Panna cotta með Dumle og karamelliseruðum hnetum


Panna cotta með Dumle og karamelliseruðum hnetumVið stórfjölskyldan komum oft saman við hin ýmsu tækifæri og borðum þá saman eða höldum kaffiboð. Þegar allir mæta erum við 17 manns. Oftast nær sé ég um matinn en ef að réttunum er eitthvað skipt á milli okkar þá fellur eftirrétturinn yfirleitt í mínar hendur. Mér finnst voðalega gaman að útbúa eftirrétti þar sem hver fær sina skál eða skammt, það er svo fallegt og girnilegt að bera fram þannig eftirrétti. Panna cotta er afar vinsæll eftirréttur hjá fjölskyldunni og amma veit ekkert betra! 🙂

Ég er nýbúin að uppgötva að sumir hafa aldrei notað matarlím og halda að það sé eitthvað flókið. En það er svo fjarri því að vera rétt, það er ekkert mál að nota matarlím og þarf engar flóknar kúnstir. Ég hef notað matarlím frá því að ég byrjaði að bralla í eldhúsinu og það hefur aldrei misheppnast – ég sver það! Þið sem hafið ekki þorað að nota matarlím hingað til, endilega prófið að gera panna cotta, þið munuð verða hissa á því hversu einfalt og fljótlegt það er! 🙂 Ég er með margar uppskriftir að panna cotta hér á síðunni og hér að neðan bætist enn ein í safnið. Panna cotta tekur enga stund að útbúa og það er svo hentugt að geta útbúið eftirréttinn með góðum fyrirvara – tilvalið á páskaborðið! 🙂

IMG_8050

Dumle panna cotta f. 3

·      4 dl rjómi

·      ½ dl sykur

·      2 ½  matarlímsblöð

·      1 poki Dumle orginal (120 g)

·      1/2 dl hnetur (t.d. heslihnetur og/eða kasjúhnetur)

·      1 msk sykur (fyrir hneturnar)

·      1 tsk smjör

·      ber til skreytingar

Matarlímsblöðin eru lögð í skál með köldu vatni í minnst 5 mínútur. Rjómi og sykur sett í pott og látið ná suðu. Þá er potturinn tekinn af hellunni og Dumle molunum bætt út í pottinn. Hrært þar til þeir hafa hafa bráðnað. Því næst er vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum, þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau hafa leyst upp. Hellt í þrjár skálar eða bolla og kælt í ísskáp í minnst 2 klukkutíma. Hneturnar eru settar á pönnu ásamt sykri og smöri við meðalhita, hrært stöðugt í blöndunni. Þegar sykurinn hefur brúnast og hneturnar karamelliseras er þeim hellt á bökunarpappír og leyft að kólna. Þegar hneturnar eru orðnar kaldar eru þær saxaðar niður gróft og dreift yfir panna cotta. Skreytt með berjum að vild.

IMG_8052

Ris a la mande ostakaka með kirsuberjasósu


Ris a la mande ostakaka með hindberjasósu

Nú er jólaundirbúningurinn í hámarki og margt um að vera. Ofan á allt, sem uppteknar húsmæður eru að sýsla við á aðventunni, hélt ég loksins upp á afmælið hennar Jóhönnu fyrir stelpurnar í bekknum. Þetta voru orðin síðustu forvöð, barnið á afmæli snemma að hausti og nú eru að koma áramót! Ástæðan fyrir þessari frestun var að hún vildi halda upp á afmælið með bestu vinkonunni sem á afmæli í desember. Eins eru stelpurnar í árganginum (samkennsla) 28 stykki og varla framkvæmanlegt annað en að vera tvær saman ef halda á afmælið á einhverjum stað. Stelpurnar vildu hafa afmælið í Lazer tag og þá er innifalin pizza. En þær vildu að auki hafa yfirvaraskeggjaþema (!) og við mæðurnar vildum hafa þetta sem allra einfaldast. Við leituðum því á náðir Önnu konditori sem hristi fram úr erminni rosa flottri yfirvaraskeggja-tertu! 🙂 Afar þægileg leið til að halda upp á afmælið, stelpurnar alsælar og við mæðurnar ekki síður sælar að þurfa varla að gera nokkuð.

IMG_8297

Tuttugu (2×10 ára) yfirvaraskeggja kerti í stíl! 🙂

IMG_8289

Diskarnir og servíettur að sjálfsögðu í stíl líka.

