Vinsælustu uppskriftirnar 2013


vinsældarlistiÁ þessum síðasta degi ársins finnst mér vel við hæfi að líta yfir liðið ár. Ég hef því tekið saman vinsælustu uppskriftirnar hér á Eldhússögum árið 2013. Þetta átti að vera svona topp tíu listi en ég gat ekki hætt – mér fannst alltaf næsta uppskrift vera það spennandi að hún yrði að vera með á listanum! 🙂 Þetta er því topp 15 listi yfir vinsælustu uppskriftir ársins og ég þurfti að taka á honum stóra mínum til að stoppa þar. 🙂

Ég vil að auki óska ykkur gleðilegs nýs árs og þakka fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða. Vonandi færir árið 2014 ykkur góða heilsu, hamingju og ljúffengan mat!

Vinsælustu uppskriftirnar 2013

1. Snickerskaka

SnickerskakaLangvinsælasta uppskriftin á Eldhússögum frá upphafi er Snickerskakan og hún trónir því líka á toppinum á listanum yfir vinsælustu eftirréttina, hann er að finna hér. Þessi kaka er algjör bomba og ég er því ekkert hissa á vinsældum hennar.

2. Nautahakksrúlla með osti og brokkolí

recently-updated121Nautahakksrúllan sló þvílíkt í gegn hér á Eldhússögum og ég er búin að gera hana í mörgum útfærslum og með mismunandi fyllingum eftir þessa fyrstu uppskrift. Frábær tilbreyting í nautahakks matargerðina.

3. Karamellu marengsterta

Karamellu marengsterta

Marengstertan guðdómlega náði öðru sætinu á eftirréttalistanum en nær þriðja sæti á þessum heildar vinsældarlista. Við Íslendingar elskum jú marengstertur og hér er útgáfa sem er algjörlega skotheld.

4. Hægeldað lambalæri

http://atomic-temporary-37037932.wpcomstaging.com/2013/01/14/haegeldad-lambalaeri/

Í fjórða sæti er hægeldaða lambalærið. Hvern einasta sunnudag er þetta mest lesna uppskriftin hér á Eldhússögum og sama er að segja um aðra hátíðardaga. Ef þið hafið ekki prófað að hægelda lambalæri enn þá hreinlega skipa ég ykkur að prófa það og sjá ljósið með okkur hinum! 🙂 Kjötið verður svo dásamlega meyrt og bragðgott með þessari aðferð og ekki skemmir fyrir hversu einföld eldamennskan er.

5. Besta skúffukakan

IMG_8057Ég gerðist svo djörf að kalla þetta bestu skúffukökuna og ég er því afar glöð yfir því að aðrir virðast vera sammála mér. Ég var búin að leita lengi að réttu skúffukökuuppskriftinni en fann hana aldrei. Að lokum ákvað ég að prófa mig áfram sjálf og finna uppskrift sem mér líkaði – þetta varð afraksturinn.

6. Frönsk súkkulaðikaka

IMG_5368Franska súkkulaðikakan er líka ofarlega á eftirrétta-vinsældarlistanum sem og á þessum lista. Það er ekkert skrítið, þessi kaka er afar einföld, einstaklega góð og passar við öll tækifæri nema mögulega í morgunmat … og þó!

7. Súkkulaðikaka með Pipp karamellukremi

IMG_8692Jú, jú, önnur súkkulaðikaka! Ef ég myndi eingöngu setja inn uppskriftir hingað á Eldhússögur sem í væri súkkulaði þá væri þetta líklega vinsælasta blogg landsins – það virðast allir vera veikir fyrir súkkulaði! 🙂 Ég er samt ekkert hissa á þessum vinsældum Pipp kökunnar, hún er með afbrigðum góð.

8. Ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu

IMG_8244Líklega er þetta uppáhalds uppskriftin mín á Eldhússögum og sú sem ég hef eldað hvað oftast! Ég byggi þennan vinsældarlista á hversu oft uppskriftirnar eru lesnar en ef ég ætti að fara eftir stjörnugjöfinni sem er að finna við allar uppskriftirnar þá væri þessi uppskrift líkast til í fyrsta sæti. Þetta er sú uppskrift sem flestir hafa gefið stjörnur og einkunninn er ekki amaleg, 50 manns hafa gefið henni að meðaltali fjóra og hálfa stjörnu.

9. Kladdkaka með karamellukremi

img_7456Enn ein súkkulaðidásemdin sem hér fer hönd í hönd við ljúffengt karamellukrem. Dæmalaust vinsæl kaka sem er með fullt stig húsa, fimm stjörnur frá öllum þeim sem hafa gefið henni einkunn.

10. Kjúklingasúpa með eplum, karrí og engifer

IMG_8643Sérdeilis góð súpa sem virðist passa öllum bragðlaukum! 🙂 Ég hef fengið ótal pósta frá lesendum sem segja frá því að þeir hafi boðið upp á þessa súpu í afmælum, fermingum og í veislum og við önnur tilefni og alltaf virðist hún slá í gegn.

11. Brauðréttur og rúllutertubrauð

IMG_3274

Ef að eitthvað slagar upp i vinsældir súkkulaðikaka og marengstertna þá eru það heitu brauðréttirnir. Í 11. sæti eru þessir tveir heitu réttir, annar í eldföstu móti og hinn er heitt rúllutertubrauð. Sá fyrri er uppskrift sem að ég hef þróað og er sá réttur sem alltaf klárast fyrst í öllum veislum hjá mér.

12. Hafraklattar

IMG_7330Satt best að segja forðast ég í lengstu lög að baka þessa hafraklatta sem verma 12. sætið. Það er ekki vegna þess að þeir eru ekki góðir, þeir eru það – bara alltof góðir! Þessi uppskrift ætti að koma með viðvörun: Varúð, um leið og þið fáið ykkur einn hafraklatta þá getið þið ekki hætt!

