Gulrótarkaka


IMG_1041

Ég hef lengi skoðað litríkar Kitchen aid hrærivélar með stjörnur í augum og stúderað alla þá liti sem eru í boði. Ég er ekki mikið fyrir króm eða svart, er meira svona pasteltýpan. Bláu litirnir hafa alltaf höfðað mest til mín en núna, þegar kom loksins að því að velja lit, þá kolféll ég hins vegar fyrir pistasíugrænu vélinni.

IMG_1027 2

Ég gæti ekki verið sáttari með nýju vélina og þennan fallega lit. Ég gat ekki beðið eftir því að nota nýju vélina og jómfrúarbaksturinn var ein af mínum uppáhaldskökum, gulrótarkaka. Ég er eiginlega jafnhrifin af gulrótarkökum og eplakökum (ég elska góðar eplakökur!) og þessi uppskrift er algjörlega skotheld. Dúnmjúk, safarík og góð gulrótarkaka sem er ákaflega einfalt að baka. Ég mæli með! 🙂

Uppskrift:

 • 150 g gulrætur, rifnar
 • ca 70 g maukaður ananas (án vökva)
 • 4 egg
 • 4 dl sykur
 • 2 dl matarolía
 • 1 msk lyftiduft
 • 2 tsk vanillusykur
 • 2 tsk kanill
 • 4 dl hveiti

Rjómaostakrem

 • 200 g rjómaostur
 • 100 g smjör, við stofuhita
 • 4 dl flórsykur

IMG_1005

Ofn hitaður í 180 gráður við undir- og yfirhita. Egg og sykur þeytt saman þar til létt og ljóst. Þá er matarolíu, rifnum gulrótum og maukuðum ananas bætt út í. Því næst er lyftidufti, vanillusykri, kanil og hveiti bætt út í og hrært þar til deigið er slétt. Þá er deiginu hellt í smurt form ( ca. 30 cm x 25 cm eða hringlaga form), klætt bökunarpappír. Kakan er bökuð við 180 gráður neðarlega í ofninum í ca. 40-45 mínútur. Kakan er kæld áður en kremið er sett á.

Rjómaostakrem: öllum hráefnunum er hrært saman þar til kremið verður létt og ljóst. Kremið er sett á kalda kökuna.

IMG_1037IMG_1046

Sætkartöflu- og kúrbítsklattar


img_3389

Mér finnst auðveldlega henda að maður festist í sama meðlætinu með góðu grillkjöti. Mér finnst í raun fátt jafnast á við ofnbakaðar sætar kartöflur og grillað grænmeti og nota það afar oft með grillmat. En það er alltaf skemmtilegt að breyta til. Um daginn fengum við matargesti sem eru á lágkolvetnisfæði. Ég ákvað því að búa til klatta úr kúrbít og sætri kartöflu. Reyndar eru sætar kartöflur takmarkaðar í LKL mataræði en matargestirnir okkar leyfa sér þær. Þessir klattar eru ljúffengir og passa vel með ýmisskonar grillkjöti.

Uppskrift:

 • 1 kúrbítur
 • 1 stór sæt kartafla
 • 1 egg
 • 1/2 msk husk
 • 1 dl rifinn parmesan
 • chiliflögur
 • salt & pipar

img_3383

Ofn hitaður í 225 gráður. Kúrbítur rifinn gróft og settur í sigti ásamt smá salti. Hrært dálítið saman og kreist létt til þess að mestur vökvinn farin úr. Sæta kartaflan er skræld og rifin gróft. Rifinn kúrbítur, rifin sæt kartafla og rifinn parmesan ostur er blandað saman ásamt eggi, huski og kryddi. Mótuð buff (fremur lítil) og þeim raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír. Hitað í ofni við 225 gráður þar til buffin hafa tekið fallegan lit og eru elduð í gegn.

img_3394

Grænmetisbollur í kókoskarrísósu með mangó


IMG_6005

*í samstarfi við Hälsans kök“

Ég mun líklega seint gerast grænmetisæta en mér finnst hins vegar rosalega gott að fá mér grænmetisrétti reglulega. Þegar ég var beðin um að búa til uppskrift fyrir grænmetisrétti frá Hälsans kök varð ég mjög spennt fyrir því verkefni því ég þekki vörurnar frá Svíþjóð, þar eru þær mjög vinsælar. Ég bjó til þessa uppskrift úr grænmetisbollunum og var afar hrifin af þeim, virkilega góðar bollur, enda eru þær einna vinsælastar af öllum grænmetisréttunum þeirra. Ég var svo frökk að segja yngstu börnunum fyrst að þetta væru kjötbollur og í kjölfarið borðuðu þau matinn með bestu lyst (sem hefði pottþétt ekki gerst ef þau hefðu vitað að þetta væru grænmetisbollur! 😉 ). Þessi sósa fannst mér líka svo geggjað góð! Mér finnst kókos/karrí alltaf svo gott en þarna prófaði ég í fyrsta sinn að mauka mangó út í. Það gefur einstaklega góða fyllingu í sósuna og góðan sætan keim sem kemur vel heim og saman við kókosmjólk og karrí. Bollurnar smellpassa við þessa sósu.

