Kartöflur á 10 vegu


Um daginn ákváðum við nokkrir matarbloggarar að hittast og fara út að borða saman. Auk mín var það Albert hjá Albert eldar, Berglind hjá Gulur, rauður, grænn og salt, Ragnar Freyr hjá Læknirinn í eldhúsinu, Svava hjá Ljúfmeti, Thelma hjá Freistingar Thelmu og Eva Laufey hjá EvaLaufeyKjaran. Þið getið rétt ímyndað ykkur valkvíðann þegar sjö matarbloggarar ætla að ákveða veitingastað, matur skiptir okkur nefnilega frekar miklu máli! 🙂 Fljótlega kom MAT BAR upp í umræðunni, nýr veitingastaður sem hefur bæst við nýkomnu veitingahúsaflóruna á Hverfisgötu. Albert hafði farið þangað áður, en hann er duglegur að taka út veitingahús bæjarins. Þegar hann sagði okkur að þessi veitingastaður hefði strax farið upp í topp þrjú sætin í hans bókum þá gátum við ekki beðið eftir að prófa! Það er skemmst frá því að segja að við áttum frábæra kvöldstund saman. Það er æðisleg stemmning á Matbar, staðurinn sérstaklega vel heppnaður í hönnun en það allra mikilvægasta, maturinn stórkostlegur! Hér er hægt að lesa nánari úttekt hjá Alberti um þennan frábæra stað. Það er svo skemmtilegt hvernig Hverfisgatan er að verða ein mest spennandi og besta veitingahúsagata borgarinnar, ekki hefði mann grunað það fyrir nokkrum árum! 🙂 Næst á dagskrá hjá hópnum er að hittast seinna í vor í eldhúsi læknisins, honum Ragnari Frey, og elda saman. Það verður eitthvað! 🙂

Desktop

Recently Updated

Frábær matur í yndislegum félagsskap!

Hér að neðan hef ég tekið saman 10 góðar kartöfluuppskriftir. Ég elska kartöflur og finnst alltaf gaman að breyta til í matreiðslunni á þeim. Manni hættir oft til að festast í sama meðlætinu og matreiða það á sama hátt. Hér eru tíu tillögur að gómsætum kartöflum sem gætu  sæmt sér vel með hátíðarmatnum um páskana sem færast óðfluga nær! 🙂

Krumpaðar kartöflur

krumpaðar 

 Uppskrift:

  • 60 gr. smjör
  • 1 kg kartöflur
  • maldon salt
  • nýmalaður svartur pipar.

Þvoið kartöflurnar vel með hýðinu á. Hitið smjörið í potti. Látið kartöflurnar út í og steikið í nokkrar mínútur, gætið þess að hafa hitann ekki of háan. Kryddið með salti og pipar. Lækkið hitann og látið steikjast áfram í um það bil 40 mín undir loki (fer eftir stærð og fjölda), hristið pottinn vel öðru hverju.

Kartöflur í kryddi

 kryddaðar

 Uppskrift:

  • 1 kg kartöflur
  • 40 g furuhnetur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 búnt basilika
  • 1 búnt steinselja
  • 1 tsk. salt
  • 2 msk ólífuolía

Sjóðið kartöflurnar í saltvatni í 20 mín og sigtið síðan. Setjið hnetur, krydd og olíu í matvinnsluvél og maukið. Blandið svo saman heitar kartöflurnar. Einnig má blanda saman við brytjaðar kartöflur og baka í ofni í 45 mín.

  

Parmesanristaðar kartöflur

 parmesan

 Uppskrift:

  • 700 g kartöflur
  • 3 msk ólífuolía
  • 60 g ferskur parmesan, rifinn fínt
  • ca 1 1/2 tsk maldon salt
  • grófmalaður svartur pipar
  • 1 tsk paprikukrydd

Ofn hitaður í 220 gráður við undir- og yfirhita. Kartöflurnar þvegnar vel og skornar í bita á þennan hátt (mér finnst best að hafa hýðið með). Parmesan osti og kryddi blandað saman. Kartöflunum er velt upp úr olíunni og svo blandað vel saman við parmesanblönduna. Kartöflunum er síðan raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír, dreift vel úr þeim. Bakað í ofni í 30-40 mínútur, mikilvægt er að snúa við kartöflunum 2-3svar á meðan þær eru í ofninum. 

