Ég keypti nautaribeye í versluninni Til sjávar og sveita. Þar sem að við voru að fara í bústað í eina viku þá lét ég þá vakúmpakka því kjöti sem ég keypti. Þá geymist það í kæli í allavega viku. Kjötið var í heilum bita en það er mikið betra að skera kjötið sjálfur í sneiðar og ná þannig öllum sneiðunum jafn þykkum. Mikilvægt er að taka kjötið úr kæli nokkru áður en það er grillað þannig að það sé við stofuhita. Ég kryddaði kjötið með pipar, grillaði við frekar háan hita og leyfði því svo að jafna sig dálitla stund og kryddaði það með maldon salti.
Með kjötinu gerði ég bearnaise sósu. Það er í raun ekki flókið að gera heimatilbúna bearnaise sósu. Tvennt er mikilvægt: að hafa smjörið ekki það heitt að ekki sé hægt dýfa fingri ofan í það og að hella smjörinu út í eggjarauðurnar hægt í mjórri bunu og hræra stöðugt í á meðan. Eins má alls ekki hita upp sósuna aftur eftir að eggjarauðum og smjöri hefur verið blandað saman, þá skilur hún sig. Bearnaise sósan er því ekki heit þegar hún er borin fram, bara volg og má jafnvel vera köld. En fyrir þá sem vilja heita sósu er hægt að hita hana upp varlega yfir vatnsbaði. Ég notaði Bernaise Essence sem er seldur í litlum glösum í flestum verslunum. Það er líka hægt að búa til sitt eigið „essence“ úr meðal annars hvítvínsediki, skarlottulauk, tarragon og kryddi.
Uppskrift f. 4
- 4 eggjarauður
- 250 gr. smjör
- 1 msk. Bernaise Essence
- Fáfnisgras (franskt estragon –kryddjurt), söxuð smátt
- Salt og pipar
Eggjarauðurnar eru þeyttar ásamt Bernaise essence. Sumir þeyta þær yfir heitu vatnsbaði. Smjör brætt, þegar hitastigið er þannig að maður rétt nær að dýfa fingrinum í það er því hellt varlega í mjórri bunu út í eggjarauðurnar og þeytt í stöðugt á meðan (helst að fá einhvern annan til að hella) með písk. Að lokum er estragoni bætt við (í sveitinni átti ég bara steinselju og bjargaði mér með henni, það slapp alveg!). Sósan smökkuð til og krydduð með smá salti og pipar ef þarf.
Með þessu var ég með grillað grænmeti og chilikartöflur með papriku en uppskrift af þeim er hér. Þær eru svolítið sterkar og koma þvi vel út með mildri bearnais sósunni og kjötinu. Þetta var býsna gott þó ég segi sjálf frá! 🙂
Sævar vínþjónn mælir með rauðvíninu Marques de Casa Concha Cabernet Sauvignon frá Chile með þessum rétti. Það er dökkrúbínrautt. Eiginleikar: Þétt fylling, ósætt, fersk sýra, þétt tannín. Bragð: sólber, jörð, minta, vanilla, tóbak, eik.
Ég elska Benna og set stundum slettu af hlynsírópi út í sósuna þegar ég geri hana. Var í einhverri uppskriftinni.
Annars mjög girnilegt hjá þér !
Brjáááááluð bearnaise sósa XD !!!! ég held hún heiti það 😀
Þessa bearnaise sósu verð ég að prófa með Hasselback kartöflunum og góðu grillkjöti. Þetta er allt svo æðislega girnilegt!
Bakvísun: Grillað lambafille með Hasselback kartöflum, grilluðu grænmeti og sveppasósu | Eldhússögur
Bakvísun: Grilluð nautasteik með piparsósu | Eldhússögur
Bakvísun: Tíu tillögur af páskamat | Eldhússögur
Bakvísun: uppskriftir | ghafdis
Bakvísun: Hátíðarmatur og nýjung á Eldhússögum | Eldhússögur