Smjördeigskörfur með ís-rjóma, banönum, Daim og Nutella.


IMG_4738

Ég elska góða eftirrétti sem eru fljótgerðir. Ég er með nokkrar uppskriftir að eftirréttum sem ég nota oftar en aðrar þegar ég hef lítinn tíma til að undirbúa matarboð. Núna bætist þessi uppskrift klárlega í þann hóp, hrikalega góður eftirréttur sem tekur skotstund að gera. Ég er vandræðalega hrifin af smjördegi og kaupi það yfirleitt tilbúið frosið. Það tekur bara örfáar mínútur að þiðna eftir að plöturnar eru teknar í sundur og þá er hægt að búa til allskonar dásemdir úr því.

IMG_4695

Á myndunum sést nýjasta viðbótin í eldhúsið mitt. Þetta eru dásemdar vörur frá Willamia fyrir eldhúsið, Knit Factory. Það er hægt að fá dúka, tuskur, eldhúshandklæði, svuntur og margt fleira ofboðslega flott í þessari línu.

IMG_4750

Hér að ofan sést t.d. dásamlegi löberinn sem prýðir eldhúsborðið mitt. 🙂

En aftur að uppskriftinni. Hráefnin eru fá en smellpassa svo vel saman, bananar, rjómi, Daim og Nutella getur aldrei klikkað! 🙂 Ég notaði fremur stór muffinsform en það er auðvelt að aðlaga stærðina bara eftir þeim formum sem maður á heima.

IMG_4699

Uppskrift (6 stórar smjördeigskörfur)

  • 3 plötur smjördeig
  • örlítið hveiti
  • 2.5 dl rjómi
  • 1-2 dl vanilluís, látinn bráðna dálítið (má sleppa)
  • 2-3 bananar, skornir í sneiðar
  • 4 lítil Daim, söxuð smátt
  • ca. 1 dl Nutella

IMG_4703

Ofn hitaður í 200 gráður. Smjördeigsplötunum þremur er skipt í tvennt og þær allar flattar vel út með kökukefli á hveitistráðu borði. Stór muffinsform klædd að innan með útflöttu smjördegi og bakað í um það bil 12 mínútur við 200 gráður eða þar til smjördegið er orðið gullinbrúnt. Á meðan er rjóminn þeyttur. Það er rosalega gott að bæta við bráðnuðum vanilluís út í rjómann þegar hann er næstum fullþeyttur en þvi má sleppa. Því næst er banönum blandað saman við þeytta rjómann og helmingnum af saxaða Daim súkkulaðinu. Þegar smjördegið er tilbúið er það látið kólna (kólnar mjög fljótt), hver karfa síðan fyllt með banana/Daim-rjóma og restinni af Daim súkkulaðinu er stráð yfir. Loks er Nutella hitað í örbylgjuofni í ca. 30 sekúndur eða þar til auðveldlega er hægt að dreifa því yfir smjördeigskörfurnar.

IMG_4716

IMG_4742IMG_4723IMG_4708IMG_4769

Bananapæ með Dumle go nuts karamellusósu


IMG_8127IMG_8118Eitt af því besta sem ég veit er þegar banönum, karamellu og rjóma er fléttað saman í gómsætan eftirrétt. Þegar ég tók að mér að gera Dumle uppskriftirnar um daginn þá langaði mig ægilega mikið að búa til eftirrétt með einmitt þessum hráefnum. IMG_8135 Dumle go nuts molarnir eru vandræðalega góðir, mjúk karamellan, hnetur og súkkulaði sem kemur allt saman í einum mola. Ég sá það fyrir mér að það væri auðvelt og gott að gera karamellusósu úr þessari dásemd og þannig varð þetta bananapæ til á örskömmum tíma. Þetta er eftirréttur sem hægt er að útbúa á bara nokkrum mínútum, það finnst mér alltaf vera mikill kostur, en fyrst og fremst er þetta svo óskaplega gott! 🙂 IMG_8133 Uppskrift f. 4

  • 150 g Digestive kex
  • 2 meðalstórir bananar, vel þroskaðir
  • 1 poki Dumle go nuts (175 g)
  • 2 ½  dl rjómi
  • 4 msk rjómi