Hasselback kartöflur

hasselback

 Uppskrift:

  • 8 stórar kartöflur
  • 50 gr. smjör + 25 gr. bætt við þegar kartöflurnar eru í ofninum
  • 2 msk. ólífuolía
  • Maldon salt.

Hitið bakarofn í 220 gráður. Kartöflur þvegnar eða skrældar (ég mæli með að hafa hýðið á, mikið betra!) Raufar skornar í kartöflurnar með nokkra millimetra millibili. Skera skal djúpt niður en þó ekki þannig að kartaflan detti í sundur. Smjör og olía brædd saman í potti. Kartöflum raðað í ofnskúffu og smjörinu og olíunni hellt yfir kartöflurnar. Snúið kartöflunum nokkrum sinnum og veltið þeim þannig vel upp úr smjörinu. Stráið Maldon salti yfir kartöflurnar. Setjið í ofn og bakið í ca. 50 – 60 mínútur, fer eftir stærð kartaflanna, eða þar til þær eru gullinbrúnar. Þegar bökunartímin er rúmlega hálfnaður hafa kartöflurnar opnað sig aðeins og þá er gott að bæta við smá smjörklípu ofan á hverja kartöflu.

Chili kartöflur með papriku

 papriku

 Uppskrift:

  • 2 rauðar paprikur sneiddar gróft
  • 600 gr. kartöflur
  • 2 hvítlauksgeirar, hakkaðir fínt
  • 2-3 msk ólífuolía
  • 1 tsk. Sambal Oelek (chilimauk)
  • 1 tsk. paprikuduft
  • maldon salt og nýmalaður pipar

Bakarofn hitaður í 220 gráður. Kartöflur skrældar eða þvegnar og því næst skornar í helminga (eða báta ef þær eru mjög stórar) og lagðar í eldfast mót með paprikunni. Sambal oelek, ólífuolíu og hvítlauk hrært saman og dreift yfir. Kryddað með salti og pipar og smá skvettu af ólífuolíu helt helt yfir. Hitað í ofni í ca. 30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru tilbúnar.

 

Brúnaðar kartöflur

 brúnaðar

Uppskrift:

  • 35 gr smjör
  • 100 gr sykur
  • 0,25 dl rjómi
  • 1 kíló kartöflur

Kartöflur soðnar og afhýddar. Smjör og sykur hitað á pönnu þar til blandan hefur bráðnað og dökknað þá er kartöflunum bætt út í. Rjómanum bætt við og kartöflunum vellt upp úr bráðinni á fremur háum hita þar til þær eru allar sykurhúðaðar jafnt. 

 

Kartöflugratín f. 8-10

gratíngratíngratín1

 Uppskrift:

  • ca 1,5 kíló kartöflur
  • 4 dl rjómi
  • 4 dl mjólk
  • hálfur rauðlaukur, skorin í strimla
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 grænmetisteningur
  • Töfrakrydd, salt og pipar
  • rifinn ostur

Kartöflurnar skolaðar vel (gott að hafa hýðið á) og svo skornar í skífur, sumir vilja hafa þær næfurþunnar, mér finnst best að hafa þær ca 1 cm á þykkt. Hvítlaukur og laukur skorinn niður. Mjólk og rjómi settur í stóran pott ásamt hvítlauk, lauk, grænmetisteningi og kryddi. Ég nota Töfrakrydd frá pottagöldrum, það er góð kryddjurtablanda með cheddar osti sem hentar vel en það er hægt að nota hvaða krydd sem hugurinn girnist. Sjóðið við vægan hita í 15-20 mínútur (fer svolítið eftir þykkt kartaflanna), eða þar til þær eru orðnar vel mjúkar. Hellið kartöflublöndunni í eldfast mót, dreifið rifnum osti yfir og hitið í ofni við 200 gráður í 20-25 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og orðin gullinbrúnn.

