Maís- og avókadósalsa


Maís- og avókadósalsaÞessar vikur sem við höfum dvalist í Michigan hefur ekki farið framhjá okkur að mikið er ræktað af maískorni hér í sveitunum. Gott framboð er af ferskum maísstönglum sem þarf bara að taka úr hýðinu og sjóða í örfáar mínútur og þá er komið á borð ljúffengt meðlæti. Það er með ólíkindum hversu góður maísinn er svona nýr og ferskur, hann er ákaflega sætur og bragðgóður, mjög frábrugðinn frosna maísnum sem við fáum aðallega heima á Íslandi svo ekki sé talað um úr dós.

IMG_6653 Það er þó stundum hægt að fá ferskan maís heima á Íslandi og þá mæli ég eindregið með að þið prófið þetta maís- og avókadósalsa sem er afar gott meðlæti með til dæmis öllum grillmat. Í þessari uppskrift er ferski maísinn notaður óeldaður og þá eru maískornin skemmtilega stökk og sæt. Ég held að það væri líka óskaplega gott að nota þetta salsa með góðum flögum líkt og Tostitos Scoops.

Unknown

Uppskrift: 

  • 1 stór, þroskaður avókadó, skorinn í bita
  • 2-3 msk safi af límónum (lime)
  • 2 stórir tómatar (blautasta innvolsið fjarlægt), skornir í bita
  • 2 ferskir maísstönglar
  • ca. 3 vorlaukar, hvíti og græni hlutinn saxað fremur smátt (hægt að skipta út fyrir ca. 1/4 rauðlauk, smátt söxuðum)
  • ca. 1/4 – 1/2 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður mjög smátt
  • handfylli ferskt kóríander, saxað smátt
  • salt og grófmalaður svartur pipar

Avókadóbitarnir settir í skál og límónusafanum hellt yfir. Þá er tómötunum bætt út í. Hýðið er fjarlægt af maísstönglunum og kornið skorið af stönglunum. Best er að leggja stöngulinn á skurðarbretti og renna beittum hníf meðfram öllum hliðum stöngulsins. Maísinum er því næst bætt út í skálina. Að síðustu er chili bætt út í ásamt kóríander. Smakkað til með salti, pipar og meiri límónusafa ef með þarf.

IMG_6638

Ananas- og tómatsalsa


Ananas- og tómatsalsa

Núna er frábærri helgi að ljúka. Eins og fylgjendur Eldhússagna á Instagram hafa séð þá erum við hjónin í Stokkhólmsferð yfir helgina. Við vorum viðstödd dásamlegt brúðkaup í gær. Veislan hefur hér um bil staðið yfir í sólarhring því þegar þetta er skrifað erum við á leiðinni í kampavínsmorgunverð með brúðhjónunum og gestum.

BrúðkaupÞað er alltaf svo gott að koma „heim“ til Stokkhólms og ég hefði gjarnan viljað vera aðeins lengur í borginni en við fljúgum heim í kvöld. Hér hefur verið dásamlegt veður og mér skilst að veðrið heima á Íslandi í dag sé álíka frábært. Það er því vel við hæfi að setja inn uppskrift af meðlæti með grillmat. Ég legg mig fram við að finna reglulega nýtt meðlæti með grillmatnum. Það vill nefnilega stundum verða þannig að maður festist í sama meðlætinu. Að þessu sinni bjó ég til salsa úr ferskum ananas, tómötum og kóríander, frábær og fersk blanda, þið verðið bara að prófa! Ég fékk lakkríssalt frá Saltverki og prófaði að nota það í þessa salsablöndu, það kom mjög skemmtilega út!

Uppskrift f. 6:

  • 1 ferskur ananas
  • 6 tómatar
  • gott knippi af fersku kóríander, ca. 20 g
  • 1 rautt chili aldin
  • ca. 2 msk hunang, fljótandi
  • 3 msk ólífuolía
  • salt (ég notaði lakkríssalt á hnífsoddi frá Saltverki)
  • ferskmalaður svartur pipar

IMG_0561

Ananansinn er afhýddur og skorin niður í bita. Tómatarnir eru skornir niður í bita og kóríander saxað fínt. Chili aldinið er fræhreinsað og saxað fínt. Öllu er svo blandað saman og smakkað til með salti, pipar og hunangi. Borið fram með grillmat.

