Tillögur að páskamáltíðum


páskaNúna er páskarnir að ganga í garð. Ég held mikið upp á páskana, yndislega birtan komin aftur, vor í loftinu og gott, kvaðalaust frí. Það eina sem maður þarf að gera er að borða góðan mat og mikið súkkulaði, dásemdin ein! 🙂

Hér eru tillögur að góðum aðalréttum fyrir páskana. Svo vill til að þetta er hér um bil allt hægeldað kjöt. Það er nú ekki nein tilviljun því þannig verður kjötið svo afskapalega meyrt og gott. Eins höfum við nægan tíma um páskana til að leyfa matnum að malla hægt. Hér er svo hægt að finna uppskriftir að kartöflum á 10 vegu. Svo er ekki úr vegi að skrolla niður þennan lista og finna þar einhverja góða eftirrétti til að njóta um páskana! Gleðilega páska!

Hægeldaður lambahryggur í jólaöli.

IMG_0954

Hægeldað lambalæri

IMG_7414

Hægelduð nautalund

img_7387

Kalkúnn

IMG_0796

Ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa

þorskur

Hægeldað kálfa ribeye með rauðvínssveppasósu

ofnbakaðar1

Hægelduð nautalund


img_7387img_8178

Ljúfir jóladagar eru liðnir sem voru dálítið sérstakir fyrir þær sakir að þetta voru fyrstu jól okkar fjölskyldunnar í nýja húsinu. Það er ólíkt rúmbetra heldur en gamla húsið okkar en það hús var hins vegar alltaf ákaflega notalegt þrátt fyrir smæðina. Við erum afar ánægð með að hafa tekist að gera þetta stóra hús ekki síður heimilislegt og það var gott að vera hér um jólin og geta til dæmis haldið 20 manna jólaboð án nokkurra vandkvæða.

fullsizerender

Árið 2016 var viðburðarríkt og einkenndist af miklum framkvæmdum og flutningum. Þessa dagana erum við oft að rifja upp þegar við fjölskyldan, á gamlárskvöldi í fyrra, skutumst upp í hús rétt fyrir miðnætti. Við klofuðum yfir spýtur og verkfæri til þess að komast upp á efstu hæð og horfa á útsýnið út úr nýja húsinu á miðnætti.

fullsizerender-2

Þá var búið að rífa bókstaflega allt út úr húsinu og meira að segja saga úr stóran hluta af útveggjunum þannig að það var erfitt að ímynda sér að þetta yrði nokkurn tímann notalegt heimili. Það er því alltaf jafn skemmtilegt og í raun ótrúlegt að virða fyrir sér breytingarnar.

eldhusfrastofuimg_2181IMG_0825img_2179IMG_0820img_2177img_3459img_3460img_3461img_3462img_4785img_4907

img_5019

img_2186

En nú er gamlárskvöld að renna upp og ekki seinna vænna að víkja að matseldinni. Venjulega höfum við kalkún í matinn á gamlárskvöld en ég er farin að kaupa kalkúnabringur í stað þess að hafa heilan kalkún. Kalkúnabringurnar hægelda ég, geri góða sósu og allskonar gómsætt meðlæti. Að þessu sinni var ég hins vegar með kalkúnabringur í jólaboði á annan í jólum og við erum enn að borða afgangana. Við ákváðum því að breyta til fyrir gamlárskvöld og hafa eitthvað sem er líka í miklu eftirlæti hjá okkur, hægeldaða nautalund. Fyrir nokkru rakst ég á frábæra uppskrift frá Ragnari Frey, lækninum í eldhúsinu, sem ég styð mig við og síðan þá hefur nautalundin hjá mér alltaf heppnast fullkomlega. Ragnar Freyr er mikið að nota sous vide hægeldun en til þess þarf sérstakar græjur. Ég er alls ekki mikil græjumanneskja í eldhúsinu og var því afar glöð þegar ég sá að Ragnar benti á aðra frábærlega einfalda aðferð sem hægt væri að nota til þess að ná fram sömu hægelduninni. Og ég segi það og skrifa, þessi aðferð er algjörlega skotheld, nautalundinn verður fullkomlega elduð á þennan hátt! Sumir hafa áhyggjur af því að plastið fari inn í ofn. Ragnar Freyr, sem bæði er læknir og snillingur í eldhúsinu, fullyrðir það þurfi ekki að hafa áhyggjur af því þar sem það hvarfast engin efni úr plastinu við 60 gráðu hita. Með þessari lungamjúku og hægelduðu nautalund er gott að bera fram góðar kartöflur, t.d. kartöflugratín eða Hasselback kartöflur. Ég prófaði um daginn að gera Hasselback kartöflur úr sætkartöflum og mæli algjörlega með því.

