Hægeldaðar kalkúnabringur


IMG_5145

Mér finnst kalkúnamáltíðir rosalega góðar. Stundum hentar að hafa eldunina auðveldari en að elda heila kalkún. Mér finnst þá afar handhægt og ljúffengt að matreiða kalkúnabringur og elda þær þá við vægan hita í lengri tíma, það gerir þær ákaflega meyrar og safaríkar.  Mér hefur fundist best að kaupa bara venjulegar bringur, ófylltar, því þær hafa reynst meyrari að mínu mati. En þessi eldunaraðferð virkar auðvitað líka fyrir fylltar bringur. Ég gef líka upp uppskrift að einfaldri og góðri kalkúnasósu, unnin úr tilbúnum kalkúnasósugrunni.

Meðlætið sem ég tel upp hér með heilsteikta kalkúninum smellpassar líka með kalkúnabringunum.

img_0796

Uppskrift f. ca 4

  • 1 kalkúnabringa (u.þ.b. 900 g)
  • kalkúnakrydd frá Pottagöldrum
  • salt & pipar
  • 100 kryddsmjör með hvítlaukskryddi
  • 2 msk fljótandi kalkúnakraftur + 2 dl vatn
  • 1/2 laukur, skorinn í strimla
  • kjöthitamælir

Bringan tekin úr kæli um það bil hálftíma fyrir eldun. Hún er þá krydduð með kalkúnakryddi, salti og pipar. Ofn hitaður í 100 gráður við undir- og yfirhita. Vatnið soðið og blandað saman við kalkúnakraftinn, hellt í eldfast form ásamt lauknum. Helmingurinn af kryddsmjörinu er hitaður á pönnu og bringan brúnuð við háan hita í stutta stund. Þá er hún lögð í eldfasta formið. Restinni af kryddsmjörinu er dreift yfir bringuna og ofan í formið. Sett inn í ofn við 90 gráður, gott er að ausa yfir bringuna nokkrum sinnum á meðan eldun stendur. Þegar kjarnhiti bringunnar er 68 gráður (tekur ca 70-90 mín fyrir meðalstóra bringu) er hún tekin út og leyft að hvíla í minnst 10 mínútur þar til skorin. Mér finnst gott að hafa kjarnhitann eins lágan og hægt er að komast upp með. Pakka svo bringunum strax þétt í álpappír í 10-15 mínútur áður en þær eru skornar.

Kalkúnasósa

  • 1 bréf kalkúnasósugrunnur
  • 2 dl vatn
  • 3 dl rjómi
  • 3-4 msk rjómaostur
  • 1 tsk dijon sinnep
  • 1 tsk rifsberjahlaup
  • salt og pipar
  • ca. 1 msk fljótandi kalkúnakraftur (meira við þörfum)
  • 20 g smjör
  • soð frá kalkúnabringunum
  • sósujafnari

Sósugrunninum er hellt út í 2 dl vatni og hrært á meðan suðan kemur upp. Þá er rjómanum og rjómaosti bætt út í. Því næst er sinnepi og rifsberjahlaupi bætt út í sósuna og hún krydduð eftir smekk. Fljótandi kalkúnakrafti er bætt út í ásamt soðinu og sósan smökkuð til. Sósan er látin krauma á meðan köldu smjörinu er bætt út í, hrært á meðan. Sósujafnari notaður við þörfum.

IMG_5149

Tillögur að páskamáltíðum


páskaNúna er páskarnir að ganga í garð. Ég held mikið upp á páskana, yndislega birtan komin aftur, vor í loftinu og gott, kvaðalaust frí. Það eina sem maður þarf að gera er að borða góðan mat og mikið súkkulaði, dásemdin ein! 🙂

Hér eru tillögur að góðum aðalréttum fyrir páskana. Svo vill til að þetta er hér um bil allt hægeldað kjöt. Það er nú ekki nein tilviljun því þannig verður kjötið svo afskapalega meyrt og gott. Eins höfum við nægan tíma um páskana til að leyfa matnum að malla hægt. Hér er svo hægt að finna uppskriftir að kartöflum á 10 vegu. Svo er ekki úr vegi að skrolla niður þennan lista og finna þar einhverja góða eftirrétti til að njóta um páskana! Gleðilega páska!

