Smákökur með súkkulaðibitum


smákökur með súkkulaðibitumMér finnst yndislegt að aðventan sé byrjuð. Í vikunni sem leið bjó ég til sörur með mömmu og Ingu frænku eins og alltaf. Við gerðum 420 sörur sem við skiptum á milli okkar, frábært að eiga þessar litlu dásemdir í frystinum!

sörurÍ vikunni kom saumaklúbburinn minn líka saman og við bjuggum til kransa. Ég gerði einn á útidyrnar og einn aðventukrans. Það er mikið lán að í klúbbnum er Fríða æskuvinkona mín sem er einn færasti blómaskreytirinn á landinu (auk þess að vera farastjóri og kennari með meiru!). Það eru nokkur ár síðan við tókum upp á því að föndra kransana saman. Ég hafði aldrei gert krans áður og án Fríðu þá væru kransarnir mínir ansi dapurlegir. Verandi bókasafns- og upplýsingafræðingur þá er ég mikið fyrir röð og reglu. Ég hef til dæmis tilhneigingu til þess að vilja raða könglunum í röð … alveg jafnt … jafnvel í stærðarröð! Nokkuð sem virkar vel á bókasafni en er hörmung þegar um aðventukransa er að ræða! Fríða er búin að kenna okkur að búa til þétta og fallega kransa, raða könglum í grúppum, nota náttúrlegt skraut eins og greinar en síðast en alls ekki síst; nota glimmer og snjó í miklu magni! Það er með ólíkindum hversu miklu glimmer og gervisnjór getur breytt og lagað! krans

Hér er rignir glimmerinu yfir kransinn

IMG_1622

Falleg skreyting í vinnslu hjá meistaranum

IMG_1621

Greini, greinar, könglar, glimmer og snjór – gerist ekki fallegra!

IMG_1629Meistarinn með hurðarkransinn sinn

En ef ég sný mér nú að smákökunum sem eru uppskrift dagsins. Þegar ég var barn bakaði mamma allskonar gómsætar smákökutegundir eins og svo algengt var á þeim tíma. Loftkökur, vanilluhringi, hálfmána með sultu og fleiri tegundir, allir í fjölskyldunni áttu sér sínar uppáhalds smákökur. Kökurnar voru allar tryggilega geymdar í kökuboxum fram að jólum og við krakkarnir biðum óþreyjufull alla aðventuna eftir því að fá að gæða okkur á kræsingunum. Eftir að ég stofnaði til minnar eigin fjölskyldu hélt ég í hefðina og baka ýmisskonar smákökur á aðventunni. Snemma á aðventunni bökum við krakkarnir alltaf piparkökur sem við svo málum og skreytum saman auk þess sem ég fer í sörubaksturinn með mömmu og Ingu frænku. Þetta er þær kökur sem ég geymi fram að jólum ásamt jólagotti líkt og Bounty kúlurOreokúlur og öðru gotteríi. Annars baka ég ekki smákökur og safna í kökubox, mér finnst nefnilega smákökur bestar nýbakaðar. Þannig að öðru hvoru á aðventunni baka ég eina og eina tegund af smákökum sem að má, og hreinlega á, að borða heitar og nýbakaðar! Fjölskyldan lætur ekki segja sér það tvisvar og við eigum því litlar, notalegar jólastundir á aðventunni með nýbökuðum, volgum smákökum og mjólkurglasi.  Í dag bjó ég til afskaplega góðar smákökur með súkkulaðibitum sem við gæddum okkur á. Þær eru stökkar að utan og mjúkar í miðjunni, alveg eins og góðar súkkulaðikökur eiga að vera.

