Marengsterta með créme brulée skyri og piparlakkrískurli


IMG_6408

Um daginn fór ég í matarboð og fékk svo dæmalaust góða marengstertu í eftirrétt. Ég kom ekki fyrir mig bragðinu, það var eitthvað svo óvenjulegt og óhemjugott bragð af rjómanum. Það kom í ljós að það var créme brulée skyr sem er einmitt að gera góða hluti í allskonar eftirréttauppskriftum þessa dagana (þetta er samt ekki styrkt færsla sko! 🙂 ). Samsetning tertunnar var líka harla óvenjuleg því það voru í henni bananar og lakkrís, svakalega góð blanda fannst mér. Ég tók því til við að endurtaka leikinn hér heima og betrumbætti með því að nota ekki lakkrís heldur piparlakkrískurl. Alveg sjúklega góð terta finnst mér, vona að ykkur finnist það líka! 🙂

IMG_6400

Botnar:

  • 5 eggjahvítur
  • 3 1/2 dl púðursykur
  • 1 dl sykur

Á milli:

  • 2 dl rjómi
  • 250 g créme brulée skyr
  • 2 stórir eða 3 litlir bananar, vel þroskaðir

Ofan á:

  • ca. 2 dl rjómi
  • ca 100 g piparlakkrískurl
  • rifið suðusúkkulaði

Ofn hitaður í 130 gráður við blástur. Eggjahvítur eru þeyttar og sykri og púðursykri smá saman bætt út í þar til marengsinn er orðinn stífur. Diskur eða kökuform sem er ca. 20-22 cm í þvermál er lagt á bökunarpappír og strikaður hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar. Marengsinum er skipt í tvennt og hann settur á sitt hvorn hringinn. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða. Þá er marengsinn bakaður í 130°C (blástur) í heitum ofni í ca. 55-60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum.

IMG_6404

Þegar marengsinn er orðinn kaldur er rjóminn þeyttur og skyrinu bætt varlega út í með sleikju. Blandan er borin á annan botninn. Bananar eru skornir i sneiðar og þeim raðað yfir rjómann. Hinn marengsbotninn er lagður ofan á. Þá er þeyttur um það bil 2 dl af rjóma og honum dreift yfir marengsinn. Að lokum er piparlakkrískurli og vel af rifnu suðusúkkulaði dreift yfir rjómann.

IMG_6405

 

Rice Krispies turn


img_4688

Það er afar algengt og vinsælt að bjóða upp á Rice Krispies turna í til dæmis fermingarveislum og skírnarveislum. Oft og tíðum eru Rice Krispies turnarnir hugsaðir sérstaklega fyrir yngstu gestina en ég hef tekið eftir því að hér um bil allir fullorðnir fá sér líka bita enda er svona Rice krispies biti mikið sælgæti. Hráefnið í Rice Krispies turn er ódýrt og það er auðvelt og fremur fljótgert að búa hann til. Það eina sem gæti staðið manni fyrir þrifum er að það þarf að nota sérstök form fyrir turninn, kransakökuform. Ég var svo heppin að græða gamalt og gott danskt kransakökuform frá mömmu vinkonu minnar sem var að losa sig við dót í flutningum. En ég veit að formin eru til sölu í mörgum búsáhaldaverslunum og kosta í kringum 5-6000 krónur þegar þetta er skrifað, prófið bara að gúggla kransakökuform til að finna út hvar þau eru seld.

img_4638

Ég hef prófað nokkrar uppskriftir að Rice Krispies og hef fundið það út að mér finnst langbest að nota Bónus hjúpsúkkulaði á móti Pralin karamellufylltu súkkulaði. Nú nota ég almennt súkkulaðihjúp ekki mikið, kýs yfirleitt að nota vandað suðusúkkulaði, en einhverra hluta vegna passar þetta hjúpasúkkulaði svo vel í Rice Krispies uppskriftina, það gefur voðalega góðan karamellukeim. Ég nota yfirleitt dökka hjúpsúkkulaðið en hef stundum notað eina ljósa plötu á móti tveimur dökkum.

img_4618

Það eru nokkrir hlutir sem er gott að hafa í huga við turnagerðina. Kransakökuformin eru með þremur hringum hvert en það er of þétt að nota þau öll samtímis. Það er því best að nota ysta og innsta hringinn fyrst og gera svo miðjuhringina eftir á. Annað er að þegar losað er um hringina þá hjálpar til að klæða fyrst formin plastfilmu. Ég hef stundum sleppt plastfilmunni og losa bara varlega um hringina með hníf og það hefur alltaf gengið vel.