 

Kartöflustappa með beikoni

stappa

Uppskrift:

  • 1 kg kartöflur
  • 200 g beikon
  • 3 dl matreiðslurjómi eða nýmjólk
  • 50 g smjör
  • salt og pipar

Kartöflurnar eru soðnar, flysjaðar, settar í pott og stappaðar vel. Beikonið er skorið í litla bita og steikt þar til það er stökkt.  Við vægan hita er smjöri, rjóma (eða mjólk) hrært saman við stöppuna ásamt 200 g af steiktum beikonbitum. Kryddað með salti og pipar.

 

Ofnbakaðar kryddjurtakartöflur

ofnbakaðarofnbakaðar1 

Uppskrift:

  • 1 kíló meðalstórar kartöflur (af svipaðri stærð)
  • 1 msk ólífuolía
  • 1 msk smjör
  • 15 g fersk basilika
  • 15 g fersk flatblaða steinselja
  • maldon salt og nýmalaður pipar

Ofn hitaður í 220 gráður við undir- og yfirhita. Kartöflurnar eru þvegnar, þerraðar og skornar í tvennt. Þá er þeim velt upp úr ólífuolíu, salti og pipar. Ofnplata smurð með smjöri og kartöflunum raðað á plötuna með skornu hliðina niður. Því næst eru þær hitaðar í ofni í 25-30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar í gegn og hafa tekið góðan lit. Á meðan er basilika og steinselja söxuð smátt og sett í skál ásamt 1 matskeið af smjöri. Þegar kartöflurnar koma úr ofninum eru þær strax settar í skálina og blandað vel saman við smjörið og kryddjurtirnar. Kryddað með salti og pipar eftir smekk.

  

Steiktar kartöfluskífur:

skífur 

Uppskrift:

  • kartöflur
  • smjör og ólífuolía
  • salt & pipar
  • annað krydd (t.d. rósmarín, timjan)

Kartöflurnar þvegnar vel (ekki afhýddar) og skornar í fremur þykkar skífur. Skífurnar eru forsoðnar í nokkrar mínútur og vatnið látið renna vel af skífunum. Smjörið og ólífuolían hituð á pönnu og kartöflurnar steiktar upp úr kryddinu og olíunni við meðalhita og þeim snúið oft þar til allar skífurnar eru steiktar í gegn.

Parmesanristaðar kartöflur


Parmesanristaðar kartöflur

Þetta er svo spennandi tími árs því nú er gósentíð í bókaútgáfu, þegar allar bækurnar koma út fyrir jólin. Þar sem ég starfa á skólabókasafni þá eiga barna- og unglingabækurnar hug minn allan. Ég nota hvert tækifæri til þess að koma við í bókabúð og skoða nýútkomnar bækur. Fyrir utan innihaldið þá skoða ég bækurnar kannski svolítið á annan hátt en aðrir. Til dæmis spái ég í leturgerðina sem er ákaflega mikilvæg í barnabókum. Ég skoða líka myndirnar, til dæmis eru forsíðumyndirnar á barnabókum ótrúlega mikilvægar. Krakkarnir „mínir“ sneiða til að mynda ítrekað framhjá ákveðnum bókaflokki sem er mjög skemmtilegur en með afar óspennandi myndum á forsíðunum. Að auki skoða ég uppsetningu, hvernig bækurnar eru innbundnar og margt annað. Ég horfi líka alltaf á höfundanafnið og út frá því raða ég í huganum viðkomandi bók í rétta hillu á bókasafninu mínu, svona til að átta mig á hvar hún muni eiga heima – pínu nördalegt, ég veit! 🙂 Þó svo að barnabækurnar eigi hug minn allan þá fylgja uppskriftabækurnar þar fast á eftir. Í ár virðist vera ár matarbloggara þegar kemur að útgáfu matreiðslubóka. Um daginn minntist ég einmitt á bókina hans Steingríms sem rekur matarvefinn Vínótek, vissulega ekki beint matreiðslubók en afar fróðleg og falleg bók um vín. Nanna Rögnvaldsdóttir, matarbloggari með meiru, var að gefa út matreiðslubók með kjúklingauppskriftum og von er á matreiðslubók eftir Evu Laufeyju Kjaran.

