Snittur með lambafille og sætkartöflumús


Snittur með sætkartöflumús og lambafilleUm síðustu helgi skrifaði ég um útskriftarveislu Óskar. Í veislunni prófaði ég nokkra nýja smárétti og þessi uppskrift af ljúffengum snittum með lambakjöti og sætkartöflumús var einn af þeim. Uppskriftin var í sama Gestgjafa blaði og uppskriftin af vorrúllunum og kemur frá Happi. Ég prófaði líka að setja grillaða kjúklingabringu á snittuna og það var ákaflega gott, það er því auðvelt að skipta út lambakjötinu fyrir kjúkling ef maður kýs það heldur. Ég breytti upphaflegu uppskriftinni dálítið og skrifa hana hér inn breytta.

IMG_5856

Uppskrift, ca. 20 snittur

  • 200 g lambafille
  • 2 msk olía
  • 1 tsk cummin
  • chill explosion krydd
  • maldon salt
  • gófmalaður svartur pipar

Olía, cummin og chili-krydd hrært saman og lambakjötinu velt upp úr blöndunni. Kjötið grillað í nokkrar mínútur á útigrilli þar til það er steikt eftir smekk (mér finns best að hafa það vel rautt í miðjunni). Í lok eldunartímans er kryddað með salti og pipar. Kjötið er látið jafna sig eftir grillun í minnst 10 mínútur og því næst skorið í mjög þunnar sneiðar.

Sætkartöflumús:

  • 1 meðalstór sæt kartafla, skorin í fremur litla bita
  • 3 msk philadelphia rjómaostur
  • chili explosion krydd
  • ca. 1/2-1 tsk rósmarín
  • salt & pipar

Sæta kartaflan eru afhýdd og skorin í bita. Bitarnir eru því næst soðnir í 10-15 mínútur eða þar til kartöflurnar eru soðnar í gegn. Þá eru þær stappaðar saman við rjómaost og krydd í potti við lágan hita.

Hindberjasósa:

  • 2 dl frosin hindber
  • agave síróp, eftir smekk
  • maldon salt, eftir smekk

Hindberin afþýdd og sett í blandara, smakkað til með agave sírópi og örlítið af salti. Ef með þarf er hægt að þynna með vatni.

Brauð:

  • 1 snittubrauð (eitt snittubrauð gefur ca. 20 snittur, stærðin fer þó svolítið eftir því hvar brauðið er keypt.)
  • ólífuolía

Skraut og samsetning:

  • ristaðar furuhnetur
  • ferskt spínat, saxað gróft
  • fersk bláber

IMG_5665

Bakarofn stilltur á 220 gráður, undir- og yfirhita. Brauðin eru sneidd í mátulega þykkar sneiðar, dálítið á ská þannig að sneiðarnar verði stærri. Sneiðunum er raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír og hver og ein sneið pensluð með ólífuolíu. Brauðin bökuð við 220 gráður í nokkrar mínútur þar til þau eru orðin passlega gullinbrún. Þá eru þau tekin út og leyft að kólna.

Þegar brauðin eru orðin köld er sett vel af sætkartöflumús á hverja sneið. Því næst er grófsaxað spínat sett ofan á karöflumúsina, þá lambakjötssneið og að lokum er hindberjasósunni dreypt yfir. Skreytt með ristuðum furuhnetum og ferskum bláberjum. Athugið að hægt er að setja saman snittuna með smá fyrirvara en best er að setja hindberjasósuna á rétt áður en snitturnar eru bornar fram. IMG_5853 IMG_5857

 

 

Kjúklingalasagna með mozzarella, basiliku og tómötum


KJúklingalasagna með mozzarella, basilku og tómötumÍ gær fór ég í óvissuferð með frábærum vinnufélögum. Við fórum meðal annars í bjórsmökkun hjá Ölvisholti – brugghúsi. Ég drekk almennt ekki bjór en það vakti athygli mína þegar eigandinn kom inn á allskonar mataruppskriftir þar sem bjór kemur til sögunnar. Ég fékk nánari útfærslu hjá honum ætla að prófa þá uppskrift innan skamms og ef vel til tekst þá ratar hún hingað inn á bloggið.

Í dag erum við fjölskyldan eiginlega bara búin að liggja í leti, svoleiðis dagar eru nauðsynlegir öðru hvoru. Reyndar kallast það kannski ekki að liggja í leti að hafa farið í gegnum bílskúrinn og hent rusli í Sorpu, eldað mat, lagað til og þvegið þvott! 🙂 Þetta er samt búinn að vera rólegri dagur en flestir og Elfar meira að segja í fríi. Þessi gómsæti kjúklingaréttur er á dagskránni fyrir kvöldið. Lasagna er einn af mínum uppáhaldsréttum. Hér prófaði ég mig áfram með að gera lasagna úr kjúklingi og mikið var ég ánægð með dásamlegu góðu útkomuna! Ekki nóg með að þetta sé frábærlega gott lasagna heldur er það einstaklega fljótlegt að útbúa sem er mikill kostur. Þetta er tilvalinn réttur til að bjóða upp á í matarboði; gómsætur, drjúgur, hægt að útbúa með fyrirvara og bragð sem öllum líkar. IMG_7256

