Ananas- og tómatsalsa


Ananas- og tómatsalsa

Núna er frábærri helgi að ljúka. Eins og fylgjendur Eldhússagna á Instagram hafa séð þá erum við hjónin í Stokkhólmsferð yfir helgina. Við vorum viðstödd dásamlegt brúðkaup í gær. Veislan hefur hér um bil staðið yfir í sólarhring því þegar þetta er skrifað erum við á leiðinni í kampavínsmorgunverð með brúðhjónunum og gestum.

BrúðkaupÞað er alltaf svo gott að koma „heim“ til Stokkhólms og ég hefði gjarnan viljað vera aðeins lengur í borginni en við fljúgum heim í kvöld. Hér hefur verið dásamlegt veður og mér skilst að veðrið heima á Íslandi í dag sé álíka frábært. Það er því vel við hæfi að setja inn uppskrift af meðlæti með grillmat. Ég legg mig fram við að finna reglulega nýtt meðlæti með grillmatnum. Það vill nefnilega stundum verða þannig að maður festist í sama meðlætinu. Að þessu sinni bjó ég til salsa úr ferskum ananas, tómötum og kóríander, frábær og fersk blanda, þið verðið bara að prófa! Ég fékk lakkríssalt frá Saltverki og prófaði að nota það í þessa salsablöndu, það kom mjög skemmtilega út!

Uppskrift f. 6:

  • 1 ferskur ananas
  • 6 tómatar
  • gott knippi af fersku kóríander, ca. 20 g
  • 1 rautt chili aldin
  • ca. 2 msk hunang, fljótandi
  • 3 msk ólífuolía
  • salt (ég notaði lakkríssalt á hnífsoddi frá Saltverki)
  • ferskmalaður svartur pipar

IMG_0561

Ananansinn er afhýddur og skorin niður í bita. Tómatarnir eru skornir niður í bita og kóríander saxað fínt. Chili aldinið er fræhreinsað og saxað fínt. Öllu er svo blandað saman og smakkað til með salti, pipar og hunangi. Borið fram með grillmat.

IMG_0585

 

Grillaðar kjúklingabringur í úllalasósu


IMG_0583

Við eigum góð vinahjón í Grjótaþorpinu sem eru snillingar í eldhúsinu. Ég varð því mjög spennt þegar þau mæltu eindregið með sósunni hans Úlfars Finnbjörnssonar sem birtist uppskrift að í Fréttablaðinu um daginn. Ég prófaði að nota sósuna með grilluðu lambakjöti og hún var afar góð.

IMG_0592Með grillaða lambakjötinu bar ég fram æðislegan grillaðan beikonvafinn halloumi ost og gómsætt ananas/tómatsalsa

Það var hins vegar mikill afgangur af sósunni og ég lét því kjúklingabringur marínerast í sósunni. Daginn eftir grillaði ég svo kjúklinginn og bar afganginn af sósunni fram með honum. Sósan naut sín margfalt betur með kjúklingunum en lambinu fannst okkur, hún var dásamlega góð. Ósk var sérstaklega hrifin af þessari sósu, hún sagði bragðið vera alveg einstakt og nýtt. Ég mæli því eindregið með þessari sósu með kjúklingi, algjört hnossgæti! Ekki láta langan hráefnislista fæla ykkur frá, ég til dæmis átti allt hráefnið til heima.

IMG_0581Úllalasósan í fallegu Green gate skálinni frá Cup Company

Uppskrift:

  • 5 cm. bútur engiferrót, skræld
  • 1/2 -1 chili-aldin, fræhreinsað
  • 3-4 hvítlauksgeirar
  • 1 tsk. kóríanderfræ, má sleppa
  • 1 tsk. rósapipar, má sleppa
  • 1 tsk. milt karrí
  • 1 tsk paprikuduft
  • 2 msk. hunang
  • 2 msk. balsamedik
  • 3 msk. ostrusósa
  • 2 msk. tómatsósa
  • 2 msk. sætt sinnep
  • 2 msk. sérrí (ég sleppti því)
  • 2-3 dl. olía

IMG_0576

Setjið allt nema olíuna í matvinnsluvél og maukið vel. Hellið þá olíunni saman við í mjórri bunu og látið vélina ganga á meðan. Ég notaði sex kjúklingabringur lagði þær í maríneringu í rúmlega helminginn af sósunni í yfir nóttu. Það er þó alveg nóg að hafa hana bara stutt, 30-60 mínútur. Með kjúklingnum bar ég fram grillaða maísstöngla, grillaðan ferskan ananas með karrí, kúskús og salat.