IMG_2328 img_7304

Mér finnst bearnaise-sósa ómissandi með nautalundinni og er með góða uppskrift að henni hér. Ég skal hins vegar líka benda ykkur á frábæra og einfalda leið til þess að verða ykkur út um góða bearnaise-sósu til að einfalda lífið. Bestu tilbúnu bernaisesósurnar fást hjá Hamborgarabúllunni og í Seljakjör á Seljabraut (sósa sem þau búa til sjálf), mæli með þeim! 🙂

Hægelduð nautalund (f. ca. 4)

  • 1 kíló nautalund
  • 1-2 msk smjör
  • 1 msk ólífuolía
  • salt & nýmalaður svartur pipar
  • plastfilma

Ef nautalundin er frosin þá er hún látið þiðna í ísskáp í einn til tvo sólarhringa. Nokkrum tímum áður en kjötið er eldað er það tekið úr ísskáp, snyrt við þörfum og látið ná stofuhita. Bakarofn hitaður í 60 gráður við undir- og yfirhita.  1 msk ólífuolía og 1 msk smjör er sett á pönnu og látið hitna vel. Þá er kjötið kryddað með pipar og steikt við háan hita í ca. 2 mínútur á öllum hliðum. Því næst er það látið kólna í um það bil 5-10 mínútur. Bakarofn hitaður í 60 gráður við undir- og yfirhita. Nú er kjötinu vafið þétt inn í plastfilmu nokkra vafninga. Kjötmæli er stungið í kjötið (í gegnum plastið) og það sett inn í 60 gráðu heitan ofn í um það bil 3 ½ – 4 tíma eða þar til kjarnhiti kjötsins hefur náð 60 gráðum. Þá er það tekið út úr ofninum, plastið tekið af og kjötið steikt örstutta stund upp úr smjöri og ólífuolíu á heitri pönnu á öllum hliðum, kryddað með salti og meiri pipar ef með þarf. Að lokum er kjötið látið hvíla undir álpappír í minnst 15 mínútur áður en það er skorið niður. Óhætt er að láta kjötið bíða upp undir klukkustund undir álpappír og handklæði/viskastykki.

img_8165img_8171img_8172

Gúllassúpa


GúllassúpaVikan hefur liðið hratt að vanda. Öllum kvöldunum í síðustu viku eyddi ég fyrir framan tölvuna við að skipuleggja sumarfrí okkar fjölskyldunnar. Við erum að fara í langa og ótrúlega spennandi Bandaríkjaferð næsta sumar. Við munum heimsækja tvær stórborgir í nokkra daga og eyða nokkrum vikum í minni borg þar sem við gerum húsaskipti. Jóhanna Inga dóttir mín á sér þrjá drauma. Það er að borða á veitingastað á Ítalíu, sjá Effelturninn í París og fara upp í frelsisstyttuna í New York. Sá hinn síðastnefndi mun rætast næsta sumar og öll fjölskyldan er yfir sig spennt yfir væntanlegu ævintýri sumarsins.
Um helgina fór ég í skemmtilegt konuboð. Í vinnunni vorum við nokkrar starfssystur að ræða rauðvín og súkkulaði í kaffitímanum – hvað annað! Í kjölfarið var ákveðið að hafa boð með gæðasúkkulaði- og rauðvínshlaðborði. Dásamlega gott og skemmtilegt!IMG_3758

Súkkulaðið var allstaðar að.

IMG_3781

Nóg af rauðvíni!

IMG_3783

Íslenskt gæðasúkkulaði frá Hafliða í Mosfellsbakaríi ásamt allskonar erlendu gæðasúkkulaði.

IMG_3787

Konurnar ánægðar með hlaðborðið

IMG_3795

IMG_3802

Gúrmei!

IMG_3805

IMG_3813

IMG_3836

Ég og gestgjafinn góði.

Uppskrift dagsins er hins vegar bragðmikil og góð gúllassúpa. Það er hægt að skipta út gúllasinu fyrir nautahakk og þá þarf súpan bara að malla í stutta stund áður en hún er tilbúin.

Uppskrift:

  • 600 g gúllas
  • 1 rauð paprika, skorin í bita
  • 1 gulur laukur
  • ca. 6 meðalstórar kartöflur
  • ca. 3 meðalstórar gulrætur
  • 1 msk paprika (krydd)
  • 1 1/2 tsk cummin (ath. ekki kúmen)
  • salt & pipar
  • chili krydd eftir smekk (ég notaði chili explosion)
  • 2 msk ólívuolía
  • 1 líter kjötkraftur (nautakraftur og vatn)
  • 3 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
  • 2 msk smjör
  • 1-2 msk tómatpúrra
  • sýrður rjómi

Kjötið er skorið í minni teninga ef með þarf. Kartöflur, laukur og gulrætur flysjaðar og skornar í meðalstóra teninga. Kjöt, laukur og paprika er steikt upp úr olíu í stórum potti og öllum kryddunum bætt út í.  Þegar kjötið hefur fengið lit er nautakraftinum og tómatpúrrunni bætt út í pottinn og suðan látin koma upp. Þá er smjörinu og hvítlauknum bætt út í. Látið malla í ca. 50 – 60 mínútur – súpan verður enn betri ef hún fær að malla lengur! Þegar um það bil 20 mínútur er eftir af suðutímanum eru kartöflunum og gulrótunum bætt út súpuna. Borin fram með sýrðum rjóma og góðu brauði.

