Súkkulaðipannacotta með karamellu


Súkkulaðipannacotta með karamellu

Síðastliðinn sunnudag komu foreldrar mínir í mat ásamt ömmu, afa og Ingu frænku. Ég gerði hægeldaða lambalærið. Klukkan ellefu um morguninn setti ég lærið inn í ofn ásamt kartöflum og grænmeti. Reyndar útbjó ég tvö læri, setti í sitt hvorn steikarpottinn og mamma stakk öðrum þeirra í ofninn hjá sér. Þetta er svo ótrúlega þægilegur matur til að bjóða gestum upp á. Lærið og meðlætið mallar bara í ofninum allan daginn og svo þarf ekkert að gera nema sósu og salat rétt áður en gestirnir koma, gæti hvorki verið einfaldra né betra.

En það sem ég ætlaði að færa hér inn í dag er uppskriftin að eftirréttinum sem ég bauð upp á þetta kvöld, Súkkulaðipannacotta með karamellu. Í honum eru einstaklega fá hráefni og hann tekur bara nokkrar mínútur að útbúa. Pannacotta er upprunninn frá Ítalíu og er nokkurskonar búðingur en pannacotta þýðir ,,soðinn rjómi” á ítölsku. Það er gott að bragðbæta pannacotta með til dæmis vanillu, súkkulaði, kaffi eða öðru. Þessi útgáfa er í miklu uppáhaldi hjá mér, Pannacotta með hvítu súkkulaði og ástaraldini.

Pannacotta með hvítu súkkulaði og ástaraldini

Hér gerði ég hindberjapannacotta LKL-style, þ.e. með sætuefni í stað sykurs auk hindberjasósu.

Hindberjapannacotta

Að þessu sinni notaði ég Pipp súkkulaði með karamellu til þess að bragðbæta pannacotta. Ummæli gestanna lýsa best hvernig til tókst. Amma sagði einfaldlega að þetta væri besti eftirréttur sem hún hefði bragðað! Þá óskaði hún eftir því að ég hefði þennan rétt á aðfangadagskvöld. Ég hélt að amma væri nú bara að grínast því síðan ég man eftir mér hefur alltaf verið heimatilbúinn vanilluís hjá okkur á aðfangadagskvöldi! Amma var hins vegar ekkert að grínast og sagðist vilja fá þennan eftirrétt aftur sem fyrst. Allir voru sammála um að eftirrétturinn væri frábærlega góður en nokkrir lögðu fram lágvær mótmæli um að það ætti að breyta þessari áratugalöngu jólahefð. Þá var því slegið á föstu að þessi desert yrði í boði á gamlárskvöld. Amma hafði bara eina ósk um breytingu, að ég myndi ekki skammta svona nánasarlega á diskana næst, skammtinn mætti alveg tvöfalda! 🙂 Jóhanna Inga var þessu örugglega sammála því í lok máltíðar gekk hún á milli skála og náði sér í þær litlu dreggjar sem eftir voru. Sem sagt, einstaklega einfaldur en fyrst og fremst feykigóður eftirréttur. Stórfjölskyldan mælir með þessu, þá sér í lagi amma! 🙂IMG_1246

Uppskrift f. 4 (tvöfaldið ef þið bjóðið ömmu í mat! 😉 )

 • 4 dl rjómi
 • 1/2 dl sykur
 • 100 g Pipp súkkulaði með karamellu
 • 2 blöð matarlím
 • Skreytt með þeyttum rjóma og berjum

IMG_1212

Matarlímsblöðin eru lögð í kalt vatn. Rjómi og sykur sett í pott og látið ná suðu. Þá er potturinn tekinn af hellunni, súkkulaðið brotið í litla bita og þeim bætt út í pottinn. Hrært þar til súkkulaðið hefur bráðnað. Því næst er vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum, þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau hafa bráðnað saman við blönduna. Hellt í skálar eða bolla og kælt í ísskáp í minnst 2 klukkutíma. Áður en rétturinn er borinn fram er hann skreyttur með þeyttum rjóma og berjum. Einnig er gott að bera fram þeyttan rjóma aukalega með réttinum.

IMG_1250 IMG_1254

 

11 hugrenningar um “Súkkulaðipannacotta með karamellu

 1. girnilegt en þarf fyllt súkkulaði, heldurðu?
  Mér finnst það oft svo væmið…

  • Alls ekki, þú getur notað hvaða súkklulaði sem er. Mér fannst gott að hafa aðeins þennan karamellukeim og rjóminn slær út væmna bragðið. En endilega prófaðu það súkkulaði sem þér finnst best! 🙂

   • Mmm ég ætla sko að prufa þennan eftirrétt í kvöld 😀

 2. Bakvísun: Pannacotta með súkkulaði-hnetumulningi | Eldhússögur

 3. Heldurðu að hægt sé að útbúa pannacottað með dagsfyrirvara ef maður breiðir vel yfir það?

 4. Bakvísun: Vinsælustu eftirréttirnir | Eldhússögur

 5. Sæl Dröfn
  Takk fyrir frábæra síðu, sem ég mikið notað síðasta árið 🙂
  Ég var að prófa að gera þennan eftirrétt þar sem ég ásamt systkinum mínum erum að fara að halda upp á áttræðisafmæli móður okkar eftir nokkra daga. Mér fannst áferðin á réttinum ekki vera alveg nógu góð, pínu kornóttur veit ekki hvort þetta var sykurinn eða hvort að súkkulaðið leysist ekki nógu vel upp. Kanntu einhver ráð eða á rétturinn að vera svona kornóttur?

  Bestu kveðjur
  Berghildur

  • Sæl Berghildur og takk fyrir góða kveðju! Ég veit ekki alveg hvers vegna búðingurinn var kornóttur hjá þér, áferðin verður alltaf alveg slétt hjá mér. Það sem mér dettur í hug að þurfi að passa er að rjóminn og sykurinn nái bara suðunni en fari ekkert að sjóða. Eins er mikilvægt að súkkulaðið fari ekki út í fyrr en potturinn er farinn af hellunni og fái að bráðna í blöndunni við vægan hita. Það getur líka verið gott að sigta vökvann í fínu sigti (jafnvel leggja einfalt bleiugas í botninn) og þá ættir þú að fá búðinginn með sléttri áferð. Vonandi gengur betur næst! 🙂 Gleðilega hátíð!

   • Sæl Dröfn
    Takk fyrir þetta. Prófaði að taka pottinn fyrr af hellunni og hellti síðan blöndunni í gegnum sigti. Var með afmælisveisluna í gær og rétturinn sló alveg í gegn en til öryggis bakaði ég líka súkkulaðikökuna með pipp karmellu kreminu (ég nota eina plötu af pipp með karmellu og eina plötu af pipp með banakremi í kremið) og að sjálfsögðu sló sú kaka líka í gegn.
    Bestu kveðjur
    Berghildur

   • En hvað þetta var gott að heyra Berghildur! 🙂 Ég held að sigtunin sé lykilatriðið í þessu. Kær kveðja, dröfn

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.