KFC kjúklingur með sætkartöflumús og sinnepsjógúrtsósu


KFC kjúklingur með sætkartöflumús og sinnepsjógúrtsósu

Milli þess sem ég skipulegg fermingarveisluna sem nálgast óðfluga þarf víst fjölskyldan að borða líka. Í kvöld langaði mig að hafa það sem Kaninn kallar ”comfort food”. Ég er ekki hrifin af KFC en samt er eitthvað ávanabindandi við þann kjúkling, allavega fæ ég stundum löngun í KFC þó svo að ég viti innst inni að mér finnist eiginlega ekkert varið í hann – skrítið! Ég gerði í kvöld mikið betri kjúkling sem fær samt að heita KFC – „Kleifarsels Fried Chicken”. Kjúklingurinn var ákaflega meyr og bragðgóður og féll sannarlega vel í kramið hjá öllum í fjölskyldunni. Ég ætlaði að hafa sætkartöflu franskar með kjúklingnum en það breyttist á síðustu stundu í sætkartöflumús, ég er bara með æði fyrir henni þessa dagana! Það er svo lítið mál að búa hana til, að þessu sinni skrældi ég sætkartöflur og skar í bita. Sauð bitana í vatni þar til þeir voru orðnir mjúkir, stappaði og bætti smá naturel Philapelphia osti út í ásamt Philadelphia með sweet chili) og kryddaði með chiliflögum. Það er líka hægt að nota til dæmis smjör í stað rjómaosts.

IMG_4533

Uppskrift:

  • 6 -7  kjúklingabringur (ég nota kjúkling frá Rose Poultry)
  • ca. 24 Ritz kex kökur
  • 2 bollar Corn Flakes
  • 2 msk sesamfræ
  • 1/4 -1/2 tsk cayenne pipar
  • 1 tsk ítölsk hvítlauksblanda frá Pottagöldrum
  • 2 eggjahvítur
  • 1 dós jógúrt án ávaxta
  • 1 msk dijon sinnep
  • 1/2 tsk salt
  • ólífuolía

Ofn er hitaður í 200 gráður. Ofnplata er klædd bökunarpappír og pappírinn smurður eða spreyjaður með ólífuolíu. Kornflex og Ritzkex er mulið í matvinnsluvél og blöndunni síðan blandað saman við cayanne pipar, hvítlaukskryddið og sesamfræin. Í annarri skál er eggjahvítum, dijon sinnepi, jógúrti og salti blandað saman. Kjúklingabringunum er dýft vel ofan í jógúrt blönduna og svo velt upp úr kornfleks-blöndunni þannig að kjötið sé alveg þakið. Kjúklingabringunum er raðað á ofnplötuna, þær penslaðar með smá ólífuolíu og bakaðar í ofni í ca. 30-35 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Athugið að tíminn fer algjörlega eftir stærðinni á bringunum, ef þær eru litlar þarf jafnvel að taka þær út fyrr. Borið fram með sætkartöflu frönskum eða sætkartöflumús og sinnepsjógúrtssósu.

IMG_4539

Sinnepsjógúrtsósa:

  • 1 dós grísk jógúrt
  • ca. 1 msk dijon sinnep
  • ca. 1/2 tsk ítölsk hvítlauksblanda frá Pottagöldrum
  • 1.5 tsk hunang

Öllu blandað vel saman með gaffli eða skeið.

IMG_4532

 

 

 

Ofnbakaður lax með mangósósu


Ofnbakaður lax með mangósósu

Það er með eindæmum hversu annasöm aðventan er, það er svo margt að gera og margt um að vera. Þetta er skemmtilegur og viðburðaríkur tími en vissulega mætti sólarhringurinn vera aðeins lengri. Í vikunni sem leið var margt um að vera bæði í vinnunni minni og utan hennar. Ég hélt til dæmis  jólasaumaklúbb fyrir „sænska“ saumaklúbbinn minn sem er alltaf tilhlökkunarefni, pakkaleikurinn okkar er alltaf sérstaklega spennandi! Ég bauð stelpunum upp á ekta jólamat, kalkúnabringur með öllu tilheyrandi meðlæti. Alexander átti einnig afmæli í vikunni og ég hélt matarboð í tilefni þess. Sökum anna á öllum vígstöðum ákvað ég að hafa matarboðið eins einfalt og hugsast gæti. Satt best að segja þurfti ég að taka á honum stóra mínum varðandi einfaldleikann. Ef ég býð fólki í mat þá finnst mér mikilvægt að allt sé spikk og span og er kannski ekki alltaf með einfaldasta matinn. Mér varð hins vegar hugsað til Jóhönnu Ingu dóttur minnar þegar hún var svona sex ára. Þá var ég í loftköstum að undirbúa matarboð, lagaði til og þreif milli þess sem ég undirbjó matinn. Jóhanna var fremur hissa á þessum látum í mér og spurði hvers vegna ég væri á svona miklu spani að laga til. Ég svaraði því til að það væru að koma gestir. Þá sagði hún: „Mamma, það verður hvort sem er drasl þegar gestirnir fara, það er mikið sniðugra að laga bara til eftir á!“ Svo bætti hún við: „þú skalt bara hafa góða stemmningu í matarboðinu, lækka ljósin, setja á rólega tónlist og kveikja á fullt af kertum, þá kemur svo góð stemmning!“ Þarna hitti sex ára dóttir mín naglann á höfuðið og það kemur örugglega ekki þeim á óvart sem þekkja þennan snilling.

Ég bað Alexander að skoða bloggið mitt og koma með óskir mat. Hann kom bara með eina ósk og hún var um meðlæti, mangósósuna sem hann dýrkar – honum fannst aukaatriði hvað væri með mangósósunni! Þetta hentaði mér fullkomlega, ég valdi það sem var fljótlegt en örugglega gómsætt, ofnbakaðan lax.

