Bakaður lax með smjörsteiktu kúskús og taragondressingu


Bakaður lax með smjörsteiktu kúskús og taragondressingu Í vor verða komin sex ár frá því að við fluttum heim frá Stokkhólmi eftir 15 ára dvöl í borginni. Þá þegar fyrir sex árum voru Svíar farnir að bjóða upp á sniðuga þjónustu sem var, og er enn, afar vinsæl þar í landi. Þetta er matarpakkaþjónusta þar sem heimili fá send heim hráefni ásamt uppskriftum fyrir kvöldmatinn. Í Svíþjóð hefur þessi þjónusta verið að þróast undanfarinn áratug og nú er svo komið að það er hægt að fá allskonar tegundir af máltíðum, grænmetismáltíðir, barnvænar máltíðir, LKL-máltíðir og fleira. Ég prófaði þetta í Svíþjóð og líkaði vel en hér á Íslandi hefur ekki verið til slík þjónusta fyrr en núna. Ég rakst á fyrirtækið Eldum rétt á Facebook en það fyrirtæki er nýfarið að bjóða upp á þessa þjónustu. Eftir að hafa skoðað heimasíðuna þeirra ákvað ég að slá til og prófa.

IMG_4218

Það eru margir þættir sem þarf að huga að ef svona þjónusta á að ganga upp. Í fyrsta lagi þarf heimasíðan að vera í lagi því hún er fyrsti viðkomustaðurinn. Hráefnið þarf að vera ferskt og gott, passlega skammtað og uppskriftirnar þurfa að vera auðveldar en að sama skapi spennandi og bragðgóðar. Eldum rétt nær strax fullu húsi stiga með ákaflega flotta og notendavæna heimasíðu. Eftir að ég var búin að leggja inn pöntunina, sem var auðvelt, fékk ég greinagóðan og skýran tölvupóst þar sem kom fram hvaða matrétti ég mundi fá, innihaldslýsingu og slíkt.

Ég fékk sendinguna í dag og ég varð satt að segja yfir mig hrifin! Öllum hráefnunum var pakkað afar vel inn, allt skilmerkilega merkt með litum svo auðveldlega sæist hvaða hráefni tilheyrði hvaða uppskriftum.

IMG_4220Síðast en ekki síst var allt hráefnið ákaflega ferskt og spennandi. Ég fékk hráefni í laxarétt, kjúklingarétt og lasagna. Það var mælt með því að byrja á laxaréttinum sem ég og gerði. Það var einstaklega þægilegt og fljótlegt að elda réttinn þar sem allir skammtar voru fyrirfram tilbúnir og auðvelt að fara eftir uppskriftinni.

IMG_4222

Það er tilvalið að leyfa krökkunum að hjálpa til við eldamennskuna þar sem hráefnin og uppskriftirnar eru svo aðgengileg. Það er líka svo sniðugt að nota svona hráefni og uppskriftir sem aðrir hafa fundið til fyrir mann. Þannig neyðist maður til þess að fara út fyrir þægindarammann og prófa eitthvað nýtt. Það liðu nákvæmlega 20 mínútur frá því að ég hóf eldamennskuna þar til að maturinn var kominn á borðið. Við vorum öll stórhrifin af matnum, hann var frábærlega góður. Ég hafði haft dálitlar áhyggjur af því að skammtarnir væru kannski litlir – við fjölskyldan erum ekki þekkt fyrir að vera matgrönn! 😉 En það voru óþarfa áhyggjur, skammtarnir voru vel útilátnir. Ég hlakka mikið til að elda hina réttina tvo og mér finnst mikið tilhlökkunarefni að einhver annar sé búinn að hafa allt tilbúið fyrir mig – ég þurfi ekkert annað að gera en að vinda mér í eldamennskuna! 🙂

Ég hafði samband við Eldum rétt og fékk leyfi til þess að deila með ykkur þeim uppskriftum sem ég fékk frá þeim. Hér kemur sú fyrsta sem ég eldaði í kvöld, dásamlega góður laxaréttur.