IMG_1672

Uppskrift: 

  • 160 g smjör
  • 200 g púðursykur
  • 2 stór egg
  • 260 g Kornax hveiti
  • 1 pakki Royal karamellu búðingur (90 g) – duftið notað
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1 tsk matarsódi
  • 100 g suðusúkkulaðidropar
  • 100 g hvítir súkkulaðidropar

Ofn hitaður í 180 gráður. Smjör og púðursykur hrært vel saman. Þá er einu eggi bætt út í senn, hrært vel á milli. Því næst er búðingsduftinu, hveiti, vanillusykri og matarsóda bætt út í og hrært vel. Að síðustu er súkkulaðidropunum bætt út í deigið. Um það bil teskeið af deigi er raðað á ofnplötu klædda bökunarplötu, passa að hafa gott pláss á milli þeirra.IMG_1665 Bakað í ofnið við 180 gráður í 8-10 mínútur eða þar til kökurnar eru tilbúnar. Gott að baka þær aðeins minna heldur en meira. IMG_1669

Eplabaka með piparkökum


Eplabaka með piparkökum

Mér finnst eplabökur vandræðalega góðar. Svíar eru mikið bökufólk og á kaffihúsum þar í landi eru alltaf allskonar pæ í boði, hindberjapæ, eplapæ og fleiri góð pæ. Fyrstu árin sem ég bjó í Svíþjóð var ég stórhneyksluð á því hvernig Svíar eyðilögðu þessar góðu bökur með því að drekkja þeim í vanillusósum. En eftir nokkurra ára dvöl þar í landi var ég orðin frelsuð og vildi líka að eplabökunni minni væri drekkt í ljúffengri vanillusósu!

Eitt kvöldið fyrr í vikunni var ég í jólaskapi, nýbúin að kaupa box af gómsætum sænskum piparkökum (þessum sænsku í rauðu boxunum merktum „Göteborgs“ – þær eru bestar!) og langaði að búa til eplaböku. Skyndilega fékk ég þá hugdettu að það væri gott að blanda piparkökum við eplabökudeigið. Ég beið ekki boðanna og hófst strax handa. Hálftíma seinna stóð rjúkandi heit og gómsæt eplabaka á borðinu og húsið angaði af jólailmi. Vissulega var ég ekki með neina sænska vanillusósu til að drekkja bökunni í en í þetta sinn setti þeytti rjóminn punktinn yfir i-ið. Eiginlega skil ég ekkert í mér að hafa ekki uppgötvað þetta fyrr því eplabakan var með þeim betri og jólalegri bökum sem ég hef bragðað!

image.aspx

Uppskrift:

Deig:
  • 125 g smjör (gott ef það hefur fengið að standa í stofuhita í smá tíma)
  • 1dl sykur
  • 1dl Kornax hveiti
  • 1.5 dl haframjöl
  • ca. 10-12 piparkökur, muldar fremur smátt
  • 1/2msk kanill
  • 1 tsk engifer
  • 1 tsk negull
Fylling: 
  • 3-4 græn epli, afhýdd, kjarnhreinsuð og skorin í þunnar sneiðar
  • 2 msk hrásykur

IMG_1560

Ofn hitaður í 210 gráður. Öllum hráefnunum í deigið blandað saman í höndunum í massa. Eplaskífunum raðað í eldfast mót og hrásykrunum dreift yfir. Því næst er deiginu dreift yfir eplin. Bakað í ofni í ca. 20 mínútur eða þar til eplin eru orðin mjúk og deigið stökkt. Berið fram heitt með vanilluís eða þeyttum rjóma.
IMG_1570

Kjúklinga „stir fry“ með kasjúhnetum


Kjúklinga "stir fry" með kasjúhnetumEnn ein helgin flogin hjá. Ég ætla að gera svo mikið um helgar en ég held að ég sé alltaf að misreikna hversu langar þær eru í raun og veru. Ég afrekaði þó ýmislegt skemmtilegt þessa helgina. Hún byrjaði með frábærri vasaljósagöngu seinnipartinn á föstudag þar sem bekkjarfélagar Jóhönnu Ingu ásamt foreldrum fóru upp á Vatnsenda í myrkrinu með vasaljós og krakkarnir leituðu að földum endurskinsmerkjum, drukku heitt kakó og borðuðu piparkökur. Um kvöldið þjófstörtuðum við aðventunni með jólamynd. Við fjölskyldan höfum þá hefð að horfa saman á jólabíómynd á föstudagskvöldum yfir aðventuna.