IMG_1978

Uppskrift f. ca 3

  • 1 flak lax (ca 800 g)
  • salt og pipar
  • 2-3 msk mango chutney
  • 2-3 msk sesamfræ

Ofn hitaður í 180 gráður. Laxinn er lagður í eldfast mót og hann kryddaður með salti og pipar. Því næst er mango chutney smurt á laxinn og sesamfræunum stráð yfir. Bakað í ofni í ca 20 mínútur, fer eftir þykkt laxins, eða þar til hann er eldaður í gegn. Borið fram með ofnbökuðum kartöflum og sætum kartöflum, fersku salati og mangósósu.

IMG_1992

Mangósósa:

  • 2 dl grísk jógúrt
  • 2 dl mangó (frosið – sem búið er að afþýða eða ferskt)
  • 2-3 msk mango chutney
  • salt og pipar

Öllu hráefninu blandað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél.

IMG_1990

Grilluð blálanga með dillsósu og grilluðu grænmeti


Dillsósa

Það eru forréttindi að hafa aðgang að jafn góðum fiski og við höfum hér á Íslandi. Grillaður góður fiskur er einn sá besti matur sem ég fæ. Ekki er verra að slík máltíð er afar fyrirhafnarlaus. Ég nýti mér mjög mikið að kaupa fisk í tilbúnum kryddmaríneringum sem fæst í flestum fiskbúðum. Yfirleitt eru þetta góðar maríneringar og flýta mikið fyrir matargerðinni. Um daginn keypti ég blálöngu í góðum kryddlegi hjá Fiskbúð Hólmgeirs. Ég er hrifin af blálöngu á grillið, hún er svo þétt og góð. Með henni ákvað ég að gera dillsósu. Þegar við bjuggum í Svíþjóð þá fannst mér Svíar ofnota dill með fiski. Fiskur og dill virðist vera jafn mikilvæg tvenna hjá Svíum eins og ýsa og hamsatólg voru hjá okkur Íslendingum hér á árum áður. Ég hef varla fundið sænska uppskrift af hvítum fiski sem ekki í er dill. Í einhverskonar mótmælaskyni hef ég því forðast að nota dill í fiskrétti. Að þessu sinni átti ég hins vegar fersk dill sem mig langaði að nýta og ég gerði því dillsósu með fisknum. Ég verð að viðurkenna að það var alls ekki svo slæmt, satt best að segja var sósan ákaflega góð. Hún var fersk og bragðgóð og smellpassaði með fisknum, kannski vita Svíar sínu viti í þessum efnum!

Afi minn vill helst borða fisk í öll mál þannig að mér fannst upplagt að bjóða honum og ömmu í mat að njóta þessarar góðu fiskmáltíðar með okkur.

IMG_0633

Ég var svo heppin að fá gómsætar nýjar kartöflur í Nettó sem fullkomnuðu þessa einföldu og góðu máltíð. Ég hef áður skrifað hér á Eldhússögur um grillað grænmeti. Ég nota grillbakka frá Weber sem er afar sniðugur til þess að grilla grænmeti í, ætti að vera skyldueign fyrir alla grillunnendur. Þennan grillbakka hef ég fundið langódýrastan hjá Bauhaus, það á reyndar við um alla Weber fylgihluti sýnist mér.

Weber grillbakki

Þegar ég grilla grænmeti þá sker ég niður grænmetið i passlega stóra bita, oftast nota ég gulrætur, kúrbít og sveppi í grunninn. Oft bæti ég við sætum kartöflum, lauki, hnúðakáli, brokkolí, blómkáli eða bara því grænmeti sem ég á til. Þegar það er komið í grillbakkann blanda ég dálítið af ólífuolíu saman við grænmetið og krydda það með saltflögum og grófum svörtum pipar. Stundum krydda ég það líka með kryddjurtakryddi eins og til dæmis „Best á allt“ frá Pottagöldrum. Grillbakkinn er svo settur á grillið við fremur háan hita í ca. 20-30 mínútur. Mikilvægt er að „hræra í“ grænmetinu reglulega þannig að það snúist. Oft ber ég grænmetið fram með rifnum ferskum parmesan osti ef það passar við aðalréttinn.

IMG_0640

Grilluð blálanga í kryddlegi, nýjar kartöflur, dillsósa úr grískri jógúrt og grillað grænmeti – gulrætur, sveppir og kúrbítur = frábær og holl máltíð! 🙂

IMG_0639

Uppskrift, dillsósa:

  • 1 dós grísk jógúrt (350 ml) (líka hægt að nota sýrðan rjóma eða hvor tveggja til helminga)
  • 1 msk fljótandi hunang
  • 2 hvítlauksgeirar, pressaðir eða fínsaxaðir
  • ferskt dill (ég notaði hér um bil 1/3 af  heilu 30 gramma boxi)
  • salt
  • ferskmalaður svartur pipar

Dillið er saxað niður og blandað vel við grísku jógúrtina. Hvítlauknum er bætt út í. Sósan er því næst bragðbætt með hunangi, salti og pipar. Gott er að leyfa sósunni að standa í ísskáp í 15-20 mínútur áður en hún er borin fram.

IMG_0638IMG_0658

Grillaðar kjúklingabringur í úllalasósu


IMG_0583

Við eigum góð vinahjón í Grjótaþorpinu sem eru snillingar í eldhúsinu. Ég varð því mjög spennt þegar þau mæltu eindregið með sósunni hans Úlfars Finnbjörnssonar sem birtist uppskrift að í Fréttablaðinu um daginn. Ég prófaði að nota sósuna með grilluðu lambakjöti og hún var afar góð.

