Glútenlausar vöfflur á vöffludegi


Glútenlausar vöfflur„Þegar ég bjó í Svíþjóð …“ er setning sem ég var staðráðin í að láta ekki hljóma vandræðalega oft eftir að ég flutti heim til íslands eftir 15 ára dvöl þar í landi. Ég veit ekki alveg hvort ég hef staðið við það, ég hef allavega margoft rætt um Svíþjóð og sænskar hefðir hér á blogginu. En það er jú líka ansi margt sem við getum sótt til þessarar frændþjóðar okkar þegar kemur að matargerð. Til dæmis eru Svíar snillingar í að búa sér til hátíðisdaga helgaða matréttum – nokkuð sem við Íslendingar mættum gjarnan taka upp finnst mér.

Svíar halda upp á dag kanelsnúðsins (4. október), dag frönsku súkkulaðikökunnar (7. nóvember) og dag ostakökunnar (14. nóvember). Til að fagna sænsku prinsessutertunni, dugir ekkert minna en heil vika sem er sú síðasta í september. Að auki eru borðaðar saffransbollur (Lussekatter) í kringum Lúsíuhátíðina á aðventunni og svo auðvitað bolludagur (sænskar semlor) sem nær eiginlega yfir mánaðartímabil. Í dag er svo vöffludagurinn – þið verðið að viðurkenna að þetta er dálítil snilld hjá Svíunum!

Það er sniðugt hvernig vöffludagurinn kom til því upphaflega er þetta kristinn dagur, dagur jómfrúarinnar (Vårfrudagen) en þá er þess minnst þegar Gabríel erkiengill boðaði Maríu Mey að hún myndi fæða frelsarann, ég geri ekki ráð fyrir að hún hafi boðið honum upp á vöfflur í tilefni dagsins. Í tímans rás þá breyttist á óútskýranlegan hátt, vegna misheyrnar, misskilnings eða jafnvel bara gríns, nafnið „Vårfrudagen“ í „Våffeldagen“.

IMG_4511

25. mars er því helgaður vöfflum í Svíþjóð og mér sýnist hjá vinum mínum á Instagramminu að svo sé líka í Noregi. Óteljandi girnilegar vöfflumyndir hafa streymt í gegnum símann minn í dag með Instagram og það kom því ekkert annað til greina en að baka vöfflur þegar ég kom heim úr vinnunni.

Ég hef aðeins verið að prófa mig áfram með glútenfrítt brauð og bakkelsi og var því mjög glöð þegar ég sá sænskar Finax vörur, sem ég notaði mikið í Svíþjóð, voru komnar í Hagkaup. Þetta er glútenlaus mjölblanda og gróf mjölblanda. Þessar blöndur er hægt að nota í stað hveitis í flestum uppskriftum. Til dæmis bjó ég til gómsætt glútenlaust brauð um daginn sem var líka gerlaust þar sem ég blandaði saman grófa og fína mjölinu.

IMG_4476 Ég var ekkert smá ánægð með útkomuna á vöfflunum. Hér heima voru nokkur börn sem gæddu sér á vöfflunum og þeim fannst þær meira að segja betri en þessar hefðbundu sem ég hef gert. Vöfflurnar voru afar fljótar að bakast, og urðu stökkar og gómsætar!

IMG_4505

Uppskrift:

  • 4 egg Finax
  • ca. 5 dl mjólk
  • 100 g smjör, brætt
  • 5 dl glutenfri mix frá Finax
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 tsk salt
  • 2 tsk vanillusykur (eða 1 tsk vanilludropar)

Mjölinu er blandað við lyftiduftið, vanillusykurinn og saltið. Eggin eru aðskilin og eggjarauðunum er hrært út í þurrefnin ásamt helmingnum af mjólkinni. Þá er restinni af mjólkinni bætt út í smátt og smátt. Eggjahvíturnar eru stífþeyttar og því næst blandað varlega út í degið.