Í dag var svo útgáfufagnaður fyrir matreiðslubók Ragnars Freys, læknisins í eldhúsinu. Ég held að það sé hægt að fullyrða að hann sé einn af fyrstu íslensku matarbloggurunum (ásamt Nönnu Rögnvalds) en hann byrjaði að blogga fyrir sjö árum. Mér áskotnaðist nýútkomna bókin hans, Læknirinn í eldhúsinu – tími til að njóta.

IMG_1023

Hún er tæplega 500 síður og ákaflega fallega innbundin, augnayndi fyrir uppskriftabókahilluna og happdrættisvinningur fyrir bragðlaukana! 😉 Þetta er svo mikill doðrantur að ég hef ekki enn lesið í gegnum hana alla en vá hvað mér líst vel á þessa bók! Ótrúlega girnilegar og spennandi uppskriftir. Ragnar segir sjálfur í formálanum að honum hafi verið legið á hálsi að vera stundum með of flóknar uppskriftir á blogginu. Matreiðslubókin hins vegar er með afar aðgengilegum og einföldum uppskriftum. Að hverri uppskrift er stuttur inngangur, líkt og á blogginu, sem er gaman að lesa. Oft og tíðum finnst mér galli á uppskriftabókum að í þeim eru bara örfáar uppskriftir sem mann langar til að prófa. Eftir að hafa flett í gegnum lungann af bókinni hans Ragnars þá verð ég að segja að þetta vandamál á ekki við um hans bók, mig langar að prófa hverju einustu uppskrift! 🙂 Ég get sannarlega mælt með þessari bók í jólapakkann og óskar Ragnari Frey innilega til hamingju með þetta stórvirki!

IMG_1030

Uppskriftin sem ég skrái hins vegar hérna á bloggið mitt í dag er að dásamlega góðum parmesan kartöflum sem passa sem meðlæti með flestu. Ég var búin að sjá þessa uppskrift í nokkrum útgáfum á mörgum erlendum bloggum og varð að prófa. Við urðum ekki fyrir vonbrigðum, þetta er frábær uppskrift.

Uppskrift:

  • 700 g kartöflur
  • 3 msk ólífuolía
  • 60 g ferskur parmesan, rifinn fínt (eða keyptur rifinn í pokum)
  • ca 1 1/2 tsk maldon salt
  • grófmalaður svartur pipar
  • 1 tsk paprikukrydd

Ofn hitaður í 220 gráður við undir- og yfirhita. Kartöflurnar þvegnar vel og skornar í bita á þennan hátt (mér finnst best að hafa hýðið með).

IMG_0597

Parmesan osti og kryddi blandað saman. Kartöflunum er velt upp úr olíunni og svo blandað vel saman við parmesanblönduna. Kartöflunum er síðan raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír, dreift vel úr þeim. Bakað í ofni í 30-40 mínútur, mikilvægt er að snúa við kartöflunum 2-3svar á meðan þær eru í ofninum.

IMG_0650

Roastbeef með bearnaise sósu, kartöflugratíni og spínatsalati með jarðarberjum


IMG_9146Ég var búin að vera með yfirlýsingar um að páskamaturinn hjá okkur yrði kalkúnn eða mögulega lambakjöt. Þessar fyrirætlanir breyttust allar þegar ég fékk allt girnilega nautakjötið frá Mýranauti. Ég glímdi við dálítinn valkvíða þar sem um svo marga girnilega nautakjötsbita var að ræða en á endanum ákvað ég að hafa roastbeef. Með því bar ég fram heimagerða bearnaise sósu (og brúna fyrir gikkina!), kartöflugratín og spínatsalat með jarðaberjum, fetaosti og ristuðum valhnetum. Jimundur minn hvað þetta var gott! Kjötið var dásamlega meyrt og safaríkt og meðlætið fullkomið með kjötinu. Kartöflugratínið er algjör snilld því það er svo fljótlegt og hrikalega bragðgott. Með því að sjóða kartöfluskífurnar fyrst í rjómaleginum þá þurfa þær bara örstutta stund í ofninum. Þannig gat ég ofnbakað kartöflugratínið á meðan kjötið jafnaði sig eftir ofnsteikinguna. Ég geri ekki kartöflugratín á annan hátt eftir að ég uppgötvaði þessa aðferð.

