Sætkartöflu- og kúrbítsklattar


img_3389

Mér finnst auðveldlega henda að maður festist í sama meðlætinu með góðu grillkjöti. Mér finnst í raun fátt jafnast á við ofnbakaðar sætar kartöflur og grillað grænmeti og nota það afar oft með grillmat. En það er alltaf skemmtilegt að breyta til. Um daginn fengum við matargesti sem eru á lágkolvetnisfæði. Ég ákvað því að búa til klatta úr kúrbít og sætri kartöflu. Reyndar eru sætar kartöflur takmarkaðar í LKL mataræði en matargestirnir okkar leyfa sér þær. Þessir klattar eru ljúffengir og passa vel með ýmisskonar grillkjöti.

Uppskrift:

  • 1 kúrbítur
  • 1 stór sæt kartafla
  • 1 egg
  • 1/2 msk husk
  • 1 dl rifinn parmesan
  • chiliflögur
  • salt & pipar

img_3383

Ofn hitaður í 225 gráður. Kúrbítur rifinn gróft og settur í sigti ásamt smá salti. Hrært dálítið saman og kreist létt til þess að mestur vökvinn farin úr. Sæta kartaflan er skræld og rifin gróft. Rifinn kúrbítur, rifin sæt kartafla og rifinn parmesan ostur er blandað saman ásamt eggi, huski og kryddi. Mótuð buff (fremur lítil) og þeim raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír. Hitað í ofni við 225 gráður þar til buffin hafa tekið fallegan lit og eru elduð í gegn.

img_3394

Maís- og avókadósalsa


Maís- og avókadósalsaÞessar vikur sem við höfum dvalist í Michigan hefur ekki farið framhjá okkur að mikið er ræktað af maískorni hér í sveitunum. Gott framboð er af ferskum maísstönglum sem þarf bara að taka úr hýðinu og sjóða í örfáar mínútur og þá er komið á borð ljúffengt meðlæti. Það er með ólíkindum hversu góður maísinn er svona nýr og ferskur, hann er ákaflega sætur og bragðgóður, mjög frábrugðinn frosna maísnum sem við fáum aðallega heima á Íslandi svo ekki sé talað um úr dós.

IMG_6653 Það er þó stundum hægt að fá ferskan maís heima á Íslandi og þá mæli ég eindregið með að þið prófið þetta maís- og avókadósalsa sem er afar gott meðlæti með til dæmis öllum grillmat. Í þessari uppskrift er ferski maísinn notaður óeldaður og þá eru maískornin skemmtilega stökk og sæt. Ég held að það væri líka óskaplega gott að nota þetta salsa með góðum flögum líkt og Tostitos Scoops.

Unknown

Uppskrift: 

  • 1 stór, þroskaður avókadó, skorinn í bita
  • 2-3 msk safi af límónum (lime)
  • 2 stórir tómatar (blautasta innvolsið fjarlægt), skornir í bita
  • 2 ferskir maísstönglar
  • ca. 3 vorlaukar, hvíti og græni hlutinn saxað fremur smátt (hægt að skipta út fyrir ca. 1/4 rauðlauk, smátt söxuðum)
  • ca. 1/4 – 1/2 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður mjög smátt
  • handfylli ferskt kóríander, saxað smátt
  • salt og grófmalaður svartur pipar

Avókadóbitarnir settir í skál og límónusafanum hellt yfir. Þá er tómötunum bætt út í. Hýðið er fjarlægt af maísstönglunum og kornið skorið af stönglunum. Best er að leggja stöngulinn á skurðarbretti og renna beittum hníf meðfram öllum hliðum stöngulsins. Maísinum er því næst bætt út í skálina. Að síðustu er chili bætt út í ásamt kóríander. Smakkað til með salti, pipar og meiri límónusafa ef með þarf.

IMG_6638

Ananas- og tómatsalsa


Ananas- og tómatsalsa

Núna er frábærri helgi að ljúka. Eins og fylgjendur Eldhússagna á Instagram hafa séð þá erum við hjónin í Stokkhólmsferð yfir helgina. Við vorum viðstödd dásamlegt brúðkaup í gær. Veislan hefur hér um bil staðið yfir í sólarhring því þegar þetta er skrifað erum við á leiðinni í kampavínsmorgunverð með brúðhjónunum og gestum.