IMG_4499 IMG_4505

 

Glútenlausar vöfflur á vöffludegi


Glútenlausar vöfflur„Þegar ég bjó í Svíþjóð …“ er setning sem ég var staðráðin í að láta ekki hljóma vandræðalega oft eftir að ég flutti heim til íslands eftir 15 ára dvöl þar í landi. Ég veit ekki alveg hvort ég hef staðið við það, ég hef allavega margoft rætt um Svíþjóð og sænskar hefðir hér á blogginu. En það er jú líka ansi margt sem við getum sótt til þessarar frændþjóðar okkar þegar kemur að matargerð. Til dæmis eru Svíar snillingar í að búa sér til hátíðisdaga helgaða matréttum – nokkuð sem við Íslendingar mættum gjarnan taka upp finnst mér.

Svíar halda upp á dag kanelsnúðsins (4. október), dag frönsku súkkulaðikökunnar (7. nóvember) og dag ostakökunnar (14. nóvember). Til að fagna sænsku prinsessutertunni, dugir ekkert minna en heil vika sem er sú síðasta í september. Að auki eru borðaðar saffransbollur (Lussekatter) í kringum Lúsíuhátíðina á aðventunni og svo auðvitað bolludagur (sænskar semlor) sem nær eiginlega yfir mánaðartímabil. Í dag er svo vöffludagurinn – þið verðið að viðurkenna að þetta er dálítil snilld hjá Svíunum!

Það er sniðugt hvernig vöffludagurinn kom til því upphaflega er þetta kristinn dagur, dagur jómfrúarinnar (Vårfrudagen) en þá er þess minnst þegar Gabríel erkiengill boðaði Maríu Mey að hún myndi fæða frelsarann, ég geri ekki ráð fyrir að hún hafi boðið honum upp á vöfflur í tilefni dagsins. Í tímans rás þá breyttist á óútskýranlegan hátt, vegna misheyrnar, misskilnings eða jafnvel bara gríns, nafnið „Vårfrudagen“ í „Våffeldagen“.

IMG_4511

25. mars er því helgaður vöfflum í Svíþjóð og mér sýnist hjá vinum mínum á Instagramminu að svo sé líka í Noregi. Óteljandi girnilegar vöfflumyndir hafa streymt í gegnum símann minn í dag með Instagram og það kom því ekkert annað til greina en að baka vöfflur þegar ég kom heim úr vinnunni.

Ég hef aðeins verið að prófa mig áfram með glútenfrítt brauð og bakkelsi og var því mjög glöð þegar ég sá sænskar Finax vörur, sem ég notaði mikið í Svíþjóð, voru komnar í Hagkaup. Þetta er glútenlaus mjölblanda og gróf mjölblanda. Þessar blöndur er hægt að nota í stað hveitis í flestum uppskriftum. Til dæmis bjó ég til gómsætt glútenlaust brauð um daginn sem var líka gerlaust þar sem ég blandaði saman grófa og fína mjölinu.

IMG_4476 Ég var ekkert smá ánægð með útkomuna á vöfflunum. Hér heima voru nokkur börn sem gæddu sér á vöfflunum og þeim fannst þær meira að segja betri en þessar hefðbundu sem ég hef gert. Vöfflurnar voru afar fljótar að bakast, og urðu stökkar og gómsætar!

IMG_4505

Uppskrift:

  • 4 egg Finax
  • ca. 5 dl mjólk
  • 100 g smjör, brætt
  • 5 dl glutenfri mix frá Finax
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 tsk salt
  • 2 tsk vanillusykur (eða 1 tsk vanilludropar)

Mjölinu er blandað við lyftiduftið, vanillusykurinn og saltið. Eggin eru aðskilin og eggjarauðunum er hrært út í þurrefnin ásamt helmingnum af mjólkinni. Þá er restinni af mjólkinni bætt út í smátt og smátt. Eggjahvíturnar eru stífþeyttar og því næst blandað varlega út í degið.

IMG_4499 IMG_4505

 

Súkkulaði-bananavöfflur


IMG_0368

Mér finnst flest allt þar sem súkkulaði er sameinað með banönum afskaplega gott. Ég hef sett inn hingað á síðuna nokkrar slíkar uppskriftir sem eru allar í miklu uppáhaldi.

Frönsku pönnukökurnar, crepes, með Nutella og banönum eru til dæmis hættulega góðar.

IMG_3736

Þessi súkkulaði- og bananakaka er líklega uppáhaldskakan mín hér á Eldhússögum. Ef þið hafið ekki prófað hana enn þá eruð þið að missa af miklu!

