Freyðandi myntu- og sítrónudrykkur og ársuppgjör matarbloggara! :)


IMG_0748

Það er við hæfi að líta tilbaka á síðasta degi ársins og gera upp árið 2012 (þið sem kíktuð bara inn til að fá uppskrift af drykknum ættuð bara að skrolla neðst niður hið bráðasta, þetta verður langloka hjá mér! 😉 )! Þegar ég settist niður við tölvuna laugardaginn 9. júní síðastliðið sumar til að kíkja á tölvupóstinn minn í flýti (var á leið í afmælisveislu til pabba) þá grunaði mig ekki að ég myndi standa upp skömmu seinna sem matarbloggari! Ég opnaði þetta blogg eiginlega án alls undirbúnings. Ég var aðeins búin að gæla við hugmyndina en fannst ég langt frá því að framkvæma hana. Nafnið, Eldhússögur, laust niður í huga mér þegar ég var að skrá mig hér á WordPress sem hýsir bloggið og þar sem boðið var upp á undirtitil lá í augum uppi að Eldhússögurnar væru ,,úr Kleifarselinu“.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Fyrstu fimm mánuðina setti ég inn uppskrift á hverjum einasta degi. Mér fannst það bara verða vera þannig, ef maður ætlar að blogga á annað borð þá þarf það að vera almennilegt! 🙂 Sjálfri finnst mér bara gaman að lesa blogg sem eru uppfærð oft. Ég hélt það ekki alveg út allt árið en næstum því! Undir lok ársins varð eitthvað að gefa sig, ég var að skila af mér meistararitgerð, vinna hlutavinnu og að auki með sex manna heimili. Færslurnar urðu 174 á 206 dögum sem er nú alveg ágætis frammistaða samt! Ég var spurð að því um daginn hvort ég væri eitthvað að græða á blogginu. Satt að segja var það fyrsta sem kom upp í huga mér: aukakíló og svefnleysi! 🙂 En vissulega hef ég grætt ákaflega margt á þessu bloggi. Fyrst og fremst hef ég grætt það að hafa sjálf tekið miklum framförum við eldamennskuna. Einnig er ég komin með gott safn af uppskriftunum mínum sem er mér alltaf aðgengilegt, það var eitt af markmiðunum með þessu bloggi. Auk þess hefur bloggið hefur leitt mig í kynni við frábært fólk, ykkur lesendur,  og skemmtileg verkefni.

Áskoranirnar hafa verið afar margar. Minnsta málið er að elda og baka, það er ekkert mál! Það sem hefur verið áskorun fyrst og fremst er að finna, þróa og skrá góðar uppskriftir, það er afar tímafrekt. Í öðru lagi er það myndartakan. Satt best að segja er ég engin sérstök áhugamanneskja um ljósmyndun. Ég hef samt alltaf tekið mikið af myndum en aðallega í skráningarlegum tilgangi ekki fagurfræðilegum. Ég byrjaði á því að taka matarmyndirnar á ,,auto“ stillingunni á myndavélinni sem er nokkuð auðvelt ef maður er með þokkalega myndavél og góða dagsbirtu. En svo neyddist ég til að fara í ,,manual“ stillingar núna í vetur þegar dagsbirtan hætti að vinna með mér. Það hefur tekið dálítið á og verið þolinmæðisverk að finna út úr því. Að auki þarf að vinna myndirnar eftir á sem er einnig tímafrekt. Það er líka áskorun að halda úti góðri vefsíðu. Það finnst mér reyndar mjög skemmtilegt og það kemur aðeins inn á námið sem ég er að ljúka núna, bókasafns- og upplýsingafræði. Ég fór meðal annars í kúrs um heimasíðugerð sem ég hef getað nýtt mér hér. Ég hef samt ekki haft tíma til að að breyta og bæta síðuna eins og ég hefði viljað. Í sannleika sagt hef ég oftast nær sett inn færslur hingað á nóttunni! 🙂 Svo stilli ég á að þær birtist á kristilegum tíma þannig að allir þeir sem fá tölvupóst um nýja færslu verði ekki vaktir um miðja nótt með pípi frá símanum sínum! Stundum hef ég, svefndrukkin um miðjar nætur við tölvuna, velt því fyrir mér af hverju ég sé að þessu og hvort ég ætti ekki bara að hætta þessu rugli! 😉 En núna þegar ég stend við þröskuld nýs árs, búin með ritgerðina mína, aðsóknarmet slegið á síðuna mína í fyrradag og ég fæ fullt af fallegum og hlýjum kveðjum frá ykkur lesendum er ég uppfull af eldmóði! Ég er með ótal hugmyndir og áform fyrir síðuna mína sem ég hlakka til að koma í verk á nýju ári. Ein nýjungin mun birtast á síðunni strax á morgun, nýársdag, ég er afar spennt yfir því!