Kjúklingalasagna f. 5:

  • 1 lítill rauðlaukur, saxaður smátt
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 900 g úrbeinuð kjúklingalæri eða kjúklingabringur frá Rose Poultry, skorin í litla bita
  • Falksalt með hvítlauk
  • svartur grófmalaður pipar
  • 1 tsk þurrkuð basilika
  • 1 tsk oregano
  • chili flögur (t.d chili explosion) eftir smekk
  • 2 tsk kjúklingakraftur frá Oscars
  • smjör og/eða olía til steikingar – ég notaði Filippo Berio með basilikubragði
  • 1 box Philadelphia ostur – natural (200 g)
  • 1 dós Hunt’s pastasósa með hvítlauk og lauk (414 ml)
  • ca. 6-8 lasagnaplötur
  • ca. 2 1/2 dl rifinn parmesan
  • ca. 12 kirsuberjatómatar, skornir í tvennt
  • fersk basilika, ca 30 g
  • 1 mozzarellaostur (125 g – kúlan í pokunum), skorinn í þunnar sneiðar

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Laukurinn er steiktur á pönnu þar til hann er mjúkur, þá er hvítlauknum bætt á pönnuna og hann steiktur með lauknum í smá stund. Því næst er kjúklingnum bætt á pönnuna, kryddað með salti, pipar, oregano, basilku og chili auk þess sem kjúklingakraftinum er bætt út í. Þegar kjúklingurinn hefur ná góðri steikingarhúð er rjómaostinum bætt út á pönnuna og hann látin bráðna við meðalhita. Þá er helmingnum af pastasósunni dreift á botninn á eldföstu móti. Því næst er sósan þakin með lasagnaplötum. Þá er helmingnum af kjúklingnum dreift yfir lasagnaplöturnar. Nú er helmingnum af parmesan ostinum dreift yfir kjúklinginn. Restinni af pastasósunni er því næst dreift yfir, þá einu lagi af lasagnaplötum, svo kjúklingnum. Því næst er basilikublöðunum dreift yfir ásamt kokteiltómötunum. Að lokum er restinni af parmesan ostinum dreift yfir og mozzarellasneiðunum raðað yfir. Gott er að krydda örlítið með basiliku kryddi í lokin. Hitað í ofni við 200 gráður í 20-30 mínútur eða þar til að lasagna er eldað í gegn og osturinn hefur tekið góðan lit. Borið fram með fersku salati og góðu brauði.

IMG_7227IMG_7234IMG_7238IMG_7260

Kalkúnavorrúllur og stúdentsveisla


IMG_5795Í gær var stór dagur hjá okkur fjölskyldunni en þá útskrifaðist Óskin okkar úr Versló. Mér finnst stúdentsútskriftir svo dásamlegar. Glæsileg ungmenni sem standa á þröskuldi fullorðinslífsins, menntaskólinn að baki og þau geta tekið hvaða þá stefnu í lífinu sem hugur og hjarta girnist. Ósk er metnaðarfull og dugleg, hún er löngu búin að ákveða að fara í lögfræði næsta haust og hún hlakkar mikið til að takast á við það verkefni. IMG_5762IMG_5736Við vorum með veislu heima í tilefni dagsins. Fyrst sátum við þó langa og skemmtilega athöfn i Háskólabíói. Það er með ólíkindum hversu hæfileikaríkir krakkar eru í Versló. Þarna tróðu upp krakkar úr útskriftarhópnum með glæsilegum söng, óperusöng, spiluðu Rachmaninoff á píanó og ég veit ekki hvað. Dúx skólans var sá hæsti í sögu skólans, fékk 9.8! Það þarf sannarlega ekki að bera kvíðboga fyrir framtíðinni þegar allir þessir flottu krakkar taka við keflinu af okkur „gamla“ fólkinu! 🙂 IMG_5848Við vorum með allskonar smárétti í veislunni. Ég útbjó allt sjálf fyrir utan þrennt, risarækjurnar og sushi frá Osushi og svo keypti ég líka glæsilegar litlar stúdentskökur frá Önnu konditori. Mér finnst svo fallegar stóru stúdentsterturnar hennar. Önnu KonditoriHins vegar vildi ég hafa allt í smáréttaformi. Ég bað því Önnu um að gera litlar kökur með stúdentshúfum sem hún og gerði – þvílíkt flott! 🙂 IMG_5797 IMG_5796Ég gerði að auki tvenns konar sæta bita, litlar Pavlovur og franska súkkulaðikökubita. Það er algjör snilld að búa til franska súkkulaðiköku og bera fram í litlum munnbitasneiðum með smá rjóma og jarðaberi, fullkomnun í einum munnbita! 🙂 Það er lítið mál að tvöfalda þessa uppskrift, setja hana í ofnskúffu og baka í 30 mínútur. Þegar kremið er komið á er gott að setja hana í kæli áður en hún er skorin niður í litla bita. Mér finnst best að setja svo rjómann og jarðaberið á rétt áður en kakan er borin fram, þannig er það ferskast. IMG_5741 Að auki gerði ég litlar Pavlovur sem eru alltaf svo góðar. IMG_5740 Að þessu sinni prófaði ég nokkrar nýjar smáréttauppskriftir sem lukkuðustu vel. IMG_5791IMG_5755 Ég fann uppskrift að skemmtilegum vorrúllum í Gestgjafanum (minnir að hún hafi komið frá Lukku í Happi). IMG_5746Ég breytti aðeins uppskriftinni eftir ábendingu vinkonu minnar sem prófaði þær um daginn. Í uppskriftinni er kjúklingur hakkaður. Hins vegar er tilbúið kalkúnahakk (frosið) í versluninni Víði og það kostar bara 799 krónur kílóið. Ég notaði það og einfaldaði aðeins uppskriftina, hún kom vel út og var mikið auðveldari en ég hélt. Wonton deigið er eins og örþunnt smjördeig sem kemur í litlum ferningum, ca. 50 stykki í pakka (misjafnt þó eftir tegundum), það fæst í Víetnömsku búðinni á Suðurlandsbraut. Deigið kemur frosið og kostar um 800 krónur pakkinn. Það er mjög fljótt að þiðna og auðvelt í notkun. Í þessari uppskrift eru rúllurnar hitaðar í ofni sem kemur vel út en auðvitað er örugglega enn meira djúsí að djúpsteikja þær. Það er lítið mál að útbúa þessar rúllur deginum áður og geyma þær í kæli. Svo er gott að hita þær aðeins upp í ofni áður en þær eru bornar fram. IMG_5790 Uppskrift (ca. 30-40 rúllur)