Aldrei þessu vant var Elfar í helgarfríi og í gær fórum í miðbæinn með krakkana og upplifðum jólastemmninguna þar. Ég var mjög spennt að komast í ráðhúsið á bókamessuna og skoða allar nýju barnabækurnar fyrir bókasafnið mitt. Jóhanna Inga var ekkert lítið glöð að hitta þar fyrir Gunnar Helgason og fá hjá honum áritað eintak af Rangstæður í Reykjavík. Þó svo að hún hafi engan áhuga á fótbolta þá finnst henni þessar bækur frábærar og hún hefur hlustað á hljóðbókina af Aukaspyrnu á Akureyri örugglega meira en tíu sinnum! Um kvöldið fór ég með vinkonum út að borða á Vegamót og svo sáum við leiksýninguna Hús Bernhörðu Ölbu.  Í dag fórum við í notalegt kaffiboð til ömmu og afa þar sem við fengum pönnukökurnar hennar ömmu, mæli með þeim! Sem sagt, margt skemmtilegt brallað um helgina á milli hefðbundnu heimilisverkanna.

Helginni var lokið með sérlega góðum kjúklingarétti. Mér finnst voðalega gott að fá mér svona „stir fry“ rétti á asískum stöðum með kjúklingi, fullt af grænmeti og kasjúhnetum. Í kvöld ákvað ég að reyna að búa til eigin útgáfu af slíkum rétti og mér fannst takast afar vel til. Fjölskyldan var voðalega ánægð með þennan rétt og lofaði hann bak og fyrir. Enn og aftur sannast að það þarf ekki að vera flókið að búa til holla, einfalda og ljúffenga rétti. Ég mæli með því að þið prófið þessa uppskrift við fyrsta tækifæri! 🙂

Uppskrift f. ca. 4-5

  • 700 g kjúklingalundir (ég notaði frystar frá Rose Poultry)
  • ólífuolía til steikingar
  • 4-5 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 rauður chili, kjarnhreinsað og saxað smátt
  • 1 stór eða 2 litlir laukar, skornir í sneiðar
  • 1 meðalstór haus brokkolí, skorið í bita
  • 1 meðalstór haus blómkál, skorið í bita
  • 1 púrrlaukur, skorinn í sneiðar
  • 1 stór eða 2 litlar rauðar paprikur, skornar í sneiðar
  • 150 g kasjúhnetur
  • 1.5 dl hoisinsósa
  • 1 tsk fiskisósa
  • 1.5 dl vatn
  • salt & pipar
  • chili flögur (má sleppa)

Kasjúhneturnar eru ristaðar á heitri og þurri pönnu þar til þær fá lit og þær lagðar til hliðar. Kjúklingur er skorinn í bita. Góð sletta af ólífuolíu er sett á pönnu og hitað. Þá er chili og hvítlauk bætt út á pönnuna í stutta stund. IMG_1520 Því næst er kjúklingnum bætt við og hann steiktur í 3-4 mínútur, saltað og piprað.

IMG_1529 Svo er öllu grænmetinu bætt út á pönnuna (olíu bætt við ef þarf) og steikt þar til grænmetið fer að mýkjast, hrært í reglulega. Þá er hoisinsósu, fiskisósu og vatni bætt út á pönnuna og látið malla í nokkrar mínútur. Að lokum er ristuðu kasjúhnetunum bætt út í réttinn. IMG_1536Ef maður vill hafa réttinn sterkari er hægt að krydda hann aukalega með chiliflögum. Borið fram með hrísgrjónum eða núðlum. Njótið!

IMG_1553

Bananakaka með núggatsúkkulaði


IMG_1146Bananakaka með núggatsúkkulaði

Í hvert sinn sem ég sé eitthvað nýtt og girnilegt súkkulaði á markaðnum fer hugur minn á flug og ég reyni að finna leið til þess að koma því köku! Síðast gerði ég til dæmis tilraunir með Pipp með bananabragði sem lukkaðist vel. Að þessu sinni var það nýja rjómasúkkulaðið með frönsku núggati frá Nóa og Siríus sem heillaði mig. Mér finnst mjúkt núggat ekki gott en ég er hrifin af stökku frönsku núggati. Ég ákvað að setja það í eina af mínum uppáhaldskökum, bananaköku, og sá ekki eftir því. Góð kaka varð enn betri! Svona bananakökur myndast reyndar ekkert svakalega vel þannig að þið verðið bara að taka orð mín trúanleg! 🙂

Uppskrift:

  • 150 g mjúkt smjör
  • 1 dl. sykur
  • 1 dl. púðursykur
  • 2 stór egg
  • 5 dl. Kornax hveiti
  • 2 tsk. lyftiduft
  • 1 tsk. matarsódi
  • 1 tsk. salt
  • 2 tsk. vanillusykur
  • 3 meðalstórir bananar (vel þroskaðir)
  • 150 g rjómasúkkulaði með frönsku núggati, saxað smátt

Bananakaka með núggatsúkkulaði

Aðferð:

Bakarofn hitaður í 175 gráður. Smjöri og sykur hrært vel saman. Eggjum bætt út í, einu í senn. Þurrefnum blandað saman og sáldrað út í. Bananar maukaðir og þeim hrært saman við deigið. Í lokin er súkkulaðinu blandað saman við deigið. Degið sett í hringlaga smurt form form. Bakað í ca. 40-45 mínútur (fer eftir ofnum) eða þar til kakan er bökuð í gegn. Það gæti þurft að setja álpappír yfir hana undir lok bökunartímans ef hún er farin að dökkna mikið.

IMG_1135Bananakaka með núggatsúkkulaði

Súkkulaðipannacotta með karamellu


Súkkulaðipannacotta með karamellu

Síðastliðinn sunnudag komu foreldrar mínir í mat ásamt ömmu, afa og Ingu frænku. Ég gerði hægeldaða lambalærið. Klukkan ellefu um morguninn setti ég lærið inn í ofn ásamt kartöflum og grænmeti. Reyndar útbjó ég tvö læri, setti í sitt hvorn steikarpottinn og mamma stakk öðrum þeirra í ofninn hjá sér. Þetta er svo ótrúlega þægilegur matur til að bjóða gestum upp á. Lærið og meðlætið mallar bara í ofninum allan daginn og svo þarf ekkert að gera nema sósu og salat rétt áður en gestirnir koma, gæti hvorki verið einfaldra né betra.

En það sem ég ætlaði að færa hér inn í dag er uppskriftin að eftirréttinum sem ég bauð upp á þetta kvöld, Súkkulaðipannacotta með karamellu. Í honum eru einstaklega fá hráefni og hann tekur bara nokkrar mínútur að útbúa. Pannacotta er upprunninn frá Ítalíu og er nokkurskonar búðingur en pannacotta þýðir ,,soðinn rjómi” á ítölsku. Það er gott að bragðbæta pannacotta með til dæmis vanillu, súkkulaði, kaffi eða öðru. Þessi útgáfa er í miklu uppáhaldi hjá mér, Pannacotta með hvítu súkkulaði og ástaraldini.

Pannacotta með hvítu súkkulaði og ástaraldini

Hér gerði ég hindberjapannacotta LKL-style, þ.e. með sætuefni í stað sykurs auk hindberjasósu.

Hindberjapannacotta

Að þessu sinni notaði ég Pipp súkkulaði með karamellu til þess að bragðbæta pannacotta. Ummæli gestanna lýsa best hvernig til tókst. Amma sagði einfaldlega að þetta væri besti eftirréttur sem hún hefði bragðað! Þá óskaði hún eftir því að ég hefði þennan rétt á aðfangadagskvöld. Ég hélt að amma væri nú bara að grínast því síðan ég man eftir mér hefur alltaf verið heimatilbúinn vanilluís hjá okkur á aðfangadagskvöldi! Amma var hins vegar ekkert að grínast og sagðist vilja fá þennan eftirrétt aftur sem fyrst. Allir voru sammála um að eftirrétturinn væri frábærlega góður en nokkrir lögðu fram lágvær mótmæli um að það ætti að breyta þessari áratugalöngu jólahefð. Þá var því slegið á föstu að þessi desert yrði í boði á gamlárskvöld. Amma hafði bara eina ósk um breytingu, að ég myndi ekki skammta svona nánasarlega á diskana næst, skammtinn mætti alveg tvöfalda! 🙂 Jóhanna Inga var þessu örugglega sammála því í lok máltíðar gekk hún á milli skála og náði sér í þær litlu dreggjar sem eftir voru. Sem sagt, einstaklega einfaldur en fyrst og fremst feykigóður eftirréttur. Stórfjölskyldan mælir með þessu, þá sér í lagi amma! 🙂IMG_1246