13. Kalkúnaveisla

IMG_0796Í 13. sæti er uppskrift að kalkúni, fyllingu, sósu og öllu því meðlæti sem mér finnst best með með kalkúni. Einn af mínum uppáhaldsmatréttum og geysilega vinsæl uppskrift yfir allar hátíðar líkt og páska, jól og síðast en ekki síst áramót.

14. Kjúklingur með sætum kartöflum og mangósósu

IMG_7576

Ákaflega góður réttur með kjúklingi, sætum kartöflum, mangó, feta .. já bara öllu sem mér finnst best! Þessi uppskrift er mikið lesin og allir hafa gefið henni fimm stjörnur af fimm mögulegum. „We have a winner“ – myndi kaninn segja! 😉

15. Pönnukökur eins og hjá ömmu

IMG_8523

Það var vel við hæfi að síðasta uppskriftin sem slapp inn á vinsældarlistann voru pönnukökurnar hennar ömmu – þær bestu í bænum! Mér finnst alltaf jafn gaman að sjá að þessi uppskrift ásamt lambalæris uppskriftinni eru langmest skoðaðar á hverjum einasta sunnudegi hér á Eldhússögum. Það er eitthvað svo notaleg tilhugsun að allir séu að borða pönnukökur með kaffinu á sunnudögum og hafa svo lambalæri í kvöldmatinn! 🙂

Vinsælustu eftirréttirnir


20130102-061307Nú þegar árinu er senn að ljúka er við hæfi að taka saman vinsælustu og bestu uppskriftirnar héðan af Eldhússögum á árinu. En þar sem að mér finnst sjálfri svo dæmalaust gaman að skoða svona vinsældarlista þá ákvað ég að gera fleiri en einn lista í ár. Ég er sjálf að skipuleggja hvaða eftirrétt ég á að útbúa fyrir gamlárskvöld og ákvað í framhaldi af því að gaman gæti verið að taka saman lista yfir 15 vinsælustu eftirréttina hér á Eldhússögum frá upphafi. Kannski getið þið nýtt ykkur uppskrift af þessum lista fyrir gamlárskvöld! 🙂

1. Snickerskaka

SnickerskakaLangvinsælasta uppskriftin á Eldhússögum frá upphafi er þessi gómsæta Snickerskaka en uppskriftin hefur verið skoðuð yfir 30 þúsund sinnum. Kakan sómir sér vel sem sætur eftirréttabiti með þeyttum rjóma eftir góða máltíð.

2. Karamellu marengsterta

Karamellu marengsterta

Þessi dásemdar marengsterta er hér um bil jafn vinsæl og Snickerskakan góða. Ástæðan er sú að hún er bara nákvæmlega eins og frábærar marengstertur eiga að vera – algjör æðibiti!

3. Frönsk súkkulaðikaka

IMG_5368Það hefur ekki borið mikið á þessari uppskrift á Eldhússögum en hægt og í hljóði hefur hún klifrað upp á topp tíu listann yfir mest skoðuðu uppskriftirnar á síðunni. Ég hef ekki hitt nokkurn fyrir sem ekki dásamar þessa köku, hún er algjörlega öruggt spil við allar aðstæður!

4. Súkkulaðikaka með Pipp karamellukremi

IMG_8695Frábær súkkulaðikaka sem er frábær nýbökuð og heit en jafnvel enn betri daginn eftir. Ekki spillir fyrir hversu auðvelt er að búa hana til, það þarf enga hrærivél! Endilega prófið aðrar útgáfur af Pippinu, til dæmis nýja Pippið með Irish Cream, það passar vel fyrir gamlárskvöld!

5. Kladdkaka með karamellukremi

img_7456Ég er ekkert hissa á því að sænska kladdkakan (klessukaka) með karamellukremi sé svona vinsæl eins og raun ber vitni. Kakan er ljúffeng og karamellukremið út úr þessum heimi gott!

6. Klessukaka með Daimrjóma

Klessukaka með daimrjómaNæst í röðinni er önnur kladdkaka, að þessu sinni með Daimrjóma. Það þarf varla að skýra út hvers vegna hún er vinsæl, myndirnar ljúga ekki! 😉

7. Pavlova

IMG_3270

Þið eruð kannski farin að sjá regluna í þessum lista … súkkulaðikökur í bland við smá marengs – augljóst hvað er vinsælast hjá landanum! 🙂 Pavlova er auðvitað klassísk, stökkur marengsinn með „chewy“ miðju, þeyttur rjómi og fersk ber, gerist ekki betra!

8. Banana-karamellubaka

IMG_3190

Þessa uppskrift setti ég hér inn á Eldhússögur í árdögum síðunnar eins og sést á myndunum. En í guðanna bænum látið ekki myndirnar fæla ykkur frá, þessi baka er svo ótrúlega ljúffeng enda er þetta áttunda mest lesna eftirrétta uppskriftin.

9. Súkkulaðikaka með Pipp bananakremi

IMG_1086Þessi ljúffenga kaka hlaut fyrstu verðlaun í uppskriftasamkeppni Nóa og Siríus og uppskriftin var birt í bæklingnum þeirra. Það þarf varla að hafa um þetta fleiri orð, ekki lýgur Nói … hvað þá Siríus! 🙂

10. Heit súkkulaðikaka með mjúkri miðju

IMG_7432

Enn ein súkkulaðikakan á topplistanum – hvað get ég sagt ágætu lesendur – þið elskið einfaldlega súkkulaði! 😉 Þessi litla dásemd er auðvitað frábær eftirréttur fyrir gamlárskvöld. Það er hægt að undirbúa hann fyrirfram og stinga formunum bara beint í ofninn í ca. 12-15 mínútur áður en hann er borinn fram.

11. Einfaldur Snickerseftirréttur með perum

IMG_1089Þetta er ljúffengur og ákaflega einfaldur eftirréttur sem hentar sérstaklega vel ef maður er með marga í mat. Það er hægt að útfæra hann á nokkra vegu en mér finnst best að nota mars súkkulaðið og niðursoðnar perur.

