Innblásturinn að þessari dásemdar ostaköku er þríþættur. Í fyrsta lagi átti ég banana sem orðnir voru brúnir og allir vita hvað það þýðir; bakstur á bananabakkelsi! Í öðru lagi sá ég fyrir nokkru að Dulce de leche sósurnar eru komnar aftur í verslanir, mér til mikillar gleði. Þær eru gerðar úr sætmjólk og það kom upp eitthvað vandamál á tímabili tengt því að ekki væri hægt að flytja inn mjólkurvöru. Nú hins vegar er hægt að nálgast þessa dásemdar karamellusósu aftur en það er líka hægt að búa hana til úr sætmjólk, hér skrifa ég um það (ég mæli með þessari hindberjaböku!). Í þriðja lagi þá reikar hugur minn oft að ostakökunum í Cheesecake factory (ég veit, ég veit… en ég bara eyði miklum tíma í að hugsa um góðan mat! 😉 ) og þar er bananaostakakan ofarlega á vinsældarlista mínum. Ég skoðaði ótal uppskriftir að bananaostakökum og raðaði saman í uppskrift öllu því sem mér leist best á. Ég get ekki annað sagt en að þessi ostakaka hafi slegið í gegn og fékk þau ummæli að hún væri „hættulega góð“. Yngsta dóttir mín var hálfhneyksluð á móður sinni þegar ég sagði að mér þætti þessi kaka hreinlega betri en sú sem við fengum á Cheesecake. Þó svo að henni hafi fundist aðeins vanta upp á hógværðina hjá móður sinni þá var hún samt sammála, þessi kaka er sjúklega góð! 🙂
Botn:
- 300 g kex með vanillukremi (ca. 25 kexkökur)
- 120 g smjör
Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið. Sett í bökunarform með lausum botni og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu. Sett inn í ísskáp á meðan fyllingin er búin til.
Ostakaka:
- 400 g rjómaostur, við stofuhita
- 2/3 dl sykur
- 1/2 dl maizenamjöl eða önnur sterkja
- 3 egg
- 1 vanillustöng, klofin í tvennt og kornin innan úr báðum helmingunum skafin úr með beittum hníf
- 1 dl rjómi
- 3 meðalstórir mjög vel þroskaðir bananar, stappaðir
Borin fram með:
- karamellusósu (t.d. Dulce de leche)
- þeyttum rjóma
Ofn stilltur á 160 gráður við undir/yfirhita. Rjómaostur þeyttur þar til hann verður mjúkur, smátt og smátt er sykri og sterkju bætt út í. Þá er eggjum bætt út í, einu í senn. Því næst er banönum og vanillukornum bætt út í. Að lokum er rjómanum smátt og smátt bætt við og þeytt á meðan. Blöndunni hellt yfir kexbotninn Bakað við 160 gráður í 45-55 mínútur, eða þar til að kakan er bökuð að öllu leiti nema bara dálítið blaut í miðjunni. Þá er slökkt á ofninum og henni leyft að standa í ofninum í allavega hálftíma í viðbót. Notið álpappír yfir kökuna ef hún fer að dökkna mikið þegar líður á bökunartímann. Athugið að ostakakan verður ekki beint stíf þegar hún er tilbúin heldur getur hún ,,dansað” svolítið í miðjunni þó hún sé tilbúin. Síðan sígur kakan dálítið og jafnar sig. Það koma oft sprungur í yfirborðið en það er algengt og skiptir litlu fyrir bragðið. Ostakan er látin kólna í forminu sett ísskáp yfir nóttu eða helst í 6-8 tíma áður en hún er borin fram. Borin fram með karamellusósu og þeyttum rjóma.