IMG_0592Með grillaða lambakjötinu bar ég fram æðislegan grillaðan beikonvafinn halloumi ost og gómsætt ananas/tómatsalsa

Það var hins vegar mikill afgangur af sósunni og ég lét því kjúklingabringur marínerast í sósunni. Daginn eftir grillaði ég svo kjúklinginn og bar afganginn af sósunni fram með honum. Sósan naut sín margfalt betur með kjúklingunum en lambinu fannst okkur, hún var dásamlega góð. Ósk var sérstaklega hrifin af þessari sósu, hún sagði bragðið vera alveg einstakt og nýtt. Ég mæli því eindregið með þessari sósu með kjúklingi, algjört hnossgæti! Ekki láta langan hráefnislista fæla ykkur frá, ég til dæmis átti allt hráefnið til heima.

IMG_0581Úllalasósan í fallegu Green gate skálinni frá Cup Company

Uppskrift:

  • 5 cm. bútur engiferrót, skræld
  • 1/2 -1 chili-aldin, fræhreinsað
  • 3-4 hvítlauksgeirar
  • 1 tsk. kóríanderfræ, má sleppa
  • 1 tsk. rósapipar, má sleppa
  • 1 tsk. milt karrí
  • 1 tsk paprikuduft
  • 2 msk. hunang
  • 2 msk. balsamedik
  • 3 msk. ostrusósa
  • 2 msk. tómatsósa
  • 2 msk. sætt sinnep
  • 2 msk. sérrí (ég sleppti því)
  • 2-3 dl. olía

IMG_0576

Setjið allt nema olíuna í matvinnsluvél og maukið vel. Hellið þá olíunni saman við í mjórri bunu og látið vélina ganga á meðan. Ég notaði sex kjúklingabringur lagði þær í maríneringu í rúmlega helminginn af sósunni í yfir nóttu. Það er þó alveg nóg að hafa hana bara stutt, 30-60 mínútur. Með kjúklingnum bar ég fram grillaða maísstöngla, grillaðan ferskan ananas með karrí, kúskús og salat.

IMG_0596Ég forsauð maísstönglana og grillaði svo, bar þá fram með smjöri og örlitlu salti – úff, ég var búin að gleyma því hvað maísstönglar eru sjúklega góðir! 🙂

IMG_0594

Grillaður lax með kryddjurtamaríneringu og klettasalatssósu


IMG_9833

Mér finnst lax ákaflega góður. Það liggur við að mér finnist hver einasti laxaréttur vera „sá besti sem ég hef bragðað“! En ég held að það sé vegna þess að það er varla hægt að klúðra svona góðu hráefni eins og laxinn er. Að þessu sinni grillaði ég laxinn með einkar góðri maríneringu og gerði með honum ofsalega góða klettasalatssósu. Þessa klettasalatssósu væri einnig gott að nota með til dæmis grilluðum kjúklingi. Ég grillaði imagesgrænmeti með laxinum, sætar kartöflur, gulrætur og blómkál. Grænmetið skar ég niður í bita, velti því upp úr ólífuolíu, góðum kryddum og grillaði í snilldar grillbakkanum frá Weber. Ég mæli svo mikið með þessum grillbakka. Hér um alltaf þegar ég grilla, set ég eitthvað grænmeti í bakkann, það slær ekkert meðlæti grilluðu grænmeti við! Ég hef séð þennan grillbakka ódýrastan hjá Bauhaus.

Ég fékk um daginn sendingu frá Saltverk Reykjaness.

IMG_9846

Fyrirtækið framleiðir vestfirskt kristalsjávarsalt sem eru stórar og stökkar saltflögur. Saltið er unnið með aldagamalli íslenskri aðferð sem stunduð var í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp á 18.öld. Frábært salt sem ég mæli sannarlega með. Það var svo spennandi að ég fékk líka prufur af nýju bragðbættu Saltverks-salti sem er ekki enn komið á markaðinn. Meðal annars lakkríssalti og blóðbergssalti. Ég er búin að vera að þefa og smakka á saltinu og reyna að átta mig á hvernig best væri að nota það. Einna spenntust er ég að finna góða leið til þess að nota lakkríssaltið! En ég notaði blóðbergsaltið í maríneringuna á laxinn og það kom afar vel út.

IMG_9844Uppskrift:

800 g laxaflak

Marínering:

  • 1 dl fínsöxuð blaðasteinselja (eða kóríander)
  • 1 límóna (lime), hýði fínrifið og safinn
  • 4 hvítlauksrif, fínsöxuð
  • 2 msk ólífuolía
  • salt (ég notaði blóðbergssalt frá Saltverki) og pipar

IMG_9826

Hráefninu í maríneringuna er hrært saman. Laxinn er lagður á þar til gerða grillgrind eða einnota grillbakka. Maríneringunni er dreif fyrir laxinn og hann grillaður við meðalhita í um það bil 10 mínútur eða þar til hann er eldaður í gegn – það þarf að gæta þess að ofelda hann ekki. Borið fram með grilluðu grænmeti og klettasalatssósu.

IMG_9832

Klettasalatssósa:

  • 2 dl sýrður rjómi
  • ca. 2 stórar lúkur klettasalat
  • 2 hvítlauksrif
  • ½ dl furuhnetur
  • 1 dl fínrifinn parmesanostur
  • salt och grófmalaður svartur pipar

Öllu blandað saman í matvinnsluvél og borið fram með fisknum.