IMG_9530

Banankakan með súkkulaði lætur ekki mikið yfir sér á mynd en er sjúklega góð.

IMG_0153

Þessi bananakaka hefur verið í uppáhaldi á heimilinu í 20 ár og eina kakan sem eiginmaðurinn bakar reglulega.

IMG_2259

Hér er svo súkkulaðikaka með banönum og sykurpúðum, algjört hnossgæti.

IMG_1013

Hérna er reyndar banana- og karamellubaka en hún er svo dásamlega góð.

IMG_3186

Í dag bæti ég í safnið enn einni súkkulaði/bananauppskriftinni sem sló svo sannarlega í gegn hér heima! Ég fór nefnilega að hugsa um leiðir til þess að nota skemmtilegu vöffluformin mín á fleiri vegu en að baka bara í þeim hefðbundnar vöfflur. Þessi form fást í Kokku. Hér setti ég inn uppskrift þar sem ég bakaði hefðbundar vöfflur í formunum.

vöfflur

Mér datt í hug að prófa að búa til vöfflur með súkkulaði og banönunum, nokkuð sem reyndist snilldarhugmynd. Ég prófaði mig áfram og fyrstu vöfflurnar reyndust óætar! Ég notaði of mikið kakó og of lítinn sykur, þær urðu alltof rammar. En eftir að hafa prófað mig áfram með deigið datt ég niður á sjúklega góðar vöfflur, þessar verðið þið bara að prófa! Frábær eftirréttur eða með kaffinu til hátíðarbrigða. Ég prófaði bæði að baka þær í vöffluformunum mínum í ofninum en líka í belgíska vöfflujárninu og hvor tveggja kom álíka vel út.

IMG_0353IMG_0361IMG_0375

Svona komu vöfflurnar úr belgíska vöfflujárninu

Það er því ekkert því til fyrirstöðu að baka þessar vöfflur í hefðbundu vöfflujárni ef þið eigið ekki formin. Ég mæli hins vegar mikið með formunum úr Kokku, þá er hægt að baka allar vöfflurnar í einu og bera þær fram sjóðandi heitar samtímis. Snilld til dæmis sem eftirréttur fyrir marga.

Súkkulaði-bananavöfflur

Uppskrift:

  • 2 dl hveiti
  • 2 dl kartöflumjöl
  • 1 msk kakó
  • 1 msk vanillusykur
  • 1/2 dl sykur
  • 1 tsk lyftiduft
  • 3 dl mjölk
  • 2 egg
  • 100 g smjör, brætt
  • 2 bananar, stappaðir

Þurrefnunum blandað saman í skál. Þá er öðru egginu og helmingnum af mjólkinni blandað út í. Því næst er hinu egginu, restinni af mjólkinni, brædda smjörinu og banönunum bætt út í og hrært með písk þar til deigið er slétt. Bakað í vöfflujárni og vöfflurnar bornar fram heitar.

Ef notuð eru vöffluform er ofn hitaður í 220 gráður við undir- og yfirhita. Deiginu er hellt í formin og sett inn í ofn í 7 mínútur. Því næst eru formin tekin úr ofninum og vöfflunum hvolft á bökunarplötu. Hitað í ofninum í 4-5 mínútur til viðbótar.

IMG_0349

Vöfflurnar er hægt að bera fram með niðursneiddum banönum og sírópi, ís og karamellusósu, þeyttum rjóma og Nutella sósu eða hverju því sem hugurinn girnist.

IMG_0379

Bakaðar vöfflur


Bakaðar vöfflur

Við hjónin vorum að koma ofan úr Hvalfirði þar sem við eyddum ljúfum tíma á hótel Glym. Hótel Glymur er mjög hlýlegt og notalegt hótel. Útsýnið frá hótelinu er óborganlegt, við nutum þess yfir góðu vínglasi áður en við snæddum góða þriggja rétta máltíð á hótelinu.