Uppskrift f. 4 (tvöfaldið ef þið bjóðið ömmu í mat! 😉 )

  • 4 dl rjómi
  • 1/2 dl sykur
  • 100 g Pipp súkkulaði með karamellu
  • 2 blöð matarlím
  • Skreytt með þeyttum rjóma og berjum

IMG_1212

Matarlímsblöðin eru lögð í kalt vatn. Rjómi og sykur sett í pott og látið ná suðu. Þá er potturinn tekinn af hellunni, súkkulaðið brotið í litla bita og þeim bætt út í pottinn. Hrært þar til súkkulaðið hefur bráðnað. Því næst er vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum, þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau hafa bráðnað saman við blönduna. Hellt í skálar eða bolla og kælt í ísskáp í minnst 2 klukkutíma. Áður en rétturinn er borinn fram er hann skreyttur með þeyttum rjóma og berjum. Einnig er gott að bera fram þeyttan rjóma aukalega með réttinum.

IMG_1250 IMG_1254

 

Mozzarellakjúklingur með basiliku- og rjómaostafyllingu


Mozzarellakjúklingur með basiliku- og rjómaostafyllingu

Mér finnst alveg einstaklega gaman að tína hráefni úr ísskápnum og pússla þeim saman í matrétt. Svo ekki sé talað um ef útkoman heppnast vel. Í síðustu viku gerði ég kjúklingarétt sem mér fannst sérdeilis góður. Ég átti mikið af ferskri basiliku sem ég þurfti að koma út, einn poka af úrbeinuðum kjúklingalærum frá Rose Poultry í frystinum auk rjómaosts og mozzarella osts. Fá og einföld hráefni skapa oft á tíðum bestu réttina! Ég dundaði mér við að setja saman þennan rétt á meðan landsleikurinn var í sjónvarpinu og bauð karlmönnunum í fjölskyldunni upp á réttinn í hálfleik, stelpurnar voru ekki heima, og þeim fannst hann framúrskarandi góður. Sjálf horfði ég bara á leikinn með öðru auganu, mér finnst bara svo leiðinlegt að horfa á fótbolta. Ég verð meira að segja að viðurkenna að ég skipti öðru hvoru yfir á Food Network! 🙂

Mozzarellakjúklingur með basiliku- og rjómaostafyllingu

Uppskrift

  • 700 g úrbeinuð kjúklingalæri (ég notaði frá Rose Poultry)
  • 1 egg
  • salt og pipar
  • ca 1 tsk basilika (krydd)
  • hnífsoddur cayanne pipar
  • 1/2 poki brauðteningar með osti og hvítlauki (ca 70 g)
  • 100 g Philadelphia rjómaostur
  • ca. 15 g fersk basilika
  • ca 400 g góð pastasósa (ég notaði Premium Hunts pasta sauce með Herbs & Garlic)
  • 1 kúla ferskur mozzarellaostur (þessi í bláu pokunum – 120 g)
  • spaghettí

Ofn hitaður í 220 gráður og botninn á eldföstu móti smurt. Úrbeinuðu kjúklingalærin snyrt og krydduð með salti og pipar. Eggið er sett í skál og pískað upp með gaffli. Brauðteningarnir eru settir í matvinnsluvél og fínhakkaðir, cayanne pipar og basilikukryddi blandað saman við. Hvert læri er smurt með góðri klípu af rjómaosti og fersku basilikublöðunum raðað þétt á rjómaostinn. IMG_1173 Lærunum er rúllað upp og þeim dýft í eggjahræruna og því næst velt upp úr brauðteningablöndunni. Þau eru síðan lögð í eldfasta mótið með samskeytin niður. Mér tókst að halda rúllunum saman á meðan ég velti þeim upp úr blöndunni en það er líka hægt að nota tannstöngla til þess að halda þeim saman. IMG_1174Sett inn í ofn í um það bil 20 mínútur. Mozzarellaosturinn er skorinn í sneiðar, jafnmargar og kjúklingalærin segja til um. Þá er eldfast mótið tekið úr ofninum. IMG_1177 Pastasósunni er skipt í tvennt, öðrum helmingnum er skipt ofan á hverja rúllu. Þar ofan á er sett ein sneið af mozzarellaostinum á hverja rúllu. IMG_1180 Eldfasta mótið er sett aftur inn í ofn í um það bil 10 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað dálítið. Afgangurinn af pastasósunni er hituð upp. Kjúklingarúllurnar eru bornar fram með spaghettí og upphituðu pastasósunni. Njótið! 🙂