IMG_9836

Kjúklingur með sinnepssósu og gulrótagratín


Kjúklingur með sinnepsósu og gulrótagratín

Mér finnst þessi árstími einn sá allra besti tími ársins, birtan er svo dásamleg! Það ligggur samt við að ég verði dálítið stressuð, tíminn líður svo hratt, áður en maður veit af þá er farið að dimma aftur. Það er því um að gera að njóta tímans vel, fara í gönguferðir á þessum fallegu maíkvöldum og njóta birtunnar. Eins langar mig alltaf svo mikið að grilla um leið og sólin fer að skína á vorin. Í kvöld grilluðum við dásamlega góðan lax sem ég ætla að gefa uppskriftina að sem fyrst. En fyrst ætla ég að gefa uppskriftina að frábærlega góðum kjúklingarétti. Gulrótagratínið er ákaflega ferskt og gott og kjúklingurinn með sinnepssósunni æðislegur, endilega prófið þennan rétt! Með þessum rétti ætlaði ég að hafa gulrótartatziki sem er afar ljúffengt og gott, mér fannst það svo sniðugt með gulrótagratíninu. En á meðan ég var að útbúa matinn þá urðu yngstu börnin svo spennt fyrir gulrótunum að þær kláruðust. Ég greip þá til fetaostasósunnar góðu enn einu sinni! Hljómar kannski eins og ég sé að ofnota hana en hún er bara svo góð! Ef þið hafið ekki prófað þá sósu enn þá verðið þið bara að prófa! Sú sósa er til dæmis frábær með öllum grillmat.

Uppskrift:

Gulrótargratín:

600 g gulrætur, skornar í skífur
salt & pipar
2 dl grófrifinn parmesan
2 msk olífuolía
timjan, ferskt eða þurrkað

IMG_9804

Kjúklingur:

700 g kjúklingabringur
salt & pipar

IMG_9808

Sinnepssósa:

2 dl vatn
2 msk grófkorna dijon sinnep
½ msk hefðbundið dijon sinnep eða annað franskt sinnep
1 kjúklingateningur

IMG_9816Ofninn stilltur á 225 gráður undir- og yfirhita. Gulrótarskífurnar eru lagðar í eldfast mót, saltaðar og pipraðar. Parmesanosti, timjan og olíu er bætt við og blandað vel saman gulræturnar. Hitað í ofni við 225 gráður í um það bil 20 mínútur. Þá eru kjúklingabringurnar skornar í tvennt á lengdina og kryddaðar með salti og pipar. Því næst eru þær steiktar á pönnu þar til þær fá fallega steikarhúð. Svo er kjúklingurinn færður af pönnunni og lagður yfir gulræturnar og eldfasta mótið er sett aftur inn í ofn í um það bil 10 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

Vatnið er sett út á steikarpönnuna ásamt sinnepinu og kjúklingateningnum. Sósan er látin malla í nokkrar mínútur og borin fram með kjúklingnum.

Að auki bar ég fram fetaostasósu.

IMG_9822

Asískur pottréttur með grilluðum ananas og sweet chili-jógúrtsósu


Asískur pottréttur með grilluðum ananas og sweet chili-jógúrtsósu

Það er nú meiri snilldin að það sé „aftur“ komin helgi eftir bara einn vinnudag! Sérstaklega er ljúft að eiginmaðurinn á líka fríhelgi en þær eru ekki á hverju strái. Í dag fórum við á vortónleika hjá börnunum, í hjólaferð og svo bökuðum við mæðgurnar. Eins og venjulega þegar Jóhanna Inga fær að ráða þá er bökuð eplakaka en hún fær aldrei nóg af eplakökum í allskonar útfærslum. Þó hún sé bara átta ára þá er hún farin að baka hér um bil sjálfstætt og hefur afar gaman af. Í sumar mun hún fara á matreiðslunámskeið sem hún fór á í fyrra líka, hún hlakkar mjög mikið til.

Ég ákvað að elda eitthvað í kvöld úr gúllasinu sem ég fékk þegar ég keypti nautakjötið frá Mýranauti. Einhvern veginn þá vill það kjöt oft verða það sem ég nýti síst. Mig langaði að búa til eitthvað rosalega gott og lagðist yfir uppskriftabækur og netuppskriftir. Ég endaði á því að nýta hugmyndir héðan og þaðan, breyta og bæta. Og vá hvað maturinn varð góður! Meðlætið var frekar óvenjulegt og passaði ákaflega vel saman. Jógúrtsósan er alveg hreint dásamlega góð og ég mun pottþétt gera hana aftur sem allra fyrst! Mest á óvart kom ananasinn! Ég kryddaði hann með cajunkryddi og grillaði. Þetta var himneskt meðlæti með réttinum og sósunni góðu. Það var nú svolítið fyndið að ég ætlaði að krydda ananasinn með karrí en greip óvart cajun kryddið. Hins vegar þá kom það ofsalega vel út, ég mun örugglega halda mig við cajunkryddið þegar ég geri ananasinn aftur! 🙂 En við kolféllum sem sagt öll fyrir þessum himneska rétti og átum á okkur gat – þetta var veisla fyrir bragðlaukana! Gúllasið var meyrt og gott enda var ég með frábært kjöt beint af býli. Ég hugsa að það sé líka mjög gott að nota kjúklingakjöt í þennan rétt. Jógúrtsósan og grillaði ananasinn smellpassa allavega örugglega með kjúklingi. Ég veit ekki hvort þessi matreiðsla virkar flókin en hún er það alls ekki, þvert á móti, þetta var allt ákaflega einfalt og fljótlegt (ég reyndar skellti kjötinu í marineringuna fyrr um daginn). Á meðan kjötið mallaði á pönnunni grillaði ég ananasinn og hrærði í sósuna. Aldrei þessu vant voru ekki einu sinni hrísgrjónin tilbúinn þegar allt hitt var tilbúið, þó hafði ég byrjað á þeim.

