Smjördeigskörfur með ís-rjóma, banönum, Daim og Nutella.


IMG_4738

Ég elska góða eftirrétti sem eru fljótgerðir. Ég er með nokkrar uppskriftir að eftirréttum sem ég nota oftar en aðrar þegar ég hef lítinn tíma til að undirbúa matarboð. Núna bætist þessi uppskrift klárlega í þann hóp, hrikalega góður eftirréttur sem tekur skotstund að gera. Ég er vandræðalega hrifin af smjördegi og kaupi það yfirleitt tilbúið frosið. Það tekur bara örfáar mínútur að þiðna eftir að plöturnar eru teknar í sundur og þá er hægt að búa til allskonar dásemdir úr því.

IMG_4695

Á myndunum sést nýjasta viðbótin í eldhúsið mitt. Þetta eru dásemdar vörur frá Willamia fyrir eldhúsið, Knit Factory. Það er hægt að fá dúka, tuskur, eldhúshandklæði, svuntur og margt fleira ofboðslega flott í þessari línu.

IMG_4750

Hér að ofan sést t.d. dásamlegi löberinn sem prýðir eldhúsborðið mitt. 🙂

En aftur að uppskriftinni. Hráefnin eru fá en smellpassa svo vel saman, bananar, rjómi, Daim og Nutella getur aldrei klikkað! 🙂 Ég notaði fremur stór muffinsform en það er auðvelt að aðlaga stærðina bara eftir þeim formum sem maður á heima.

IMG_4699

Uppskrift (6 stórar smjördeigskörfur)

  • 3 plötur smjördeig
  • örlítið hveiti
  • 2.5 dl rjómi
  • 1-2 dl vanilluís, látinn bráðna dálítið (má sleppa)
  • 2-3 bananar, skornir í sneiðar
  • 4 lítil Daim, söxuð smátt
  • ca. 1 dl Nutella

IMG_4703

Ofn hitaður í 200 gráður. Smjördeigsplötunum þremur er skipt í tvennt og þær allar flattar vel út með kökukefli á hveitistráðu borði. Stór muffinsform klædd að innan með útflöttu smjördegi og bakað í um það bil 12 mínútur við 200 gráður eða þar til smjördegið er orðið gullinbrúnt. Á meðan er rjóminn þeyttur. Það er rosalega gott að bæta við bráðnuðum vanilluís út í rjómann þegar hann er næstum fullþeyttur en þvi má sleppa. Því næst er banönum blandað saman við þeytta rjómann og helmingnum af saxaða Daim súkkulaðinu. Þegar smjördegið er tilbúið er það látið kólna (kólnar mjög fljótt), hver karfa síðan fyllt með banana/Daim-rjóma og restinni af Daim súkkulaðinu er stráð yfir. Loks er Nutella hitað í örbylgjuofni í ca. 30 sekúndur eða þar til auðveldlega er hægt að dreifa því yfir smjördeigskörfurnar.

IMG_4716

IMG_4742IMG_4723IMG_4708IMG_4769

Ostakökudesert með Dumle Snacks


IMG_0618

Þar sem að við höfum verið mikið heima við í sumar höfum við haldið óvenju mörg matarboð upp á síðkastið. Um daginn hringdi Elfar í mig úr vinnunni, rétt fyrir kvöldmatinn, og spurði hvort að hann mætti taka með sér heim í mat fyrrum vinnufélaga sinn frá Stokkhólmi sem væri staddur hér á landi með fjölskyldu sinni. Ég er alveg hætt að æsa mig of mikið yfir matarboðum og bað hann endilega að gera það. Með aldrinum þá fer mann nefnilega að finnast einna mikilvægast njóta samverunnar við skemmtilegt fólk og ekki gera hlutina of flókna. Ég get þó ekki sagt að mér finnist maturinn farinn að skipta mig minna máli, hann skiptir mig alltaf miklu máli! 😉 En stundum er hið einfalda best. Ég skaust því út í fiskbúð og bjó til góðan fiskrétt. Mig langaði svo mikið að gera ostaköku í eftirrétt en hana þarf að gera með fyrirvara. Ég ákvað því að nota hráefni sem notuð eru í ostaköku og útbúa eitthvað fljótlegt úr þeim. Úr varð þessi stórgóði eftirréttur sem sló í gegn. Þennan desert tekur enga stund að gera en er afar ljúffengur, ég mæli með honum! 🙂

Uppskrift f. 6:

  • 2 dósir Philadelphia rjómaostur (400 g)
  • 1 dós grísk jógúrt (350 ml)
  • 1 dl rjómi
  • 1 vanillustöng, klofin og fræin skafin úr
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1/2 dl flórsykur
  • 150 g Digestive kex
  • 300 g jarðarber (og/eða önnur ber)
  • 175 g Dumle snacks

Rjómaosti, grískri jógúrt og rjóma er þeytt saman ásamt fræjunum úr vanillustönginni, vanillusykri, flórsykri þar til blandan verður kremkennd. Digestive kexið er mulið smátt. Dumle snacks er saxað smátt, jarðarberin skorin í bita. Því næst er öllum hráefnunum blandað í 6 skálar. Best er að byrja á því að dreifa hluta af mulda kexinu í botinn, þá rjómaostablöndunni því næst Dumle snacks og loks jarðarberjunum. Þetta er endurtekið einu sinni eða tvisvar eða þar til hráefnið klárast.

