Rice Krispies turn


img_4688

Það er afar algengt og vinsælt að bjóða upp á Rice Krispies turna í til dæmis fermingarveislum og skírnarveislum. Oft og tíðum eru Rice Krispies turnarnir hugsaðir sérstaklega fyrir yngstu gestina en ég hef tekið eftir því að hér um bil allir fullorðnir fá sér líka bita enda er svona Rice krispies biti mikið sælgæti. Hráefnið í Rice Krispies turn er ódýrt og það er auðvelt og fremur fljótgert að búa hann til. Það eina sem gæti staðið manni fyrir þrifum er að það þarf að nota sérstök form fyrir turninn, kransakökuform. Ég var svo heppin að græða gamalt og gott danskt kransakökuform frá mömmu vinkonu minnar sem var að losa sig við dót í flutningum. En ég veit að formin eru til sölu í mörgum búsáhaldaverslunum og kosta í kringum 5-6000 krónur þegar þetta er skrifað, prófið bara að gúggla kransakökuform til að finna út hvar þau eru seld.

img_4638

Ég hef prófað nokkrar uppskriftir að Rice Krispies og hef fundið það út að mér finnst langbest að nota Bónus hjúpsúkkulaði á móti Pralin karamellufylltu súkkulaði. Nú nota ég almennt súkkulaðihjúp ekki mikið, kýs yfirleitt að nota vandað suðusúkkulaði, en einhverra hluta vegna passar þetta hjúpasúkkulaði svo vel í Rice Krispies uppskriftina, það gefur voðalega góðan karamellukeim. Ég nota yfirleitt dökka hjúpsúkkulaðið en hef stundum notað eina ljósa plötu á móti tveimur dökkum.

img_4618

Það eru nokkrir hlutir sem er gott að hafa í huga við turnagerðina. Kransakökuformin eru með þremur hringum hvert en það er of þétt að nota þau öll samtímis. Það er því best að nota ysta og innsta hringinn fyrst og gera svo miðjuhringina eftir á. Annað er að þegar losað er um hringina þá hjálpar til að klæða fyrst formin plastfilmu. Ég hef stundum sleppt plastfilmunni og losa bara varlega um hringina með hníf og það hefur alltaf gengið vel.

img_4640

En ég mæli samt með plastfilmunni til að komast örugglega hjá því að hringirnir brotni þegar þeir eru losaðir. Það þarf líka að huga að stærðunum á hringjunum, þ.e. að vera viss um að maður sé að raða þeim í réttri stærðarröð í turninn. Þegar turninn er settur saman þá finnst mér ekki gott að hafa alltof mikið brætt súkkulaði á milli hringjanna og ég reyni því að nota lítið magn af brædda súkkulaðinu. Það hefur alltaf gengið vel hjá mér því hringirnir eru frekar klístraðir af sírópinu og þegar turninn fer svo í frysti þá finnst mér hann alltaf festast mjög vel saman. En þetta er smekksatriði og ég sé oft að margir nota mikið af bræddu súkkulaði á milli hringjanna, það þéttir jú líka turninn upp á útlitið að gera. En ég vil nota minna af bræddu súkkulaði til þess að Rice Krispies hringirnir njóti sín betur upp á bragðið að gera. Þarna þarf maður kannski að vega og meta útlitið/stöðugleikann á móti bragði.

img_4652

Ég nota þessa uppskrift fyrir 18 hringja turn og hún rétt sleppur fyrir þá stærð. Það er hins vegar misjafnt hversu þykka og þétta hringi fólk gerir. Ég mæli því með að þið að þið annað hvort endið á að móta stærstu hringina (og gerið þá færri hringi en 18 ef uppskriftin dugir ekki) eða aukið aðeins við uppskriftina ef þið viljið vera örugg á magninu.

Ein hugmynd sem ég vil koma á framfæri er að ég gerði eitt sinn svona turn fyrir fermingarveislu og það var bara gert ráð fyrir fyrir einum turni og því bara til skreytingar fyrir einn turn. Á síðustu stundu fóru veisluhaldara að hafa áhyggjur yfir því að einn turn myndi ekki duga. Ég gerði því eina og hálfa uppskrift og gerði einn og hálfan turn. Ég mótaði 8 eða 9 hringja turn úr minnstu hringjunum og hafði hann inni í 18 hringja turninum þannig að þegar hann var hálfnaður í veislunni þá kom annar minni turn í ljós inni í hinum. Það getur verið sniðug lausn ef maður er ekki öruggur með að einn turn dugi en finnst tveir of margir.

img_4663

Uppskrift:

  • 300 g Bónus hjúpsúkkulaði (dökkt)
  • 200 g Pralín karamellufyllt súkkulaði
  • 454 g síróp í grænu dósinni (lítil)
  • 160 g smjör
  • 300 g Rice Krispies
  • 100-200 g dökkt hjúpsúkkulaði eða suðusúkkulaði til að festa hringina saman
  • skreytingar á turninn
  • (gott er að nota silikonhanska og Pam sprey þegar hringirnir eru mótaðir)

Kransakökuformin eru klædd með plastfilmu. Hjúpsúkkulaði og Pralín súkkulaði er brytjað ofan í pott ásamt sírópi og smjöri. Allt brætt við meðalhita og hrært í á meðan (blandan má alls ekki brenna). Þegar blandan er orðin þykk og karamellukennd er henni blandað mjög vel saman við Rice Krispies (gætið þess að það verði engar ”skellur” eftir, þ.e. súkkulaðilaust Rice Krispies inn í miðri blöndunni).

