
Það er afar algengt og vinsælt að bjóða upp á Rice Krispies turna í til dæmis fermingarveislum og skírnarveislum. Oft og tíðum eru Rice Krispies turnarnir hugsaðir sérstaklega fyrir yngstu gestina en ég hef tekið eftir því að hér um bil allir fullorðnir fá sér líka bita enda er svona Rice krispies biti mikið sælgæti. Hráefnið í Rice Krispies turn er ódýrt og það er auðvelt og fremur fljótgert að búa hann til. Það eina sem gæti staðið manni fyrir þrifum er að það þarf að nota sérstök form fyrir turninn, kransakökuform. Ég var svo heppin að græða gamalt og gott danskt kransakökuform frá mömmu vinkonu minnar sem var að losa sig við dót í flutningum. En ég veit að formin eru til sölu í mörgum búsáhaldaverslunum og kosta í kringum 5-6000 krónur þegar þetta er skrifað, prófið bara að gúggla kransakökuform til að finna út hvar þau eru seld.

Ég hef prófað nokkrar uppskriftir að Rice Krispies og hef fundið það út að mér finnst langbest að nota Bónus hjúpsúkkulaði á móti Pralin karamellufylltu súkkulaði. Nú nota ég almennt súkkulaðihjúp ekki mikið, kýs yfirleitt að nota vandað suðusúkkulaði, en einhverra hluta vegna passar þetta hjúpasúkkulaði svo vel í Rice Krispies uppskriftina, það gefur voðalega góðan karamellukeim. Ég nota yfirleitt dökka hjúpsúkkulaðið en hef stundum notað eina ljósa plötu á móti tveimur dökkum.

Það eru nokkrir hlutir sem er gott að hafa í huga við turnagerðina. Kransakökuformin eru með þremur hringum hvert en það er of þétt að nota þau öll samtímis. Það er því best að nota ysta og innsta hringinn fyrst og gera svo miðjuhringina eftir á. Annað er að þegar losað er um hringina þá hjálpar til að klæða fyrst formin plastfilmu. Ég hef stundum sleppt plastfilmunni og losa bara varlega um hringina með hníf og það hefur alltaf gengið vel.

En ég mæli samt með plastfilmunni til að komast örugglega hjá því að hringirnir brotni þegar þeir eru losaðir. Það þarf líka að huga að stærðunum á hringjunum, þ.e. að vera viss um að maður sé að raða þeim í réttri stærðarröð í turninn. Þegar turninn er settur saman þá finnst mér ekki gott að hafa alltof mikið brætt súkkulaði á milli hringjanna og ég reyni því að nota lítið magn af brædda súkkulaðinu. Það hefur alltaf gengið vel hjá mér því hringirnir eru frekar klístraðir af sírópinu og þegar turninn fer svo í frysti þá finnst mér hann alltaf festast mjög vel saman. En þetta er smekksatriði og ég sé oft að margir nota mikið af bræddu súkkulaði á milli hringjanna, það þéttir jú líka turninn upp á útlitið að gera. En ég vil nota minna af bræddu súkkulaði til þess að Rice Krispies hringirnir njóti sín betur upp á bragðið að gera. Þarna þarf maður kannski að vega og meta útlitið/stöðugleikann á móti bragði.

Ég nota þessa uppskrift fyrir 18 hringja turn og hún rétt sleppur fyrir þá stærð. Það er hins vegar misjafnt hversu þykka og þétta hringi fólk gerir. Ég mæli því með að þið að þið annað hvort endið á að móta stærstu hringina (og gerið þá færri hringi en 18 ef uppskriftin dugir ekki) eða aukið aðeins við uppskriftina ef þið viljið vera örugg á magninu.
Ein hugmynd sem ég vil koma á framfæri er að ég gerði eitt sinn svona turn fyrir fermingarveislu og það var bara gert ráð fyrir fyrir einum turni og því bara til skreytingar fyrir einn turn. Á síðustu stundu fóru veisluhaldara að hafa áhyggjur yfir því að einn turn myndi ekki duga. Ég gerði því eina og hálfa uppskrift og gerði einn og hálfan turn. Ég mótaði 8 eða 9 hringja turn úr minnstu hringjunum og hafði hann inni í 18 hringja turninum þannig að þegar hann var hálfnaður í veislunni þá kom annar minni turn í ljós inni í hinum. Það getur verið sniðug lausn ef maður er ekki öruggur með að einn turn dugi en finnst tveir of margir.

Uppskrift:
- 300 g Bónus hjúpsúkkulaði (dökkt)
- 200 g Pralín karamellufyllt súkkulaði
- 454 g síróp í grænu dósinni (lítil)
- 160 g smjör
- 300 g Rice Krispies
- 100-200 g dökkt hjúpsúkkulaði eða suðusúkkulaði til að festa hringina saman
- skreytingar á turninn
- (gott er að nota silikonhanska og Pam sprey þegar hringirnir eru mótaðir)
Kransakökuformin eru klædd með plastfilmu. Hjúpsúkkulaði og Pralín súkkulaði er brytjað ofan í pott ásamt sírópi og smjöri. Allt brætt við meðalhita og hrært í á meðan (blandan má alls ekki brenna). Þegar blandan er orðin þykk og karamellukennd er henni blandað mjög vel saman við Rice Krispies (gætið þess að það verði engar ”skellur” eftir, þ.e. súkkulaðilaust Rice Krispies inn í miðri blöndunni).
+


Á meðan blandan er enn heit eru hringirnir mótaðir í formin, einungis ysti og innri hringurinn í fyrstu umferðinni. Gott er að móta hringina með fingrunum og það er gott að vera með silikon hanska og Pam sprey til þess að forðast að blandan festist ekki við fingurnar. Mér finnst gott að reyna að hafa hringina dálítið slétta að ofan þannig að þeir leggist síðar vel saman. Það er jafnvel hægt að leggja eitthvað þungt ofan á hringinga, t.d. bók (með smjöpappír á milli) til að ná jöfnu og flötu formi. Hringirnir eru svo settir í frysti í 10-15 mínútur. Þá eru hringirnir losaðir varlega, settir á bökunarpappír og geymdir áfram í frysti á meðan miðjuhringirnir eru mótaðir og frystir í ca. 15 mínútur. Því næst er súkkulaðið, sem notað er til að festa hringina saman, brætt í örbylgjuofni. Hringirnir eru teknir úr frysti, lagðir á bökunarpappír og raðað í stærðarröð. Stærsti hringurinn er lagður á disk, það er gott að bera dálítið brætt súkkulaði undir hringinn til að hann festist á disknum. Þá er dálítið brætt súkkulaði borið á hringinn, næsti lagður á og svo koll af kolli. Það getur þurft að bræða súkkulaðið aftur ef það fer að storkna. Hér skreytti ég turninn með fiðrildum (úr Allt í köku) og ég festi þau með bræddu súkkulaði.



Líkar við:
Líkar við Hleð...