IMG_4221

Uppskrift f. 4:

  • 700 g lax
  • ólífuolía og smjör til steikingar
  • salt og pipar
  • 3 dl kúskús
  • 60 sólþurrkaðir tómatar
  • 2 rauðlaukar
  • 30 g kapers
  • 60 g strengjabaunir
  • 1 sítróna
  • taragondressing (sýrður rjómi, sítrónusafi, graslaukur, balsamik edik, taragon krydd, salt og pipar – öllu blandað saman)

Ofn hitaður í 200 gráður við undir og yfirhita. 8 dl af vatni sett í pott ásamt smá salti og hitað að suðu. Þegar vatnið er byrjað að sjóða er potturinn tekinn af hellunni og kúskús sett út í. Lokið sett á pottinn og hann lagður til hliðar. Laxinn er skolaður og skorinn í hæfilega stóra bita. Olía er hituð á pönnu, laxinn saltaður og pipraður og því næst steiktur í um það bil 2 mínútur á hvorri hlið. Laxinn er lagður í eldfast mót. Strengjabaunirnar eru steiktar í heilu lagi í 1-2 mínútur á pönnunni og settar í mótið með laxinum. Bakað í ofni í 10-12 mínútur.IMG_4223

Á meðan er rauðlaukurinn afhýddur og skorinn smátt ásamt kapers og sólþurrkuðum tómötum og þetta er allt steikt saman á pönnu upp úr 2-3 msk af olíu. Þá er kúskúsinu bætt á pönnuna ásamt 2 msk af smjöri og steikt í 2-3 mínútur til viðbótar.

IMG_4227 Smakkað til með salti, pipar og dálítið af sítrónusafa kreist yfir. Laxinn er svo borinn fram með steikta kúskúsinu, taragondressingunni og sítrónubátum.

IMG_4239

Ofnbakaður lax með mangósósu


Ofnbakaður lax með mangósósu

Það er með eindæmum hversu annasöm aðventan er, það er svo margt að gera og margt um að vera. Þetta er skemmtilegur og viðburðaríkur tími en vissulega mætti sólarhringurinn vera aðeins lengri. Í vikunni sem leið var margt um að vera bæði í vinnunni minni og utan hennar. Ég hélt til dæmis  jólasaumaklúbb fyrir „sænska“ saumaklúbbinn minn sem er alltaf tilhlökkunarefni, pakkaleikurinn okkar er alltaf sérstaklega spennandi! Ég bauð stelpunum upp á ekta jólamat, kalkúnabringur með öllu tilheyrandi meðlæti. Alexander átti einnig afmæli í vikunni og ég hélt matarboð í tilefni þess. Sökum anna á öllum vígstöðum ákvað ég að hafa matarboðið eins einfalt og hugsast gæti. Satt best að segja þurfti ég að taka á honum stóra mínum varðandi einfaldleikann. Ef ég býð fólki í mat þá finnst mér mikilvægt að allt sé spikk og span og er kannski ekki alltaf með einfaldasta matinn. Mér varð hins vegar hugsað til Jóhönnu Ingu dóttur minnar þegar hún var svona sex ára. Þá var ég í loftköstum að undirbúa matarboð, lagaði til og þreif milli þess sem ég undirbjó matinn. Jóhanna var fremur hissa á þessum látum í mér og spurði hvers vegna ég væri á svona miklu spani að laga til. Ég svaraði því til að það væru að koma gestir. Þá sagði hún: „Mamma, það verður hvort sem er drasl þegar gestirnir fara, það er mikið sniðugra að laga bara til eftir á!“ Svo bætti hún við: „þú skalt bara hafa góða stemmningu í matarboðinu, lækka ljósin, setja á rólega tónlist og kveikja á fullt af kertum, þá kemur svo góð stemmning!“ Þarna hitti sex ára dóttir mín naglann á höfuðið og það kemur örugglega ekki þeim á óvart sem þekkja þennan snilling.

Ég bað Alexander að skoða bloggið mitt og koma með óskir mat. Hann kom bara með eina ósk og hún var um meðlæti, mangósósuna sem hann dýrkar – honum fannst aukaatriði hvað væri með mangósósunni! Þetta hentaði mér fullkomlega, ég valdi það sem var fljótlegt en örugglega gómsætt, ofnbakaðan lax.

IMG_1978

Uppskrift f. ca 3

  • 1 flak lax (ca 800 g)
  • salt og pipar
  • 2-3 msk mango chutney
  • 2-3 msk sesamfræ

Ofn hitaður í 180 gráður. Laxinn er lagður í eldfast mót og hann kryddaður með salti og pipar. Því næst er mango chutney smurt á laxinn og sesamfræunum stráð yfir. Bakað í ofni í ca 20 mínútur, fer eftir þykkt laxins, eða þar til hann er eldaður í gegn. Borið fram með ofnbökuðum kartöflum og sætum kartöflum, fersku salati og mangósósu.