IMG_5983IMG_5982

Uppskrift (f. 4-5)

 • 600 g grænmetisbollur (bullar) frá Hälsans kök
 • 3 msk ólífuolía
 • 2 msk ferskur engifer, rifinn
 • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
 • 1 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður smátt
 • 1 meðalstór rauðlaukur, skorinn í sneiðar
 • 400 g brokkolí, skorið í bita
 • 1 dós kókosmjólk (400 ml)
 • 200 ml grænmetissoð
 • 1-4 msk rautt karrímauk (fer eftir styrkleika mauksins og smekk)
 • 300 g frosið mangó, afþýtt (eða ferskt)
 • 1 tsk túmerik krydd
 • ca. 1 msk fiskisósa (fish sauce) – má sleppa og nota dálítið salt í staðinn
 • 1 límóna (lime), safinn notaður
 • ferskt kóríander

Grænmetisbollurnar eru hitaðar í ofni eftir leiðbeiningum. Ólífuolían er hituð á pönnu. Engifer, hvítlaukur og chili er steikt upp úr olíunni í 2 mínútur. Þá er karrímaukinu bætt út á pönnuna og hrært vel við fremur háan hita í um það bil 2 mínútur. Því næst er brokkolí og rauðlauk bætt út á pönnuna (ólífuolíu bætt við eftir þörfum) og steikt í smástund. Síðan er kókosmjólk og grænmetissoði bætt við. Látið malla við meðalhita á meðan mangóið er maukað vel í matvinnsluvél. Þá er mangómaukinu bætt út á pönnuna ásamt túmerik kryddi. Látið malla við meðalhita í 10-15 mínútur og smakkað til með fiskisósu og safa úr límónu. Í lokin er grænmetisbollunum bætt út í sósuna. Borið fram með fersku kóríander og hrísgrjónum.

IMG_6002IMG_6020

Sætar kartöflur með jurtasalti og blóðbergssírópi


IMG_4803*Í samstarfi við Urtu*

Í vor vann ég nokkrar uppskriftir fyrir fyrirtækið Urtu Islandica. Þau eru gera ákaflega spennandi hluti! Þau nota íslenskar jurtir og ber til að framleiða meðal annars salt, síróp og te. Ég hvet ykkur til að kíkja til þeirra í fallega húsið þeirra í Hafnarfirði, Gömlu matarbúðina við Austurgötu, og skoða þetta skemmtilega fjölskyldufyrirtæki og framleiðsluna þeirra. Vörurnar fást að auki í Hagkaup í Kringlunni.

IMG_4811

Ég hreinlega elska sætar kartöflur! Ég fæ ekki nóg af þeim en því miður eru börnin ekki eins hrifin, elsta dóttirin segist hafa borðað yfir sig af þeim og gefur þar með í skyn að móðirin hafi boðið aðeins of oft upp á sætar kartöflur sem meðlæti í gegnum tíðina .. sem ég bara skil ekki! 😉 Ég gæti nefnilega grínlaust borðað sætar kartöflur í hvert mál. Mér finnst mikilvægt að leyfa sætu kartöflunum að njóta sín í einfaldleika sínum þegar þær eru matreiddar og hér bjó ég til uppskrift þar sem mér finnst sætu kartöflurnar njóta sín fullkomlega. Ég notaði þær með ljúffengum fiskrétti (uppskrift kemur á bloggið innan skamms) og fannst þessi réttur algjört hnossgæti. Það væri örugglega dásamlega gott líka að nota þær með t.d. kjúklingi eða grillmat.

IMG_4775

Uppskrift:

 • 900 g sætar kartöflur, flysjaðar og skornar bita
 • 3 msk ólífuolía
 • svartur pipar
 • ca. 30 ml blóðbergssíróp
 • 100 g pekanhnetur
 • öræfa jurtasalt
 • fersk steinselja

Ofn hitaður í 210 gráður við undir- og yfirhita. Ólífuolíu, svörtum pipar og blóðbergssírópi blandað saman og dreift á ofnplötu klædda bökunarpappír. Bakað við 210 gráður í 25-30 mínútur. Þá eru sætu kartöflurnar teknar úr ofninum, pekan hnetunum blandað saman við þær ásamt öræfa jurtasalti og ferskri steinselju.

IMG_4791