Pastasalat


Ég er svo heppin að þekkja marga matgæðinga, ein þeirra er Heiða, doktor í tannlækningum með meiru og gott efni í matarbloggara! 🙂 Hún gaf mér uppskriftina af þessu pastasalati þegar við bjuggum báðar í Stokkhólmi og ég hef reglulega gert þetta salat síðan þá. Þetta pastasalat er meðal annars með pepperóni, ólífum og klettasalati. En það sem gerir það sérstaklega gott er maukið sem er útbúið og blandað við salatið. Sólþurrkaðir tómatar, basilika, steinselja, hvítlaukur, balsamic edik og hlynsíróp gerir dásamlega góða dressingu/mauk sem gefur salatinu gómsætt bragð. Þetta er upplagt salat til að taka með sér á til dæmis hlaðborð eða aðra viðburði eða fara með í lautarferð! Yngstu börnin á heimilinu eru mjög hrifin af þessu salati.

Uppskrift:

 • 300 gr pasta
 • 4 msk sólþurrkaðir tómatar
 • gott búnt af basiliku
 • búnt af steinselju
 • 2-3 hvítlauksgeirar
 • 1 dl jómfrúar ólífuolía
 • 2 msk balsamic edik
 • 1 tsk hlynsíróp
 • 4 msk furuhnetur, ristaðar á þurri pönnu
 • 80 g pepperóní, skorin í þunnar sneiðar
 • 2 msk ólífur, skornar í bita
 • 2-3 msk rifinn parmesan ostur
 • slatti af ruccola salati
 • salt og pipar úr kvörn


Pasta soðið eftir leiðbeiningum og kælt (Mikilvægt að ofsjóða það ekki). Sólþurrkaðir tómatar, basilika, steinselja, hvítlaukur, balsamic edik, ólífuolía og hlynsíróp sett í matvinnsluvél, keyrt nokkra hringi og grófsaxað saman. Blandað saman við pastað. Furuhnetum, pepperoní, ólífum, parmesan osti og klettasalati bætt við, kryddað með salti og pipar. Borið fram með góðu brauði.

 Focaccia brauð


Focaccia brauð er mjög vinsælt á Ítalíu. Ofan á það er sett ólífuolía, kryddjurtir og salt en jafnvel líka ostur, kjöt eða laukur. Algengasta útgáfan er þó með ólífum, rósmarín og kryddjurtum. Ef þið eigið góða hvítlauksolíu eða aðra kryddolíu heima er gott að nota slíkar olíur á brauðið í stað venjulegrar ólífuolíu. Þetta brauð er afar gott með ýmiskonar salötum.

Focaccia-brauð

 •  250 g vatn
 • 500 g hveiti
 • 50 g ólífuolía
 • 1 tsk salt
 • 15 g pressuger
 • ferskt rósmarín og ólífur, líka gott að nota kokteiltómata
 • maldon salt
 • ólífuolía til að pensla á brauðið

Hnoðið deigið saman eins og venjulegt brauðdeig, leyfið að standa í skál 30 mínútur, hnoðið upp aftur og látið standa í 15 mínútur til viðbótar. Þrýstið deiginu út á ofnplötu og myndið ca 2 cm þykkan ferkantaðan brauðhleif, látið hefast. Stingið fingri í deigið og myndið holur hér og þar, penslið brauðið með ólífuolíu, sparið ekki olíuna, sumar holurnar mega vera vel fylltar af olíu. Stingið svo ólífum og rósmarín í holurnar, maldon salti stráð yfir. Bakið brauðið við 230°C í 10-15 mínútur eða þar til brauðið er orðið fallega brúnt.