En fyrir þá sem vildu fá uppskrift af góðum áramótadrykk þá var ég með þennan um daginn í Kalkúnaboðinu góða. Mér finnst freyðivín svona lala gott og kampavín bara alls ekki gott! En hérna er sæt sítrónu/myntu blanda sett út í freyðivínið sem gerir freyðivínið algjört sælgæti. Þetta er ofsalega ferskur og góður drykkur, mæli með því að skála með honum í kvöld fyrir nýju ári! GLEÐILEGT NÝTT ÁR! 🙂

Uppskrift (6 glös):

04037Sævar vínþjónn mælir með Jacob’s Creek Chardonnay Pinot Noir Brut freyðivíninu fyrir þennan drykk. Það er sítrónugult með mjúkri fyllingu, sætt, fersk sýra. Sítrus, apríkósa, hunang.

 

Sítrónusafanum hellt í pott og suðan látin koma upp, sykrinum bætt út í. Hrært í blöndunni þar til hún bráðnar. Látið kólna (athugið að gera þetta með nokkuð góðum fyrirvara því það tekur drjúga stund fyrir blönduna að kólna alveg). Blöndunni skipt í sex glös, nokkur myntublöð sett ofan í hvert glas og þau síðan fyllt með köldu freyðivíni! SKÁL!
IMG_0747

Innbakaður brie með sultu í smjördeigi


BrieÍ gær áttum við skemmtilegan dag með bæði leikhúsferð og bíóferð. Um daginn fórum við fjölskyldan saman í Þjóðleikhúsið og skemmtum okkur dátt yfir Dýrunum í Hálsaskógi. Um kvöldið fórum svo við hjónin ásamt Vilhjálmi í bíó á Life of Pi. Ég var búin að lesa bókina sem er frábær og ég varð ekki fyrir vonbrigðum með myndina. Mér fannst mikið afrek að geta gert svona frábæra bíómynd eftir þessari sögu sem er sannarlega ekki auðveld að kvikmynda. Í dag erum við að fara í jólaboð en fyrst ætla ég að setja inn eina uppskrift hingað á bloggið.

Brie

Ég hef áður talað um dálæti mitt á ostum og ég er stöðugt á höttunum eftir góðum uppskriftum með ostum í. Um daginn þegar við fórum á jólaball gerði ég einfaldan og góðan ostarétt til að setja á hlaðborðið. Þetta er innbakaður brie með sultu í smjördeigi. Einfalt og gott! Rétturinn er langbestur heitur en það er líka hægt að bera hann fram kaldan. Tvennt þarf að hafa í huga. Annars vegar að það er allt í lagi þó að það „blæði“ aðeins osti og sultu út um degið við baksturinn og hitt er að passa að setja nóg af osti og sultu. Þó svo að ostbitinn virðist stór í byrjun þá bráðnar hann við bökunina. Í þetta sinn notaði ég hindberjasultu og blandaða sultu en næst ætla ég að prófa að nota chilisultu sem mér finnst svo góð með ostum. Þessi smáréttur sómar sér vel með freyðivíninu á gamlárskvöld! Nú eða hafa til að maula í láréttri stöðu í sófanum á nýársdag yfir endursýndum annálum! 🙂

Uppskrift:

 • 1-1½ brieostur eða annar góður ostur
 • sulta, t.d. hindberjasulta, chilisulta eða önnur góð sulta sem passar við osta
 • 1 pakki tilbúið frosið smjördeig
 • 1 egg
 • 1 msk mjólk
 • hnífsoddur salt

IMG_6326IMG_6328Ofn hitaður í 190 gráður undir og yfirhita. Egg, mjólk og salt þeytt létt saman. Dreift úr smjördeigsplötunum og þær látnar þiðna (tekur ca. 15 mínútur). Þá eru plöturnar smurðar vel með eggjahrærunni (hún er „límið“ sem lokar bitunum) og síðan er hver plata skorin í 6-8 jafna ferninga. Osturinn skorin í stóra bita (næst ætla ég að hafa þá stærri en á myndinni hér að ofan því deigið er það mikið) og ostabiti lagður ofan á annan hvern ferning. Því næst er sett passlega mikil sulta ofan á ostbitana. Þá er hinn helmingurinn af smjördeginu lagður ofan á og samskeytin lokuð vel með gaffli allan hringinn. Bitunum er raðað á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Hver biti er svo smurður með eggjahrærunni og þeir síðan bakaðir í miðjum ofni við 190 gráður í 12-14 mínútur eða þar til bitarnir eru orðnir gullinbrúnir (það er allt í lagi þótt það leki svolítið úr þeim).

IMG_6330

Bismarkbaka með súkkulaðisósu


IMG_6924Mikið var gaman að sjá viðbrögðin við færslunni hér að neðan með uppáhaldseftirréttunum mínum en þetta innlegg var heimsótt 7 þúsund sinnum á bara einum degi. Flestir leggja mikið upp úr matnum á gamlárskvöld og greinilegt að margir eru að leita að góðum uppskriftum fyrir kvöldið.

