Maís- og avókadósalsa


Maís- og avókadósalsaÞessar vikur sem við höfum dvalist í Michigan hefur ekki farið framhjá okkur að mikið er ræktað af maískorni hér í sveitunum. Gott framboð er af ferskum maísstönglum sem þarf bara að taka úr hýðinu og sjóða í örfáar mínútur og þá er komið á borð ljúffengt meðlæti. Það er með ólíkindum hversu góður maísinn er svona nýr og ferskur, hann er ákaflega sætur og bragðgóður, mjög frábrugðinn frosna maísnum sem við fáum aðallega heima á Íslandi svo ekki sé talað um úr dós.

IMG_6653 Það er þó stundum hægt að fá ferskan maís heima á Íslandi og þá mæli ég eindregið með að þið prófið þetta maís- og avókadósalsa sem er afar gott meðlæti með til dæmis öllum grillmat. Í þessari uppskrift er ferski maísinn notaður óeldaður og þá eru maískornin skemmtilega stökk og sæt. Ég held að það væri líka óskaplega gott að nota þetta salsa með góðum flögum líkt og Tostitos Scoops.

Unknown

Uppskrift: 

  • 1 stór, þroskaður avókadó, skorinn í bita
  • 2-3 msk safi af límónum (lime)
  • 2 stórir tómatar (blautasta innvolsið fjarlægt), skornir í bita
  • 2 ferskir maísstönglar
  • ca. 3 vorlaukar, hvíti og græni hlutinn saxað fremur smátt (hægt að skipta út fyrir ca. 1/4 rauðlauk, smátt söxuðum)
  • ca. 1/4 – 1/2 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður mjög smátt
  • handfylli ferskt kóríander, saxað smátt
  • salt og grófmalaður svartur pipar

Avókadóbitarnir settir í skál og límónusafanum hellt yfir. Þá er tómötunum bætt út í. Hýðið er fjarlægt af maísstönglunum og kornið skorið af stönglunum. Best er að leggja stöngulinn á skurðarbretti og renna beittum hníf meðfram öllum hliðum stöngulsins. Maísinum er því næst bætt út í skálina. Að síðustu er chili bætt út í ásamt kóríander. Smakkað til með salti, pipar og meiri límónusafa ef með þarf.

IMG_6638

Ofnbakað eggaldin með tómötum og osti


IMG_9744

Dásamlega löng og notaleg helgi er að lokum komin. Hápunktur helgarinnar var að sjálfsögðu Euorvision keppnin þar sem Eyþór og félagar voru okkur til mikils sóma! 🙂 Við fengum matargesti og hér var Eurovision veðmál tekið mjög alvarlega. Keppt var í yngri og eldri flokki þar sem yngri flokkurinn keppti um sælgætispott en sá eldri keppti um léttvínspott!

IMG_9747

Eftirsóttur pottur! 

IMG_9750

Hluti af hópnum, allir spenntir og tilbúnir með listann (börnin mín urðu auðvitað að gretta sig framan í myndavélina)!

IMG_9752

Smá vínsopi til að kynda undir keppnisskapið!

IMG_9787

Katla var alveg með’etta og vann nammipottinn! 

IMG_9795

Sigurjón var ekki bara með topplistann á hreinu heldur giskaði hann líka rétt á í hvaða sæti Ísland myndi lenda! Ég læt hann velja lottó-tölurnar mínar næst! 🙂

Hluti af gestunum er á LKL mataræði, eða lágkolvetnis lífsstíl. Mér fannst spennandi að finna matrétti sem pössuðu inn þetta mataræði. Í aðalrétt var ég með grillaða sirloin nautasteik, beint af býli, dásamlega gott og meyrt. Meðlætið var bearnaise sósa, sveppasósa, falskt kartöflusalat (með kúrbít), ferskt salat, ofnbakað eggaldin með tómötum og osti auk kartaflna fyrir ekki LKL-ista! Í eftirrétt var súkkulaðifrauð sem passar fyrir LKL. Snakkið var grænmeti og ídýfa, saltaðar Macadamia hnetur en þær hafa lágt kolvetnisinnihald (fást í Kosti), heimatilbúið snakk úr parmesan osti og fleira. Uppskriftirnar af öllum framantöldu munu koma inn á síðuna næstu daga. Ég ætla að byrja á ofnbökuðu eggaldin með tómötum og osti. Frábærlega einfalt og gott meðlæti sem hentar fyrir alla, hvort sem þeir eru á LKL eða ekki! 🙂 Minnir dálítið á þetta meðlæti sem er dásamlega gott líka.