img_4620+img_4625

img_4629

img_4634

Á meðan blandan er enn heit eru hringirnir mótaðir í formin, einungis ysti og innri hringurinn í fyrstu umferðinni. Gott er að móta hringina með fingrunum og það er gott að vera með silikon hanska og Pam sprey til þess að forðast að blandan festist ekki við fingurnar. Mér finnst gott að reyna að hafa hringina dálítið slétta að ofan þannig að þeir leggist síðar vel saman. Það er jafnvel hægt að leggja eitthvað þungt ofan á hringinga, t.d. bók (með smjöpappír á milli) til að ná jöfnu og flötu formi. Hringirnir eru svo settir í frysti í 10-15 mínútur. Þá eru hringirnir losaðir varlega, settir á bökunarpappír og geymdir áfram í frysti á meðan miðjuhringirnir eru mótaðir og frystir í ca. 15 mínútur. Því næst er súkkulaðið, sem notað er til að festa hringina saman, brætt í örbylgjuofni. Hringirnir eru teknir úr frysti, lagðir á bökunarpappír og raðað í stærðarröð. Stærsti hringurinn er lagður á disk, það er gott að bera dálítið brætt súkkulaði undir hringinn til að hann festist á disknum. Þá er dálítið brætt súkkulaði borið á hringinn, næsti lagður á og svo koll af kolli. Það getur þurft að bræða súkkulaðið aftur ef það fer að storkna. Hér skreytti ég turninn með fiðrildum (úr Allt í köku) og ég festi þau með bræddu súkkulaði.

img_4643

img_4667

img_4679

 

Marengsterta með súkkulaðirúsínum og eplum


img_4036-6

Í síðasta mánuði átti yngsta barnið í fjölskyldunni 12 ára afmæli.

img_4047

Hún hefur alltaf haft ákveðnar skoðanir á því hvernig afmælisveislurnar eigi að vera og það hefur alltaf verið eitthvað þema í gangi. Í ár var þemað til fyrir tilviljun þegar við mæðgur byrjuðum á því að kaupa servíettur sem við féllum fyrir, okkur fannst þær svo fallegar. Í kjölfarið ákváðum við að það yrði bara einhverskonar fallegt pastel þema.

Ég bað Önnu frænku hjá Önnu konditori að gera uppáhaldstertu afmælisbarnsins (svampbotnar, hindber og karamellukrókant) og hafa hana í stíl við servíetturnar. Það var ekki að spyrja að því, þessi listakona bjó til frábærlega fallega tertu sem skreytt var með blómum og hjóli með blómakörfu, alveg í stíl við servíetturnar.

img_4043img_4031

Ég bjó til súkkulaðiköku og skreytti hana í pastellitum. Ég notaði skúffukökuuppskrift og hafði botnana fjóra (smjörkrem á milli), þá verður kakan fallega há. Hins vegar er ekki gott að skera hana þannig því sneiðarnar verða alltof stórar. Ég hafði því harðspjald á milli botnanna (tveir botnar með kremi á milli – kringlótt harðspjald – tveir botnar með kremi á milli) þannig að fyrst var efsta lag kökunar skorið og síðan sú neðri, mjög praktísk og einföld lausn ef maður vill hafa kökur háar. Ég hef stundum hreinlega líka notað botninnn úr lausbotna kökuforminu og haft hann á milli ef ég hef ekkert annað.

img_4040img_4041

Ein tertan sem ég var með var marengsterta og ég ákvað að gera tilraun og setja eitthvað nýtt í rjómann. Ég notaði súkkulaðirúsínur og græn epli, ótrúlega ferskt og gott. Ég mæli sannarlega með þessari bombu í næstu veislu! 🙂

img_4037

Uppskrift:

Marengs:

  • 3 dl sykur
  • 5 eggjahvítur
  • 3 bollar Rice Krispies

Ofn hitaður í 120 gráður við blástur (ef baka á báða botnana samtímis) eða 130 gráður við undir- og yfirhita. Eggjahvítur þeyttar og sykri bætt út í smátt og smátt þar til marengsinn er orðinn stífur. Þá er Rice Krispies bætt varlega út í marengsinn með sleikju. Diskur eða kökuform sem er um það bil 23 cm. í þvermál er lagt á bökunarpappír og strikaður hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar. Marengsinum er skipt í tvennt og hann
 settur á sitt hvorn hringinn. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða. Þá er marengsinn bakaður í 120°C (blástur) í heitum ofni í um það bil 60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum.

Rjómafylling:

  • 5 dl rjómi
  • 3-4 græn epli (fer eftir stærð), skorin smátt
  • 150 g súkkulaðirúsínur

Rjóminn er þeyttur og eplum ásamt súkkulaðirúsínum er blandað út í rjómann. Rjómablandan er svo sett á milli marengsbotnanna þegar þeir eru orðnir kaldir.

img_4033

Súkkulaði krem: 

  • 5 eggjarauður
  • 5 msk flórsykur
  • 100 g Síríus pralín súkkulaði með karamellu
  • 100 g suðusúkkulaði

Eggjarauður og flórsykur þeytt vel saman. Pipp og suðursúkkulaði er brotið niður í skál og brætt yfir vatnsbaði. Ef súkkulaðiblandan er of þykk er hægt að bæta örlítilli mjólk eða rjóma út í. Þegar súkkulaðið hefur bráðnað og kólnað örlítið er þvi bætt varlega út í eggjarauðu- og flórsykurblönduna. Kreminu er því næst dreift yfir marengstertuna. Skreytt með berjum, t.d. jarðaberjum, bláberjum, hindberjum, rifsberjum og blæjuberjum. Tertan er geymd í ísskáp og er líka góð daginn eftir.