Við stórfjölskyldan verðum enn og aftur saman á gamlárskvöld, við fáum greinilega ekki nóg af hvert öðru yfir hátíðarnar! Að þessu sinni verðum við enn fleiri en á aðfangadagskvöld og verðum heima hjá foreldrum mínum. Í forrétt verður grafin nautalund með piparrótarsósu (hér er uppskrift af sósunni), í aðalrétt verður kalkúnn með dásamlega góðu meðlæti en ég mun svo sjá um eftirréttinn. Ég ætla ekki að hafa neinn af eftirréttunum 15, þó þeir séu allir afskaplega góðir. Ég ætla að hafa eftirrétt sem ég hef ekki enn sett inn uppskrift af hér á bloggið. Þetta er Bismarkbaka með súkkulaðisósu sem ég gerði í fyrsta sinn fyrir jólin í fyrra, sá eftirréttur komst strax í uppáhald hjá fjölskyldunni enda afskaplega jólalegur og góður. Ég sendi uppskriftina meira að segja í uppskriftasamkeppni Nóa og Siríus í fyrra, fullviss um þessi dásemd myndi myndi rústa keppninni ….  sem hún gerði svo reyndar ekki! 🙂 Ég efast því eiginlega um að Nói og félagar hafi prófað uppskriftina því hún er svo hrikalega góð! 😉 Þessi eftirréttur er afskaplega einfaldur og þægilegur að gera, það er hægt að útbúa hann með góðum fyrirvara og setja í frysti. Súkkulaðisósuna er líka hægt að gera áður og hita hana svo bara aftur upp rétt áður en hún er borin fram.

fluff1Eina sem gæti verið snúið við þessa uppskrift er að nálgast marshmallow-fluff-234x300Marshmallow fluff sem er sykurpúðakrem. Það er oftast til í Hagkaup en þó ekki alltaf. Það hefur alltaf verið til á Amerískum dögum en stundum líka þess á milli. Ég keypti það í Hagkaup núna rétt fyrir jól og reikna því með að það sé til enn. En svo ætti nú líka að vera hægt að nálgast það í Kosti. Tegundin sem ég keypti í Hagkaup núna lítur út eins og þessi til vinstri, „Jet-Puffed marshmallow creme“ en dósirnar geta líka litið út eins og þessi til hægri, „Marshmallow Fluff“

IMG_6891

Botn

 • 20 kexkökur með súkkulaði (ég nota súkkulaði Maryland kex, fyrir Oreoaðdáendur er t.d. hægt að nota Oreokex)
 • 2 msk. kakó
 • 25 g brætt smjör

Kexið er maukað fínt i matvinnsluvél ásamt kakói og smjöri, blandað vel saman. Fóðrið botninn á 24-26 cm smellumóti með smjörpappír. Þrýsitð kexmylsnunni vel í niður á botninn í forminu og setjið í frysti á meðan kremið er útbúið.

Krem

 • 5 dl rjómi
 • 1 dós Marshmellow krem (Marshmallow fluff eða Marshmallow creme)
 • nokkrir dropar piparmintu Extract
 • nokkrir dropar rauður matarlitur
 • 1 dl  Bismark brjóstsykur frá Nóa og Siríus (+ til skreytingar)

Þeytið rjómann og blandið Marshmellowkreminu varlega saman við með sleikju. Passið samt að leyfa kreminu að halda „fluffinu“, þ.e. Marshmellowkremið á að vera í „klumpum“ í rjómanum. Bætið við Piparmintu extract eftir smekk (gætið þess samt að nota ekki of mikið af því, bara örfáa dropa). Setjið 1/3 af kreminu í aðra skál og leggið til hliðar.

Brjótið Bismark brjóstykurinn í morteli eða í matvinnsluvél. Blandið saman við stærri hluta kremsins og setjið ofan á botninn.

Takið afganginn af kreminu og setjið nokkra dropa af rauðum matarlit saman við það. Setjið nú rauða kremið ofan á það hvíta.

Setjið í frysti í minnst fimm tíma og takið út ca. einum tíma áður en hún er borin fram. Skreytið með Bismark brjóstsykri.

Súkkulaðisósa

 • 125 g suðusúkkulaði
 • 75 g smjör
 • ½ dl. sykur
 • ½ dl síróp
 • ½ dl. vatn

Hitið súkkulaði, smjör, sykur, vatn og síróp saman í potti við hægan hita. Hrærið í öðru hverju þar til blandan er orðin slétt og samfelld. Berið fram heita með Bismarkbökunni.

IMG_6894

Eftirréttir fyrir gamlárskvöld


Núna eru áramótin að bresta á og ég sé á heimsóknunum á síðuna mína að margir eru að leita að góðum eftirréttum fyrir gamlárskvöld. Á mínum 15-topplista eru eftirfarandi eftirrréttir. Ég gat ekki gert upp á milli þeirra þannig að þeir eru ekki í neinni sérstakri röð:

Browniekaka með hindberjarjóma

IMG_0594

Mascarponeþeytingur með berjum og Toffypops

IMG_9068

Súkkulaðikaka með Pipp karamellukremi

IMG_8701

Súkkulaðitvenna með hindberjum

IMG_8453

Pavlova í fínu formi

IMG_8322

Hindberjabaka með Dulce de leche karamellusósu

cropped-img_71572.jpg

Ostakaka með mangó og ástaraldin

IMG_7757

Ís með heimatilbúnu frönsku núggati og súkkulaðisoðnum perum

IMG_6042

Pannacotta með hvítu súkkulaði og ástaraldin

IMG_5967

Frönsk súkkulaðikaka

IMG_5368

Súkkulaðifrauð

IMG_3961

Pavlova

IMG_3270

Banana-karamellubaka

IMG_3193

Dásamleg kirsuberjaterta

IMG_7176

Bakaðar perur með mjúkum marengs og súkkulaði

IMG_4782

Oreokúlur


OreokúlurÞetta gúmmelaði passar jafnt sem góðgæti fyrir jólin og allt árið um kring. Þetta er einföld uppskrift og afar fljótleg sem er mikill kostur fyrir uppteknar húsmæður og húsfeður á aðventunni. 🙂 Fyrir Oreokex aðdáendur þá er þetta bráðnauðsynleg uppskrift að prófa!