 

Mexíkósk tortilluterta


Þessi uppskrift kemur frá sænsku matarbloggi en ég hef aðeins breytt henni. Krakkarnir eru afar hrifnir af þessum rétti og rukka mig reglulega um hann. Vinkona Jóhönnu heyrði að það yrði tortilluterta í matinn hjá okkur og fannst það hljóma voða vel að það yrði terta í kvöldmatinn hjá okkur! 🙂 Ég nota extra stórar tortillukökur en þær fást hjá Tyrkneskum bazar Síðumúla og líka í Kosti. En það er hægt að nota allar stærðir af tortillum í þessa uppskrift, þegar ég er með minnstu gerðina geri ég tvær tertur en ef ég er með millistærð geri ég eina tertu en þá verður hún bara hærri. Ég ber fram með tortillutertunni ferskt salat, en ég er orðin sjálfbær núna í salatinu, allt þetta græna á myndinni kemur úr garðinum! Venjulega hef ég líka með þessu sýrðan rjóma, ferskt guacamole og salsa. En á meðan ég eldaði þessa stóru tertu týndist út úr húsi hver fjölskyldumeðlimurinn á fætur öðrum, alltaf svo magt skemmtilegt að gera hjá öllum í góða veðrinu! Á endanum sat ég því ein eftir þegar tertan var tilbúin og ég lét mér því bara nægja salatið að sinni sem meðlæti.

Uppskrift f. 4:

 • 5-6 st meðalstórar tortillakökur
 • 800 gr. kjúklingabringur
 • 1/2-1 bréf burrito kjúklingakrydd
 • 1 gulur laukur
 • 1 púrrlaukur
 • 250 gr. sveppir
 • 1 rauð paprika
 • smjör til steikingar
 • 1 krukka Thick´n Chunky Salsa
 • 200 rjómaostur
 • svartar ólífur, saxaðar
 • rifinn ostur
 • salt og pipar

Stillið ofninn á 225 gráður. Skerið kjúklingabringurnar í litla teninga, saxið laukinn, skerið púrrlaukinn í strimla, sneiðið sveppina og skerið paprikuna í bita. Steikið kjúklinginn í smjörinu og kryddið með burrito kryddinu, bætið sveppum, papriku, lauk og púrrlauk við og steikið í nokkrar mínútur. Bætið út í salsaósunni og rjómaosti og látið malla þar til að rjómaosturinn hefur bráðnað. Smakkið til með salti og pipar.

Setjið smjörpappír á ofnplötu og eina tortillaköku á plötuna. Breiðið kjúklingasósu yfir kökuna, þá rifnum osti, leggið yfir aðra tortilluköku yfir og þannig koll af kolli. Endið á kjúklingasósu, stráið ólífum yfir og að lokum rifnum osti.  Hitið í ofninum í ca. 15 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og gullinbrúnn.

Berið fram með salati, sýrðum rjóma, fersku guacamole og salsasósu.

Pasta með ricotta- og spínatsósu


Ég er mjög hrifin af ítölskum mat og matarmenningu. Á ferðalögum erlendis heimsækjum við alltaf allavega einn ítalskan veitingastað. Mig dreymir um að fara í menningar-, matar-, og vínferð til Ítalíu en þangað hef ég enn ekki komið. Þar til sá draumur rætist æfi ég mig í eldhúsinu og reyni við ítölsku stemmninguna! 🙂 Hér er einn góður pastaréttur:

Spínat- og ricotta sósa

 • 2 msk smjör
 • ca 300 gr spínat
 • 200 gr ricotta ostur
 • 2 dl rjómi
 • 1 tsk múskat
 • 12 koteiltómatar, skornir í tvennt.
 • 200 gr sveppir, sneiddir
 • salt og pipar

Pasta og með því

 •  pasta, soðið eftir leiðbeiningum (ég notaði ferskt pasta)
 • parmaskinka eða önnur góð skinka
 • ferskur parmesan, rifinn
 • nýmalaður svartur pipar

Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum. Hreinsið spínatið og hristið af vatnið. Steikið sveppi í smjöri, kryddið með salti og pipar, takið sveppina til hliðar. Grófsaxið spínatið og snöggsteikið í djúpri pönnu eða potti . Hrærið saman ricotta og rjóma og blandið út í spínatið. Látið sósuna malla í nokkrar mínútur og bætið við tómötum og sveppunum. Kryddið með múskati, salti og pipar.