12. Súkkulaðikaka með “fudge” kremi

IMG_9261

Já, þetta er að gerast – enn ein súkkulaðikakan á topplistanum! Þessi kaka er hálfgerð blanda af öllum þessum súkkulaðikökum í listanum hér að ofan. Þið verðið ekki svikin ef þið veljið þessa fyrir gamlárskvöld, ég ábyrgist það! 🙂

13. Brownie-kaka með hindberjarjóma

IMG_0594

Það er ekki nóg með að þessi kaka sé einstaklega gómsæt heldur er hún augnayndi að auki. Hún er einfaldari að útbúa en halda mætti, endilega prófið!

14. Pavlova í fínu formi

IMG_8322Hér er Pavlova í eldföstu móti – einföld, ljúffeng og falleg!

15. Döðlueftirréttur

IMG_8025

Ef þið hafið ekki enn uppgötvað hversu góðar döðlur eru í eftirrétti þá er núna tækifærið! Þessi réttur er svolítið retró og ó svo góður. Karamellusósan setur sannarlega punktinn yfir i-ið í þessum rétti.

Þar með er topplistinn yfir 15 mest lesnu eftirrétta-uppskriftirnar hér á Eldhússögum tæmdur. Hins vegar langar mig að bæta við sex uppskriftum (og mig langaði að hafa þær mikið fleiri!) sem mér finnst að eigi heima ofarlega á þessum lista. Trúið mér, þessar uppskriftir eru skotheldar! 🙂

Hvítt súkkulaðifrauð með hindberjasósu

IMG_1917

Gott og fallegt – fallegt og gott! Hvað get ég sagt, hindber, rjómi og hvítt súkkulaði, þetta er bara ómótstæðileg blanda!

Súkkulaðipannacotta með karamellu

Súkkulaðipannacotta með karamelluPannacotta er svo ótrúlega einfalt að útbúa en að sama skapi dásamlega gott. Ég bauð ömmu þessa útgáfu og henni fannst þetta besti eftirrétturinn sem hún hefur bragðað … þá erum við að tala um á 85 árum – ef það er ekki góð einkunn þá veit ég hvað! 😉

Ostakökubrownie með hindberjakremi

Ostakökubrownie með hindberjakremi

Ég þarf varla að útskýra af hverju þessi kaka er á mínum topplista, hér er hreinlega allt það sem er gott sett saman í eina dásemdarköku!

Súkklaðimús með karamelliseruðum perum

IMG_9051 Ég er með nokkarar útgáfur af súkkulaðimús á síðunni minni og hefði viljað setja þær allar hingað á listann. Mjúk og bragðgóð súkkulaðimús er svo frábær endir á ljúffengri máltíð. Ég valdi samt þessa útgáfu af súkkulaðimús. Hér er hún færð upp á annað stig með því að lauma gómsætum karamelliseruðum perum í botninn – algjört gúrmei!

Bismarkbaka með súkkulaðisósu

IMG_6924

Ákaflega hátíðlegur og góður eftirréttur sem ég bauð upp á gamlárskvöldi í fyrra og á jólunum árið áður. Það hlýtur að vera afar góð einkunn! 🙂

Ís með heimatilbúnu frönsku núggati og súkkulaðisoðnum perum

IMG_6042Ég kom næstum því sjálfri mér á óvart með því að setja ís á þennan lista, venjulega er ís nefnilega eini eftirrétturinn sem ég stenst auðveldlega. En þetta er enginn venjulegur ís skal ég segja ykkur – núggatið gerir hann ómótstæðilegan! Bætið síðan súkkulaðisoðnu perunum við og rétturinn verður toppurinn á gamlárskvöldi! 🙂

Heimalagað rauðkál


IMG_2588Það er bara einn ókostur við jólin, þau eru of stutt og líða alltof hratt! Við höfum átt afar notalega jóladaga. Elfar var í fríi um þessi jól en það er alltaf svo gott þegar hann fær hátíðardagana óskerta með okkur fjölskyldunni án þess að þurfa að fara á sjúkrahúsið. Við vorum hér heima á aðfangadagskvöld með foreldrum mínum og ömmu og afa. Það má með sanni segja að allir hafi fengið góðar gjafir og börnin voru himinlifandi og þakklát fyrir allt sem þau fengu. Það var svolítið gaman að því að Eldhússögur fengu jólagjöf í ár! 🙂

IMG_2539

Anna Sif vinkona útbjó þennan sniðuga hitaplatta úr vintöppum og að auki fylgdi með heimatilbúin chili/sólberjasulta. Eldhússögur þakka fyrir þessa frábæru gjöf! 🙂

IMG_2445Yngstu börnin á aðfangadagskvöld

Á jóladag hittist stórfjölskyldan í ljúffengum brunch heima hjá mömmu og pabba. Hér er hægt að sjá fleiri myndir frá Eldhússögum á Instagram. Það er alltaf mjög afslappað í jóladagsboðinu, til dæmis mættu mín börn í náttfötunum og Bára litla frænka kom í prinsessubúningi. Ég er eiginlega að hugsa um að leggja fram þá tillögu að allir mæti bara í náttfötunum eða í prinsessubúningum að ári! Næsta jólaboð er ekki fyrr en á sunnudaginn þannig að við áttum daginn í gær alveg fyrir okkur. Það var því bara sofið, spilað, lesið, leikið með jólagjafirnar og seinnipartinn fórum við niður á tjörn á skauta og höfðum með okkur heitt kakó.

IMG_2549 Um kvöldið fengum við okkur hangikjöt sem ég eldaði í ofninum. Hér er hægt að sjá uppskriftina. Með hangikjötinu finnst mér alveg nauðsynlegt að hafa grænar Ora baunir, heimalagað rauðkál, laufabrauð og kartöfluuppstúf ásamt jólaöli.