En að öðru, hátíðareftirréttum! Ég sá mynd um daginn frá dönsku heimasíðu Philadelphia ostsins sem ég gat ekki hætt að hugsa um. Þetta var Ris a la mande ostakaka – svo ákaflega girnileg. Ég gat ekki ímyndað mér annað en þessi blanda væri dásamlega góð. Ég elska jú bakaðar ostakökur og finnst Ris a la mande afskaplega góður eftirréttur. Að auki var í uppskriftinni bæði marsípan og hvítt súkkulaði, þetta gat nú varla klikkað. Ég ákvað að prófa að búa til þessa ljúffengu ostaköku og maður minn hvað hún er góð! 🙂 Frábærlega skemmtilegt líka að hafa marsípan í botninum, það er eitthvað sem ég ætla að prófa á fleiri tegundum ostakaka.

IMG_8338IMG_8360

Ég gat auðvitað ekki annað en breytt aðeins uppskriftinni. Til dæmis bætti ég við kanil í kökuna. Ég veit að það er ekki hefðbundið fyrir Ris a la mande en mér finnst kanill bara svo góður og hann smellpassar við kökuna. En hún verður aðeins dekkri fyrir vikið. Eins setti ég matarlím í kirsuberjakremið en það var ekki í upprunalegu uppskriftinni. En þessi kaka er sérdeilis hátíðleg, bæði í útliti og á bragðið, og passar því einstaklega vel sem eftirréttur um jólin eða áramótin. Ekki spillir fyrir að hana er hægt að útbúa með 1-2 daga fyrirvara.

IMG_8356 IMG_8347

Uppskrift:

Botn:

  • ca. 20 Lu Digestive kex (300 g)
  • 100 g smjör
  • 140 g Odense marsípan

Ostakremið:

  • 300 g tilbúinn kaldur hrísgrjónagrautur (ég bjó hann til úr grautarhrísgrjónum)
  • 600 g Philadelphia Orginal
  • 100 g sykur
  • 3 egg
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1 tsk kanill (má sleppa)
  • 120 g möndlur án hýðis

Ofan á kökuna:

  • 1 ferna kirsuberjasósa (500 ml)
  • 2 msk portvín (má sleppa)
  • 1 msk flórsykur
  • 2 blöð matarlím
  • 100 g hvítt Toblerone (má sleppa)

Ofn stilltur á 160 gráður við undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið smátt og því blandað saman við smjörið. Sett í smurt smelluform (ca. 24 cm), gjarnan klætt bökunarpappír og blöndunni þrýst ofan í botninn. Botninn bakaður í 5 mínútur og látin kólna. Marsípanið skorið þunnt og því dreift yfir kaldan kexbotninn.

IMG_8340

Möndlur grófsaxaðar og þær þurrristaðar á pönnu þar til þær hafa fengið góðan lit og þær svo kældar. Rjómaostur og sykur sett í skál og þeytt þar til að blandan verður kremkennd. Eggjum bætt við, einu í senn, þeytt á milli en þó ekki mjög lengi. Hrísgrjónagrautnum smátt og smátt bætt út í og þeytt á meðan. Vanillusykri, kanil og möndlum er því næst bætt út og hrært saman við blönduna. Blöndunni hellt yfir kex/marsípan botninn og bakað við 160 gráður í 45 -50 mínútur. Gott er að slökkva þá á ofninum og leyfa kökunni að standa í ofninum í 45 mínútur í viðbót á meðan ofninn kólnar.

Matarlímsblöðin eru lögð í kalt vatn í um það bil 5 mínútur. Á meðan er kirsuberjasósan sett í pott ásamt flórsykri og portvíni og allt látið að malla í smá stund. Þegar matarlímsblöðin eru orðin mjúk er mesta vatnið kreyst úr þeim og þeim bætt út í sósuna. Potturinn er tekinn af hellinni og hrært vel þar til matarlímið hefur leyst upp. Kirsuberjasósunni er að síðustu hellt yfir kalda ostakökuna (sem er enn í forminu) og sett inn í ísskáp í minnst 6 tíma, helst yfir nóttu, áður en hún er borin fram. Áður en kakan er borin fram er gott að saxa niður hvítt Toblerone og setja ofan á kökuna.

IMG_8380

Stellið fallega er úr Green gate frá Cup Company.