Uppskrift ca. 30 litlar kúlur

 • 150 gr rjómaostur, Philadelphia
 • 16 Oreo kexkökur (1 pakki)
 • 200 gr suðusúkkulaði (ég notaði Dökkan hjúp frá Nóa og Siríus, líka gott að nota 56% súkkulaði)
 • skraut ef vill, t.d. súkklaðikökuskraut, saxaðar hnetur, brætt hvítt súkkulaði

Oreokúlur

Oreokúlur

Setjið Oreokex og rjómaost saman í matvinnsluvél og keyrið þar til kexið hefur mulist niður og er vel blandað við rjómaostinn.
Það er gott að setja blönduna í ísskáp í ca. 30 mínútur áður en kúlurnar eru mótaðar, það verður svo mikið auðveldara. Þegar kúlurnar eru svo mótaðar í höndunum er gott að gera þær litlar, súkkulaðið gerir þær síðan stærri.
Kúlurnar eru lagðar á bökunarpappír og kældar í ísskáp í 4-5 tíma eða í frysti í 2-3 tíma. Þegar þær eru orðnar nægilega harðar þá er súkkulaðið brætt yfir vatnsbaði, kúlunum dýft ofan í og þær síðan lagðar á bökunarpappír. Gott er að dýfa kúlunum í súkkulaðið með tannstöngli. Ef maður vill er hægt að strá skrautinu yfir kúlurnar áður en súkkulaðið harðnar. Þessar kúlur bragðast langbest ef þær hafa fengið að vera í ísskáp í minnst sólarhring.

IMG_6696

Hangikjöt með kartöfluuppstúf


 

IMG_2612Við höfum átt yndisleg jól. Elfar var á vakt helgina 22. og 23. desember og vann þá bæði dag og nótt en á móti fékk hann frí yfir jólin sem var dásamlegt þar sem hann hefur verið að vinna síðastliðin tvö ár yfir jólin. Á aðfangadagskvöld kom stórfjölskyldan að vanda til okkar og þá eldaði ég hamborgarhrygg. Ég var búin að setja inn uppskriftina af hryggnum fyrir jól en er núna búin að uppfæra þá færslu með nýjum myndum. Á jóladag fórum við að venju til foreldra minna í brunch þar sem í boði er meðal annars gómsætt hreindýrapaté, fjallagrasapaté, síld, skinkuhorn, grafið hangikjöt með piparrótarsósu og melónu, reyktur lax, grafin lax með tilheyrandi sósum, sultum og fleiru. Þetta er eiginlega sá jólamatur sem mér finnst bestur. Á jóladag er ég venjulega með hangikjöt um kvöldið. Það voru hinsvegar allir svo saddir eftir brunchið að það endaði á því að öll fjölskyldan kúrði saman í sófanum fram eftir kvöldi og horfði á bíómyndir milli þess sem að það var nartað í afgang af hamborgarhrygg og jólagraut auk þess sem borðað var konfekt og meira konfekt! 🙂

Jólin heima hjá okkur

IMG_6651

Recently Updated20Við leggjum mikið upp úr því að hafa jólatréð okkar barnslega ævintýralegt. Við erum ekki mikið fyrir eitthvað svona stílhreint hvítt/silfrað skraut eitthvað! 🙂 Ég hef safnað í gegnum tíðina jólatréskrauti sem börnunum finnst fallegt og spennandi, svolítið svona eins og umhverfið í Grinch bíómyndinni! 🙂 Elfar setur 700 marglitar perur í jólatréð, hann vefur hverja einustu grein á trénu með seríu! Það tekur því alltaf eina kvöldstund að setja ljósin á og svo er tréð skreytt daginn eftir. Ég leitaði í mörg ár af gullstjörnu á toppinn og varð hoppandi glöð þegar ég fann eina slíka í Svíþjóð rétt áður en við fluttum heim, mér finnst einhvernvegin að það eigi að vera gullstjarna á toppnum á jólatrjám! Ég var á Pinterest um daginn sem er óþrjótandi uppspretta allskyns hugmynda. Þar sá ég svona skáp svipaðan þeim sem við eigum, skreytan á svona einfaldan hátt sem mér fannst svo fallegt. Ég hermdi því eftir og þetta varð útkoman.