IMG_2995

Indverskur nautakjötspottréttur með raita jógúrtsósu


Indverskur nautakjötspottréttur með raita jógúrtsósu
Ég er alltaf að prófa mig áfram með uppskriftir þar sem ég get notað gúllasið sem ég pantaði af býli. Ókosturinn við gúllas er að oft þarf að elda það mjög lengi eða láta það liggja í maríneringu lengi, það hentar illa fyrir upptekið fólk eins og mig. Þessi réttur er hins vegar fremur fljótlegur og kjötið naut sín vel, virkilega góður réttur! Það er hægt að stjórna hversu sterkur rétturinn er með karrímaukinu. Ég gef upp þrjár matskeiðar í uppskriftinni en það gerir réttinn sterkan, það er því gott að prófa sig áfram með magnið. Raita jógúrsósan er dásamlega góð, hún gefur jafnvægi við kryddið og kallar betur fram góða bragðið.
Uppskrift:
  • 600 nautakjöt í bitum (ég notaði nautagúllas, líka hægt að nota lambakjöt)
  • 4 msk olía
  • 2 laukar, saxaðir smátt
  • 3 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð smátt
  • 2 msk rifið ferskt engifer
  • 5 lárviðarlauf
  • 3 msk currypaste (rautt), gott samt að prófa sig áfram með magnið, 3 msk gera réttinn sterkan)
  • 1,5 msk garam masala
  • 3 msk tómatpúrra
  • 2 msk mango chutney
  • 2-3 dl vatn (líka gott að nota helming vatn og helming rjóma)
  • 1-2 grænar paprikur, skornar í strimla
  • 2-3 tómatar, skornir í bita
Kjötið er steikt á pönnu upp úr olíunni þar til það hefur náð dálitlum lit. Þá er lauknum og hvítlauknum bætt út í og steikt áfram. Því næst er engifer, lárviðarlaufum (þau eru svo fjarlægð áður en rétturinn er borinn fram), currypaste, garam masala, tómatpúrru og mango chutney bætt út í og steikt í nokkrar mínútur til viðbótar. Allt er svo flutt yfir í pott, vatni bætt út, lok sett á pottinn og látið malla í 30-40 mínútur eða þar til kjötið er orðið meyrt. Þegar um það bil 10 mínútur eru eftir af eldunartímanum er paprikunni og tómötunum bætt út í. Borið fram með hrísgrjónum, salati, mango chutney og raita jógúrtsósu.
IMG_0152
Raita jógúrsósa:
Gúrkan er skoluð og rifin niður með rifjárni. Mesti vökvinn er pressaður úr gúrkunni. Henni er svo blandað saman við jógúrt, hvítlauk, myntu og hunang. Sósan er svo smökkuð til með salti og pipar. Ef notuð er grísk jógúrt er sósan þynnt með dálitlu vatni, ca. 1/2 dl, sósan á að vera fremur þunn.

Asískur pottréttur með grilluðum ananas og sweet chili-jógúrtsósu


Asískur pottréttur með grilluðum ananas og sweet chili-jógúrtsósu

Það er nú meiri snilldin að það sé „aftur“ komin helgi eftir bara einn vinnudag! Sérstaklega er ljúft að eiginmaðurinn á líka fríhelgi en þær eru ekki á hverju strái. Í dag fórum við á vortónleika hjá börnunum, í hjólaferð og svo bökuðum við mæðgurnar. Eins og venjulega þegar Jóhanna Inga fær að ráða þá er bökuð eplakaka en hún fær aldrei nóg af eplakökum í allskonar útfærslum. Þó hún sé bara átta ára þá er hún farin að baka hér um bil sjálfstætt og hefur afar gaman af. Í sumar mun hún fara á matreiðslunámskeið sem hún fór á í fyrra líka, hún hlakkar mjög mikið til.

Ég ákvað að elda eitthvað í kvöld úr gúllasinu sem ég fékk þegar ég keypti nautakjötið frá Mýranauti. Einhvern veginn þá vill það kjöt oft verða það sem ég nýti síst. Mig langaði að búa til eitthvað rosalega gott og lagðist yfir uppskriftabækur og netuppskriftir. Ég endaði á því að nýta hugmyndir héðan og þaðan, breyta og bæta. Og vá hvað maturinn varð góður! Meðlætið var frekar óvenjulegt og passaði ákaflega vel saman. Jógúrtsósan er alveg hreint dásamlega góð og ég mun pottþétt gera hana aftur sem allra fyrst! Mest á óvart kom ananasinn! Ég kryddaði hann með cajunkryddi og grillaði. Þetta var himneskt meðlæti með réttinum og sósunni góðu. Það var nú svolítið fyndið að ég ætlaði að krydda ananasinn með karrí en greip óvart cajun kryddið. Hins vegar þá kom það ofsalega vel út, ég mun örugglega halda mig við cajunkryddið þegar ég geri ananasinn aftur! 🙂 En við kolféllum sem sagt öll fyrir þessum himneska rétti og átum á okkur gat – þetta var veisla fyrir bragðlaukana! Gúllasið var meyrt og gott enda var ég með frábært kjöt beint af býli. Ég hugsa að það sé líka mjög gott að nota kjúklingakjöt í þennan rétt. Jógúrtsósan og grillaði ananasinn smellpassa allavega örugglega með kjúklingi. Ég veit ekki hvort þessi matreiðsla virkar flókin en hún er það alls ekki, þvert á móti, þetta var allt ákaflega einfalt og fljótlegt (ég reyndar skellti kjötinu í marineringuna fyrr um daginn). Á meðan kjötið mallaði á pönnunni grillaði ég ananasinn og hrærði í sósuna. Aldrei þessu vant voru ekki einu sinni hrísgrjónin tilbúinn þegar allt hitt var tilbúið, þó hafði ég byrjað á þeim.