Blandið sósunni saman við pastað og berið fram með skinkunni og rifnum parmesan. Bætið við ferskmöluðum pipar eftir smekk. Berið fram með góðu brauði.

Kartöflur á tvo vegu


Núna er gósentíð fyrir kartöfluunnendur þegar nýjar kartöflur eru farnar að streyma á markaðinn. Mér finnst kartöflur hafa fengið á sig óverðskuldað slæmt orðspor í því and-kolvetnisæði sem nú ríkir. En kartöflur eru afar trefjaríkar og stútfullar af mikilvægum vítamínum og steinefnum. Mér finnst kartöflur mjög góðar og það er hægt að elda þær á svo marga mismunandi vegu. Þessar uppskriftir hér að neðan eru skemmtileg tilbreyting frá venjulegum soðnum kartöflum og eru afar bragðgóðar. Báðar uppskriftirnar henta sérstaklega vel með allskonar grillmat, bæði fisk og kjöti.

Krumpaðar Kartöflur:

 • 60 gr. smjör
 • 1 kg kartöflur
 • maldon salt
 • nýmalaður svartur pipar.
Þvoið kartöflurnar vel með hýðinu á. Hitið smjörið í potti. Látið kartöflurnar út í og steikið í nokkrar mínútur, gætið þess að hafa hitann ekki of háan. Kryddið með salti og pipar. Lækkið hitann og látið steikjast áfram í uþb. 40 mín undir loki (fer eftir stærð og fjölda), hristið pottinn öðru hverju. Mjög einföld matreiðsla en kartöflurnar verða afar gómsætar þegar þær eru matreiddar á þennan hátt.
Kartöflur í kryddi
 • 1 kg kartöflur
 • 40 gr furuhnetur
 • 2 hvítlauksrif
 • 1 búnt basilika
 • 1 búnt steinselja
 • 1 tsk. salt
 • 2 msk ólivuolía
Sjóðið kartöflurnar í saltvatni í 20 mín og sigtið síðan. Setjið hnetur, krydd og olíu í matvinnsluvél og maukið. Blandið svo saman heitar kartöflurnar. Einnig má blanda saman við brytjaðar kartöflur og baka í ofni í 45 mín.
Stundum blanda ég þessum uppskriftum saman. Það er, þegar ,,krumpuðu kartöflurnar“ eru tilbúnar veiði ég þær upp úr smjörinu og blanda við pestókryddið!

Frönsk súkkulaðikaka


Eldhússaga dagsins er frönsk súkkulaðikaka, saga sem verður aldrei of oft sögð! 🙂 Strangt til tekið eru klassískar franskar súkkulaðikökur ekki með kremi, en þessi fær undanþágu án nokkurra vandkvæða! Ljúffeng súkkulaðikakan leidd saman við gómsæt kremið, það er bara ekki hægt að standa í vegi fyrir slíkri sameiningu, enda les líklega engin frönsk kökulögga þetta blogg! Ég skreyti oftast þessa frönsku dásemd með jarðaberjum eða hindberjum. En verandi stödd á Vestfjörðunum þurfti ég að grípa til þess sem í boði var. Það var annars vegar kiwi og hins vegar nýtínd bláber frá bláberjalyngi við fjallsrætur Brella þó enn sé júlí. Einkenni franskra súkkulaðikaka eru að í þeim er lítið, jafnvel ekkert hveiti. Kakan er dökk, þétt og þung og á að vera eins og hún sé dálítið klesst. Þetta er einföld kaka sem flestum þykir góð, þetta er til dæmis uppáhaldskaka yngstu barnanna á heimilinu.

Uppskrift

Botn:

 • 2 dl sykur
 • 200 g smjör
 • 200 g suðusúkkulaði
 • 1 dl hveiti
 • 4 stk egg

Súkkulaðikrem:

 • 150 g suðusúkkulaði
 • 70 g smjör
 • 2-3 msk síróp

Aðferð-botn:

Þeytið eggin og sykurinn vel saman. Bræðið smjörið og súkkulaðið saman við vægan hita í potti. Blandið hveitinu saman við eggin og sykurinn. Bætið bráðnu súkkulaðinu og smjörinu að lokum varlega út í deigið. Bakið í vel smurðu tertuformi (ath. ekki lausbotna) við 170°C í 30 mínútur.