IMG_0596Ég forsauð maísstönglana og grillaði svo, bar þá fram með smjöri og örlitlu salti – úff, ég var búin að gleyma því hvað maísstönglar eru sjúklega góðir! 🙂

IMG_0594

Karamellu marengsterta


Karamellu marengsterta

Í afmælisveislu pabba um daginn var mamma með svo góða marengstertu. Þegar ég fór að spyrjast fyrir um uppskriftina þá kom í ljós að þetta var uppskrift sem hún hafði fengið frá mér! Ég mundi þá allt í einu að þetta var terta sem ég gerði reglulega hér áður fyrr en hafði svo bara gleymt. Það vill nefnilega oft verða þannig með uppskriftir. Þar kemur þetta matarblogg sterkt inn! Hér set ég inn allar góðar uppskriftir sem ég prófa og því engin hætta á því að þær gleymist. Margengstertan góða sem ég hafði gleymt er nú dregin aftur fram í dagsljósið. Ég reyndar breytti uppskriftinni aðeins. Ég er búin að horfa grindaraugum á nýja Nóa kroppið með karamellubragði í verslunum. Ég sá í hendi mér að það myndi smellpassa í þessa köku sem það gerði auðvitað. Reyndar virðist það bara eiga að vera til tímabundið þannig að ef það fæst ekki þá er gamla góða Nóa kroppið líka afar gott í þessa tertu. Venjulega nota ég jarðarber og/eða bláber í rjómafyllinguna líka. Ég gerði það ekki í þetta sinn en ég mæli með því. Mér finnst tertan verða enn betri fyrir vikið og ferskari.

IMG_0652

Uppskrift:

Marengs:

  • 2-3 bollar Rice Krispies (eða Korn Flakes)
  • 2 dl sykur
  • 1 dl púðursykur
  • 4 eggjahvítur

Ofn hitaður í 120 gráður við blástur (ef baka á báða botnana samtímis) eða 130 gráður við undir- og yfirhita. Eggjahvítur, púðursykur og sykur er þeytt þar til marengsinn er orðinn stífur. Þá er Rice Krispies bætt varlega út í marengsinn með sleikju. Diskur eða kökuform sem er ca. 23 cm í þvermál er lagt á bökunarpappír og strikaður hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar. Marengsinum er skipt í tvennt og hann
settur á sitt hvorn hringinn. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða. Þá er marengsinn bakaður í 120°C (blástur) í heitum ofni í ca. 50 – 60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum.

IMG_0602

Hringur, ca. 23 cm í þvermál, gerður á bökunarpappír

IMG_0603

Marengsinum skipt í tvennt og hann settur á sitt hvorn hringinn

IMG_0605

Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða.

IMG_0608

Marengsinn bakaður í 120°C (blástur) í heitum ofni í ca. 50 – 60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum. 

Rjómafylling:

  • 5 dl rjómi
  • 200 g Nóa kropp með karamellubragði (eða þetta hefðbundna)
  • 1 askja fersk jarðarber skorin í bita og/eða bláber (má sleppa en ég mæli með því að hafa ber!)

Rjóminn er þeyttur og Nóa kroppinu ásamt berjunum er bætt út í rjómann. Blandan er svo sett á milli marengsbotnanna.

IMG_0612IMG_0619

Rolokrem:

  • ca 2 og 1/2 rúllur af Rolo (ég keypti 3 rúllur í pakka og skreytti tertuna með hálfu rúllunni sem eftir var)
  • 50 g suðusúkkulaði
  • örlítill rjómi til að þynna kremið með

Suðusúkkulaðið brotið niður í skál og Roloinu bætt út í. Brætt yfir vatnsbaði, ef þess þarf þá er hægt að þynna blönduna með dálítið af rjóma. Kreminu er svo hellt yfir tertuna. Það er fallegt að skreyta hana með jarðarberjum eða hindberjum, nokkrum niðurskornum Rolobitum og rifnu suðusúkkulaði. Tertan er geymd í ísskáp og er langbest daginn eftir þegar hún hefur fengið að brjóta sig.