IMG_9137

Ég steikti fyrst kjötið á pönnu við háan hita og eldaði það svo við lágan hita inni í ofni. Ég sá að meistari Nanna Rögnvaldar skrifaði um daginn að það væri mýta að hægt væri að loka kjöti með því að steikja það á pönnu, nokkuð sem mér fannst mjög áhugavert að lesa. Þetta sagði hún:

,,Þetta kalla mjög margir að ,,loka” kjötinu og telja að með því að byrja á að snöggbrúna það sé verið á einhvern hátt að þétta yfirborðið svo safinn leki síður úr kjötinu. Eins og við þetta myndist einhvers konar vatnsheld hella eða hjúpur kringum kjötið …

Sem er náttúrlega alrangt.

Maður lokar ekki nokkrum sköpuðum hlut með því að brúna yfirborðið. Safinn lekur alveg jafnört úr kjötinu út á pönnuna eftir sem áður. Ef ekki örar. Þetta hefur verið margsannað með tilraunum þar sem tvö nákvæmlega eins kjötstykki eru matreidd, annað brúnað fyrst, hitt ekki, og þau síðan elduð á sama hátt þar til sama kjarnhita er náð. Síðan eru þau vigtuð til að kanna hvort hefur tapað meiri safa. Í hverri tilrauninni af annarri hefur það komið á daginn að stykkið sem var ,,lokað” tapaði jafnmiklum eða meiri safa en hitt.

Samt tekst ekki að kveða þessa mýtu niður (ég er búin að vera að tuða um þetta í fimmtán ár að minnsta kosti) og flestir, jafnt húsmæður sem frægir kokkar, halda áfram að tala um að ,,loka kjötinu”.

En á maður þá nokkuð að vera að brúna? Jú reyndar. Því að þótt brúnunin loki ekki nokkrum sköpuðum hlut, þá gerir hún annað: hún bætir bragðið. Sykrurnar og amínósýrurnar á yfirborði kjötsins bráðna saman í hitanum (sem þarf að vera yfir 150°C) og yfirborðið brúnast eða ,,karamelliserast” og við það myndast þetta unaðslega bragð sem fæstir vildu missa af. Og kjötið verður líka fallegra og girnilegra fyrir vikið.“

Þar hafið þið það, meistarinn hefur talað! 🙂 Hér með leggja Eldhússögur sitt af mörkum við að kveða niður mýtuna um að hægt sé að „loka kjöti“!

04146Með þessu gómsæta kjöti mælir vínþjónninn Sævar Már Sveinsson með  ítalska rauðvíninu Tommasi Le Pruneé Merlot. 

Lýsing: Kirsuberjarautt. Meðalfylling, þurrt, fersk sýra, miðlungstannín. Skógarber, bláber, jörð, lyng, hýði.

IMG_9126

Uppskrift:

  • ca 2 kíló nauta innra læri
  • olía
  • smjör og olía til steikingar
  • maldonsalt
  • ferskmalaður svartur pipar

Kjötið er tekið úr kæli og látið ná stofuhita. Ofninn er hitaður í 120 gráður, undir- og yfirhita. Þá er það nuddað með olíu og kryddað mjög vel með maldonsalti og ferskmöluðum svörtum pipar. Kjötið er steikt á pönnu upp úr blöndu af smjöri og olíu við háan hita á öllum hliðum í stutta stund. Þá er kjötið lagt í eldfast mót og kjöthitamæli stungið í þykkasta hluta kjötsins. Kjötið er steikt í ofni við 120 gráður þar til kjarnhiti kjötsins hefur náð um það bil 55 gráðum. Kjötið hjá mér var 2 kíló og það tók 2 klukkutíma á 120 gráðum að ná þessum kjarnhita. Þá er kjötið tekið út og látið jafna sig í 15-20 mínútur undir álpappír. Mjög mikilvægt er að leyfa kjötinu að jafna sig eftir ofnsteikinguna, ef það er skorið of snemma þá missir það safann.