img_4640

En ég mæli samt með plastfilmunni til að komast örugglega hjá því að hringirnir brotni þegar þeir eru losaðir. Það þarf líka að huga að stærðunum á hringjunum, þ.e. að vera viss um að maður sé að raða þeim í réttri stærðarröð í turninn. Þegar turninn er settur saman þá finnst mér ekki gott að hafa alltof mikið brætt súkkulaði á milli hringjanna og ég reyni því að nota lítið magn af brædda súkkulaðinu. Það hefur alltaf gengið vel hjá mér því hringirnir eru frekar klístraðir af sírópinu og þegar turninn fer svo í frysti þá finnst mér hann alltaf festast mjög vel saman. En þetta er smekksatriði og ég sé oft að margir nota mikið af bræddu súkkulaði á milli hringjanna, það þéttir jú líka turninn upp á útlitið að gera. En ég vil nota minna af bræddu súkkulaði til þess að Rice Krispies hringirnir njóti sín betur upp á bragðið að gera. Þarna þarf maður kannski að vega og meta útlitið/stöðugleikann á móti bragði.

img_4652

Ég nota þessa uppskrift fyrir 18 hringja turn og hún rétt sleppur fyrir þá stærð. Það er hins vegar misjafnt hversu þykka og þétta hringi fólk gerir. Ég mæli því með að þið að þið annað hvort endið á að móta stærstu hringina (og gerið þá færri hringi en 18 ef uppskriftin dugir ekki) eða aukið aðeins við uppskriftina ef þið viljið vera örugg á magninu.

Ein hugmynd sem ég vil koma á framfæri er að ég gerði eitt sinn svona turn fyrir fermingarveislu og það var bara gert ráð fyrir fyrir einum turni og því bara til skreytingar fyrir einn turn. Á síðustu stundu fóru veisluhaldara að hafa áhyggjur yfir því að einn turn myndi ekki duga. Ég gerði því eina og hálfa uppskrift og gerði einn og hálfan turn. Ég mótaði 8 eða 9 hringja turn úr minnstu hringjunum og hafði hann inni í 18 hringja turninum þannig að þegar hann var hálfnaður í veislunni þá kom annar minni turn í ljós inni í hinum. Það getur verið sniðug lausn ef maður er ekki öruggur með að einn turn dugi en finnst tveir of margir.

img_4663

Uppskrift:

  • 300 g Bónus hjúpsúkkulaði (dökkt)
  • 200 g Pralín karamellufyllt súkkulaði
  • 454 g síróp í grænu dósinni (lítil)
  • 160 g smjör
  • 300 g Rice Krispies
  • 100-200 g dökkt hjúpsúkkulaði eða suðusúkkulaði til að festa hringina saman
  • skreytingar á turninn
  • (gott er að nota silikonhanska og Pam sprey þegar hringirnir eru mótaðir)

Kransakökuformin eru klædd með plastfilmu. Hjúpsúkkulaði og Pralín súkkulaði er brytjað ofan í pott ásamt sírópi og smjöri. Allt brætt við meðalhita og hrært í á meðan (blandan má alls ekki brenna). Þegar blandan er orðin þykk og karamellukennd er henni blandað mjög vel saman við Rice Krispies (gætið þess að það verði engar ”skellur” eftir, þ.e. súkkulaðilaust Rice Krispies inn í miðri blöndunni).

img_4620+img_4625

img_4629

img_4634

Á meðan blandan er enn heit eru hringirnir mótaðir í formin, einungis ysti og innri hringurinn í fyrstu umferðinni. Gott er að móta hringina með fingrunum og það er gott að vera með silikon hanska og Pam sprey til þess að forðast að blandan festist ekki við fingurnar. Mér finnst gott að reyna að hafa hringina dálítið slétta að ofan þannig að þeir leggist síðar vel saman. Það er jafnvel hægt að leggja eitthvað þungt ofan á hringinga, t.d. bók (með smjöpappír á milli) til að ná jöfnu og flötu formi. Hringirnir eru svo settir í frysti í 10-15 mínútur. Þá eru hringirnir losaðir varlega, settir á bökunarpappír og geymdir áfram í frysti á meðan miðjuhringirnir eru mótaðir og frystir í ca. 15 mínútur. Því næst er súkkulaðið, sem notað er til að festa hringina saman, brætt í örbylgjuofni. Hringirnir eru teknir úr frysti, lagðir á bökunarpappír og raðað í stærðarröð. Stærsti hringurinn er lagður á disk, það er gott að bera dálítið brætt súkkulaði undir hringinn til að hann festist á disknum. Þá er dálítið brætt súkkulaði borið á hringinn, næsti lagður á og svo koll af kolli. Það getur þurft að bræða súkkulaðið aftur ef það fer að storkna. Hér skreytti ég turninn með fiðrildum (úr Allt í köku) og ég festi þau með bræddu súkkulaði.

img_4643

img_4667

img_4679

 