Recently Updated19

Recently Updated21Fyrst ég er kominn í þennan gír þá verð ég að setja inn mynd af arninum okkar líka sem er kominn í einfaldan jólabúning með ómissandi híasentuskreytingu sem pabbi útbýr fyrir okkur fyrir hver jól. Nú mætti halda að þetta væri orðið einhverskonar heimilisblogg, ég ætla að skvera inn uppskriftinni sem titillinn á þessari bloggfærslu lofaði! 🙂 Ég eldaði sem sagt jóladags hangikjötið á annan í jólum í ár. IMG_2619Líkt og með hamborgarhrygginn elda ég hangikjötið í ofni. Ég las mér til um að það væri besta leiðin til að elda saltað kjöt og það þrælvirkar fyrir hamborgarahrygginn, hann verður svo lungnamjúkur og meyr. Ég keypti úrbeinað hangikjötslæri sem var 1.2 kíló. Ég vafði því inn í álpappír og stakk í það kjöthitamæli. Ég setti það á grind með ofnskúffu undir (það getur lekið úr því) í ofn sem er búið að hita í 130 gráður. Ég eldaði hangikjötið þar til kjarnhitinn var búinn að ná 65 gráðum, það tók næstum því 3 klukkutíma. Hangikjötið varð afskaplega meyrt og bragðgott við þessa meðhöndlun.

Hangikjöt í ofni

Sævar Már Sveinsson vínþjónn mælir með ítalska rauðvíninu Mezzacorona Merlot með hangikjötinu. Lýsing: Kirsuberjarautt. Meðalfylling, þurrt, fersk sýra, mild tannín. Rauð ber, laufkrydd.

IMG_2599

Að sjálfsögðu var hefðbundið meðlæti, grænar Ora baunir, heimalagað rauðkál, kartöfluuppstúfur, laufabrauð, drukkið jólaöl með og hlustað á jólajazz! 🙂

IMG_2595

Segið þið annars hangikjöt með uppstúfi eða uppstúf? Hvor tveggja er rétt að segja í þágufalli, ég veit eiginlega ekki hvort mér finnst eðlilegra að nota, ég var eitthvað að vandræðast með hvað ég ætti að skrifa í fyrirsögninni. En svona geri ég allavega kartöfluuppstúf:

Uppskrift:

 • 1 kíló kartöflur
 • 130 g smjör
 • 8 msk hveiti
 • ca 1 líter mjólk
 • 1 msk sykur
 • salt og pipar
 • hnífsoddur af múskat

Kartöflur soðnar, afhýddar og skornar í bita ef þær eru mjög stórar. Smjörið brætt í potti, hveitinu hrært út í og látið malla í 1-2 mínútur við vægan hita. Bakað upp með mjólkinni, kryddað með múskati, salti og pipar og sykri síðan bætt út í. Kartöflurnar látnar út í og látið malla í 5 mínútur við meðalhita.IMG_2624

Gljáður hamborgarhryggur með kóksósu


IMG_6528

Það er ekki seinna vænna en að setja inn uppskrift af jólamatnum! Stórfjölskyldan mín eyðir alltaf aðfangadagskvöldinu saman. Eftir að við fluttum til Íslands fyrir fjórum árum tók ég við aðfangadagskvöldi af mömmu en alla mína æsku vorum við hins vegar hjá ömmu og afa á aðfangadagskvöld. Þá voru oft rjúpur í jólamatinn, nokkuð sem ég komst aldrei upp á lagið að borða. En eftir að rjúpurnar urðu illfáanlegar hefur hamborgarhryggur verið jólamaturinn okkar. Ég hef skrifað hjá mér (eða réttara sagt sent sjálfri mér tölvupóst!) undanfarin ár hvaða uppskrift og aðferð mér hefur hugnast best hverju sinni og það er gott að geta komið þeim upplýsingum úr tölvupóstinum í heilsteypt innlegg hér á blogginu!

IMG_4416

Horft inn um gluggann í Kleifarselinu á aðfangadagskvöld.

IMG_4419

Eins og ég geri með afar margt þá lagðist ég í umfangsmikla heimildavinnu áður en ég tók við þessu veigamikla hlutverki að elda jólamatinn fyrir 12 manns! Ég komst að þeirri niðurstöðu eftir að hafa lesið skrif og viðtöl við fjölmarga kokka og aðra eldhússnillinga að það á alls ekki að sjóða saltað kjöt í vatni. Þetta á við bæði um hamborgarhrygg og hangikjöt, ég elda því hvor tveggja í ofni og mér finnst kjötið verða mikið meyrara og betra þannig. Þegar hamborgarhryggurinn er steiktur í ofni getur hann verið aðeins saltari af því að saltið leysist ekki upp í soðvatni. Það á sérstaklega við um litla hryggi, kannski undir tveimur kílóum. Til að koma í veg fyrir að hamborgarhryggurinn verði of saltur er gott að leggja hann í kalt vatn í 2-3 tíma fyrir eldun. Ég elda hamborgarhrygginn við lágan hita og þá þarf ekki að hafa hann í álpappír. Eins og ég hef skrifað hér áður er ég afar ginkeypt fyrir stjörnugjöfum, dómum og gagnrýni og ég fylgist því vel með á ári hverju hvaða hamborgarhryggir fá bestu einkunn. Kea og Ali hamborgarahryggirnir koma yfirleitt vel út í könnunum og ég nota annan hvorn þeirra.