Seinna um kvöldið fórum við í heita pottinn undir ævintýralega stjörnubjörtum himni. Morgunverðarhlaðborðið var afskaplega ljúffengt. Ef á slíku borði eru egg í allskonar útgáfum, ostar, reyktur lax og ávextir þá er ég glöð og Hótel Glymur stóð undir þeim væntingum.

image

image

Instagram áhangendur Eldhússagna gátu séð myndir frá þessari ferð. Mér finnst þetta Instagram svo ægilega skemmtilegt! Það er nú samt týpískt að loksins þegar ég kemst á Instagram þá eru allir að færa sig yfir á Cinemagram! 🙂 Aldrei að vita nema að Eldhússögur prófi sig áfram þar líka!

Það áttu sér stað tilraunir í eldhúsinu í Kleifarselinu í gær. Ég eignaðist stórsniðug silikon form úr Kokku sem notuð eru til að baka vöfflur í ofni. Ég var ægilega spennt að prófa nýju formin mín og stóðst ekki mátið að búa til vöfflur áður en við hjónin fórum í Hvalfjörðin. Börnin og vinir þeirra sem voru í heimsókn voru ekkert ósátt við þessar tilraunir! Einn af stóru kostunum við þessi form er að allar vöfflurnar verða tilbúnar á sama tíma.

vöfflur

Ég notaði hér um bil sömu uppskrift og ég nota fyrir venjulegar vöfflur en notaði meira smjör. Vöfflurnar urðu rosalega góðar og í raun ekkert líkar þeim sem bakaðar eru í vöfflujárni. Bragðið var það sama en áferðin allt önnur. Þær eru töluvert þykkari og minna á belgískar vöflur. Með því að baka vöfflurnar í þessum formum verða þær stökkar að utan og mjúkar og djúsí að innan. Vöfflurnar slógu algjörlega í gegn hjá öllum börnunum fimm sem sögðu öll sem eitt að þessar vöfflur væru mikið betri en hefðbundnar vöfflur. Ég verð að vera sammála þeim, þetta voru dásamlega góðar vöfflur og afskaplega auðvelt að baka þær. Ég er strax farin að upphugsa fleiri leiðir til þess að nota þessi form. Spenntust er ég fyrir því að prófa að baka brownies í formunum. Það yrði örugglega dúndur eftirréttur sem væri gaman að skreyta og bera fallega fram. Einnig væri sniðugt að nota gerdeig eins og notað er í belgískar vöfflur og gera ósætar vöfflur með kannski beikoni, ostum eða einhverju slíku. Möguleikarnir eru býsna margir!

IMG_9265

Hér er önnur hliðin bökuð, svo er vöfflunum hvolft á bökunarplötu og þær bakaðar í nokkrar mínútur í viðbót.

IMG_9267

Uppskrift:

  • 3 egg
  • 100 g smjör
  • 400 ml mjólk
  • 250 g hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 2 tsk sykur

Ofn hitaður í 220 gráður. Smjörið brætt og eggin pískuð létt saman, þá er smjörinu bætt út í eggin. Því næst er mjólkinni bætt út í og hún pískuð saman við eggin og smjörið. Að lokum er þurrefnunum bætt út og og degið hrært saman með písk þar til það er slétt og laust við kekki. Deginu er hellt í formin og bakað í ofni í ca. 8-9 mínútur. Þá eru formin tekin út og vöfflunum hvolft á ofnplötu og þær bakaðar í ca. 5 mínútur til viðbótar (samkvæmt leiðbeiningum á pakkningunum). Ég reyndar bakaði þær í ca. 8 mínútur til þess að fá meiri lit á vöfflurnar. Við bárum fram vöfflurnar með rjóma og sultu annars vegar …

IMG_9277

og Nutella og jarðaberjum hinsvegar …

Bakaðar vöfflur

Pönnuköku-souffle


Pönnuköku-souffle

Dagurinn í gær var mikill gleðidagur frá upphafi til enda. Okkur fjölskyldunni bárust frábærar fréttir um miðjan dag sem við erum enn að gleðjast yfir. Um kvöldið hringdi svo Elfar frá Svíþjóð en hann var þar í átta daga vinnuferð og átti ekki að koma heim fyrr en eftir helgi … hélt ég! En á meðan ég var að tala við hann í símann kom hann gangandi inn um útidyrnar með rós handa mér! 🙂 Hann hafði þá breytt ferðinni til að geta eytt helginni með fjölskyldunni, okkur öllum til mikillar gleði. Hann gat því farið með Ósk og sænsku vinkonu hennar, Helenu, í skemmtilega göngu í Reykjadal í dag. Þar fóru þau í náttúrulaug sem stelpunum fannst alveg magnað. Dagurinn byrjaði því með staðgóðum ,,brunch“ áður en lagt var af stað í gönguna.