Uppskrift:

  • 2 eggaldin, skorin langsum í skífur
  • 1 tsk salt
  • 2-3 msk olífuolía
  • 4 þroskaðir tómatar, saxaðir smátt
  • 1 knippi sléttblaða steinselja, söxuð smátt
  • 1-2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • rifinn mozzarellaostur, ca 60 g
  • salt og nýmalaður svartur pipar

IMG_9713

Ofn hitaður í 200 gráður, undir- og yfirhita. Eggaldinskífurnar eru lagðar á bretti og saltinu dreift yfir þær. Það er látið liggja á í ca. 10 mínútur til að draga úr beiskjunni í eggaldinu. Þá er vökvinn sem myndast hefur á yfirborðinu, ásamt saltinu, þerraður með eldhúsrúllublöðum. Eggaldin skífurnar eru því næst steiktar upp úr olíu á pönnu þar til þær eru mjúkar. Svo eru þær lagðar í eldfast mót, helst sem minnst ofan á hvor aðra.  Tómatarnir eru steiktir á pönnu í olífuolíu, steinselju og hvítlauk bætt við og leyft að malla um stund. Þá er rifna ostinum bætt út í tómatblönduna og blandað saman þar til osturinn er bráðnaður. Pannan er þá tekin af hellunni og kryddað með salti og pipar. Blöndunni er svo dreift yfir eggaldinið og bakað í miðjum ofni við 200 gráður í ca. 15 mínútur.

IMG_9728

Ofnbakaður kúrbítur með tómötum og mozzarella


IMG_8015Mér finnst bæði grillað nautakjöt og lambakjöt afar gott. Mér finnst meðlætið með kjötinu ekki síður vera mikilvægt og er stöðugt á höttunum eftir góðum meðlætisuppskriftum. Við grillum allt árið, hér um bil í hvaða veðrum sem er. Þó það sé kalt í veðri þessa dagana þá er dásamleg stilla og sól, það er næstum því vor í lofti! Þá langar mann enn meira að grilla en ella. Við keyptum ungnautafille í Nóatúni en um þessar mundir eru þeir með tilboð á því kjöti – ég mæli með því fyrir helgina. Kjötið skárum við í hæfilega þykkar sneiðar, svo var það piprað og saltað áður en það fór á grillið. Með kjötinu gerði ég sveppasósu, steiktar kartöfluskífur, ferskt salat og ofnbakaðan kúrbít með tómötum og mozzarella. Þetta var afskaplega ljúffengt og þessa uppskrift af kúrbít mun ég nota aftur!

IMG_8026

Ofnbakaður kúrbítur:

  • 2 kúrbítar
  • ólífuolía
  • 1 -2 hvítlauksrif, pressuð
  • salt & pipar
  • ca. 1 dl brauðmylsna (ég bjó til eigin brauðmylsnu úr ristuðu brauði, muldu í matvinnsluvél)
  • kokteiltómatar
  • ca. 1/2 -1 mozzarella kúla, skorin í litla bita
  • parmesan (má sleppa)

IMG_8017

Ofn hitaður í 180 gráður. Kúrbíturinn skorinn á lengdina og aðeins tekið af botninum svo hann geti staðið stöðugur. Fræin skafin úr miðjunni með skeið. Bátarnir lagðir á ofnplötu klædda bökunarpappír. Ólífuolíu, hvítlauk, salti og pipar dreift yfir bátana. Kokteiltómatar skornir í tvennt og raðað ofan í bátana, brauðmylsnu stráð yfir. Bakað í ofni við 180 gráður í ca. 30 mínútur. Þá er platan tekin út, og mozzarella ostinum bætt á bátana á milli tómatanna. Sett aftur inn í ofn þar til osturinn hefur bráðnað. Þá eru bátarnir teknir úr ofninum og dálítið af ólífuolíu stráð yfir ásamt ferskri basiliku (og parmesan ef vill).

