Pecanböku-ostakaka


IMG_7826Vinur okkar hjóna kom í mat til okkar í vikunni. Hann er mikill matgæðingur og góður kokkur, ég gat því ekki boðið honum upp á neitt slor! 😉 Ég hafði í aðalrétt ofnbakaða þorskinn með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu. Þetta er orðinn svona „my go to“ réttur þegar mig langar að bjóða upp á gómsætan aðalrétt í matarboðum. Ég er búin að skoða svo margar góðar uppskriftir af eftirréttum undanfarið að ég var í dálitlum vandræðum með hvað ég ætti að velja. Og þó – ég var langspenntust fyrir þessari köku! Þeir sem hafa smakkað pecanpæ og bakaða ostaköku þurfa ekki að spyrja hvers vegna! Það er greinilega eitthvað þema hjá mér að blanda saman ostakökum við aðrar kökur samanber brownie-ostakökuna sem ég er með uppskrift af hér. En að þessu sinni er  pekanböku blandað saman við ostaköku sem er þvílíka snilldin! Þetta er algjört sælgæti sem er skemmtilegt að baka og enn skemmtilegra að borða!

IMG_7771

Uppskrift:

Botn:

  • 300 g Digestive kex
  • 150 g smjör
Pecanböku-fylling:
    • 200 g sykur
    • 200 g síróp
    • 80 g smjör, brætt
    • 2 egg
    • 150 g pecan-hnetur, saxaðar gróft
    • 1 tsk vanillusykur
Ostakaka:
  •  600 g rjómaostur
  • 130 g púðursykur
  • 2 msk hveiti
  • 4 egg
  • 150 ml rjómi
  • 1 tsk vanillusykur

Ofninn stilltur á 180 gráður undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið. Sett í bökunarform með lausum botni og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu. Botnin bakaður í 10 mínútur og látin kólna á meðan pecanböku-fyllingin er búin til.

Öllum hráefnunum fyrir pecanböku-fyllinguna blandað saman í pott og látið ná suðu. Látið blönduna malla á meðalhita þar til hún hefur þykknað. Hrært í stöðugt á meðan, þetta tekur 8-10 mínútur. Blöndunni er hellt yfir kexbotninn. Þá er ostaköku blandan útbúin.

IMG_7781

Rjómaostur hrærður í hrærivél eða með rafmagnsþeytara á meðalhraða þar til hann er orðin mjúkur. Þá er púðursykri og hveiti bætt út í þar til blandan verður kremkennd. Eggjum bætt við einu og einu í senn og þeytt vel, en þó ekki of lengi. Að síðustu er rjómanum og vanillusykrunum bætt út í og hrært á meðan. Þá er ostakökublöndunni hellt yfir pecanbökuna. Bakað í miðjum ofni við 180 gráður í klukkustund. Þá er slökkt á ofninum og kökunni leyft að bíða í ofninum í klukkustund í viðbót. Þá er kakan kæld í minnst 4 tíma áður en hún er borin fram.

IMG_7815