IMG_4369

Varðandi magn þá hef ég skrifað hjá mér árlega hversu þunga hryggi ég kaupi, hversu margir borða og hvað verður eftir. Eftir að hafa reiknað þetta út þá komst ég að þeirri niðurstöðu að ég þarf að kaupa 400 grömm á mann af hamborgarahrygg með beini. Þá er ég að miða við fullorðna sem borða og að það verði afgangur.

IMG_6507

Við erum mjög hefðbundin varðandi meðlæti með hamborgarhryggnum:

Uppskrift af gljáðum hamborgarhrygg:

 • Hamborgarhryggur á beini, ca. 400 gr. á mann miðað við að það verði afgangur
 • ananassneiðar

Sykurhjúpur (f. ca. 2-3 kílóa hrygg)

 • 2,5 dl púðursykur (í ár notaði ég muscovado sykur, það kom mjög vel út)
 • 1/2 dl vínedik eða cider edik
 • 1 dl tómatsósa
 • 1 dl rjómi
 • 1/2  dl Dijon sinnep

Til að koma í veg fyrir að hamborgarhryggurinn verði of saltur (þar sem að hann er ekki soðinn í vatni) þá er gott (ekki nauðsyn) að leggja hann í ískalt vatn í ca. 2 tíma fyrir eldun, sérstaklega á þetta við um litla hryggi.

Bræðið sykur og edik saman í þykkum potti (athugið það kemur sterk lykt þegar edik og sykur er soðið saman). Þegur sykurbráðin fer að þykkjast dálítið er sinnepi, tómatsósu og rjóma bætt saman við. Hrærið vel saman og látið malla þar til blandan verður þykk. Haldið 1 dl af hjúpnum til haga fyrir sósuna. Hryggurinn er lagður í kalt vatn í 2-3 tíma (fyrir þá sem hafa áhyggur af því að hann verði of saltur). Ofn hitaður í 150 gráður (undir/yfirhita). Hryggurinn er þerraður vel og smurður með gljáanum. Því næst er hann settur á ofngrind neðarlega í ofninn og ofnskúffa botnfyllt með vatni sett undir ofngrindina. Það þarf að fylgjast með því að það sé alltaf vatn í ofnskúffunni á meðan eldun stendur og bæta við vatni við þörfum. Best er að nota kjöthitamæli sem stungið er inn í miðjan hrygginn. Hryggurinn er eldaður í ofninum við 150 gráður þar til hann nær 65 gráða kjarnhita, það er um það bil 45-60 mínútur per kíló, fer mikið eftir því hvort hryggurinn er þykkur eða mjór. Athugið að þegar um það bil klukkustund er eftir af eldunartímanum er tími til að taka soð úr ofnskúffunni og byrja á sósunni því hún þarf að sjóða niður í minnst 1 klukkustund (miðað við tvöfalda sósuuppskrift).

Ég geri alltaf nóg af gljáa og pensla 2-3svar sinnum á meðan hryggurinn er í ofninum, það er gott að setja vel af gljáa og leyfa honum að leka aðeins ofan í soðið í ofnskúffunni. Í lokin er gott að hækka ofninn í ca. 220 gráður í 10-15 mínútur. Hryggnum leyft að jafna sig í allt að 10 mínútur eftir að hann kemur úr ofninum, áður en hann er skorinn. Hann þolir líka vel að bíða lengur ef sósan er ekki tilbúin. Hamborgarhryggurinn er borinn fram með ananassneiðum.

Kóksósa (ég áætla þetta magn fyrir ca 5 einstaklinga eða með einum hrygg)

 • 1 dl af sykurhjúpnum
 • 2 dl af soðinu
 • 2 dl Coca Cola
 • 2 dl rauðvín
 • 3-5 dl rjómi
 • sósujafnari ef með þarf

Setjið soðið, kókið, rauðvín og sykurhjúpinn í pott.  Látið suðu koma upp, lækkið hitann og látið hana malla á meðal hita (þannig að hún „bubbli“) þar til hún hefur soðið niður um helming. Það er afar mikilvægt að sjóða niður sósuna, annars verður hún ekki góð! Ég lét hana malla á hitanum 5 af 9. Athugið að það tekur tíma að láta sósuna sjóða niður, ég tek því af soðinu og byrja á sósunni áður hamborgarhryggurinn er tilbúinn en ef vel á að vera þá tekur ca. klukkutíma að sjóða niður sósuna um helming (miðað við tvöfalda sósuuppskrift). Bætið þá rjóma saman við og látið malla áfram í 10-15 mínútur þar til sósan er orðin þykk og bragðmikil. Ég nota vel af rjóma því grunnurinn af sósunni er svo bragðsterkur og góður að hún þolir vel slatta af rjóma. Gott er að nota sósujafnara ef sósan er of þunn.

19182Sævar Már Sveinsson vínþjónn mælir með rauðvíninu Casillero Del Diablo Carmenere Reserva frá Chile. Það er rúbínrautt. Lýsing: Þurrt, meðalfylling, þétt tannín, fersk sýra. Skógarber, paprika, tóbak, krydd.