IMG_8116 Kexið er mulið fremur smátt. Bananar skornir í sneiðar og 2 ½ dl af rjóma þeyttur. Dumle go nuts molarnir (3 molar skildir eftir til skrauts) eru settir í pott ásamt 4 msk af  rjóma og brætt við vægan hita. Því næst er skipt á milli 4 skála: kexmylsna í botninn, þá Dumle go nuts sósa, bananabitar, þeyttur rjómi, kexmylsna, Dumle go nuts sósa, þeyttur rjómi og loks restinni af bananabitunum stungið ofan í rjómann. Dumle go nuts molarnir þrír eru saxaðir smátt og dreift yfir til skrauts. IMG_8131 IMG_8121IMG_8122

Franskar Crêpes með Nutella og banönum


Í fyrra fórum við hjónin í dásamlega ferð til Parísar. Við þræddum stórborgina í rúma viku, skoðuðum söfn, hlýddum á tónleika, fórum í lautarferðir í Lúxemburgargarðinn, sigldum eftir Signu en síðast en ekki síst snæddum við ljúfengan mat og drukkum dásamleg frönsk vín! Mörgum mánuðum fyrir ferðina kortlagði ég veitingastaðina í París, skoðaði matseðla, vefsíður og veitingahúsadóma. Þetta heppnaðist afar vel, við fórum á frábæra veitingastaði og fengum ljúffengan mat alla ferðina.  En satt best að segja þá voru það ekki fínu veitingastaðirnir sem stóðu upp úr matarlega hjá okkur. Eftir að við komum heim gátum við ekki hætt að hugsa um crêpes, frönsku pönnukökurnar, sem eru seldar hér og þar um París í litlum sölustöndum! Crêpes með osti, skinku og eggi var hrikalega gott (ég er með uppskrift af því hér). En crêpes með Nutella og banönum …. Mon Dieu! 🙂 Og mér sem finnst ekki hnetusmjör gott! Eftir að heim var komið reyndi ég að endurskapa þessa dásemd en það gekk brösuglega. Málið með Crêpes er að þær eiga að vera þunnar og stórar en því er erfitt að ná með íslenskri pönnukökupönnu. En viti menn, ég fann Crepe rafmagnspönnu í Elkó sem var alls ekki svo dýr! Eftir að ég keypti hana fór ég að reyna að fullkomna uppskriftina og held að ég sé komin niður á uppskrift sem ég er sátt við. Svo þarf reyndar smá lagni við að steikja pönnukökurnar næfurþunnar og smyrja þær heitar með Nutella. En enginn í fjölskyldunni kvartar yfir þessum æfingum hjá mér! 😉 Fyrir þá sem vilja búa til alvöru Crêpes mæli ég með að setja þessa pönnu á jólagjafaóskalistann. En það er alveg hægt að búa til gómsætar crêpes á venjulegri pönnukökupönnu eða bara á venjulegi steikarpönnu með teflonhúð, ég hvet ykkur til að pófa!

Uppskrift

  • 190 gr sigtað hveiti
  • 1/4 tsk salt
  • 3 egg
  • 360 ml mjólk
  • 45 gr smjör, brætt
  • Nutella
  • Vel þroskaðir bananar.

Skerið banana í sneiðar. Sigtið hveitið. Þeytið saman egg og hveiti, bætið smám saman mjólkinni við og að lokum bræddu smjör og salti. Þeytið vel.

Setjið örþunnt lag af deiginu á pönnu og steikið, snúið pönnukökunni við, bíðið í ca. 30 sekúndur, brjótið pönnukökuna í tvennt. Smyrjið Nutella á pönnukökuna og dreifið banönum yfir. Það þarf að hafa frekar hröð handtök. Brjótið svo pönnukökuna aftur saman, og steikið í skamma stund á hvorri hlið til að Nutella og bananar bráðni vel saman.

Berið fram pönnukökurnar sjóðheitar og ekki er verra að bera þær fram með vanilluískúlu og/eða þeyttum rjóma.