IMG_8020

Steiktar kartöfluskífur:

  • kartöflur
  • smjör og ólífuolía
  • salt & pipar
  • annað krydd (t.d. rósmarín, timjan)

Kartöflurnar þvegnar vel (ekki afhýddar) og skornar í fremur þykkar skífur. Smjörið og ólífuolían hituð á pönnu og kartöflurnar steiktar upp úr kryddinu og olíunni við meðalhita og þeim snúið oft þar til allar skífurnar eru steiktar í gegn.

IMG_8013

Sveppasósa

  • smjör
  • 200 gr sveppir
  • 2-3 tsk nautakraftur
  • 1 piparostur
  • 2 dl rjómi
  • 2 dl mjólk
  • 2 tsk rifsberjahlaup
  • 1 msk soyjasósa
  • sósujafnari
  • salt og pipar

Sveppir sneiddir og þeir steiktir í potti upp úr smjöri. Nautakrafti bætt við. Hiti lækkaður aðeins og piparosti bætt út og hann látin bráðna. Rjóma og mjólk bætt út í ásamt rifsberjahlaupi og soyjasósu og suðan látin koma upp. Sósujafnara bætt út og sósan látin malla á vægum hita þar til að hún þykknar (sósulit bætt út í ef maður vill fá dekkri lit). Sósan smökkuð til með kryddi, rifsberjahlaupi, sojasósu og/eða nautakrafti.

IMG_8022

Grillað nautaribeye með heimagerðri bearnaise sósu og chilikartöflum með papriku


Ég keypti nautaribeye í versluninni Til sjávar og sveita. Þar sem að við voru að fara í bústað í eina viku þá lét ég þá vakúmpakka því kjöti sem ég keypti. Þá geymist það í kæli í allavega viku. Kjötið var í heilum bita en það er mikið betra að skera kjötið sjálfur í sneiðar og ná þannig öllum sneiðunum jafn þykkum. Mikilvægt er að taka kjötið úr kæli nokkru áður en það er grillað þannig að það sé við stofuhita. Ég kryddaði kjötið með pipar, grillaði við frekar háan hita og leyfði því svo að jafna sig dálitla stund og kryddaði það með maldon salti.

Með kjötinu gerði ég bearnaise sósu. Það er í raun ekki flókið að gera heimatilbúna bearnaise sósu. Tvennt er mikilvægt: að hafa smjörið ekki það heitt að ekki sé hægt dýfa fingri ofan í það og að hella smjörinu út í eggjarauðurnar hægt í mjórri bunu og hræra stöðugt í á meðan. Eins má alls ekki hita upp sósuna aftur eftir að eggjarauðum og smjöri hefur verið blandað saman, þá skilur hún sig. Bearnaise sósan er því ekki heit þegar hún er borin fram, bara volg og má jafnvel vera köld. En fyrir þá sem vilja heita sósu er hægt að hita hana upp varlega yfir vatnsbaði. Ég notaði  Bernaise Essence sem er seldur í litlum glösum í flestum verslunum. Það er líka hægt að búa til sitt eigið „essence“ úr meðal annars hvítvínsediki, skarlottulauk, tarragon og kryddi.

Uppskrift f. 4

  • 4 eggjarauður
  • 250 gr. smjör
  • 1 msk.  Bernaise Essence
  • Fáfnisgras (franskt estragon –kryddjurt), söxuð smátt
  • Salt og pipar

Eggjarauðurnar eru þeyttar ásamt Bernaise essence. Sumir þeyta þær yfir heitu vatnsbaði. Smjör brætt, þegar hitastigið er þannig að maður rétt nær að dýfa fingrinum í það er því hellt varlega í mjórri bunu út í eggjarauðurnar og þeytt í stöðugt á meðan (helst að fá einhvern annan til að hella) með písk. Að lokum er estragoni bætt við (í sveitinni átti ég bara steinselju og bjargaði mér með henni, það slapp alveg!). Sósan smökkuð til og krydduð með smá salti og pipar ef þarf.