IMG_0585

 

Grillaðar sætar kartöflur með lime og klettasalati


Grillaðar sætar kartöflur með lime og klettasalati

Nú er maí runninn upp og grilltímabilið hafið. Reyndar grillum við allt árið en auðvitað sérstaklega mikið á sumrin. Við bjuggum í blokk öll þau fimmtán ár sem við bjuggum í Stokkhólmi. Svíar eru með þær reglur að það megi ekki grilla á svölum í blokkum. Svíar eru ekki bara regluglaðir heldur framfylgja þeir alltaf reglunum líka! Einu skiptin sem við grilluðum á Svíþjóðarárunum var í heimsóknum á Íslandi eða kannski í lautarferðum í Stokkhólmi á einnota grillum. Okkur datt ekki í hug að brjóta reglurnar, svoleiðis gera Svíar bara ekki! Ég finn að ég er mjög vel uppalin þegar kemur að öllum reglum, hvort sem þær eru skráðar eða óskráðar, eftir að hafa búið lungann úr fullorðinslífi mínu í Svíþjóð. Ég myndi aldrei leggja ólöglega, ganga á grasi sem ekki mætti ganga á, standa vinstra meginn í rúllustiga eða neitt þvíumlíkt! 🙂 Það er svo mikill samfélagslegur agi í Svíþjóð. Til dæmis hendir enginn rusli á gólfið í bíóum í Svíþjóð og ef einhver myndi taka upp á slíku þá myndi sá hinn sami uppskera reiðileg augnaráð og skammir annarra bíógesta. Stundum finnst mér nóg um agaleysið hér á Íslandi en oft finnst mér líka léttir að vera laus við agann … ég hendi samt aldrei rusli á gólfið í bíó! 😉

Fyrsta verk okkar þegar við fluttum til Íslands, eftir fimmtán ára sænskt grillbann, var að kaupa stórt Weber grill. Það gerðum við meira að segja áður en við fluttum inn í húsið okkar! Við grillum bæði fisk og kjöt og notum líka mikið grillgrind til þess að grilla grænmeti í. Stundum grillum við sætar kartöflur, þær eru svo ofsalega góðar! Ókosturinn við sætar kartöflur eru að þær eru svo stórar og þykkar, það tekur langan tíma að grilla þær og þá vilja þær brenna. Þetta leysi ég með því að forsjóða kartöflurnar. Þá þarf bara að grilla þær örstutt en samt kemur góða grillbragðið.

Uppskrift:

  • 2 sætar kartöflur
  • ca. 1 tsk Saltverk salt eða maldon salt
  • hýðið af einni límónu (lime) rifið fínt
  • góð olía
  • grófmalaður svartur pipar
  • klettasalat

Sætu kartöflurnar eru þvegnar og skrúbbaðar mjög vel. Því næst eru þær skornar í ca. 1.5 cm þykkar sneiðar (með hýðinu á). Vatn er sett í stóran pott og suðan látin koma upp og kartöflusneiðarnar soðnar þar til þær eru hér um bil tilbúnar, í ca. 7-10 mínútur. Það þarf að gæta þess að sjóða kartöflurnar frekar minna en meira þannig að þær verði ekki lausar í sér. Því næst eru þær snöggkældar undir köldu vatni.
Karöflurnar eru þá penslaðar með olíu og kryddaðar með salti og pipar. Svo eru þær grillaðar á meðalheitu grilli í ca. 2 mínútur á hvorri hlið eða þar til það eru komnar góðar grillrenndur á sneiðarnar. Í lokin er limehýðinu og salti dreift yfir kartöflurnar. Hluti af klettasalatinu er lagt á disk, sætu kartöflusneiðunum raðað ofan á og að lokum er restinni af klettasalatinu dreift yfir.

Grillaðar sætar kartöflur með lime og klettasalati