IMG_1992

Mangósósa:

  • 2 dl grísk jógúrt
  • 2 dl mangó (frosið – sem búið er að afþýða eða ferskt)
  • 2-3 msk mango chutney
  • salt og pipar

Öllu hráefninu blandað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél.

IMG_1990

Ofnbakaður lax á spínatbeði með sætum kartöflum


IMG_8722

Ég á litið uppskriftahefti sem Kvennakórinn Léttsveit Reykjavíkur gaf út en meðlimir kórsins gefa allir upp eina uppskrift í heftinu. Þar á meðal er að finna afskaplega góða laxauppskrift. Þetta er eiginlega með bestu laxauppskriftum sem ég hef prófað. Þannig að ef ykkur líkar lax og/eða fiskur þá er þetta klárlega réttur sem þið bara verðið að prófa! Ég keypti lax að þessu sinni hjá Fiskikónginum og hann var ofsalega góður. Núna er tilboð hjá Fiskikónginum, hann selur ýmsar tegundir fisks (ekki lax þó) á aðeins 1199 krónur kílóið sem er ótrúlega gott verð. Ég keypti því líka þorskhnakka á tilboði og hlakka til að elda eitthvað spennandi úr þeim á morgun.

Í kvöldfréttunum var frétt um málþing sem snérist um matarleifar og sóun. Ég hef alltaf nýtt mat vel og hendi eiginlega aldrei mat. Reyndar þá erum við líka svo mörg í fjölskyldunni að það eru alltaf einhver börn svöng, það stuðlar að góðri nýtingu matarins! Ísskápshurðin er allavega klárlega sú hurð sem oftast er opnuð á heimilinu! 🙂 Þegar við bjuggum í Stokkhólmi tókum við hjónin alltaf mat með okkur í vinnuna/skóla. Í dag eru það elstu krakkarnir sem eru dugleg að taka með sér afgang í skóla og vinnu. Ég eldaði extra mikið af laxinum í kvöld og það náðist því afgangur fyrir alla fjölskyldumeðlimi (og einn auka sem býr hjá okkur þessa dagana) öllum til mikillar gleði þar sem að laxarétturinn sló í gegn. Já og miðar eru algengir í ísskápnum okkar! Sumir fjölskyldumeðlimir eru búnir að eigna sér hillur, skúffur og slíkt í ísskápnum, þar er maturinn „off limits“. En ef matur er á sameiginlegu svæði þá þarf að merkja hann ef maður vill vera viss um að ganga að honum vísum! 😉 Það er hins vegar bara ein regla sem snýr að mér. Ef einhver finnur súkkulaði í eldhúsinu þá eru 99% líkur á því að ég eigi það! Það má því ALDREI borða súkkulaði án þess að spyrja mig fyrst, þetta gildir bæði um lítil og uppkomin börn sem og eiginmann! 🙂

IMG_8729

Uppskrift:

  • 2 msk ólífuolía
  • 200 g ferskt spínat
  • 700 g laxaflök
  • salt & pipar
  • 1 sæt kartafla (ca. 400 g), rifin gróft
  • 3 gulrætur, rifnar gróft
  • 2 dl kókosmjólk
  • 1 tsk karrímauk
  • 1 msk fiskisósa (fish sauce)
  • 1/2 límóna (lime), safinn
  • 1 tsk hrásykur (eða sykur)

IMG_8715

Ofn er hitaður í 200 gráður, undir- og yfirhita. Ólífuolían er smurð á botninn á stóru eldföstu móti og spínatið lagt í botninn. Laxinn er roðflettur og beinhreinsaður, skorinn í hæfilega stór stykki og þau lögð ofan á spínatið. Þá er laxinn saltaður og pipraður vel. Því næst er sæta kartaflan flysjuð og rifinn gróft, sama er gert við gulræturnar. Þessu er blandað saman og dreift yfir laxinn. Þá er kókosmjólk, karrímauki, fiskisósu, límónusafa og hrásykri blandað saman í skál og hellt yfir sætukartöflurnar/gulræturnar. Bakað í ofni við 200 gráður í um það bil 30 mínútur eða þar til fiskurinn er mátulega eldaður. Borið fram með hrísgrjónum og klettasalati (eða öðru fersku salati).

IMG_8725