IMG_0623

Bananaostakaka


IMG_0118IMG_0124Innblásturinn að þessari dásemdar ostaköku er þríþættur. Í fyrsta lagi átti ég banana sem orðnir voru brúnir og allir vita hvað það þýðir; bakstur á bananabakkelsi! Í öðru lagi sá ég fyrir nokkru að Dulce de leche sósurnar eru komnar aftur í verslanir, mér til mikillar gleði. Þær eru gerðar úr sætmjólk og það kom upp eitthvað vandamál á tímabili tengt því að ekki væri hægt að flytja inn mjólkurvöru. Nú hins vegar er hægt að nálgast þessa dásemdar karamellusósu aftur en það er líka hægt að búa hana til úr sætmjólk, hér skrifa ég um það (ég mæli með þessari hindberjaböku!). Í þriðja lagi þá reikar hugur minn oft að ostakökunum í Cheesecake factory (ég veit, ég veit… en ég bara eyði miklum tíma í að hugsa um góðan mat! 😉 ) og þar er bananaostakakan ofarlega á vinsældarlista mínum. Ég skoðaði ótal uppskriftir að bananaostakökum og raðaði saman í uppskrift öllu því sem mér leist best á. Ég get ekki annað sagt en að þessi ostakaka hafi slegið í gegn og fékk þau ummæli að hún væri „hættulega góð“. Yngsta dóttir mín var hálfhneyksluð á móður sinni þegar ég sagði að mér þætti þessi kaka hreinlega betri en sú sem við fengum á Cheesecake. Þó svo að henni hafi fundist aðeins vanta upp á hógværðina hjá móður sinni þá var hún samt sammála, þessi kaka er sjúklega góð! 🙂

IMG_0136

Botn:

  • 300 g kex með vanillukremi (ca. 25 kexkökur)
  • 120 g smjör

Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið. Sett í bökunarform með lausum botni og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu. Sett inn í ísskáp á meðan fyllingin er búin til.

IMG_0107

Ostakaka:

  • 400 g rjómaostur, við stofuhita
  • 2/3 dl sykur
  • 1/2 dl maizenamjöl eða önnur sterkja
  • 3 egg
  • 1 vanillustöng, klofin í tvennt og kornin innan úr báðum helmingunum skafin úr með beittum hníf
  • 1 dl rjómi
  • 3 meðalstórir mjög vel þroskaðir bananar, stappaðir

Borin fram með:

  • karamellusósu (t.d. Dulce de leche)
  • þeyttum rjóma

IMG_0116

Ofn stilltur á 160 gráður við undir/yfirhita. Rjómaostur þeyttur þar til hann verður mjúkur, smátt og smátt er sykri og sterkju bætt út í. Þá er eggjum bætt út í, einu í senn. Því næst er banönum og vanillukornum bætt út í. Að lokum er rjómanum smátt og smátt bætt við og þeytt á meðan. Blöndunni hellt yfir kexbotninn Bakað við 160 gráður í 45-55 mínútur, eða þar til að kakan er bökuð að öllu leiti nema bara dálítið blaut í miðjunni. Þá er slökkt á ofninum og henni leyft að standa í ofninum í allavega hálftíma í viðbót. Notið álpappír yfir kökuna ef hún fer að dökkna mikið þegar líður á bökunartímann. Athugið að ostakakan verður ekki beint stíf þegar hún er tilbúin heldur getur hún ,,dansað” svolítið í miðjunni þó hún sé tilbúin. Síðan sígur kakan dálítið og jafnar sig. Það koma oft sprungur í yfirborðið en það er algengt og skiptir litlu fyrir bragðið. Ostakan er látin kólna í forminu sett ísskáp yfir nóttu eða helst í 6-8 tíma áður en hún er borin fram. Borin fram með karamellusósu og þeyttum rjóma.