BrúðkaupÞað er alltaf svo gott að koma „heim“ til Stokkhólms og ég hefði gjarnan viljað vera aðeins lengur í borginni en við fljúgum heim í kvöld. Hér hefur verið dásamlegt veður og mér skilst að veðrið heima á Íslandi í dag sé álíka frábært. Það er því vel við hæfi að setja inn uppskrift af meðlæti með grillmat. Ég legg mig fram við að finna reglulega nýtt meðlæti með grillmatnum. Það vill nefnilega stundum verða þannig að maður festist í sama meðlætinu. Að þessu sinni bjó ég til salsa úr ferskum ananas, tómötum og kóríander, frábær og fersk blanda, þið verðið bara að prófa! Ég fékk lakkríssalt frá Saltverki og prófaði að nota það í þessa salsablöndu, það kom mjög skemmtilega út!

Uppskrift f. 6:

  • 1 ferskur ananas
  • 6 tómatar
  • gott knippi af fersku kóríander, ca. 20 g
  • 1 rautt chili aldin
  • ca. 2 msk hunang, fljótandi
  • 3 msk ólífuolía
  • salt (ég notaði lakkríssalt á hnífsoddi frá Saltverki)
  • ferskmalaður svartur pipar

IMG_0561

Ananansinn er afhýddur og skorin niður í bita. Tómatarnir eru skornir niður í bita og kóríander saxað fínt. Chili aldinið er fræhreinsað og saxað fínt. Öllu er svo blandað saman og smakkað til með salti, pipar og hunangi. Borið fram með grillmat.

IMG_0585

 

Ofnbakað eggaldin með tómötum og osti


IMG_9744

Dásamlega löng og notaleg helgi er að lokum komin. Hápunktur helgarinnar var að sjálfsögðu Euorvision keppnin þar sem Eyþór og félagar voru okkur til mikils sóma! 🙂 Við fengum matargesti og hér var Eurovision veðmál tekið mjög alvarlega. Keppt var í yngri og eldri flokki þar sem yngri flokkurinn keppti um sælgætispott en sá eldri keppti um léttvínspott!

IMG_9747

Eftirsóttur pottur! 

IMG_9750

Hluti af hópnum, allir spenntir og tilbúnir með listann (börnin mín urðu auðvitað að gretta sig framan í myndavélina)!

IMG_9752

Smá vínsopi til að kynda undir keppnisskapið!

IMG_9787

Katla var alveg með’etta og vann nammipottinn! 

IMG_9795

Sigurjón var ekki bara með topplistann á hreinu heldur giskaði hann líka rétt á í hvaða sæti Ísland myndi lenda! Ég læt hann velja lottó-tölurnar mínar næst! 🙂

Hluti af gestunum er á LKL mataræði, eða lágkolvetnis lífsstíl. Mér fannst spennandi að finna matrétti sem pössuðu inn þetta mataræði. Í aðalrétt var ég með grillaða sirloin nautasteik, beint af býli, dásamlega gott og meyrt. Meðlætið var bearnaise sósa, sveppasósa, falskt kartöflusalat (með kúrbít), ferskt salat, ofnbakað eggaldin með tómötum og osti auk kartaflna fyrir ekki LKL-ista! Í eftirrétt var súkkulaðifrauð sem passar fyrir LKL. Snakkið var grænmeti og ídýfa, saltaðar Macadamia hnetur en þær hafa lágt kolvetnisinnihald (fást í Kosti), heimatilbúið snakk úr parmesan osti og fleira. Uppskriftirnar af öllum framantöldu munu koma inn á síðuna næstu daga. Ég ætla að byrja á ofnbökuðu eggaldin með tómötum og osti. Frábærlega einfalt og gott meðlæti sem hentar fyrir alla, hvort sem þeir eru á LKL eða ekki! 🙂 Minnir dálítið á þetta meðlæti sem er dásamlega gott líka.