Ég mæli líka með jólaöli með þessum hátíðarmat! 🙂

IMG_6531

Kjúklingapasta með grillaðri paprikusósu


IMG_9476Þessa vikuna hef ég verið á endasprettinum í ritgerðinni minni og trúi því varla að ég hafi loksins verið að senda frá mér 33 þúsund orða meistararitgerð í prófarkalestur, ótrúlegt að þessari lotu sé að ljúka! *klappa sjálfri mér á öxlina* 😉 Ég hef því varla stigið inn í eldhús síðastliðna daga (ekki nema til þess að sækja mér koffein!) og því síður verið að undirbúa jólin. Ekki seinna vænna en að bretta upp ermarnar núna og fara í jólaundirbúning! Ég hlakka eiginlega mest til að taka húsið í gegn en það hefur verið verulega vanrækt síðustu þrjá mánuðina í þessari ritgerðavinnu!

Hann Vilhjálmur minn kom heim með svo frábæra skál sem hann bjó til í smíði í skólanum. Hún er svo dásamlega sæt að ég verð eiginlega að setja inn mynd af henni hér, þetta er uppáhaldsskálin mín núna!

IMG_6413Ég rakst á uppskrift í myndasafninu mínu frá því fyrr í haust sem ég var ekki enn búin að setja inn á bloggið. Þetta er voða góður pastaréttur með grillaðri papriku. Það er með ólíkindum hvað paprika breytist ef hún er grilluð, hún verður svo sæt og góð og frábær í sósur til dæmis. Þeir sem ekki nenna að standa í því að grilla paprikurnar (það er samt lítið mál!) geta keypt tilbúnar grillaðar paprikur i krukku. Ég var með brauð með pastaréttinum sem var afar einfalt og mjög fljótlegt að gera. Ég setti  saman í matvinnsluvél einn mozzarellaost, þrjá litla tómata, ferska basiliku, ólífuolíu, salt og pipar. Ég keyrði matvinnsluvélina stutt þannig að hráefnin maukuðust ekki saman heldur fóru í litla bita. Ég setti blönduna ofan á snittubrauð og hitaði i ofni við 200 gráður í 10-15 mínútur.

IMG_9488Ofsalega gott og einfalt! En hér kemur pastauppskriftin.

Uppskrift:

 • 4-5 rauðar paprikur (ég notaði reyndar blandaða liti í þetta sinn en rauðar eru bestar)
 • 3 msk furuhnetur
 • 3 msk ólífuolía
 • 1 lítill gulur laukur, saxaður smátt
 • 3 hvítlauksgeirar, saxaði smátt
 • 5 dl matreiðslurjómi
 • 2-3 kjúklingabringur
 • chilikrydd
 • salt
 • fersk steinselja
 • rifinn parmesan ostur
 • 500 gr pasta

IMG_9479Paprikur grillaðar á útigrilli eða í ofni á háum hita og þeim snúið reglulega. Þegar þær eru alveg orðnar svartar eru þær settar í lokaðan poka í smá stund til að jafna sig. Því næst er svarta grillhúðin tekin af, paprikurnar skornar í sundur og kjarninn fjarlægður.
Furuhnetur léttristaðar á pönnu. Furuhnetur og paprika maukuð saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota

Pasta soðið eftir leiðbeiningum

Kjúklingur skorin í bita, kryddaður með góðu kjúklingakryddi og steiktur á pönnu. Einnig er hægt að grilla hann í heilu á grilli og skera hann svo í bita.

Ólífuolíu hellt í stóran pott, laukur og hvítlaukur steiktur við miðlungshita þar til mjúkt, þá er paprikumaukinu bætt við út í pottinn, saltað vel og kryddað með chilikryddi eftir smekk. Því næst er rjómanum hrært út í. Sósan smökkuð til og krydduð eftir smekk. Þá er pasta og kjúklingabitunum bætt út í og öllu blandað saman. Borið fram með ferskri steinselju og rifnum parmesan osti.

IMG_9492

Laxarúllur


IMG_6339

Þessi helgi þaut hjá í jólaanda. Í gær voru skemmtilegir jólatónleikar hjá börnunum á vegum tónlistaskólans. Því næst fórum við á stjá til þess að kaupa jólatréð. Að vanda fundum við hið fullkomna tré eftir þónokkra leit!

Recently UpdatedÍ dag fórum við fjölskyldan á jólaball. Síðastliðin 20 ár hefur móðurættin mín haldið ættarjólaball árlega sem að okkur, og allri ættinni að ég held, finnst ómissandi á aðventunni. Þarna koma saman um það bil 100 ættingjar, allt frá hvítvoðungum upp í ættarhöfðingja á níræðisaldri, sem dansa í kringum jólatré saman, gæða sér á veitingum, syngja og spjalla og að sjálfsögðu kemur jólasveinn með glaðning fyrir börnin. Hefðin er sú að allir koma með eitthvað á hlaðborðið. Mér finnst alltaf gott að fá mér eitthvað annað en sætt af svona hlaðborðum. Þess vegna ákvað ég að koma með eitthvað annað en sætmeti. Eða reyndar gerði ég hvor tveggja, ég gerði tvennskonar brauðrétti og svo bjó ég líka til Marsmolana góðu, en nú notaði ég súkkulaðið Picnic sem mér finnst svo gott, í því er karamella, hnetur og rúsínur.