IMG_9134

Bernaise sósa:

  • 4 eggjarauður
  • 250 gr. smjör
  • 1 msk.  Bernaise Essence
  • Fáfnisgras (franskt estragon –kryddjurt), söxuð smátt
  • salt og pipar

Eggjarauðurnar eru þeyttar ásamt Bernaise essence. Sumir þeyta þær yfir heitu vatnsbaði. Smjör brætt, þegar hitastigið er þannig að maður rétt nær að dýfa fingrinum í það er því hellt varlega í mjórri bunu út í eggjarauðurnar og þeytt í stöðugt á meðan (mikilvægt! – helst að fá einhvern annan til að hella) með písk. Að lokum er estragoni bætt við. Sósan smökkuð til og krydduð með smá salti og pipar ef þarf. Það má ekki hita upp sósuna aftur eftir að eggjarauðum og smjöri hefur verið blandað saman, þá skilur hún sig. Bearnaise sósan er því ekki heit þegar hún er borin fram, bara volg og má jafnvel vera köld. En fyrir þá sem vilja heita sósu er hægt að hita hana upp varlega yfir vatnsbaði.

IMG_9148

Spínatsalat með jarðaberjum:

  • spínat
  • jarðarber, skorin í bita
  • fetaostur í olíu
  • ristaðar valhnetur

Spínatið er lagt á disk. Jarðarberjunum er svo dreift ofan á spínatið ásamt fetaostinum (smá olía með). Því næst eru valhneturnar saxaðar gróft og þær þurrristaðar á pönnu á eftirfarandi hátt. Panna hituð og valhneturnar ristaðar á pönnunni við fremur háan hita í nokkrar mínútur þar til þær hafa náð góðri ristun, hrært í þeim stöðugt á meðan til þess að þær brenni ekki. Þegar hneturnar hafa kólnað dálítið er þeim að lokum dreift yfir salatið.

IMG_8856

Kartöflugratín f. 8-10

  • ca 1,5 kíló kartöflur
  • 4 dl rjómi
  • 4 dl mjólk
  • hálfur rauðlaukur, skorin í strimla
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 grænmetisteningur
  • Töfrakrydd, salt og pipar
  • rifinn ostur

Kartöflurnar skolaðar vel (ég hef þær oftast með hýðinu á) og svo skornar í skífur, sumir vilja hafa þær næfurþunnar, mér finnst best að hafa þær ca 1 cm á þykkt. Hvítlaukur og laukur skorinn niður. Mjólk og rjómi hellt í stóran pott ásamt hvítlauk, lauk, grænmetisteningi og kryddi. Ég nota Töfrakrydd frá pottagöldrum, það er góð kryddjurtablanda með cheddar osti sem hentar vel en það er hægt að nota hvaða krydd sem hugurinn girnist. Sjóðið við vægan hita í 10-15 mínútur (fer svolítið eftir þykkt kartaflanna), eða þar til þær eru orðnar vel mjúkar. Hellið þá kartöflublöndunni í eldfast mót, dreifið rifnum osti yfir og hitið í ofni við 200 gráður ca. 20 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og orðin gullinbrúnn.

IMG_9156

Sesamkjúklingur með ristuðum kartöflum


SesamkjúklingurÉg veit ekki hvort nokkur hefur áhuga á hversdagslegri kjúklingauppskrift eftir snickerskökuna ógurlegu! 🙂 Sú kaka var svo vinsæl að aðsóknarmet var slegið á Eldhússögur í gær, 13 þúsund manns komu í heimsókn á einum degi sem er óraunverulega margt fólk! Ekki nóg með það heldur hefur uppskriftinni verið deilt svo mikið á Facebook að það sjást engar deilingatölur lengur, bara „1K+“! Ég hef aldrei komist upp í 1K áður fyrir neina uppskrift en það eru meira en 1000 deilingar. Sem betur fer stendur kakan undir þessum væntingum því góð var hún! Þó svo að þetta matarblogg sé fyrst og fremst fyrir sjálfa mig þá verð ég að viðurkenna að það er ákaflega gaman að bloggið nái til svona margra. Ég eflist við hvert „like“, deilingu, komment og hrós og það hvetur mig áfram til að gera enn betur í eldhúsinu. Takk fyrir stuðninginn ykkar kæru lesendur! 🙂

En uppskrift dagsins er ákaflega góður og einfaldur sesamkjúklingur og kartöflur sem allir í fjölskyldunni borðuðu með bestu lyst. Ég notaði rósapiparsósu með réttinum en eftir á hyggja þá held ég að fersk köld sósa hefði verið enn betri. Næst ætla ég að hafa þennan kjúkling með tzatziki sósu eða jafnvel gulrótar-tzatziki sósu sem væri örugglega eðalgóð með kjúklingnum.