IMG_8368

Bananapæ með Dumle go nuts karamellusósu


IMG_8127IMG_8118Eitt af því besta sem ég veit er þegar banönum, karamellu og rjóma er fléttað saman í gómsætan eftirrétt. Þegar ég tók að mér að gera Dumle uppskriftirnar um daginn þá langaði mig ægilega mikið að búa til eftirrétt með einmitt þessum hráefnum. IMG_8135 Dumle go nuts molarnir eru vandræðalega góðir, mjúk karamellan, hnetur og súkkulaði sem kemur allt saman í einum mola. Ég sá það fyrir mér að það væri auðvelt og gott að gera karamellusósu úr þessari dásemd og þannig varð þetta bananapæ til á örskömmum tíma. Þetta er eftirréttur sem hægt er að útbúa á bara nokkrum mínútum, það finnst mér alltaf vera mikill kostur, en fyrst og fremst er þetta svo óskaplega gott! 🙂 IMG_8133 Uppskrift f. 4

  • 150 g Digestive kex
  • 2 meðalstórir bananar, vel þroskaðir
  • 1 poki Dumle go nuts (175 g)
  • 2 ½  dl rjómi
  • 4 msk rjómi

IMG_8116 Kexið er mulið fremur smátt. Bananar skornir í sneiðar og 2 ½ dl af rjóma þeyttur. Dumle go nuts molarnir (3 molar skildir eftir til skrauts) eru settir í pott ásamt 4 msk af  rjóma og brætt við vægan hita. Því næst er skipt á milli 4 skála: kexmylsna í botninn, þá Dumle go nuts sósa, bananabitar, þeyttur rjómi, kexmylsna, Dumle go nuts sósa, þeyttur rjómi og loks restinni af bananabitunum stungið ofan í rjómann. Dumle go nuts molarnir þrír eru saxaðir smátt og dreift yfir til skrauts. IMG_8131 IMG_8121IMG_8122

Marengsbomba með rjóma, súkkulaði og berjum


Marengsbomba með rjóma, súkkulaði og berjum

Við höfum átt afar notalega fjögurra daga helgi þar sem að yngstu börnin voru í vetrarfríi ásamt okkur foreldrunum. Við erum þó enn ekki orðin frísk eftir flensuna þannig að við tókum því afar rólega í fríinu. Síðastliðinn fimmtudag vorum við með smá matarboð og buðum þá einmitt upp á þennan eftirrétt sem ég set hér inn á bloggið í þessari færslu. Á föstudaginn fórum við í keilu, því næst í bíó og enduðum kvöldið á sushiveislu. Í gær fórum við í afmæli um daginn en um kvöldið var okkur hjónunum boðið í matarboð þar sem við fengum meðal þennan annars dýrindis fiskrétt.

vG+DBhSNTnSEuK0REuAUKAÉg er að vinna í því að fá gestgjafana til þess að vera gestabloggarar með þessa frábæru uppskrift. Ekki væri verra að geta deilt með ykkur uppskriftinni að þessari dásemdarköku sem var í eftirrétt! Collages9 Í dag fór ég loksins í það verk sem hefur hangið yfir mér lengi, ég byrjaði að taka til í bílskúrnum! Það er með ólíkindum hversu hratt draslið safnast upp í bílskúrnum þrátt fyrir að ég sé ákaflega dugleg að henda öllu … stundum of dugleg! Ég er nefnilega með það markmið að hafa sem allra minnst af óþarfa dóti og hlutum í kringum mig og losa mig við slíkt fljótt og vel. Stundum hefur eiginmaðurinn klórað sér í kollinum yfir því hvar hinir og þessir hlutir eru … óaðvitandi að mestar líkur eru á því að viðkomandi hlutir hafa með minni hjálp eignast nýtt heimili í Sorpu! 🙂

Svo ég víki að matarboðinu síðasta fimmtudag. Í aðallrétt grilluðum við lambafille með tilheyrandi meðlæti en í eftirrétt var ég með þessa bombu sem er ákaflega einfalt að útbúa og ægilega góð!

Uppskrift:

  • 1 púðursykurs marengsbotn
  • 150 g suðusúkkulaði
  • 7 dl rjómi
  • 2 eggjarauður
  • 3 msk flórsykur
  • 3 stykki Villiköttur (súkkulaðistykki) eða annað gott súkkulaði (t.d. Nóa kropp)
  • ber og ávextir, t.d. jarðarber, bláber, vínber, rifsber, blæjuber, brómber og kíwí.

IMG_3964

Marengsbotninn er mulinn og dreift jafnt yfir botninn á eldföstu móti. Suðusúkkulaðið og 2 dl af rjóma er sett í pott og hitað við vægan hita þar til súkkulaðið er bráðnað. Súkkulaðiblöndunni er svo dreift yfir marengsinn.