  • 600 g kalkúnahakk (fæst frosið hjá Víði)
  • 3 msk sesamolía
  • 2 msk bragðlítil olía
  • 6 hvítlauksgeirar, rifnir
  • 4-5 msk ferskt engifer, rifið
  • 250 g sveppir, saxaðir smátt
  • 1 stór blaðlaukur, saxaður smátt
  • ca. 2 meðalstór rauð chili aldin, fræhreinsuð og söxuð mjög smátt
  • 6 msk Hoisin-sósa
  • 10-12 dl fínt skorið kínakál
  • 1 pakki Wonton deig (fæst í Víetnömsku búðinni – Suðurlandsbraut)
  • olía til að pensla rúllurnar með
  • sweet chill sósa til að dýfa vorrúllunum í

Ofn stilltur á 190 gráður við undir- og yfirhita. Sesamolía og olía hituð á pönnu. Hvítlaukur og engifer er steikt í nokkrar mínútur (má ekki brenna). Þá er kalkúnahakkinu bætt út á pönnuna og það steikt. Því næst er sveppunum bætt út í og allt steikt í nokkrar mínútur. Svo er blaðlauk, chili og hoisin-sósu bætt út í látið malla í 1-2 mínútur og pannan því næst tekin af hellunni. Að síðustu er kínakálinu blandað saman við og blandan látin kólna dálítið. Einn Wonton ferningur er tekinn fram og ca. 2 tsk af blöndunni er sett inn í ferninginn, brotið lítið eitt upp á sitt hvorn endann og deiginu rúllað þétt upp. IMG_5666Gott er að hafa vatn í skál hjá sér og bleyta endann á deiginu þegar loka á samskeitunum á rúllunni. Þá er fingrinum dýft ofan í vatnið og brúnirnar bleyttar hæfilega mikið á deiginu. Rúllunum er raðað, með samskeytin niður, á ofnplötu klædda bökunarpappír. Rúllurnar eru penslaðar með olíu og settar inn ofn í um það bil 7-8 mínútur. Þá er þeim snúið við og þær bakaðar áfram í ca. 7-8 mínútur eða þar þær hafa náð fallegum lit og eru stökkar. Rúllurnar eru bornar fram með sweet chili-sósu. IMG_5669IMG_5671IMG_5793