Aðferð – krem:

Látið allt saman í pott og bræðið saman við vægan hita. Kælið bráðina svolítið og berið hana síðan á kökuna þegar hún hefur kólnað.

Kakan á að vera blaut í miðjunni. Gott er að bera kökuna fram með rjóma eða ís og berjum, til dæmis jarðaberjum, hindberjum eða bláberjum.

Grillað lambalæri með kartöflugratíni


Það er algengt að lambalæri séu vafin inn í álpappír og þau grilluð á þann hátt en þá kemur ekki alvöru grillbragð af kjötinu. Til þess að halda grilluðu lambalæri safaríku en jafnframt að fá gott grillbragð af því er til skotheld leið, grillun við óbeinan hita! Þá eru engir logar hafðir beint undir kjötinu og bara haft kveikt á brennurum í kringum lærið. Með lærinu bar ég fram að þessu sinni kartöflugratín. Flestir eru hrifnir af kartöflugratíni en ókosturinn við það er að það tekur afar langan tíma í ofninum og verður oft of dökkt að ofan en kartöflurnar samt ekki fulleldaðar. Ég er hins vegar með mjög góða og einfalda leið til að elda stórt form af kartöflugratíni á ca 35 mínútum en samt er öruggt að kartöflurnar verða mjúkar og fulleldaðar!

Læri – uppskrift f. 6

  • 1 lambalæri, 2.5 kg, vel hangið
  • 8 hvítlauksgeirar
  • 1 msk ólífuolía
  • Kryddblandan ,,Best á lambið“ eða önnur blanda af kryddum

Aðferð:

Ég keypti lærið í versluninni Til sjávar og sveita í Ögurhvarfi. Það var ókryddað og búið að hanga vel. Ég geymdi lærið svo í ísskáp í 4 daga og þar með var ég viss um að það væri orðið meyrt og gott. Mikilvægt er að taka lærið út nokkru áður en það er grillað þannig að það nái stofuhita.

Kveikið á grillinu og hitið það vel. Fitusnyrtið lærið, gerið djúpar raufar í það á nokkrum stöðum með hnífsoddi og stingið hvítlauksgeirum inn í það. Nuddið ólífuolíu vel á lærið (til að kryddblandan festist betur) og kryddið með ,,Best á lambið“ og núið vel á allt lærið. Slökkvið á öðrum brennaranum á gasgrilli. Setjið lærið á grillið þar sem ekki er eldur undir og lokið síðan, sá sem kveikt er á er stilltur frekar lágt, ofnlokið hjá mér sýndi 120 gráður, það getur þó verið misjafnt milli grilla. Ef það eru þrír brennarar á grillinu, setjið lærið í miðjuna, slökkvið undir þeim brennara og hafið brennarana sitt hvorum megin við í gangi. Grillið lærið í 1 klst og 50 mínútur miðað við læri sem er 2.5 kíló. Það er líka hægt að stinga kjöthitamæli í vöðvann þar sem hann er þykkastur, hann sýnir 60°C fyrir meðalsteikt, 70°C fyrir gegnsteikt. Snúið lærinu tvisvar eða þrisvar en opnið grillið annars sem allra minnst. Ef óskað er eftir dekkri skorpu má færa það yfir eldinn seinustu mínúturnar og fylgjast þá vel með því. Leyfið lærinu að standa undir álpappír í minnst 15 mínútur áður en það er skorið, gjarnan lengur. Kjötið varð einstaklega meyrt og safaríkt með þessari aðferð.