IMG_3962 Því næst er restinni af rjómanum (5 dl) þeyttur. Eggjarauður og flórsykur er þeytt saman þar til blandan verður létt og ljós. Þessari blöndu er þá blandað saman við þeytta rjómann. Villiköttur, súkkulaðið, er saxað smátt og blandað út í rjómann.

IMG_3976 Rjómablöndunni er því næst dreift yfir marengsinn.

IMG_3978Skreytt með berjum og ávöxtum að vild og geymt í ísskáp í 2-3 tíma áður en rétturinn er borinn fram. IMG_3991IMG_4013

Súkkulaðipannacotta með karamellu


Súkkulaðipannacotta með karamellu

Síðastliðinn sunnudag komu foreldrar mínir í mat ásamt ömmu, afa og Ingu frænku. Ég gerði hægeldaða lambalærið. Klukkan ellefu um morguninn setti ég lærið inn í ofn ásamt kartöflum og grænmeti. Reyndar útbjó ég tvö læri, setti í sitt hvorn steikarpottinn og mamma stakk öðrum þeirra í ofninn hjá sér. Þetta er svo ótrúlega þægilegur matur til að bjóða gestum upp á. Lærið og meðlætið mallar bara í ofninum allan daginn og svo þarf ekkert að gera nema sósu og salat rétt áður en gestirnir koma, gæti hvorki verið einfaldra né betra.

En það sem ég ætlaði að færa hér inn í dag er uppskriftin að eftirréttinum sem ég bauð upp á þetta kvöld, Súkkulaðipannacotta með karamellu. Í honum eru einstaklega fá hráefni og hann tekur bara nokkrar mínútur að útbúa. Pannacotta er upprunninn frá Ítalíu og er nokkurskonar búðingur en pannacotta þýðir ,,soðinn rjómi” á ítölsku. Það er gott að bragðbæta pannacotta með til dæmis vanillu, súkkulaði, kaffi eða öðru. Þessi útgáfa er í miklu uppáhaldi hjá mér, Pannacotta með hvítu súkkulaði og ástaraldini.

Pannacotta með hvítu súkkulaði og ástaraldini

Hér gerði ég hindberjapannacotta LKL-style, þ.e. með sætuefni í stað sykurs auk hindberjasósu.

Hindberjapannacotta

Að þessu sinni notaði ég Pipp súkkulaði með karamellu til þess að bragðbæta pannacotta. Ummæli gestanna lýsa best hvernig til tókst. Amma sagði einfaldlega að þetta væri besti eftirréttur sem hún hefði bragðað! Þá óskaði hún eftir því að ég hefði þennan rétt á aðfangadagskvöld. Ég hélt að amma væri nú bara að grínast því síðan ég man eftir mér hefur alltaf verið heimatilbúinn vanilluís hjá okkur á aðfangadagskvöldi! Amma var hins vegar ekkert að grínast og sagðist vilja fá þennan eftirrétt aftur sem fyrst. Allir voru sammála um að eftirrétturinn væri frábærlega góður en nokkrir lögðu fram lágvær mótmæli um að það ætti að breyta þessari áratugalöngu jólahefð. Þá var því slegið á föstu að þessi desert yrði í boði á gamlárskvöld. Amma hafði bara eina ósk um breytingu, að ég myndi ekki skammta svona nánasarlega á diskana næst, skammtinn mætti alveg tvöfalda! 🙂 Jóhanna Inga var þessu örugglega sammála því í lok máltíðar gekk hún á milli skála og náði sér í þær litlu dreggjar sem eftir voru. Sem sagt, einstaklega einfaldur en fyrst og fremst feykigóður eftirréttur. Stórfjölskyldan mælir með þessu, þá sér í lagi amma! 🙂IMG_1246

Uppskrift f. 4 (tvöfaldið ef þið bjóðið ömmu í mat! 😉 )

  • 4 dl rjómi
  • 1/2 dl sykur
  • 100 g Pipp súkkulaði með karamellu
  • 2 blöð matarlím
  • Skreytt með þeyttum rjóma og berjum

IMG_1212

Matarlímsblöðin eru lögð í kalt vatn. Rjómi og sykur sett í pott og látið ná suðu. Þá er potturinn tekinn af hellunni, súkkulaðið brotið í litla bita og þeim bætt út í pottinn. Hrært þar til súkkulaðið hefur bráðnað. Því næst er vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum, þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau hafa bráðnað saman við blönduna. Hellt í skálar eða bolla og kælt í ísskáp í minnst 2 klukkutíma. Áður en rétturinn er borinn fram er hann skreyttur með þeyttum rjóma og berjum. Einnig er gott að bera fram þeyttan rjóma aukalega með réttinum.