IMG_2619

Eftir matinn var haldið áfram með afslöppun við kertaljós og kósýheit. Öll fjölskyldan horfði á kvikmyndina Hobbitann þar sem að bíóferð á Hobbitann 2 er í bígerð um helgina.

IMG_2632

En víkjum að rauðkálinu með hangikjötinu – það er ekkert erfitt að útbúa eigið rauðkál. Eini ókosturinn er að lyktin sem kemur þegar það er búið til er ekkert sérlega góð – en góða bragðið bætir hana upp! 🙂 Það er svo mikill munur á heimalögðuðu rauðkáli og því tilbúna að þessu tvennu er ekki saman að jafna.

Uppskrift:

  • 1 miðlungsstór rauðkálshaus, kjarninn fjarlægður og kálið sneitt fínt.
  • 2 græn epli, flysjuð og skorin í teninga
  • 2/3 dl rauðvínsedik,
  • 1 dl sykur
  • 2/3 dl óblönduð sólberjasaft
  • 1/2 tsk salt
  • 1 msk smjör
  • til hátíðarbrigða er hægt að sjóða rauðkálið með 2-3 negulnöglum eða stjörnuanís ásamt 1-2 kanilstöngum.

Látið allt saman í stóran pott og hitið rólega upp, látið sjóða við vægan hita í einn og hálfan til tvo tíma. Smakkið til þegar helmingur er liðinn af suðutíma, ef kálið er of súrt þá er sykri bætt við en ef það er of sætt þá þarf að bæta við aðeins meira af edik eða sólberjasaft. Nauðsynlegt er að smakka til rauðkálið á þessum tímapunkti, þ.e. eftir hálfan suðutíma til þess að það verði gott. Þegar suðu lokið er kálið sett í krukkur, leyft að kólna aðeins og svo sett ísskáp.IMG_2590

Jólagrauturinn hennar ömmu


Jólagrautur

Aðfangadagur er runninn upp og það ríkir mikil tilhlökkun hér á heimilinu. Allir krakkarnir (líka þessi stærstu) fengu náttföt í skóinn en Kertasníkir hefur aldrei brugðið útaf venjunni varðandi þá hefð. Auk þess er þar alltaf að finna gúmmelaði sem gott er að maula yfir barnaefninu og ásamt ískaldri kók í gleri sem ratar ávallt í skóinn á aðfangadag . Hann er sniðugur þessi Kertasníkir! 🙂

Ég er farin að huga að jólamatnum en í kvöld koma foreldrar mínir til okkar auk ömmu, afa og Ingu frænku. Það verður ekki brugðið útaf venjunni í kvöld frekar en önnur aðfangadagskvöld. Amma mun koma með jólagrautinn sem hún verður búin að standa yfir og elda með natni í nokkrar klukkustundir. Hún hefur eldað jólagrautinn á sama hátt í 60 ár og það er ekkert sem slær honum við, hann er dásamlega þykkur, mjúkur og gómsætur. Það er einn af hápunktum jólanna að borða jólagrautinn hennar ömmu með ljúffengri heimatilbúinni krækiberjasaft og kanelsykri. Hefðirnar eru það miklar í kringum jólagrautinn að amma kemur meira að segja með sérstakt kar og skeið undir kanelsykurinn sem er frá langömmu minni.

IMG_6486Mikil spenna ríkir varðandi möndluna og það er regla að sá sem fær möndluna feli hana þar til allir eru búnir að borða grautinn sinn. Þegar krakkarnir hafa fengið möndluna hafa þau verið ótrúlega klár að halda pókerandliti og fela möndluna undir tungunni alla máltíðina, jafnvel þó þau hafi verið mjög ung að árum. 🙂 Hér vann hins vegar amma möndluna! 🙂

amma

Jólasteikin okkar er hamborgarhryggur með dásamlega góðri sósu og hefðbundu meðlæti og í eftirrétt er heimatilbúinn Toblerone ís og vanilluís ásamt konfekti að sjálfsögðu. Ég ætla að skrá hjá mér hér í uppskriftasafnið á Eldhússögum uppskriftina að jólagrautnum hennar ömmu þó svo að ég viti að það sé varla hægt að elda grautinn eins og hún gerir hann.

IMG_6469Við mamma í eldhúsinu, ég í meðlætinu og mamma að hella jólagrautnum yfir í tarínuna.

IMG_2395

Uppskrift:

  • 4 bollar hrísgjón (River)
  • vatn
  • 3 lítrar nýmjólk + 1 líter
  • salt

Hrísgrjónin sett í pott ásamt vatni (vatnið látið fljóta aðeins yfir hrísgrjónin). Suðan látin koma upp, hitinn lækkaður og hrísgrjónin soðin í klukkutíma, vatni bætt við eftir þörfum. Eftir klukkutíma eru þremur lítrum af mjólk bætt við smátt og smátt út í pottinn og hrært oft og reglulega í grautnum. Grauturinn er smakkaður til með salti. Eftir þrjá tíma kemur amma með grautinn heim til mín, hitar hann upp aftur í pottinum og hrærir um það bil 1 líter af mjólk út í grautinn eða þar til hann verður mátulega þykkur. Grauturinn er borinn fram með krækiberjasaft og kanelsykri.IMG_6482

Piparkökur


piparkökurPiparkökubakstur er ómissandi í jólaundirbúningnum á heimili okkar. Ég er mjög veik fyrir piparkökuformum og við eigum orðið ansi veglegt safn af þeim. Jólasveinninn er líka sniðugur stundum og laumar í skóinn skemmtilegum formum daginn áður en við bökum piparkökurnar – skemmtileg tilviljun! 🙂IMG_2183

Hluti af piparkökuformunum

Það er nauðsynlegt að setja á fóninn góða jólatónlist, kveikja á kertum og drekka malt og appelsín úr jólaglösum á meðan piparkökurnar eru bakaðar og skreyttar. 🙂

IMG_2192

Krakkarnir eru snillingar að skreyta piparkökurnar. Hér málaði Vilhjálmur eina kökuna eins og uppáhalds hundategundina sína.IMG_2282Jóhanna er líka svo hugmyndarík í skreytingum, hér málaði hún jólatré á jólasokkinn – og skreytti með ótal silfurkúlum (sem eru ætar auðvitað!).