Kartöflugratín f. ca. 10-12

 • ca 1,3 kíló kartöflur
 • 4 dl rjómi
 • 4 dl mjólk
 • hálfur rauðlaukur, skorin í strimla
 • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
 • 2 grænmetisteningar
 • Töfrakrydd, salt og pipar
 • rifinn ostur

Aðferð:

Kartöflurnar skolaðar vel (ég hef þær oftast með hýðinu á) og svo skornar í skífur, sumir vilja hafa þær næfurþunnar, mér finnst best að hafa þær ca 1 cm á þykkt. Hvítlaukur og laukur skorinn niður. Mjólk og rjómi settur í stóran pott ásamt hvítlauk, lauk, grænmetisteningi og kryddi. Ég nota Töfrakrydd frá pottagöldrum, það er góð kryddjurtablanda með cheddar osti sem hentar vel en það er hægt að nota hvaða krydd sem hugurinn girnist. Sjóðið við vægan hita í 15-20 mínútur (fer svolítið eftir þykkt kartaflanna), eða þar til þær eru orðnar vel mjúkar. Hellið kartöflublöndunni í eldfast mót, dreifið rifnum osti yfir og hitið í ofni við 200 gráður í 20-25 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og orðin gullinbrúnn.

Með þessu bar ég fram ofnbakað ferskt grænmeti. Það er: sætar kartöflur, gulrætur, kúrbít og brokkolí. Grænmetið skorið í bita (ég hef til dæmis sætu kartöflurnar smátt skornar þar sem þær eru lengi að bakast, en brokkolíið í stærri bitum þar sem það bakast fljótt) sett á ofnplötu, velt upp úr dálítilli ólífuolíu og kryddi, bakað í ofn í ca. hálftíma (fer eftir stærð grænmetisins). Veltið grænmetinu 2-3svar á meðan bökun stendur. Sósan sem ég notaði að þessu sinni var sveppasósa, uppskrift er að finna hér.

Belgískar vöfflur


Ég hef lengi óskað mér belgísks vöfflujárns. Í byrjun sumars sá ég þannig vöfflujárn auglýst á netinu, lítið sem ekkert notað og falt fyrir fáeina ríkisdali! Ég sló auðvitað til og fjárfesti í því. Ég er búin að skoða mikið uppskriftir og fróðleik um belgískar vöfflur. Helsti munurinn er að þær eru með geri, ekki með lyftidufti eins og venjulegar vöfflur, að auki eru þær mun þykkari en með djúpum dældum. Í Belgíu eru þær seldar hjá götusölum með til dæmis súkkulaði, rjóma, berjum, sykri og öðru gúmmelaði. Ég fann uppskrift af belgískum vöfflum frá Nönnu Rögnvaldar. Eftir að hafa borið hana saman við ótal erlendar uppskriftir sá ég að hennar uppskrift var mjög sambærileg flestum uppskriftunum en með kannski meiri vökva en margar þeirra. Það kom ekki að sök, mér finnst þessi hlutföll koma vel út og held mig við hennar uppskrift.

Með vöfflunum er hægt að bjóða upp á allskonar fyllingar. Hér var ég með vanilluís og tvennskonar heitar sósur, karamellusósu og súkkulaðisósu. Gestirnir voru beðnir um að taka út sósurnar og meta hvor þeirra væri betri með belgísku vöfflunum. Útkoman varð sú að best væri að blanda þeim saman!

Uppskrift:

 • 1 msk þurrger
 • 700 ml mjólk (eða 350 ml mjólk, 350 ml súrmjólk)
 • 3 stór egg, aðskilin
 • 150 g smjör, bráðið og látið kólna dálítið
 • 6 msk sykur (má vera minna)
 • 1 tsk salt
 • 2 tsk vanillusykur
 • um 500 g hveiti
 • 3 eggjahvítur
 • olía til að pensla vöfflujárnið

Hitaðu 100 ml af mjólk í sem næst 40°C, leystu gerið upp í blöndunni (e.t.v. með 1 tsk af sykrinum) og láttu standa þar til freyðir, eða í um 10 mínútur. Hitaðu afganginn af vökvanum í um 40°C, helltu um einum bolla í stóra skál og hrærðu eggjarauðum, smjöri, sykri, salti og vanillusykri saman við, ásamt gerblöndunni. Hrærðu afganginum smátt og smátt saman við til skiptis við hveitið, þar til komin er fremur þykk vöfflusoppa (ekki nota allt hveitið ef hún virðist ætla að verða of þykk, bættu við hveiti ef hún er of þunn). Þeyttu eggjahvíturnar þar til þær eru farnar að stífna og blandaðu þeim þá saman við með sleikju. Láttu soppuna lyfta sér á hlýjum stað í um 1 klst (enn betra er þó að láta hana lyfta sér í ísskáp yfir nótt, en þá er best að sleppa því að hita meirihluta vökvans).