IMG_0627

IMG_0643

Subway smákökur – Jóhanna Inga gestabloggar


Subway smákökur

Á nákvæmlega sama degi fyrir ári síðan sagði ég frá því í þessari færslu þegar Jóhanna Inga fór á matreiðslunámskeið með vinkonum sínum. Í ár var hún afar spennt að fara aftur á námskeiðið og lauk því í síðustu viku. Jóhanna var alveg jafn ánægð með námskeiðið eins og í fyrra og hefði gjarnan viljað vera lengur. Krakkarnir fá að vinna alveg sjálfstætt, þau gera daglega marga rétti úr vönduðu hráefni og fara eftir góðum uppskriftum.

JIE

Nokkrir girnilegir réttir sem Jóhanna Inga matreiddi

IMG_0740

Vinkonurnar Jóhanna Inga og Hrefna Rós að loknu matreiðslunámskeiði.

Í fyrra valdi fjölskyldan þessa berjaböku sem einn besta réttinn sem Jóhanna Inga gerði á námskeiðinu það sumarið. Í ár gerði Jóhanna Inga afar margt gott, meðal annars fiskrétt, mexíkóskan rétt, brauðbollur og fleira en við völdum smákökurnar sem hún bakaði, þær eru í anda vinsælu Subway smákakanna. Ofsalega góðar kökur og Jóhanna Inga segir að þær séu auðvelt að baka. 🙂

IMG_0479

Uppskrift:

  • 150 g smjör (mjúkt)
  • 2 1/3 dl púðursykur
  • 1/2 dl sykur
  • 1 pakki Royal búðingsduft – vanillu eða karamellu
  • 1 tsk vanilludropar
  • 2 egg
  • 5 dl hveiti
  • 1 tsk matarsódi
  • 150 g súkkulaðidropar eða M&M

Stillið ofninn á 180 gráður undir- og yfirhita. Hrærið vel saman smjöri, púðursykri, sykri, búðingsdufti og vanilludropum í hrærivél eða með rafmagnsþeytara. Bætið eggjum út í, einu í senn og hrærið vel á milli. Bætið hveitinu og matarsódanum út í og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Blandið að lokum súkkulaðidropunum eða M&M sælgætinu saman við með sleif. Búið til frekar stórar kökur með matskeið og setjið á pappírsklædda bökunarplötu. Bakið í 12-17 mínútur (minni kökur 8-10 mínútur). Varist að baka kökurnar lengi, þær eiga að vera seigar en ekki stökkar.

Subway smákökur

Grillaður beikonvafinn Halloumi ostur


IMG_0557

Uppskriftin sem ég ætla að setja inn í dag er af Halloumi osti en hann er hefðbundinn ostur frá Kýpur sem er líka vinsæll í Austurlöndum nær og í Grikklandi. Halloumi hefur hátt bræðslumark og hentar þvi vel til steikingar og grillunnar. Halloumi er hvítur og mjúkur með saltbragði, ekki ósvipaður mozzarrella. Þegar ég bjó í Svíþjóð þá notuðum við oft þennan ost, annað hvort grillaðan eða steiktan, en ostinn var auðvelt að nálgast í öllum matvöruverslunum í Svíþjóð. Hér á landi hefur hins vegar verið erfiðara að nálgast Halloumi. Hann hefur þó verið til í versluninni Tyrkneskur Bazar og hjá Búrinu. En ég sá hér á Lífsstílssíðu Sólveigar að nú er hægt að kaupa Halloumi í Bónus! Ég var fljót til að næla mér í einn og grillaði beikonvafinn Halloumi í kvöld og bar fram með grillmatnum, gómsætt!

Uppskrift

  • 1 Halloumi ostur (fæst í Bónus)
  • nokkrar beikonsneiðar
  • ítalskt kydd (blanda af kryddjurtum, t.d. rósmarín og timjan)
  • salt & pipar

IMG_0549

Osturinn er skorinn niður í passlega þykkar sneiðar. Ég náði 10 sneiðum úr einum osti. Hver sneið er krydduð með kryddjurtum, salti og pipar (ég notaði lítið salt þvi beikonið er salt). Þá er einni beikonsneið vafið þétt utan um hverja ostsneið. Grillað við meðalhita í ca. 5 mínútur á hvorri hlið.

