Ofnbakaður lax með klettasalati og fetaosti


IMG_1130

Mér finnst fátt betra en ferskur lax og oftast er hann bestur þegar hann er útbúinn á sem einfaldasta máta. Þessi uppskrift er bæði fljótleg og einstaklega ljúffeng. Ég mæli með því að þið prófið! 🙂

Uppskrift f. 4

Lax

  • 800 g lax
  • 50 g klettasalat
  • 3 msk olífuolía
  • salt & pipar
  • chiliflögur
  • 150 g fetaostur (kubbur – ekki með olíu)
  • 8 kartöflur

Dillsósa:

  • 1 dós sýrður rjómi (180 g)
  • ferskt dill (ca 15 g)
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • salt & pipar

IMG_1105

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Kartöflur eru skornar í báta, velt upp úr salti og pipar, þær lagðar á annan helming ofnplötu (klædda bökunarpappír) og hún sett inn í ofn í um það bil 15 mínútur. Á meðan er laxinn er skorinn í 4 bita. Klettasalatið er saxað gróft og blandað saman við ólífuolíu, salt, pipar og chiliflögur. Þegar kartöflurnar eru teknar úr ofninum eru laxabitarnir lagðir á hinn helming ofnplötunnar. Klettasalatsblöndunni er dreift yfir laxabitana og því næst er fetaosturinn mulinn yfir. Ofnplatan er sett aftur inn í ofn í um það bil 15 mínútur eða þar til laxinn og kartöflurnar eru eldaðar í gegn. Borið fram með grænmeti (ég steikti sveppi, brokkolí og kokteiltómata upp úr hvítlaukssmjöri) og dillsósu.

Dillsósa: Dillið er saxað smátt og hrært saman sýrða rjómann ásamt hvítlauki og kryddi.

IMG_1125

 

Lax með pecanhnetusalsa, blómkálsmús með chili og sojasmjörsósu


Lax með pecanhnetusalsa, blómkálsmús með chili og sojasmjörsósa

Mikið var nú dásamlegt að sjá aftur heiðan himinn og sól! Mér líður eins og að þetta hafi verið fyrsti sólardagurinn hér í Reykjavík í júní – sannarlega kominn tími til! Eftir vinnu í dag komst ég loksins í garðvinnuna en hún hefur setið á hakanum í rigningunni undanfarnar vikur. Á meðan ég rótaði í moldinni var ég að hugsa um kvöldmatinn. Veðrið bíður jú upp á að grilla úti. Ég ákvað því að koma við í fiskbúðinni og skoða úrvalið. Þegar þangað var komið leist mér best á laxinn. Allt í einu mundi ég eftir því að ég ætlaði alltaf að prófa að nota lax í þorskuppskriftinni með pistasíusalsanu, en það er ein af vinsælustu uppskriftunum hér á síðunni. Ég ákvað því að nota þau hráefni sem ég átti til og gera aðra útfærslu af þorskuppskriftinni góðu. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að grilla laxinn en ákvað að setja hann frekar í ofn til þess að hnetusalsað myndi brúnast. Í stað þess að gera sætkartöflumús gerði ég blómkálsmús með chili og Philadelphiaosti með sweet chili, rosalega var hún góð! Sojasmjörsósan er algjört sælgæti og lyftir öllum fiski á annað plan. Í stað þess að nota pistasíur notaði ég pecanhnetur sem komu afar vel út. Ef þið hafið prófað þorskuppskriftina og líkaði vel þá hvet ég ykkur til þess að prófa þetta hnossgæti!

Blómkálsmús

  • 1 stór blómkálshaus
  • 1/2 rautt chili, fræhreinsað
  • ca. 1 msk smjör
  • 1/2 líter nýmjólk (líka hægt að nota rjóma eða blanda saman mjólk og rjóma)
  •  ca. 100 g Philadelphia ostur með sweet chili
  • salt og pipar
  • chili krydd (ég nota kryddið Chili Explosion frá Santa Maria, það er með chili, papriku og sólþurrkuðum tómötum)

IMG_0505

Blómkálið er skorið niður í passlega stór blóm. Chili er klofið í tvennt og fræhreinsað. Mjólkin er sett í pottt og blómkálið ásamt chilinu er soðið í mjólkinni við vægan hita í ca. 10 mínútur eða þar til blómkálið er orðið nægilega vel soðið til þess að hægt sé að stappa það með kartöflustöppu. Þá er mjólkinni hellt af og blómkálið  stappað fínt með smjöri, philadelphia ostinum og bragðbætt með salti, pipar og vel af chili kryddi (það gefur svo gott bragð af annars bragðmilda blómkálinu).