IMG_9574

Uppskrift: 

  • 1 kíló nautagúllas (eða kjúklingabitar)
  • ca. 100 g belgbaunir (má sleppa)
  • 200 g sveppir
  • 1/2 tsk nautakraftur

Marinering:

  • 4 hvítlauksrif, fínsöxuð eða pressuð
  • 1.5 dl sojasósa
  • 2 msk sesamfræ
  • 2 tsk sambal oelek (chili mauk)
  • 1 dl ólífuolía
  • ferskmalaður svartur pipar

Hráefninu í marineringuna hrært saman. Kjötið lagt í marineringuna, annað hvort í poka eða skál og látið bíða í ísskáp í minnst 30 mínútur en því lengur því betra. Sveppirnir skornir í bita og steiktir á pönnu upp úr smjöri og/eða olíu, kryddaðir með nautakraftinum. Sveppirnir eru svo veiddir af pönnunni. Kjötið er tekið úr marineringunni og steikt á pönnu í 2-3 mínútur. Þá er restinni af marineringunni bætt á pönnuna ásamt sveppum og belgbaununum. Það er hægt að bæta við dálitlu af vatni til þess að búa til meiri sósu ef með þarf. Látið malla í nokkrar mínútur þar til kjötið er tilbúið. Borið fram með sweet chili – jógúrtsósu, grilluðum cajun-ananas og hrísgrjónum.

IMG_9539

Cajun-ananas:

  • 1/2 – 2/3 ferskur ananas
  • ca 1 tsk cajun krydd

IMG_9568

Ananasinn er skorin í bita. Best er að skera ananasinn á þennan hátt (byrjar við 1.20 mín í myndbandinu). Hann er svo kryddaður með cajun kryddi og grillaður við meðalhita í 2-3 mínútur á báðum hliðum.

IMG_9572

Sweet chili – jógúrtsósa:

  • 2 dl grísk jógúrt
  • 4 tsk sweet chili sósa
  • 1-2 hvítlauksrif, pressað
  • ca. 2 tsk fínsaxaður ferskur kóríander

Öllum hráefnunum blandað vel saman.

IMG_9579

IMG_9588

Kjötbollur með eplum og beikoni ásamt jógúrtsósu með fetaosti


Kjötbollur með eplum og beikoni ásamt jógúrtsósu með fetaosti

Mig grunar að páskaeggin séu að klárast á íslenskum heimilum og súkkulaðifráhvörf yfirvofandi því vinsælasta uppskriftin á blogginu mínu í dag er ómótstæðilega súkkulaðikakan með Pippkaramellukreminu! Þessi kaka hefur nú náð því afreki að vera deilt meira en þúsund sinnum á Facebook. Bara þúsund deilingar í viðbót og þá hefur hún náð Snickerskökunni! 🙂 Á þeim tæpu tveimur mánuðum sem liðnir eru síðan ég setti Snickerskökuna hingað inn þá hefur hún daglega verið ein mest sótta uppskriftin hér á blogginu. Ég verð þó að mæla líka með súkkulaðikökunni með Pippkaramellukreminu sem er í miklu uppáhaldi hjá okkur öllum í fjölskyldunni, þetta er einstaklega fljótleg og einföld kaka. Hún er dásamleg þegar hún er heit og nýbökuð með rjóma eða ís en er alls ekki síðri daginn eftir, þá er hún ákaflega bragðgóð og með seigri karamelluáferð.

En ég kom ekki hingað inn til að tala um súkkulaði heldur til þess að setja inn frábæra kjötbollu uppskrift! Þessar kjötbollur eru með eplum og beikoni sem gefur þeim svo einstaklega gott og frísklegt bragð. Ég veit eiginlega ekki af hverju mér datt þetta ekki í hug fyrr! Salta og stökka beikonið á móti sæta eplabragðinu – algjör snilld bundin saman í bragðgóðum kjötbollum. Meðlætið var líka svo gott, steikt epli og jógúrtsósa með fetaosti. Þessi sósa gæti ekki verið einfaldari og betri, ég held að það hafi tekið mig innan við tvær mínútur að hræra saman sósuna og hún passaði einstaklega vel með kjötbollunum. Þetta er sannarlega réttur sem ég mun elda reglulega héðan í frá.

IMG_9175

Uppskrift f. ca 3-4

  • 600 g nautahakk
  • 1 egg
  • ca 140 g beikon
  • ca 4 stór græn epli
  • 1/2 lítill laukur
  • salt og pipar (ég notaði vel af pipar, minna af salti því beikonið er salt)
  • gott krydd (ég notaði Best á allt)
  • 1 tsk nautakraftur
  • smjör til steikingar

Beikonið er skorið í bita og steikt á pönnu þar til það er orðið stökkt, þá er það tekið af pönnunni og látið renna af því á eldhúspappír. 1 epli er afhýtt og rifið gróft. Laukurinn er saxaður mjög smátt. Rifna eplinu, beikoninu, lauknum, egginu og nautakraftinum er blandað vel saman við nautahakkið og kryddað vel. Því næst eru mótaðar bollur úr hakkinu og þær steiktar á pönnu þar til þær eru eldaðar í gegn. Bollurnar eru því næst veiddar af pönnunni (ekki þvo pönnuna) og þeim haldið heitum (t.d. undir álpappír). Restin af eplunum eru afhýdd og þau svo skorin í báta. Eplabátarnir eru svo steiktir á sömu pönnu og bollurnar voru steiktar á, við meðalhita í nokkrar mínútur, þar til þeir eru orðnir mjúkir. Kjötbollurnar eru bornar fram með steiktu eplabátunum, ofnbökuðum kartöflum, jógúrtsósu með fetaosti og fersku salati.