Uppskrift:

  • 800 gr kjúklingabringur
  • 
1 egg, hrært
  • 
1 1/2 dl brauðmylsna
  • ca 100 g sesamfræ
  • salt & svartur grófmalaður pipar
  • 
smjör og eða ólífuolía

Brauðmylsnu, sesamfræum, salti og pipar er blandað saman. kjúklingabringurnar eru skornar í þrjá bita á lengdina. Hverjum bita er velt upp úr eggi fyrst og svo blöndunni með sesamfræjum og brauðmylsnu. Kjúklingabitarnir eru steiktir upp úr smjöri og/eða ólífuolíu á pönnu við meðalhita þar til þeir eru eldaðir í gegn. Bitunum er snúið reglulega.

IMG_8114

Ristaðar kartöflur:

  • kartöflur
  • brauðmylsna
  • ólífuolía
  • maldon salt

Kartöflurnar eru þvegnar vel og skornar í tvennt. Þeim er svo raðað á ofnplötu, penslaðar vel með ólífuolíu, dálítið af brauðmylsnu er dreift yfir þær ásamt salti. Bakaðar í ofni við 225 gráður í ca. 20-25 mínútur eða þar til þær eru eldaðar í gegn.

IMG_8124

Rósapiparsósa

  • 1 laukur, saxaður smátt
  • 1 msk smjör
  • 1/2 msk rósapipar, mulinn
  • 400 ml kjúklingasoð
  • 2-3 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • salt & pipar
  • sósujafnari

Smjörið brætt í potti og laukurinn steiktur þar til hann er orðinn mjúkur. Þá er restinni af hráefnunum bætt út. Suðan látin koma upp, sósujafnara bætt út og sósunni leyft að malla í ca. 10 mínútur. Sósan er sigtuð áður en hún er borin fram.

IMG_8123

Ofnbakaður kúrbítur með tómötum og mozzarella


IMG_8015Mér finnst bæði grillað nautakjöt og lambakjöt afar gott. Mér finnst meðlætið með kjötinu ekki síður vera mikilvægt og er stöðugt á höttunum eftir góðum meðlætisuppskriftum. Við grillum allt árið, hér um bil í hvaða veðrum sem er. Þó það sé kalt í veðri þessa dagana þá er dásamleg stilla og sól, það er næstum því vor í lofti! Þá langar mann enn meira að grilla en ella. Við keyptum ungnautafille í Nóatúni en um þessar mundir eru þeir með tilboð á því kjöti – ég mæli með því fyrir helgina. Kjötið skárum við í hæfilega þykkar sneiðar, svo var það piprað og saltað áður en það fór á grillið. Með kjötinu gerði ég sveppasósu, steiktar kartöfluskífur, ferskt salat og ofnbakaðan kúrbít með tómötum og mozzarella. Þetta var afskaplega ljúffengt og þessa uppskrift af kúrbít mun ég nota aftur!

IMG_8026

Ofnbakaður kúrbítur:

  • 2 kúrbítar
  • ólífuolía
  • 1 -2 hvítlauksrif, pressuð
  • salt & pipar
  • ca. 1 dl brauðmylsna (ég bjó til eigin brauðmylsnu úr ristuðu brauði, muldu í matvinnsluvél)
  • kokteiltómatar
  • ca. 1/2 -1 mozzarella kúla, skorin í litla bita
  • parmesan (má sleppa)

IMG_8017

Ofn hitaður í 180 gráður. Kúrbíturinn skorinn á lengdina og aðeins tekið af botninum svo hann geti staðið stöðugur. Fræin skafin úr miðjunni með skeið. Bátarnir lagðir á ofnplötu klædda bökunarpappír. Ólífuolíu, hvítlauk, salti og pipar dreift yfir bátana. Kokteiltómatar skornir í tvennt og raðað ofan í bátana, brauðmylsnu stráð yfir. Bakað í ofni við 180 gráður í ca. 30 mínútur. Þá er platan tekin út, og mozzarella ostinum bætt á bátana á milli tómatanna. Sett aftur inn í ofn þar til osturinn hefur bráðnað. Þá eru bátarnir teknir úr ofninum og dálítið af ólífuolíu stráð yfir ásamt ferskri basiliku (og parmesan ef vill).