IMG_2258Hér að neðan færi ég inn uppskrift að góðum piparkökum, uppskrift sem ég nota alltaf þegar ég útbý deigið sjálf. Reyndar kaupi ég líka stundum tilbúið deig. Það er jú langskemmtilegast að skera út piparkökurnar og mála þær og önnum kafnar mömmur þurfa að forgangsraða á annasamri aðventu. Mér finnst samt þessar piparkökur langbestar.

Uppskrift:

  • 250 g sykur
  • 2 dl ljóst síróp
  • 1 msk kanil
  • ½ msk engifer
  • ¼ msk negull
  • ¼ tsk pipar
  • 250 g smjör
  • 1 msk matarsódi
  • 2 egg
  • 650-800 g Kornax hveiti

Kalt smjör er sett í skál sem er sett til hliðar. Því næst er sykur og síróp sett í pott og suðan látin koma varlega upp. Þá er kanil, engifer, negul og pipar hrært vel saman við. Því næst er matarsódanum bætt út í og öllu hrært hratt og vel saman. Á þessum tímapunkti verður blandan ljósari og bólgnar upp. Þá er blöndunni strax hellt yfir smjörið í skálinni og hrært vel þar til allt smjörið hefur bráðnað og blandan er orðin köld. Því næst er eggjunum bætt út í og þeim hrært vel saman við blönduna. Að lokum er hveitinu bætt smátt og smátt út í þar til deigið er orðið þétt og slétt. Plastfilma er sett yfir skálina og deigið geymt í kæli í nokkra klukkustundir helst yfir nóttu.

Þegar nota á deigið er það hnoðað örlítið og svo flatt út með kökukefli, þá er gott að strá dálítið af hveiti á borðið svo það festist ekki við eða nota bökunarpappír undir deigið. Piparkökurnar eru mótaðar með þar til gerðum formum, það þarf að passa að þær séu um það bil jafn þykkar allar. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 5-10 mínútur, fer eftir stærð piparkakanna.


IMG_2197
IMG_2205

 

Glassúr:

  • flórsykur
  • eggjahvíta
  • sítrónusafi
  • matarlitir (Wilton eru langbestir)
  • kökuskraut eftir smekk

Flórsykur er settur í skál og örlítið af vatni er bætt út í ásamt smá sítrónusafa og eggjahvítu (ég notaði örlítið úr eggjahvítubrúsa en það er líka hægt að nota hluta af eggjahvítu úr einu eggi). Pískað vel saman þar til að blandan er slétt. Það þarf að prófa sig áfram með hlutfallið af vökva og flórsykri til að ná hæfilegri þykkt þannig að glassúrinn renni ekki en þó  þannig að það sé hægt að sprauta honum á piparkökurnar. Það er góð regla að bæta við minnna en meira af vökva því það þarf lítið til að glassúrinn verði of þunnur. Glassúrnum er svo skipt í eins margar skálar og litirnir eiga að vera og matarlit hrært út í hverja skál. Ég sett svo glassúrinn í litlu einnota sprautupokana frá Wilton (notaði bara pokana, ekki stútinn) og klippti örlítið gat, það hentaði mjög vel.

IMG_2286

IMG_2312 IMG_2260IMG_2314IMG_2263IMG_2311 IMG_2264 IMG_2271IMG_2266

Hátíðarmatur og nýjung á Eldhússögum


Jólastofa

Það styttist óðfluga í jólin og líkt og flestir þá er ég farin að huga að matarinnkaupunum fyrir jólin. Hátíðar snúast um hefðir og ég þarf ekkert að finna upp hjólið þegar matseðillinn er settur saman. Við snæðum hamborgarhrygg á aðfangadag, hangikjöt á jóladag en á annan í jólum er misjafnt hvað ég útbý, oft hef ég góða fiskmáltíð sem hentar vel eftir kjötmáltíðirnar dagana á undan. Allar uppskriftirnar að þessum réttum eru hér á Eldhússögum en í dag kynni ég frábæra nýjung sem ég er ákaflega spennt yfir. Ég er komin í samstarf við sommalier (vínþjón) sem ætlar að hjálpa mér að para saman góð vín með uppskriftunum mínum. Eins og ég hef talað um áður þá finnst mér voða gott að dreypa á smá léttvíni með góðri máltíð en þekking mín á vínum er afar lítil. Það verður því ákaflega gaman að geta fengið faglega hjálp við val á vínum með máltíðunum og ekki síður að geta gefið ykkur ábendingar um hvaða vín henta með uppskriftunum sem ég gef upp.

_LKI3259-2Vínþjónninn sem kominn er í samstarf við Eldhússögur heitir Sævar Már Sveinsson framreiðslumeistari sem hefur sérhæft sig í léttvínum. Sævar hefur unnið titilinn vínþjónn ársins 5 ár í röð og keppt í fjölmörgum alþjóðlegum keppnum. Hann hefur meðal annars starfað á Hótel Holti, Sommelier Brasserie og á Grillinu á Hótel Sögu. Sævar mun para saman vín með réttunum hér á Eldhússögum miðað við það hráefni sem er í uppskriftunum svo að vínið falli vel að matnum og öfugt. Þá hefur Sævar í huga atriði eins og; sætu, sýru, beiskju og seltu. Oftast gildir sú regla að setja vín með matnum sem hefur álíka eiginleika. Það þýðir að réttur með sætu meðlæti passar vel með víni með sætum ávaxtakeim og svo framvegis.