IMG_9168

Jógúrtsósa með fetaosti:

  • 2 dl grísk jógúrt
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • ca. 100 g fetaostur (ekki í olíu)
  • örfáir dropar Tabasco sósa

Öllu blandað vel saman með gaffli.

IMG_9172

Roastbeef með bearnaise sósu, kartöflugratíni og spínatsalati með jarðarberjum


IMG_9146Ég var búin að vera með yfirlýsingar um að páskamaturinn hjá okkur yrði kalkúnn eða mögulega lambakjöt. Þessar fyrirætlanir breyttust allar þegar ég fékk allt girnilega nautakjötið frá Mýranauti. Ég glímdi við dálítinn valkvíða þar sem um svo marga girnilega nautakjötsbita var að ræða en á endanum ákvað ég að hafa roastbeef. Með því bar ég fram heimagerða bearnaise sósu (og brúna fyrir gikkina!), kartöflugratín og spínatsalat með jarðaberjum, fetaosti og ristuðum valhnetum. Jimundur minn hvað þetta var gott! Kjötið var dásamlega meyrt og safaríkt og meðlætið fullkomið með kjötinu. Kartöflugratínið er algjör snilld því það er svo fljótlegt og hrikalega bragðgott. Með því að sjóða kartöfluskífurnar fyrst í rjómaleginum þá þurfa þær bara örstutta stund í ofninum. Þannig gat ég ofnbakað kartöflugratínið á meðan kjötið jafnaði sig eftir ofnsteikinguna. Ég geri ekki kartöflugratín á annan hátt eftir að ég uppgötvaði þessa aðferð.

IMG_9137

Ég steikti fyrst kjötið á pönnu við háan hita og eldaði það svo við lágan hita inni í ofni. Ég sá að meistari Nanna Rögnvaldar skrifaði um daginn að það væri mýta að hægt væri að loka kjöti með því að steikja það á pönnu, nokkuð sem mér fannst mjög áhugavert að lesa. Þetta sagði hún:

,,Þetta kalla mjög margir að ,,loka” kjötinu og telja að með því að byrja á að snöggbrúna það sé verið á einhvern hátt að þétta yfirborðið svo safinn leki síður úr kjötinu. Eins og við þetta myndist einhvers konar vatnsheld hella eða hjúpur kringum kjötið …

Sem er náttúrlega alrangt.

Maður lokar ekki nokkrum sköpuðum hlut með því að brúna yfirborðið. Safinn lekur alveg jafnört úr kjötinu út á pönnuna eftir sem áður. Ef ekki örar. Þetta hefur verið margsannað með tilraunum þar sem tvö nákvæmlega eins kjötstykki eru matreidd, annað brúnað fyrst, hitt ekki, og þau síðan elduð á sama hátt þar til sama kjarnhita er náð. Síðan eru þau vigtuð til að kanna hvort hefur tapað meiri safa. Í hverri tilrauninni af annarri hefur það komið á daginn að stykkið sem var ,,lokað” tapaði jafnmiklum eða meiri safa en hitt.

Samt tekst ekki að kveða þessa mýtu niður (ég er búin að vera að tuða um þetta í fimmtán ár að minnsta kosti) og flestir, jafnt húsmæður sem frægir kokkar, halda áfram að tala um að ,,loka kjötinu”.

En á maður þá nokkuð að vera að brúna? Jú reyndar. Því að þótt brúnunin loki ekki nokkrum sköpuðum hlut, þá gerir hún annað: hún bætir bragðið. Sykrurnar og amínósýrurnar á yfirborði kjötsins bráðna saman í hitanum (sem þarf að vera yfir 150°C) og yfirborðið brúnast eða ,,karamelliserast” og við það myndast þetta unaðslega bragð sem fæstir vildu missa af. Og kjötið verður líka fallegra og girnilegra fyrir vikið.“

Þar hafið þið það, meistarinn hefur talað! 🙂 Hér með leggja Eldhússögur sitt af mörkum við að kveða niður mýtuna um að hægt sé að „loka kjöti“!

04146Með þessu gómsæta kjöti mælir vínþjónninn Sævar Már Sveinsson með  ítalska rauðvíninu Tommasi Le Pruneé Merlot. 

Lýsing: Kirsuberjarautt. Meðalfylling, þurrt, fersk sýra, miðlungstannín. Skógarber, bláber, jörð, lyng, hýði.

IMG_9126

Uppskrift:

  • ca 2 kíló nauta innra læri
  • olía
  • smjör og olía til steikingar
  • maldonsalt
  • ferskmalaður svartur pipar

Kjötið er tekið úr kæli og látið ná stofuhita. Ofninn er hitaður í 120 gráður, undir- og yfirhita. Þá er það nuddað með olíu og kryddað mjög vel með maldonsalti og ferskmöluðum svörtum pipar. Kjötið er steikt á pönnu upp úr blöndu af smjöri og olíu við háan hita á öllum hliðum í stutta stund. Þá er kjötið lagt í eldfast mót og kjöthitamæli stungið í þykkasta hluta kjötsins. Kjötið er steikt í ofni við 120 gráður þar til kjarnhiti kjötsins hefur náð um það bil 55 gráðum. Kjötið hjá mér var 2 kíló og það tók 2 klukkutíma á 120 gráðum að ná þessum kjarnhita. Þá er kjötið tekið út og látið jafna sig í 15-20 mínútur undir álpappír. Mjög mikilvægt er að leyfa kjötinu að jafna sig eftir ofnsteikinguna, ef það er skorið of snemma þá missir það safann.