IMG_0508

Lax með pecanhnetusalsa:
  • ca  800 g lax
  • salt og pipar (ég notaði blóðbergs salt frá Saltverki)
  • 3-4 msk pecanhnetur, saxaðar meðalgróft
  • 2-3 msk sítrónusafi og rifið hýði af 1/2 sítrónu
  • 1 msk olífuolía
  • fersk kóríander eða steinselja, söxuð

Ofninn hitaður í 220 gráður. Laxinn er lagður á ofnplötu klædda bökunarpappír eða í eldfast mót. Kryddað með salti og pipar. Því næst er blandað saman í skál: pecanhnetum, sítrónusafa, sítrónuhýði, steinselju eða kóríander og ólífuolíu. Blöndunni er dreift yfir fiskinn. Bakað í miðjum ofni við 220 gráður í ca 12-15 mínútur eða þar til fiskurinn er fulleldaður. Gætið þess að ofelda hann ekki.

IMG_0489

 Sojasmjörsósa

  • 150 g smjör
  • 2 skarlottulaukur (hægt að nota 1/2 rauðlauk), saxaður fínt
  • 2 hvítlauksrif, söxuð fínt
  • 1 tsk rautt chili, saxað fínt
  • 4-5 msk sojasósa
  • 2 msk steinselja, söxuð smátt

IMG_0500

Svona lítur brúnað smjör út, froðuna þarf að veiða af því

Smjör brætt í potti og látið krauma fremur vægt í ca 15 mínútur þannig að smjörið verði brúnt (þetta kallast brúnað smjör). Froðan veidd af smjörinu. Lauk, hvítlauk, sojasósu, chili og steinselju blandað saman í skál og blandað út í smjörið rétt áður en sósan er borin fram.

IMG_0510

IMG_0517

Njótið helst með köldu hvítvínsglasi! 🙂

IMG_0524

Ofnbakaður lax á spínatbeði með sætum kartöflum


IMG_8722

Ég á litið uppskriftahefti sem Kvennakórinn Léttsveit Reykjavíkur gaf út en meðlimir kórsins gefa allir upp eina uppskrift í heftinu. Þar á meðal er að finna afskaplega góða laxauppskrift. Þetta er eiginlega með bestu laxauppskriftum sem ég hef prófað. Þannig að ef ykkur líkar lax og/eða fiskur þá er þetta klárlega réttur sem þið bara verðið að prófa! Ég keypti lax að þessu sinni hjá Fiskikónginum og hann var ofsalega góður. Núna er tilboð hjá Fiskikónginum, hann selur ýmsar tegundir fisks (ekki lax þó) á aðeins 1199 krónur kílóið sem er ótrúlega gott verð. Ég keypti því líka þorskhnakka á tilboði og hlakka til að elda eitthvað spennandi úr þeim á morgun.

Í kvöldfréttunum var frétt um málþing sem snérist um matarleifar og sóun. Ég hef alltaf nýtt mat vel og hendi eiginlega aldrei mat. Reyndar þá erum við líka svo mörg í fjölskyldunni að það eru alltaf einhver börn svöng, það stuðlar að góðri nýtingu matarins! Ísskápshurðin er allavega klárlega sú hurð sem oftast er opnuð á heimilinu! 🙂 Þegar við bjuggum í Stokkhólmi tókum við hjónin alltaf mat með okkur í vinnuna/skóla. Í dag eru það elstu krakkarnir sem eru dugleg að taka með sér afgang í skóla og vinnu. Ég eldaði extra mikið af laxinum í kvöld og það náðist því afgangur fyrir alla fjölskyldumeðlimi (og einn auka sem býr hjá okkur þessa dagana) öllum til mikillar gleði þar sem að laxarétturinn sló í gegn. Já og miðar eru algengir í ísskápnum okkar! Sumir fjölskyldumeðlimir eru búnir að eigna sér hillur, skúffur og slíkt í ísskápnum, þar er maturinn „off limits“. En ef matur er á sameiginlegu svæði þá þarf að merkja hann ef maður vill vera viss um að ganga að honum vísum! 😉 Það er hins vegar bara ein regla sem snýr að mér. Ef einhver finnur súkkulaði í eldhúsinu þá eru 99% líkur á því að ég eigi það! Það má því ALDREI borða súkkulaði án þess að spyrja mig fyrst, þetta gildir bæði um lítil og uppkomin börn sem og eiginmann! 🙂

IMG_8729

Uppskrift:

  • 2 msk ólífuolía
  • 200 g ferskt spínat
  • 700 g laxaflök
  • salt & pipar
  • 1 sæt kartafla (ca. 400 g), rifin gróft
  • 3 gulrætur, rifnar gróft
  • 2 dl kókosmjólk
  • 1 tsk karrímauk
  • 1 msk fiskisósa (fish sauce)
  • 1/2 límóna (lime), safinn
  • 1 tsk hrásykur (eða sykur)