Kjúklinganúðlur í Hoisin sósu


IMG_6667Það er gaman að segja frá því að um þessar mundir er að detta inn í matvöruverslanir veglegur bæklingur með kjúklingauppskriftum sem ég vann fyrir Rose Poultry kjúklinginn góða. Í bæklingnum eru fjölmargar einfaldar og ljúffengar kjúklingauppskriftir og verður bæklingurinn ókeypis. Ég mæli með því að þið svipist um eftir Rose Poultry kjúklingnum í frystinum í næstu búðarferðum og grípið með ykkur þennan uppskriftabækling í leiðinni. Bæklinginn er oftast nær að finna nálægt Hunts grillsósunum en svo getið þið líka náð í hann rafrænt hér! Það er dálítið misjafnt hvaða tegundir af Rose Poultry kjúklingi fæst í hvaða búðum, þ.e. bringur, úrbeinuð læri eða lundir, en í uppskriftun í bæklingnum er alltaf hægt að nota hvaða kjúklingahluta sem er. Núna er ég með dálítið æði fyrir kjúklingalundunum, þær eru svo ofsalega mjúkar og góðar. Ég varð því mjög glöð þegar ég sá að verslunin Iceland er með Rose lundirnar til sölu því þær fást ekki alltaf í öðrum verslunum. 20140522-165140 Eins og þeir vita sem fylgjast reglulega með Eldhússögum þá nota ég mikið Green Gate matarstellið og finnst það óendanlega fallegt! Í bæklingnum sést í fjölmargar tegundir af Green gate matarstellinu en slóðin á verslunina er ekki alveg rétt í bæklingnum, hún er Cupcompany.is en ekki .com í lokin eins og gefið er upp. Ég fer einmitt reglulega þangað inn og dáist að nýjasta stellinu sem er blúndustell! Það heitir Lace warm gray og er klárlega efst á óskalista mínum um þessar mundir! 🙂 Í tilefni af útkomu bæklingsins þá ætla ég að setja hér inn eina uppskrift úr honum. Þetta er ofureinfaldur kjúklingaréttur með núðlum en ó svo góður! Það er svo langt síðan að ég gerði uppskriftirnar fyrir þennan bækling að ég var búin að steingleyma þessum rétti þar til að ég sá hann núna í nýprentuðum bæklingnum. Ég var því mjög spennt að búa hann til aftur í kvöld og rifja upp hvort að hann væri jafn góður og okkur fjölskylduna minnti – sem hann var. Kjúklingur, núðlur og wokgrænmeti finnst mér alltaf svo gott saman en þá verður allt þetta þrennt að vera bundið saman með góðri asískri sósu. Í þessari uppskrift er sósan mjög einföld en að sama skapi afskaplega góð. Þessi réttur er mjög fljótlegur að útbúa, sem er alltaf kostur í dagsins önn, en líka einstaklega bragðgóður. Kjúklingalundirnar eru fljótar að þiðna. Stundum tek ég þær úr frystinum rétt fyrir matargerð, set þær í örbylgjuofn á lægstu stillinguna í örstutta stund til þess að taka mesta frostið úr þeim, sker þær svo niður hálffrosnar og þá þiðna þær á afar skömmum tíma. IMG_6668 Kjúklinganúður í Hoisin sósu f. 3-4

  • 700 g úrbeinuð kjúklingalæri eða kjúklingalundir frá Rose Poultry
  • ólífuolía til steikingar
  • saltflögur (Falksalt)
  • grófmalaður svartur pipar
  • ca. 30 g ferskt kóríander, saxað
  • 1.5 dl hoisin sósa frá Blue Dragon
  • 2 dl chili sósa frá Heinz
  • 1/2 dl hunang
  • 2 msk ferskt engifer, rifið
  • 300 g medium egg noodles frá Blue Dragon
  • 500 g frosið wok grænmeti

Kjúklingurinn er skorinn í bita og kryddaður með salti og pipar. Hoisin sósa, chili sósa, hunang, engifer og kóríander er hrært saman í skál. Kjúklingurinn er því næst steiktur á pönnu upp úr ólífuolíu þar til hann hefur náð góðum lit. Þá er sósunni hellt á pönnuna og látið malla við vægan hita. Þegar kjúklingurinn er hér um bil eldaður í gegn er wokgrænmetinu bætt á pönnuna og látið malla þar til grænmetið og kjúklingurinn er tilbúið. Á meðan eru núðlurnar soðnar örlítið styttra en leiðbeiningar segja til um, ef uppgefinn tími er 4 mínútur passar að elda þær í 3 – 3 ½ mínútur (eldunin á þeim klárast þegar þær fara á pönnuna). Að lokum er núðlunum bætt á pönnuna og öllu blandað vel saman við meðalhita. Rétturinn er borinn strax fram þá er gott að strá yfir hann fersku kóríander. IMG_6664

Brauðbollur með eplum og gulrótum


IMG_5631

Ég er enn að jafna mig á tímamismuninum frá New York ferðinni. Það er aldrei neitt mál að fljúga „aftur í tímann“ til Bandaríkjanna en verra þegar flogið er heim aftur. Ég sef illa og er eitthvað hálf utan við mig vegna þess. Til dæmis bakaði ég ofsalega góða köku í dag – eða hún hefði verið mjög góð ef ég hefði ekki gleymt eggjunum! Ég ætla nú samt að gera þessa köku aftur strax í kvöld. Ég tók kökuna nefnilega út úr ofninum hálfbakaða þegar ég uppgötvaði eggjaleysið (treysti ekki að hún yrði í lagi án eggja), smakkaði á henni og maður minn hvað hún var bragðgóð! Hins vegar bakaði ég líka brauðbollur í dag sem heppnuðust ákaflega vel. Ég tók þær með mér í kaffi til afa og ömmu. Afi sagðist aldrei hafa fengið svona góðar brauðbollur áður. Ég geri mér alveg grein fyrir því að amma og afi tala nú kannski svona vel um réttina mína þar sem ég er barnabarnið þeirra en satt best að segja þá var ég líka ofsalega ánægð með brauðbollurnar í dag. 🙂 Þær voru einstaklega safaríkar og góðar, eplin og gulræturnar gera svo mikið fyrir þær. Eins notaði ég hveitið í bláu pökkunum frá Kornax en það er sérstaklega ætlað í brauðbakstur og mér finnst það gera öll brauð mikið léttari, mýkri og betri. Það er sniðugt við þessar bollur að þær er hægt að kaldhefa yfir nóttu í ísskáp og skella þeim í ofninn að morgni og gæða sér á nýbökuðum og safaríkum brauðbollum í morgunmat. Í dag gerði ég það hins vegar ekki heldur lét ég deigið bara hefast við stofuhita í eina klukkustund og það kom mjög vel út.

