Grillaður lax með kryddjurtamaríneringu og klettasalatssósu


IMG_9833

Mér finnst lax ákaflega góður. Það liggur við að mér finnist hver einasti laxaréttur vera „sá besti sem ég hef bragðað“! En ég held að það sé vegna þess að það er varla hægt að klúðra svona góðu hráefni eins og laxinn er. Að þessu sinni grillaði ég laxinn með einkar góðri maríneringu og gerði með honum ofsalega góða klettasalatssósu. Þessa klettasalatssósu væri einnig gott að nota með til dæmis grilluðum kjúklingi. Ég grillaði imagesgrænmeti með laxinum, sætar kartöflur, gulrætur og blómkál. Grænmetið skar ég niður í bita, velti því upp úr ólífuolíu, góðum kryddum og grillaði í snilldar grillbakkanum frá Weber. Ég mæli svo mikið með þessum grillbakka. Hér um alltaf þegar ég grilla, set ég eitthvað grænmeti í bakkann, það slær ekkert meðlæti grilluðu grænmeti við! Ég hef séð þennan grillbakka ódýrastan hjá Bauhaus.

Ég fékk um daginn sendingu frá Saltverk Reykjaness.

IMG_9846

Fyrirtækið framleiðir vestfirskt kristalsjávarsalt sem eru stórar og stökkar saltflögur. Saltið er unnið með aldagamalli íslenskri aðferð sem stunduð var í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp á 18.öld. Frábært salt sem ég mæli sannarlega með. Það var svo spennandi að ég fékk líka prufur af nýju bragðbættu Saltverks-salti sem er ekki enn komið á markaðinn. Meðal annars lakkríssalti og blóðbergssalti. Ég er búin að vera að þefa og smakka á saltinu og reyna að átta mig á hvernig best væri að nota það. Einna spenntust er ég að finna góða leið til þess að nota lakkríssaltið! En ég notaði blóðbergsaltið í maríneringuna á laxinn og það kom afar vel út.

IMG_9844Uppskrift:

800 g laxaflak

Marínering:

  • 1 dl fínsöxuð blaðasteinselja (eða kóríander)
  • 1 límóna (lime), hýði fínrifið og safinn
  • 4 hvítlauksrif, fínsöxuð
  • 2 msk ólífuolía
  • salt (ég notaði blóðbergssalt frá Saltverki) og pipar

IMG_9826

Hráefninu í maríneringuna er hrært saman. Laxinn er lagður á þar til gerða grillgrind eða einnota grillbakka. Maríneringunni er dreif fyrir laxinn og hann grillaður við meðalhita í um það bil 10 mínútur eða þar til hann er eldaður í gegn – það þarf að gæta þess að ofelda hann ekki. Borið fram með grilluðu grænmeti og klettasalatssósu.

IMG_9832

Klettasalatssósa:

  • 2 dl sýrður rjómi
  • ca. 2 stórar lúkur klettasalat
  • 2 hvítlauksrif
  • ½ dl furuhnetur
  • 1 dl fínrifinn parmesanostur
  • salt och grófmalaður svartur pipar

Öllu blandað saman í matvinnsluvél og borið fram með fisknum.

IMG_9836

Ofnbakaður lax á spínatbeði með sætum kartöflum


IMG_8722

Ég á litið uppskriftahefti sem Kvennakórinn Léttsveit Reykjavíkur gaf út en meðlimir kórsins gefa allir upp eina uppskrift í heftinu. Þar á meðal er að finna afskaplega góða laxauppskrift. Þetta er eiginlega með bestu laxauppskriftum sem ég hef prófað. Þannig að ef ykkur líkar lax og/eða fiskur þá er þetta klárlega réttur sem þið bara verðið að prófa! Ég keypti lax að þessu sinni hjá Fiskikónginum og hann var ofsalega góður. Núna er tilboð hjá Fiskikónginum, hann selur ýmsar tegundir fisks (ekki lax þó) á aðeins 1199 krónur kílóið sem er ótrúlega gott verð. Ég keypti því líka þorskhnakka á tilboði og hlakka til að elda eitthvað spennandi úr þeim á morgun.

Í kvöldfréttunum var frétt um málþing sem snérist um matarleifar og sóun. Ég hef alltaf nýtt mat vel og hendi eiginlega aldrei mat. Reyndar þá erum við líka svo mörg í fjölskyldunni að það eru alltaf einhver börn svöng, það stuðlar að góðri nýtingu matarins! Ísskápshurðin er allavega klárlega sú hurð sem oftast er opnuð á heimilinu! 🙂 Þegar við bjuggum í Stokkhólmi tókum við hjónin alltaf mat með okkur í vinnuna/skóla. Í dag eru það elstu krakkarnir sem eru dugleg að taka með sér afgang í skóla og vinnu. Ég eldaði extra mikið af laxinum í kvöld og það náðist því afgangur fyrir alla fjölskyldumeðlimi (og einn auka sem býr hjá okkur þessa dagana) öllum til mikillar gleði þar sem að laxarétturinn sló í gegn. Já og miðar eru algengir í ísskápnum okkar! Sumir fjölskyldumeðlimir eru búnir að eigna sér hillur, skúffur og slíkt í ísskápnum, þar er maturinn „off limits“. En ef matur er á sameiginlegu svæði þá þarf að merkja hann ef maður vill vera viss um að ganga að honum vísum! 😉 Það er hins vegar bara ein regla sem snýr að mér. Ef einhver finnur súkkulaði í eldhúsinu þá eru 99% líkur á því að ég eigi það! Það má því ALDREI borða súkkulaði án þess að spyrja mig fyrst, þetta gildir bæði um lítil og uppkomin börn sem og eiginmann! 🙂

IMG_8729

Uppskrift:

  • 2 msk ólífuolía
  • 200 g ferskt spínat
  • 700 g laxaflök
  • salt & pipar
  • 1 sæt kartafla (ca. 400 g), rifin gróft
  • 3 gulrætur, rifnar gróft
  • 2 dl kókosmjólk
  • 1 tsk karrímauk
  • 1 msk fiskisósa (fish sauce)
  • 1/2 límóna (lime), safinn
  • 1 tsk hrásykur (eða sykur)

IMG_8715

Ofn er hitaður í 200 gráður, undir- og yfirhita. Ólífuolían er smurð á botninn á stóru eldföstu móti og spínatið lagt í botninn. Laxinn er roðflettur og beinhreinsaður, skorinn í hæfilega stór stykki og þau lögð ofan á spínatið. Þá er laxinn saltaður og pipraður vel. Því næst er sæta kartaflan flysjuð og rifinn gróft, sama er gert við gulræturnar. Þessu er blandað saman og dreift yfir laxinn. Þá er kókosmjólk, karrímauki, fiskisósu, límónusafa og hrásykri blandað saman í skál og hellt yfir sætukartöflurnar/gulræturnar. Bakað í ofni við 200 gráður í um það bil 30 mínútur eða þar til fiskurinn er mátulega eldaður. Borið fram með hrísgrjónum og klettasalati (eða öðru fersku salati).

IMG_8725