IMG_9134

Bernaise sósa:

  • 4 eggjarauður
  • 250 gr. smjör
  • 1 msk.  Bernaise Essence
  • Fáfnisgras (franskt estragon –kryddjurt), söxuð smátt
  • salt og pipar

Eggjarauðurnar eru þeyttar ásamt Bernaise essence. Sumir þeyta þær yfir heitu vatnsbaði. Smjör brætt, þegar hitastigið er þannig að maður rétt nær að dýfa fingrinum í það er því hellt varlega í mjórri bunu út í eggjarauðurnar og þeytt í stöðugt á meðan (mikilvægt! – helst að fá einhvern annan til að hella) með písk. Að lokum er estragoni bætt við. Sósan smökkuð til og krydduð með smá salti og pipar ef þarf. Það má ekki hita upp sósuna aftur eftir að eggjarauðum og smjöri hefur verið blandað saman, þá skilur hún sig. Bearnaise sósan er því ekki heit þegar hún er borin fram, bara volg og má jafnvel vera köld. En fyrir þá sem vilja heita sósu er hægt að hita hana upp varlega yfir vatnsbaði.

IMG_9148

Spínatsalat með jarðaberjum:

  • spínat
  • jarðarber, skorin í bita
  • fetaostur í olíu
  • ristaðar valhnetur

Spínatið er lagt á disk. Jarðarberjunum er svo dreift ofan á spínatið ásamt fetaostinum (smá olía með). Því næst eru valhneturnar saxaðar gróft og þær þurrristaðar á pönnu á eftirfarandi hátt. Panna hituð og valhneturnar ristaðar á pönnunni við fremur háan hita í nokkrar mínútur þar til þær hafa náð góðri ristun, hrært í þeim stöðugt á meðan til þess að þær brenni ekki. Þegar hneturnar hafa kólnað dálítið er þeim að lokum dreift yfir salatið.

IMG_8856

Kartöflugratín f. 8-10

  • ca 1,5 kíló kartöflur
  • 4 dl rjómi
  • 4 dl mjólk
  • hálfur rauðlaukur, skorin í strimla
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 grænmetisteningur
  • Töfrakrydd, salt og pipar
  • rifinn ostur

Kartöflurnar skolaðar vel (ég hef þær oftast með hýðinu á) og svo skornar í skífur, sumir vilja hafa þær næfurþunnar, mér finnst best að hafa þær ca 1 cm á þykkt. Hvítlaukur og laukur skorinn niður. Mjólk og rjómi hellt í stóran pott ásamt hvítlauk, lauk, grænmetisteningi og kryddi. Ég nota Töfrakrydd frá pottagöldrum, það er góð kryddjurtablanda með cheddar osti sem hentar vel en það er hægt að nota hvaða krydd sem hugurinn girnist. Sjóðið við vægan hita í 10-15 mínútur (fer svolítið eftir þykkt kartaflanna), eða þar til þær eru orðnar vel mjúkar. Hellið þá kartöflublöndunni í eldfast mót, dreifið rifnum osti yfir og hitið í ofni við 200 gráður ca. 20 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og orðin gullinbrúnn.

IMG_9156

Djúpsteiktir kjúklingaleggir með súrsætri sósu og heimagerðu hrásalati


IMG_8640

Við fjölskyldan fórum fyrr í kvöld út í norðurljósaskoðun í fimbulkulda. Himinn var einstaklega fallegur í kvöld, við keyrðum aðeins út fyrir borgina horfðum á frábæra norðurljósasýningu og stjörnubjartan himinn. Yngstu krakkarnir voru afar hrifin, sérstaklega Jóhanna Inga sem er mjög hrifnæm, hún var uppnumin yfir þessu litla kvöldævintýri. Ég er nú engin myndasnillingur en við reyndum að festa á filmu brot af ljósasýningunni. Það er samt ekki hægt að taka almennilega mynd af norðurljósum nema með betri græjum, myndavélastatív og slíku.

IMG_8677

Að allt öðru, þegar ég útskrifaðist um daginn fékk ég margar fallegar og góðar gjafir. Ég fékk nokkrar góðar bækur sem pössuðu mínum bókasmekk einstaklega vel, mínir nánustu þekkja mig greinilega! 🙂 Kannski er það skrítin blanda en ég hef gaman af sögulegum skáldsögum, ævisögum og uppskriftabókum. Ég fékk eina góða uppskriftabók sem ég hlakka til að prófa, Dagbók Elku og ástarljóð Páls Ólafssonar, Ég skal kveða um eina þig alla mína daga. Núna ég að lesa Dagbók Elku af áfergju, frábær bók sem veitir einstaka innsýn í líf alþýðukonu í Reykjavík fyrir einni öld. Ég fékk líka ofsalega fallegan disk og diskakúpu, skreyttan með fallegri slaufu, með heimagerðu konfekti frá Hafliða Ragnarssyni. Frábær hugmynd af fallegri gjöf.