IMG_0119IMG_0133

Bananapæ með karamellusósu og Daim súkkulaði


IMG_7333Um síðustu helgi héldum við upp á 10 ára afmæli yngsta barnsins á heimilinu. Hún er svo mikill heimshornaflakkari að þemað sem hún valdi sér í ár var París! Draumur hennar um að sjá New York rættist í sumar og nú stendur Parísarferð efst á óskalistanum. Við keyptum skemmtilegar Parísar servíettur, glös, blöðrur og dúk á Amazon í Bandaríkjunum sem setti tóninn fyrir afmælisþemað í ár. IMG_7432IMG_7436Jóhanna skoðaði Parísartertur á netinu og var með mjög ákveðnar hugmyndir um hvernig tertan ætti að vera. Eins og mér finnst gaman að baka þá finnst mér alltaf jafn erfitt að skreyta afmælisterturnar. Það fer nefnilega ekkert sérlega vel saman að vera með metnað í afmælistertum en hafa svo ekkert sérstaklega mikla skreytingahæfileika! 😉 Ég dreg alltaf þetta verkefni fram á síðustu stundu og er því yfirleitt nóttina fyrir afmælið í eldhúsinu að reyna að skreyta og skera út afmæliskökur sem krakkarnir hafa óskað eftir. Í ár ákvað ég að gera mér lífið létt og bað Önnu frænku mína, sem er konditor, um að gera afmælistertuna og það var frábær ákvörðun.

Eiffel turninn er úr súkkulaði en blúndan og slaufan úr sykurmassa.

Eiffel turninn er úr súkkulaði en blúndan og slaufan úr sykurmassa.

Kakan varð jú fyrir það fyrsta dásamlega falleg og góð, var nákvæmlega eins og Jóhanna mín óskaði sér og ég sjálf gat dundað mér við hefðbundinn kökubakstur og brauðréttagerð án þess að eiga kökuskreytingar hangandi yfir mér!

IMG_7356

Afmælisbarnið útbjó sjálf þessa fínu Parísar-nammipoka handa hverjum og einum gesti.

Afmælisbarnið útbjó sjálf þessa fínu Parísar-nammipoka handa hverjum og einum gesti.

IMG_7349 Ég var hins vegar mjög ánægð með ættingja mína sem héldu í fyrstu að ég hefði gert þessa glæsilega köku, það er mikið hrós fyrir manneskju með þumalputta á öllum þegar kemur að skreytingum! 🙂 Anna er menntaður konditor og er með Facebook síðu hér.

IMG_7336

Ein kakan í afmælinu sem fékk mikið lof var þetta banana-karamellupæ. Sjálfri finnst mér allt sem hefur samsetninguna bananar, karamellur og rjómi ákaflega gott. Ég setti inn uppskrift af svipaðri böku hér en það þarf að hafa meira fyrir henni enda er karamellusósan heimagerð. Þetta pæ er hins vegar ótrúlega fljótlegt og einfalt en sjúklega gott og hentar mjög vel sem eftirréttur. Hugmyndin kom út frá þessari karamellusósu sem ég keypti í Þinni verslun og var búin að eiga inni í skáp þónokkuð lengi. Ég fór á síðuna hjá þeim og sá að þessar vörur eru seldar á eftirfarandi stöðum: í Melabúðinni, Hagkaup Garðabæ, Hagkaup Kringlunni, Ostabúðinni Skólavörðustíg, Vínberinu Laugavegi, Garðheimum, Kjöthöllinni Háaleitisbraut, Þinni Verslun í Breiðholti, Mjólkurstöðinni Neskaupsstað, Blómasetrinu Borganesi og Býflugan og blómið á Akureyri.

IMG_7321

Uppskrift:

  • 300 g Digestive kex
  • 150 g smjör, brætt
  • 3 stórir þroskaðir bananar eða 4 litlir
  • 1 krukka karamellusósa frá Stonewall Kitchen (Stonewall Kitchen Sea Salt Caramel Sauce 347g)
  • 500 ml rjómi
  • 2 tvöföld Daim súkkulaði (56 g stykkið), saxað

Ofn stilltur á 175 gráður við undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið smátt og því blandað saman við smjörið. Blöndunni þrýst ofan í smurt eldfast bökuform. Botninn bakaður í 10 mínútur og leyft að kólna. Rjóminn er þeyttur. Bananar eru skornir í þunnar sneiðar og raðað yfir kaldan botninn. Því næst er helmingnum af karamellusósunni dreift yfir bananana og hluta af rjómanum dreift yfir. Þá er restinni af banönunum dreift yfir rjómann, þá afgangnum af karamellusósunni og að lokum er öllum rjómanum smurt yfir eða sprautað með rjómasprautu. Söxuðu Daim súkkulaði er að síðustu dreift yfir rjómann.

