðisleg og margir hafa sent mér póst vegna hennar, hún sló greinilega í gegn á fleiri heimilum en mínu.

IMG_0594

Að þessu sinni gerði ég bakaða ostaköku sem mér finnst lostæti. Ofan á hana setti ég crème brûlée, nokkuð sem var frábærlega vel heppnað. Crème brûlée þýðir brenndur rjómi og er eftirréttur úr nokkurskonar búðingi með karamelluskel. Búðingurinn er oftast með vanillubragði en stundum er bætt við líkjöri, súkkulaði eða ávöxtum. Karamelluskelin er gerð með því að brenna sykur á yfirborði búðingsins með gasbrennara. Venjulega er crème brûlée borið fram í litlum skálum. Í þessari uppskrift hellti ég Crème brûlée búðingnum yfir ostakökuna – hnossgæti! Til þess að búa til stökka karamelluskel notaði ég gasbrennara sem fæst meðal annars í Kokku og Duka.

IMG_1426

Það er hægt að bjarga sér án hans. Þá er kökunni brugðið inn í ofn á grillstillingu í stutta stund til þess að fá stökka yfirborðið á búðinginn. Ef myndin er af kökusneiðinni er skoðuð vel þá er eins og fyllingin sé þrískipt. Ég er ekki alveg viss en ég held að á meðan bökuninni stóð hafi búðingurinn hálfvegis sokkið ofan í ostakökuna. Það er að röndin í miðjunni sé í raun crème brûlée, ég er samt ekki viss. Kakan var allavega dásamlega góð! 🙂 Það væri gaman að heyra hvernig kakan verður hjá ykkur ef þið prófið þessa uppskrift!

IMG_1468

Ég verð að benda ykkur á snilldar kökuform sem fást í Kokku. Þessi form eru eins og kökudiskar þannig að það er hægt að bera kökurnar fram beint á disknum. Það er frábært fyrir til dæmis ostakökur sem annars getur verið erfitt að færa úr bökunarformi yfir á bökunardisk.

2412323

Uppskrift:

Botn
  • 150 g Digestive kex
  • 70 g smjör
  • 60 g púðursykur
  • 1 tsk vanillusykur

Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið, púðursykur og vanillusykur. Sett í smelluform (ca. 24-26 cm) og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu.

Ostakaka:

  • 450 g rjómaostur (ég nota Philadelphia)
  • 60 ml rjómi
  • 2 stór egg
  • 110 g sýrður rjómi
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1 msk maízenamjöl (eða kartöflumjöl)
  • 100 g sykur

Ofn stilltur á 150 gráður undir- og yfirhita. Rjómaosturinn þeyttur í hrærivél þar til hann verður mjúkur, ca í 2 mínútur. Þá er rjómanum bætt út í og því næst eggjunum, einu í senn. Að lokum er sýrðum rjóma, vanillusykri og maízenamjöli (eða kartöflumjöli) bætt út í og hrært vel saman í stutta stund. Blöndunni er því næst hellt yfir kexbotninn og bakað í ofni við 150 gráður í um það bil 18-20 mínútur á meðan crème brûlée blandan er búin til.

Crème brûlée:

  • 5 dl rjómi
  • 4 msk sykur + ca. 4 msk sykur til viðbótar fyrir karamelluskel
  • 5 stórar eggjarauður
  • 1 vanillustöng

Eggjarauður þeyttar þar til þær verða ljósar og léttar. Rjóminn settur í pott ásamt 4 msk af sykri og hitað að suðu, þá er potturinn tekinn af hellunni. Rjómablöndunni er svo hellt hægt og varlega út í eggjarauðurnar á meðan þær eru þeyttar á lágum hraða. Vanillustönginn er klofin í tvennt og fræin skafinn innan úr stönginni. Þeim er bætt út í blönduna. Blöndunni er síðan hellt yfir ostakökuna (sem hefur fengið að kólna aðeins eftir að hún kemur út úr ofninum). Kakan er svo bökuð áfram í ofninum í 45 mínútur við 150 gráður. Þegar kakan er tekin úr ofninum er henni leyft að kólna vel. Þá er ca. 4 msk af sykri dreift yfir kökuna og hann brenndur með gasbrennara. Ef ekki er til gasbrennari er hægt að setja kökuna í örfáar mínútur undir heitt grill í bakarofni til þess að brenna sykurinn. Kakan er svo geymd í ísskáp, bragðast best daginn eftir.