Með þessu var ég með grillað grænmeti og chilikartöflur með papriku en uppskrift af þeim er hér. Þær eru svolítið sterkar og koma þvi vel út með mildri bearnais sósunni og kjötinu. Þetta var býsna gott þó ég segi sjálf frá! 🙂

08451Sævar vínþjónn mælir með rauðvíninu Marques de Casa Concha Cabernet Sauvignon frá Chile með þessum rétti. Það er dökkrúbínrautt. Eiginleikar: Þétt fylling, ósætt, fersk sýra, þétt tannín. Bragð: sólber, jörð, minta, vanilla, tóbak, eik.

Grilluð sirloin nautasteik með piparsósu


Á afmælisdaginn óskaði eiginmaðurinn sér nautasteikur með piparsósu sem hann auðvitað fékk! Fyrir valinu urðu vænir sirloin bitar úr versluninni ,,Til sjávar og sveita“ í Ögurhvarfi. Kjötið var marinerað í pipar/papriku marerningu og grillað á útigrilli. Meðlætið var: Grillað grænmeti (gulrætur, zuccini, sveppir og paprika) sem var saltað og piprað og aðeins skvett á það ólivuolíu. Að grillun lokinni bætti ég út í kokteiltómötum, rifnum Parmesan osti, ferski basiliku og steinselju.

Ofnsteiktar sætar kartöflur með olivuolíu, ferskri basiliku, steinselju og oreganó ásamt Maldon salti og nýmöluðum pipar.

Piparsósa:

  • 400 ml. nautasoð (helst heimatilbúið, líka hægt að panta það í kjötverslunum en einnig hægt að nota tilbúinn ,,Tasty pipar sósugrunnur“.
  • 1.5 dl. rjómi
  • 1 tsk. koníak
  • 1-2 tsk. piparkorn (ég nota blönduð piparkorn, svört, græn og rósapipar, grófmöluð og heil)
  • 1 msk. rifsberjahlaup
  • 1 tsk. soyasósa

Nautasoð sett í pott ásamt soyasósu og koníaki og piparkornum og suðan látin koma upp, hrært í á meðan. Þessu leyft að sjóða í nokkrar mínútur. Bætið við rjóma, rifsberjahlaupi og leyfið sósunni að malla á lágum hita í dágóðan tíma. Ef sósan er of þykk, bætið við meiri rjóma, ef hún er of þunn, þykkið með sósujafnara. Ferskt salat: salatblöð, spínat, klettasalat, kokteiltómatar, gúrka, mango, avokado  og fetaostur.

Það eru fleiri góðar sósur sem passa vel með nautakjöti. Hér er ég með uppskrift af ljúffengri heimagerðri bearnaise sósu. Svo er hér uppskrift af góðri sveppasósu.

Kjötið var afar meyrt og gott og allir sáttir við afmælismatinn, ekki síst eiginmaðurinn! 🙂 Jóhanna Inga fékk sér forrétt! Hún er á matreiðslunámskeiði þessa vikuna hjá matreiðslukennaranum í Laugarnesskóla. Fyrsta daginn eldaði hún tómatsúpu, bakaði brauðbollur og útbjó ís! Hún var býsna sátt við þetta námskeið! Best fannst henni að þau fengu að gera allt sjálf, brjóta eggin, hræra í heitum pottum, skera niður lauk og svo framvegis. Mín reynsla er að krakkar geta eiginlega gert flest í matargerð mjög snemma. Jóhanna hefur til dæmis bakað sjálf undir leiðsögn frá því að hún var 4-5 ára, brotið eggin, mælt hráefni, hrært og saxað. En allavega, þá fékk hún sér tómatsúpu og brauð í forrétt og allir fengu að smakka, afar ljúffengt hjá henni! 🙂

Varðandi afmælistertuna, ef einhver ætlar að prófa hana þá er hún margfalt betri daginn eftir þegar hún hefur fengið að brjóta sig svolítið ….. það get ég vitnað um (tékkaði sko nokkrum sinnum á því! ;)) Endilega bakið hana því daginn áður en hún er borin fram!