IMG_7330IMG_7335

Gratineraðir ávextir og ber með hvítu súkkulaði


Gratineraðir ávextir og ber með hvítu súkkulaði

Nú er ég komin heim úr frábærri Bostonferð. Ekki nóg með að borgin sjálf sé dásamlega falleg og bauð okkur upp á frábært veður, mat, drykk og verslanir heldur var félagsskapurinn ekki af verri endanum. Við vorum saman átta æskuvinkonur, nokkrar okkar hafa meira að segja verið saman í bekk alla tíð síðan í 1. bekk í grunnskóla. Þessi hópur var ávísun upp á viðburðaríka daga og fjörug kvöld. Við gerðum vel við okkur í mat og drykk auk þess sem við versluðum svolítið. Einhverjum fannst það kannski meira en „svolítið“ því það var gengið upp að okkur í verslunarmiðstöðinni og okkur þakkað fyrir að bjarga ekónómíu Bandaríkjanna – grínlaust! Mér tókst að versla hér um bil allar jólagjafirnar og einnig keypti ég allskonar spennandi eldhúsvörur sem ég hlakka til að taka í notkun. Jamm, ég lagði mitt að mörkum fyrir Obama! 😉

Ég er nú enn að jafna mig eftir ferðina tímalega séð. Ég fór í vinnuna beint eftir svefnlaust næturflug og hef verið að berjast við að snúa sólarhringnum við. Helgin var að auki þéttskipuð hjá okkur og lítill tími gefist til að slaka á eða jafnvel taka upp úr töskunum. Ég hafði dregið það lengi að halda upp á afmæli Jóhönnu Ingu fyrir bekkinn hennar. Hún vildi bjóða öllum 23 stelpunum í bekknum og ég vissi ekki alveg hvernig ég ætti að leysa það. Að lokum ákvað ég að leigja sal hjá fimleikafélagi Bjarkar sem var frábær hugmynd. Þar gátu stelpurnar leikið sér í skemmtilegum sal með til dæmis svampi í gryfju sem var afar vinsælt. Svo buðum við upp á pizzur og köku. Jóhanna Inga vildi köku með „Aulanum ég“ þema og ég bjó því til eina slíka. Eins og ég hef skrifað áður þá hef ég mjög gaman af því að baka en er enginn snillingur í skreytingum, eiginlega er ég með þumla á öllum þegar kemur að föndri! Að auki hafði ég varla nokkurn tíma til að útbúa kökuna og varð því að finna fljótlega lausn. Mér fannst þessi útfærsla af sundlaugarköku bæði sniðug og einföld. Ekkert meistaraverk en Jóhanna var afskaplega ánægð með kökuna sína og þá var takmarkinu náð.

IMG_0790

Auk þess sem við héldum upp á afmælið núna um helgina fórum við í veislu, á tónleika, í leikhús og út að borða, það hefur því verið nóg að gera.

Mig langaði í dag að setja inn uppskrift að óskaplega einföldum eftirrétti en frábærlega góðum. Þessi réttur er dálítið í takti við annríki helgarinnar sem var að líða því þetta er réttur sem ég gríp oft til ef ég þarf að útbúa eftirrétt með engum fyrirvara. Það er best að bera fram vanilluís með þessum rétti en toppurinn finnst mér að senda eiginmanninn út í ísbúð á meðan ég útbý réttinn og bera svo fram með honum ljúffengan rjómaís beint úr vél í íssbúðinni!

Uppskrift f. ca. 5-6

  • 500 g jarðaber
  • 2 stórir  bananar
  • 4 kiwi
  • 2 perur (vel mjúkar)
  • 100 – 150 g hvítt súkkulaði
  • grófur eða fínn kókos (má sleppa)

Ofn hitaður í 200 gráður. Grænu laufin skorin af jarðaberjunum og þau skorin í tvennt eða fernt, fer eftir stærð. Bananar skornir í sneiðar. Kíwi afhýdd og skorin í bita. Perurnar eru afhýddar, kjarnhreinsaðar og skornar í bita. Ávöxtum og berjum blandað saman í passlega stórt eldfast mót (líka hægt að setja hæfilegan skammt í lítil form og bera fram fyrir hvern og einn). Hvíta súkkulaðið er saxað niður (eða notaðir hvítir súkkulaðidropar) og dreift yfir ávextina og berin. Ef maður vill er að auki hægt að strá smá kókos yfir í lokin. Hitað í ofni í um það bil 10 – 15 mínútur við 200 gráður eða þar til súkklaðið er bráðnað og hefur fengið smá lit. Borið fram strax heitt með góðum vanilluís.

Gratineraðir ávextir og ber með hvítu súkkulaði

Smjördeigsbögglar með eplum í karamellusósu


Smjördeigsbögglar með eplum í karamellusósu

Í dag fengum við góða sænska gesti til okkar í mat. Ég veit ekki hvernig það er með ykkur en ég tek oft rispur þar sem ég býð upp á sama matréttinn í matarboðum í allmörg skipti – þar til að ég fæ nóg og sný mér að öðrum rétti! 🙂 Nú í sumar hafa þessir uppáhaldssréttir verið tveir fiskréttir héðan frá Eldhússögum. Annarsvegar er það ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu og hinsvegar sojamarineraður lax með mangó-avókadó salsa og smörsteiktu spínati. Þegar við fáum til okkar Svía í mat þá bjóðum við hér um bil alltaf upp á fisk. Almennt eru Svíar hrifnir af fiski en í Stokkhólmi er lítið um góðan fisk og Stokkhólmsbúar kunna því vel að meta góða fiskinn okkar. Að þessu sinni bauð ég upp á þorskinn en grillaði hann í stað þess að baka í ofninum.