IMG_9574

Uppskrift: 

  • 1 kíló nautagúllas (eða kjúklingabitar)
  • ca. 100 g belgbaunir (má sleppa)
  • 200 g sveppir
  • 1/2 tsk nautakraftur

Marinering:

  • 4 hvítlauksrif, fínsöxuð eða pressuð
  • 1.5 dl sojasósa
  • 2 msk sesamfræ
  • 2 tsk sambal oelek (chili mauk)
  • 1 dl ólífuolía
  • ferskmalaður svartur pipar

Hráefninu í marineringuna hrært saman. Kjötið lagt í marineringuna, annað hvort í poka eða skál og látið bíða í ísskáp í minnst 30 mínútur en því lengur því betra. Sveppirnir skornir í bita og steiktir á pönnu upp úr smjöri og/eða olíu, kryddaðir með nautakraftinum. Sveppirnir eru svo veiddir af pönnunni. Kjötið er tekið úr marineringunni og steikt á pönnu í 2-3 mínútur. Þá er restinni af marineringunni bætt á pönnuna ásamt sveppum og belgbaununum. Það er hægt að bæta við dálitlu af vatni til þess að búa til meiri sósu ef með þarf. Látið malla í nokkrar mínútur þar til kjötið er tilbúið. Borið fram með sweet chili – jógúrtsósu, grilluðum cajun-ananas og hrísgrjónum.

IMG_9539

Cajun-ananas:

  • 1/2 – 2/3 ferskur ananas
  • ca 1 tsk cajun krydd

IMG_9568

Ananasinn er skorin í bita. Best er að skera ananasinn á þennan hátt (byrjar við 1.20 mín í myndbandinu). Hann er svo kryddaður með cajun kryddi og grillaður við meðalhita í 2-3 mínútur á báðum hliðum.

IMG_9572

Sweet chili – jógúrtsósa:

  • 2 dl grísk jógúrt
  • 4 tsk sweet chili sósa
  • 1-2 hvítlauksrif, pressað
  • ca. 2 tsk fínsaxaður ferskur kóríander

Öllum hráefnunum blandað vel saman.

IMG_9579

IMG_9588

Roastbeef með bearnaise sósu, kartöflugratíni og spínatsalati með jarðarberjum


IMG_9146Ég var búin að vera með yfirlýsingar um að páskamaturinn hjá okkur yrði kalkúnn eða mögulega lambakjöt. Þessar fyrirætlanir breyttust allar þegar ég fékk allt girnilega nautakjötið frá Mýranauti. Ég glímdi við dálítinn valkvíða þar sem um svo marga girnilega nautakjötsbita var að ræða en á endanum ákvað ég að hafa roastbeef. Með því bar ég fram heimagerða bearnaise sósu (og brúna fyrir gikkina!), kartöflugratín og spínatsalat með jarðaberjum, fetaosti og ristuðum valhnetum. Jimundur minn hvað þetta var gott! Kjötið var dásamlega meyrt og safaríkt og meðlætið fullkomið með kjötinu. Kartöflugratínið er algjör snilld því það er svo fljótlegt og hrikalega bragðgott. Með því að sjóða kartöfluskífurnar fyrst í rjómaleginum þá þurfa þær bara örstutta stund í ofninum. Þannig gat ég ofnbakað kartöflugratínið á meðan kjötið jafnaði sig eftir ofnsteikinguna. Ég geri ekki kartöflugratín á annan hátt eftir að ég uppgötvaði þessa aðferð.

IMG_9137

Ég steikti fyrst kjötið á pönnu við háan hita og eldaði það svo við lágan hita inni í ofni. Ég sá að meistari Nanna Rögnvaldar skrifaði um daginn að það væri mýta að hægt væri að loka kjöti með því að steikja það á pönnu, nokkuð sem mér fannst mjög áhugavert að lesa. Þetta sagði hún:

,,Þetta kalla mjög margir að ,,loka” kjötinu og telja að með því að byrja á að snöggbrúna það sé verið á einhvern hátt að þétta yfirborðið svo safinn leki síður úr kjötinu. Eins og við þetta myndist einhvers konar vatnsheld hella eða hjúpur kringum kjötið …

Sem er náttúrlega alrangt.

Maður lokar ekki nokkrum sköpuðum hlut með því að brúna yfirborðið. Safinn lekur alveg jafnört úr kjötinu út á pönnuna eftir sem áður. Ef ekki örar. Þetta hefur verið margsannað með tilraunum þar sem tvö nákvæmlega eins kjötstykki eru matreidd, annað brúnað fyrst, hitt ekki, og þau síðan elduð á sama hátt þar til sama kjarnhita er náð. Síðan eru þau vigtuð til að kanna hvort hefur tapað meiri safa. Í hverri tilrauninni af annarri hefur það komið á daginn að stykkið sem var ,,lokað” tapaði jafnmiklum eða meiri safa en hitt.