Mozzarellakjúklingur með basiliku- og rjómaostafyllingu

Súkkulaðikaka með Pipp bananakremi – leiðrétting á Nóa og Siríus bæklingi


Fyrr í haust var ég svo heppin að vinna uppskriftasamkeppni hjá Nóa og Siríus og hlaut fyrir vikið afar rausnarleg verlaun.

IMG_0510 Meðal þess sem ég vann var gjafabréf út að borða fyrir tvo á veitingastaðinn Kopar. Við Elfar héldum upp á það í síðustu viku að þá vorum 22 ár síðan við fórum á okkar fyrsta stefnumót. Okkur fannst því tilvalið að fara út að borða síðastliðið fimmtudagskvöld og nýta gjafakortið okkar á Kopar. Þegar við vorum lögð af stað var mér litið á gjafakortið. Ég var búin að lesa að það gilti bara í miðri viku en þarna rak ég augun í að það þýddi frá sunnudegi til miðvikudags! Ég hringdi á staðinn og þar svaraði mér afar almennileg kona, Sandra, sem leyfði okkur að koma þrátt fyrir að það væri fimmtudagskvöld.Kopar Við áttum yndislega kvöldstund á þessum fallega veitingastað. Okkur var boðið upp á ævintýraferð sem þýddi að við fengum hvern gómsæta réttinn á fætur öðrum, dásamlega gott. Ég verð líka að hæla góðri þjónustu á staðnum, sérstaklega var hún Sandra frábær. Við getum svo sannarlega mælt með Kopar! Þessa skemmtilegu Instagram mynd hér til hægri tók Elfar inn um gluggann á Kopar, ég sit fyrir innnan og bíð eftir honum! 🙂

Auk þessa skemmtilega vinnings þá birtist uppskriftin mín í uppskriftabæklingi Nóa og Siríus sem kom nýverið út.NóiSeint í gærkvöldi fékk ég hins vegar hringingu frá örvæntingafullum bakara. Þó svo að ég hafi sent Nóa og Siríus villulausa uppskrift þá datt út í bæklingnum þeirra hluti af framkvæmdinni. Það vantar hvenær nota eigi sykurinn. Örvæntingafulli bakarinn sem hringdi í mig í gærkvöldi stóð í stórbakstri og var í vandræðum með uppskriftina. Fyrir alla hina sem standa í sömu sporum þá á sykurinn að fara út í pottinn með eggjunum! 🙂 En svo er líka villulausa uppskrift að finna hér á síðunni minni, endilega farið eftir henni.

Súkklaðikaka með Pipp bananakremi

Mexíkóskur fiskréttur


Mexíkóskur fiskréttur

Ég mun seint hætta að dásama íslenska fiskinn. Eftir langa dvöl erlendis þá lærir maður sérstaklega að meta þetta einstaka hráefni sem við höfum hér á landi. Ég er alltaf að reyna að matreiða fisk á þann hátt sem öllum í fjölskyldunni líkar þar sem að yngsta barnið hefur ekki enn „séð ljósið“ eins og við hinn þegar kemur að fiski. Mig langar samt ekki að búa til barnvænar uppskriftir sem fullorðna fólkinu líkar ekki þannig að ég er stöðugt að prófa mig áfram. Þessi útfærsla af fiskrétti er í sérstöku uppáhaldi því öllum í fjölskyldunni finnst hann ákaflega góður. Ekki finnst mér síðra hversu auðveldur hann er að útbúa. Það er vissulega hægt að nota allskonar fisktegundir en ég er sérstaklega hrifin af þorski um þessar mundir og lét Elfar koma við hjá fiskbúð Hólmgeirs í Mjóddinni á leiðinni heim úr vinnunni. Þar klikkar fiskurinn aldrei og að þessu sinni kom Elfar heim með hnausþykkan og girnilegan þorskhnakka.