Ostakaka með hvítu súkkulaði og mangó


img_4601

Ég held að ég geti með fullvissu sagt að ostakaka er uppáhalds eftirrétturinn minn. Ég er ekki ein um það. Hér á heimilinu hefur nefnilega ríkt ostakökuæði, allir í fjölskyldunni elska ostakökur! Við höfum aldeilis gert vel við okkur undanfarið því ég hef bakað þrjár ostakökur á jafnmörgum vikum. Meira að segja elsta dóttirinn, sem er að jafnaði ekki hrifin af kökum, finnst ostakökur æðislegar. Fyrstu tvær ostakökurnar sem ég bakaði voru okkar uppáhalds, bökuð ostakaka með hindberjum, algjört sælgæti. Núna síðast ákvað ég hins vegar að gera smá tilraun, nota eftirlætishráefnin mín,  mangó og hvítt súkkulaði, en hafa ostakökuna ekki bakaða heldur bara kælda með matarlími. Þessi ostakaka sló ekki síður í gegn hjá fjölskyldunni og það hefur verið tilhlökkunarefni okkar Elfars að gæða okkur á einni sneið á kvöldin þessa vikuna. Þessi ostakaka verður nefnilega betri með hverjum deginum og ég held svei mér þá að bitinn í kvöld, á fjórða degi, hafi verið bestur! Ég mæli sannarlega með þessari köku! 🙂

img_4616

Uppskrift:

Botn:

  • 250 gr Digestive kex
  • 100 gr smjör
  • 2 tsk kanill

Fylling:

  • 2 dl rjómi
  • 600 gr Philadelphia rjómaostur
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 2 dl flórsykur
  • 2 tsk vanillusykur
  • 100 g hvítt súkkulaði
  • 5 blöð matarlím matarlím
  • 1 límóna (lime) – safi og börkur
  • 1 msk vatn

Ofan á:

  • 2 blöð matarlím
  • 250 g mangó (frosið eða ferskt)
  • 1 límóna (lime)
  • 1 msk vatn

Aðferð:

Botn: Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið og kanil. Sett í bökunarform með lausum botni og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu. Botnin er settur í kæli á meðan fyllingin er búin til.

Fylling: Rjómi þeyttur og lagður til hliðar. 5 matarlímsplötur eru settar í kalt vatn í minnst 5 mínútur, þær eiga að verða mjúkar og þykkar. Rjómaosturinn, sýrði rjóminn, flórsykur og vanillusykur er hrært saman í hrærivél. Hvíta súkkulaðið er saxað niður og brætt varlega í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði, því er svo bætt út í rjómaosblönduna. Safinn úr límónu ásamt 1 msk af vatni er sett í pott og hitað. Matarlímsblöðin eru tekin úr vökvanum, vatnið kreist úr þeim og þau sett út í heitan vökvann. Hrært þar til matarlímið hefur bráðnað saman við vökvann. Þá er matarlímsblöndunni hellt út í rjómaostablönduna. Því næst er þeytta rjómanum bætt út í og hrært í stutta stund. Börkurinn af límónunni er rifinn fínt (þess gætt að fara ekki ofan í hvíta lagið undir því græna) og honum bætt út að síðustu. Blöndunni er hellt ofan á botninn og kakan kæld í minnst 4 klukkustundir áður en mangóið er sett ofan á.

Ofan á: þegar kakan hefur stífnað nægilega eru 2 matarlímsblöð sett í kalt vatn í minnst 5 mínútur. Mangóið er afþýtt, ef það er frosið, og svo maukað í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Safinn úr límónunni ásamt vatninu er sett i pott og hitað. Matarlímsblöðin eru tekin úr vökvanum, vatnið kreist úr þeim og þau sett út í heitan vökvann. Hrært þar til matarlímið hefur bráðnað saman við vökvann. Þá er matarlímsblöndunni hellt út í maukaða mangóið og því svo dreift yfir ostakökuna, hún er síðan kæld. Ostakakan er best daginn eftir að hún hefur verið gerð og batnar bara með hverjum deginum.

img_4607img_4611

 

Marengsterta með Freyju karamellurjóma og Hrískúlum


 

img_4119img_4113

Ég hef talað um það áður hér á blogginu, að þegar ég sé nýtt sælgæti á markaðnum, þá er ég alltaf spenntust fyrir því að finna því einhvern skemmtilegan farveg í uppskriftum. Það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég sá nýja Hrísið með Freyjukaramellubragði var að þessar súkkulaðikúlur myndu passa eins og hönd í hanska við gómsæta marengstertu. Mér datt síðan í hug að búa til karamellurjóma úr Freyju karamellum. … og herregud hvað þetta varð geggjaður rjómi!