IMG_5640

Uppskrift:

  • 1 bréf þurrger (ca. 12 g) Kornax hveiti - blátt
  • 5 dl kalt vatn
  • 1-3 gulrætur (fer eftir stærð) eða sem samsvarar 2.5 dl af rifnum gulrótum
  • 2 epli eða sem samsvarar 3.5 dl af rifnum eplum
  • 2 msk olía
  • 2 msk hunang (fljótandi)
  • 2 tsk salt
  • 3 dl Durum mjöl frá Finax
  • ca 1 kíló blátt Kornax hveiti 

Vatnið er sett í skál og gerinu blandað saman við vatnið með písk. Gulrætur og epli eru afhýdd, rifin gróft og sett út í gerblönduna. Því næst er olíu, hunangi og salti bætt út og látið bíða í nokkarar mínútur. Að lokum er Durum mjöli og hveiti bætt út í og hnoðað saman í höndum eða vél þar til deigið er orðið slétt. Þá er plastfilma eða viskustykki sett yfir skálina og deigið látið hefast í ísskáp yfir nóttu (eða í eina klukkustund við stofuhita). Ofn stilltur á 225 gráður og bökunarplata klædd bökunarpappír. Deigið er sett á plötuna og flatt út jafnt í alla kanta. Því næst er deigið skorið í ferninga með pizzahníf eða beittum eldhúshníf.

IMG_5623 Þá er stungið hér og þar í degið með gaffli. Viskustykki sett yfir plötuna og látið hefast í 20 – 30 mínútur til viðbótar. Því næst er bökunarplatan sett inn í ofn og bakað við 225 gráður í um það bil 20 mínútur. Ein bökunarplata gefur um það bil 20 brauðbollur.

IMG_5628 IMG_5630 IMG_5638

Brúnku-ostakaka með Dumle karamellukremi


Brúnku-ostakaka með Dumle karamellukremi

Þá erum við hjónin komin heim eftir dásamlega New York ferð. Sem betur fer rétt sluppum við fyrir horn með flugmannaverkfallið. Öll Evrópuflug féllu niður þennan dag en það var flogið til Bandaríkjana þrátt fyrir nokkra tíma seinkun. Við áttum helgina í fríi saman en svo sótti Elfar ráðstefnu og hélt þar erindi. Á meðan gekk ég New York þvera og endilanga og IMG_3022lét mér sko ekki leiðast! Mér finnst svo gaman að fara í svona borgarferðir og skoða þar menninguna, umhverfið, mannlífið svo ekki sé minnst á matarmenninguna. Þó ég haldi mest upp á gamlar og virðulegar Evrópuborgir líkt og París þá er líka eitthvað svo heillandi  við New York. Borgin er einstök, engin hverfi í borginni eru eins og Central Park er í raun ótrúlegur garður – byggður algjörlega af manna höndum fyrir 150 árum.

Áður en ég fer í svona ferðir þá undirbý ég þær afar vel. Þó það sé líka gaman að ráfa um stefnulaust og skoða það sem fyrir augu ber í ókunnugri borg þá gefur það manni langmest að vera vel undirbúinn. Til dæmis þá leiðist mér ákaflega mikið að eyða óþarfa tíma við að leita að veitingastöðum og enda svo kannski á því að fá vondan og óspennandi mat. Ég er því alltaf búin að bóka borð á veitingastöðum öll kvöldin sem við dveljumst í borginni, betra að vera búin að bóka og afpanta þá frekar ef plönin breytast. Ég skoða mikið síður eins og Tripadvisor þar sem aðrir ferðalangar segja frá sínum upplifunum, svo skoða ég staðsetningu, matseðla og verð á viðkomandi veitingastöðum. Á mjög mörgum veitingastöðum verður hreinlega að bóka með margra vikna fyrirvara sökum vinsælda. Ég skrifa líka hjá mér nokkra góða hádegisverðarstaði í helstu hverfunum og get þá droppað inn í hádeginu þar sem ég er stödd hverju sinni á þeim veitingastöðum sem ég veit að eru góðir. Okkur hefur reynst best að fara á meðaldýra og ódýra veitingastaði í svona ferðum. Oft eru dýrir og fínir veitingastaðir ekkert með betri mat en hægt er að fá annarsstaðar (sérstaklega hér Íslandi IMG_7660þar sem matur á gæða veitingastöðum er einstaklega góður) og verðið á veitingastöðum í stórum borgum er afar hátt. Til dæmis var besti maturinn sem við fengum að þessu sinni djúpsteiktur kjúklingur á pínulitlum stað í Greenwitch Village sem er eiginlega bara „take away“ staður – ég get svarið það – ég fæ bara vatn í munninn þegar ég hugsa um hann núna! 🙂 Þetta var jafnframt ódýrasta máltíðin sem við borðuðum í ferðinni! Við fórum þangað fyrsta daginn og töluðum um þennan kjúkling það sem eftir lifði ferðar. Staðurinn heitir Sticky´s Finger Joint (ef vel er að gáð þá sést í okkur hjónin á þessari mynd! 🙂 ) og þið megið ekki láta hann framhjá ykkur fara ef þið eruð í New York. Við deildum með okkur nokkrum tegundum og mér fannst mozzarellafyllti kjúklinginn bestur en Elfar var hrifnastur af Wasabi kjúklingnum. IMG_3023Þetta verður sannarlega fyrsti viðkomustaður okkar í næstu ferð til New York! 🙂