IMG_0552 IMG_0556

Grillaður beikonvafinn Halloumi ostur og myndir af Instagram


IMG_0557

Ég hef ekki mikið verið í eldhúsinu undanfarið heldur hef ég notið góða veðursins í garðinum, á veitingastöðum og í veislum síðastliðna daga. Dásamlegt alveg hreint og eitt af því sem er svo skemmtilegt við sumarið þegar veðrið leikur við okkur. Ég prófaði tvo nýja veitingastaði nýverið, Steikhúsið og Kopar, frábærlega góður matur á báðum þessum stöðum. Ég hef einmitt sett inn myndir frá þessum veitingahúsaferðum á Instagram. Áður en ég eignaðist Iphone þá fannst mér svolítið leiðinlegt að geta ekki fylgst með hinum og þessum vinum, ættingjum og bloggurum á Instagram. Ég ætla því að setja inn hér á bloggið nokkrar myndir frá Eldhússögum á Instagram undanfarið fyrir þá sem ekki hafa aðgang þar.
IMG_0649

IMG_0666IMG_0714IMG_0691IMG_0697IMG_0602IMG_0731IMG_0739IMG_0740IMG_0750IMG_0749IMG_0759IMG_0766IMG_0767

Uppskriftin sem ég ætla að setja inn í dag er af Halloumi osti en hann er hefðbundinn ostur frá Kýpur sem er líka vinsæll í Austurlöndum nær og í Grikklandi. Halloumi hefur hátt bræðslumark og hentar þvi vel til steikingar og grillunnar. Halloumi er hvítur og mjúkur með saltbragði, ekki ósvipaður mozzarrella. Þegar ég bjó í Svíþjóð þá notuðum við oft þennan ost, annað hvort grillaðan eða steiktan, en ostinn var auðvelt að nálgast í öllum matvöruverslunum í Svíþjóð. Hér á landi hefur hins vegar verið erfiðara að nálgast Halloumi. Hann hefur þó verið til í versluninni Tyrkneskur Bazar og hjá Búrinu. En ég sá hér á Lífsstílssíðu Sólveigar að nú er hægt að kaupa Halloumi í Bónus! Ég var fljót til að næla mér í einn og grillaði beikonvafinn Halloumi í kvöld og bar fram með grillmatnum, gómsætt!

Uppskrift

  • 1 Halloumi ostur (fæst í Bónus)
  • nokkrar beikonsneiðar
  • ítalskt kydd (blanda af kryddjurtum, t.d. rósmarín og timjan)
  • salt & pipar

IMG_0549

Osturinn er skorinn niður í passlega þykkar sneiðar. Ég náði 10 sneiðum úr einum osti. Hver sneið er krydduð með kryddjurtum, salti og pipar (ég notaði lítið salt þvi beikonið er salt). Þá er einni beikonsneið vafið þétt utan um hverja ostsneið. Grillað við meðalhita í ca. 5 mínútur á hvorri hlið.

IMG_0552 IMG_0556

Lax með pecanhnetusalsa, blómkálsmús með chili og sojasmjörsósu


Lax með pecanhnetusalsa, blómkálsmús með chili og sojasmjörsósa

Mikið var nú dásamlegt að sjá aftur heiðan himinn og sól! Mér líður eins og að þetta hafi verið fyrsti sólardagurinn hér í Reykjavík í júní – sannarlega kominn tími til! Eftir vinnu í dag komst ég loksins í garðvinnuna en hún hefur setið á hakanum í rigningunni undanfarnar vikur. Á meðan ég rótaði í moldinni var ég að hugsa um kvöldmatinn. Veðrið bíður jú upp á að grilla úti. Ég ákvað því að koma við í fiskbúðinni og skoða úrvalið. Þegar þangað var komið leist mér best á laxinn. Allt í einu mundi ég eftir því að ég ætlaði alltaf að prófa að nota lax í þorskuppskriftinni með pistasíusalsanu, en það er ein af vinsælustu uppskriftunum hér á síðunni. Ég ákvað því að nota þau hráefni sem ég átti til og gera aðra útfærslu af þorskuppskriftinni góðu. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að grilla laxinn en ákvað að setja hann frekar í ofn til þess að hnetusalsað myndi brúnast. Í stað þess að gera sætkartöflumús gerði ég blómkálsmús með chili og Philadelphiaosti með sweet chili, rosalega var hún góð! Sojasmjörsósan er algjört sælgæti og lyftir öllum fiski á annað plan. Í stað þess að nota pistasíur notaði ég pecanhnetur sem komu afar vel út. Ef þið hafið prófað þorskuppskriftina og líkaði vel þá hvet ég ykkur til þess að prófa þetta hnossgæti!

