Salat með lambalundum, sætum kartöflum, fetaosti og ofnbökuðum tómötum


IMG_6105IMG_6066

Þessi réttur hentar fullkomlega fyrir t.d. saumaklúbba eða aðrar slíkar samkomur þegar mann langar að bjóða upp á góða en einfalda rétti. Góð salöt geta verið svo hrikalega góð og í þessu salati er gjörsamlega allt sem mér þykir best, sætar kartöflur, gott lambakjöt, kasjúhnetur, avókadó, smjörsteiktir hvítlaukssveppir og margt annað gómsætt.

Uppskrift f. 4:

Marinering:

  • 600 g lambalundir eða lambafillé
  • 1 límóna (lime), safi og fínrifið hýði
  • 1.5 dl ólífuolía
  • 2 msk hunang
  • 1 tsk salt
  • ca 15 g flatblaða steinselja
  • 2 vorlaukar, saxaðir smátt
  • 4 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð smátt
  • 1 rauður chili, saxaður smátt
  • 1 msk rifið engifer

Hráefnunum fyrir marineringuna er blandað saman og helmingur hennar lögð til hliðar. Lambakjötið er lagt í merineringu í hinn helminginn í minnst 1 klukkustund. Þá er kjötið grillað eða steikt á pönnu eftir smekk. Því næst er það lagt undir álpappír í minnst 10 mínútur og að lokum skorið niður í sneiðar.

IMG_6078

Salat:

  • 500 g sæt kartafla
  • 1 rauð paprika
  • 250 g kirsuberjatómatar
  • ólífuolía
  • salt & pipar
  • chiliflögur
  • 250 g sveppir
  • ca. 20 g smjör
  • 1-2 hvítlauksrif
  • 200 g spínat
  • 2 avókadó
  • 1 krukka fetaostur í kryddolíu (250 g)
  • ca. 100 g kasjúhnetur

Ofn hitaður í 200 gráður við blástur. Kirsuberjatómatar skornir í tvennt og þeir lagðir á ofnplötu klædda bökunarpappír með skornu hliðina upp. Ólífuolíu, salti, pipar og örlítið af chiliflögum dreift yfir tómatana. Paprika skorin í bita og sætar kartöflur skornar í bita, sett saman í ofnskúffu eða í stórt eldfast mót og velt upp úr ólífuolíu, salti og pipar. Kokteiltómatarnir ásamt sætu kartöflunum og paprikunni er hitað inni í ofni í um það bil 30 mínútur. Sveppirnir eru skornir í sneiðar og steiktir upp úr smjöri, í lok steikingar er pressuðum hvítlauksrifum bætt út á pönnuna og kryddað með salti og pipar. Kasjúhnetur eru saxaðar gróft og ristaðar á þurri pönnu. Avókadó skorið í bita. Þegar sætu kartöflurnar og paprikan ásamt kokteiltómötunum er tilbúið, er öllu blandað saman við lambakjötið, sveppina, avókadó, fetaost (gjarnan dálítið af olíunni), spínat og ristuðu kasjúhneturna. Restin af marineringunni sem var geymd, er dreift yfir salatið.

IMG_6090

Pönnukaka með nautahakki


Nautahakk í pönnuköku

Það er alltaf gaman að elda nautahakk á nýjan hátt. Þessi nautahakksfyllta pönnukaka sló í gegn hér heima, sérstaklega hjá krökkunum. Það er líka svo skemmtilegt við hana að það er hægt að breyta innihaldinu eftir veðrum og vindum. T.d. er hægt að nota afgang af taco-hakki inn í pönnukökuna. Ekki er verra að bæta við soðnum hrísgrjónum út í hakkið og þá gjarnan nýta afgangs hrísgrjón.

