Nú er maí handan við hornið en mér finnst sá mánuður einhvern veginn alltaf laumast aftan að manni. Veturinn hefur varla hvatt þegar maí skyndilega skellur á en það er einn af mínum uppáhaldsmánuðum, hann líður bara yfirleitt alltof hratt. Það er margt spennandi að gerast í maí. Við hjónin förum saman í utanlandsferð og Óskin okkar útskrifast sem stúdent. Ég þarf því fljótlega að fara að huga að annarri veislu en mér finnst það sem betur fer ekkert leiðinlegt verkefni! 🙂
Um síðustu helgi nutum við góða veðursins og ég bjó til gott meðlæti með kaffinu á sunnudeginum. Eins og svo oft áður þegar við Jóhanna mín fáum að ráða þá bjó ég til eplaböku, við mæðgur fáum ekki nóg ef eplaréttum! Það er fátt sem slær út rjúkandi heitri og ljúffengri eplaböku með þeyttum rjóma eða vanilluís. Að þessu sinni ákvað ég að sameina tvennt sem mér finnst gott, það er eplabaka og súkkulaði. Ég átti Pipp súkkulaði með karamellufyllingu og ég gat ekki ímyndað mér annað en að þessi blanda yrði góð, sem hún var! 🙂 Við fengum okkur bökuna með kaffinu og kláruðum hana svo á sunnudagskvöldinu yfir skemmtilegum þáttum sem við fjölskyldan (þ.e við ásamt eldri börnunum) erum farin að fylgjast spennt með. Þetta eru þættirnir Äkta människor, sænskir þættir sem við höfum ákaflega gaman að. Mér sýnist að það sé nýfarið að sýna þessa þætti á RUV, „Alvöru manneskjur„, ég mæli með að þið kíkið á þá! 🙂
Uppskrift:
- 4-5 meðalstór græn epli, afhýdd og skorin í fremur þunna báta
- 2 tsk kanill
- 1 msk sykur
- 100 g Pipp súkkulaði með karamellu
- 2.5 dl Kornax hveiti
- 1.5 dl haframjöl
- 1 dl sykur
- 150 g smjör, kalt
Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Bökuform (ca. 22-24 cm) smurt að innan. Eplunum er velt upp úr kanil og sykri (1 msk) og því næst raðað ofan í bökuformið. Pippsúkkulaðið er saxað smátt og dreift yfir eplin.
Hveiti, haframjöli, sykri og smjöri er blandað saman í höndunum þar til úr verður massi og honum deift yfir eplin. Bakað í ofni við 200 gráður í um það bil 30 mínútur eða þar til deigið er orðið gullinbrúnt. Borið fram heitt með þeyttum rjóma eða vanilluís.
Lítur rosalega vel út, fer í það á morgun að baka eplaköku! Takk fyrir uppskriftina
Gaman að heyra það Inga, vonandi líkar þér bakan! 🙂
4-5 meðalstór græn epli, afhýdd og skorin í fremur þunna báta
2 tsk kanill
1 msk sykur
100 g Pipp súkkulaði með karamellu
2.5 dl Kornax hveiti
1.5 dl haframjöl
1 dl sykur
150 g smjör, kalt
Ég tek eftir að í þriðju línu er 1msk sykur og svo fjórum línum neðar er aftur 1 dl sykur. Velti því fyrir mér hvort þessi 1 msk af sykri eigi að vera eitthvað annað hráefni? Langar endilega að fá svar áður en ég prófa kökuna, bara svona ef þetta skyldi vera innsláttarvilla. En mikið rosalega lítur þetta girnilega út, get ekki beðið eftir að prófa hana.
p.s.
Takk kærlega fyrir þessa frábæru síðu, reynist manni alveg ótrúlega vel þegar fólk ber að garði í skyndi 🙂
Takk fyrir hrósið Róbert! 🙂 Þessi 1 msk af sykri blandast við kanilinn, verður sem sagt að kanilsykri fyrir eplin. 1 dl af sykri er fyrir deigið sjálft.
Gangi þér vel! 🙂
Frábært, nú skil ég þetta allt saman, þú afsakar athyglisbrestinn.
Hlakka rosalega mikið til að prófa, þessa uppskrift, þó svo að ég hafi ekki aðgang að karamellu pipp, þá hlýtur að duga hvaða karamellusúkkulaði sem er í staðinn (vona ég)
Get ekki beðið með að prófa þetta fyrir afmæli dótturinnar í byrjun júní,
Takk kærlega og haltu áfram að veita okkur áhugamönnunum innblástur 🙂
Ekkert mál! 🙂 Já, þú getur notað hvaða súkkulaði sem er, jafnvel bara suðusúkkulaði ef þú ert í vandræðum með að finna eitthvað karamellufyllt! Ég mun gera mitt besta að veita innblástur! 🙂
Hæ hæ.
Er í lagi að útbúa þessa deginum áður?
Sæl. Ég reikna með að þú sért að meina að gera bökuna alveg tilbúna deginum áður en baka hana svo í ofninum rétt áður en hún er borin fram. Ég hef ekki prófað það en ég sé ekkert því til fyrirstöðu, er nokkuð viss um að það sé í góðu lagi. Bara setja plastfilmu þétt um formið og geyma í ísskáp. Gæti verið ágætt að láta svo bökuna standa aðeins á borði áður en hún er sett í ofninn svo hún fari ekki íssköld inn.