Samt tekst ekki að kveða þessa mýtu niður (ég er búin að vera að tuða um þetta í fimmtán ár að minnsta kosti) og flestir, jafnt húsmæður sem frægir kokkar, halda áfram að tala um að ,,loka kjötinu”.

En á maður þá nokkuð að vera að brúna? Jú reyndar. Því að þótt brúnunin loki ekki nokkrum sköpuðum hlut, þá gerir hún annað: hún bætir bragðið. Sykrurnar og amínósýrurnar á yfirborði kjötsins bráðna saman í hitanum (sem þarf að vera yfir 150°C) og yfirborðið brúnast eða ,,karamelliserast” og við það myndast þetta unaðslega bragð sem fæstir vildu missa af. Og kjötið verður líka fallegra og girnilegra fyrir vikið.“

Þar hafið þið það, meistarinn hefur talað! 🙂 Hér með leggja Eldhússögur sitt af mörkum við að kveða niður mýtuna um að hægt sé að „loka kjöti“!

04146Með þessu gómsæta kjöti mælir vínþjónninn Sævar Már Sveinsson með  ítalska rauðvíninu Tommasi Le Pruneé Merlot. 

Lýsing: Kirsuberjarautt. Meðalfylling, þurrt, fersk sýra, miðlungstannín. Skógarber, bláber, jörð, lyng, hýði.

IMG_9126

Uppskrift:

  • ca 2 kíló nauta innra læri
  • olía
  • smjör og olía til steikingar
  • maldonsalt
  • ferskmalaður svartur pipar

Kjötið er tekið úr kæli og látið ná stofuhita. Ofninn er hitaður í 120 gráður, undir- og yfirhita. Þá er það nuddað með olíu og kryddað mjög vel með maldonsalti og ferskmöluðum svörtum pipar. Kjötið er steikt á pönnu upp úr blöndu af smjöri og olíu við háan hita á öllum hliðum í stutta stund. Þá er kjötið lagt í eldfast mót og kjöthitamæli stungið í þykkasta hluta kjötsins. Kjötið er steikt í ofni við 120 gráður þar til kjarnhiti kjötsins hefur náð um það bil 55 gráðum. Kjötið hjá mér var 2 kíló og það tók 2 klukkutíma á 120 gráðum að ná þessum kjarnhita. Þá er kjötið tekið út og látið jafna sig í 15-20 mínútur undir álpappír. Mjög mikilvægt er að leyfa kjötinu að jafna sig eftir ofnsteikinguna, ef það er skorið of snemma þá missir það safann.

IMG_9134

Bernaise sósa:

  • 4 eggjarauður
  • 250 gr. smjör
  • 1 msk.  Bernaise Essence
  • Fáfnisgras (franskt estragon –kryddjurt), söxuð smátt
  • salt og pipar

Eggjarauðurnar eru þeyttar ásamt Bernaise essence. Sumir þeyta þær yfir heitu vatnsbaði. Smjör brætt, þegar hitastigið er þannig að maður rétt nær að dýfa fingrinum í það er því hellt varlega í mjórri bunu út í eggjarauðurnar og þeytt í stöðugt á meðan (mikilvægt! – helst að fá einhvern annan til að hella) með písk. Að lokum er estragoni bætt við. Sósan smökkuð til og krydduð með smá salti og pipar ef þarf. Það má ekki hita upp sósuna aftur eftir að eggjarauðum og smjöri hefur verið blandað saman, þá skilur hún sig. Bearnaise sósan er því ekki heit þegar hún er borin fram, bara volg og má jafnvel vera köld. En fyrir þá sem vilja heita sósu er hægt að hita hana upp varlega yfir vatnsbaði.

IMG_9148

Spínatsalat með jarðaberjum:

  • spínat
  • jarðarber, skorin í bita
  • fetaostur í olíu
  • ristaðar valhnetur

Spínatið er lagt á disk. Jarðarberjunum er svo dreift ofan á spínatið ásamt fetaostinum (smá olía með). Því næst eru valhneturnar saxaðar gróft og þær þurrristaðar á pönnu á eftirfarandi hátt. Panna hituð og valhneturnar ristaðar á pönnunni við fremur háan hita í nokkrar mínútur þar til þær hafa náð góðri ristun, hrært í þeim stöðugt á meðan til þess að þær brenni ekki. Þegar hneturnar hafa kólnað dálítið er þeim að lokum dreift yfir salatið.

IMG_8856

Kartöflugratín f. 8-10

  • ca 1,5 kíló kartöflur
  • 4 dl rjómi
  • 4 dl mjólk
  • hálfur rauðlaukur, skorin í strimla
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 grænmetisteningur
  • Töfrakrydd, salt og pipar
  • rifinn ostur

Kartöflurnar skolaðar vel (ég hef þær oftast með hýðinu á) og svo skornar í skífur, sumir vilja hafa þær næfurþunnar, mér finnst best að hafa þær ca 1 cm á þykkt. Hvítlaukur og laukur skorinn niður. Mjólk og rjómi hellt í stóran pott ásamt hvítlauk, lauk, grænmetisteningi og kryddi. Ég nota Töfrakrydd frá pottagöldrum, það er góð kryddjurtablanda með cheddar osti sem hentar vel en það er hægt að nota hvaða krydd sem hugurinn girnist. Sjóðið við vægan hita í 10-15 mínútur (fer svolítið eftir þykkt kartaflanna), eða þar til þær eru orðnar vel mjúkar. Hellið þá kartöflublöndunni í eldfast mót, dreifið rifnum osti yfir og hitið í ofni við 200 gráður ca. 20 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og orðin gullinbrúnn.