IMG_7691Við gerðum margt annað skemmtilegt. Á vegum ráðstefnunnar var ofslega flott galakvöld á American Museum of Natural History. Þar var í boði þriggja rétta dásamlega góður málsverður í þessu frábæra umhverfi. Einnig tróð upp magnaður gospel kór og í kjölfarið frábær hljómsveit sem spilaði undir dansi fram á nóttu. Hápunkturinn var hins vegar Broadway sýningin sem við fórum á, Jersey Boys. Hún byggist á skrautlegum ferli hljómsveitarinnar Frankie Valli and the Four Seasons. Þeir áttu marga smelli sem lifa góðu lífi í dag. Á sviðinu í Broadway er svo brjálæðislega hæfileikaríkt fólk að það er eiginlega sama hvaða sýningu maður sér, þær eru allar frábærar. Við vorum reyndar einstaklega ánægð með þessa sýningu því við vorum svo hrifin af lögunum. Til dæmis er lagið Begging búið að hljóma í Ipodi okkar beggja stanslaust undanfarna daga. Ef skoðaður er listinn á Tripadvisor yfir topp „attractions“ í New York þá trónir einmitt Jersey Boys söngleikurinn efst þar á lista. Ég mæli með að nota TKTS básana til að kaupa miða á Broadway sýningar með 50% afslætti. Við fengum miða á 73 dollara per mann sem er sannarlega hvers dollara virði.

En svo ég víki frá New York að Eldhússögu dagsins þá segir sú saga frá einstaklega djúsí og góðri köku! Þessi kaka hæfir sérstaklega vel sem eftirréttur því hún er sæt og góð og hæfilegt að fá sér bara eina sneið og satt best að segja hefur hún slegið í gegn hjá öllum þeim sem hafa smakkað hana hjá mér. Að blanda saman brownie og ostaköku er bara snilld og kremið sjúklega gott, súkkulaði, karamella og hnetur brætt saman … þetta er bara klikkuð blanda börnin góð! 🙂

IMG_4584

Uppskrift: 

Rjómaostablanda

  • 300 gr Philadelphia ostur
  • ¾ dl sykur
  • 1 tsk vanillusykur

Philadelphia ostur, sykur og vanillusykur er þeytt saman þar til blandan verður slétt. Blandan er geymd á meðan brúnkudeigið er útbúið.

Brúnku deig:

  • 2 egg
  • 100 gr smjör
  • 2 dl sykur
  • 3 msk bökunarkakó
  • 2 dl hveiti
  • ½ tsk lyftiduft
  • 1 dl pistasíur frá Ültje, saxaðar gróft

Bökunarofn hitaður í 180 gráður. Egg og sykur þeytt þar til blandan verður létt og ljós. Á meðan er smjör og kakó sett í pott og hitað við vægan hita þar til smjörið er bráðnað og hefur blandast saman við kakóið. Því næst er smjörblöndunni bætt út í eggjablönduna. Að lokum er hveiti, lyftidufti og grófsöxuðum pistasíum blandað varlega saman við deigið með sleikju. Bökunarform (22 cm) er smurt að innan, helmingnum af brúnkudeiginu er hellt í formið og slétt úr því. Því næst er rjómaostablöndunni dreift varlega yfir brúnkudeigið. Að lokum er restinni af brúnkudeiginu dreift yfir rjómaostablönduna. Bakað neðarlega í ofni við 180 gráður í 30-40 mínútur. Kakan á að vera vel blaut í miðjunni þegar hún kemur úr ofninum. Kakan er látin kólna í forminu.

Dumle karamellu-hnetukrem

  • 1 poki Dumle go nuts (175 g)
  • 1-2 msk rjómi

Dumle go nuts bitarnir (gott að geyma um það bil þrjá bita til að skreyta með) eru settir í pott og bræddir við vægan hita. Rjóma er bætt út í þar til blandan hefur náð passlegri þykkt. Þegar kakan er orðin köld er hún tekin úr bökunarforminu og Dumle hnetu kreminu dreift yfir kökuna. Nokkrir Dumle bitar eru saxaðir gróft og stráð yfir kremið. Best er að geyma kökuna í kæli yfir nóttu áður en hún er borin fram.

