Maís- og avókadósalsa


Maís- og avókadósalsaÞessar vikur sem við höfum dvalist í Michigan hefur ekki farið framhjá okkur að mikið er ræktað af maískorni hér í sveitunum. Gott framboð er af ferskum maísstönglum sem þarf bara að taka úr hýðinu og sjóða í örfáar mínútur og þá er komið á borð ljúffengt meðlæti. Það er með ólíkindum hversu góður maísinn er svona nýr og ferskur, hann er ákaflega sætur og bragðgóður, mjög frábrugðinn frosna maísnum sem við fáum aðallega heima á Íslandi svo ekki sé talað um úr dós.

IMG_6653 Það er þó stundum hægt að fá ferskan maís heima á Íslandi og þá mæli ég eindregið með að þið prófið þetta maís- og avókadósalsa sem er afar gott meðlæti með til dæmis öllum grillmat. Í þessari uppskrift er ferski maísinn notaður óeldaður og þá eru maískornin skemmtilega stökk og sæt. Ég held að það væri líka óskaplega gott að nota þetta salsa með góðum flögum líkt og Tostitos Scoops.

Unknown

Uppskrift: 

  • 1 stór, þroskaður avókadó, skorinn í bita
  • 2-3 msk safi af límónum (lime)
  • 2 stórir tómatar (blautasta innvolsið fjarlægt), skornir í bita
  • 2 ferskir maísstönglar
  • ca. 3 vorlaukar, hvíti og græni hlutinn saxað fremur smátt (hægt að skipta út fyrir ca. 1/4 rauðlauk, smátt söxuðum)
  • ca. 1/4 – 1/2 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður mjög smátt
  • handfylli ferskt kóríander, saxað smátt
  • salt og grófmalaður svartur pipar

Avókadóbitarnir settir í skál og límónusafanum hellt yfir. Þá er tómötunum bætt út í. Hýðið er fjarlægt af maísstönglunum og kornið skorið af stönglunum. Best er að leggja stöngulinn á skurðarbretti og renna beittum hníf meðfram öllum hliðum stöngulsins. Maísinum er því næst bætt út í skálina. Að síðustu er chili bætt út í ásamt kóríander. Smakkað til með salti, pipar og meiri límónusafa ef með þarf.

IMG_6638

Límónumarineruð laxaspjót með mangó- og avókadósalsa


Ég eldaði þennan laxarétt í fyrsta sinn í fyrradag. Ég vissi svo sem að hann hlyti að vera góður þar sem að uppistaðan í réttinum eru nokkur af uppáhaldshráefnunum mínum, lax, mangó og avókadó. En vá hvað þetta er bragðgóður, léttur og ljúffengur réttur, þið bara verðið að prófa! Mikilvægt er að vera með vel þroskað mangó og avókadó, ég skrifaði ráð hér hvernig hægt er að hraða fyrir þroska þeirra. Ég átti avókadó sem ég hafði geymt á þennan hátt og var orðið rétt þroskað. Síðan var ég svo heppin að finna fullkomlega þroskað mangó í Nettó. Ég keypti síðan ljúffengan lax hjá Fiskbúð Hólmgeirs í Mjóddinni en ég kaupi allan fisk af þeim. Þetta er ekki erfiður réttur að útbúa og hann er fljótlegur, það þarf bara að gefa sér tíma fyrir mareneringuna. Þessi uppskrift dugir fyrir þrjá sem aðalréttur en fyrir sex sem forréttur. Ég var með hann í aðalrétt og bar fram með honum naanbrauð með smjöri og salti, uppskriftina er að finna hér.

Límónumarineruð laxaspjót

  • 900 gr. ferskur lax, skorinn í teninga (ca 2,5 x 2,5 cm)
  • 1/2 dl ólífuolía
  • 2 hvítlauksrif, saxað smátt
  • 1/2 límóna (lime), safi og börkur
  • 1/4 tsk sykur
  • salt og pipar
  • kóríander, saxað smátt (hægt að nota flatblaða steinselju í stað kóríanders)

Blandið saman hráefnunum fyrir mareneringuna. Laxinn skorinn í eins jafna teninga (ca. 2.5 cm x 2.5 cm) og hægt er og hann settur í plastpoka. Mareneringunni helt yfir og laxinum velt varlega upp úr henni, geymið í ísskáp í minnst einn tíma, lengur ef hægt er.

Þrír til fimm laxateningar þræddir upp á grillspjót. Ef þið notið tréspjót, leggið þá spjótið í bleyti í ca. hálftíma fyrir notkun til þess að þau brenni ekki. Grillið spjótinn á meðalhita þar til þau eru tilbúin. Reynið að snúa þeim sjaldan til að koma í veg fyrir að laxinn losni af spjótunum. Það þarf að leyfa spjótunum að grillast vel í byrjun áður en þeim er snúið fyrst, þá er lítið mál að snúa þeim eftir það.

Mangó- og avókadósalsa

Á meðan laxinn er að marinerast er salsað útbúið:

  • 1 stórt mangó, skorið í teninga
  • 2 avókadó, skornir í teninga
  • 1/2-1 rauðlaukur, fínsaxaður
  • 1/2-1 rautt chili, kjarnhreinsað og fínsaxað
  • 1/2 límóna (lime)
  • 2 msk góð ólífuolía
  • 1 msk hvítvínsedik
  • salt og pipar
  • ferskt kóríander, saxað (hægt að nota flatblaða steinselju í stað kóríanders)

Mangó, avókadó og lauk blandað varlega saman. Chili bætt við ásamt safanum úr límónunni, ólífuolíu og hvítvínsediki. Kryddið með salt, pipar og kóríander og blandið öllu varlega saman. Geymið í ísskáp.

Berið fram grilluðu laxaspjótin á mangó- og avókadósalsanu, kreystið smá límónusafa yfir og njótið gjarnan með vínsglasi!