Ég ætlaði að byrja þessa færslu með sömu rullunni og svo oft áður þegar ég blogga um súpur, að í raun sé ég ekkert sérstaklega hrifin af súpum en þessi súpa sé ein af undantekningunum. Þá rann upp fyrir mér ljós að það gæti eiginlega ekki verið rétt. Ég hef sett hingað á Eldhússögur margar súpuuppskriftir sem mér finnst allar ægilega góðar, sérstaklega fiski- og kjúklingasúpurnar. Mér finnst eiginlega bara tvennt dálítið pirrandi við súpur. Það er þegar þær eru sjóðheitar og brenna mann á tungunni og þegar þær skvettast út um allt! Hvort tveggja er auðvelt að laga. Láta bara súpuna standa í smástund og leyfa henni að kólna dálítið áður en hún er borðuð og ekki borða með brussugangi og látum! Niðurstaðan er sem sagt sú að með bættum borðsiðum þá geta súpur vel verið í uppáhaldi hjá mér! 🙂 Í kvöld bjó ég til ákaflega góða súpu úr hráefnum sem ég fann í ísskápnum hjá mér. Það er alltaf jafn gefandi að búa til góðan mat og nýta hráefnin í ísskápnum út í ystu æsar í leiðinni. Til dæmis gerði ég þennan brauðrétt í fyrradag og skar af brauðinu alla skorpu. Ég notaði skorpuna til að búa til gómsæta brauðteninga sem pössuðu eins og hönd í hanska við blómkálssúpuna í kvöld. Í súpuna notaði ég Philadelphia ost með chili og okkur fannst hann gefa súpunni afar gott og mikið bragð. Fyrir þá sem vilja mildari súpu er hægt að nota natural Philadelphia ost.
Uppskrift:
- 1 stór blómkálshaus
- 1 meðalstór gulur laukur
- 2-3 tsk olía
- 1.2 l kjúklingasoð (4 tsk kjúklingakraftur leystur upp í 1.2 líter af sjóðandi vatni)
- 1 msk hveiti
- 1 dós Philadelphia ostur með chili (eða natural fyrir mildari súpu)
- salt og pipar
Blómkálið er skorið í hæfilega stóra bita og laukurinn saxaður smátt. Laukurinn er steiktur upp úr olíu í stórum potti þar til hann verður mjúkur. Þá er blómkálinu bætt út og það steikt í smá stund þar til það hefur tekið dálítinn lit og mýkst, hveitinu er þá bætt út í pottinn. Því næst er kjúklingasoðinu hellt út í og súpunni leyft að malla undir loki í ca. 20 mínútur eða þar til blómkálið er orðið vel mjúkt. Þá er Philadelphia ostinum bætt út í og súpan krydduð eftir smekk. Það er hægt að mauka súpuna með töfrasprota eða bera hana fram með blómkálsbitunum í. Borin fram með brauðteningum. Ég setti líka nýjar og ferskar baunspírur út í súpuna sem komu til mín í áskrift í dag sem gáfu súpunni extra gott bragð.
Brauðteningar:
- Brauð eða skorpa af brauði
- ólífuolía
- heitt pizzakrydd (eða mildara ítalskt krydd fyrir þá sem vilja bragðminni brauðteninga)
- salt & pipar
Ofn hitaður í 200 gráður. Brauðið er skorið í hæfilega stóra bita og settir í skál. Ólífuolíu hellt yfir brauðteningana og þeim velt vel upp úr olíunni ásamt kryddinu. Passa þarf að nota vel af olíu. Brauðteningunum er því næst raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír og bakað í ofni í ca. 10 mínútur eða þar til brauðteningarnir hafa náð góðum lit.