IMG_9186

Í glasinu er skyrboostið góða og á disknum er eggjakakan mín sem ég fæ aldrei leið á. Reyndar var ekkert brokkolí í henni í dag, þess í stað var appelsínugul paprika auk sveppa og rifins cheddar osts. Á disknum er líka alfalfa spírur sem mér finnst svo góðar. Þær eru rosalega góðar í salat og ég nota þær líka mikið ofan á brauð. Þessar voru sérstaklega góðar, lífrænt ræktaðar og fengust í Nettó.

Í dag prófaði ég nýja útfærslu á pönnukökum sem mér fannst alveg ótrúlega skemmtileg og sjúklega góð! Pönnuköku-souffle! Finnst ykkur þetta ekki lokkandi hugtak?? 🙂 Það var svo gaman og gott að borða þessar pönnukökufrauð! Ég borðaði mitt heitt og dásamlega gott með þeyttum rjóma og hindberjasultu. Ótrúlega ljúffengt og gaman að borða eitthvað sem bragðast eins og pönnukaka en er létt og lokkandi eins og frauð. Það var afar einfalt að baka þessi pönnukökufrauð, ég bakaði þau í nákvæmlega 15 mínútur og þá voru þau fullkomlega bökuð. Ég hvet ykkur til að prófa þetta hnossgæti! 🙂

IMG_9197

Uppskrift í fjögur souffle-form:

  • 50 g smjör
  • 2 egg
  • 1,5 msk sykur
  • 0,5 dl rjómi
  • 0,75 dl mjólk
  • 1,5 dl hveiti
  • 0,5 tsk lyftiduft

IMG_9189

Ofninn er stilltur á 200 gráður við undir- og yfirhita. Fjögur souffle-form eru smurð með smjöri. Eggin eru aðskilin og eggjahvítan stífþeytt og látin bíða í ísskáp. Smjörið er brætt í potti á meðan eggjarauðurnar og sykurinn er þeytt saman. Því næst er mjólkinni, rjómanum og brædda smjörinu bætt út í eggjarauðurnar og sykurinn. Þá er hveitið og lyftiduftið sigtað og bætt út í. Að lokum er blöndunni blandað varlega saman við þeyttu eggjahvíturnar með sleikju. Deiginu er skipt í souffle-formin fjögur og þau bökuð fremur neðarlega í ofni við 200 gráður (undir- og yfirhita) í 15 mínútur. Borið strax fram með þeyttum rjóma og sultu.