Sævar er þegar búinn að skoða nokkrar uppskriftir að hátíðarmat hér á Eldhússögum og para við þær ljúffeng léttvín.

Tillögur að gómsætum hátíðarmat og drykk sem henta vel yfir jól og áramót:

Hamborgarhryggur

Gljáður hamborgarhryggur með kóksósu

Hangikjöt

Hangikjöt með kartöfluuppstúf

IMG_0796

Kalkúnn með brúnuðum kartöflum, sætkartöflumús, gljáðum gulrótum, waldorfsalati, rósakáli með beikoni og himneskri sósu

IMG_7407

Hægeldað lambalæri með kartöflum, rjómasósu, grænmeti og sætum kartöflum

IMG_7549

Hægeldaður lambahryggur með rauðvínssósu og hunangsgljáðu grænmeti

Roastbeef

Roastbeef með bearnaise sósu, kartöflugratíni og spínatsalati með jarðaberjum

IMG_2678

Grillað nautaribeye með heimagerðri bearnaise sósu og chilikartöflum með papriku

IMG_8244

Ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu

IMG_0755

Ofnbakaður humar með heimatilbúnu hvítlaukssmjöri

IMG_0748

Freyðandi myntu- og sítrónudrykkur

IMG_6042

Ís með heimatilbúnu frönsku núggati og súkkulaðisoðnum perum

IMG_1917

Hvítt súkkulaðifrauð með hindberjasósu

Ofnbakaður lax með mangósósu


Ofnbakaður lax með mangósósu

Það er með eindæmum hversu annasöm aðventan er, það er svo margt að gera og margt um að vera. Þetta er skemmtilegur og viðburðaríkur tími en vissulega mætti sólarhringurinn vera aðeins lengri. Í vikunni sem leið var margt um að vera bæði í vinnunni minni og utan hennar. Ég hélt til dæmis  jólasaumaklúbb fyrir „sænska“ saumaklúbbinn minn sem er alltaf tilhlökkunarefni, pakkaleikurinn okkar er alltaf sérstaklega spennandi! Ég bauð stelpunum upp á ekta jólamat, kalkúnabringur með öllu tilheyrandi meðlæti. Alexander átti einnig afmæli í vikunni og ég hélt matarboð í tilefni þess. Sökum anna á öllum vígstöðum ákvað ég að hafa matarboðið eins einfalt og hugsast gæti. Satt best að segja þurfti ég að taka á honum stóra mínum varðandi einfaldleikann. Ef ég býð fólki í mat þá finnst mér mikilvægt að allt sé spikk og span og er kannski ekki alltaf með einfaldasta matinn. Mér varð hins vegar hugsað til Jóhönnu Ingu dóttur minnar þegar hún var svona sex ára. Þá var ég í loftköstum að undirbúa matarboð, lagaði til og þreif milli þess sem ég undirbjó matinn. Jóhanna var fremur hissa á þessum látum í mér og spurði hvers vegna ég væri á svona miklu spani að laga til. Ég svaraði því til að það væru að koma gestir. Þá sagði hún: „Mamma, það verður hvort sem er drasl þegar gestirnir fara, það er mikið sniðugra að laga bara til eftir á!“ Svo bætti hún við: „þú skalt bara hafa góða stemmningu í matarboðinu, lækka ljósin, setja á rólega tónlist og kveikja á fullt af kertum, þá kemur svo góð stemmning!“ Þarna hitti sex ára dóttir mín naglann á höfuðið og það kemur örugglega ekki þeim á óvart sem þekkja þennan snilling.

Ég bað Alexander að skoða bloggið mitt og koma með óskir mat. Hann kom bara með eina ósk og hún var um meðlæti, mangósósuna sem hann dýrkar – honum fannst aukaatriði hvað væri með mangósósunni! Þetta hentaði mér fullkomlega, ég valdi það sem var fljótlegt en örugglega gómsætt, ofnbakaðan lax.

IMG_1978

Uppskrift f. ca 3

  • 1 flak lax (ca 800 g)
  • salt og pipar
  • 2-3 msk mango chutney
  • 2-3 msk sesamfræ

Ofn hitaður í 180 gráður. Laxinn er lagður í eldfast mót og hann kryddaður með salti og pipar. Því næst er mango chutney smurt á laxinn og sesamfræunum stráð yfir. Bakað í ofni í ca 20 mínútur, fer eftir þykkt laxins, eða þar til hann er eldaður í gegn. Borið fram með ofnbökuðum kartöflum og sætum kartöflum, fersku salati og mangósósu.

IMG_1992

Mangósósa:

  • 2 dl grísk jógúrt
  • 2 dl mangó (frosið – sem búið er að afþýða eða ferskt)
  • 2-3 msk mango chutney
  • salt og pipar

Öllu hráefninu blandað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél.

IMG_1990

Blómkálssúpa með heimagerðum brauðteningum


Blómkálssúpa með heimagerðum brauðteningumÉg ætlaði að byrja þessa færslu með sömu rullunni og svo oft áður þegar ég blogga um súpur, að í raun sé ég ekkert sérstaklega hrifin af súpum en þessi súpa sé ein af undantekningunum. Þá rann upp fyrir mér ljós að það gæti eiginlega ekki verið rétt. Ég hef sett hingað á Eldhússögur margar súpuuppskriftir sem mér finnst allar ægilega góðar, sérstaklega fiski- og kjúklingasúpurnar. Mér finnst eiginlega bara tvennt dálítið pirrandi við súpur. Það er þegar þær eru sjóðheitar og brenna mann á tungunni og þegar þær skvettast út um allt! Hvort tveggja er auðvelt að laga. Láta bara súpuna standa í smástund og leyfa henni að kólna dálítið áður en hún er borðuð og ekki borða með brussugangi og látum! Niðurstaðan er sem sagt sú að með bættum borðsiðum þá geta súpur vel verið í uppáhaldi hjá mér! 🙂 Í kvöld bjó ég til ákaflega góða súpu úr hráefnum sem ég fann í ísskápnum hjá mér. Það er alltaf jafn gefandi að búa til góðan mat og nýta hráefnin í ísskápnum út í ystu æsar í leiðinni. Til dæmis gerði ég þennan brauðrétt í fyrradag og skar af brauðinu alla skorpu. Ég notaði skorpuna til að búa til gómsæta brauðteninga sem pössuðu eins og hönd í hanska við blómkálssúpuna í kvöld. Í súpuna notaði ég Philadelphia ost með chili og okkur fannst hann gefa súpunni afar gott og mikið bragð. Fyrir þá sem vilja mildari súpu er hægt að nota natural Philadelphia ost.

