Marengsterta með piparmyntu Nóa kroppi og Pippi


Marengsterta með piparmyntu Nóa kroppi og Pippi Ég hef talað um það áður að um leið og Nói Siríus kemur með eitthvað nýtt sælgæti á markað þá endar það yfirleitt mjög fljótt í tertu eða köku hjá mér. Núna kom á markað nýtt Nóa kropp, að þessu sinni með piparmyntubragði. Hingað til hefur ekkert Nóa kropp slegið út hinu eina og sanna en ég held svei mér þá að þetta komi ansi nálægt því. Ég veit ekki hvort þið kannist við Remi piparmyntu súkkulaðikexið (ef ekki – þá mæli ég með þeim kynnum!), nýja Nóa kroppið minnir mikið á það ljúffenga kex. Ég ákvað að baka margengstertu fyrir afmæli litlu frænku minnar og nota nýja piparmyntu Nóa kroppið ásamt piparmyntu Pippi. Vissulega er þessi marengsterta engin nýjung, bara tilbrigði við þessa gömlu góðu en hún var allavega mjög vinsæl í veislunni og ég mæli sannarlega með henni. Það mætti kannski halda að þessi færsla væri styrkt af Nóa Siríus en svo er ekki … það er eiginlega öfugt, ég er öflugur styrktaraðili Nóa! 😉 Marengsterta með piparmyntu Nóa kroppi og Pippi Marengs:

  • 2 dl sykur
  • 1 dl púðursykur
  • 5 eggjahvítur
  • 3 bollar Rice Krispies

Ofn hitaður í 120 gráður við blástur (ef baka á báða botnana samtímis) eða 130 gráður við undir- og yfirhita. Eggjahvítur, púðursykur og sykur er þeytt þar til marengsinn er orðinn stífur. Þá er Rice Krispies bætt varlega út í marengsinn með sleikju. Diskur eða kökuform sem er um það bil 23 cm. í þvermál er lagt á bökunarpappír og strikaður hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar. Marengsinum er skipt í tvennt og hann
settur á sitt hvorn hringinn. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða. Þá er marengsinn bakaður í 120°C (blástur) í heitum ofni í um það bil 60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum.

Rjómafylling:

  • 5 dl rjómi
  • 250 g fersk jarðaber, skorin í bita
  • ca. 150 g Nóa kropp með piparmyntu
  • 50 g Pipp með piparmyntu, skorið smátt

Rjóminn er þeyttur og jarðaberjunum ásamt Nóa kroppi og Pippi er blandað út í rjómann. Rjómablandan er svo sett á milli marengsbotnanna þegar þeir eru orðnir kaldir.

Pipp krem: 

  • 5 eggjarauður
  • 5 msk flórsykur
  • 150 g Pipp með piparmyntu
  • 100 g suðusúkkulaði

Eggjarauður og flórsykur þeytt vel saman. Pipp og suðursúkkulaði er brotið niður í skál og brætt yfir vatnsbaði. Ef súkkulaðiblandan er of þykk er hægt að bæta örlítilli mjólk eða rjóma út í. Þegar súkkulaðið hefur bráðnað og kólnað örlítið er þvi bætt varlega út í eggjarauðu- og flórsykurblönduna. Kreminu er því næst dreift yfir marengstertuna. Skreytt með berjum, t.d. jarðaberjum, bláberjum, hindberjum, rifsberjum og blæjuberjum. Tertan er geymd í ísskáp og er líka góð daginn eftir. IMG_8843 IMG_8846