          Pönnukaka:

  • 2,5 dl hveiti
  • 6 dl mjólk
  • 3 egg
  • 1 tsk lyftiduft
  • ½ tsk salt

Hakkfylling:

  • 500 g nautahakk
  • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • 250 g sveppir, sneiddir
  • 3 msk chilisósa (t.d. Heinz chili sauce)
  • 1/2 msk sojasósa
  • 1/2 msk balsamik edik
  • 1 dl sýrður rjómi eða rjómaostur
  • 1-2 tsk oregano
  • 1/2 tsk nautakraftur
  • salt og pipar
  • ca. 150 g rifinn ostur
  • Smjör og/eða olía til steikingar

Ofn hitaður í 225 gráður. Hveiti og salt sett í skál og um það bil helmingnum af mjólkinni hrært út í þar til deigið verður slétt. Þá er restinni af mjólkinni bætt við og að síðustu er eggjum bætt út í, einu í senn. Deiginu hellt í vel smurða ofnskúffu og bakað við 225 gráður í ca. 25 mínútur.

Laukur er steiktur á pönnu þar til hann hefur mýkst, þá er sveppum og hvítlauki bætt út á pönnuna og steikt í stutta stund í viðbót. Því næst er hakkið sett á pönnuna og allt steikt. Að lokum er chili sósu, sojasósu, balsamediki og sýrðum rjóma eða rjómaosti bætt á pönnuna og allt kryddað eftir smekk. Látið malla í 5-10 mínútur við vægan hita. Rétt áður en hakkið er tilbúið er rifna ostinum bætt út í. Þá er hakkinu dreift yfir pönnukökuna og henni rúllað upp. Borið fram með salati.

IMG_8739

Toblerone jólaís með hnetum og banönum


 

IMG_0735Eins og ég er nú hrifin af góðum eftirréttum þá er ís einn af þeim eftirréttum sem ég er ekkert yfir mig hrifin af. Ég hef þó alltaf haft hefðbundinn heimagerðan Toblerone ís á aðfangadagskvöld í eftirrétt. Í ár ákvað ég að gera eitthvað meira úr þessum eftirrétti, einfaldlega búa til ísuppskrift sem mér sjálfri þætti ómótstæðileg! 🙂 Ég prófaði mig áfram og  datt að lokum niður á uppskrift sem mér fannst vera hnossgæti. Þetta finnst mér vera jólaísinn í ár með stóru J-i og ég er þegar orðin spennt fyrir því að bjóða upp á þennan ljúffenga ís á aðfangadagskvöld.

IMG_0740

Uppskrift:

  • 5 dl rjómi
  • 5 eggjarauður + 1 msk sykur
  • 5 eggjahvítur + 1 msk sykur
  • 400 g heslihnetu- og súkkulaðismjör (t.d. frá Nusica)
  • 200 g Toblerone
  • 1 hvítur marengsbotn
  • 1 banani
  • ca. 60 g heslihnetur

IMG_0682

Rjóminn er þeyttur. Eggjahvítur stífþeyttar ásamt 1 msk af sykri. Eggjarauður þeyttar ásamt 1 msk af sykri þar til þær verða léttar og ljósar. Marengsbotninn er brotinn niður og Toblerone súkkulaðið saxað. Um það bil 2 msk af heslihnetu- og súkkulaðismjöri er tekið frá til að nota síðar og restin hituð í örbylgjuofni í 10-20 sek eða þar til það verður nægilega fljótandi til að hægt sé að hella því, en þó ekki heitt. Þeytta rjómanum, stífþeyttum eggjahvítum, eggjarauðum, marengs, heslihnetu- og súkkulaðismjöri og Toblerone er því næst blandað varlega saman með sleikju. Hráefnunum er blandað gróflega saman, þ.e. það er fallegt að sjá rákir eftir heslihnetu- og súkkulaðismjörið í ísnum. Sett í ísform eða ca. 24 cm smelluform og í frysti í minnst 5 tíma. Áður en ísinn er borinn fram eru heslineturnar grófsaxaðar og ristaðar á þurri pönnu. Ísinn er tekinn út ca. 10 mín áður en hann er borinn fram og skreyttur með niðursneiddum banönum, ristuðum heslihnetum auk þess sem heslihnetu- og súkkulaðismjör sem tekið var frá, er hitað örsutt í örbylgjuofni og dreift yfir ísinn.  IMG_0691IMG_0729