Uppskrift:

  • 1 kíló þorskur, ýsa eða annar góður fiskur
  • 1 stór rauð paprika, skorin í strimla
  • 250 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 rauðlaukur, skorinn í strimla
  • 1 bréf Fajitas kryddmix
  • ca. 2/3 dl hveiti
  • ca. 150 g rjómaostur
  • ca 300 g salsa sósa
  • rifinn ostur (ég nota rifinn mozzarella ost)

Ofn hitaður í 200 gráður. Hér um bil öllu fajitas kryddinu er blandað saman við hveitið, ca. 1 tsk af kryddinu er geymt þar til síðar. Fiskurinn er skorinn í hæfilega stóra bita og þeim velt mjög vel upp úr fajitas-hveitiblöndunni. Þá er fiskurinn steiktur á pönnu upp úr smjöri og/eða olíu á öllum hliðum þar til fiskurinn hefur náð fallegri steikingarhúð. Þá er fiskurinn lagður í eldfast mót.

IMG_1136 Því næst er bætt við smjöri á pönnuna og sveppir, paprika og laukur sett á pönnuna, kryddað með restinni af fajitas kryddinu. Grænmetið er steikt í smá stund og því næst dreift yfir fiskinn.IMG_1139 Þá er rjómaostinum dreift yfir grænmetið.IMG_1141

Því næst er salsa sósunni dreift yfir.

IMG_1142Að lokum er rifna ostinum dreift yfir.IMG_1143 Sett inn í ofn og bakað við 200 gráður í ca 20 mínútur eða þar til osturinn hefur náð góðum lit og fiskurinn er eldaður í gegn. (Ég var með mjög þykka þorskhnakka sem þurftu langan tíma í ofninum en það þarf að miða bökunartímann út frá þykkt fisksins hverju sinni).IMG_1157Mexíkóskur fiskréttur, hrísgrjón og gómsætar baunaspírurnar frá Ecospiru á yndislega fallegum matardisk frá Green gate.

Einfaldur Snickerseftirréttur með perum


Einfaldur Snickerseftirréttur með perumÉg ætla að vera ákaflega snögg að setja inn þessa uppskrift – sem er nú reyndar létt verk því uppskriftin er afar einföld. Við hjónin erum nefnilega að drífa okkur í bíó í tilefni dagsins. Í dag eru einmitt 22 ár síðan við fórum á okkar fyrsta stefnumót en þá var 11/11 einmitt líka mánudagur og við fórum í bíó! Eftir þetta stefnumót var ekki aftur snúið og tveimur mánuðum seinna vorum við farin að búa saman! 🙂

En ef ég sný mér að uppskriftinni þá er hún að afar einföldum og góðum eftirrétti. Ég gef upp uppskrift með Snickersi og perum en eins og sjá má á myndunum þá er hægt að nota margt annað. Á myndinni hér nota ég Remi myntukex og apríkósur.

Ég prófaði reyndar líka litlu Lindubuffin en það er ekki nógu vel heppnað þar sem að þau verða of hörð, ég er alltaf hrifnust af því að nota Snickers eða Mars ásamt perum. Mikið er ég annars ánægð með nýju Kitchen aid hrærivélaskálina mína úr gleri! 🙂

Einfaldur Snickerseftirréttur með perum

Uppskrift:

  • 500 ml rjómi
  • 1 pakki með 4 litlum Mars súkkulaðistykkjum (eða Snickers – annað gott súkkulaði)
  • 1 stór dós niðursoðnar perur (eða apríkósur)
  • 1 marengsbotn (hvítur eða brúnn með púðursykri)

Perurnar eru þerraðar vel og skornar í litla bita, Snickersið er skorið í litla bita og marengsinn er mulinn niður. Rjóminn er þeyttur og öllu ofangreindu blandað út í rjómann. Hellt í eldfast mót og fryst. Tekinn út úr frysti um það bil klukkutíma áður en rétturinn er borinn fram. Rétturinn á að vera farinn að bráðna þannig að hann sé eins og mjúkur rjómaís.

Einfaldur Snickerseftirréttur með perum

Mexíkósk nautahakksrúlla


Mexíkósk nautahakksrúlla

Ég gerði enn eina útfærsluna af nautahakksrúllunni vinsælu en þetta kunn vera fjórða útgáfan sem ég set hingað á síðuna.