IMG_9156

Chili-hakk í salatvefju


IMG_9033

Ég er býsna spennt yfir þeirri matargerð sem bíður mín næstu vikurnar. Ég pantaði nefnilega 1/4 af nautaskrokk beint frá býli. Ég hef gert það áður og það er svo mikill munur á gæðum kjötsins, sérstaklega nautahakkinu, miðað við það sem er keypt hjá stórmörkuðunum. Ég pantaði kjöt frá Mýranauti. Þeir eru með svo góða þjónustu. Í fyrsta lagi er hægt að biðja um að þau geri hamborgara úr hluta af nautahakkinu gegn mjög vægri greiðslu. Í öðru lagi er hægt að fá snitsel úr klumpinum og flatsteikinni, sem annars nýtist kannski ekki sérlega vel. Í þriðja lagi þá er hægt að panta hakkið og gúllasið í þeim stærðarpakkningum sem maður óskar. Og í fjórða lagi er kjötið keyrt beint heim til manns! Ég fékk kjötið heim rétt fyrir páska og þar leyndust afar girnilegir bitar, nautalund, sirloin steik, ribeye, entrecote og fleira. Ég held að kalkúninn á páskadag sé mögulega að víkja fyrir gómsætri nautasteik! 🙂

IMG_8845IMG_8850

Ég prófaði nautahakkið strax í dag, það var afar ljúffengt. Ég gerði nokkurs konar smárétt eða tapasrétt sem var mjög bragðgóður, skemmtilegt að útbúa og enn skemmtilegra að borða. Frábær og fljótlegur smáréttur með köldum bjór eða sniðugur réttur á hlaðborð. Eins gæti þetta verið góður réttur til að bera fram með fleiri mexíkóskum smáréttum. Ég ákvað að búa til guacamole með þessum rétti, mér fannst það voða gott með, eins bar ég fram með þessu nachos fyrir þá sem vildu dálítið af kolvetnum! 😉 Salatið fæst í Hagkaup, mér finnst það ómissandi með þessum rétti en það er líka hægt að nota venjulegar tortillakökur.

IMG_9036

Uppskrift:

  • 800 g nautahakka
  • salt & pipar
  • olífuolía
  • 1-2 rauður chili
  • 2 hvítlauksrif
  • 5 cm biti af fersku engifer
  • 3 vorlaukar
  • 1 msk sesamolía
  • 1 msk púðursykur
  • 1 tmsk fiskisósa (fish sauce)
  • hýði af 1 límónu (lime)
  • safi frá ½ límónu
  • hjartasalat (fæst m.a. í Hagkaup)
Hakkið steikt á pönnu upp úr ólífuolíunni, saltað og piprað vel. Steikt á fremur háum hita til þess að hakkið nái góðum lit. Þegar hakkið er steikt í gegn er því hellt í sigti þannig að öll fita renni af því.
Chili, hvítlaukur og engifer er fínsaxarð og steikt upp úr sesamolíunni. Þá er sykrinum bætt út á pönnuna og því næst er hakkinu bætt út í ásamt fiskisósunni, límónuhýðinu og límónusafanum. Vorlaukarnir eru saxaðir niður og þeim bætt út í lokin.
IMG_9016
Sósa:
  • 1 tsk púðursykur
  • 1 tsk sojasósa
  • safi frá ½ límónu (lime)
  • ½ chili, saxað
  • 1-2 tsk fiskisósa (fish sauce)
  • ferskt kóríander eftir smekk, saxað (ég notaði 1/2 30 gramma box)
  • 1 msk ólífuolía

Öllum hráefnunum er blandað vel saman. Hakkið er borið fram í hjartasalatsblöðunum og sósunni dreift yfir.