Útskrift7

Núna er allt konfektið löngu búið, mikið var það gott! Nú bíður diskurinn eftir eftir einhverju öðru gúmmelaði eða jafnvel einhverju fallegu páskaskrauti. Kannski fer ég að skoða heimilisblogg og leita mér að  páska-innblæstri! 🙂

IMG_8670

Takk Sólveig og Gabríela fyrir fallegu túlípanana í dag! 🙂

En svo ég víki að aðalatriðinu, mat! Síðan ég djúpsteikti fiskinn hennar Gwynnu um daginn hefur mig dagdreymt um að djúpsteikja eitthvað annað, það gekk nefnilega svo óskaplega vel að djúpsteikja fiskinn og hann var svo góður! Ég ákvað um helgina að djúpsteikja kjúklingaleggi. Ég var eitthvað að velkjast með hvað ég ætti að hafa með þessu og endaði á því að hafa hrísgrjón (soðin í kjúklingasoði), heimatilbúið hrásalat og súrsæta sósu í anda asískra veitingastaða. Þetta heppnaðist allt mjög vel og var voðalega gott. Ég skoðaði allskonar uppskriftir og blogg varðandi að djúpsteikja kjúkling. Nanna Rögnvaldar og Læknirinn í eldhúsinu hafa bæði djúpsteikt kjúkling. Ég fór aðra leið en þau, ég forsauð kjúklinginn svo það þyrfti ekki að djúpsteikja hann eins lengi. Þetta er aðferð sem er mikið notuð í amerískum kjúklinga uppskriftum. Það er líka mikilvægt að krydda kjúklinginn vel. Ég notaði mikið af Tabasco sósu, kjúklingum er velt upp úr sósunni sem er blandað við egg, kjúklingurinn verður ekkert sterkur en sósan gefur gott og mikið bragð. Það var mjög gott að sjóða hrísgrjónin upp úr kjúklingasoðinu og kryddi, það gaf þeim afar gott bragð. Hrásalatið er afar einfalt en ofsalega gott, ég er með grunnuppskrift af því hér en að þessu sinni bætti ég líka við gulrótum. Þegar ég djúpsteiki þá er ég alltaf með eldvarnarteppið við hliðina á mér tilbúið til notkunnar!

IMG_8642

Djúpsteiktur kjúklingur:

  • 16 kjúklingaleggir
  • salt & pipar
  • paprikukrydd
  • 2 kjúklingateningar
  • 2 egg
  • 80 ml vatn
  • ca 1/2 flaska Tabasco sósa
  • 300 g hveiti
  • 2 tsk pipar
  • 1 tsk salt
  • 2 tsk hvítlaukskrydd
  • 2 tsk paprikukrydd
  • olía til djúpsteikingar  (ég notaði corn oil frá Wesson úr Kosti)

Vatn er sett í pott sem passar fyrir alla kjúklingaleggina, út í vatnið er blandað vel af salti, pipar og paprikukryddi auk þess sem kjúklingateningarnir eru leystir upp í vatninu. Suðan er látin koma upp og þá er leggjunum bætt út í pottinn og þeir soðnir í ca. 6 mínútur. Þá eru þeir veiddir upp úr pottinum (ekki hella soðvatninu!) og kældir snöggt undir köldu vatni. Soðvatnið er notað til þess að sjóða hrísgrjónin í. Olía er sett í djúpsteikingarpott eða í stóran, víðan pott, (ég notaði alla olíuna úr flöskunni) og hitað upp í ca. 190 gráður. Ef ekki er notaður hitamælir þá er hægt að prófa sig áfram með því að setja lítinn brauðbita ofan í olíuna. Ef hann verður gullinbrúnn fljótt og það „bubblar“ í kringum hann er olían tilbúin. Egg og vatn hrært saman auk Tabasco sósunnar. Í annarri skál er hveiti og kryddum blandað vel saman. Þegar olían er tilbúin er kjúklingaleggjum velt vel upp úr eggjablöndunni og svo hveitiblöndunni. Nokkrir leggir eru djúpsteiktir í einu, passa verður að hafa ekki of þröngt um þá, þess vegna er gott að nota víðan pott. Ég djúpsteikti kjúklingaleggina í ca. 6 mínútur, þá snéri ég leggjunum varlega við og steikti í 6 mínútur í viðbót. Þetta dugði hjá mér en maður verður að prófa sig áfram, skera í einn legg til að kanna hvort að hann er tilbúinn eftir þennan tíma. Kjúklingurinn er svo lagður á eldhúspappír eftir steikingu. Ef maður djúpsteikir kjúklingaleggina í mörgum hollum er hægt að hafa þá inni í ofni við ca. 100 gráður til að halda þeim heitum. Olíun er kæld, hellt aftur í flöskuna og hún geymd á köldum og dimmum stað, hana er hægt að nota nokkrum sinnum til djúpsteikingar.

IMG_8657

Súrsæt sósa

  •  1 tsk olía
  • 1 msk gulur laukur, saxaður smátt
  • 1 hvítlauksrif, saxað fínt
  • 1 ananas-hringur, skorinn smátt
  • ½ gulrót, skorin í litla teninga
  • 3 dl kjúklingakraftur
  • 1 dl sykur
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1 dl hvítvínsedik
  • 3 tsk kartöflumjöl

Olían er hituð í potti og laukurinn steiktur ásamt hvítlauknum í smá stund án þess að hann taki lit þar til laukurinn verður mjúkur og glær. Þá er ananas og gulrótum bætt út í og steitk í stutta stund til viðbótar. Því næst er kjúklingakrafti hellt út í auk tómatpúrrunnar, sykri og hvítvínsedik. Þetta er látið malla í 5 mínútur. Þá er kartöflumjöli hrært út í dálítið vatn og blandað hægt og rólega út í sósuna og hrært í á meðan. Því næst er potturinn tekin af hellunni og sósan smökkuð til með meiri sykri ef þarf, ef hún er of þykk er hún þynnt með ananassafa og/eða vatni.

IMG_8645

Heimatilbúið hrásalat:

  • ca. 1/2 hvítkálshaus
  • 3 gulrætur
  • 1 dós sýrður rjómi
  • ca 200-300 gr maukaður ananas í dós (án vökvans)
Hvítkálið og gulræturnar er fínsaxað í matvinnsluvél. Ananas og sýrðum rjóma bætt við og öllu hrært saman.
IMG_8648