Þetta byrjaði allt með nautahakksrúllunni með brokkolí og osti.recently-updated121Ég færði mig síðan upp á skaftið og útfærði aðra rúllu með meðal annars beikoni og eplum. IMG_9706Næst ákvað ég að prófa að nota mozzarella, tómata og basiliku í fyllinguna.

IMG_0576

Í vikunni fékk ég þá skyndihugdettu að gera rúlluna mexíkóska. Ég lét ekki sitja við orðin tóm og prófaði að gera slíka rúllu samdægurs. Ég notaði þau hráefni sem ég átti í ísskápnum. Til dæmis datt mér í hug að setja hrísgrjón og maísbaunir í fyllinguna en hafði áhyggjur af því að fyllingin yrði of þurr þannig. Ég átti eitt box af Philadelphia osti með sweet chili og hrærði honum því saman við hrísgrjónin. Mér finnst gott að krydda nautahakkið vel en fólk þarf að meta það sjálft hversu vel kryddað hakkið á að vera, mælieiningarnar hér að neðan er aðeins til viðmiðunnar, ég notaði aðeins meira. Í fyllinguna eru notuð soðin hrísgrjón og það er mjög sniðugt að spara sér tíma og sjóða aukalega hrísgrjón með einhverjum kvöldmatnum, geyma í ísskáp og nota svo í fyllinguna.

Uppskrift:

  • 700 g nautahakk
  • 1/2 tsk chili duft
  • 1/2 tsk paprika
  • 1/2 tsk cumin krydd (broddkúmen) – ath. ekki kúmen
  • 1/2 tsk oregano
  • hnífsoddur cayanne pipar
  • salt & pipar
  • Fyrir þá sem kjósa það heldur þá er hægt að nota tilbúna Burrito kryddblöndu í stað kryddanna hér að ofan
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • ca. 1/4 meðalstór laukur, saxaður mjög smátt
  • 1 egg

Fylling:

  • ca. 2,5 – 3 dl af ósoðnum hrísgrjónum sem eru soðin samkvæmt leiðbeiningum
  • lítil dós gular maísbaunir
  • 1 dós Philadelphia ostur með sweet chili
  • (mér datt í hug eftir á að það hefði líklega verið gott að steikja rauðlauk og bæta í fyllinguna!)

Ofan á rúlluna:

  • 1 krukka salsa (ca. 350 g)
  • rifinn mozzarella ostur

Ofninn er hitaður í 200 gráður. Kryddunum, eggjunum, lauknum og hvítlauknum er blandað vel saman við nautahakkið. Hakkið flatt út í ferning á smjörpappír. Gott er að leggja smjörpappír ofan á hakkið og fletja það svo út með kökukefli.

IMG_9693

Soðnum hrísgrjónum, gulum maísbaunum og Philadelphia osti er blandað vel saman og dreift jafnt yfir hakkið. Því næst er rúllunni rúllað upp með hjálp bökunarparppírsins undir hakkinu. IMG_1100Rúllan er færð varlega yfir í eldfast mót eða á bökunarplötu og bökuð í ofni í ca. 20 mínútur. Þá er hún tekin út, salsa sósu hellt yfir rúlluna og rifnum osti dreift yfir. IMG_1102Rúllan er aftur sett inn í ofn og bökuð í um það bil 20 mínútur til viðbótar eða þar til rúllan er elduð í gegn. Ef osturinn fer að dökkna of mikið er hægt að setja álpappír yfir rúlluna undir lokin. Athugið að bökunartíminn er bara til viðmiðunnar, hann fer alfarið eftir því hvernig hakkinu er rúllað út og þá hver þykktin verður á rúllunni. Þykk og stutt rúlla þarf lengri bökunartíma en löng og mjó þarf styttri! 🙂

Borið fram með salsasósu, fersku guacamole og fersku salati. Mitt ferska salat þessa dagana samanstendur af einhverju góðu grænu salati blandað við dásamlega fersku og góðu baunaspírurnar frá Ecospiru. Ég hvet ykkur til að prófa!

IMG_1117

Baunaspírur