Lambapottréttur með karrí og sætum kartöflum


IMG_0711

Þegar karrí, sætar kartöflur og kóríander koma saman þá finnst mér kominn fullkominn grunnur að góðri máltíð. Ég hef sagt frá því áður að ég bý svo vel að búa nálægt Þinni verslun sem er með kjötborð, frábær lúxus að hafa auðveldan aðgang að fersku kjöti. Um daginn sá ég svo girnilegt lambagúllas í kjötborðinu og úr varð þessi ljúffengi réttur. Mér finnst ótrúlega þægilegt að búa til pottrétti sem elda sig hér um bil sjálfir. Það sama er ekki hægt að segja um naan brauðið að þessu sinni. Ég ákvað að grilla það á útigrillinu og kveikti á grillinu. Þegar ég fór út á pall tveimur mínútum seinna sá ég að mælirinn á grillinu var í botni og þegar ég opnaði lokið stóð grillið í ljósum logum, það dældi inn of miklu gasi. Ég gafst upp á að reyna að laga það og kveikti á bakarofninum en aldrei þessu vatn sló alltaf út rafmagninu við þær tilraunir. Naan brauðið var því á endanum bakað á steikarpönnu og lukkaðist betur en ég hefði haldið. Lambapottrétturinn rann hins vegar afar ljúflega ofan í allt heimilisfólkið. Elfar var einmitt rétt í þessu að gægjast yfir öxlina á mér á skjáinn og sagði: „…ummm, þessi var svo góður“! 🙂

IMG_0718 Uppskrift:

  • 1 meðalstór laukur, saxaður smátt
  • 1 msk ólífuolía + msk smjör
  • ca. 50 g massaman curry paste
  • 700 g lambagúllas
  • 500 g sætar kartöflur, skornar í bita
  • 400 g blómkál, skorið í bita
  • 250 ml kjúklingasoð
  • 1 dós Hunts tómatar í dós með hvítlauk (411 g)
  • salt og pipar
  • ferskt kóríander (hægt að nota flatblaða steinselju í staðinn)

Olía og smjör hituð og laukurinn steiktur þar til hann verður mjúkur. Þá er lambagúllasi bætt út í pottinn og steikt þar til kjötið hefur náð góðum lit. Því næst er karrí-maukinu bætt út í og steikt með kjötinu í 1-2 mínútur. Gott er að smakka sig áfram með maukið því það getur verið missterkt eftir framleiðendum. Þá er tómötum og kjúklingakrafti bætt út í, kryddað við þörfum, allt látið ná suðu og látið malla undir loki í um það bil 20 mínútur, hrært í pottinum öðru hvoru. Þá er sætum kartöflum og blómkáli bætt út í og látið malla í um það bil 15 mínútur til viðbótar eða þar til sætu kartöflurnar og blómkálið er soðið í gegn. Ferskt kóríander dreift yfir eða borið fram með réttinum ásamt hrísgrjónum, sýrðum rjóma eða grískri jógúrt og naan brauði.

