Grilluð blálanga með dillsósu og grilluðu grænmeti


Dillsósa

Það eru forréttindi að hafa aðgang að jafn góðum fiski og við höfum hér á Íslandi. Grillaður góður fiskur er einn sá besti matur sem ég fæ. Ekki er verra að slík máltíð er afar fyrirhafnarlaus. Ég nýti mér mjög mikið að kaupa fisk í tilbúnum kryddmaríneringum sem fæst í flestum fiskbúðum. Yfirleitt eru þetta góðar maríneringar og flýta mikið fyrir matargerðinni. Um daginn keypti ég blálöngu í góðum kryddlegi hjá Fiskbúð Hólmgeirs. Ég er hrifin af blálöngu á grillið, hún er svo þétt og góð. Með henni ákvað ég að gera dillsósu. Þegar við bjuggum í Svíþjóð þá fannst mér Svíar ofnota dill með fiski. Fiskur og dill virðist vera jafn mikilvæg tvenna hjá Svíum eins og ýsa og hamsatólg voru hjá okkur Íslendingum hér á árum áður. Ég hef varla fundið sænska uppskrift af hvítum fiski sem ekki í er dill. Í einhverskonar mótmælaskyni hef ég því forðast að nota dill í fiskrétti. Að þessu sinni átti ég hins vegar fersk dill sem mig langaði að nýta og ég gerði því dillsósu með fisknum. Ég verð að viðurkenna að það var alls ekki svo slæmt, satt best að segja var sósan ákaflega góð. Hún var fersk og bragðgóð og smellpassaði með fisknum, kannski vita Svíar sínu viti í þessum efnum!

Afi minn vill helst borða fisk í öll mál þannig að mér fannst upplagt að bjóða honum og ömmu í mat að njóta þessarar góðu fiskmáltíðar með okkur.

IMG_0633

Ég var svo heppin að fá gómsætar nýjar kartöflur í Nettó sem fullkomnuðu þessa einföldu og góðu máltíð. Ég hef áður skrifað hér á Eldhússögur um grillað grænmeti. Ég nota grillbakka frá Weber sem er afar sniðugur til þess að grilla grænmeti í, ætti að vera skyldueign fyrir alla grillunnendur. Þennan grillbakka hef ég fundið langódýrastan hjá Bauhaus, það á reyndar við um alla Weber fylgihluti sýnist mér.

Weber grillbakki

Þegar ég grilla grænmeti þá sker ég niður grænmetið i passlega stóra bita, oftast nota ég gulrætur, kúrbít og sveppi í grunninn. Oft bæti ég við sætum kartöflum, lauki, hnúðakáli, brokkolí, blómkáli eða bara því grænmeti sem ég á til. Þegar það er komið í grillbakkann blanda ég dálítið af ólífuolíu saman við grænmetið og krydda það með saltflögum og grófum svörtum pipar. Stundum krydda ég það líka með kryddjurtakryddi eins og til dæmis „Best á allt“ frá Pottagöldrum. Grillbakkinn er svo settur á grillið við fremur háan hita í ca. 20-30 mínútur. Mikilvægt er að „hræra í“ grænmetinu reglulega þannig að það snúist. Oft ber ég grænmetið fram með rifnum ferskum parmesan osti ef það passar við aðalréttinn.

IMG_0640

Grilluð blálanga í kryddlegi, nýjar kartöflur, dillsósa úr grískri jógúrt og grillað grænmeti – gulrætur, sveppir og kúrbítur = frábær og holl máltíð! 🙂

IMG_0639

Uppskrift, dillsósa:

  • 1 dós grísk jógúrt (350 ml) (líka hægt að nota sýrðan rjóma eða hvor tveggja til helminga)
  • 1 msk fljótandi hunang
  • 2 hvítlauksgeirar, pressaðir eða fínsaxaðir
  • ferskt dill (ég notaði hér um bil 1/3 af  heilu 30 gramma boxi)
  • salt
  • ferskmalaður svartur pipar

Dillið er saxað niður og blandað vel við grísku jógúrtina. Hvítlauknum er bætt út í. Sósan er því næst bragðbætt með hunangi, salti og pipar. Gott er að leyfa sósunni að standa í ísskáp í 15-20 mínútur áður en hún er borin fram.

IMG_0638IMG_0658

Grillað lambafille með Hasselback kartöflum, grilluðu grænmeti og sveppasósu


Við erum nýkomin úr bústaðarferð og þar var ansi mikið gott sett á grillið eins og sést á uppskriftunum undanfarna daga! 🙂 Eitt kvöldið grilluðum við lambafille (úr versluninni Til sjávar og sveita). Ég kryddaði það bara vel með nýmöldum pipar og prófaði að salta það eftir grillun á meðan það jafnaði sig með reyktu maldon salti en það kom vel út.

 Fyrr um daginn höfðum við heimsótt garðyrkjustöðina Engi á Laugarási. Þar var býsna margt girnilegt og eftir að hafa prófað völundarhúsið og skoðað gróðurhúsin heldum við aftur í bústaðinn með tvo fulla poka af grænmeti og kryddjurtum. Við komum svo aftur við þar á leiðinni heim úr bústaðnum nokkrum dögum seinna og keyptum fleiri kryddjurtir!

