Hasselback kartöflur eru upprunnar frá Stokkhólmi þar sem þær voru fyrst bornar á borð á samnefndum veitingastað. Það eru til nokkrar uppskriftir af þessum kartöflum. Í viðbót við það sem ég geri hér að neðan bæta sumir við brauðmylsnu og parmesan osti eða bara hinu síðarnefnda. Mér finnst hins vegar einfalda uppskriftin langbest, með bara smjöri og salti. Hasselback kartöflur er einfalt að útbúa og þær eru afar gómsætar. Ég á sérstakt bretti til að skera þær á sem fæst meðal annars í Kokku en látið ekki stoppa ykkur þó þið eigið ekki slíkt bretti. Það er hægt að notast við sleif, stóra skeið eða til dæmis undirskál sem hjálpartæki svo ekki sé skorið of djúpt í kartöflurnar.
Uppskrift:
- 8 stórar kartöflur
- 50 gr. smjör + 25 gr. bætt við þegar kartöflurnar eru í ofninum
- 2 msk. ólívuolía
- Maldon salt.
Hitið bakarofn í 220 gráður. Kartöflur þvegnar eða skrældar (ég mæli með að hafa hýðið á, mikið betra!) Raufar skornar í kartöflurnar með nokkra millimetra millibili. Skera skal djúpt niður en þó ekki þannig að kartaflan detti í sundur. Smjör og olía brædd saman í potti. Kartöflum raðað í ofnskúffu og smjörinu og olíunni hellt yfir kartöflurnar. Snúið kartöflunum nokkrum sinnum og veltið þeim þannig vel upp úr smjörinu. Stráið Maldon salti yfir kartöflurnar. Setjið í ofn og bakið í ca. 50 – 60 mínútur, fer eftir stærð kartaflanna, eða þar til þær eru gullinbrúnar. Þegar bökunartímin er rúmlega hálfnaður hafa kartöflurnar opnað sig aðeins og þá er gott að bæta við smá smjörklípu ofan á hverja kartöflu.