IMG_0726

Kálfa parmigiana


IMG_0397

Þegar við vorum á Ítalíu síðastliðið sumar pantaði ég mér ósjaldan kálfakjöt á veitingastöðum enda er kálfakjöt mikið notað í ítalskri matargerð. Einn af mínum uppáhaldsréttum er kálfa parmigiana, klassískur réttur sem er ákaflega ljúffengur. Ég hef verið að prófa mig áfram til að finna út hvernig best er hægt að lukkast með þennan rétt heima og er ákaflega sátt við þessa niðurstöðu. Mér finnst mikilvægt að krydda hjúpinn vel og nota til þess ferskar kryddjurtir. Eins er mikilvægt að nota ekki of mikla sósu á hverja kjötsneið þannig að hjúpurinn haldist stökkur og góður. Ég var ekki viss um að auðvelt væri að finna kálfakjöt hér á landi en fann frosið ribeye kálfakjöt frá Ekro í Hagkaup (líklega til í fleiri verslunum) sem er rosalega meyrt og gott, ég mæli með því. Oftast eru notaðar kótilettur í kálfa parmigiana en mér fannst kálfa ribeye koma vel út. Það er líka hægt að nota kjúklingabringur í þessa uppskrift. Fyrir þá sem vilja spara sér tíma er hægt að kaupa tilbúna pastasósu, ég mæli þó með þessari heimagerðu frekar. Uppskriftin er stór en það er vel hægt að minnka hana við þörfum. Ég hvet ykkur til að fá smá Ítalíu heim í eldhúsið og prófa þessa uppskrift! 🙂

Kálfa parmigiana f. 6

  • 1 kíló kálfakjöt (ég notaði Ekro ribeye)
  • 1 dl hveiti
  • 3 -4 egg
  • 3 dl brauðraspur
  • 2 dl rifinn Parmareggio parmesan ostur
  • 15 g fersk basilika
  • 15 g fersk flatblaðasteinselja
  • salt og pipar
  • 3 ferskar mozzarella kúlur (samtals 360 g)
  • ¾ dl ólífuolía
  • 1-2 msk smjör
  • 500 g spaghettí

Pastasósa:

  • 5 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð smátt
  • 2 meðalstórir laukar, saxaðir smátt
  • 2-3 msk ólífuolía
  • 1 dós Hunt’s garlic saxaðir tómatar (411 g)
  • 2 dósir Hunt’s basil, garlic & oregano saxaðir tómatar
  • 3 msk tómatpaste
  • 2 msk balsamedik
  • 1 msk oregano
  • salt og pipar

Kjötið er látið þiðna í ísskáp í minnst einn sólarhring (ef það er frosið). Nokkrum tímum áður en kjötið er eldað er það tekið úr ísskáp og látið ná stofuhita.

Pastasósa er útbúin með því að ólífuolía er hituð í potti og laukurinn steiktur í nokkrar mínútur þar til hann verður mjúkur. Þá er hvítlauki bætt út í og steikt í smá stund til viðbótar. Því næst er tómötum, tómatpaste og balsamediki bætt út í ásamt kryddum og sósan látin malla í allavega 20-30 mínútur. Smökkuð til með kryddum.

Ofn hitaður í 180 gráður við undir- og yfirhita. Kjötið er skorið í fremur þunnar sneiðar sem eru snyrtar og barðar þunnar með kjöthamri. Hveiti er sett í skál. Eggin brotin og sett í aðra skál, pískuð létt saman. Í þriðju skálina er blandað vel saman brauðraspi, ca. 2/3 af parmesan ostinum, smátt saxaðri basiliku og flatblaðasteinselju, kryddað með salti og pipar. Kjötsneiðunum er nú velt upp úr hveiti (umfram hveiti bankað af), eggjablöndunni og loks brauðraspinum. Hluti af olíunni og smjörinu er hitað á pönnu og nokkrar kjötsneiðar í einu steiktar á fremur háum hita í um það bil 2-3 mínútur á hvorri hlið (fer eftir þykkt). Ólífuolíu og smjöri bætt við út á pönnuna við þörfum og þess gætt að fitan sé heit þegar kjötið fer á pönnuna. Kjötsneiðunum er raða á ofnplötu. Dálítið af pastasósu er dreift á hverja kjötsneið (ekki of mikið svo að raspurinn haldist stökkur). Því næst er mozzarella osturinn skorin í sneiðar og raðað yfir kjötsneiðarnar. Að lokum er restinni af parmesan ostinum dreift yfir. Bakað í ofni við 180 gráður í um það bil 10 mínútur. Borið fram með spaghettí og afganginum af pastasósunni. IMG_0395