 Í grænmetisgrindina þetta kvöldið lenti því margt gott grænmeti. Það var kúrbítur, sveppir, paprika, brokkolí og svo glænýtt chili frá Engi! Það þarf að fræhreinsa það vel og gæta þess að það sé vel grillað svo það verði ekki of sterkt. Grænmetisgrindin sem ég nota er frá Weber, frábær til að grilla grænmeti í og mikið notuð á heimilinu. Satt best að segja þá flytum við hálft eldhúsið með okkur þegar við förum í bústað! Það eru teknir með grillaukahlutir, espressovélin, blenderinn, soda stream til að búa til sódavatn og svo hálfur búrskápurinn svo hægt sé að elda og baka! 🙂

 Auk grillaðs grænmetis bjó ég til ferskt salat úr blönduðu salati, klettasalati og spínati ásamt kokteiltómötum, hunangsmelónu og fetaosti. Einnig gerði ég Hasselback kartöflur sem eru mjög vinsælar á heimilinu! Uppskrift af þeim er ég með hér.

Með kjötinu bjó ég til sveppasósu. Það er líka gott að nota heimatilbúna bearnaise sósu og uppskrift af henni er ég með hér.

Sveppasósa

  • 1/2 rauðlaukur
  • 2 hvítlauksrif
  • smjör
  • nokkrir sveppir
  • 2 tsk. nautakraftur
  • 1/2 piparostur
  • 3 msk. rjómaostur
  • 4 dl. rjómi (eða matreiðslurjómi)
  • 2 tsk. rifsberjahlaup
  • 2 tsk. soyjasósa
  • sósujafnari
  • salt og pipar

Laukur og hvítlaukur saxað smátt, sveppir sneiddir og allt steikt í potti upp úr smjöri. Nautakrafti bætt við. Hiti lækkaður aðeins og piparosti og rjómaosti bætt út og látið bráðna. Rjóma bætt út í ásamt rifsberjahlaupi og soyjasósu og suðan látin koma upp. Sósujafnara bætt út og sósan látin malla á vægum hita þar til að hún þykknar (sósulit bætt út í til að fá dekkri lit). Sósan smökkuð til með kryddi, rifsberjahlaupi, sojasósu og/eða nautakrafti.

Grilluð sirloin nautasteik með piparsósu


Á afmælisdaginn óskaði eiginmaðurinn sér nautasteikur með piparsósu sem hann auðvitað fékk! Fyrir valinu urðu vænir sirloin bitar úr versluninni ,,Til sjávar og sveita“ í Ögurhvarfi. Kjötið var marinerað í pipar/papriku marerningu og grillað á útigrilli. Meðlætið var: Grillað grænmeti (gulrætur, zuccini, sveppir og paprika) sem var saltað og piprað og aðeins skvett á það ólivuolíu. Að grillun lokinni bætti ég út í kokteiltómötum, rifnum Parmesan osti, ferski basiliku og steinselju.

Ofnsteiktar sætar kartöflur með olivuolíu, ferskri basiliku, steinselju og oreganó ásamt Maldon salti og nýmöluðum pipar.

Piparsósa:

  • 400 ml. nautasoð (helst heimatilbúið, líka hægt að panta það í kjötverslunum en einnig hægt að nota tilbúinn ,,Tasty pipar sósugrunnur“.
  • 1.5 dl. rjómi
  • 1 tsk. koníak
  • 1-2 tsk. piparkorn (ég nota blönduð piparkorn, svört, græn og rósapipar, grófmöluð og heil)
  • 1 msk. rifsberjahlaup
  • 1 tsk. soyasósa

Nautasoð sett í pott ásamt soyasósu og koníaki og piparkornum og suðan látin koma upp, hrært í á meðan. Þessu leyft að sjóða í nokkrar mínútur. Bætið við rjóma, rifsberjahlaupi og leyfið sósunni að malla á lágum hita í dágóðan tíma. Ef sósan er of þykk, bætið við meiri rjóma, ef hún er of þunn, þykkið með sósujafnara. Ferskt salat: salatblöð, spínat, klettasalat, kokteiltómatar, gúrka, mango, avokado  og fetaostur.

Það eru fleiri góðar sósur sem passa vel með nautakjöti. Hér er ég með uppskrift af ljúffengri heimagerðri bearnaise sósu. Svo er hér uppskrift af góðri sveppasósu.

Kjötið var afar meyrt og gott og allir sáttir við afmælismatinn, ekki síst eiginmaðurinn! 🙂 Jóhanna Inga fékk sér forrétt! Hún er á matreiðslunámskeiði þessa vikuna hjá matreiðslukennaranum í Laugarnesskóla. Fyrsta daginn eldaði hún tómatsúpu, bakaði brauðbollur og útbjó ís! Hún var býsna sátt við þetta námskeið! Best fannst henni að þau fengu að gera allt sjálf, brjóta eggin, hræra í heitum pottum, skera niður lauk og svo framvegis. Mín reynsla er að krakkar geta eiginlega gert flest í matargerð mjög snemma. Jóhanna hefur til dæmis bakað sjálf undir leiðsögn frá því að hún var 4-5 ára, brotið eggin, mælt hráefni, hrært og saxað. En allavega, þá fékk hún sér tómatsúpu og brauð í forrétt og allir fengu að smakka, afar ljúffengt hjá henni! 🙂

Varðandi afmælistertuna, ef einhver ætlar að prófa hana þá er hún margfalt betri daginn eftir þegar hún hefur fengið að brjóta sig svolítið ….. það get ég vitnað um (tékkaði sko nokkrum sinnum á því! ;)) Endilega bakið hana því daginn áður en hún er borin fram!