Marengsterta með créme brulée skyri og piparlakkrískurli


IMG_6408

Um daginn fór ég í matarboð og fékk svo dæmalaust góða marengstertu í eftirrétt. Ég kom ekki fyrir mig bragðinu, það var eitthvað svo óvenjulegt og óhemjugott bragð af rjómanum. Það kom í ljós að það var créme brulée skyr sem er einmitt að gera góða hluti í allskonar eftirréttauppskriftum þessa dagana (þetta er samt ekki styrkt færsla sko! 🙂 ). Samsetning tertunnar var líka harla óvenjuleg því það voru í henni bananar og lakkrís, svakalega góð blanda fannst mér. Ég tók því til við að endurtaka leikinn hér heima og betrumbætti með því að nota ekki lakkrís heldur piparlakkrískurl. Alveg sjúklega góð terta finnst mér, vona að ykkur finnist það líka! 🙂

IMG_6400

Botnar:

 • 5 eggjahvítur
 • 3 1/2 dl púðursykur
 • 1 dl sykur

Á milli:

 • 2 dl rjómi
 • 250 g créme brulée skyr
 • 2 stórir eða 3 litlir bananar, vel þroskaðir

Ofan á:

 • ca. 2 dl rjómi
 • ca 100 g piparlakkrískurl
 • rifið suðusúkkulaði

Ofn hitaður í 130 gráður við blástur. Eggjahvítur eru þeyttar og sykri og púðursykri smá saman bætt út í þar til marengsinn er orðinn stífur. Diskur eða kökuform sem er ca. 20-22 cm í þvermál er lagt á bökunarpappír og strikaður hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar. Marengsinum er skipt í tvennt og hann settur á sitt hvorn hringinn. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða. Þá er marengsinn bakaður í 130°C (blástur) í heitum ofni í ca. 55-60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum.

IMG_6404

Þegar marengsinn er orðinn kaldur er rjóminn þeyttur og skyrinu bætt varlega út í með sleikju. Blandan er borin á annan botninn. Bananar eru skornir i sneiðar og þeim raðað yfir rjómann. Hinn marengsbotninn er lagður ofan á. Þá er þeyttur um það bil 2 dl af rjóma og honum dreift yfir marengsinn. Að lokum er piparlakkrískurli og vel af rifnu suðusúkkulaði dreift yfir rjómann.

IMG_6405

 

Hægeldaðar kalkúnabringur


IMG_5145

Mér finnst kalkúnamáltíðir rosalega góðar. Stundum hentar að hafa eldunina auðveldari en að elda heila kalkún. Mér finnst þá afar handhægt og ljúffengt að matreiða kalkúnabringur og elda þær þá við vægan hita í lengri tíma, það gerir þær ákaflega meyrar og safaríkar.  Mér hefur fundist best að kaupa bara venjulegar bringur, ófylltar, því þær hafa reynst meyrari að mínu mati. En þessi eldunaraðferð virkar auðvitað líka fyrir fylltar bringur. Ég gef líka upp uppskrift að einfaldri og góðri kalkúnasósu, unnin úr tilbúnum kalkúnasósugrunni.

Meðlætið sem ég tel upp hér með heilsteikta kalkúninum smellpassar líka með kalkúnabringunum.

img_0796

Uppskrift f. ca 4

 • 1 kalkúnabringa (u.þ.b. 900 g)
 • kalkúnakrydd frá Pottagöldrum
 • salt & pipar
 • 100 kryddsmjör með hvítlaukskryddi
 • 2 msk fljótandi kalkúnakraftur + 2 dl vatn
 • 1/2 laukur, skorinn í strimla
 • kjöthitamælir

Bringan tekin úr kæli um það bil hálftíma fyrir eldun. Hún er þá krydduð með kalkúnakryddi, salti og pipar. Ofn hitaður í 100 gráður við undir- og yfirhita. Vatnið soðið og blandað saman við kalkúnakraftinn, hellt í eldfast form ásamt lauknum. Helmingurinn af kryddsmjörinu er hitaður á pönnu og bringan brúnuð við háan hita í stutta stund. Þá er hún lögð í eldfasta formið. Restinni af kryddsmjörinu er dreift yfir bringuna og ofan í formið. Sett inn í ofn við 90 gráður, gott er að ausa yfir bringuna nokkrum sinnum á meðan eldun stendur. Þegar kjarnhiti bringunnar er 68 gráður (tekur ca 70-90 mín fyrir meðalstóra bringu) er hún tekin út og leyft að hvíla í minnst 10 mínútur þar til skorin. Mér finnst gott að hafa kjarnhitann eins lágan og hægt er að komast upp með. Pakka svo bringunum strax þétt í álpappír í 10-15 mínútur áður en þær eru skornar.