Blómkálsmús

  • 1 stór blómkálshaus
  • 1/2 rautt chili, fræhreinsað
  • ca. 1 msk smjör
  • 1/2 líter nýmjólk (líka hægt að nota rjóma eða blanda saman mjólk og rjóma)
  •  ca. 100 g Philadelphia ostur með sweet chili
  • salt og pipar
  • chili krydd (ég nota kryddið Chili Explosion frá Santa Maria, það er með chili, papriku og sólþurrkuðum tómötum)

IMG_0505

Blómkálið er skorið niður í passlega stór blóm. Chili er klofið í tvennt og fræhreinsað. Mjólkin er sett í pottt og blómkálið ásamt chilinu er soðið í mjólkinni við vægan hita í ca. 10 mínútur eða þar til blómkálið er orðið nægilega vel soðið til þess að hægt sé að stappa það með kartöflustöppu. Þá er mjólkinni hellt af og blómkálið  stappað fínt með smjöri, philadelphia ostinum og bragðbætt með salti, pipar og vel af chili kryddi (það gefur svo gott bragð af annars bragðmilda blómkálinu).

IMG_0508

Lax með pecanhnetusalsa:
  • ca  800 g lax
  • salt og pipar (ég notaði blóðbergs salt frá Saltverki)
  • 3-4 msk pecanhnetur, saxaðar meðalgróft
  • 2-3 msk sítrónusafi og rifið hýði af 1/2 sítrónu
  • 1 msk olífuolía
  • fersk kóríander eða steinselja, söxuð

Ofninn hitaður í 220 gráður. Laxinn er lagður á ofnplötu klædda bökunarpappír eða í eldfast mót. Kryddað með salti og pipar. Því næst er blandað saman í skál: pecanhnetum, sítrónusafa, sítrónuhýði, steinselju eða kóríander og ólífuolíu. Blöndunni er dreift yfir fiskinn. Bakað í miðjum ofni við 220 gráður í ca 12-15 mínútur eða þar til fiskurinn er fulleldaður. Gætið þess að ofelda hann ekki.

IMG_0489

 Sojasmjörsósa

  • 150 g smjör
  • 2 skarlottulaukur (hægt að nota 1/2 rauðlauk), saxaður fínt
  • 2 hvítlauksrif, söxuð fínt
  • 1 tsk rautt chili, saxað fínt
  • 4-5 msk sojasósa
  • 2 msk steinselja, söxuð smátt

IMG_0500

Svona lítur brúnað smjör út, froðuna þarf að veiða af því

Smjör brætt í potti og látið krauma fremur vægt í ca 15 mínútur þannig að smjörið verði brúnt (þetta kallast brúnað smjör). Froðan veidd af smjörinu. Lauk, hvítlauk, sojasósu, chili og steinselju blandað saman í skál og blandað út í smjörið rétt áður en sósan er borin fram.

IMG_0510

IMG_0517

Njótið helst með köldu hvítvínsglasi! 🙂

IMG_0524

Pepperóníbrauð


Pepperóníbrauð

Núna eru krakkarnir komnir í sumarfrí og það er alltaf sami höfuðverkurinn að finna eitthvað  handa þeim að borða í hádeginu. Yngsta barnið er einstaklega kresið og það þýðir lítið að bjóða henni bara ristað brauð, jógúrt eða skyr í hádeginu, hún er lítið hrifin af því. Sá gállinn er á henni að ef að henni líkar ekki maturinn þá sleppir hún því bara að borða þrátt fyrir svengd. Ég er því alltaf að reyna finna eitthvað gott til þess að eiga í hádeginu fyrir krakkana. Ef ég er heima þá er fljótlegt að búa til ostapasta og það er afar vinsælt.

IMG_1133

Ekki finnst þeim verra að fá crepes með eggi, skinku og osti.

Collages1-001

Eða pastasalat með pepperóní. 

IMG_3953

Í afmælinu hennar mömmu bauð hún upp á pepperóní brauð sem er afar vinsælt hjá krökkunum og gott að geta gripið til í frystinum. Þessi brauð passa líka vel á veisluborðið í barnaafmælum eða til að taka með í ferðalagið. Krakkarnir á heimilinu mæla eindregið með þessu brauði! 🙂

Uppskrift (Brauð og kökubók Hagkaups):

  • 320 ml mjólk
  • 600 g hveiti (hægt að skipta helmingnum út fyrir heilhveiti)
  • 20 g salt
  • 20 sykur
  • 60 smjör
  • 1 pk þurrger

Fylling:

  • 400 g beikonsmurostur
  • 130 g pepperóní, saxað
  • rifinn mozzarellaostur

Setjið allt saman í hrærivélaskál og vinnið rólega í 4 mínútur með króknum, vinnið svo deigið á miðjuhraða í 5 mínútur. Mótið deigið í kúlu og látið það hefast undir rökum klút í ca. 45 mínútur. Fletjið þá deigið út með kökukefli 30 cm x 70 cm, smyrjið ostinum á miðjuna á deginu og setjið pepperóní yfir ostinn. Brjótið saman deigið, fyrst annan helminginn yfir ostafyllinguna, svo hinn ofan á þann helming (deigið verður þannig þrefalt). Snúið deiginu við, sárið niður. Skerið deigið niður í tígla og leggið á smjörpappír (ca. 16 stk). Látið deigið hefast í 45 mínútur eða þar til það hefur tvöfaldast að umfangi. Penslið deigið með vatni og setjið mozzarellaostinn yfir. Bakið við 220 gráður í um það bil 18 mínútur eða þar til það er kominn fallegur gylltur litur á brauðin.

IMG_9926

Quesadillas


Quesadillas

Núna er ég komin í sumarfrí frá aðalvinnunni minni en þá hittist þannig á að það er brjálað að gera í aukavinnunni minni. Síðastliðinn föstudag tók ég fjórtán tíma vinnutörn og henni er ekki lokið enn. Það dregst því að ég geti notið sumarfríisins. En um helgina var ég allavega í fríi og gerði margt skemmtilegt. Í gær fórum við í glæsilega fermingaveislu og seinna um daginn var Símon „litli“ bróðir minn með útskriftarveislu. Þessi snillingur er kominn með meistaragráðu í rafmagnsverkfræði.

Simon

Klára og myndarlega verkfræðingaparið, Bryndís og Símon og girnilegar veitingar í veislunni þeirra.

Þar með erum við öll þrjú systkinin orðnir meistarar! 😉 Guðjón bróðir er nefnilega með meistaragráðu í hugbúnaðarverkfræði og ég í bókasafns- og upplýsingafræði. Ég gerði einn rétt fyrir útskriftarveisluna hjá Símoni bróður, quesadillas. Þessar fylltu mexíkósku pönnukökur eru afar sniðugar í veislur og partý. Það er hægt að gera svo margar mismunandi fyllingar, það er fljótlegt að útbúa þær og síðast en ekki síst eru þær afar bragðgóðar.

Simon1

Ég prófaði annars vegar að leggja eina pönnuköku ofan á aðra og hinsvegar að setja fyllingu öðrum megin á pönnukönuna og loka henni með því að brjóta hana saman. Hið síðarnefnda var einfaldara því þá komust fleiri pönnukökur á bökunarplötuna, eins helst fyllingin betur í pönnukökunni. Gott er að bera quesadillurnar fram á meðan þær eru enn heitar en þær eru samt ekkert síðri orðnar kaldar.

IMG_0390Það er hægt að leggja tvær tortillur saman og skera síðan í átta bita en mér fannst best að brjóta eina saman og skera hana svo í fjóra bita. 

Ég gerði nokkrar tegundir af quesadillas að þessu sinni. Sumt hafði ég skipulagt fyrirfram, annað kom að sjálfu sér útfrá því sem ég átti til í ísskápnum. Hér gef ég uppskriftir að helstu tegundunum.

IMG_0680

Quesadillur í bígerð – tekið af Instagram

Quesadillas með gullosti og mango chutney

  • Gullostur
  • mango chutney
  • tortillas pönnukökur

IMG_0382Hér setti ég fyllingu á alla pönnukökuna og svo aðra yfir

Pönnukakan er smurð með mango chutney, gott að skera mangóbitana í minni bita. Því næst er Gullosturinn skorinn í sneiðar og þeim raðað fremur þétt á annan helminginn á pönnukökunni. Þá er henni lokað og hún sett á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Hitað í ofni við 200 gráður undir- og yfirhita (190 gráður blástur). Álpappír er lagður yfir pönnukökurnar fyrstu 5 mínúturnar. Þá er álpappírinn tekinn af og bakað áfram í 5-6 mínútur. Quesadillunum er síðan leyft að kólna aðeins, þá eru þær skornar í fernt.