Uppskrift:

  • 2 eggaldin, skorin langsum í skífur
  • 1 tsk salt
  • 2-3 msk olífuolía
  • 4 þroskaðir tómatar, saxaðir smátt
  • 1 knippi sléttblaða steinselja, söxuð smátt
  • 1-2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • rifinn mozzarellaostur, ca 60 g
  • salt og nýmalaður svartur pipar

IMG_9713

Ofn hitaður í 200 gráður, undir- og yfirhita. Eggaldinskífurnar eru lagðar á bretti og saltinu dreift yfir þær. Það er látið liggja á í ca. 10 mínútur til að draga úr beiskjunni í eggaldinu. Þá er vökvinn sem myndast hefur á yfirborðinu, ásamt saltinu, þerraður með eldhúsrúllublöðum. Eggaldin skífurnar eru því næst steiktar upp úr olíu á pönnu þar til þær eru mjúkar. Svo eru þær lagðar í eldfast mót, helst sem minnst ofan á hvor aðra.  Tómatarnir eru steiktir á pönnu í olífuolíu, steinselju og hvítlauk bætt við og leyft að malla um stund. Þá er rifna ostinum bætt út í tómatblönduna og blandað saman þar til osturinn er bráðnaður. Pannan er þá tekin af hellunni og kryddað með salti og pipar. Blöndunni er svo dreift yfir eggaldinið og bakað í miðjum ofni við 200 gráður í ca. 15 mínútur.

IMG_9728

Grillaðar sætar kartöflur með lime og klettasalati


Grillaðar sætar kartöflur með lime og klettasalati

Nú er maí runninn upp og grilltímabilið hafið. Reyndar grillum við allt árið en auðvitað sérstaklega mikið á sumrin. Við bjuggum í blokk öll þau fimmtán ár sem við bjuggum í Stokkhólmi. Svíar eru með þær reglur að það megi ekki grilla á svölum í blokkum. Svíar eru ekki bara regluglaðir heldur framfylgja þeir alltaf reglunum líka! Einu skiptin sem við grilluðum á Svíþjóðarárunum var í heimsóknum á Íslandi eða kannski í lautarferðum í Stokkhólmi á einnota grillum. Okkur datt ekki í hug að brjóta reglurnar, svoleiðis gera Svíar bara ekki! Ég finn að ég er mjög vel uppalin þegar kemur að öllum reglum, hvort sem þær eru skráðar eða óskráðar, eftir að hafa búið lungann úr fullorðinslífi mínu í Svíþjóð. Ég myndi aldrei leggja ólöglega, ganga á grasi sem ekki mætti ganga á, standa vinstra meginn í rúllustiga eða neitt þvíumlíkt! 🙂 Það er svo mikill samfélagslegur agi í Svíþjóð. Til dæmis hendir enginn rusli á gólfið í bíóum í Svíþjóð og ef einhver myndi taka upp á slíku þá myndi sá hinn sami uppskera reiðileg augnaráð og skammir annarra bíógesta. Stundum finnst mér nóg um agaleysið hér á Íslandi en oft finnst mér líka léttir að vera laus við agann … ég hendi samt aldrei rusli á gólfið í bíó! 😉

Fyrsta verk okkar þegar við fluttum til Íslands, eftir fimmtán ára sænskt grillbann, var að kaupa stórt Weber grill. Það gerðum við meira að segja áður en við fluttum inn í húsið okkar! Við grillum bæði fisk og kjöt og notum líka mikið grillgrind til þess að grilla grænmeti í. Stundum grillum við sætar kartöflur, þær eru svo ofsalega góðar! Ókosturinn við sætar kartöflur eru að þær eru svo stórar og þykkar, það tekur langan tíma að grilla þær og þá vilja þær brenna. Þetta leysi ég með því að forsjóða kartöflurnar. Þá þarf bara að grilla þær örstutt en samt kemur góða grillbragðið.

Uppskrift:

  • 2 sætar kartöflur
  • ca. 1 tsk Saltverk salt eða maldon salt
  • hýðið af einni límónu (lime) rifið fínt
  • góð olía
  • grófmalaður svartur pipar
  • klettasalat

Sætu kartöflurnar eru þvegnar og skrúbbaðar mjög vel. Því næst eru þær skornar í ca. 1.5 cm þykkar sneiðar (með hýðinu á). Vatn er sett í stóran pott og suðan látin koma upp og kartöflusneiðarnar soðnar þar til þær eru hér um bil tilbúnar, í ca. 7-10 mínútur. Það þarf að gæta þess að sjóða kartöflurnar frekar minna en meira þannig að þær verði ekki lausar í sér. Því næst eru þær snöggkældar undir köldu vatni.
Karöflurnar eru þá penslaðar með olíu og kryddaðar með salti og pipar. Svo eru þær grillaðar á meðalheitu grilli í ca. 2 mínútur á hvorri hlið eða þar til það eru komnar góðar grillrenndur á sneiðarnar. Í lokin er limehýðinu og salti dreift yfir kartöflurnar. Hluti af klettasalatinu er lagt á disk, sætu kartöflusneiðunum raðað ofan á og að lokum er restinni af klettasalatinu dreift yfir.