IMG_1538

Grilluð blálanga með dillsósu og grilluðu grænmeti


Dillsósa

Það eru forréttindi að hafa aðgang að jafn góðum fiski og við höfum hér á Íslandi. Grillaður góður fiskur er einn sá besti matur sem ég fæ. Ekki er verra að slík máltíð er afar fyrirhafnarlaus. Ég nýti mér mjög mikið að kaupa fisk í tilbúnum kryddmaríneringum sem fæst í flestum fiskbúðum. Yfirleitt eru þetta góðar maríneringar og flýta mikið fyrir matargerðinni. Um daginn keypti ég blálöngu í góðum kryddlegi hjá Fiskbúð Hólmgeirs. Ég er hrifin af blálöngu á grillið, hún er svo þétt og góð. Með henni ákvað ég að gera dillsósu. Þegar við bjuggum í Svíþjóð þá fannst mér Svíar ofnota dill með fiski. Fiskur og dill virðist vera jafn mikilvæg tvenna hjá Svíum eins og ýsa og hamsatólg voru hjá okkur Íslendingum hér á árum áður. Ég hef varla fundið sænska uppskrift af hvítum fiski sem ekki í er dill. Í einhverskonar mótmælaskyni hef ég því forðast að nota dill í fiskrétti. Að þessu sinni átti ég hins vegar fersk dill sem mig langaði að nýta og ég gerði því dillsósu með fisknum. Ég verð að viðurkenna að það var alls ekki svo slæmt, satt best að segja var sósan ákaflega góð. Hún var fersk og bragðgóð og smellpassaði með fisknum, kannski vita Svíar sínu viti í þessum efnum!

Afi minn vill helst borða fisk í öll mál þannig að mér fannst upplagt að bjóða honum og ömmu í mat að njóta þessarar góðu fiskmáltíðar með okkur.

IMG_0633

Ég var svo heppin að fá gómsætar nýjar kartöflur í Nettó sem fullkomnuðu þessa einföldu og góðu máltíð. Ég hef áður skrifað hér á Eldhússögur um grillað grænmeti. Ég nota grillbakka frá Weber sem er afar sniðugur til þess að grilla grænmeti í, ætti að vera skyldueign fyrir alla grillunnendur. Þennan grillbakka hef ég fundið langódýrastan hjá Bauhaus, það á reyndar við um alla Weber fylgihluti sýnist mér.

Weber grillbakki

Þegar ég grilla grænmeti þá sker ég niður grænmetið i passlega stóra bita, oftast nota ég gulrætur, kúrbít og sveppi í grunninn. Oft bæti ég við sætum kartöflum, lauki, hnúðakáli, brokkolí, blómkáli eða bara því grænmeti sem ég á til. Þegar það er komið í grillbakkann blanda ég dálítið af ólífuolíu saman við grænmetið og krydda það með saltflögum og grófum svörtum pipar. Stundum krydda ég það líka með kryddjurtakryddi eins og til dæmis „Best á allt“ frá Pottagöldrum. Grillbakkinn er svo settur á grillið við fremur háan hita í ca. 20-30 mínútur. Mikilvægt er að „hræra í“ grænmetinu reglulega þannig að það snúist. Oft ber ég grænmetið fram með rifnum ferskum parmesan osti ef það passar við aðalréttinn.