Uppskrift:

  • 1 stór blómkálshaus
  • 1 meðalstór gulur laukur
  • 2-3 tsk olía
  • 1.2 l kjúklingasoð (4 tsk kjúklingakraftur leystur upp í 1.2 líter af sjóðandi vatni)
  • 1 msk hveiti
  • 1 dós Philadelphia ostur með chili (eða natural fyrir mildari súpu)
  • salt og pipar

Blómkálið er skorið í hæfilega stóra bita og laukurinn saxaður smátt. Laukurinn er steiktur  upp úr olíu í stórum potti þar til hann verður mjúkur. Þá er blómkálinu bætt út og það steikt í smá stund þar til það hefur tekið dálítinn lit og mýkst, hveitinu er þá bætt út í pottinn. Því næst er kjúklingasoðinu hellt út í og súpunni leyft að malla undir loki í ca. 20 mínútur eða þar til blómkálið er orðið vel mjúkt. Þá er Philadelphia ostinum bætt út í og súpan krydduð eftir smekk. Það er hægt að mauka súpuna með töfrasprota eða bera hana fram með blómkálsbitunum í. Borin fram með brauðteningum. Ég setti líka nýjar og ferskar baunspírur út í súpuna sem komu til mín í áskrift í dag sem gáfu súpunni extra gott bragð.

IMG_1937

Brauðteningar:

  • Brauð eða skorpa af brauði
  • ólífuolía
  • heitt pizzakrydd (eða mildara ítalskt krydd fyrir þá sem vilja bragðminni brauðteninga)
  • salt & pipar

Ofn hitaður í 200 gráður. Brauðið er skorið í hæfilega stóra bita og settir í skál. Ólífuolíu hellt yfir brauðteningana og þeim velt vel upp úr olíunni ásamt kryddinu. Passa þarf að nota vel af olíu. Brauðteningunum er því næst raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír og bakað í ofni í ca. 10 mínútur eða þar til brauðteningarnir hafa náð góðum lit.IMG_1929IMG_1938

Æðislegur brauðréttur


Æðislegur brauðréttur

Annar sunnudagur í aðventu … tíminn þýtur svo sannarlega áfram. Í dag fórum við í árlegt aðventukaffi til Ingu frænku í tilefni afmælis hennar. Að vanda bauð hún upp á gómsætar veitingar, uppskriftir að flestum þeirra er einmitt að finna hér á Eldhússögum! 🙂 Jóhanna Inga tók rafmagnsgítarinn sinn með og tróð upp með afmælissöng og jólalögum. Hún er ansi dugleg á gítarinn þrátt fyrir að hafa bara lært á hann í eina önn. Ég hins vegar er orðin liðtækur rótari og get meira að segja stillt gítarinn fullkomlega þökk sé snilldar gítarstillingar-appi á símanum mínum, eins gott að það er til, annars væri lítið gagn í mér. Því miður varð Jóhanna Inga veik í boðinu og núna er hún komin með háan hita og er slöpp, vonandi jafnar hún sig fljótt af því.IMG_1831

Fyrir utan allar gómsætu veitingarnar sem Inga útbjó sjálf þá gerði ég einn brauðrétt auk þess sem Inga keypti gómsætar vestfirskar hveitikökur (sem eru ómótstæðilegar með smjöri og reyktum silungi!) af Önnu frænku okkar, sem er snilldar konditor, ásamt ljúffengum mömmukökum . Ég mæli sannarlega með því að þið kíkið á básinn hjá Önnu konditorí í jólaþorpinu í Hafnarfirði eða í bakaríið hennar og kaupið ykkur jólagott.

Recently Updated4

Brauðrétturinn sem ég gerði er ein af þeim uppskriftum sem var næstum því fallinn í gleymskunnar dá þótt að þetta sé „æðislegur brauðréttur“ eins og segir í titlinum. Mér finnst dálítið kjánalegt að láta einhvern rétt heita „æðislegur“ en ákvað bara að láta titilinn standa eins og hann stendur í gömlu uppskriftabókinni minni. Um daginn minnti Hildur vinkona mín mig á þennan brauðrétt og sagðist hafa fengið uppskriftina hjá mér. Hún fór að tala um að rétturinn hefði slegið í gegn hjá henni í saumaklúbbi. Ég mundi ómögulega eftir þessum brauðrétti og fletti í gegnum gömlu uppskriftabókina mína en ég hélt mig hafa fært allar uppskriftirnar hingað inn á bloggið. Svo var greinilega ekki því ég fann þessa uppskrift á snjáðri síðu í bókinni og það rifjaðist upp fyrir mér hversu vinsæll þessi brauðréttur hefur verið í veislum hjá mér í gegnum tíðina. Það er svo skemmtilegt við þennan rétt að það er ekki á honum rifinn ostur heldur þeyttar eggjahvítur með dálitlu majónesi og kryddum.