IMG_8715

Ofn er hitaður í 200 gráður, undir- og yfirhita. Ólífuolían er smurð á botninn á stóru eldföstu móti og spínatið lagt í botninn. Laxinn er roðflettur og beinhreinsaður, skorinn í hæfilega stór stykki og þau lögð ofan á spínatið. Þá er laxinn saltaður og pipraður vel. Því næst er sæta kartaflan flysjuð og rifinn gróft, sama er gert við gulræturnar. Þessu er blandað saman og dreift yfir laxinn. Þá er kókosmjólk, karrímauki, fiskisósu, límónusafa og hrásykri blandað saman í skál og hellt yfir sætukartöflurnar/gulræturnar. Bakað í ofni við 200 gráður í um það bil 30 mínútur eða þar til fiskurinn er mátulega eldaður. Borið fram með hrísgrjónum og klettasalati (eða öðru fersku salati).

IMG_8725

Límónumarineruð laxaspjót með mangó- og avókadósalsa


Ég eldaði þennan laxarétt í fyrsta sinn í fyrradag. Ég vissi svo sem að hann hlyti að vera góður þar sem að uppistaðan í réttinum eru nokkur af uppáhaldshráefnunum mínum, lax, mangó og avókadó. En vá hvað þetta er bragðgóður, léttur og ljúffengur réttur, þið bara verðið að prófa! Mikilvægt er að vera með vel þroskað mangó og avókadó, ég skrifaði ráð hér hvernig hægt er að hraða fyrir þroska þeirra. Ég átti avókadó sem ég hafði geymt á þennan hátt og var orðið rétt þroskað. Síðan var ég svo heppin að finna fullkomlega þroskað mangó í Nettó. Ég keypti síðan ljúffengan lax hjá Fiskbúð Hólmgeirs í Mjóddinni en ég kaupi allan fisk af þeim. Þetta er ekki erfiður réttur að útbúa og hann er fljótlegur, það þarf bara að gefa sér tíma fyrir mareneringuna. Þessi uppskrift dugir fyrir þrjá sem aðalréttur en fyrir sex sem forréttur. Ég var með hann í aðalrétt og bar fram með honum naanbrauð með smjöri og salti, uppskriftina er að finna hér.

Límónumarineruð laxaspjót

  • 900 gr. ferskur lax, skorinn í teninga (ca 2,5 x 2,5 cm)
  • 1/2 dl ólífuolía
  • 2 hvítlauksrif, saxað smátt
  • 1/2 límóna (lime), safi og börkur
  • 1/4 tsk sykur
  • salt og pipar
  • kóríander, saxað smátt (hægt að nota flatblaða steinselju í stað kóríanders)

Blandið saman hráefnunum fyrir mareneringuna. Laxinn skorinn í eins jafna teninga (ca. 2.5 cm x 2.5 cm) og hægt er og hann settur í plastpoka. Mareneringunni helt yfir og laxinum velt varlega upp úr henni, geymið í ísskáp í minnst einn tíma, lengur ef hægt er.

Þrír til fimm laxateningar þræddir upp á grillspjót. Ef þið notið tréspjót, leggið þá spjótið í bleyti í ca. hálftíma fyrir notkun til þess að þau brenni ekki. Grillið spjótinn á meðalhita þar til þau eru tilbúin. Reynið að snúa þeim sjaldan til að koma í veg fyrir að laxinn losni af spjótunum. Það þarf að leyfa spjótunum að grillast vel í byrjun áður en þeim er snúið fyrst, þá er lítið mál að snúa þeim eftir það.

Mangó- og avókadósalsa

Á meðan laxinn er að marinerast er salsað útbúið:

  • 1 stórt mangó, skorið í teninga
  • 2 avókadó, skornir í teninga
  • 1/2-1 rauðlaukur, fínsaxaður
  • 1/2-1 rautt chili, kjarnhreinsað og fínsaxað
  • 1/2 límóna (lime)
  • 2 msk góð ólífuolía
  • 1 msk hvítvínsedik
  • salt og pipar
  • ferskt kóríander, saxað (hægt að nota flatblaða steinselju í stað kóríanders)

Mangó, avókadó og lauk blandað varlega saman. Chili bætt við ásamt safanum úr límónunni, ólífuolíu og hvítvínsediki. Kryddið með salt, pipar og kóríander og blandið öllu varlega saman. Geymið í ísskáp.

Berið fram grilluðu laxaspjótin á mangó- og avókadósalsanu, kreystið smá límónusafa yfir og njótið gjarnan með vínsglasi!