Það munaði litlu að hann kæmist ekki á milli botnanna því ég þurfti ”aðeins” að smakka hann til dálítið of oft! 😉 Það væri örugglega geggjað að útbúa svona karamellurjóma og bera fram með berjum og ávöxtum eða með góðri súkkulaðiköku. Það er allavega næst á dagskrá hjá mér. Það er ekkert flókið að búa hann til, bara tvennt sem þarf að passa. Annars vegar að láta ekki rjómann sjóða og hins vegar að gefa honum góðan tíma til að kólna alveg. Það er því mjög hentugt að nota hann á marengstertu því það er einmitt terta sem maður bakar oftast daginn áður. Ég bakaði marengsbotnanna að kvöldi ásamt því að útbúa rjómann. Daginn eftir þeytti ég rjómann og setti saman tertuna, einfalt og fljótlegt. Ég tók hana með með í vikulega sunnudagskaffið hjá okkur fjölskyldunni og sló tertan í gegn. Þetta er terta sem verður sannarlega bökuð aftur og aftur!

img_4114

Uppskrift:

Marengs:
  • 300 g sykur
  • 6 eggjahvítur
  • 3 bollar Kornflex eða Rice krispies
  • 1 tsk lyftiduft

Rjómafylling:    hris

  • 5 dl rjómi
  • 150 g Freyju karamellur, klipptar í litla bita
  • 200 g Hrís með Freyjukaramellum
  • 250 g fersk jarðarber, skorin í bita

Súkkulaðikrem:

  • 6 eggjarauður
  • 6 msk flórsykur
  • 200 g suðusúkkulaði
  • 50 g Freyjukaramellur, klipptar í litla bita
  • 1-2 msk rjómi eða mjólk
Marengs: Ofn hitaður í 140 gráður við blástur. Eggjahvítur eru þeyttar ásamt lyftidufti og sykri smá saman bætt út í þar til marengsinn er orðinn stífur. Þá er Kornflexi eða Rice krispies bætt varlega út í marengsinn með sleikju. Diskur eða kökuform sem er ca. 23 cm í þvermál er lagt á bökunarpappír og strikaður hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar. Marengsinum er skipt í tvennt og hann settur á sitt hvorn hringinn. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða. Þá er marengsinn bakaður í 120°C (blástur) í heitum ofni í ca. 60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum.

Karamellurjómi: Rjómi hitaður í potti og þegar hann er kominn nálægt suðu lækkað í meðalhita og karamellunum, sem búið er að klippa í minni bita, er bætt út rjómann. Þá er hrært þar til karamellurnar hafa bráðnað. Athugið að rjóminni má alls ekki sjóða! Rjómablöndunni er því næst hellt í skál og sett í kæli, í minnst 4 tíma, eða þar til blandan er orðin alveg köld. Best er að geyma hana í kælinum yfir nóttu. Þegar rjómablandan er orðin alveg köld er hún stífþeytt og loks er jarðaberjunum og hrískúlunum blandað varlega saman við með sleikju.img_4110

Súkkulaðikrem: Eggjarauður og flórsykur þeytt vel saman. Suðusúkkulaði og karamellur er sett í pott ásamt 1-2 msk af rjóma eða mjólk (eftir þörfum) og brætt við meðalhita. Þegar súkkulaðiblandan er bráðnuð er hún látin kólna dálítið og því næst bætt út í eggjarauðu- og flórsykurblönduna. Kreminu er því næst dreift yfir marengstertuna. Ef súkkulaðiblandan er mjög þunn er hægt að setja hana í ísskáp í dálítla stund til þess að hún þykkni áður en henni er dreift yfir tertuna. Skreytt með berjum, t.d. jarðarberjum, hindberjum og blæjuberjum. img_4112img_4115

Marengsterta með súkkulaðirúsínum og eplum


img_4036-6

Í síðasta mánuði átti yngsta barnið í fjölskyldunni 12 ára afmæli.

img_4047

Hún hefur alltaf haft ákveðnar skoðanir á því hvernig afmælisveislurnar eigi að vera og það hefur alltaf verið eitthvað þema í gangi. Í ár var þemað til fyrir tilviljun þegar við mæðgur byrjuðum á því að kaupa servíettur sem við féllum fyrir, okkur fannst þær svo fallegar. Í kjölfarið ákváðum við að það yrði bara einhverskonar fallegt pastel þema.

Ég bað Önnu frænku hjá Önnu konditori að gera uppáhaldstertu afmælisbarnsins (svampbotnar, hindber og karamellukrókant) og hafa hana í stíl við servíetturnar. Það var ekki að spyrja að því, þessi listakona bjó til frábærlega fallega tertu sem skreytt var með blómum og hjóli með blómakörfu, alveg í stíl við servíetturnar.

img_4043img_4031

Ég bjó til súkkulaðiköku og skreytti hana í pastellitum. Ég notaði skúffukökuuppskrift og hafði botnana fjóra (smjörkrem á milli), þá verður kakan fallega há. Hins vegar er ekki gott að skera hana þannig því sneiðarnar verða alltof stórar. Ég hafði því harðspjald á milli botnanna (tveir botnar með kremi á milli – kringlótt harðspjald – tveir botnar með kremi á milli) þannig að fyrst var efsta lag kökunar skorið og síðan sú neðri, mjög praktísk og einföld lausn ef maður vill hafa kökur háar. Ég hef stundum hreinlega líka notað botninnn úr lausbotna kökuforminu og haft hann á milli ef ég hef ekkert annað.

img_4040img_4041

Ein tertan sem ég var með var marengsterta og ég ákvað að gera tilraun og setja eitthvað nýtt í rjómann. Ég notaði súkkulaðirúsínur og græn epli, ótrúlega ferskt og gott. Ég mæli sannarlega með þessari bombu í næstu veislu! 🙂

img_4037

Uppskrift:

Marengs:

  • 3 dl sykur
  • 5 eggjahvítur
  • 3 bollar Rice Krispies

Ofn hitaður í 120 gráður við blástur (ef baka á báða botnana samtímis) eða 130 gráður við undir- og yfirhita. Eggjahvítur þeyttar og sykri bætt út í smátt og smátt þar til marengsinn er orðinn stífur. Þá er Rice Krispies bætt varlega út í marengsinn með sleikju. Diskur eða kökuform sem er um það bil 23 cm. í þvermál er lagt á bökunarpappír og strikaður hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar. Marengsinum er skipt í tvennt og hann
 settur á sitt hvorn hringinn. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða. Þá er marengsinn bakaður í 120°C (blástur) í heitum ofni í um það bil 60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum.

Rjómafylling:

  • 5 dl rjómi
  • 3-4 græn epli (fer eftir stærð), skorin smátt
  • 150 g súkkulaðirúsínur

Rjóminn er þeyttur og eplum ásamt súkkulaðirúsínum er blandað út í rjómann. Rjómablandan er svo sett á milli marengsbotnanna þegar þeir eru orðnir kaldir.

img_4033

Súkkulaði krem: 

  • 5 eggjarauður
  • 5 msk flórsykur
  • 100 g Síríus pralín súkkulaði með karamellu
  • 100 g suðusúkkulaði

Eggjarauður og flórsykur þeytt vel saman. Pipp og suðursúkkulaði er brotið niður í skál og brætt yfir vatnsbaði. Ef súkkulaðiblandan er of þykk er hægt að bæta örlítilli mjólk eða rjóma út í. Þegar súkkulaðið hefur bráðnað og kólnað örlítið er þvi bætt varlega út í eggjarauðu- og flórsykurblönduna. Kreminu er því næst dreift yfir marengstertuna. Skreytt með berjum, t.d. jarðaberjum, bláberjum, hindberjum, rifsberjum og blæjuberjum. Tertan er geymd í ísskáp og er líka góð daginn eftir.

img_4035-5

Kladdkaka með mjúkum marengs


IMG_2787
IMG_2793Mikið er nú dásamlegt að snjórinn sé farin, farið sé að hlýna og að birtan sé loksins komin! Dagsbirtan er svo mikill vinur matarbloggara, það er ægilega leiðinlegt að taka matarmyndir í skammdeginu. Við fjölskyldan erum smátt og smátt að hreiðra um okkur í nýja húsinu. Ég er að vinna í blogginnleggi með myndum um nýja eldhúsið sem mun birtast innan skamms. Ég er ægilega ánægð með eldhúsið og finnst það hafa lukkast mjög vel, sem og allar endurbæturnar á húsinu.

Að þessu sinni ætla ég að skrá hér inni á síðuna enn eina kladdköku uppskrift, þær verða aldrei of margar. Í þessari uppskrift kemur saman sænska kladdkakan og rússneska mjúka marengs Pavlovan með ”dash” af súkkulaðihnetusmjöri, sem er skemmtileg og ljúffeng blanda.

Súkkulaðikaka:

  • 150 g smjör
  • 300 g suðusúkkulaði
  • 1.5 dl sykur
  • 3 egg
  • 2 dl hveiti
  • 2 msk kakó

Marengs:

  • 4 eggjahvítur
  • 1.5 dl sykur
  • 1 tsk ljóst edik
  • 2 msk sterkja (t.d. majsenamjöl)
  • ca. 1 dl súkkulaðihnetusmjör

Bakarofn stilltur á 175 gráður við undir- og yfirhita. Smelluform (24 cm) er klætt bökunarpappír. Smjör og súkkulaði er brætt saman yfir vatnsbaði. Egg og sykur þeytt saman og síðan er hveiti og kakói bætt út í. Þá er súkkulaði-smjörblöndunni bætt út í smátt og smátt þar til allt hefur blandast saman. Deigið er sett í formið og bakað í ofni við 175 gráður í ca. 20 mínútur. Þá er kakan tekin út og ofninn hækkaður í 200 gráður. Eggjahvíturnar eru stífþeyttar og sykrinum bætt út í smátt og smátt á meðan. Því næst er ediki og sterkju bætt út í. Súkkulaðihnetusmjörið er hitað í örbylgju ofni í ca. 20 sekúndur eða þar til það verður dálítið fljótandi en þó alls ekki of heitt. Þá er því bætt varlega út í marengsinn með sleikju en fallegt er að blanda því bara létt saman við marengsinn svo að hann verði fallega marmaramunstraður. Marengsinn er settur yfir kökuna og bakað í ca. 20-25 mín til viðbótar. Gott er að fylgjast vel með kökunni þvi marengsinn getur orðið dökkur og því þarf mögulega að setja álpappír yfir hana þegar um helmingur af bökunartímanum er liðinn. Gott er að bera kökuna fram með þeyttum rjóma. IMG_2800