Uppskrift í fremur lítið eða meðalstórt form (á myndinni er ég með tæplega tvöfalda uppskrift í stóru formi):

  • ca. 12-14 brauðsneiðar skornar í teninga (ég sker skorpuna af)
  • 2 dl majónes
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 200 g skinka, skorin í sneiðar
  • aspas í dós (ca. 400 gramma dós)
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt eða sett í hvítlaukspressu
  • ca 150 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 stór rauð paprika, skorin í bita
  • ca. 1 tsk karrí
  • 1/4 tsk cayanne pipar
  • salt & pipar

Ofan á brauðréttinn:

  • ca. 2-4 eggjahvítur (fer eftir stærð formsins)
  • 3 msk majónes
  • hnífsoddur karrí
  • hnífsoddur cayanne pipar

Ofn hitaður í 200 gráður. Brauðteningunum er dreift í smurt eldfast mót. Gott er að bleyta aðeins upp í því með aspassafanum.IMG_1806Majónesi, sýrðum rjóma, skinku, aspas, sveppum og hvítlauki er hrært saman.IMG_1809 Kryddað með cayanne pipar, karrí, salti og pipar. Gott er að byrja með minna en meira af karrí og cayanne pipar og smakka sig svo áfram. Blöndunni er svo dreift yfir brauðið.IMG_1812 Eggjahvíturnar eru stífþeyttar. Því næst er majónesi og örlítið af cayanne pipar og karrí hrært varlega saman við og blöndunni smurt yfir brauðréttinn.IMG_1820 Hitað í ofni í ca. 25-30 mínútur.

IMG_1829Borið fram heitt.IMG_1875

Pannacotta með súkkulaði-hnetumulningi


Pannacotta með súkkulaði-hnetumulningi

Þó svo að það hafi verið ákaflega kalt undanfarna daga þá verð ég að viðurkenna að snjórinn og kuldinn gerir allt svo mikið jólalegra en ella. Ég tók þessar myndir í vikunni fyrir utan húsið mitt eftir snjókomuna. Þó svo að ég hafi sett „dash“ af gervisnjó og glimmer á kransinn minn þá er enn fallegra þegar á hann snjóar ekta snjó.

IMG_1753Mikið vona ég að það snjói svona fallega á jólunum líka.

IMG_1769

Við fjölskyldan áttum saman ljúfan laugardag í dag sem byrjaði með jólatónleikum barnanna á vegum tónlistarskólans þeirra. Vilhjálmur spilaði flókið verk á píanó og Jóhanna var að spila á rafmagnsgítar á sínum fyrstu tónleikum. Þau stóðu sig ofsalega vel og við foreldrarnir vorum að vonum afar stolt. Því næst var jólatréð valið af kostgæfni en við þurftum að fara á nokkra staði áður en nægilega fallegt jólatré fannst. Þá tók við dálítið búðarráp sem endaði með notalegri stund á veitingastað og loks endað á ísbúð Vesturbæjar eftir góðan dag.

Ég hef sett inn nokkuð margar uppskriftir að eftirréttum hér á síðuna að undanförnu og nú bætist enn ein uppskriftin við. Mér finnst bara svo dæmalaust skemmtilegt að útbúa eftirrétti og ennþá skemmtilegra að borða þá! Pannacotta er einn einfaldasti og ljúffengasti eftirrétturinn sem hægt er að gera, afar fljótlegur og hægt að útbúa hann með fyrirvara sem er góður kostur fyrir matarboð. Um daginn þegar ég var með matarboð fyrir fjölskylduna bjó ég til súkkulaðipannacotta með karamellu sem ömmu fannst vera besti eftirréttur sem hún hafði bragðað. Í síðustu viku komu amma og afi aftur til okkar í mat og ég ákvað að gera aðra útfærslu af pannacotta – ekki vildi ég valda ömmu vonbrigðum! Það er einmitt svo sniðugt hversu margar útfærslur er hægt að gera af þessum rétti. Að þessu sinni notaði ég niðursoðna sætmjólk í stað sykurs hún gerði pannacottað dásamlega karamellukennt og bragðgott. Ofan á dreifði ég heimatilbúnum hnetumulningi með hnetum og kornflexi sem velt var upp úr bræddu súkkulaði, dæmalaust gott! Mér skilst að það sé ekki hægt að fá niðursoðna sætmjólk lengur í Kosti en hún ætti að fást í asískum matvöruverslunum og í Kolaportinu. Mögulega á fleiri stöðum – einhver sem veit?

IMG_1713

Uppskrift f. 6:

  • 5 dl rjómi
  • 1 dós niðursoðin sætmjólk (sweetened condensed milk- ca. 350 g)
  • 50 g suðusúkkulaði
  • 2 blöð matarlím (3 blöð fyrir þá sem vilja stífari búðing)
  • skreytt með þeyttum rjóma, berjum og súkkulaði-hnetumulningi

Matarlímsblöðin eru lögð í kalt vatn í allavega fimm mínútur. Rjómi og sætmjólk sett í pott og látið ná suðu. Því næst er vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum, þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau hafa bráðnað saman við blönduna. Þá er potturinn tekinn af hellunni, súkkulaðið brotið í litla bita og því bætt út í pottinn. Hrært þar til súkkulaðið hefur bráðnað. Hellt í skálar eða bolla og kælt í ísskáp í minnst 2 klukkutíma. Áður en rétturinn er borinn fram er hann skreyttur með þeyttum rjóma, berjum og súkkulaði-hnetumulningi.

IMG_1738

Súkkulaði-hnetumulningur:

  • 1/2 dl heslihnetur (eða önnur tegund af hnetum)
  • 1/2 dl macadamia hnetur (eða önnur tegund af hnetum)
  • 1/2 dl kornflex
  • 50 g suðusúkkulaði

IMG_1726

Hnetur saxaðar og kornflex mulið. Súkkulaði brætt yfir vatnsbaði og hnetum og kornflexi bætt út í. Blöndunni er dreift á bökunarpappír og sett í frysti í minnst hálftíma. Rétt áður en pannacotta er borið fram er súkkulaði-hnetumulningurinn tekinn úr frystinum og saxað niður í smærri bita. Dreift yfir pannacotta.

IMG_1728