IMG_9205Mér fannst þetta dásamlega gott, vona að þið séuð á sama máli! 🙂

IMG_9206

Belgískar vöfflur með parmesan- og rjómaosti


Þessa dagana er fámennt á heimilinu. Ósk var að fara til Madrid með Versló bekknum sínum í tengslum við spænskuáfanga. Elfar er í Stokkhólmi vegna rannsóknarverkefnis og verður þar í heila viku. Alexander er í prófum í læknisfræðinni og sést því lítið heima. Það eru því bara ég og yngri krakkarnir í kvöldmat. Þegar við Jóhanna Inga vorum úti í búð spurði ég hvað hana langaði að borða í kvöldmat. Það stóð ekki á svari, vöfflur! Það er reyndar ekki eins út í hött og það hljómar! Við erum með tvöfaldan ríkisborgararétt, erum Svíar líka, og þeir borða bæði vöfflur og pönnukökur í kvöldmat og það með rjóma og sultu meira að segja! Það er löng hefð í Svíþjóð að borða baunasúpu á fimmtudögum. Hefðin á uppruna sinn frá miðöldum. Þá var baunasúpan soðin með vænum kjötbita og var snædd á fimmtudögum en á föstudeginum var fastað. Pönnukökurnar voru bornar á borð sem eftirréttur á eftir baunasúpunni til þess að veita góða magafylli fyrir föstuna daginn eftir. Þessi hefð er enn ótrúlega rík í Svíþjóð. Í til dæmis flestum mötuneytum,  á elliheimilum, í mörgum skólum og á fjölmörgum veitingastöðum er baunasúpa í matinn á fimmtudögum auk pönnukaka og stundum vaffla í eftirrétt. Ég mundi allt í einu eftir því að ég skoðaði Gestgjafann á biðstofu um daginn og sá svo girnilega uppskrift af ósætum belgískum vöfflum með bæði parmesan osti og rjómaosti. Ég hafði tekið mynd á símann minn af uppskriftinni og gat því verslað það sem þurfti í uppskriftina. Kvöldmaturinn hjá okkur var því hálfgerður morgunmatur og/eða ný útgáfa af sænskum fimmtudagseftirrétti: belgískar vöfflur með parmesan- og rjómaosti með spældu eggi og beikoni! Ég notaði belgíska vöfflujárnið mitt en það er líka hægt að nota venjulegt vöfflujárn. Það er svolítil kúnst að gera vöfflur stökkar. En ég er búin að uppgötva frábært ráð þegar kemur að belgískum vöfflum. Það er að rista þær í brauðrist eftir bökun! Þær verða mjög stökkar að utan, mjúkar að innan og rjúkandi heitar. Svo er gott að nota íslenskt smjör ofan á þær sjóðandi heitar, þá bráðnar það og gerir vöfflurnar ómótstæðilegar! Ég geri því alltaf svolítið af aukavöfflum sem ég geymi og hægt er að rista daginn eftir.

Uppskrift:

  • 250 gr hveiti eða blanda af hveiti og heilhveiti eða grófu spelti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 40 gr parmesan ostur (rifinn)
  • 3 egg
  • 4 dl mjólk
  • 70 gr rjómaostur
  • 70 gr smjör, brætt
  • salt og pipar

Hitið vöfflujárnið og blandið saman hveiti, lyftidufti og parmesan osti saman í skál. Bætið eggjum og 2 dl af mjólkinni út í og hrærið saman í kekkjalaust deig. Hrærið rjómaost saman við og síðan smjör og afganginn af mjólkinni. Bragðbætið með salti og pipar. Bakið vöfflurnar þar til þær hafa fengið góðan lit. Afar gott er að setja vöfflurnar í brauðrist og smyrja þær með smjöri.

Um daginn efndi Nói og Siríus til uppskriftasamkeppni. Þeir leituðu að uppskrift til að setja í uppskriftabæklinginn sinn árið 2012.  Ég sendi inn uppskrift af uppáhaldskökunni minni, kirsuberjatertunni góðu. Ég vann ekki en fékk aukaverðlaun fyrir ,,girnilegustu uppskriftina“! Verðlaunin voru karfa með bökunarvörum. Þegar ég sótti körfuna kom í ljós að þetta var aldeilis rausnarleg karfa, hún var troðfull af Nóa og Siríus vörum og hafði auk þess að geyma bæði stóran konfektkassa og uppskriftabókina þeirra, Súkkulaðiást! Vel gert Nói! 🙂

Pönnukökur eins og hjá ömmu


Í gær kom vinkona Jóhönnu með henni heim úr skólanum. Þeim stöllum var svo mikið niðri í fyrir að þær hringdu í mig þegar þær voru eiginlega rétt fyrir utan húsið. Ástæðan var einföld, þær langaði svo ægilega mikið í pönnukökur! Ég gat ekki annað en orðið við bón þeirra, þær voru svo mikil krútt!

Ég man vel þegar ég fékk uppskriftina af pönnukökunum. Þá var ég rúmlega tvítug, nýflutt til Stokkhólms og hafði fengið pönnukökupönnu í jólagjöf. Ég hringdi heim til Íslands í ömmu til að fá uppskriftina. Ömmu vafðist nú tunga um tönn, enda búin að baka pönnukökur í hálfa öld og löngu hætt að styðjast við uppskrift. En eftir nokkrar útlistingar hafði ég skrifað niður uppskrift af gómsætum ömmu-pönnukökum sem ég hef svo notast við síðastliðin 20 ár. Þessi uppskrift gefur gróflega reiknað 10-14 pönnukökur.