Marengsterta með karamellurjóma og hindberjum


IMG_0561

Nú er kominn einn og hálfur mánuður frá því að við fengum nýja húsið okkar afhent og þar eru miklar framkvæmdir í gangi. Eins og gengur og gerist þá vinda svona framkvæmdir upp á sig og staðan er núna sú að við erum að skipta um eiginlega allt í húsinu, allt frá rafmagni og lögnum upp í innréttingar og gólfefni. Þetta eru afar spennandi framkvæmdir og að mörgu að huga, margar ákvarðanir sem þarf að taka. Við hjónin erum sem betur fer svo skemmtilega samstíga að við erum yfirleitt sammála um allt og ákaflega fljót að taka ákvarðanir sem hentar vel í svona framkvæmdum. Það er þó eitt þessa dagana sem við sveiflumst fram og tilbaka með, það eru borðplötur í eldhúsinu. Við vorum ákveðin í að hafa svartar granítplötur (eldhúsinnréttingin er hvít) en svo fór ég efast eftir að hafa lesið á netinu um að sumum finnist of kalt að hafa granít á öllu, að það glamri mikið í öllu sem maður leggur frá sér og að það sjáist mikið á svörtu graníti. Í eldhúsinu sem við erum með núna er granít í einu horninu og svo eikarborðplötur á restinni. Mér finnst frábært að hafa granítið, gott að hnoða deig á því og ég legg allt heitt beint úr ofninum á það. En það er spurning hvort að það sé of mikið að hafa granít á öllu. Endilega segið mér frá ykkar reynslu af borðplötum og hverju þið mælið með!

En víkjum að þessari dásemd!

IMG_0577

Bóndadagurinn er á morgun og ég ætla sannarlega að dekra við minn bónda. Rauðvín og steik hljómar algjörlega í takt við daginn en ég held líka að ein svona hnallþóra yrði ekki óvinsæl á borðum bænda landsins! 🙂 Mér finnst Dumle súkkulaðiðfrauðið svo gott að ég ákvað að prófa mig áfram með það í tertu og hér er gómsæt útkoman:

IMG_0571

Dumlerjómi með hindberjum:

  •   5 dl rjómi
  •   120 g Dumle orginal, saxaðar eða klipptar í minni bita
  •   300 g hindber (fersk eða afþýdd)

Marengs:

  •   220 sykur
  •   4 eggjahvítur (stór egg)
  •   3 bollar Kornflex
  •   1 tsk lyftiduft

Dumle snacks krem:

  •   4 eggjarauður
  •   4 msk flórsykur
  •   175 g Dumle Snacks, saxað
  •   50 g 50-70% súkkulaði, saxað
  •   3-4 msk rjómi
  •   Til skrauts. Nokkrir Dumle snacks molar saxaðir niður og hindber.

Dumlerjómi: Rjómi hitaður í potti og þegar hann er kominn nálægt suðu er karamellunum bætt út rjómann og hrært þar til þær hafa bráðnað. Gæta þarf þess að rjóminn sjóði ekki. Rjómablöndunni er því næst hellt í skál og sett í kæli þar til blandan er orðin alveg köld, í minnst 3-4 tíma, best er að geyma hana í kælinum yfir nóttu. Þegar rjómablandan er orðin alveg köld er hún stífþeytt og þá er hindberjunum blandað varlega saman við með sleikju.

Marengs: Ofn hitaður í 120 gráður við blástur. Eggjahvítur, lyftiduft og sykur er þeytt þar til marengsinn er orðinn stífur. Þá er kornflexi bætt varlega út í með sleikju. Diskur eða kökuform sem er ca. 23 cm í þvermál er lagt á bökunarpappír og strikaður hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar. Marengsinum er skipt í tvennt og hann settur á sitt hvorn hringinn. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða. Að lokum er marengsinn bakaður við 120°C, blástur í ca. 50 – 60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum. Þegar marengsinn er orðinn kaldur er Dumlerjóminn með hindberjunum settur á milli botnanna og og Dumle snacks kremið sett ofan á.

Dumle Snacks krem: Eggjarauður og flórsykur þeytt vel saman. Dumle snacks og súkkulaði er sett í pott ásamt 3-4 msk af rjóma eða mjólk og brætt við meðalhita, hrært í blöndunni á meðan. Súkkulaðiblöndunni er því næst blandað út í eggjakremið og kreminu svo leyft að standa í smá stund (jafnvel í ísskáp) þar til það stífnar hæfilega. Kreminu er því næst dreift yfir marengstertuna. Skreytt með berjum, t.d. hindberjum og/eða jarðaberjum ásamt nokkrum niðursöxuðum Dumle snacks molum.