IMG_1250 IMG_1254

 

Smjördeigsbögglar með eplum í karamellusósu


Smjördeigsbögglar með eplum í karamellusósu

Í dag fengum við góða sænska gesti til okkar í mat. Ég veit ekki hvernig það er með ykkur en ég tek oft rispur þar sem ég býð upp á sama matréttinn í matarboðum í allmörg skipti – þar til að ég fæ nóg og sný mér að öðrum rétti! 🙂 Nú í sumar hafa þessir uppáhaldssréttir verið tveir fiskréttir héðan frá Eldhússögum. Annarsvegar er það ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu og hinsvegar sojamarineraður lax með mangó-avókadó salsa og smörsteiktu spínati. Þegar við fáum til okkar Svía í mat þá bjóðum við hér um bil alltaf upp á fisk. Almennt eru Svíar hrifnir af fiski en í Stokkhólmi er lítið um góðan fisk og Stokkhólmsbúar kunna því vel að meta góða fiskinn okkar. Að þessu sinni bauð ég upp á þorskinn en grillaði hann í stað þess að baka í ofninum.

IMG_6582

Ég bauð upp á eftirrétt sem ég gerði oft fyrir nokkrum árum en var búin að steingleyma þar til hann rifjaðist upp fyrir mér nýlega. Ég var að fletta uppskriftabók um daginn og sá þá mynd af svipuðum eftirrétti. Í framhaldinu rótaði ég í uppskriftablöðunum mínum og fann þá uppskriftina sem ég notaði alltaf – mikið var ég glöð því rétturinn er einn af mínum uppáhalds! Ég prófaði nýjung í dag. Ég útbjó smjördeigsböggul fyrir hvern og einn gest. Í upphaflegu uppskriftinni er smjördeiginu pússlað saman með því að leggja brúnirnar örlítið yfir hvor aðra og deigið flatt dálítið út, eldfast mót klætt að innan með smjördeiginu og fyllingunni hellt út í. En mér fannst mikið betra að útbúa svona böggla eins og ég gerði í dag, ég mæli með því. Ég notaði smjördeig sem ég keypti í Nettó (hafið þið kannski séð þessa tegund í annarri verslun?). Mér finnst þetta smjördeig eiginlega betra en Findus smjördeigið og það er talsvert ódýrara. Í pakkanum eru sex plötur (fimm hjá Findus) og þær eru bæði þynnri og stærri, það er mjög hentugt í þessari uppskrift. Ef þið notið plötur frá Findus í þessa uppskrift þá mæli ég með því að fletja þær örlítið út (muna að nota hveiti, annars klessast þær).

Uppskrift: TC bröd smjördeig

  • 1 pakki frosið smjördeig (ég notaði frá TC brød sem fæst í Nettó, það eru 6 plötur eða 450 g)
  • ca 700 g græn epli (ég notaði 4 stór epli)
  • 70 g smjör
  • 70 g hrásykur (má líka nota venjulegan sykur)
  • 70 g rjómakaramellur (ég notaði Werther’s Original)
  • 100 g pekan- eða valhnetur, saxaðar gróft
  • 1 lítið egg, slegið (má sleppa)

Smjördeigsplötunar látnar þiðna (þær þiðna á mjög skömmum tíma) og þeim raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír. Ofninn hitaður i 210 gráður við undir- og yfirhita. Eplin eru afhýdd, kjarnhreinsuð og skorin í bita. Smjör, hrásykur og karamellur eru settar í pott og brætt við meðalhita, hrært í á meðan.

IMG_6579

Þegar karamellurnar eru bráðnaðar og sósan er orðin slétt er eplum og hnetum bætt út í. Á þessum tímapunkti hleypur sósan oft í kekki þar sem að eplin kæla sósuna. Látið ekki hugfallast heldur skerpið aðeins á hitanum og látið sósuna hitna aftur. Hrærið í blöndunni og smátt og smátt verður karamellusósan aftur mjúk. Þegar eplin og hneturnar eru öll þakin sósu er góður skammtur settur í miðjuna á hverri smjördeigsplötu.