 

IMG_4569 IMG_4637

 

Panna cotta með hvítu súkkulaði og Pippi með bananabragði


IMG_5541

Núna erum við hjónin komin til New York og ég ætla sannarlega að gera eitthvað annað skemmtilegra en að sitja í tölvunni! 🙂 Við erum búin að panta okkur borð á hinum og þessum veitingarstöðum á meðan dvöl okkar stendur hér í borg. Að auki ætlum við á Broadway sýningu og erum líka búin að bóka borð á klassískum jazzklúbbi – þetta verður eitthvað!

Ég var búin að setja inn hér uppskrift sem ég átti bara eftir að birta. Eins og ég minntist á um daginn þá var matarklúbburinn okkar nýlega hjá okkur þar sem mennirnir sjá um matargerðina að vanda. Elfar bjó til gómsætan panna cotta eftirrétt og ég lofaði hópnum að setja inn uppskriftina á bloggið. Ég viðurkenni að ég kom smá að þessu rétti, ég útfærði uppskriftina en Elfar hins vegar bjó réttinn til. Ég held að þar með hafi engar matarklúbbsreglur verið brotnar! 🙂 Ef þið hafið aldrei búið til panna cotta þá hvet ég ykkur til að prófa strax í kvöld! Gómsætari og fallegri eftirrétti er vart hægt að finna og það tekur örfáar mínútur að búa til panna cotta (fyrir utan tímann sem það þarf í ísskápnum). Ekki vera hrædd við að nota matarlím, það er afar einfalt. Plöturnar eru bara mýktar í vatni í smá stund og svo settar í heitan vökva þar sem þær leysast upp, ekkert mál!

IMG_5551

Uppskrift f. 4:

Panna cotta með banana-Pippi: 

  • 3 dl rjómi Unknown
  • 1/3 dl sykur
  • 100 g Pipp súkkulaði með bananabragði
  • 1 vanillustöng
  • 2 plötur matarlím

Matarlímsblöðin eru lögð í kalt vatn í minnst 5 mínútur. Rjómi, sykur og vanillustöng sett í pott og látið ná suðu. Þá er potturinn tekinn af hellunni, súkkulaðið brotið í litla bita og þeim bætt út í pottinn. Hrært þar til súkkulaðið hefur bráðnað. Því næst er vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum, þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau hafa bráðnað saman við blönduna. Hellt í skálar í gegnum sigti og kælt í ísskáp í minnst 2 klukkutíma. Vanillustöngin geymd. Þá er panna cotta með hvítu súkkulaði útbúin.

Panna cotta með hvítu súkkulaði:

  •  3 dl rjómi
  • 1/2 msk hunang
  • 1 msk vanillusykur
  • 1 vanillustöng, vanillukornin skafin innan úr stönginni (skolið vanillustöngina sem notuð var við Pipp-panna cotta og nýtið hana)
  • 100 gr. hvítir súkkulaðidropar frá Nóa & Siríus
  • 2 plötur matarlím

Matarlímsplötur settar í kalt vatn í minnst 5 mínútur. Vanillustöng klofin í tvennt, kornin innan úr báðum helmingunum skafinn úr með beittum hníf. Rjómi, hunang, vanillusykur ásamt vanillukornunum sett í pott, hitað að suðu og hrært í á meðan. Þegar blandan er komin að því að sjóða er potturinn tekinn af hellunni. Þá er hvítu súkkulaðidropunum bætt út í og hrært þar til þeir bráðna. Því næst er mestur vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum og þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau eru leyst upp. Blandan er látin kólna lítillega og svo hellt varlega yfir Pipp panna cotta. Sett inn í ísskáp og kælt í minnst 3 tíma. Borið fram með ferskum berjum og jafnvel grófsöxuðum sykurbrúnuðum hnetum (eins og sést hér á myndunum).

IMG_5544 IMG_5542

„Go nuts“ sælgætismolar


IMG_4896Í gærkvöldi var hér heima dásamlegt matarboð. Það dásamlega við það var þrennt, frábærlega skemmtilegt fólk, stórkostlega góður matur og sú staðreynd ég þurfti ekki að gera neitt! 🙂 Við erum í matarklúbbi með þremur öðrum hjónum og fyrirkomulagið er þannig að við skiptumst á halda matarboðið en karlmennirnir elda alltaf. Þeir eru með þrírétta máltíð, fordrykk og allt tilheyrandi og toppa sig í hverju matarboði. Ástæðan fyrir því að ég hef gaman að því að elda er einföld, mér finnst svo gaman og gott að borða! Ef einhver myndi elda fyrir mig ljúffengan mat á hverjum degi þá myndi ég satt best að segja ekkert gráta það að þurfa ekki að elda. Þess vegna finnst mér þessi matarboð hreinasta snilld. Að þessu sinni sá Elfar um eftirréttinn, hann gerði dásamlega góða útgáfu af Panna cotta. Ég mun klárlega skella uppskriftinni inn á bloggið við fyrsta tækifæri. Að þessu sinni ætla ég þó að setja hér inn uppskrift af hrikalega góðum sælgætismolum. Ég held að það verði langt þangað til að ég geri þá aftur! Því eins og svo oft áður, þegar eitthvað gúmmelaði leynist í ísskápnum, þá gat ég ekki hamið mig og linnti ekki látum fyrr en ég var búin að borða upp til agna alla molana á tveimur dögum! Ég legg því ekki í næsta skammt fyrr en ég er komin með aaaðeins meiri aga þegar kemur að súkkulaði – sem verður mögulega aldrei! Þessir molar eru sannarlega engir heilsumolar en ó svo svakalega góðir – þið verðið að prófa! IMG_4886   Uppskrift:

  • 1 poki Dumle go nuts (175 g) (hægt að nota hefðbundnar Dumle karamellur)
  • 150 g súkkulaðihjúpað lakkrískurl
  • 100 g Toms extra súkkulaði 70%
  • 200 g suðusúkkulaði
  • 150 g pistasíur frá Ültje
  • 2 dl Rice Krispies

Dumle bitarnir, 70% súkkulaðið og suðusúkkulaðið er sett í skál og brætt yfir vatnsbaði. Því næst er pistasíum, Rice Krispies og súkkulaðihúðaða lakkrískurlinu bætt út og öllu blandað vel saman. Blöndunni hellt í form klætt bökunarpappír, um það bil 20 x 20 cm, og sett í ísskáp í minnst tvo klukkutíma. Skorið í hæfilega stóra bita. (Á þessum myndum stakk ég litlu súkkulaðipáskaegggi í hvern bita til skraut af því að það voru páskar!) IMG_4902

Mexíkóskur kjúklingaréttur


Mexíkóskur kjúklingaréttur

Fyrir stuttu skrifaði ég langa bloggfærslu um fermingarveisluna sem við vorum með um páskana. Anna vinkona minnti mig á fleiri punkta sem ég hafði gleymt að skrifa um þannig að áður löng bloggfærsla er nú orðin enn lengri … hér er slóðin ef einhvern langar að lesa.

Um daginn eldaði ég þennan mexíkóska kjúklingarétt og mallaði eitthvað úr þeim hráefnum sem ég átti í ísskápnum. Ég hef ekki enn lært af reynslunni og tel mig alltaf muna hvað ég set í réttina án þess að skrifa það niður sem er auðvitað algjör vitleysa. Ég er varla staðinn upp frá matarborðinu þegar ég hef þegar steingleymt því öllu. Sem betur fer tók ég margar myndir af ferlinu að þessu sinni og gat því rifjað upp uppskriftina. Sem var eins gott! Þessi réttur sló nefnilega í gegn hér heima og við borðuðum öll óhóflega mikið af þessum rétti. Galdrahráefnið var ostur held ég, mikill ostur gerir þennan rétt ómótstæðilegan! 🙂 Þessi réttur verður sannarlega eldaður fljótt aftur hér á heimilinu.

Uppskrift:

  • 900 g kjúklingabringur frá Rose Poultry, skornar í bita
  • 1 stór rauðlaukur, saxaður smátt
  • ólífuolía til steikingar
  • 1 bréf burritokrydd
  • salt & pipar
  • hvítlaukskrydd
  • 1 tsk kjúklingakraftur
  • 1 dós niðursoðnir tómatar (gott að hafa þá bragðbætta með t.d. chili)
  • 200 g Philadelphia rjómaostur
  • 1 dós sýrður rjómi
  • ca. 200 g salsa sósa
  • 6 stórar tortillur
  • 2 pokar rifinn ostur
  • borið fram með guacamole, sýrðum rjóma og salati

IMG_5464

Ofn hitaður í 200 gráður. Kjúklingur og laukur er steiktur á pönnu þar til kjúklingurinn hefur tekið lit, þá er kryddað með hvítlaukskryddi, burritokryddi og salti og pipar ásamt kjúklingakrafti. Því næst er tómötum í dós bætt út á pönnuna og leyft að malla í nokkrar mínútur. Á meðan er philadelphia rjómaostur og sýrður rjómi settur í pott og brætt við vægan hita og sett svo til hliðar. Nú er kjúklingurinn veiddur af pönnunni og skipt á milli tortillanna (gott að nota gataspaða og skilja eftir mesta vökvann á pönnunni). Því næst er rifna ostinum úr öðrum pokanum dreift yfir kjúklinginn. Þá er tortillunum rúllað upp og þeim raðað í eldfast mót. Salsa sósunni er nú bætt út á pönnuna og leyft að malla í stutta stund og þannig blandað saman við sósuna sem var skilin eftir á pönnunni. Kryddað eftir smekk ef með þarf. Að lokum er rjómaostasósunni dreift yfir tortillurnar, þá salsa sósunni og að síðustu er rifna ostinum úr seinni pokanum dreift yfir. Bakað í ofni við 200 gráður í 15-20 mínútur eða þar til osturinn hefur tekið góðan lit. Borið fram með fersku salati, sýrðum rjóma og guacamole.
IMG_5473