Toblerone jólaís með hnetum og banönum


 

IMG_0735Eins og ég er nú hrifin af góðum eftirréttum þá er ís einn af þeim eftirréttum sem ég er ekkert yfir mig hrifin af. Ég hef þó alltaf haft hefðbundinn heimagerðan Toblerone ís á aðfangadagskvöld í eftirrétt. Í ár ákvað ég að gera eitthvað meira úr þessum eftirrétti, einfaldlega búa til ísuppskrift sem mér sjálfri þætti ómótstæðileg! 🙂 Ég prófaði mig áfram og  datt að lokum niður á uppskrift sem mér fannst vera hnossgæti. Þetta finnst mér vera jólaísinn í ár með stóru J-i og ég er þegar orðin spennt fyrir því að bjóða upp á þennan ljúffenga ís á aðfangadagskvöld.

IMG_0740

Uppskrift:

  • 5 dl rjómi
  • 5 eggjarauður + 1 msk sykur
  • 5 eggjahvítur + 1 msk sykur
  • 400 g heslihnetu- og súkkulaðismjör (t.d. frá Nusica)
  • 200 g Toblerone
  • 1 hvítur marengsbotn
  • 1 banani
  • ca. 60 g heslihnetur

IMG_0682

Rjóminn er þeyttur. Eggjahvítur stífþeyttar ásamt 1 msk af sykri. Eggjarauður þeyttar ásamt 1 msk af sykri þar til þær verða léttar og ljósar. Marengsbotninn er brotinn niður og Toblerone súkkulaðið saxað. Um það bil 2 msk af heslihnetu- og súkkulaðismjöri er tekið frá til að nota síðar og restin hituð í örbylgjuofni í 10-20 sek eða þar til það verður nægilega fljótandi til að hægt sé að hella því, en þó ekki heitt. Þeytta rjómanum, stífþeyttum eggjahvítum, eggjarauðum, marengs, heslihnetu- og súkkulaðismjöri og Toblerone er því næst blandað varlega saman með sleikju. Hráefnunum er blandað gróflega saman, þ.e. það er fallegt að sjá rákir eftir heslihnetu- og súkkulaðismjörið í ísnum. Sett í ísform eða ca. 24 cm smelluform og í frysti í minnst 5 tíma. Áður en ísinn er borinn fram eru heslineturnar grófsaxaðar og ristaðar á þurri pönnu. Ísinn er tekinn út ca. 10 mín áður en hann er borinn fram og skreyttur með niðursneiddum banönum, ristuðum heslihnetum auk þess sem heslihnetu- og súkkulaðismjör sem tekið var frá, er hitað örsutt í örbylgjuofni og dreift yfir ísinn.  IMG_0691IMG_0729

Eftirréttir fyrir gamlárskvöld


Núna eru áramótin að bresta á og ég sé á heimsóknunum á síðuna mína að margir eru að leita að góðum eftirréttum fyrir gamlárskvöld. Á mínum 15-topplista eru eftirfarandi eftirrréttir. Ég gat ekki gert upp á milli þeirra þannig að þeir eru ekki í neinni sérstakri röð:

Browniekaka með hindberjarjóma

IMG_0594

Mascarponeþeytingur með berjum og Toffypops

IMG_9068

Súkkulaðikaka með Pipp karamellukremi

IMG_8701

Súkkulaðitvenna með hindberjum

IMG_8453

Pavlova í fínu formi

IMG_8322

Hindberjabaka með Dulce de leche karamellusósu

cropped-img_71572.jpg

Ostakaka með mangó og ástaraldin

IMG_7757

Ís með heimatilbúnu frönsku núggati og súkkulaðisoðnum perum

IMG_6042

Pannacotta með hvítu súkkulaði og ástaraldin

IMG_5967

Frönsk súkkulaðikaka

IMG_5368

Súkkulaðifrauð

IMG_3961

Pavlova

IMG_3270

Banana-karamellubaka

IMG_3193

Dásamleg kirsuberjaterta

IMG_7176

Bakaðar perur með mjúkum marengs og súkkulaði

IMG_4782

Ís með heimatilbúnu frönsku núggati og súkkulaðisoðnum perum


Ég stenst fáar freistingar þegar kemur að eftirréttum en eitt af því fáa sem ég stenst auðveldlega er ís. Þess vegna var ég alveg hissa hvað ég kolféll fyrir þessum heimatilbúna ís. En það er franska núggatið í ísnum sem gerir útslagið, það er alveg svakalega gott! Það er ekkert flókið að búa það til. Mér finnst best að nota grófsaxaðar, afhýddar möndlur. Eftir að þær hafa verið karamelluseraðar og látnar kólna er gott að saxa þær niður enn frekar en þær límast líka svolítið saman við kælinguna. Eins finnst mér flest sem inniheldur perur eða epli gott og ekki verður það verra súkkulaðisoðið! Ég mundi það of seint að það átti að súkkulaðisjóða perurnar heilar og skera þær eftir suðu en ég gerði það einmitt í fyrra þegar ég prófaði þennan rétt í fyrsta sinn. Núna skar ég þær í báta fyrir suðu en ég mæli með hinu fyrrnefnda, perurnar halda meira perubragði og eru í betra jafnvægi við súkkulaðið ef þær eru soðnar heilar. Það er líka gott að hafa bara heitu súkkulaðisósuna ef manni finnst of mikið umstang að hafa perurnar líka.

Uppskrift f. 6

Núggat:

  • 80 gr afhýddar möndlur, saxaðar gróft
  • 90 gr sykur

Hitið afhýddar möndlur og sykur á pönnu þar til sykurinn verður gullinbrúnn og hjúpar möndlurnar vel. Hellið blöndunni á smjörpappír og látið kólna. Saxið möndlurnar frekar smátt.

Núggatís:

  • 5 eggjarauður
  • 5 msk sykur
  • 5 dl rjómi, léttþeyttur
  • 1 tsk vanilludropar (ég notaði eina vanillustöng í staðinn, stöngin klofin og fræin skafin innan úr)
  • núggatið

Þeytið saman eggjarauður og sykur þar til blandan verður ljós og loftmikil. Bætið léttþeyttum rjóma, vanilludropum (eða vanillufræum) og núggati út í og blandið vel saman. Frystið.


Súkkulaðisoðnar perur:

  • 3/4 lítri vatn
  • 1 dl sykur
  • 1 dl kakó
  • 1/2 vanillustöng
  • 4 perur, afhýddar

Sjóðið vatn, sykur, kakó og vanillustöng saman. Bætið perum út í og látið sjóða við vægan hita í 1 klukkustund, hreyfið við þeim öðru hvoru. Látið perurnar kólna í leginum. Skerið þær í báta áður en þær eru bornar fram.

Heit súkkulaðisósa:

  • 150 gr suðusúkkulaði
  • 30 gr smjör
  • 2 msk síróp
  • 1 dl rjómi

Setjið allt í pott og bræðið saman.

Ísinn má laga með tveggja vikna fyrirvara. Perurnar geymast í 2-3 daga í kæli og súkkulaðisósan geymist í eina viku í kæli.