IMG_6580

Ég reyndi að hafa ekki mikinn vökva með, til þess að deigið héldist stökkt, en gott er að geyma vökvann sem verður afgangs til að nota í lokin. Því næst eru hornin á hverri plötu tekin upp og lögð að miðjunni. Það er allt í lagi þó þau leggist ekki alveg að fyllingunni, það er bara fallegra að hafa bögglana aðeins opna. Smjördegið er þá smurt með eggi. Bakað í ofni við 210 gráður í um það 20-25 mínútur eða þar til smjördeigið er orðið fallega brúnt. Borið fram heitt með vanilluís eða rjóma. Karamelluvökvann, sem varð afgangs, er frábærlega gott að hita upp aftur og hella yfir eplin í hverjum böggli. Njótið!

IMG_6585

Blaut súkkulaðikaka með glóaldini


súkkulaðikaka með glóaldini

Í æsku þegar ég átti að velja átti appelsínu eða epli í „Fram, fram fylking“ þá valdi ég alltaf epli. Alla gagnfræðiskólagöngu mína, sem var fyrir tíð skólamötuneyta, þá borðaði ég langloku og drakk Svala með eplabragði í hádeginu. Enn þann dag í dag held ég upp allt með eplabragði, hvort sem það eru eplakökur, eplahlaup, epladrykkir, eplasorbet eða annað slíkt og forðast flest með appelsínubragði. Þess vegna hafði ég ekkert of miklar væntingar til þessarar appelsínusúkkulaðiköku. Hins vegar þá hljómar blaut súkkulaðikaka með eplabragði ekkert sérstaklega vel þannig að ég gaf appelsínukökunni séns! Ég sá ekki eftir því! Þessi kaka er algjört sælgæti, hún minnir á gömlu og góðu kattartungurnar. Algjört hnossgæti með þeyttum rjóma! Ég var ekki ein um að finnast þessi kaka góð. Ég smakkaði eina sneið og bauð svo Vilhjálmi og þremur vinum hans upp á köku. Ég hafði varla snúið mér við þegar þeir höfðu klárað alla kökuna og voru afar sælir og sáttir. 🙂

IMG_9596

IMG_9615

Ef ég vík að nafninu á kökunni þá var að finna lítið kver í bókasafni langömmu minnar sem ber heitið „Orð úr viðskiptamáli eftir orðanefnd verkfræðingafélagsins“ og er frá árinu 1927. Þar eru íslenskar kjarnyrtar þýðingar á nýmóðins orðum. Það er gaman að skoða þessa bók, margar þýðingar hafa náð að festast í sessi í málinu okkar, aðrar ekki. Í bókinni fengu ávextir einstaklega fallegar þýðingar sem því miður hafa ekki náð að skjóta rótum í tungumálinu. Dæmi um þetta eru:

  • appelsína: glóaldin
  • mandarína: gullaldin
  • ananas: granaldin
  • banani: bjúgaldin
  • melóna: tröllaepli
  • tómatur: rauðaldin

„Súkkulaðikaka með glóaldini“, er þetta ekki mikið fallegra en „súkkulaðikaka með appelsínu“? 🙂 Önnur orð sem ég er hrifin af úr bókinni eru: marmelaði: glómauk og servíetta: smádúkur eða mundlína. Mér finnst að við ættum að taka okkur saman og innleiða þessi fallegu orð í íslenskuna! 😉 En burtséð frá því þá verða allir súkkulaðiunnendur að prófa þessa dýrðlegu köku!

IMG_9548

Uppskrift

  • 150 g smjör, brætt
  • 0.5 dl olía (bragðlaus)
  • 2 egg
  • 3 dl sykur
  • safi úr 1 appelsínu (ca. 1 dl)
  • fínrifið hýði af 1 appelsínu
  • 3 dl hveiti
  • 4 1/2 msk kakó
  • 2 tsk vanillusykur

IMG_9551

Ofn hitaður i 200 gráður við undir- og yfirhita. Sykur, egg, olía og brædda smjörið hrært vel saman. Því næst er appelsínusafa og appelsínuhýði bætt út í. Gætið þess að rífa hýðið grunnt, ekki taka með hvíta lagið af appelsínunni. Þá er hveiti, kakói og vanillusykri sigtað út í og blandað varlega saman við deigið. Smelluform smurt að innan (ca. 24 cm) og deiginu hellt í formið. Kakan er bökuð við 200 gráður við undir- og yfirhita í um það bil 18-22 mínútur. Athugið að kakan á að vera blaut í miðjunni. Kakan er borin fram með þeyttum rjóma.

IMG_9608

IMG_9604