Grillaðar sætar kartöflur með lime og klettasalati

Grillað lambafille með sveppasósu og kryddkartöflum með sesamfræjum


Helgin leið hratt eins og reyndar allir dagar um þessar mundir. Ég hlakka ekkert lítið til þegar ég verð búin með meistararitgerðina mína! Hún hangir yfir mér eins og mara alla daga. Það verður lítill munur á virkum dögum og helgum þegar svona verkefni bíður stöðugt eftir manni í tölvunni og mér finnst ég alltaf vera að svíkjast um ef ég geri eitthvað annað en að skrifa. Fyrir utan það að hafa skrifað meira og minna alla helgina þá voru hápunktar helgarinnar þrír, þegar ég bakaði þessa dásamlegu banana-súkkulaðiköku. Namm, ég þarf að halda aftur að mér að baka hana ekki alveg strax aftur! Á laugardagskvöldinu gisti Jóhanna Inga hjá vinkonu sinni og við hjónin skruppum í bíó á James Bond og tókum Vilhjálm með okkur. Ég hefði aldrei nennt að fara á frumsýningarhelgi ef ekki væri fyrir Kringlubíó þar sem hægt er að kaupa miða í númeruð sæti. Ég skil ekki af hverju það eru ekki númeruð sæti í öllum bíóhúsum þannig að maður þurfi ekki að lenda í troðning og látum eins og oft vill verða. Mér finnst vera til lítils að kaupa bíómiða fyrirfram á netinu ef maður þarf svo hvort sem er að mæta snemma og troðast áfram til að ná sæmilegum sætum. Ok, Svíinn í mér hefur lokið máli sínu um þetta málefni! 🙂 Jú annars, eitt enn, myndin var mjög góð! Þriðji hápunkturinn var svo heimsókn til ömmu og afa sem var orðið alltof langt síðan að við höfðum hitt. Reyndar má nú kalla sunnudagsmatinn fjórða hápunktinn! Grillað lamabafille með góðu meðlæti. En gott grillað lamba- eða nautakjöt er í algjöru uppáhaldi hjá mér.

Uppskrift:

  • Lambafille
  • olía
  • rósmarín
  • timjan
  • salt
  • pipar
  • hvítlauksrif, pressuð

Kryddi, hvítlauk og olíunni blandað saman, lambafille velt upp blöndunni, pakkað þétt í plastfilmu og látið bíða í nokkrar klukkustundir í ísskáp. Kjötið svo tekið út og látið ná stofuhita áður en það er grillað. Yfirgrillarinn sá um að grilla kjötið en mér skilst að hann grilli það við fremur háan hita í ca. 6-7 mínútur með fituhliðina niður, 3-4 mínútur á hinni hliðinni. Þetta fer þó auðvitað eftir þykkt bitanna. Það er þykk fiturönd á kjötinu, það þarf því að fylgjast vel með kjötinu og færa það til við þörfum svo það brenni ekki.

Sveppasósa

  • smjör
  • 200 gr sveppir
  • 2-3 tsk nautakraftur
  • 1 piparostur
  • 4 dl matreiðslurjómi
  • 2 dl mjólk
  • 2 tsk rifsberjahlaup
  • 1 msk soyjasósa
  • sósujafnari
  • salt og pipar

Sveppir sneiddir og þeir steiktir í potti upp úr smjöri. Nautakrafti bætt við. Hiti lækkaður aðeins og piparosti bætt út og hann látin bráðna. Rjóma og mjólk bætt út í ásamt rifsberjahlaupi og soyjasósu og suðan látin koma upp. Sósujafnara bætt út og sósan látin malla á vægum hita þar til að hún þykknar (sósulit bætt út í ef maður vill fá dekkri lit). Sósan smökkuð til með kryddi, rifsberjahlaupi, sojasósu og/eða nautakrafti.

