Ofnbakaður kúrbítur með tómötum og mozzarella


IMG_8015Mér finnst bæði grillað nautakjöt og lambakjöt afar gott. Mér finnst meðlætið með kjötinu ekki síður vera mikilvægt og er stöðugt á höttunum eftir góðum meðlætisuppskriftum. Við grillum allt árið, hér um bil í hvaða veðrum sem er. Þó það sé kalt í veðri þessa dagana þá er dásamleg stilla og sól, það er næstum því vor í lofti! Þá langar mann enn meira að grilla en ella. Við keyptum ungnautafille í Nóatúni en um þessar mundir eru þeir með tilboð á því kjöti – ég mæli með því fyrir helgina. Kjötið skárum við í hæfilega þykkar sneiðar, svo var það piprað og saltað áður en það fór á grillið. Með kjötinu gerði ég sveppasósu, steiktar kartöfluskífur, ferskt salat og ofnbakaðan kúrbít með tómötum og mozzarella. Þetta var afskaplega ljúffengt og þessa uppskrift af kúrbít mun ég nota aftur!

IMG_8026

Ofnbakaður kúrbítur:

  • 2 kúrbítar
  • ólífuolía
  • 1 -2 hvítlauksrif, pressuð
  • salt & pipar
  • ca. 1 dl brauðmylsna (ég bjó til eigin brauðmylsnu úr ristuðu brauði, muldu í matvinnsluvél)
  • kokteiltómatar
  • ca. 1/2 -1 mozzarella kúla, skorin í litla bita
  • parmesan (má sleppa)

IMG_8017

Ofn hitaður í 180 gráður. Kúrbíturinn skorinn á lengdina og aðeins tekið af botninum svo hann geti staðið stöðugur. Fræin skafin úr miðjunni með skeið. Bátarnir lagðir á ofnplötu klædda bökunarpappír. Ólífuolíu, hvítlauk, salti og pipar dreift yfir bátana. Kokteiltómatar skornir í tvennt og raðað ofan í bátana, brauðmylsnu stráð yfir. Bakað í ofni við 180 gráður í ca. 30 mínútur. Þá er platan tekin út, og mozzarella ostinum bætt á bátana á milli tómatanna. Sett aftur inn í ofn þar til osturinn hefur bráðnað. Þá eru bátarnir teknir úr ofninum og dálítið af ólífuolíu stráð yfir ásamt ferskri basiliku (og parmesan ef vill).

IMG_8020

Steiktar kartöfluskífur:

  • kartöflur
  • smjör og ólífuolía
  • salt & pipar
  • annað krydd (t.d. rósmarín, timjan)

Kartöflurnar þvegnar vel (ekki afhýddar) og skornar í fremur þykkar skífur. Smjörið og ólífuolían hituð á pönnu og kartöflurnar steiktar upp úr kryddinu og olíunni við meðalhita og þeim snúið oft þar til allar skífurnar eru steiktar í gegn.

IMG_8013

Sveppasósa

  • smjör
  • 200 gr sveppir
  • 2-3 tsk nautakraftur
  • 1 piparostur
  • 2 dl rjómi
  • 2 dl mjólk
  • 2 tsk rifsberjahlaup
  • 1 msk soyjasósa
  • sósujafnari
  • salt og pipar

Sveppir sneiddir og þeir steiktir í potti upp úr smjöri. Nautakrafti bætt við. Hiti lækkaður aðeins og piparosti bætt út og hann látin bráðna. Rjóma og mjólk bætt út í ásamt rifsberjahlaupi og soyjasósu og suðan látin koma upp. Sósujafnara bætt út og sósan látin malla á vægum hita þar til að hún þykknar (sósulit bætt út í ef maður vill fá dekkri lit). Sósan smökkuð til með kryddi, rifsberjahlaupi, sojasósu og/eða nautakrafti.

IMG_8022