Toblerone jólaís með hnetum og banönum


 

IMG_0735Eins og ég er nú hrifin af góðum eftirréttum þá er ís einn af þeim eftirréttum sem ég er ekkert yfir mig hrifin af. Ég hef þó alltaf haft hefðbundinn heimagerðan Toblerone ís á aðfangadagskvöld í eftirrétt. Í ár ákvað ég að gera eitthvað meira úr þessum eftirrétti, einfaldlega búa til ísuppskrift sem mér sjálfri þætti ómótstæðileg! 🙂 Ég prófaði mig áfram og  datt að lokum niður á uppskrift sem mér fannst vera hnossgæti. Þetta finnst mér vera jólaísinn í ár með stóru J-i og ég er þegar orðin spennt fyrir því að bjóða upp á þennan ljúffenga ís á aðfangadagskvöld.

IMG_0740

Uppskrift:

  • 5 dl rjómi
  • 5 eggjarauður + 1 msk sykur
  • 5 eggjahvítur + 1 msk sykur
  • 400 g heslihnetu- og súkkulaðismjör (t.d. frá Nusica)
  • 200 g Toblerone
  • 1 hvítur marengsbotn
  • 1 banani
  • ca. 60 g heslihnetur

IMG_0682

Rjóminn er þeyttur. Eggjahvítur stífþeyttar ásamt 1 msk af sykri. Eggjarauður þeyttar ásamt 1 msk af sykri þar til þær verða léttar og ljósar. Marengsbotninn er brotinn niður og Toblerone súkkulaðið saxað. Um það bil 2 msk af heslihnetu- og súkkulaðismjöri er tekið frá til að nota síðar og restin hituð í örbylgjuofni í 10-20 sek eða þar til það verður nægilega fljótandi til að hægt sé að hella því, en þó ekki heitt. Þeytta rjómanum, stífþeyttum eggjahvítum, eggjarauðum, marengs, heslihnetu- og súkkulaðismjöri og Toblerone er því næst blandað varlega saman með sleikju. Hráefnunum er blandað gróflega saman, þ.e. það er fallegt að sjá rákir eftir heslihnetu- og súkkulaðismjörið í ísnum. Sett í ísform eða ca. 24 cm smelluform og í frysti í minnst 5 tíma. Áður en ísinn er borinn fram eru heslineturnar grófsaxaðar og ristaðar á þurri pönnu. Ísinn er tekinn út ca. 10 mín áður en hann er borinn fram og skreyttur með niðursneiddum banönum, ristuðum heslihnetum auk þess sem heslihnetu- og súkkulaðismjör sem tekið var frá, er hitað örsutt í örbylgjuofni og dreift yfir ísinn.  IMG_0691IMG_0729

Hátíðarmatur og nýjung á Eldhússögum


Jólastofa

Það styttist óðfluga í jólin og líkt og flestir þá er ég farin að huga að matarinnkaupunum fyrir jólin. Hátíðar snúast um hefðir og ég þarf ekkert að finna upp hjólið þegar matseðillinn er settur saman. Við snæðum hamborgarhrygg á aðfangadag, hangikjöt á jóladag en á annan í jólum er misjafnt hvað ég útbý, oft hef ég góða fiskmáltíð sem hentar vel eftir kjötmáltíðirnar dagana á undan. Allar uppskriftirnar að þessum réttum eru hér á Eldhússögum en í dag kynni ég frábæra nýjung sem ég er ákaflega spennt yfir. Ég er komin í samstarf við sommalier (vínþjón) sem ætlar að hjálpa mér að para saman góð vín með uppskriftunum mínum. Eins og ég hef talað um áður þá finnst mér voða gott að dreypa á smá léttvíni með góðri máltíð en þekking mín á vínum er afar lítil. Það verður því ákaflega gaman að geta fengið faglega hjálp við val á vínum með máltíðunum og ekki síður að geta gefið ykkur ábendingar um hvaða vín henta með uppskriftunum sem ég gef upp.

_LKI3259-2Vínþjónninn sem kominn er í samstarf við Eldhússögur heitir Sævar Már Sveinsson framreiðslumeistari sem hefur sérhæft sig í léttvínum. Sævar hefur unnið titilinn vínþjónn ársins 5 ár í röð og keppt í fjölmörgum alþjóðlegum keppnum. Hann hefur meðal annars starfað á Hótel Holti, Sommelier Brasserie og á Grillinu á Hótel Sögu. Sævar mun para saman vín með réttunum hér á Eldhússögum miðað við það hráefni sem er í uppskriftunum svo að vínið falli vel að matnum og öfugt. Þá hefur Sævar í huga atriði eins og; sætu, sýru, beiskju og seltu. Oftast gildir sú regla að setja vín með matnum sem hefur álíka eiginleika. Það þýðir að réttur með sætu meðlæti passar vel með víni með sætum ávaxtakeim og svo framvegis.