IMG_0569

IMG_0576

Marengsterturúlla með hnetusmjörskremi og banönum


IMG_0595

Mér finnst Pavlovu marengs ægilega góður og það er lítið mál að gera slíka marengstertu að rúllu. Hér prófaði ég mig áfram með að búa til krem úr hnetusmjöri og ég notaði líka hættulega góðu Dumle snacks molana í kremið. Þegar ég geri eitthvað úr hnetusmjöri þá get ég sjaldan staðist þá freistingu að smygla banönum með í uppskriftina og hér pössuðu þeir eins og hönd í hanska við kremið. Hnetusmjör, bananar og Dumle snacks með mjúkum Pavlovumarengs – þetta getur ekki klikkað! 🙂

Marengsterturúlla með hnetusmjörskremi og banönum.

 Marengs:

·      5 eggjahvítur

·      2,5 dl sykur

·      1 tsk edik

·      2 tsk kartöflumjöl eða maíssterkja

·      1 tsk vanillusykur

 Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita. Eggjahvítur þeyttar og sykri bætt út í smátt og smátt þar til allt er stífþeytt. Í lokin er ediki, kartöflumjöli og vanillusykri bætt út í. Ofnplata er klædd með bökunarpappír og marengsinum smurt á bökunarpappírinn þannig að hann myndar ca. 35×30 cm ferning. Bakað í ofni við 175 gráður í um það bil 15 mínútur eða þar til marengsinn er gullinbrúnn. Þegar marengsinn hefur kólnað er honum hvolft á nýjan bökunarpappír og súkkulaði – og hnetusmjörskreminu smurt á.

Súkkulaði- og hnetusmjörskrem

·      50 g smjör við stofuhita

·      200 g flórsykur

·      200 g Nusica heslihnetu- og súkkulaðikrem

·      200 g Philadephia rjómaostur, við stofuhita

·      175 g Dumle snacks karamellur, skornar í litla bita

·      2 stórir bananar, skornir í sneiðar

Smjör og flórsykur þeytt þar til létt og ljóst. Þá er súkkulaði- og hnetukreminu bætt út í og að lokum rjómaostinum. Þegar allt hefur blandast vel saman er niðursneiddum banönum og Dumle karamellum blandað varlega saman við kremið með sleikju. Kreminu er smurt yfir marengsinn og honum rúllað upp með hjálp bökunarpappírsins. Skreytt með Dumlekremi og Dumle karamellum.

Dumle krem

·      60 g Dumle orginal karamellur , skornar í bita

·      1-2 msk rjómi eða mjólk

·      nokkrar Dumle orginal karamellur til skreytingar

Karamellurnar bræddar í potti við vægan hita og mjólk eða rjóma bætt út í þar til hæfilegri þykkt er náð. Þá er kreminu dreift yfir marengsrúlluna og skreytt með nokkrum Dumle karamellum. IMG_0590

 

Bananaostakaka


IMG_0118IMG_0124Innblásturinn að þessari dásemdar ostaköku er þríþættur. Í fyrsta lagi átti ég banana sem orðnir voru brúnir og allir vita hvað það þýðir; bakstur á bananabakkelsi! Í öðru lagi sá ég fyrir nokkru að Dulce de leche sósurnar eru komnar aftur í verslanir, mér til mikillar gleði. Þær eru gerðar úr sætmjólk og það kom upp eitthvað vandamál á tímabili tengt því að ekki væri hægt að flytja inn mjólkurvöru. Nú hins vegar er hægt að nálgast þessa dásemdar karamellusósu aftur en það er líka hægt að búa hana til úr sætmjólk, hér skrifa ég um það (ég mæli með þessari hindberjaböku!). Í þriðja lagi þá reikar hugur minn oft að ostakökunum í Cheesecake factory (ég veit, ég veit… en ég bara eyði miklum tíma í að hugsa um góðan mat! 😉 ) og þar er bananaostakakan ofarlega á vinsældarlista mínum. Ég skoðaði ótal uppskriftir að bananaostakökum og raðaði saman í uppskrift öllu því sem mér leist best á. Ég get ekki annað sagt en að þessi ostakaka hafi slegið í gegn og fékk þau ummæli að hún væri „hættulega góð“. Yngsta dóttir mín var hálfhneyksluð á móður sinni þegar ég sagði að mér þætti þessi kaka hreinlega betri en sú sem við fengum á Cheesecake. Þó svo að henni hafi fundist aðeins vanta upp á hógværðina hjá móður sinni þá var hún samt sammála, þessi kaka er sjúklega góð! 🙂

IMG_0136

Botn:

  • 300 g kex með vanillukremi (ca. 25 kexkökur)
  • 120 g smjör

Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið. Sett í bökunarform með lausum botni og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu. Sett inn í ísskáp á meðan fyllingin er búin til.