IMG_6582

Ég bauð upp á eftirrétt sem ég gerði oft fyrir nokkrum árum en var búin að steingleyma þar til hann rifjaðist upp fyrir mér nýlega. Ég var að fletta uppskriftabók um daginn og sá þá mynd af svipuðum eftirrétti. Í framhaldinu rótaði ég í uppskriftablöðunum mínum og fann þá uppskriftina sem ég notaði alltaf – mikið var ég glöð því rétturinn er einn af mínum uppáhalds! Ég prófaði nýjung í dag. Ég útbjó smjördeigsböggul fyrir hvern og einn gest. Í upphaflegu uppskriftinni er smjördeiginu pússlað saman með því að leggja brúnirnar örlítið yfir hvor aðra og deigið flatt dálítið út, eldfast mót klætt að innan með smjördeiginu og fyllingunni hellt út í. En mér fannst mikið betra að útbúa svona böggla eins og ég gerði í dag, ég mæli með því. Ég notaði smjördeig sem ég keypti í Nettó (hafið þið kannski séð þessa tegund í annarri verslun?). Mér finnst þetta smjördeig eiginlega betra en Findus smjördeigið og það er talsvert ódýrara. Í pakkanum eru sex plötur (fimm hjá Findus) og þær eru bæði þynnri og stærri, það er mjög hentugt í þessari uppskrift. Ef þið notið plötur frá Findus í þessa uppskrift þá mæli ég með því að fletja þær örlítið út (muna að nota hveiti, annars klessast þær).

Uppskrift: TC bröd smjördeig

  • 1 pakki frosið smjördeig (ég notaði frá TC brød sem fæst í Nettó, það eru 6 plötur eða 450 g)
  • ca 700 g græn epli (ég notaði 4 stór epli)
  • 70 g smjör
  • 70 g hrásykur (má líka nota venjulegan sykur)
  • 70 g rjómakaramellur (ég notaði Werther’s Original)
  • 100 g pekan- eða valhnetur, saxaðar gróft
  • 1 lítið egg, slegið (má sleppa)

Smjördeigsplötunar látnar þiðna (þær þiðna á mjög skömmum tíma) og þeim raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír. Ofninn hitaður i 210 gráður við undir- og yfirhita. Eplin eru afhýdd, kjarnhreinsuð og skorin í bita. Smjör, hrásykur og karamellur eru settar í pott og brætt við meðalhita, hrært í á meðan.

IMG_6579

Þegar karamellurnar eru bráðnaðar og sósan er orðin slétt er eplum og hnetum bætt út í. Á þessum tímapunkti hleypur sósan oft í kekki þar sem að eplin kæla sósuna. Látið ekki hugfallast heldur skerpið aðeins á hitanum og látið sósuna hitna aftur. Hrærið í blöndunni og smátt og smátt verður karamellusósan aftur mjúk. Þegar eplin og hneturnar eru öll þakin sósu er góður skammtur settur í miðjuna á hverri smjördeigsplötu.

IMG_6580

Ég reyndi að hafa ekki mikinn vökva með, til þess að deigið héldist stökkt, en gott er að geyma vökvann sem verður afgangs til að nota í lokin. Því næst eru hornin á hverri plötu tekin upp og lögð að miðjunni. Það er allt í lagi þó þau leggist ekki alveg að fyllingunni, það er bara fallegra að hafa bögglana aðeins opna. Smjördegið er þá smurt með eggi. Bakað í ofni við 210 gráður í um það 20-25 mínútur eða þar til smjördeigið er orðið fallega brúnt. Borið fram heitt með vanilluís eða rjóma. Karamelluvökvann, sem varð afgangs, er frábærlega gott að hita upp aftur og hella yfir eplin í hverjum böggli. Njótið!

IMG_6585

Pecanböku-ostakaka


IMG_7826Vinur okkar hjóna kom í mat til okkar í vikunni. Hann er mikill matgæðingur og góður kokkur, ég gat því ekki boðið honum upp á neitt slor! 😉 Ég hafði í aðalrétt ofnbakaða þorskinn með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu. Þetta er orðinn svona „my go to“ réttur þegar mig langar að bjóða upp á gómsætan aðalrétt í matarboðum. Ég er búin að skoða svo margar góðar uppskriftir af eftirréttum undanfarið að ég var í dálitlum vandræðum með hvað ég ætti að velja. Og þó – ég var langspenntust fyrir þessari köku! Þeir sem hafa smakkað pecanpæ og bakaða ostaköku þurfa ekki að spyrja hvers vegna! Það er greinilega eitthvað þema hjá mér að blanda saman ostakökum við aðrar kökur samanber brownie-ostakökuna sem ég er með uppskrift af hér. En að þessu sinni er  pekanböku blandað saman við ostaköku sem er þvílíka snilldin! Þetta er algjört sælgæti sem er skemmtilegt að baka og enn skemmtilegra að borða!