IMG_9025

Boeuf bourguignon


Jæja, þá er maður bara farinn að slá um sig með frönskum titlum! Boeuf bourguignon er þekktur franskur kjötréttur. Boeuf þýðir nautakjöt en bourguignon er héraðið Búrgúnd í Frakklandi og vísar til þess að kjötið er soðið í Búrgúnd rauðvíni. Mig hefur langað til að elda gúllas um tíma, það er líklega haustið sem hefur þessi áhrif. Þegar ég fór að skoða uppskriftir af gúllasi datt ég hvað eftir annað niður á uppskriftir af Boeuf bourguignon og varð að prófa. Gúllas er í raun allt annar réttur. Þá er átt við ungverskt gúllas sem í er meðal annars kartöflur, laukur og paprikukrydd. En orðið gúllas er hins vegar almennt notað hérlendis yfir alla pottrétti sem innihalda nautakjöti í bitum. Þetta er einfaldur réttur að útbúa og fljótgerður, þá meina ég að koma kjötréttinum í pottinn. Hins vegar þarf rétturinn að malla í allavega tvo tíma. Þetta er því upplagður réttur til að laga á laugardegi. Byrja snemma í eldhúsinu, kveikja á kertum, opna rauðvín og sötra þær dreggjar sem ekki fara í pottinn, á meðan beðið er eftir að ljúffengur kjötrétturinn verði tilbúinn. Þessi eldunaraðferð gerir kjötið ákaflega meyrt og gott. Já sko, að elda kjötið svona lengi meina ég, ekki að drekka rauðvín á meðan … þó hjálpar það örugglega líka! 🙂 Þó svo að strangt til tekið eigi að nota Búrgúnd rauðvín þá notaði ég nú bara það rauðvín sem við áttum hér heima. Það þarf ekki að óttast að sósan verði eitthvað áfeng, allt áfengið gufar upp á meðan kjötrétturinn mallar í þessa tvo tíma, eftir stendur bara ákaflega bragðgóð sósa! Með réttinum bjó ég til kartöflumús, ég elska kartöflumús! Ég geri hana á mjög hefðbundinn hátt, stappa kartöflurnar, bæti við mjólk, sykri, salti og smá pipar. Til hátíðarbrigða bæti ég stundum við smá rjómaosti. Að auki bjó ég til afar einfalt og gott hrásalat, mér finnst það passa mikið betur með svona rétti heldur en ferskt salat, uppskriftin fylgir hér að neðan.

Uppskrift f ca. 6:

  • 1.5 kg. nautakjöt, t.d. gúllas
  • 1 bréf beikon
  • 2 laukar, saxaðir smátt
  • 250 gr sveppir, skornir í fjórðunga
  • 5-6 dl rauðvín
  • 4 msk tómatpúrra
  • 2-3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • ca 3 msk smjör til steikingar
  • 3 msk hveiti
  • 1 tsk kjötkraftur
  • 1 msk salt
  • 1 tsk timjan (þurrkað eða ferskt)
  • 1 tsk steinselja (þurrkuð eða fersk)
  • 1 tsk grófmalaður hvítur pipar
  • 1/2 dl rauðvínsedik

Beikonið er steikt, umfram fita þerruð af því og það skorið í bita. Pannan er ekki þvegin! Annar laukurinn (fínsaxaður) ásamt rauðvínsedik og pipar látið malla í stórum potti. Smjöri er bætt við á pönnuna sem beikonið var steikt á og kjötið brúnað. Síðan er kjötið fært yfir í pottinn (ásamt steikarvökvanum af pönnunni) og hveitinu sáldrað yfir kjötið. Tómatpúrru, hvítlauk, timjan, steinselju, kjötkrafti og salti bætt út í. Rauðvíninu er svo hellt út í. Lok sett á pottinn og kjötið látið malla í ca. tvo tíma.

Sveppir og laukur steikt á pönnu í smjöri og látið malla þar til vökvinn er gufaður upp. Sveppum og lauk síðan bætt út í kjötpottinn þegar um það bil hálftími er eftir af eldunartímanum. Á sama tíma er gott að smakka sósuna og bragðbæta með kryddum ef þarf.
Kjötrétturinn er borinn fram með kartöflumús eða kartöflum og heimatilbúnu hrásalati.
Heimatilbúið hrásalat:
  • 1/4 hvítkálshaus
  • 1/2 dós sýrður rjómi
  • ca 200-300 gr maukaður ananas í dós (án vökvans)
Hvítkálið er fínsaxað í matvinnsluvél. Ananas og sýrðum rjóma bætt við og öllu hrært saman. Þetta hrásalat er líka ægilega gott með heilgrilluðum kjúkling! Þessi mynd er tekin í fallegu umhverfi Patreksfjarðar þar sem við dvöldum í viku síðastliðið sumar.

/>

Grillað nautaribeye með heimagerðri bearnaise sósu og chilikartöflum með papriku


Ég keypti nautaribeye í versluninni Til sjávar og sveita. Þar sem að við voru að fara í bústað í eina viku þá lét ég þá vakúmpakka því kjöti sem ég keypti. Þá geymist það í kæli í allavega viku. Kjötið var í heilum bita en það er mikið betra að skera kjötið sjálfur í sneiðar og ná þannig öllum sneiðunum jafn þykkum. Mikilvægt er að taka kjötið úr kæli nokkru áður en það er grillað þannig að það sé við stofuhita. Ég kryddaði kjötið með pipar, grillaði við frekar háan hita og leyfði því svo að jafna sig dálitla stund og kryddaði það með maldon salti.

Með kjötinu gerði ég bearnaise sósu. Það er í raun ekki flókið að gera heimatilbúna bearnaise sósu. Tvennt er mikilvægt: að hafa smjörið ekki það heitt að ekki sé hægt dýfa fingri ofan í það og að hella smjörinu út í eggjarauðurnar hægt í mjórri bunu og hræra stöðugt í á meðan. Eins má alls ekki hita upp sósuna aftur eftir að eggjarauðum og smjöri hefur verið blandað saman, þá skilur hún sig. Bearnaise sósan er því ekki heit þegar hún er borin fram, bara volg og má jafnvel vera köld. En fyrir þá sem vilja heita sósu er hægt að hita hana upp varlega yfir vatnsbaði. Ég notaði  Bernaise Essence sem er seldur í litlum glösum í flestum verslunum. Það er líka hægt að búa til sitt eigið „essence“ úr meðal annars hvítvínsediki, skarlottulauk, tarragon og kryddi.