img_4035-5

Bananapæ með karamellusósu og Daim súkkulaði


IMG_7333Um síðustu helgi héldum við upp á 10 ára afmæli yngsta barnsins á heimilinu. Hún er svo mikill heimshornaflakkari að þemað sem hún valdi sér í ár var París! Draumur hennar um að sjá New York rættist í sumar og nú stendur Parísarferð efst á óskalistanum. Við keyptum skemmtilegar Parísar servíettur, glös, blöðrur og dúk á Amazon í Bandaríkjunum sem setti tóninn fyrir afmælisþemað í ár. IMG_7432IMG_7436Jóhanna skoðaði Parísartertur á netinu og var með mjög ákveðnar hugmyndir um hvernig tertan ætti að vera. Eins og mér finnst gaman að baka þá finnst mér alltaf jafn erfitt að skreyta afmælisterturnar. Það fer nefnilega ekkert sérlega vel saman að vera með metnað í afmælistertum en hafa svo ekkert sérstaklega mikla skreytingahæfileika! 😉 Ég dreg alltaf þetta verkefni fram á síðustu stundu og er því yfirleitt nóttina fyrir afmælið í eldhúsinu að reyna að skreyta og skera út afmæliskökur sem krakkarnir hafa óskað eftir. Í ár ákvað ég að gera mér lífið létt og bað Önnu frænku mína, sem er konditor, um að gera afmælistertuna og það var frábær ákvörðun.

Eiffel turninn er úr súkkulaði en blúndan og slaufan úr sykurmassa.

Eiffel turninn er úr súkkulaði en blúndan og slaufan úr sykurmassa.

Kakan varð jú fyrir það fyrsta dásamlega falleg og góð, var nákvæmlega eins og Jóhanna mín óskaði sér og ég sjálf gat dundað mér við hefðbundinn kökubakstur og brauðréttagerð án þess að eiga kökuskreytingar hangandi yfir mér!

IMG_7356

Afmælisbarnið útbjó sjálf þessa fínu Parísar-nammipoka handa hverjum og einum gesti.

Afmælisbarnið útbjó sjálf þessa fínu Parísar-nammipoka handa hverjum og einum gesti.

IMG_7349 Ég var hins vegar mjög ánægð með ættingja mína sem héldu í fyrstu að ég hefði gert þessa glæsilega köku, það er mikið hrós fyrir manneskju með þumalputta á öllum þegar kemur að skreytingum! 🙂 Anna er menntaður konditor og er með Facebook síðu hér.

IMG_7336

Ein kakan í afmælinu sem fékk mikið lof var þetta banana-karamellupæ. Sjálfri finnst mér allt sem hefur samsetninguna bananar, karamellur og rjómi ákaflega gott. Ég setti inn uppskrift af svipaðri böku hér en það þarf að hafa meira fyrir henni enda er karamellusósan heimagerð. Þetta pæ er hins vegar ótrúlega fljótlegt og einfalt en sjúklega gott og hentar mjög vel sem eftirréttur. Hugmyndin kom út frá þessari karamellusósu sem ég keypti í Þinni verslun og var búin að eiga inni í skáp þónokkuð lengi. Ég fór á síðuna hjá þeim og sá að þessar vörur eru seldar á eftirfarandi stöðum: í Melabúðinni, Hagkaup Garðabæ, Hagkaup Kringlunni, Ostabúðinni Skólavörðustíg, Vínberinu Laugavegi, Garðheimum, Kjöthöllinni Háaleitisbraut, Þinni Verslun í Breiðholti, Mjólkurstöðinni Neskaupsstað, Blómasetrinu Borganesi og Býflugan og blómið á Akureyri.

IMG_7321

Uppskrift:

  • 300 g Digestive kex
  • 150 g smjör, brætt
  • 3 stórir þroskaðir bananar eða 4 litlir
  • 1 krukka karamellusósa frá Stonewall Kitchen (Stonewall Kitchen Sea Salt Caramel Sauce 347g)
  • 500 ml rjómi
  • 2 tvöföld Daim súkkulaði (56 g stykkið), saxað

Ofn stilltur á 175 gráður við undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið smátt og því blandað saman við smjörið. Blöndunni þrýst ofan í smurt eldfast bökuform. Botninn bakaður í 10 mínútur og leyft að kólna. Rjóminn er þeyttur. Bananar eru skornir í þunnar sneiðar og raðað yfir kaldan botninn. Því næst er helmingnum af karamellusósunni dreift yfir bananana og hluta af rjómanum dreift yfir. Þá er restinni af banönunum dreift yfir rjómann, þá afgangnum af karamellusósunni og að lokum er öllum rjómanum smurt yfir eða sprautað með rjómasprautu. Söxuðu Daim súkkulaði er að síðustu dreift yfir rjómann.

IMG_7330IMG_7335

„Kladdkaka“ með appelsínukaramellu Pippi og Rice krispies


Kladdkaka með appelsínukaramellu Pipp og Rice KrispiesÍ dag eiga Eldhússögur tveggja ára afmæli! Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan ég opnaði þetta blogg fyrir tveimur árum. Ég hef sett hingað á síðuna tæplega 400 uppskriftir og á heimsóknirnar farið vel yfir 20 þúsund á dag þegar mest lætur. Á eins árs afmælinu í fyrra setti ég inn uppskrift að algjörri kökubombu, Súkkulaðitertu með söltu karamellukremi. Tveggja ára afmælisuppskriftin getur ekki verið eftirbátur þeirrar köku og er það sannarlega ekki. Enda getur það ekki orðið annað en veisla fyrir bragðlaukana þegar sænsku kladdkökunni er blandað saman við nýjasta Pipp súkkulaðið og Rice krispies! Eins og ég hef talað um áður þá verð ég alltaf yfir mig spennt þegar það kemur nýtt súkkulaði á markaðinn og ég get ekki hamið mig fyrr en ég hef komið því á einhvern hátt inn í uppskrift að köku eða eftirrétti! 🙂 Að þessu sinni settu Nói og félagar nýtt Pipp súkkulaði á markaðinn, Pipp með appelsínukaramellukremi. Ég linnti auðvitað ekki látum fyrr en það var komið í köku hjá mér sem ég bauð stelpunum í saumó upp á nýverið.