Uppskrift:

  • 200 gr. hveiti
  • 2 msk sykur
  • 1/2 tsk salt
  • 1/2 tsk matarsódi
  • 2 egg
  • 1 tsk vanilludropar
  • ca. 1/2 líter mjólk
  • 50 gr smjör

Sykri, salti og matarsóda er blandað saman við hveitið ásamt hluta af mjólkinni. Þeytt saman þar til deigið er kekklaust. Þá er eggjum bætt út í, vanilludropum og restinni af mjólkinni. Að lokum er smjörið brætt og bætt út í. Ef deigið er of þykkt er meiri mjólk bætt út í deigið. Deiginu er hellt mjög þunnt á pönnu og steikt báðum megin. Pönnukökurnar bornar fram heitar með rjóma og sultu eða sykri. Jóhanna segir að best sé að nota mjög mikið af bláberjasultu og rjóma! 🙂

Vöfflur


Ég nota vöfflu uppskrift frá mömmu og ömmu (hver gerir það ekki!) en hef bætt hana að tvennu leiti. Ég skil að eggin og þeyti eggjahvíturnar sér áður en ég bæti þeim út í deigið. Mér finnst vöfflurnar verða meira ,,fluffy“ þannig. Svo nota ég súrmjólk á móti mjólkinni í stað þess að nota bara mjólk, það gerir vöfflurnar afar bragðgóðar. Uppskriftin hér að neðan er ekkert sérlega stór, yfirleitt tvöfalda ég hana eða geri allavega eina og hálfa. Það má ekki þeyta vöffludeig of mikið, þá verður deigið stíft og seigt. Svo þarf að muna að stafla ekki upp vöfflunum heldur láta þær á grind.

Uppskrift

  • 300 gr. hveiti
  • 3 tsk. lyftiduft
  • 1/2 tsk. salt
  • 250 ml mjólk
  • 250 ml súrmjólk
  • 3 egg
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 50 gr. smjör

Eggjahvíturnar eru þeyttar í hrærivél eða með þeytara. Hveiti, lyftidufti, salti og hluta af mjólkinni blandað saman. Þeytt með písk þar til deigið er kekklaust. Þá er eggjarauðunum bætt við, mjólkinni og vanilludropunum. Því næst er smjörinu bætt við. Að lokum er þeyttu eggjahvítunum bætt varlega saman við deigið. Deigið geymist ca 3-4 daga á kæli, vel plastað eða í dalli með loki.

Belgískar vöfflur


Ég hef lengi óskað mér belgísks vöfflujárns. Í byrjun sumars sá ég þannig vöfflujárn auglýst á netinu, lítið sem ekkert notað og falt fyrir fáeina ríkisdali! Ég sló auðvitað til og fjárfesti í því. Ég er búin að skoða mikið uppskriftir og fróðleik um belgískar vöfflur. Helsti munurinn er að þær eru með geri, ekki með lyftidufti eins og venjulegar vöfflur, að auki eru þær mun þykkari en með djúpum dældum. Í Belgíu eru þær seldar hjá götusölum með til dæmis súkkulaði, rjóma, berjum, sykri og öðru gúmmelaði. Ég fann uppskrift af belgískum vöfflum frá Nönnu Rögnvaldar. Eftir að hafa borið hana saman við ótal erlendar uppskriftir sá ég að hennar uppskrift var mjög sambærileg flestum uppskriftunum en með kannski meiri vökva en margar þeirra. Það kom ekki að sök, mér finnst þessi hlutföll koma vel út og held mig við hennar uppskrift.

Með vöfflunum er hægt að bjóða upp á allskonar fyllingar. Hér var ég með vanilluís og tvennskonar heitar sósur, karamellusósu og súkkulaðisósu. Gestirnir voru beðnir um að taka út sósurnar og meta hvor þeirra væri betri með belgísku vöfflunum. Útkoman varð sú að best væri að blanda þeim saman!