Uppskrift f. 4

  • 4 eggjarauður
  • 250 gr. smjör
  • 1 msk.  Bernaise Essence
  • Fáfnisgras (franskt estragon –kryddjurt), söxuð smátt
  • Salt og pipar

Eggjarauðurnar eru þeyttar ásamt Bernaise essence. Sumir þeyta þær yfir heitu vatnsbaði. Smjör brætt, þegar hitastigið er þannig að maður rétt nær að dýfa fingrinum í það er því hellt varlega í mjórri bunu út í eggjarauðurnar og þeytt í stöðugt á meðan (helst að fá einhvern annan til að hella) með písk. Að lokum er estragoni bætt við (í sveitinni átti ég bara steinselju og bjargaði mér með henni, það slapp alveg!). Sósan smökkuð til og krydduð með smá salti og pipar ef þarf.

Með þessu var ég með grillað grænmeti og chilikartöflur með papriku en uppskrift af þeim er hér. Þær eru svolítið sterkar og koma þvi vel út með mildri bearnais sósunni og kjötinu. Þetta var býsna gott þó ég segi sjálf frá! 🙂

08451Sævar vínþjónn mælir með rauðvíninu Marques de Casa Concha Cabernet Sauvignon frá Chile með þessum rétti. Það er dökkrúbínrautt. Eiginleikar: Þétt fylling, ósætt, fersk sýra, þétt tannín. Bragð: sólber, jörð, minta, vanilla, tóbak, eik.

Grilluð sirloin nautasteik með piparsósu


Á afmælisdaginn óskaði eiginmaðurinn sér nautasteikur með piparsósu sem hann auðvitað fékk! Fyrir valinu urðu vænir sirloin bitar úr versluninni ,,Til sjávar og sveita“ í Ögurhvarfi. Kjötið var marinerað í pipar/papriku marerningu og grillað á útigrilli. Meðlætið var: Grillað grænmeti (gulrætur, zuccini, sveppir og paprika) sem var saltað og piprað og aðeins skvett á það ólivuolíu. Að grillun lokinni bætti ég út í kokteiltómötum, rifnum Parmesan osti, ferski basiliku og steinselju.

Ofnsteiktar sætar kartöflur með olivuolíu, ferskri basiliku, steinselju og oreganó ásamt Maldon salti og nýmöluðum pipar.

Piparsósa:

  • 400 ml. nautasoð (helst heimatilbúið, líka hægt að panta það í kjötverslunum en einnig hægt að nota tilbúinn ,,Tasty pipar sósugrunnur“.
  • 1.5 dl. rjómi
  • 1 tsk. koníak
  • 1-2 tsk. piparkorn (ég nota blönduð piparkorn, svört, græn og rósapipar, grófmöluð og heil)
  • 1 msk. rifsberjahlaup
  • 1 tsk. soyasósa

Nautasoð sett í pott ásamt soyasósu og koníaki og piparkornum og suðan látin koma upp, hrært í á meðan. Þessu leyft að sjóða í nokkrar mínútur. Bætið við rjóma, rifsberjahlaupi og leyfið sósunni að malla á lágum hita í dágóðan tíma. Ef sósan er of þykk, bætið við meiri rjóma, ef hún er of þunn, þykkið með sósujafnara. Ferskt salat: salatblöð, spínat, klettasalat, kokteiltómatar, gúrka, mango, avokado  og fetaostur.

Það eru fleiri góðar sósur sem passa vel með nautakjöti. Hér er ég með uppskrift af ljúffengri heimagerðri bearnaise sósu. Svo er hér uppskrift af góðri sveppasósu.

Kjötið var afar meyrt og gott og allir sáttir við afmælismatinn, ekki síst eiginmaðurinn! 🙂 Jóhanna Inga fékk sér forrétt! Hún er á matreiðslunámskeiði þessa vikuna hjá matreiðslukennaranum í Laugarnesskóla. Fyrsta daginn eldaði hún tómatsúpu, bakaði brauðbollur og útbjó ís! Hún var býsna sátt við þetta námskeið! Best fannst henni að þau fengu að gera allt sjálf, brjóta eggin, hræra í heitum pottum, skera niður lauk og svo framvegis. Mín reynsla er að krakkar geta eiginlega gert flest í matargerð mjög snemma. Jóhanna hefur til dæmis bakað sjálf undir leiðsögn frá því að hún var 4-5 ára, brotið eggin, mælt hráefni, hrært og saxað. En allavega, þá fékk hún sér tómatsúpu og brauð í forrétt og allir fengu að smakka, afar ljúffengt hjá henni! 🙂

Varðandi afmælistertuna, ef einhver ætlar að prófa hana þá er hún margfalt betri daginn eftir þegar hún hefur fengið að brjóta sig svolítið ….. það get ég vitnað um (tékkaði sko nokkrum sinnum á því! ;)) Endilega bakið hana því daginn áður en hún er borin fram!