IMG_7771

Uppskrift:

Botn:

  • 300 g Digestive kex
  • 150 g smjör
Pecanböku-fylling:
    • 200 g sykur
    • 200 g síróp
    • 80 g smjör, brætt
    • 2 egg
    • 150 g pecan-hnetur, saxaðar gróft
    • 1 tsk vanillusykur
Ostakaka:
  •  600 g rjómaostur
  • 130 g púðursykur
  • 2 msk hveiti
  • 4 egg
  • 150 ml rjómi
  • 1 tsk vanillusykur

Ofninn stilltur á 180 gráður undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið. Sett í bökunarform með lausum botni og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu. Botnin bakaður í 10 mínútur og látin kólna á meðan pecanböku-fyllingin er búin til.

Öllum hráefnunum fyrir pecanböku-fyllinguna blandað saman í pott og látið ná suðu. Látið blönduna malla á meðalhita þar til hún hefur þykknað. Hrært í stöðugt á meðan, þetta tekur 8-10 mínútur. Blöndunni er hellt yfir kexbotninn. Þá er ostaköku blandan útbúin.

IMG_7781

Rjómaostur hrærður í hrærivél eða með rafmagnsþeytara á meðalhraða þar til hann er orðin mjúkur. Þá er púðursykri og hveiti bætt út í þar til blandan verður kremkennd. Eggjum bætt við einu og einu í senn og þeytt vel, en þó ekki of lengi. Að síðustu er rjómanum og vanillusykrunum bætt út í og hrært á meðan. Þá er ostakökublöndunni hellt yfir pecanbökuna. Bakað í miðjum ofni við 180 gráður í klukkustund. Þá er slökkt á ofninum og kökunni leyft að bíða í ofninum í klukkustund í viðbót. Þá er kakan kæld í minnst 4 tíma áður en hún er borin fram.

IMG_7815

Key lime baka


IMG_7288Í dag er stóra stelpan okkar 19 ára! Tíminn líður svo ótrúlega hratt, það hljómar eins og klisja en er þó svo satt. Maður er svo önnum kafin við uppeldið þegar börnin eru lítil að tíminn líður án þess að eftir því sé tekið. Skyndilega einn daginn eru litlu börnin horfin og í staðinn komnar fullorðnar manneskjur! Ótrúlegt og dásamlegt en kannski örlítið tregafullt líka! 🙂

Að vanda fær afmælisbarnið á heimilinu að velja uppáhaldsmatinn sinn, að auki er boðið upp á köku, pakka og afmælissöng. Það kom mér ekki á óvart að Ósk valdi sushi í afmælismatinn.

IMG_7224Það kom mér heldur ekki á óvart að hana langaði hvorki í köku né eftirrétt, hún er ekkert hrifin af sætmeti. Algjör synd því mér finnst skemmtilegast að búa til eftirrétti og baka kökur! Ég lét það þó ekki á mig fá og notaði tækifærið að búa til böku sem ég er búin að horfa til lengi. Þó svo að afmælisbarnið vildi ekki böku þá komu amman og afinn í heimsókn og nutu góðs af henni með okkur fjölskyldunni. Og það má með sanni segja að þessi baka hafi slegið í gegn! Að vísu fannst yngstu krökkunum hún ekkert sérstök en okkur hinum fannst hún svo afskaplega ljúffeng, hún fór til dæmis strax á topp fimm kökulistann hjá Alexander. Þið verðið að prófa þessa dásemd!

IMG_7258

Þessi baka kemur líka úr uppskriftabók Hummingbird bakaríisins eins og ostakökubrownie kakan. „Key lime pie“ er bandarískur eftirréttur gerður úr limesafa, eggjarauðum og niðursoðinni sætmjólk. Ofan á bökuna er settur þeyttur rjómi en upprunalega var sett þeytt eggjahvíta ofan á bökuna, sem sagt marengs. Nafnið er dregið af Keys í Florída eftir límónunum (lime) sem vaxa þar. Þær eru talsvert minni (þarf að nota ca 12 á móti 4 venjulegum) og beiskari en þessar hefðbundnu límónur sem við þekkjum. Key límónurnar hafa einstaka sinnum verið til í Hagkaup. Í þessari uppskrift er gert ráð fyrir hefðbundnum límónum. Ég er ekkert mikið fyrir rétti með miklum sítrusi en þessa böku á ég klárlega eftir að búa til aftur, hún er dásamlega fersk og góð. Kjörin eftirréttur til dæmis eftir þunga máltíð. Næst er ég spennt fyrir því að prófa hana með marengs þó svo að þeytti rjóminn passi líka afar vel við bökuna.

