„Kladdkaka“ með appelsínukaramellu Pippi og Rice krispies


Kladdkaka með appelsínukaramellu Pipp og Rice KrispiesÍ dag eiga Eldhússögur tveggja ára afmæli! Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan ég opnaði þetta blogg fyrir tveimur árum. Ég hef sett hingað á síðuna tæplega 400 uppskriftir og á heimsóknirnar farið vel yfir 20 þúsund á dag þegar mest lætur. Á eins árs afmælinu í fyrra setti ég inn uppskrift að algjörri kökubombu, Súkkulaðitertu með söltu karamellukremi. Tveggja ára afmælisuppskriftin getur ekki verið eftirbátur þeirrar köku og er það sannarlega ekki. Enda getur það ekki orðið annað en veisla fyrir bragðlaukana þegar sænsku kladdkökunni er blandað saman við nýjasta Pipp súkkulaðið og Rice krispies! Eins og ég hef talað um áður þá verð ég alltaf yfir mig spennt þegar það kemur nýtt súkkulaði á markaðinn og ég get ekki hamið mig fyrr en ég hef komið því á einhvern hátt inn í uppskrift að köku eða eftirrétti! 🙂 Að þessu sinni settu Nói og félagar nýtt Pipp súkkulaði á markaðinn, Pipp með appelsínukaramellukremi. Ég linnti auðvitað ekki látum fyrr en það var komið í köku hjá mér sem ég bauð stelpunum í saumó upp á nýverið.

IMG_6055

Uppskrift:

  • 3 egg
  • 2 1/2 dl sykur
  • 4 msk kakó
  • 2 dl Kornax hveiti
  • 1 tsk vanillusykur
  • 150 g smjör, brætt og kælt lítillega
  • 100 g Pipp með appelsínukaramellu

Ofan á kökuna:

  • ca. 6-7 dl Rice Krispies
  • ca. 2 dl mini marshmallow – litlir sykurpúðar  (fást í Søstrene Grene – má sleppa)
  • 100 g Siríus mjólkursúkkulaði
  • 100 g Siríus suðusúkkulaði
 Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita og 24. cm smelluform smurt að innan. Ég nota kökuform úr Kokku eins og sést hér, frábærlega þægileg og þá þarf ekki að ná kökunni úr forminu. Egg og sykur hrært saman (ekki þeytt) þar til blandan verður létt og ljós. Þá er þurrefnunum bætt út og að lokum brædda smjörinu. Hrært saman í stutta stund þar til allt hefur blandast vel saman, gætið þess þó að hræra ekki deigið of mikið. Deiginu er hellt í bökunarformið og Pipp súkkulaðið er brotið niður í bita og þeim raðað hér og þar ofan á deigið, bitunum er þrýst lítillega ofan í deigið. Bakað við 175 gráður í um það bil 25 mínútur. Athugið að kakan á að vera blaut og þó svo að hún virðist vera mjög blaut þegar hún kemur úr ofninum þá mun hún stífna þegar hún kólnar. Kakan er látin kólna í bökunarforminu áður en Rice krispies er sett ofan á.
IMG_6056

Mjólkursúkkulaði og suðusúkkulaði brætt saman yfir vatnsbaði. Rice krispies og sykurpúðum (má sleppa) bætt út í smátt og smátt og magnið af því metið miðað við súkkulaðið. Blöndunni er því næst hellt yfir kökuna (sem er enn í bökunarforminu) og dreift vel úr því. IMG_6062 Kakan látin kólna í ísskáp í minnst tvo tíma eða þar til Rice krispies blandan hefur stífnað. Það er gott að láta kökuna standa í smá stund við stofuhita áður en hún er borin fram með þeyttum rjóma.

IMG_6072IMG_6108

 

Eplabaka með Pipp karamellusúkkulaði


Eplabaka með Pipp karamellusúkkulaðiNú er maí handan við hornið en mér finnst sá mánuður einhvern veginn alltaf laumast aftan að manni. Veturinn hefur varla hvatt þegar maí skyndilega skellur á en það er einn af mínum uppáhaldsmánuðum, hann líður bara yfirleitt alltof hratt. Það er margt spennandi að gerast í maí. Við hjónin förum saman í utanlandsferð og Óskin okkar útskrifast sem stúdent. Ég þarf því fljótlega að fara að huga að annarri veislu en mér finnst það sem betur fer ekkert leiðinlegt verkefni! 🙂

Um síðustu helgi nutum við góða veðursins og ég bjó til gott meðlæti með kaffinu á sunnudeginum. Eins og svo oft áður þegar við Jóhanna mín fáum að ráða þá bjó ég til eplaböku, við mæðgur fáum ekki nóg ef eplaréttum! Það er fátt sem slær út rjúkandi heitri og ljúffengri eplaböku með þeyttum rjóma eða vanilluís. Að þessu sinni ákvað ég að sameina tvennt sem mér finnst gott, það er eplabaka og súkkulaði. Ég átti Pipp súkkulaði með karamellufyllingu og ég gat ekki ímyndað mér annað en að þessi blanda yrði góð, sem hún var! 🙂 Við fengum okkur bökuna með kaffinu og kláruðum hana svo á sunnudagskvöldinu yfir skemmtilegum þáttum sem við fjölskyldan (þ.e við ásamt eldri börnunum) erum farin að fylgjast spennt með. Þetta eru þættirnir Äkta människor, sænskir þættir sem við höfum ákaflega gaman að. Mér sýnist að það sé nýfarið að sýna þessa þætti á RUV, „Alvöru manneskjur„, ég mæli með að þið kíkið á þá! 🙂

IMG_5495

Uppskrift:

  • 4-5 meðalstór græn epli, afhýdd og skorin í fremur þunna báta
  • 2 tsk kanill  chocolate-caramel-pipp-karamellu
  • 1 msk sykur
  • 100 g Pipp súkkulaði með karamellu
  • 2.5 dl Kornax hveiti
  • 1.5 dl haframjöl
  • 1 dl sykur
  • 150 g smjör, kalt

IMG_5484

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Bökuform (ca. 22-24 cm) smurt að innan. Eplunum er velt upp úr kanil og sykri (1 msk) og því næst raðað ofan í bökuformið. Pippsúkkulaðið er saxað smátt og dreift yfir eplin.

IMG_5485 Hveiti, haframjöli, sykri og smjöri er blandað saman í höndunum þar til úr verður massi og honum deift yfir eplin. Bakað í ofni við 200 gráður í um það bil 30 mínútur eða þar til deigið er orðið gullinbrúnt. Borið fram heitt með þeyttum rjóma eða vanilluís.

IMG_5506