Hasselback kartöflur


Hasselback kartöflur eru upprunnar frá Stokkhólmi þar sem þær voru fyrst bornar á borð á samnefndum veitingastað. Það eru til nokkrar uppskriftir af þessum kartöflum. Í viðbót við það sem ég geri hér að neðan bæta sumir við brauðmylsnu og parmesan osti eða bara hinu síðarnefnda. Mér finnst hins vegar einfalda uppskriftin langbest, með bara smjöri og salti. Hasselback kartöflur er einfalt að útbúa og þær eru afar gómsætar. Ég á sérstakt bretti til að skera þær á sem fæst meðal annars í Kokku en látið ekki stoppa ykkur þó þið eigið ekki slíkt bretti. Það er hægt að notast við sleif, stóra skeið eða til dæmis undirskál sem hjálpartæki svo ekki sé skorið of djúpt í kartöflurnar.

Uppskrift:

  • 8 stórar kartöflur
  • 50 gr. smjör + 25 gr. bætt við þegar kartöflurnar eru í ofninum
  • 2 msk. ólívuolía
  • Maldon salt.

Hitið bakarofn í 220 gráður. Kartöflur þvegnar eða skrældar (ég mæli með að hafa hýðið á, mikið betra!) Raufar skornar í kartöflurnar með nokkra millimetra millibili. Skera skal djúpt niður en þó ekki þannig að kartaflan detti í sundur. Smjör og olía brædd saman í potti. Kartöflum raðað í ofnskúffu og smjörinu og olíunni hellt yfir kartöflurnar. Snúið kartöflunum nokkrum sinnum og veltið þeim þannig vel upp úr smjörinu. Stráið Maldon salti yfir kartöflurnar. Setjið í ofn og bakið í ca. 50 – 60 mínútur, fer eftir stærð kartaflanna, eða þar til þær eru gullinbrúnar. Þegar bökunartímin er rúmlega hálfnaður hafa kartöflurnar opnað sig aðeins og þá er gott að bæta við smá smjörklípu ofan á hverja kartöflu.

Grilluð sirloin nautasteik með piparsósu


Á afmælisdaginn óskaði eiginmaðurinn sér nautasteikur með piparsósu sem hann auðvitað fékk! Fyrir valinu urðu vænir sirloin bitar úr versluninni ,,Til sjávar og sveita“ í Ögurhvarfi. Kjötið var marinerað í pipar/papriku marerningu og grillað á útigrilli. Meðlætið var: Grillað grænmeti (gulrætur, zuccini, sveppir og paprika) sem var saltað og piprað og aðeins skvett á það ólivuolíu. Að grillun lokinni bætti ég út í kokteiltómötum, rifnum Parmesan osti, ferski basiliku og steinselju.

Ofnsteiktar sætar kartöflur með olivuolíu, ferskri basiliku, steinselju og oreganó ásamt Maldon salti og nýmöluðum pipar.

Piparsósa:

  • 400 ml. nautasoð (helst heimatilbúið, líka hægt að panta það í kjötverslunum en einnig hægt að nota tilbúinn ,,Tasty pipar sósugrunnur“.
  • 1.5 dl. rjómi
  • 1 tsk. koníak
  • 1-2 tsk. piparkorn (ég nota blönduð piparkorn, svört, græn og rósapipar, grófmöluð og heil)
  • 1 msk. rifsberjahlaup
  • 1 tsk. soyasósa

Nautasoð sett í pott ásamt soyasósu og koníaki og piparkornum og suðan látin koma upp, hrært í á meðan. Þessu leyft að sjóða í nokkrar mínútur. Bætið við rjóma, rifsberjahlaupi og leyfið sósunni að malla á lágum hita í dágóðan tíma. Ef sósan er of þykk, bætið við meiri rjóma, ef hún er of þunn, þykkið með sósujafnara. Ferskt salat: salatblöð, spínat, klettasalat, kokteiltómatar, gúrka, mango, avokado  og fetaostur.

Það eru fleiri góðar sósur sem passa vel með nautakjöti. Hér er ég með uppskrift af ljúffengri heimagerðri bearnaise sósu. Svo er hér uppskrift af góðri sveppasósu.

Kjötið var afar meyrt og gott og allir sáttir við afmælismatinn, ekki síst eiginmaðurinn! 🙂 Jóhanna Inga fékk sér forrétt! Hún er á matreiðslunámskeiði þessa vikuna hjá matreiðslukennaranum í Laugarnesskóla. Fyrsta daginn eldaði hún tómatsúpu, bakaði brauðbollur og útbjó ís! Hún var býsna sátt við þetta námskeið! Best fannst henni að þau fengu að gera allt sjálf, brjóta eggin, hræra í heitum pottum, skera niður lauk og svo framvegis. Mín reynsla er að krakkar geta eiginlega gert flest í matargerð mjög snemma. Jóhanna hefur til dæmis bakað sjálf undir leiðsögn frá því að hún var 4-5 ára, brotið eggin, mælt hráefni, hrært og saxað. En allavega, þá fékk hún sér tómatsúpu og brauð í forrétt og allir fengu að smakka, afar ljúffengt hjá henni! 🙂

Varðandi afmælistertuna, ef einhver ætlar að prófa hana þá er hún margfalt betri daginn eftir þegar hún hefur fengið að brjóta sig svolítið ….. það get ég vitnað um (tékkaði sko nokkrum sinnum á því! ;)) Endilega bakið hana því daginn áður en hún er borin fram!