Vöfflur


Ég nota vöfflu uppskrift frá mömmu og ömmu (hver gerir það ekki!) en hef bætt hana að tvennu leiti. Ég skil að eggin og þeyti eggjahvíturnar sér áður en ég bæti þeim út í deigið. Mér finnst vöfflurnar verða meira ,,fluffy“ þannig. Svo nota ég súrmjólk á móti mjólkinni í stað þess að nota bara mjólk, það gerir vöfflurnar afar bragðgóðar. Uppskriftin hér að neðan er ekkert sérlega stór, yfirleitt tvöfalda ég hana eða geri allavega eina og hálfa. Það má ekki þeyta vöffludeig of mikið, þá verður deigið stíft og seigt. Svo þarf að muna að stafla ekki upp vöfflunum heldur láta þær á grind.

Uppskrift

  • 300 gr. hveiti
  • 3 tsk. lyftiduft
  • 1/2 tsk. salt
  • 250 ml mjólk
  • 250 ml súrmjólk
  • 3 egg
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 50 gr. smjör

Eggjahvíturnar eru þeyttar í hrærivél eða með þeytara. Hveiti, lyftidufti, salti og hluta af mjólkinni blandað saman. Þeytt með písk þar til deigið er kekklaust. Þá er eggjarauðunum bætt við, mjólkinni og vanilludropunum. Því næst er smjörinu bætt við. Að lokum er þeyttu eggjahvítunum bætt varlega saman við deigið. Deigið geymist ca 3-4 daga á kæli, vel plastað eða í dalli með loki.