Mér finnst alveg einstaklega gaman að tína hráefni úr ísskápnum og pússla þeim saman í matrétt. Svo ekki sé talað um ef útkoman heppnast vel. Í síðustu viku gerði ég kjúklingarétt sem mér fannst sérdeilis góður. Ég átti mikið af ferskri basiliku sem ég þurfti að koma út, einn poka af úrbeinuðum kjúklingalærum frá Rose Poultry í frystinum auk rjómaosts og mozzarella osts. Fá og einföld hráefni skapa oft á tíðum bestu réttina! Ég dundaði mér við að setja saman þennan rétt á meðan landsleikurinn var í sjónvarpinu og bauð karlmönnunum í fjölskyldunni upp á réttinn í hálfleik, stelpurnar voru ekki heima, og þeim fannst hann framúrskarandi góður. Sjálf horfði ég bara á leikinn með öðru auganu, mér finnst bara svo leiðinlegt að horfa á fótbolta. Ég verð meira að segja að viðurkenna að ég skipti öðru hvoru yfir á Food Network! 🙂
Uppskrift
- 700 g úrbeinuð kjúklingalæri (ég notaði frá Rose Poultry)
- 1 egg
- salt og pipar
- ca 1 tsk basilika (krydd)
- hnífsoddur cayanne pipar
- 1/2 poki brauðteningar með osti og hvítlauki (ca 70 g)
- 100 g Philadelphia rjómaostur
- ca. 15 g fersk basilika
- ca 400 g góð pastasósa (ég notaði Premium Hunts pasta sauce með Herbs & Garlic)
- 1 kúla ferskur mozzarellaostur (þessi í bláu pokunum – 120 g)
- spaghettí
Ofn hitaður í 220 gráður og botninn á eldföstu móti smurt. Úrbeinuðu kjúklingalærin snyrt og krydduð með salti og pipar. Eggið er sett í skál og pískað upp með gaffli. Brauðteningarnir eru settir í matvinnsluvél og fínhakkaðir, cayanne pipar og basilikukryddi blandað saman við. Hvert læri er smurt með góðri klípu af rjómaosti og fersku basilikublöðunum raðað þétt á rjómaostinn. Lærunum er rúllað upp og þeim dýft í eggjahræruna og því næst velt upp úr brauðteningablöndunni. Þau eru síðan lögð í eldfasta mótið með samskeytin niður. Mér tókst að halda rúllunum saman á meðan ég velti þeim upp úr blöndunni en það er líka hægt að nota tannstöngla til þess að halda þeim saman.
Sett inn í ofn í um það bil 20 mínútur. Mozzarellaosturinn er skorinn í sneiðar, jafnmargar og kjúklingalærin segja til um. Þá er eldfast mótið tekið úr ofninum.
Pastasósunni er skipt í tvennt, öðrum helmingnum er skipt ofan á hverja rúllu. Þar ofan á er sett ein sneið af mozzarellaostinum á hverja rúllu.
Eldfasta mótið er sett aftur inn í ofn í um það bil 10 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað dálítið. Afgangurinn af pastasósunni er hituð upp. Kjúklingarúllurnar eru bornar fram með spaghettí og upphituðu pastasósunni. Njótið! 🙂
hljómar vel og munnvatnsframleiðslan eykst gífurlega 🙂
Þvílíkt góður kvöldmatur. Strákunum mínum fannst skrítið að ég ætlaði að bjóða fram spaghettí með kjúkling en voru ekkert smá ánægðir með matinn og allt borðað upp til agna geri sko stærri skammt næst 🙂