IMG_6055

Uppskrift:

  • 3 egg
  • 2 1/2 dl sykur
  • 4 msk kakó
  • 2 dl Kornax hveiti
  • 1 tsk vanillusykur
  • 150 g smjör, brætt og kælt lítillega
  • 100 g Pipp með appelsínukaramellu

Ofan á kökuna:

  • ca. 6-7 dl Rice Krispies
  • ca. 2 dl mini marshmallow – litlir sykurpúðar  (fást í Søstrene Grene – má sleppa)
  • 100 g Siríus mjólkursúkkulaði
  • 100 g Siríus suðusúkkulaði
 Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita og 24. cm smelluform smurt að innan. Ég nota kökuform úr Kokku eins og sést hér, frábærlega þægileg og þá þarf ekki að ná kökunni úr forminu. Egg og sykur hrært saman (ekki þeytt) þar til blandan verður létt og ljós. Þá er þurrefnunum bætt út og að lokum brædda smjörinu. Hrært saman í stutta stund þar til allt hefur blandast vel saman, gætið þess þó að hræra ekki deigið of mikið. Deiginu er hellt í bökunarformið og Pipp súkkulaðið er brotið niður í bita og þeim raðað hér og þar ofan á deigið, bitunum er þrýst lítillega ofan í deigið. Bakað við 175 gráður í um það bil 25 mínútur. Athugið að kakan á að vera blaut og þó svo að hún virðist vera mjög blaut þegar hún kemur úr ofninum þá mun hún stífna þegar hún kólnar. Kakan er látin kólna í bökunarforminu áður en Rice krispies er sett ofan á.
IMG_6056

Mjólkursúkkulaði og suðusúkkulaði brætt saman yfir vatnsbaði. Rice krispies og sykurpúðum (má sleppa) bætt út í smátt og smátt og magnið af því metið miðað við súkkulaðið. Blöndunni er því næst hellt yfir kökuna (sem er enn í bökunarforminu) og dreift vel úr því. IMG_6062 Kakan látin kólna í ísskáp í minnst tvo tíma eða þar til Rice krispies blandan hefur stífnað. Það er gott að láta kökuna standa í smá stund við stofuhita áður en hún er borin fram með þeyttum rjóma.

IMG_6072IMG_6108

 

Afmælisveisla og muffins með vanillusmjörkremi


Afmælisveisla og muffins með vanillusmjörkremiAfmælisveisluþema: froskurinn Kermit!

Afmælisveisla og muffins með vanillusmjörkremi

Í dag héldum við upp á níu ára afmæli yngsta barnsins á heimilinu. Við þau tímamót áttaði ég mig á því að það eru ekki svo mörg ár eftir hjá mér í barnaafmælisgeiranum sem er dálítið skrítin tilfinning eftir að hafa verið í 20 ár í þeim geira!

IMG_7014

Jóhanna Inga er afar hrifin af Prúðuleikurunum og langaði að hafa Kermit þema í afmælinu.

IMG_6946

Ég fann enga slíka afmælisdiska en það er líka miklu skemmtilegra að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn (*hóst* þ.e. gúggla!). Ég notaði einfalda græna plastdiska og skeiðar úr Partíbúðinni með litlum hvítum servíettum. Ég keypti líka glös í stíl en notaði þau sem poppílát fyrir hvern og einn gest. Glösin skreytti ég með grænum kreppappír sem var klipptur út eins og kraginn hjá Kermit – Elfar er svo góður með skærin að hann var settur í það verkefni.

IMG_6952

Þegar ég ætlaði að nota sama kreppappírinn til þess að klæða appelsínflöskurnar var Jóhanna ekki nógu sátt því hún taldi þetta alls ekki rétta litinn á Kermit. Mamma vinkonu Jóhönnu sem er kjólameistari og snillingur á saumavélina bjargaði okkur með því að sauma svona fínan strokk úr teygjuefni utan um flöskurnar í rétta græna litnum (samkvæmt Kermit-sérfræðingnum, afmælisbarninu!). Jóhanna Inga klippti svo út augu, teiknaði á þau og límdi á strokkinn. Heliumskorturinn var liðinn hjá og við keyptum nokkrar grænar og hvítar blöðrur með helíum í partíbúðinni.

IMG_7004

Veitingarnar voru auðvitað líka í stíl við Kermit. Ég bjó til afmælisköku með mynd af Kermit (kökuuppskriftin hér).

IMG_6969

Pabbinn á heimilinu útbjó ávaxtaspjót og bjó til Kermit úr epli. Hann notaði sykurpúða fyrir augu sem Jóhanna Inga teiknaði á með matarlitapenna úr Allt í köku í Ármúla og jarðaber fyrir munn.

IMG_6947

IMG_6955

Einnig bakaði ég muffins með grænu kremi. Ég notaði Mentos fyrir augu og Jóhanna Inga teiknaði á það augu matarlitarpennanum. Afar auðvelt í framkvæmd en gefur skemmtilegar muffins.

IMG_6948

IMG_7092

Að auki voru pizzasnúðar í boði og svo auðvitað eplakaka sem er í miklu uppáhaldi hjá Jóhönnu fyrir utan hinar kökurnar og brauðréttina fyrir fullorðna fólkið.

IMG_6994

Ég veit varla hvaða uppskrift ég ætti að setja hér inn fyrst en ég byrja á muffins kökunum. Þær eru afskaplega einfaldar en mjög bragðgóðar. Þetta er góður muffinsgrunnur sem hægt er að nota einan og sér eða bæta við t.d. eplabitum sem velt hefur verið upp úr kanelsykri, bláberjum eða öðrum berjum, súkkulaðibitum eða hverju því sem hugurinn girnist. Kremið er afskaplega hentugt fyrir lituð krem og býsna gott, galdurinn við hvað það er bragðgott held ég að sé sírópið!