sætmjólkVarðandi sætu niðursoðnu mjólkina þá fæst hún í Kosti, Melabúðinni, búðum sem selja asískar vörur og stundum í Hagkaup. Hafið þið kannski séð hana í fleiri búðum? Þegar ég fór í Kost síðast fann ég ekki þessa sætu mjólk og þurfti að spyrja um hana. Þá var hún falin einhverstaðar á bakvið. Stúlkan sagði að þeir mættu í raun ekki lengur selja hana. Mér skilst að þetta snúist um hvernig þessi mjólk er tolluð. Ég keypti allavega nokkuð margar dósir, það er svo mikið af skemmtilegum réttum sem hægt er að nota þessa sætu niðursoðnu mjólk í. Ég tala nú ekki um að búa til gómsæta karamellusósu úr henni!

Nýjasta græjan í eldhúsinu kom sér vel við eftirréttagerðina í dag. Inga frænka gaf okkur þetta Microplane úr Kokku í jólagjöf, alveg magnað áhald við til dæmis rif á sítrónum og límónum. Mæli sannarlega með því!

IMG_7201

Sushi kvöldsins kom frá Tokyo sushi, við erum mjög hrifin af því, frábært sushi á mjög góðu verði.

IMG_7223

En þá að uppskriftinni af þessari ljúffengu límónuböku!IMG_7257Uppskrift Key Lime baka:

Botn:
400 g Digestive kex (1 pakki)
200 g brætt smjör

Fylling:
8 eggjarauður
1 dós sæt niðursoðin mjólk (condensed milk)
safi af 4 límónum (lime)
4 dl rjómi, þeyttur

Ofninn stilltur á 175 gráður, undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við brædda smjörið. Blandan sett í bökunarform með lausum botni eða bökuform og henni þrýst i í botninn og upp í hliðarnar á forminu. Bakað í ofni í ca. 20 mínútur. Þá er bökubotninn kældur. Þar sem mér liggur alltaf á setti ég hann út í smástund þar til hann var orðin nægilega kaldur til að fara í ísskáp. Botninn þarf að vera alveg kaldur þegar fyllingin er sett á hann.
Ofninn lækkaður í 150 gráður. Athugið, þegar fyllingin er blönduð saman á að nota venjulegan þeytara ekki rafmagnsþeytara eða hrærivél. Eggjarauðum, niðursoðnu sætu mjólkinni og safanum frá límónunum (lime) blandað saman í skál og þeytt með handafli í smá stund þar til blandan þykkist örlítið. Þá er fyllingunni hellt ofan á kaldan botninn og bakað í ofni í 20-35 mínútur (ég bakaði bökuna í 25 mínútur). Kælt í ísskáp í minnst klukkutíma, helst lengur. Áður en bakan er borin á borð er þeytti rjóminn settur yfir bökuna (ég notaði rjómasprautu), gjarnan skreytt með dálítlum fínrifnum límonuberki. Njótið! 🙂

IMG_7281

Bismarkbaka með súkkulaðisósu


IMG_6924Mikið var gaman að sjá viðbrögðin við færslunni hér að neðan með uppáhaldseftirréttunum mínum en þetta innlegg var heimsótt 7 þúsund sinnum á bara einum degi. Flestir leggja mikið upp úr matnum á gamlárskvöld og greinilegt að margir eru að leita að góðum uppskriftum fyrir kvöldið.

Við stórfjölskyldan verðum enn og aftur saman á gamlárskvöld, við fáum greinilega ekki nóg af hvert öðru yfir hátíðarnar! Að þessu sinni verðum við enn fleiri en á aðfangadagskvöld og verðum heima hjá foreldrum mínum. Í forrétt verður grafin nautalund með piparrótarsósu (hér er uppskrift af sósunni), í aðalrétt verður kalkúnn með dásamlega góðu meðlæti en ég mun svo sjá um eftirréttinn. Ég ætla ekki að hafa neinn af eftirréttunum 15, þó þeir séu allir afskaplega góðir. Ég ætla að hafa eftirrétt sem ég hef ekki enn sett inn uppskrift af hér á bloggið. Þetta er Bismarkbaka með súkkulaðisósu sem ég gerði í fyrsta sinn fyrir jólin í fyrra, sá eftirréttur komst strax í uppáhald hjá fjölskyldunni enda afskaplega jólalegur og góður. Ég sendi uppskriftina meira að segja í uppskriftasamkeppni Nóa og Siríus í fyrra, fullviss um þessi dásemd myndi myndi rústa keppninni ….  sem hún gerði svo reyndar ekki! 🙂 Ég efast því eiginlega um að Nói og félagar hafi prófað uppskriftina því hún er svo hrikalega góð! 😉 Þessi eftirréttur er afskaplega einfaldur og þægilegur að gera, það er hægt að útbúa hann með góðum fyrirvara og setja í frysti. Súkkulaðisósuna er líka hægt að gera áður og hita hana svo bara aftur upp rétt áður en hún er borin fram.