IMG_0427

Quesadillas með mozzarella, basiliku og tómötum

  • Mozzarellaostur (kúlan í bláu pokunum)
  • fersk basilika
  • tómatar
  • svartur grófmalaður pipar
  • tortillas pönnukökur

IMG_0466

Mozzarellakúlan er sneidd í fremur þunnar sneiðar og raðað á annan helming pönnukökunnar. Þá eru tómatarnir skornir í tvennt og kjötið hreinsað innan úr þeim (það er ekki notað, vökvinn verður of mikill). Það sem eftir verður er skorið í lita bita og dreift yfir mozzarella ostinn. Þá er basilikan söxuð og dreift yfir að lokum ásamt dálitlum pipar. Þvi næst er pönnukökunni lokað og hún sett á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Hitað í ofni við 200 gráður undir- og yfirhita (190 gráður blástur). Álpappír er lagður yfir pönnukökurnar fyrstu 5 mínúturnar. Þá er álpappírinn tekinn af og bakað áfram í 5-6 mínútur. Quesadillunum er síðan leyft að kólna aðeins, þá eru þær skornar í fernt.

Quesadillas með steiktum sveppum, steinselju, rifnum mozzarellaosti og parmesan

  • sveppir
  • grænmetiskraftur
  • salt og svartur pipar
  • fersk blaðasteinselja, söxuð smátt
  • smjör til steikingar
  • rifinn mozzarellaostur eða gratínostur
  • ferskur parmesan ostur, rifinn
  • tortilla pönnukökur

IMG_0393IMG_0395

Sveppirnir eru skornir í sneiðar og steiktir upp úr smjör á pönnu, kryddaðir með salti, pipar, ferskri steinselju og grænmetiskrafti. Þegar sveppirnir eru mátulega steiktir eru þeir veiddir af pönnunni og fitan látin leka af þeim. Því næst er þeim dreift yfir annan helminginn á pönnukökunni. Rifnum mozzarellaosti og parmesan osti er dreift yfir sveppina. Þá er pönnukökunni lokað og hún sett á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Hitað í ofni við 200 gráður undir- og yfirhita (190 gráður blástur). Álpappír er lagður yfir pönnukökurnar fyrstu 5 mínúturnar. Þá er álpappírinn tekinn af og bakað áfram í 5-6 mínútur. Quesadillunum er síðan leyft að kólna aðeins, þá eru þær skornar í fernt.

IMG_0406

Quesadillas með pestó, skinku, parmesan, basiliku og rifnum mossarellaosti

  • Pestó að eigin vali, ég notaði pestó með valhnetum og papriku frá Jamie Oliver (fæst allavega í Krónunni) – má líka sleppa og nota bara neðangreint hráefni
  • reykt skinka
  • parmesan ostur, rifinn
  • rifinn mozzarella ostur eða gratínostur
  • tortilla pönnukökur
  • ferskt basilika (eða blaðasteinselja), saxað smátt

IMG_0399

Pönnukakan er smurð með pestóinu (má líka sleppa). Því næst er skinkan skorin í bita og henni raðað fremur þétt á annan helminginn á pönnukökunni. Að lokum er rifnum mozzarellaosti og rifnum parmesan osti ásamt basiliku (eða blaðasteinselju) dreift yfir skinkuna. Þá er pönnukökunni lokað og hún sett á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Hitað í ofni við 200 gráður undir- og yfirhita (190 gráður blástur). Álpappír er lagður yfir pönnukökurnar fyrstu 5 mínúturnar. Þá er álpappírinn tekinn af og bakað áfram í 5-6 mínútur. Quesadillunum er síðan leyft að kólna aðeins, þá eru þær skornar í fernt.

IMG_0403

Quesadillas með fetaosti, svörtum ólífum og chili

  • 1/2 rautt chili
  • ca 100 gr mozzarella ostur, rifinn
  • 50 g fetaostur
  • ca. 12 svartar ólífur
  • ca. 1 1/2 msk ferskt kóríander, saxað
  • 2 -3 tortillur

IMG_0387

Þar sem búið er til mauk úr þessari fyllingu gef ég upp nákvæmari mælieiningar á hráefnunum hér en fyrir hinar fyllingarnar. Fræhreinsið og saxið chili-aldinið og setjið það í matvinnsluvél ásamt mozzarella osti, fetaosti, ólífum og kóríander og látið vélina ganga þar til allt er orðið að grófgerðu mauki. Einnig má saxa allt smátt og hræra saman í skál. Ostamaukinu er skipt jafnt á tvær eða þrjár tortillur og þær lagðar saman. Tortilla pönnukökurnar eru settar á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Hitað í ofni við 200 gráður undir- og yfirhita (190 gráður blástur). Álpappír er lagður yfir pönnukökurnar fyrstu 5 mínúturnar. Þá er álpappírinn tekinn af og bakað áfram í 5-6 mínútur. Quesadillunum er síðan leyft að kólna aðeins, þá eru þær skornar í fernt.