Sævar er þegar búinn að skoða nokkrar uppskriftir að hátíðarmat hér á Eldhússögum og para við þær ljúffeng léttvín.

Tillögur að gómsætum hátíðarmat og drykk sem henta vel yfir jól og áramót:

Hamborgarhryggur

Gljáður hamborgarhryggur með kóksósu

Hangikjöt

Hangikjöt með kartöfluuppstúf

IMG_0796

Kalkúnn með brúnuðum kartöflum, sætkartöflumús, gljáðum gulrótum, waldorfsalati, rósakáli með beikoni og himneskri sósu

IMG_7407

Hægeldað lambalæri með kartöflum, rjómasósu, grænmeti og sætum kartöflum

IMG_7549

Hægeldaður lambahryggur með rauðvínssósu og hunangsgljáðu grænmeti

Roastbeef

Roastbeef með bearnaise sósu, kartöflugratíni og spínatsalati með jarðaberjum

IMG_2678

Grillað nautaribeye með heimagerðri bearnaise sósu og chilikartöflum með papriku

IMG_8244

Ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu

IMG_0755

Ofnbakaður humar með heimatilbúnu hvítlaukssmjöri

IMG_0748

Freyðandi myntu- og sítrónudrykkur

IMG_6042

Ís með heimatilbúnu frönsku núggati og súkkulaðisoðnum perum

IMG_1917

Hvítt súkkulaðifrauð með hindberjasósu

Piparkökubrownies með hvítu súkkulaði


IMG_6307

Piparkökubrownies með hvítu súkkulaði …. nafnið segir allt! Þessi brownie er ótrúlega blaut og djúsí með innslagi af piparkökum og hvítu súkkulaði. Í raun þrennskonar gúmmelaði sem kemur saman í einastaklega jólalegri og gómsætri köku. Þið verðið bara að prófa þessa!

En ég verð eiginlega að setja inn mynd fyrst af ótrúlega krúttulegu jólaskrauti (sem getur reyndar hangið uppi allt árið um kring) sem þjónar göfugum tilgangi. Þetta fallega hjarta er hægt að hengja á tré úti í garði til skrauts en samtímis sjá smáfuglunum fyrir smá góðgæti. Mér finnst þetta ægilega sniðugt og sætt! 🙂

IMG_6280

Svo verð ég að viðurkenna að ég verð alltaf barnslega glöð þegar ég sé vitnað í Eldhússögur. 🙂 Í dag þegar ég fletti Fréttablaðinu sá ég að þar var gefin upp uppskriftin af piparkökunum með gráðosti og valhnetum í hunangi héðan frá Eldhússögum, skemmtilegt!

IMG_6300En varðandi piparkökubrownie kökurnar þá er ég búin að gera nokkrar tilraunir með þær. Fyrst notaði ég hvíta súkkulaðidropa en mér fannst þeir of litlir og hakkaði því núna hvítt súkkulaði í aðeins stærri bita. Síðast gerði ég litlar kúlur úr piparkökudeiginu og stakk þeim meira ofan í deigið. Núna skar ég piparkökudeigið í skífur og lagði ofan á kökuna þannig að þær urðu meira eins og sér piparkökur ofan á kökunni og urðu stökkar. Hvor tveggja er gott en ég held að ég dýfi piparkökudeginu meira ofan í kökuna næst. 12-17 mínútur virðist vera afar stuttur tími en treystið tímanum. Ég bakaði þessa köku í tæpar 16 mínútur og mér fannst hún of mikið bökuð, það er enn betra að hafa hana meira blauta. Þegar kakan er tekin út virðist hún vera lítið bökuð en þegar hún fær að kólna svolítið kemur í ljós að hún er meira bökuð en maður hélt. Næst ætla ég að miða við 13-14 mínútur í mesta lagi.

Uppskrift

200 gr suðusúkkulaði
200 gr smjör
4 egg
2 dl sykur
2½ dl hveiti
örlítið salt
100 gr hvítt súkkulaði, saxað frekar smátt
piparkökudeig að vild (ég notaði ca. 120 gr)
IMG_6294
IMG_6295
Bakarofn hitaður í 200 gráður (undir og yfirhita). Smjörið er brætt í potti og suðusúkkulaðinu bætt út í og það brætt í smjörinu. Sykur og egg þeytt létt og ljóst. Þá er súkkulaðiblöndunni hellt út í og hrært saman. Því næst er hveiti og salti  hrært saman við. Deiginu er hellt í lausbotna, ca 24 cm, smurt bökunarform. Þá er hvíta súkkulaðinu dreift yfir deigið. Piparkökudeigið er rifið niður í litla bita og þeim stungið hér og þar niður i deigið eða lagt ofan á deigið í þunnum skífum ef maður vill það frekar. Bakað við 200 gráður í ca 12 – 17 mínútur, gott að hafa kökuna vel blauta og þá nægja yfirleit 12-14 mínútur. Borin fram heit eða köld, gjarnan með þeyttum rjóma eða ís.
IMG_6306