IMG_0107

Ostakaka:

  • 400 g rjómaostur, við stofuhita
  • 2/3 dl sykur
  • 1/2 dl maizenamjöl eða önnur sterkja
  • 3 egg
  • 1 vanillustöng, klofin í tvennt og kornin innan úr báðum helmingunum skafin úr með beittum hníf
  • 1 dl rjómi
  • 3 meðalstórir mjög vel þroskaðir bananar, stappaðir

Borin fram með:

  • karamellusósu (t.d. Dulce de leche)
  • þeyttum rjóma

IMG_0116

Ofn stilltur á 160 gráður við undir/yfirhita. Rjómaostur þeyttur þar til hann verður mjúkur, smátt og smátt er sykri og sterkju bætt út í. Þá er eggjum bætt út í, einu í senn. Því næst er banönum og vanillukornum bætt út í. Að lokum er rjómanum smátt og smátt bætt við og þeytt á meðan. Blöndunni hellt yfir kexbotninn Bakað við 160 gráður í 45-55 mínútur, eða þar til að kakan er bökuð að öllu leiti nema bara dálítið blaut í miðjunni. Þá er slökkt á ofninum og henni leyft að standa í ofninum í allavega hálftíma í viðbót. Notið álpappír yfir kökuna ef hún fer að dökkna mikið þegar líður á bökunartímann. Athugið að ostakakan verður ekki beint stíf þegar hún er tilbúin heldur getur hún ,,dansað” svolítið í miðjunni þó hún sé tilbúin. Síðan sígur kakan dálítið og jafnar sig. Það koma oft sprungur í yfirborðið en það er algengt og skiptir litlu fyrir bragðið. Ostakan er látin kólna í forminu sett ísskáp yfir nóttu eða helst í 6-8 tíma áður en hún er borin fram. Borin fram með karamellusósu og þeyttum rjóma.

IMG_0119IMG_0133

Marengsterta með piparmyntu Nóa kroppi og Pippi


Marengsterta með piparmyntu Nóa kroppi og Pippi Ég hef talað um það áður að um leið og Nói Siríus kemur með eitthvað nýtt sælgæti á markað þá endar það yfirleitt mjög fljótt í tertu eða köku hjá mér. Núna kom á markað nýtt Nóa kropp, að þessu sinni með piparmyntubragði. Hingað til hefur ekkert Nóa kropp slegið út hinu eina og sanna en ég held svei mér þá að þetta komi ansi nálægt því. Ég veit ekki hvort þið kannist við Remi piparmyntu súkkulaðikexið (ef ekki – þá mæli ég með þeim kynnum!), nýja Nóa kroppið minnir mikið á það ljúffenga kex. Ég ákvað að baka margengstertu fyrir afmæli litlu frænku minnar og nota nýja piparmyntu Nóa kroppið ásamt piparmyntu Pippi. Vissulega er þessi marengsterta engin nýjung, bara tilbrigði við þessa gömlu góðu en hún var allavega mjög vinsæl í veislunni og ég mæli sannarlega með henni. Það mætti kannski halda að þessi færsla væri styrkt af Nóa Siríus en svo er ekki … það er eiginlega öfugt, ég er öflugur styrktaraðili Nóa! 😉 Marengsterta með piparmyntu Nóa kroppi og Pippi Marengs:

  • 2 dl sykur
  • 1 dl púðursykur
  • 5 eggjahvítur
  • 3 bollar Rice Krispies

Ofn hitaður í 120 gráður við blástur (ef baka á báða botnana samtímis) eða 130 gráður við undir- og yfirhita. Eggjahvítur, púðursykur og sykur er þeytt þar til marengsinn er orðinn stífur. Þá er Rice Krispies bætt varlega út í marengsinn með sleikju. Diskur eða kökuform sem er um það bil 23 cm. í þvermál er lagt á bökunarpappír og strikaður hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar. Marengsinum er skipt í tvennt og hann
settur á sitt hvorn hringinn. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða. Þá er marengsinn bakaður í 120°C (blástur) í heitum ofni í um það bil 60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum.

Rjómafylling:

  • 5 dl rjómi
  • 250 g fersk jarðaber, skorin í bita
  • ca. 150 g Nóa kropp með piparmyntu
  • 50 g Pipp með piparmyntu, skorið smátt

Rjóminn er þeyttur og jarðaberjunum ásamt Nóa kroppi og Pippi er blandað út í rjómann. Rjómablandan er svo sett á milli marengsbotnanna þegar þeir eru orðnir kaldir.

Pipp krem: 

  • 5 eggjarauður
  • 5 msk flórsykur
  • 150 g Pipp með piparmyntu
  • 100 g suðusúkkulaði

Eggjarauður og flórsykur þeytt vel saman. Pipp og suðursúkkulaði er brotið niður í skál og brætt yfir vatnsbaði. Ef súkkulaðiblandan er of þykk er hægt að bæta örlítilli mjólk eða rjóma út í. Þegar súkkulaðið hefur bráðnað og kólnað örlítið er þvi bætt varlega út í eggjarauðu- og flórsykurblönduna. Kreminu er því næst dreift yfir marengstertuna. Skreytt með berjum, t.d. jarðaberjum, bláberjum, hindberjum, rifsberjum og blæjuberjum. Tertan er geymd í ísskáp og er líka góð daginn eftir. IMG_8843 IMG_8846