Uppskrift (gefur 20 muffins):

  • 100 g smjör
  • 2 egg
  • 2 dl sykur
  • 3 dl hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1 dl mjólk

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Smjörið er brætt og látið kólna, þá er mjólkinni bætt út í. Egg og sykur er þeytt þar til blandan verður létt og ljós. Þá er hveiti, lyftidufti og vanillusykri blandað saman. Þessari þurrblöndu er blandað smátt og smátt út í eggjablöndunum á víxl við smjör/mjólkurbönduna. Deiginu er skipt á milli um það bil 20 muffins forma (fer eftir stærð) en formin eiga að vera fyllt til 2/3. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 15 mínútur.

Smjörkrem með vanillu:

  • 150 g smjör (við stofuhita)
  • 200 g flórsykur
  • 2 tsk vanillusykur
  • 2 msk síróp
  • matarlitur

Hrærið smjörið þar til það er orðið kremkennt. Sigtið flórsykur og blandið því síðan smátt og smátt við smjörið. Ef kremið er of þykkt er hægt að bæta við örlítilli mjólk. Hrærið að lokum sírópi saman við. Ef kremið á að hafa lit er matarlitnum bætt út í að síðustu. Smyrjið kreminu á kaldar muffins. Ef útbúa á frosk líkt og á myndunum þá er, grænn matarlitur settur í kremið og hvítt Mentos notað fyrir augu. Það er teiknað á augum með svörtum matarlits penna úr Allt í köku, Ármúla.

IMG_7098

IMG_7075

Afmæliskaka


Afmæliskaka

Hann Vilhjálmur minn átti afmæli um daginn og að sjálfsögðu var haldin afmælisveisla fyrir fjölskylduna. Bekkjarafmælið fær að bíða þar til seinna í sumar þegar allir eru komnir úr sumarfríi. Vilhjálmur vildi fá afmælisköku fyllta með Skittles sælgæti og að sjálfsögðu varð ég við þeirri ósk.

IMG_1453Fyrir um það bil ári síðan setti ég inn hér uppskrift af skúffuköku. Þessi uppskrift hefur legið lágt og ekki verið mikið deilt. Hins vegar er þetta sú uppskrift á blogginu sem hefur flestar stjörnur og þriðja mest lesna uppskriftin hér á Eldhússögum frá upphafi. Ég er ægilega ánægð með þessa uppskrift sem ég þróaði sjálf og af ummælunum að dæma þá eru fleiri sammála mér. Ég notaði þessa uppskrift til þess að búa til tvöfalda súkkulaðiköku sem óvænt hafði að geyma sælgæti! Það var afar vinsælt. Kökuna skreyttum við með litlum uppblásnum vatnsblöðrum á grillpinnum, nokkuð sem mér fannst afar afmælislegt og skemmtilegt.

IMG_1393

Þegar ég spurði dóttur mína af hverju hún þyrfti endilega að gretta sig á hverri einustu mynd þá svaraði hún því til að það væri kærkomin tilbreyting frá því að brosa alltaf á myndum! 🙂

IMG_1427Fánaborðan fékk ég í Søstrene Grene fyrir nokkru síðan. Okkur fannst hann svo skemmtilegur að hann hékk uppi í þónokkurn tíma eftir afmælið!

IMG_1474Krakkarnir byrjuðu öll á mini-pizzunum, þær eru alltaf jafn vinsælar.

IMG_1475Ávaxtaspjótin eru ómissandi.

IMG_1462Mamma, amma og Inga frænka flottar!

IMG_1495Þessar voru spenntar fyrir litlu blöðrunum og eru báðar „fjögurra ára!“

IMG_1508Uppskriftina af afmæliskökunni hér að neðan er í þeim hlutföllum að hún passar í tvö 24 cm form eða í stóra ofnskúffu.

Uppskrift:

  • 3 dl sykur
  • 3 dl púðursykur
  • 250 g smjör, brætt
  • 3 egg
  • 7 1/2 dl hveiti
  • 1 1/2 tsk. matarsódi
  • 1 1/2 tsk. lyftiduft
  • 1 1/2 dl vatn, sjóðandi heitt
  • 4 tsk. vanillusykur
  • 1 1/2 dl. kakó, sigtað
  • 3 1/2 dl súrmjólk með karamellu
  • Skittles

Byrjið á því að taka út úr ísskáp smjör í kökukremið svo það verði mjúkt. Hitið ofninn í 200 gráður. Bræðið smjörið og látið það kólna aðeins. Hrærið saman öllum hráefnunum, fyrir utan vatnið,  þar til deigið verður slétt. Gætið þess að hræra ekki of lengi. Bætið heita vatninu við og hrærið í þar til það hefur blandast deiginu. Hellið deginu í tvö smurð bökunarform (24 cm) eða ofnskúffu  og bakið í miðjum ofni í ca 20 mínútur eða þar til kakan hefur losnað frá köntunum og er bökuð í gegn í miðjunni. Ef notuð eru tvö kökuform og það á að fylla kökuna af sælgæti þá er skorið úr miðju kökunnar og hún fyllt af sælgæti. Kreminu smurt á milli kökubotnanna (bara að sælgætinu) og svo er kreminu smurt utan á kökuna.

IMG_1389

Súkkulaðikrem:

  • 225 smjör, mjúkt
  • 300 g flórsykur
  • 5 msk kakó
  • 3 msk síróp

Hrærið smjörið þar til það er orðið kremkennt. Sigtið flórsykur og kakó saman og blandið því síðan smátt og smátt við smjörið. Ef kremið er of þykkt er hægt að bæta við örlítilli mjólk. Hrærið að lokum sírópi saman við. Smyrjið kreminu á kalda kökuna.

Afmæliskaka

Pavlova með marsípani


Pavlova með marsípaniPavlova með marsípani

IMG_1287

Þann 4. júlí varð Vilhjálmur Jón okkar 13 ára! Eins og lög gera ráð fyrir á okkar heimili er afmælisbarnið (táningurinn!) vakið með köku, pökkum og söng og fær síðan að velja kvöldmatinn.