Kalkúnasósa

 • 1 bréf kalkúnasósugrunnur
 • 2 dl vatn
 • 3 dl rjómi
 • 3-4 msk rjómaostur
 • 1 tsk dijon sinnep
 • 1 tsk rifsberjahlaup
 • salt og pipar
 • ca. 1 msk fljótandi kalkúnakraftur (meira við þörfum)
 • 20 g smjör
 • soð frá kalkúnabringunum
 • sósujafnari

Sósugrunninum er hellt út í 2 dl vatni og hrært á meðan suðan kemur upp. Þá er rjómanum og rjómaosti bætt út í. Því næst er sinnepi og rifsberjahlaupi bætt út í sósuna og hún krydduð eftir smekk. Fljótandi kalkúnakrafti er bætt út í ásamt soðinu og sósan smökkuð til. Sósan er látin krauma á meðan köldu smjörinu er bætt út í, hrært á meðan. Sósujafnari notaður við þörfum.

IMG_5149

Fimm ljúffengir ísar fyrir hátíðarnar


Ísgerð er vinsæl fyrir hátíðarnar. Ég er almennt ekki mikið gefin fyrir ís en mér finnst heimagerður ís mjög góður og geri alltaf mismunandi tegundir af ísum fyrir jólahátíðina. Hér eru nokkrar tegundir sem ég mæli með! 🙂

Toblerone jólaís með hnetum og banönum

Vanilluís með marsípani og Daim súkkulaði

Vanilluís með Dumle-núggati og smjörsteiktum kanileplum

Ís með heimatilbúnu frönsku núggati og súkkulaðisoðnum perum

Bismark ís með myntusúkkulaði og hindberjum

Waldorfsalat


IMG_6816

Waldorfsalatið var fyrst búið til árið 1896 fyrir fjáröflunarball sem haldið var á Waldorfhótelinu í New York. Upprunalega var salatið með eplum, sellerí, vínberjum og valhnetum. Þessu var blandað saman við majónes sem hefur á síðari árum vikið fyrir sýrðum rjóma. Mér finnst langbest og ferskast að sleppa selleríi og bæta við ananas í staðinn.  Waldorf salat ómissandi með til dæmis kalkúni og hamborgarhrygg.

Uppskrift:

 • 3-4 græn epli, flysjuð og skorin í litla bita
 • góður klasi af grænum, steinlausum grænum vínberjum, skorin í tvennt
 • 1 stór dós ananas, skorinn í litla bita
 • 2 dósir sýrður rjómi
 • þeyttur rjómi
 • valhnetur til skreytinga, má sleppa

Öllu blandað saman saman.

 

Hvítar sörur


IMG_4290

Ég geri alltaf hefbundnar sörur fyrir jólin en get alveg staðist freistinguna að eiga þær í frysti. Þessar hvítu sörur gerði ég hins vegar í fyrsta sinn í fyrra og þær get ég engan veginn staðist! Uppskriftin kemur frá Jóa Fel og þær eru algjört sælgæti. Ef ég þyrfti að velja bara eina tegund til að gera fyrir jól þá yrðu þessar himnesku sörur fyrir valinu. Ég gaf afa box með svona sörum og hann var alveg vitlaus í þær, sagði að þetta væru bestu smákökur sem hann hefði smakkað á níutíu ára ævi sinni, ekki slæmur dómur það! 🙂

IMG_4291

IMG_4298

Botn:

 • 9 stk. eggjahvítur
 • 85 g sykur
 • 430 g flórsykur
 • 515 g möndlur

Ofn hitaður í 180 gráður. Eggjahvítur þeyttar og sykur sett rólega útí, stífþeytt. Möndlur maukaðar mjög smátt í matvinnsluvél, flórsykrinum blandað saman við. Þessu er síðan blandað varlega saman við stífþeytta marengsinn með sleikju. Sprautað á ofnplötu klædda bökunarpappír og bakað í ca. 12 mínútur við 180 gráður. Kælt áður en kremið er sett á.

Krem:

 • 240 g sykur
 • 200 ml vatn
 • 8 stk. eggjarauður
 • 180 g hvítir súkkulaðidropar
 • 500 g smjör, við stofuhita
 • 2 tsk vanillusykur
 • 1.5 tsk vanilludropar

Hjúpur:

 • Hvítir súkkulaðidropar

Sykur og vatn sett í pott og htiað upp í 116 gráður eða þar til sírópið fer aðeins að þykkna. Eggjarauður þeyttar til hálfs og þá er sírópinu hellt mjög varlega út í rauðurnar í mjórri bunu á meðan þeytingin er á miðlungshraða. Því næst er aukið við hraðann og þeytt í ca. 3-4 mínútur. Súkkulaðið er brætt yfir vatnsbaði. Á meðan er smjör (við stofuhita) bætt út í þeytinguna (best er að nota hendur) og síðan er súkkulaði og vanillu bætt út í. Hrært þar til myndast gott smjörkrem). Best er að nota hendur en það er hægt að nota spaðann á hrærivélinni og vinna rólega. Kreminu er sprautað á, eða því smurt, á botnana. Þá eru þær kældar í frysti í ca. 20 mínútur. Hvítt súkkulaði fyrir hjúpinn er brætt og sörunum (kremhliðinni) er dýft ofan í hjúpinn. Best er að geyma sörurnar í frysti og bera fram kaldar.

IMG_4294