jólaball

Ég ætla að setja inn uppskriftina af öðrum brauðréttinum sem ég útbjó, það voru laxarúllur. En auk þess útbjó ég innbakaðan brieost með sultu í smjördeigi, ég set inn uppskriftana af þeim rétti við tækifæri. Ég fór ekki eftir neinni uppskrift við laxrúllurnar heldur setti saman það sem mér fannst gott og mér fannst þær koma vel út! 🙂

Uppskrift:

 • 500-600 gr. reyktur laximg_7932
 • 200 gr rjómaostur (ég nota Philadelphia)
 • 1 dós 18% sýrður rjómi
 • 1-2 msk piparrótamauk (er yfirleitt geymt hjá kryddunum)
 • salt og pipar
 • ferskt dill, saxað smátt
 • 5 burritos pönnukökur

Rjómaosti, sýrðum rjóma og piparrótarmauki hrært saman. Bragðbætt með salti, pipar og fersku dilli. Kreminu er smurt fremur þykkt á burritos pönnukökurnar, reyktur lax sneiddur þunnt og raðað þar ofan á. Pönnukökunum rúllað þétt saman og pakkað þétt inn í plastfilmu. Rúllurnar geymdar í ísskáp í minnst hálftíma áður en þær eru skornar niður í hæfilegar þykkar sneiðar.

IMG_6334

Piparkökubrownies með hvítu súkkulaði


IMG_6307

Piparkökubrownies með hvítu súkkulaði …. nafnið segir allt! Þessi brownie er ótrúlega blaut og djúsí með innslagi af piparkökum og hvítu súkkulaði. Í raun þrennskonar gúmmelaði sem kemur saman í einastaklega jólalegri og gómsætri köku. Þið verðið bara að prófa þessa!

En ég verð eiginlega að setja inn mynd fyrst af ótrúlega krúttulegu jólaskrauti (sem getur reyndar hangið uppi allt árið um kring) sem þjónar göfugum tilgangi. Þetta fallega hjarta er hægt að hengja á tré úti í garði til skrauts en samtímis sjá smáfuglunum fyrir smá góðgæti. Mér finnst þetta ægilega sniðugt og sætt! 🙂

IMG_6280

Svo verð ég að viðurkenna að ég verð alltaf barnslega glöð þegar ég sé vitnað í Eldhússögur. 🙂 Í dag þegar ég fletti Fréttablaðinu sá ég að þar var gefin upp uppskriftin af piparkökunum með gráðosti og valhnetum í hunangi héðan frá Eldhússögum, skemmtilegt!

IMG_6300En varðandi piparkökubrownie kökurnar þá er ég búin að gera nokkrar tilraunir með þær. Fyrst notaði ég hvíta súkkulaðidropa en mér fannst þeir of litlir og hakkaði því núna hvítt súkkulaði í aðeins stærri bita. Síðast gerði ég litlar kúlur úr piparkökudeiginu og stakk þeim meira ofan í deigið. Núna skar ég piparkökudeigið í skífur og lagði ofan á kökuna þannig að þær urðu meira eins og sér piparkökur ofan á kökunni og urðu stökkar. Hvor tveggja er gott en ég held að ég dýfi piparkökudeginu meira ofan í kökuna næst. 12-17 mínútur virðist vera afar stuttur tími en treystið tímanum. Ég bakaði þessa köku í tæpar 16 mínútur og mér fannst hún of mikið bökuð, það er enn betra að hafa hana meira blauta. Þegar kakan er tekin út virðist hún vera lítið bökuð en þegar hún fær að kólna svolítið kemur í ljós að hún er meira bökuð en maður hélt. Næst ætla ég að miða við 13-14 mínútur í mesta lagi.

Uppskrift

200 gr suðusúkkulaði
200 gr smjör
4 egg
2 dl sykur
2½ dl hveiti
örlítið salt
100 gr hvítt súkkulaði, saxað frekar smátt
piparkökudeig að vild (ég notaði ca. 120 gr)
IMG_6294
IMG_6295
Bakarofn hitaður í 200 gráður (undir og yfirhita). Smjörið er brætt í potti og suðusúkkulaðinu bætt út í og það brætt í smjörinu. Sykur og egg þeytt létt og ljóst. Þá er súkkulaðiblöndunni hellt út í og hrært saman. Því næst er hveiti og salti  hrært saman við. Deiginu er hellt í lausbotna, ca 24 cm, smurt bökunarform. Þá er hvíta súkkulaðinu dreift yfir deigið. Piparkökudeigið er rifið niður í litla bita og þeim stungið hér og þar niður i deigið eða lagt ofan á deigið í þunnum skífum ef maður vill það frekar. Bakað við 200 gráður í ca 12 – 17 mínútur, gott að hafa kökuna vel blauta og þá nægja yfirleit 12-14 mínútur. Borin fram heit eða köld, gjarnan með þeyttum rjóma eða ís.
IMG_6306