IMG_8020

Steiktar kartöfluskífur:

  • kartöflur
  • smjör og ólífuolía
  • salt & pipar
  • annað krydd (t.d. rósmarín, timjan)

Kartöflurnar þvegnar vel (ekki afhýddar) og skornar í fremur þykkar skífur. Smjörið og ólífuolían hituð á pönnu og kartöflurnar steiktar upp úr kryddinu og olíunni við meðalhita og þeim snúið oft þar til allar skífurnar eru steiktar í gegn.

IMG_8013

Sveppasósa

  • smjör
  • 200 gr sveppir
  • 2-3 tsk nautakraftur
  • 1 piparostur
  • 2 dl rjómi
  • 2 dl mjólk
  • 2 tsk rifsberjahlaup
  • 1 msk soyjasósa
  • sósujafnari
  • salt og pipar

Sveppir sneiddir og þeir steiktir í potti upp úr smjöri. Nautakrafti bætt við. Hiti lækkaður aðeins og piparosti bætt út og hann látin bráðna. Rjóma og mjólk bætt út í ásamt rifsberjahlaupi og soyjasósu og suðan látin koma upp. Sósujafnara bætt út og sósan látin malla á vægum hita þar til að hún þykknar (sósulit bætt út í ef maður vill fá dekkri lit). Sósan smökkuð til með kryddi, rifsberjahlaupi, sojasósu og/eða nautakrafti.

IMG_8022

Kartöflur á tvo vegu


Núna er gósentíð fyrir kartöfluunnendur þegar nýjar kartöflur eru farnar að streyma á markaðinn. Mér finnst kartöflur hafa fengið á sig óverðskuldað slæmt orðspor í því and-kolvetnisæði sem nú ríkir. En kartöflur eru afar trefjaríkar og stútfullar af mikilvægum vítamínum og steinefnum. Mér finnst kartöflur mjög góðar og það er hægt að elda þær á svo marga mismunandi vegu. Þessar uppskriftir hér að neðan eru skemmtileg tilbreyting frá venjulegum soðnum kartöflum og eru afar bragðgóðar. Báðar uppskriftirnar henta sérstaklega vel með allskonar grillmat, bæði fisk og kjöti.

Krumpaðar Kartöflur:

  • 60 gr. smjör
  • 1 kg kartöflur
  • maldon salt
  • nýmalaður svartur pipar.
Þvoið kartöflurnar vel með hýðinu á. Hitið smjörið í potti. Látið kartöflurnar út í og steikið í nokkrar mínútur, gætið þess að hafa hitann ekki of háan. Kryddið með salti og pipar. Lækkið hitann og látið steikjast áfram í uþb. 40 mín undir loki (fer eftir stærð og fjölda), hristið pottinn öðru hverju. Mjög einföld matreiðsla en kartöflurnar verða afar gómsætar þegar þær eru matreiddar á þennan hátt.
Kartöflur í kryddi
  • 1 kg kartöflur
  • 40 gr furuhnetur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 búnt basilika
  • 1 búnt steinselja
  • 1 tsk. salt
  • 2 msk ólivuolía
Sjóðið kartöflurnar í saltvatni í 20 mín og sigtið síðan. Setjið hnetur, krydd og olíu í matvinnsluvél og maukið. Blandið svo saman heitar kartöflurnar. Einnig má blanda saman við brytjaðar kartöflur og baka í ofni í 45 mín.
Stundum blanda ég þessum uppskriftum saman. Það er, þegar ,,krumpuðu kartöflurnar“ eru tilbúnar veiði ég þær upp úr smjörinu og blanda við pestókryddið!