IMG_1273

Val Vilhjálms á mat kom ekki á óvart, hann vildi fara á Hamborgarafabrikkuna enda mikill áhugamaður um hamborgara. Ég verð að segja að ég var ekkert ægilega spennt yfir mínum hamborgara, hann sló allavega ekki út steikarborgaranum (+ bearnaisesósu!) á Búllunni!

5b21fb9ee4ed11e28b8022000aaa0a1f_7Ég spurði Vilhjálm hverjar væru uppáhaldskökurnar hans og hann svaraði marsípantertur og marengstertur. Ég fór því að skoða hinar ýmsu uppskriftir og datt á tilviljun niður á Pavlovu með marsípani, snilld – uppáhaldsterturnar samankomnar í einni! Þetta varð innblásturinn af marsípan Pavlovunni sem Vilhjálmur var vakinn með á afmælisdaginn. Það er óhætt að segja að þessi terta hafi slegið í gegn. Allri fjölskyldunni auk þeirra gesta og gangandi sem smökkuðu á tertunni fannst hún rosalega góð. Þeir sem eru hrifnir af marsípani mega ekki láta þessa tertu fram hjá sér fara! 🙂

IMG_1315

Uppskrift:

  • 4 stk eggjahvítur (stór egg)Odense marsípan
  • 250 g flórsykur
  • 1 tsk hvítvíns edik
  • 160 g Marsípan (Odense ren rå marcipan)

Fylling:

  • 1/2 líter rjómi, þeyttur
  • Fersk ber eða ávextir eftir smekk (t.d. jarðaber, hindber, bláber, blæjuber, rifsber)
  • Rifið suðusúkkulaði og örlítið af flórsykri dreift yfir berin

IMG_1300

Ofninn stilltur á 150 gráður undir- og yfir hita. Eggjahvítur þeyttar á miðlungshraða þar til þær eru vel slegnar, þá er hraðinn aukinn og flórsykrinum blandað smátt og smátt saman við. Hvítvínsediki bætt út í. Þegar eggjahvíturnar eru orðnar stífþeyttar er marsípanið rifið með grófu rifjárni út í blandað mjög varlega saman við með sleikju. Best er að rífa lítið í einu og blanda marsípaninu þannig smátt og smátt saman við marengsinn annars er hætta að á að það fari í kekki.

Ca. 20 cm hringur teiknaður á bökunarpappír sem settur er á ofnplötu. Marengsinum er dreift á flötinn og kantarnir látnir vera aðeins hærri en miðjan. Bakað í miðjum ofni í um það bil 45 mínútur, þá er slökkt á ofninum og marengsinn látinn kólna í ofninum.

Áður en kakan er borin fram er settur þeyttur rjómi yfir marengsinn og yfir rjómann er dreift berjum, rifnu suðusúkkulaði og að lokum er örlitlum flórsykri sigtað yfir berin.

IMG_1311

Súkkulaðiterta með söltu karamellukremi og afmæli Eldhússagna!


Súkkulaðiterta með saltri karamellu

Í dag er sérstakur dagur. Í fyrsta lagi er pabbi minn 65 ára í dag. En það þýðir líka að það er einmitt eitt ár síðan að ég opnaði þetta matarblogg. Fyrir einu ári síðan settist ég í stutta stund niður við tölvuna áður en ég fór í afmælisveisluna til pabba og stóð upp skömmu seinna sem matarbloggari. Á þeim tímapunkti var ég í fullkomri óvissu um hvað það myndi hafa í för með sér eða hvort ég myndi yfir höfuð endast í meira en einn dag sem matarbloggari!

blogg

Annað hefur komið á daginn, ég er hér enn og hef birt yfir 270 uppskriftir á þessu ári sem liðið er eða rúmlega fimm bloggfærslur í hverri viku. Enn ótrúlegri er sú staðreynd að fullt af fólki virðist hafa áhuga og ánægju af uppskriftunum mínum. Það er nokkuð sem gleður mig ósegjanlega mikið og er mér hvatning í að halda ótrauð áfram. Ég hefði líklega gefist upp fyrir löngu ef ég væri ekki með svona góða og skemmtilega lesendur eins og þið eruð! 🙂

blogg1

Það er líka svo gaman að sjá hversu mikil gróska er komin í íslensk matarblogg. Síðan ég byrjaði að blogga hafa bæst í hópinn mörg fleiri skemmtileg og bitastæð matarblogg hér á WordPress. Ég er sannfærð um að íslensk matarblogg eiga eftir að verða enn fleiri þegar fram líða stundir. Matarblogg bjóða upp á svo marga nýja og spennandi kosti þegar kemur að uppskriftum og mat. Í fyrsta lagi geta allir spreytt sig á matarbloggi, til þess þarf enga kokka- eða bakaramenntun, bara áhuga og vilja. Matarbloggin eru líka lifandi svæði þar sem lesendur geta rætt um matinn og uppskriftirnar, þeir geta deilt með sér ráðum og upplýsingum og þannig í raun stöðugt verið að þróa uppskriftirnar áfram.

blogg2

Í lok fyrsta mánaðarins sem ég bloggaði heimsóttu um það bil 60 lesendur í síðuna mína daglega. Mér fannst það ótrúlega margt fólk og ég skildi ekkert í að 60 manns hefðu fyrir því að heimsækja blogið mitt á hverjum degi. Í dag sækja 6-7000 gestir bloggið mitt daglega en sem mest hafa heimsóknirnar farið upp í 13 þúsund gesti á dag – næstum því jafn margir og kusu flokkinn Bjarta framtíð í síðustu kosningum eða 7% af kosningabærum Íslendingum! 😉 Það er dálítið undarleg tilfinning og óraunverulegt að fara varla á mannamót án þess að ég hitti ókunnugt fólk sem segist lesa bloggið mitt. Bloggið hefur fært mér ótrúlega mörg verkefni sem mig hefði aldrei órað fyrir að mér myndu bjóðast. Uppskriftir frá mér hafa birst í Vikunni, Fréttablaðinu, Morgunblaðinu og að auki er ég með fastan uppskriftaþátt hjá N4 dagskránni sem kemur út vikulega fyrir norðan. Ég hef tekið að mér að elda fyrir 40 manna  árshátíð og núna er ég að vinna að stóru og spennandi verkefni sem kemur út á prenti í náinni framtíð. Bloggið hefur því leitt mig á algjörlega nýjar og spennandi slóðir!