Kryddkartöflur með sesamfræjum

  • 1 kíló kartöflur
  • 1 1/2 msk sesamfræ
  • 2 hvítlauksrif
  • 2 msk olía
  • 1 tsk cumin
  • 2 tsk kóríander krydd (ég notaði líka ferskt)
  • 1 tsk grófmalaður svartur pipar
  • 1/4-1/2 tsk cayenne pipar
  • 1 tsk salt
  • 1 msk sítrónusafi

Kartöflurnar soðnar og afhýddar. Sesamfræin þurrristuð á pönnu þar til þau fá lit, þá eru þau lögð til hliðar. Hvítlaukurinn saxaður smátt. Olía hituð á pönnu og cumin ásamt hvítlauk bætt út á pönnuna þar til það hefur fengið lit en má ekki brenna. Kartöflunum bætt út á pönnuna og steikt, hrært í varlega öðru hvoru. Kryddað með kóríander, pipar, cayenne pipar, salti og sítrónusafa. Sesamfræunum bætt við og allt steikt nokkrar mínútur í viðbót, hrært í varlega öðru hvoru.

Grillað lambafille með Hasselback kartöflum, grilluðu grænmeti og sveppasósu


Við erum nýkomin úr bústaðarferð og þar var ansi mikið gott sett á grillið eins og sést á uppskriftunum undanfarna daga! 🙂 Eitt kvöldið grilluðum við lambafille (úr versluninni Til sjávar og sveita). Ég kryddaði það bara vel með nýmöldum pipar og prófaði að salta það eftir grillun á meðan það jafnaði sig með reyktu maldon salti en það kom vel út.

 Fyrr um daginn höfðum við heimsótt garðyrkjustöðina Engi á Laugarási. Þar var býsna margt girnilegt og eftir að hafa prófað völundarhúsið og skoðað gróðurhúsin heldum við aftur í bústaðinn með tvo fulla poka af grænmeti og kryddjurtum. Við komum svo aftur við þar á leiðinni heim úr bústaðnum nokkrum dögum seinna og keyptum fleiri kryddjurtir!

 Í grænmetisgrindina þetta kvöldið lenti því margt gott grænmeti. Það var kúrbítur, sveppir, paprika, brokkolí og svo glænýtt chili frá Engi! Það þarf að fræhreinsa það vel og gæta þess að það sé vel grillað svo það verði ekki of sterkt. Grænmetisgrindin sem ég nota er frá Weber, frábær til að grilla grænmeti í og mikið notuð á heimilinu. Satt best að segja þá flytum við hálft eldhúsið með okkur þegar við förum í bústað! Það eru teknir með grillaukahlutir, espressovélin, blenderinn, soda stream til að búa til sódavatn og svo hálfur búrskápurinn svo hægt sé að elda og baka! 🙂

 Auk grillaðs grænmetis bjó ég til ferskt salat úr blönduðu salati, klettasalati og spínati ásamt kokteiltómötum, hunangsmelónu og fetaosti. Einnig gerði ég Hasselback kartöflur sem eru mjög vinsælar á heimilinu! Uppskrift af þeim er ég með hér.

Með kjötinu bjó ég til sveppasósu. Það er líka gott að nota heimatilbúna bearnaise sósu og uppskrift af henni er ég með hér.

Sveppasósa

  • 1/2 rauðlaukur
  • 2 hvítlauksrif
  • smjör
  • nokkrir sveppir
  • 2 tsk. nautakraftur
  • 1/2 piparostur
  • 3 msk. rjómaostur
  • 4 dl. rjómi (eða matreiðslurjómi)
  • 2 tsk. rifsberjahlaup
  • 2 tsk. soyjasósa
  • sósujafnari
  • salt og pipar

Laukur og hvítlaukur saxað smátt, sveppir sneiddir og allt steikt í potti upp úr smjöri. Nautakrafti bætt við. Hiti lækkaður aðeins og piparosti og rjómaosti bætt út og látið bráðna. Rjóma bætt út í ásamt rifsberjahlaupi og soyjasósu og suðan látin koma upp. Sósujafnara bætt út og sósan látin malla á vægum hita þar til að hún þykknar (sósulit bætt út í til að fá dekkri lit). Sósan smökkuð til með kryddi, rifsberjahlaupi, sojasósu og/eða nautakrafti.