Banana-karamellubaka


Þessi himneska baka kemur úr smiðju Davids Lebovitz sem er snillingur þegar kemur að eftirréttagerð. Uppskriftina er að finna í bókinni hans Ready for Dessert: My Best Recipies. Á ensku heitir þessi baka Butterscotch Banana Cream Pie. Ég er búin að spá aðeins í þetta ,,butterscotch“. Á íslensku notum við orðið karamella yfir allar gerðir karamellu. En á ensku er til:

Butterscotch = púðursykur, rjómi og smjör hitað í ca. 115°C – 125°C.
Toffee = púðursykur, rjómi og smjör hitað upp í 150°C – 160°C þar til það verður stökkt.
Caramel = hvítur sykur ásamt smjöri og rjóma hitað þar til sykurinn brúnast, gerist við 150-170°C

Ég fæ ekki séð að við eigum mismunandi orð yfir þessar karamellur en ég er búin að fletta upp í eldhúsbiblíunni minni, Matarást eftir Nönnu Rögnvaldar, hún notar ensku orðin til aðgreiningar.

Eins og kemur fram hér að ofan þá er oftast rjómi í butterscotch-karamellunni en David notar mjólk í þessari uppskrift sem er auðvitað snilld, þá getur maður fengið sér fleiri sneiðar af bökunni án samviskubits! 🙂

Það kannski lítur út fyrir að það sé flókið að gera karamelluna en svo er alls ekki. Fylgið bara leiðbeiningunum nákvæmlega. Snilld við þessa böku er að það er hægt að útbúa hana deginum áður, en þá er bara rjómanum bætt við rétt áður en bakan er borið fram. Ég mæli með að þið prófið þessa dásemdarböku sem allra fyrst! 🙂

 Uppskrift

Botn:
180 gr súkkulaðikex (td. Maryland, rautt) eða Digestive kex ef maður vill minna sætan botn.
3 msk sykur
4 msk bráðið smjör

Aðferð:
Smyrjið bökuform. Bræðið smjörið og myljið kexið í matvinnsluvél eða mixer, blandið saman. Sett í botninn á forminu og blöndunni þrýst i í botninn og upp í hliðar á bökuforminu. Kælið í 30 mínútur í ísskáp eða frysti og bakið svo í ofni við 175°C í 10 mínútur. Leyfið botninum að kólna á meðan karamellan er er útbúin.

Karamella: 

215 gr. púðursykur
30 gr. smjör
3 msk. maizenamjöl
375 ml. nýmjólk
1/2 tsk. salt
3 eggjarauður
1/2 tsk vanilluextract (ég notaði fræin úr ferskri vanillustöng í staðinn en það er líka hægt að nota vanilludropa)
3 þroskaðir bananar

Aðferð:

  1. Bræðið smjör og púðursykur saman á meðalhita í potti, hellið yfir í meðalstóra skál, setjið sigti yfir skálina og setjið til hliðar
  2. Hrærið maizenamjölið út í 75 gr. af mjólkinni í lítilli skál. Hitið restina af mjólkinni með saltinu í potti þangað til að blandan er við suðu og hellið þá maizenamjölsblöndunni út í og hrærið þar til blandan þykknar (álíka mikið og majónes).
  3. Þeytið eggjarauðurnar saman í skál. Hellið smá af heitri mjólkurblöndunni útí eggin og þeytið meira. Hellið nú eggjablöndunni út í pottinn með heitu mjólkinni, sjóðið á meðalhita til að blandan þykkni.
  4. Hellið nú heitri blöndunni í gegnum sigtið ofan í púðursykurblönduna. Bætið vanilluextract við og hrærið vel saman. Núna er karamellan tilbúin.
  5. Skerið bananana niður í 6 mm sneiðar og dreifið yfir kexbotninn. Hellið karmellublöndunni yfir bananana, setjið plastfilmu yfir bökuna og geymið í kæli í minnst 2 klukkutíma áður en rjóminn er settur ofan á og bakan borin á borð.

IMG_3190

Rjómi:

250 ml rjómi
1 msk sykur
1/2 tsk vanilluextract
súkkulaðispænir til skreytingar

Þeytið rjómann þar til hann fer að þykkna, bætið þá sykri og vanilluextract út í og þeytið rjómann til fulls. Dreifið yfir bökuna og skreytið með súkkulaðispæni.