Hitaðu vöfflujárnið og penslaðu það með olíu. Bakaðu vöfflurnar þar til þær eru gullinbrúnar. Berðu þær fram strax eða haltu þeim heitum í volgum ofni. Einnig má frysta þær og hita svo í ofni.

(Það má líka nota eggin heil og sleppa því að þeyta hvíturnar en þær verða betri svona.)

Með vöfflunum bar ég fram vanilluís og heita súkkulaðisósu (suðusúkkulaði og smá rjómi hitað yfir vatnsbaði) og heita karamellusósu:

 • 100 g smjör
 • 100 g púðursykur
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1 dl rjómi

Sjóðið saman í 5 mínútur og hrært stöðugt á meðan. Sósan er borin fram heit.

Það er líka gott að bera fram með vöfflunum jarðaber, hindber, þeyttan rjóma, ferska ávexti, hlynsíróp og blanda þessu saman eftir því sem hugurinn girnist, svo ekki sé nú minnst á Nutella, banana og þeyttan rjóma!

Uppfært: ég mæli með því að baka stóra uppskrift af þessum vöfflum til að eiga afgang daginn eftir. Það er nefnilega hrikalega gott að rista þær í brauðrist og smyrja með íslensku smjöri, namminamm!

Fiskisúpa að vestan


 Image

Ég elda afar sjaldan súpur, líklega af því að ég er ekki mikil súpumanneskja sjálf. Samt finnst mér öðru hvoru gott að fá súpu ef þær eru góðar og helst matarmiklar. Þessi súpa er einmitt þannig, bragðmikil, matarmikil og ljúffeng! Það er auðvelt að útbúa hana og hún er sérstaklega sniðug þegar mörgum er boðið í mat. Ég bjó hana til fyrir 12 manns á aldrinum 3ja – 84 ára og allir borðuðu af bestu lyst. Með henni bar ég fram nýbakað naan brauð, uppskriftin er hér, en ég notaði ekki indverskt krydd ofan á brauðið í þetta sinn heldur penslaði brauðið með eggi áður en ég bakaði það.

Uppskrift (fyrir 6-8):

 • 500 g langa, skorin í bita
 • 500 g þorskur, skorin í bita
 • 300 g rækjur (má sleppa)
 • 4 hvítlauksrif, söxuð mjög smátt
 • 4 meðalstórar gulrætur, skornar í sneiðar
 • 1 stk. laukur, saxaður
 • 1 rauð paprika, skorin í bita
 • 1 gul eða appelsínugul paprika, skorin í bita
 • 2-3 msk tómatpúrra
 • 1 dós niðursoðnir hakkaðir tómatar (ekki verra að hafa þá með t.d. basilku eða chili)
 • 3 dl vatn
 • 1 teningur (eða 1 msk) fiskikraftur
 • ½ teningur (eða 1/2 msk) kjúklingakraftur
 • 1 -2 tsk tandoori masala
 • ½ -1 tsk karrí
 • salt og pipar
 • ca. 5-7 sólþurrkaðir tómatar, sneiddir smátt
 • 4 msk mango chutney
 • 1 dl sweet chilisauce
 • 1 líter matreiðslurjómi og/eða hefðbundinn rjómi (hægt að skipta út að hluta fyrir kókosmjólk)
 • steinselja til skreytingar

Aðferð: 