IMG_0640

Grilluð blálanga í kryddlegi, nýjar kartöflur, dillsósa úr grískri jógúrt og grillað grænmeti – gulrætur, sveppir og kúrbítur = frábær og holl máltíð! 🙂

IMG_0639

Uppskrift, dillsósa:

  • 1 dós grísk jógúrt (350 ml) (líka hægt að nota sýrðan rjóma eða hvor tveggja til helminga)
  • 1 msk fljótandi hunang
  • 2 hvítlauksgeirar, pressaðir eða fínsaxaðir
  • ferskt dill (ég notaði hér um bil 1/3 af  heilu 30 gramma boxi)
  • salt
  • ferskmalaður svartur pipar

Dillið er saxað niður og blandað vel við grísku jógúrtina. Hvítlauknum er bætt út í. Sósan er því næst bragðbætt með hunangi, salti og pipar. Gott er að leyfa sósunni að standa í ísskáp í 15-20 mínútur áður en hún er borin fram.

IMG_0638IMG_0658

Pavlova með marsípani


Pavlova með marsípaniPavlova með marsípani

IMG_1287

Þann 4. júlí varð Vilhjálmur Jón okkar 13 ára! Eins og lög gera ráð fyrir á okkar heimili er afmælisbarnið (táningurinn!) vakið með köku, pökkum og söng og fær síðan að velja kvöldmatinn.

IMG_1273

Val Vilhjálms á mat kom ekki á óvart, hann vildi fara á Hamborgarafabrikkuna enda mikill áhugamaður um hamborgara. Ég verð að segja að ég var ekkert ægilega spennt yfir mínum hamborgara, hann sló allavega ekki út steikarborgaranum (+ bearnaisesósu!) á Búllunni!

5b21fb9ee4ed11e28b8022000aaa0a1f_7Ég spurði Vilhjálm hverjar væru uppáhaldskökurnar hans og hann svaraði marsípantertur og marengstertur. Ég fór því að skoða hinar ýmsu uppskriftir og datt á tilviljun niður á Pavlovu með marsípani, snilld – uppáhaldsterturnar samankomnar í einni! Þetta varð innblásturinn af marsípan Pavlovunni sem Vilhjálmur var vakinn með á afmælisdaginn. Það er óhætt að segja að þessi terta hafi slegið í gegn. Allri fjölskyldunni auk þeirra gesta og gangandi sem smökkuðu á tertunni fannst hún rosalega góð. Þeir sem eru hrifnir af marsípani mega ekki láta þessa tertu fram hjá sér fara! 🙂

IMG_1315

Uppskrift:

  • 4 stk eggjahvítur (stór egg)Odense marsípan
  • 250 g flórsykur
  • 1 tsk hvítvíns edik
  • 160 g Marsípan (Odense ren rå marcipan)

Fylling:

  • 1/2 líter rjómi, þeyttur
  • Fersk ber eða ávextir eftir smekk (t.d. jarðaber, hindber, bláber, blæjuber, rifsber)
  • Rifið suðusúkkulaði og örlítið af flórsykri dreift yfir berin

IMG_1300

Ofninn stilltur á 150 gráður undir- og yfir hita. Eggjahvítur þeyttar á miðlungshraða þar til þær eru vel slegnar, þá er hraðinn aukinn og flórsykrinum blandað smátt og smátt saman við. Hvítvínsediki bætt út í. Þegar eggjahvíturnar eru orðnar stífþeyttar er marsípanið rifið með grófu rifjárni út í blandað mjög varlega saman við með sleikju. Best er að rífa lítið í einu og blanda marsípaninu þannig smátt og smátt saman við marengsinn annars er hætta að á að það fari í kekki.

Ca. 20 cm hringur teiknaður á bökunarpappír sem settur er á ofnplötu. Marengsinum er dreift á flötinn og kantarnir látnir vera aðeins hærri en miðjan. Bakað í miðjum ofni í um það bil 45 mínútur, þá er slökkt á ofninum og marengsinn látinn kólna í ofninum.

Áður en kakan er borin fram er settur þeyttur rjómi yfir marengsinn og yfir rjómann er dreift berjum, rifnu suðusúkkulaði og að lokum er örlitlum flórsykri sigtað yfir berin.

IMG_1311