IMG_0412

 

Súkkulaði-bananavöfflur


IMG_0368

Mér finnst flest allt þar sem súkkulaði er sameinað með banönum afskaplega gott. Ég hef sett inn hingað á síðuna nokkrar slíkar uppskriftir sem eru allar í miklu uppáhaldi.

Frönsku pönnukökurnar, crepes, með Nutella og banönum eru til dæmis hættulega góðar.

IMG_3736

Þessi súkkulaði- og bananakaka er líklega uppáhaldskakan mín hér á Eldhússögum. Ef þið hafið ekki prófað hana enn þá eruð þið að missa af miklu!

IMG_9530

Banankakan með súkkulaði lætur ekki mikið yfir sér á mynd en er sjúklega góð.

IMG_0153

Þessi bananakaka hefur verið í uppáhaldi á heimilinu í 20 ár og eina kakan sem eiginmaðurinn bakar reglulega.

IMG_2259

Hér er svo súkkulaðikaka með banönum og sykurpúðum, algjört hnossgæti.

IMG_1013

Hérna er reyndar banana- og karamellubaka en hún er svo dásamlega góð.

IMG_3186

Í dag bæti ég í safnið enn einni súkkulaði/bananauppskriftinni sem sló svo sannarlega í gegn hér heima! Ég fór nefnilega að hugsa um leiðir til þess að nota skemmtilegu vöffluformin mín á fleiri vegu en að baka bara í þeim hefðbundnar vöfflur. Þessi form fást í Kokku. Hér setti ég inn uppskrift þar sem ég bakaði hefðbundar vöfflur í formunum.

vöfflur

Mér datt í hug að prófa að búa til vöfflur með súkkulaði og banönunum, nokkuð sem reyndist snilldarhugmynd. Ég prófaði mig áfram og fyrstu vöfflurnar reyndust óætar! Ég notaði of mikið kakó og of lítinn sykur, þær urðu alltof rammar. En eftir að hafa prófað mig áfram með deigið datt ég niður á sjúklega góðar vöfflur, þessar verðið þið bara að prófa! Frábær eftirréttur eða með kaffinu til hátíðarbrigða. Ég prófaði bæði að baka þær í vöffluformunum mínum í ofninum en líka í belgíska vöfflujárninu og hvor tveggja kom álíka vel út.

IMG_0353IMG_0361IMG_0375

Svona komu vöfflurnar úr belgíska vöfflujárninu

Það er því ekkert því til fyrirstöðu að baka þessar vöfflur í hefðbundu vöfflujárni ef þið eigið ekki formin. Ég mæli hins vegar mikið með formunum úr Kokku, þá er hægt að baka allar vöfflurnar í einu og bera þær fram sjóðandi heitar samtímis. Snilld til dæmis sem eftirréttur fyrir marga.

Súkkulaði-bananavöfflur

Uppskrift:

  • 2 dl hveiti
  • 2 dl kartöflumjöl
  • 1 msk kakó
  • 1 msk vanillusykur
  • 1/2 dl sykur
  • 1 tsk lyftiduft
  • 3 dl mjölk
  • 2 egg
  • 100 g smjör, brætt
  • 2 bananar, stappaðir

Þurrefnunum blandað saman í skál. Þá er öðru egginu og helmingnum af mjólkinni blandað út í. Því næst er hinu egginu, restinni af mjólkinni, brædda smjörinu og banönunum bætt út í og hrært með písk þar til deigið er slétt. Bakað í vöfflujárni og vöfflurnar bornar fram heitar.

Ef notuð eru vöffluform er ofn hitaður í 220 gráður við undir- og yfirhita. Deiginu er hellt í formin og sett inn í ofn í 7 mínútur. Því næst eru formin tekin úr ofninum og vöfflunum hvolft á bökunarplötu. Hitað í ofninum í 4-5 mínútur til viðbótar.

IMG_0349

Vöfflurnar er hægt að bera fram með niðursneiddum banönum og sírópi, ís og karamellusósu, þeyttum rjóma og Nutella sósu eða hverju því sem hugurinn girnist.

IMG_0379