fluff1Eina sem gæti verið snúið við þessa uppskrift er að nálgast marshmallow-fluff-234x300Marshmallow fluff sem er sykurpúðakrem. Það er oftast til í Hagkaup en þó ekki alltaf. Það hefur alltaf verið til á Amerískum dögum en stundum líka þess á milli. Ég keypti það í Hagkaup núna rétt fyrir jól og reikna því með að það sé til enn. En svo ætti nú líka að vera hægt að nálgast það í Kosti. Tegundin sem ég keypti í Hagkaup núna lítur út eins og þessi til vinstri, „Jet-Puffed marshmallow creme“ en dósirnar geta líka litið út eins og þessi til hægri, „Marshmallow Fluff“

IMG_6891

Botn

  • 20 kexkökur með súkkulaði (ég nota súkkulaði Maryland kex, fyrir Oreoaðdáendur er t.d. hægt að nota Oreokex)
  • 2 msk. kakó
  • 25 g brætt smjör

Kexið er maukað fínt i matvinnsluvél ásamt kakói og smjöri, blandað vel saman. Fóðrið botninn á 24-26 cm smellumóti með smjörpappír. Þrýsitð kexmylsnunni vel í niður á botninn í forminu og setjið í frysti á meðan kremið er útbúið.

Krem

  • 5 dl rjómi
  • 1 dós Marshmellow krem (Marshmallow fluff eða Marshmallow creme)
  • nokkrir dropar piparmintu Extract
  • nokkrir dropar rauður matarlitur
  • 1 dl  Bismark brjóstsykur frá Nóa og Siríus (+ til skreytingar)

Þeytið rjómann og blandið Marshmellowkreminu varlega saman við með sleikju. Passið samt að leyfa kreminu að halda „fluffinu“, þ.e. Marshmellowkremið á að vera í „klumpum“ í rjómanum. Bætið við Piparmintu extract eftir smekk (gætið þess samt að nota ekki of mikið af því, bara örfáa dropa). Setjið 1/3 af kreminu í aðra skál og leggið til hliðar.

Brjótið Bismark brjóstykurinn í morteli eða í matvinnsluvél. Blandið saman við stærri hluta kremsins og setjið ofan á botninn.

Takið afganginn af kreminu og setjið nokkra dropa af rauðum matarlit saman við það. Setjið nú rauða kremið ofan á það hvíta.

Setjið í frysti í minnst fimm tíma og takið út ca. einum tíma áður en hún er borin fram. Skreytið með Bismark brjóstsykri.

Súkkulaðisósa

  • 125 g suðusúkkulaði
  • 75 g smjör
  • ½ dl. sykur
  • ½ dl síróp
  • ½ dl. vatn

Hitið súkkulaði, smjör, sykur, vatn og síróp saman í potti við hægan hita. Hrærið í öðru hverju þar til blandan er orðin slétt og samfelld. Berið fram heita með Bismarkbökunni.

IMG_6894

Eftirréttir fyrir gamlárskvöld


Núna eru áramótin að bresta á og ég sé á heimsóknunum á síðuna mína að margir eru að leita að góðum eftirréttum fyrir gamlárskvöld. Á mínum 15-topplista eru eftirfarandi eftirrréttir. Ég gat ekki gert upp á milli þeirra þannig að þeir eru ekki í neinni sérstakri röð:

Browniekaka með hindberjarjóma

IMG_0594

Mascarponeþeytingur með berjum og Toffypops

IMG_9068

Súkkulaðikaka með Pipp karamellukremi

IMG_8701

Súkkulaðitvenna með hindberjum

IMG_8453

Pavlova í fínu formi

IMG_8322

Hindberjabaka með Dulce de leche karamellusósu

cropped-img_71572.jpg

Ostakaka með mangó og ástaraldin

IMG_7757

Ís með heimatilbúnu frönsku núggati og súkkulaðisoðnum perum

IMG_6042

Pannacotta með hvítu súkkulaði og ástaraldin

IMG_5967

Frönsk súkkulaðikaka

IMG_5368

Súkkulaðifrauð

IMG_3961

Pavlova

IMG_3270

Banana-karamellubaka

IMG_3193

Dásamleg kirsuberjaterta

IMG_7176

Bakaðar perur með mjúkum marengs og súkkulaði

IMG_4782