Image

Ein matskeið olíu hituð í potti og hvítlaukurinn steiktur í skamma stund. Áður en hann byrjar að brenna er hann tekinn upp úr og settur til hliðar. Tveimur matskeiðum af olíu bætt við í sama pott og gulrætur, laukur og paprika brúnuð. Því næst er tómatpúrru, niðursoðnu tómötum, vatni, fiskikrafti, kjúklingakrafti, tandoori masala, karríi ásamt hvítlauknum bætt út í. Strax á eftir eru sólþurrkuðu tómatarnir sneiddir niður og þeim ásamt mango chutney, sætu chilisósunni og rjómanum bætt út í. Smakkað til með salti, pipar og meira kryddi ef með þar, látið malla í um það bil fimmtán mínútur (því lengur því betra). Þá er þorsknum og löngunni bætt út í og leyft að malla í súpunni í nokkrar mínútur. Rétt áður en súpan er borin fram er rækjum bætt út í. Fallegt að skreyta með steinselju. Súpan er borin fram með góðu brauði.

 

Bakaðar perur með mjúkum marengs og súkkulaði


Þetta er mjög fljótlegur en góður eftirréttur og ef maður á niðursoðnar perur til taks þá er auðvelt að útbúa þennan rétt með litlum fyrirvara því auk peranna eru bara örfá hráefni. Í þetta sinn bætti ég líka við hvítu súkkulaði. Ávextir með bræddu hvítu súkkulaði er alltaf feykigóð blanda og ég tók því áhættuna að það kæmi vel út í þessum rétti sem það og gerði.

Ég man mjög vel eftir því þegar ég gerði þennan rétt í fyrsta sinn. Þá var ég tvítug, nýflutt til Stokkhólms og við vorum að fá gesti í fyrsta sinn í íbúðina okkar þar. Ég átti litla dós af perum og lagði þær í form, það var ekki nóg þannig að ég tók ferskar perur sem voru mjög harðar og óþroskaðar, afhýddi, skar þær í tvennt og fyllti formið. Svo komu gestirnir, rétturinn leit mjög vel út og allir fengu sér í skál. Við Elfar lentum á dósaperunum sem voru mjúkar og heitar. Gestirnir fengu hins vegar á sinn disk fersku perurnar sem voru auðvitað enn grjótharðar! Þau reyndu að skera perurnar með skeiðinni en það gekk vægast sagt illa. Ég man að annar gesturinn sagði að þessi réttur væri mjög sérstakur! Og þá var hann ekki að meina ,,sérstaklega góður“! 🙂 Sama kvöld kveiktum við í fyrsta sinn upp í gamla arninum í íbúðinni, Elfar hafði fyrr um daginn rogast heim með 40 kílóa viðarpoka en við áttum ekki bíl. Ég vildi nú breiða yfir þennan misheppnaða rétt og kveikja upp í notalegum arni fyrir gestina. Það tókst ekki betur en svo að íbúðin fylltist af reyk og gestirnir enduðu úti á svölum til að reyna að ná andanum og nágranninn bankaði upp á og hélt að það væri kviknað í! Þessir gestir komu aldrei í heimsókn aftur! 😉

En fylgið bara uppskriftinni og kveikið ekki upp í stífluðum arni, þá get ég lofað ykkur að gestirnir verða sáttir! 🙂

Uppskrift:

 • 1 stór dós perur
 • 4 eggjahvítur
 • 4 msk flórsykur
 • 100 gr suðusúkkulaði
 • 50 gr hvítt súkkulaði (hentar vel að nota hvíta súkkulaðidropa), má sleppa


Aðferð:

Raðið perunum í eldfast mót með skornu hliðina upp. Saxið hvíta súkkulaðið frekar fínt og setjið í dældirnar í perunum, ef notaðir eru hvítir súkkulaðidropar þarf ekki að saxa þá. Stífþeytið eggjahvítur og sykur. Þekjið perurnar með eggjahrærunni. Bakið við 110 gráður í u.þ.b 20 mínútur eða þar til rétturinn er orðinn fallega brúnn. Bræðið súkkulaði í vatnsbaði og dreifið því yfir réttinn eftir að formið er tekið úr ofninum . Berið fram heitt með ís.