IMG_0281

Í tilefni dagsins finnst mér við hæfi að koma með krassandi uppskrift af afmælisköku! Ég hef beðið spennt eftir rétta tilefninu að birta þessa frábæru uppskrift af einni þeirri bestu tertu sem ég hef smakkað – tilefnið getur ekki orðið betra en í dag! 🙂 Þetta er himnesk súkkulaðiterta með söltu karamellukremi. Kremið er draumkennt marengskrem með dulce de leche saltri karamellu og kakan umvafin þykku og girnilegu súkkulaðikremi. Sjálf kakan er yndislega bragðgóð og er næstum því eins og súkkulaðifrauð. Þið bara verðið að prófa þessa kræsingu! Það lítur kannski út fyrir að kakan sé flókin en hún er það í raun ekki, kannski dálítið tímafrek en algjörlega þess virði!

IMG_0310

IMG_0307

IMG_0304

Uppskrift: 

Kökubotnar

  • 2 egg
  • 2 dl sterkt kaffi
  • 2½ dl súrmjólk
  • 1,25 dl matarolía
  • 200 g hveiti
  • 420 g sykur
  • 85 g kakó
  • 1 tsk lyftiduft
  • 2 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 1 tsk vanillusykur

Ofninn hitaður í 160 gráður á blæstri. Þrjú bökunarform, 20 cm í þvermál, smurð að innan. Gott er að klæða formin að innan með bökunarpappír til að auðveldara sé að losa botnana.

Eggjum, kaffi, matarolíu og súrmjólk er hrært saman í stutta stund, því næst er þurrefnunum bætt út í og hrært þar til deigið er jafnt og kekkjalaust.

Deiginu er svo skipt í formin þrjú og bakað í ca. 35 mínútur. Athugið að botnarnir munu líta út fyrir að vera blautir. Botnarnir eru látnir kólna. Það er hægt að setja botnana í frysti í ca. 30 mínútur áður en kremið er sett á til þess að auðvelda fyrir ásetningu kremsins.

IMG_0273

IMG_0291

Marengskrem með saltri karamellu

  • 160 g eggjahvítur (ca. 5 egg)
  • 200 g sykur
  • 400 g smjör, vel við stofuhita
  • 1/2 tsk maldon salt (eða annað flögusalt)
  • 2 dl dulce de leche karamellusósa (Hér eru upplýsingar um dulce de leche sósuna, hana er hægt að kaupa tilbúna í t.d. Þinni verslun, Hagkaup og fleiri sérverslununum)
  • 1/2 tsk vanillusykur
Eggjahvítur og sykur sett í hrærivélaskálina. Skálin er sett yfir vatnsbað, þ.e. sett ofan í pott með sjóðandi vatni. Blandan er hituð og hrært í stöðugt á meðan með þeytara. Þegar sykurinn er uppleystur og blandan farin að hitna (komin í 65 gráður ef notaður er mælir) er skálin sett á hrærivélina og þeytt þar til blandan er stífþeytt, glansandi og orðin köld (ég þeytti í ca. 10 mínútur). Þá er þeytaranum skipt út fyrir hrærarann. Smjörinu (verður að vera við góðan stofuhita) er bætt út í og hrært á lægstu stillingunni. Á meðan smjörið er að blandast við marengsinn getur litið út fyrir að hann skilji sig en óttist ekki, þetta blandast allt vel saman að lokum! Þegar blandan nær um það bil sömu áferð og majónes má auka hraðan, stilla á millihraða og hræra í smástund til viðbótar. Því næst er slökkt á hrærivélinni og dulce de leche sósunni, saltinu og vanillusykrinum er bætt út í og síðan hrært á lægsta hraða, hækka svo smá saman í millihraða. Nauðsynlegt er að smakka svo til kremið, ég til dæmis bætti við dulce de leche sósu.
Krem

Súkkulaðikrem:

  • 45 g kakó
  • 90 ml sjóðandi vatn
  • 340 g smjör við stofuhita
  • 65 g flórsykur
  • 450 g suðusúkkulaði

Súkkulaðið er brætt yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni og leyft að kólna dálítið. Þá er kakó og sjóðandi vatni hrært saman með gaffli þar til blandan er slétt. Smjörið er hrært með flórsykrinum þar til blandan verður létt og ljós, í minnst 5 mínútur. Því næst er súkkulaðinu hrært saman við blönduna og í lokin er kakóblöndunni hrært út í kremið. Ef kremið er þunnt þá er gott að geyma það í kæli í smástund til að það þykkni.

IMG_0312

Tertan sett saman:
Einn kökubotn er lagður á kökudisk og góðu magni af marengskremi er smurt á botninn. Þetta er endurtekið með hina tvo botnana. Í lokin er restinni af kreminu smurt utan um kökuna alla. Þá er kakan sett í kæli í ca. 20 mínútur þar til kremið hefur stífnað dálítið. Því næst er súkkulaðikreminu smurt utan um kökuna og kakan sett í kæli í nokkra tíma (best yfir nóttu) til að brjóta sig. Gott er að taka kökuna út allavega einum tíma áður en hún er
borin fram.
IMG_0294
Súkkulaðiterta með saltri karamellu
IMG_0293

Maríukaka


Maríukaka

Í dag er frábæra mamma mín sextug – til hamingju elsku mamma! 🙂 Í tilefni þess var mamma með brunch í gær fyrir nánustu vini og fjölskyldu.

mamma afmæli2

Hér erum við mamma í dag og fyrir fjörtíu árum! 🙂

Tvær blómarósir í afmælinu, yngstu barnabörnin Bára Margrét 4 ára og Jóhanna Inga 8 ára.