Uppskrift:

  • 1 msk þurrger
  • 700 ml mjólk (eða 350 ml mjólk, 350 ml súrmjólk)
  • 3 stór egg, aðskilin
  • 150 g smjör, bráðið og látið kólna dálítið
  • 6 msk sykur (má vera minna)
  • 1 tsk salt
  • 2 tsk vanillusykur
  • um 500 g hveiti
  • 3 eggjahvítur
  • olía til að pensla vöfflujárnið

Hitaðu 100 ml af mjólk í sem næst 40°C, leystu gerið upp í blöndunni (e.t.v. með 1 tsk af sykrinum) og láttu standa þar til freyðir, eða í um 10 mínútur. Hitaðu afganginn af vökvanum í um 40°C, helltu um einum bolla í stóra skál og hrærðu eggjarauðum, smjöri, sykri, salti og vanillusykri saman við, ásamt gerblöndunni. Hrærðu afganginum smátt og smátt saman við til skiptis við hveitið, þar til komin er fremur þykk vöfflusoppa (ekki nota allt hveitið ef hún virðist ætla að verða of þykk, bættu við hveiti ef hún er of þunn). Þeyttu eggjahvíturnar þar til þær eru farnar að stífna og blandaðu þeim þá saman við með sleikju. Láttu soppuna lyfta sér á hlýjum stað í um 1 klst (enn betra er þó að láta hana lyfta sér í ísskáp yfir nótt, en þá er best að sleppa því að hita meirihluta vökvans).

Hitaðu vöfflujárnið og penslaðu það með olíu. Bakaðu vöfflurnar þar til þær eru gullinbrúnar. Berðu þær fram strax eða haltu þeim heitum í volgum ofni. Einnig má frysta þær og hita svo í ofni.

(Það má líka nota eggin heil og sleppa því að þeyta hvíturnar en þær verða betri svona.)

Með vöfflunum bar ég fram vanilluís og heita súkkulaðisósu (suðusúkkulaði og smá rjómi hitað yfir vatnsbaði) og heita karamellusósu:

  • 100 g smjör
  • 100 g púðursykur
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1 dl rjómi

Sjóðið saman í 5 mínútur og hrært stöðugt á meðan. Sósan er borin fram heit.

Það er líka gott að bera fram með vöfflunum jarðaber, hindber, þeyttan rjóma, ferska ávexti, hlynsíróp og blanda þessu saman eftir því sem hugurinn girnist, svo ekki sé nú minnst á Nutella, banana og þeyttan rjóma!

Uppfært: ég mæli með því að baka stóra uppskrift af þessum vöfflum til að eiga afgang daginn eftir. Það er nefnilega hrikalega gott að rista þær í brauðrist og smyrja með íslensku smjöri, namminamm!

Crêpes með eggi, osti og skinku


Vinsælasti hádegismatur krakkana í sumarfríinu eru afar fljótlegar pizzur. Þá smyr ég burrito pönnukökur með pizzusósu, dreifi pepperoni eða skinku yfir ásamt osti og hita í pizzaofninum okkar.
En í framhaldinu af crêpes-æðinu sem ríkir heima hjá mér þessa dagana ákvað ég hins vegar að prófa í hádeginu í gær franskar crêpes með eggjum, skinku og osti eins við fengum í Frakklandi. Sjúklega gott! Ég hrærði í crêpes deig sem ég er með uppskrift af hér. Það þarf ekki að nota sérstaka crêpespönnu eins og ég er með. Þetta er hægt að gera á steikarpönnu með góðri teflonhúð eða á pönnukökupönnu.
Deiginu er ausið á pönnu, dreift um pönnuna og umfram deigi hellt af. Þegar pönnukakan er steikt á þeirri hlið er henni snúið við. Eftir ca. 30 sekúndur er pönnukakan brotin saman, egg sett yfir hana og dreift úr því með pönnukökuspaða (rauðan sprengd), egginu er ýtt aðeins út fyrir pönnukökuna (þeim megin sem pönnukakan er í boga). Því næst er skinku dreift yfir og svo rifnum osti, saltað og piprað eftir smekk.
Beðið í um það bil 30-60 sekúndur svo er pönnukökunni lokað frá báðum hliðum, sem sagt á móti hvor annarri. Að lokum er pönnukökunni snúið við lokaðri um það bil tvisvar fram og aftur eða þar til osturinn hefur náð að bráðna vel. Borðið vel heitt og njótið! Hér er hægt að sjá franskan fagmann að verki! 🙂