Um síðustu helgi héldum við upp á 10 ára afmæli yngsta barnsins á heimilinu. Hún er svo mikill heimshornaflakkari að þemað sem hún valdi sér í ár var París! Draumur hennar um að sjá New York rættist í sumar og nú stendur Parísarferð efst á óskalistanum. Við keyptum skemmtilegar Parísar servíettur, glös, blöðrur og dúk á Amazon í Bandaríkjunum sem setti tóninn fyrir afmælisþemað í ár. 
Jóhanna skoðaði Parísartertur á netinu og var með mjög ákveðnar hugmyndir um hvernig tertan ætti að vera. Eins og mér finnst gaman að baka þá finnst mér alltaf jafn erfitt að skreyta afmælisterturnar. Það fer nefnilega ekkert sérlega vel saman að vera með metnað í afmælistertum en hafa svo ekkert sérstaklega mikla skreytingahæfileika! 😉 Ég dreg alltaf þetta verkefni fram á síðustu stundu og er því yfirleitt nóttina fyrir afmælið í eldhúsinu að reyna að skreyta og skera út afmæliskökur sem krakkarnir hafa óskað eftir. Í ár ákvað ég að gera mér lífið létt og bað Önnu frænku mína, sem er konditor, um að gera afmælistertuna og það var frábær ákvörðun.

Eiffel turninn er úr súkkulaði en blúndan og slaufan úr sykurmassa.
Kakan varð jú fyrir það fyrsta dásamlega falleg og góð, var nákvæmlega eins og Jóhanna mín óskaði sér og ég sjálf gat dundað mér við hefðbundinn kökubakstur og brauðréttagerð án þess að eiga kökuskreytingar hangandi yfir mér!


Afmælisbarnið útbjó sjálf þessa fínu Parísar-nammipoka handa hverjum og einum gesti.
Ég var hins vegar mjög ánægð með ættingja mína sem héldu í fyrstu að ég hefði gert þessa glæsilega köku, það er mikið hrós fyrir manneskju með þumalputta á öllum þegar kemur að skreytingum! 🙂 Anna er menntaður konditor og er með Facebook síðu hér.

Ein kakan í afmælinu sem fékk mikið lof var þetta banana-karamellupæ. Sjálfri finnst mér allt sem hefur samsetninguna bananar, karamellur og rjómi ákaflega gott. Ég setti inn uppskrift af svipaðri böku hér en það þarf að hafa meira fyrir henni enda er karamellusósan heimagerð. Þetta pæ er hins vegar ótrúlega fljótlegt og einfalt en sjúklega gott og hentar mjög vel sem eftirréttur. Hugmyndin kom út frá þessari karamellusósu sem ég keypti í Þinni verslun og var búin að eiga inni í skáp þónokkuð lengi. Ég fór á síðuna hjá þeim og sá að þessar vörur eru seldar á eftirfarandi stöðum: í Melabúðinni, Hagkaup Garðabæ, Hagkaup Kringlunni, Ostabúðinni Skólavörðustíg, Vínberinu Laugavegi, Garðheimum, Kjöthöllinni Háaleitisbraut, Þinni Verslun í Breiðholti, Mjólkurstöðinni Neskaupsstað, Blómasetrinu Borganesi og Býflugan og blómið á Akureyri.

Uppskrift:
- 300 g Digestive kex
- 150 g smjör, brætt
- 3 stórir þroskaðir bananar eða 4 litlir
- 1 krukka karamellusósa frá Stonewall Kitchen (Stonewall Kitchen Sea Salt Caramel Sauce 347g)
- 500 ml rjómi
- 2 tvöföld Daim súkkulaði (56 g stykkið), saxað
Ofn stilltur á 175 gráður við undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið smátt og því blandað saman við smjörið. Blöndunni þrýst ofan í smurt eldfast bökuform. Botninn bakaður í 10 mínútur og leyft að kólna. Rjóminn er þeyttur. Bananar eru skornir í þunnar sneiðar og raðað yfir kaldan botninn. Því næst er helmingnum af karamellusósunni dreift yfir bananana og hluta af rjómanum dreift yfir. Þá er restinni af banönunum dreift yfir rjómann, þá afgangnum af karamellusósunni og að lokum er öllum rjómanum smurt yfir eða sprautað með rjómasprautu. Söxuðu Daim súkkulaði er að síðustu dreift yfir rjómann.


Líkar við:
Líkar við Hleð...