IMG_0027Og dásamlega fallegar bóndarósir sem mamma fékk á afmælinu.

IMG_0087

Ég útbjó þrennt á brunch borðið. Það voru eggja- og beikonmúffurnar sem ég setti inn uppskrift af í gær.

IMG_9924

Auk þess sem ég gerði tvær tegundir af kökum. Kökurnar skar ég í litla bita sem henta vel á svona smáréttahlaðborð. Annars vegar gerði ég franska súkkulaðiköku með súkkulaðikremi. Skotheld uppskrift sem klikkar aldrei, þessa uppskrift er að finna hér. Uppskriftina gerði ég tvöfalda og þá smellpassaði hún í venjulega ofnskúffu og gaf 80 litla kökubita.

IMG_9896

Þar sem súkkulaðikakan er fremur blaut er gott að setja hana í kæli í smá tíma áður en hún er skorin.

IMG_9953Með því að skera kökuna kalda verða bitarnir fallegri.

IMG_9956Það er líka gott að hafa í huga að láta jarðaberin eins seint og hægt er ofan á kökuna því jarðaber verða fljótt slepjuleg ofan á kökum og smita þá vökva út frá sér.

Hins vegar gerði ég köku sem mamma lét mig fá uppskrift að, Maríuköku. Þetta er ljúffeng kaka með pekanhnetum og karamellubráð. Ég gerði þessa uppskrift tvöfalda og þá passaði hún í ofnskúffu. Ég skar bitana aðeins stærri en af súkkulaðikökunni og fékk um það bil 55 bita.

IMG_9919Mamma útbjó veglegt og gómsætt brunch-borð en á því var að finna meðal annars:

IMG_9947

IMG_9998

Eins og ég sagði þá tvöfaldaði ég Maríukökuna og bakaði hana í stórri ofnskúffu. Hér að neðan gef ég hins vegar upp einfalda uppskrift sem passar í venjulegt 24 cm smelluform.

IMG_9920

Maríukaka – uppskrift:

  • 3 egg
  • 1 dl sykur
  • 4 msk smjör
  • 100 g gott dökkt súkkulaði
  • 1 tsk salt
  • 1 tsk vanillusykur
  • 1 1/2 dl hveiti

ofan á kökuna:

  • 4 msk smjör
  • 1/2 dl púðursykur
  • 3 msk rjómi
  • 1 pk pecanhnetur
  • 100 g gott dökkt súkkulaði, saxað (ég sleppti því reyndar í þetta skiptið)

IMG_9851

Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita. Egg og sykur þeytt vel saman. Á meðan er súkkulaði og smjör brætt varlega saman í potti, blanda er svo kæld dálítið. Því næst er henni bætt út eggjablönduna og þeytt vel saman. Að lokum eru þurrefnin sigtuð út í blönduna og blandað varlega saman við.  24 cm smelluform smurt að innan og deiginu hellt í formið. Bakað við 175° í 17 mínútur.

Á meðan er smjör, púðursykur og rjómi hitað í potti þar til blandan fer að „bubbla“ og þykkist dálítið. Þegar kakan hefur bakast í 17 mínútur er hún tekin út úr ofninum og pekanhnetum dreift yfir hana, annað hvort í heilu eða saxaðar. Þá er karamellubráðinni hellt yfir kökuna og bakað í 17 mínútur til viðbótar. Um leið og kakan kemur út úr ofninum er súkkulaðinu stráð yfir kökuna.

IMG_9854

IMG_9858

IMG_9921

Kjúklingabaka


Um daginn þegar við héldum fjölskylduafmæli fyrir hana Jóhönnu okkar á þá gerði ég þessa böku fyrir veisluna. Mér finnst hún voða góð og bakan er líka skemmtileg tilbreyting frá þessum hefðbundnu heitu brauðréttum. Það er ekkert flóknara að gera bökuna en að gera heitan brauðrétt. Ég notaði kjúklingabringur en það er líka hægt að kaupa tilbúinn heilan kjúkling og rífa hann niður. Smjördeigið sem ég nota er frá Findus, það er frosið en þiðnar fljótt. Degið er í fimm plötum, þeim er raðað þannig að brúnirnar leggjast örlítið ofan á hvor aðra og síðan flatt út með kökukefli. Það er ekkert mál að fletja smjördeigið út en það verður að hafa dálítið hveiti, bæði undir og ofan á deiginu, annars klessist það. Þessa böku er sniðugt að bera fram í veislum en það er líka hægt að nota hana sem aðalrétt og bera þá fram með henni gott salat.

Uppskrift:

  • 500 g smjördeig
  • 300 g sveppir
  • salt og pipar
  • kjúklingakrydd
  • 1 stk. rauð paprika
  • 300 g kjúklingur, steiktur
  • 200 g goudaostur
  • 50 g fetaostur í kryddlegi
  • 1 dós sýrður rjómi

Hitið ofn í 200 gráður. Fletjið smjördeigið út og setjið í eldfast form. Sneiðið sveppina niður og steikið þá upp úr smjöri á pönnu. Kryddið með salti, pipar og góðu kjúklingakryddi. Skerið paprikuna niður í teninga, bætið henni út á pönnuna og hitið með í restina. Rífið steiktan kjúkling niður og blandið honum saman við ásamt goudaosti og fetaosti. Kælið áður en sýrða rjómanum er hrært saman við. Hellið blöndunni yfir smjördeigið í forminu, bakið við 200°C í um 25 mín, eða þar til brúnirnar á smjördeiginu hafa tekið góðan lit.