Ananas- og tómatsalsa


Ananas- og tómatsalsa

Núna er frábærri helgi að ljúka. Eins og fylgjendur Eldhússagna á Instagram hafa séð þá erum við hjónin í Stokkhólmsferð yfir helgina. Við vorum viðstödd dásamlegt brúðkaup í gær. Veislan hefur hér um bil staðið yfir í sólarhring því þegar þetta er skrifað erum við á leiðinni í kampavínsmorgunverð með brúðhjónunum og gestum.

BrúðkaupÞað er alltaf svo gott að koma „heim“ til Stokkhólms og ég hefði gjarnan viljað vera aðeins lengur í borginni en við fljúgum heim í kvöld. Hér hefur verið dásamlegt veður og mér skilst að veðrið heima á Íslandi í dag sé álíka frábært. Það er því vel við hæfi að setja inn uppskrift af meðlæti með grillmat. Ég legg mig fram við að finna reglulega nýtt meðlæti með grillmatnum. Það vill nefnilega stundum verða þannig að maður festist í sama meðlætinu. Að þessu sinni bjó ég til salsa úr ferskum ananas, tómötum og kóríander, frábær og fersk blanda, þið verðið bara að prófa! Ég fékk lakkríssalt frá Saltverki og prófaði að nota það í þessa salsablöndu, það kom mjög skemmtilega út!

Uppskrift f. 6:

 • 1 ferskur ananas
 • 6 tómatar
 • gott knippi af fersku kóríander, ca. 20 g
 • 1 rautt chili aldin
 • ca. 2 msk hunang, fljótandi
 • 3 msk ólífuolía
 • salt (ég notaði lakkríssalt á hnífsoddi frá Saltverki)
 • ferskmalaður svartur pipar

IMG_0561

Ananansinn er afhýddur og skorin niður í bita. Tómatarnir eru skornir niður í bita og kóríander saxað fínt. Chili aldinið er fræhreinsað og saxað fínt. Öllu er svo blandað saman og smakkað til með salti, pipar og hunangi. Borið fram með grillmat.

IMG_0585

 

Ananas-salsa með myntu og chili og Eldhússögur á Instagram


IMG_8883

Í gær kom Elfar aftur heim frá Svíþjóð. Hann kom ekki tómhentur heim því ég fékk blóm og afmælisgjöf! Ég á samt ekki afmæli fyrr en eftir nokkra daga en hann var spenntur eins og lítið barn og gat ekki beðið með að gefa mér gjöfina! 🙂 Ég er sem sagt orðin Iphone eigandi!  Ég hef alltaf sagt að Iphone sé óþarfi, ég þurfi ekkert slíkt tæki. Elfar var ekki samþykkur því og sagði að nýútskrifaður upplýsingafræðingur þyrfti að eiga Iphone! Ósk var honum innilega sammála, sjálfri fannst henni afar lífsbætandi að eignast Iphone! 🙂 Ég verð nú eiginlega að vera sammála þeim feðginum eftir að hafa fiktað við Iphone-símann minn í dag, þetta er ansi sniðugt tæki! Núna eru Eldhússögur komnar á Instagram eins og öll almennileg blogg og ég get loksins farið að fylgjast með bloggunum sem ég les á Instagram! Spennandi! Ykkur er velkomið að fylgjast með mér á Instagram, þið finnið mig undir eldhussogur.

Ég er svo leið yfir því að finna ekki uppskriftina af eplakökunni sem ég bakaði um daginn. Ég er búin að leita og leita! Hún var voða góð og fór strax í uppáhald hjá Jóhönnu Ingu sem elskar eplakökur. Svo virðist sem kakan verði bara að lifa í minningunni og á myndum!

IMG_8539Þegar ég var með útskriftaveisluna mína um daginn var einn rétturinn hjá Marentzu einhverskonar ananas-salsa sem var svo gott.

IMG_8214Ég sá í hendi mér að þetta salsa væri gott með allskonar súkkulaðikökum, súkkulaðifrauði, vöfflum, ís og öðru góðu gúmmelaði eða bara eitt og sér. Ég prófaði sjálf að búa til ananas-salsa og bjó til eftirfarandi uppskrif. Magnið metur maður bara sjálfur, fer eftir því hvaða bragð maður vill að sé ríkjandi.

 • ferskur ananas skorin í bita
 • rautt chili, saxað smátt
 • fersk mynta, söxuð smátt
 • limesafi
 • hunang (má sleppa)

Öllu blandað saman og látið bíða í ísskáp í minnst 20 mínútur áður en salsað er borið fram. Borið fram með súkkulaðikökum, ís, grilluðu ljósu kjöti eða fisk. Ég held hreinlega að þetta passi vel með ansi mörgu! 🙂

IMG_8869