Hægeldaður lambahryggur í jólaöli.

IMG_0954

Hægeldað lambalæri

IMG_7414

Hægelduð nautalund

img_7387

Kalkúnn

IMG_0796

Ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa

þorskur

Hægeldað kálfa ribeye með rauðvínssveppasósu

ofnbakaðar1

Kalkúnavorrúllur og stúdentsveisla


IMG_5795Í gær var stór dagur hjá okkur fjölskyldunni en þá útskrifaðist Óskin okkar úr Versló. Mér finnst stúdentsútskriftir svo dásamlegar. Glæsileg ungmenni sem standa á þröskuldi fullorðinslífsins, menntaskólinn að baki og þau geta tekið hvaða þá stefnu í lífinu sem hugur og hjarta girnist. Ósk er metnaðarfull og dugleg, hún er löngu búin að ákveða að fara í lögfræði næsta haust og hún hlakkar mikið til að takast á við það verkefni. IMG_5762IMG_5736Við vorum með veislu heima í tilefni dagsins. Fyrst sátum við þó langa og skemmtilega athöfn i Háskólabíói. Það er með ólíkindum hversu hæfileikaríkir krakkar eru í Versló. Þarna tróðu upp krakkar úr útskriftarhópnum með glæsilegum söng, óperusöng, spiluðu Rachmaninoff á píanó og ég veit ekki hvað. Dúx skólans var sá hæsti í sögu skólans, fékk 9.8! Það þarf sannarlega ekki að bera kvíðboga fyrir framtíðinni þegar allir þessir flottu krakkar taka við keflinu af okkur „gamla“ fólkinu! 🙂 IMG_5848Við vorum með allskonar smárétti í veislunni. Ég útbjó allt sjálf fyrir utan þrennt, risarækjurnar og sushi frá Osushi og svo keypti ég líka glæsilegar litlar stúdentskökur frá Önnu konditori. Mér finnst svo fallegar stóru stúdentsterturnar hennar. Önnu KonditoriHins vegar vildi ég hafa allt í smáréttaformi. Ég bað því Önnu um að gera litlar kökur með stúdentshúfum sem hún og gerði – þvílíkt flott! 🙂 IMG_5797 IMG_5796Ég gerði að auki tvenns konar sæta bita, litlar Pavlovur og franska súkkulaðikökubita. Það er algjör snilld að búa til franska súkkulaðiköku og bera fram í litlum munnbitasneiðum með smá rjóma og jarðaberi, fullkomnun í einum munnbita! 🙂 Það er lítið mál að tvöfalda þessa uppskrift, setja hana í ofnskúffu og baka í 30 mínútur. Þegar kremið er komið á er gott að setja hana í kæli áður en hún er skorin niður í litla bita. Mér finnst best að setja svo rjómann og jarðaberið á rétt áður en kakan er borin fram, þannig er það ferskast. IMG_5741 Að auki gerði ég litlar Pavlovur sem eru alltaf svo góðar. IMG_5740 Að þessu sinni prófaði ég nokkrar nýjar smáréttauppskriftir sem lukkuðustu vel. IMG_5791IMG_5755 Ég fann uppskrift að skemmtilegum vorrúllum í Gestgjafanum (minnir að hún hafi komið frá Lukku í Happi). IMG_5746Ég breytti aðeins uppskriftinni eftir ábendingu vinkonu minnar sem prófaði þær um daginn. Í uppskriftinni er kjúklingur hakkaður. Hins vegar er tilbúið kalkúnahakk (frosið) í versluninni Víði og það kostar bara 799 krónur kílóið. Ég notaði það og einfaldaði aðeins uppskriftina, hún kom vel út og var mikið auðveldari en ég hélt. Wonton deigið er eins og örþunnt smjördeig sem kemur í litlum ferningum, ca. 50 stykki í pakka (misjafnt þó eftir tegundum), það fæst í Víetnömsku búðinni á Suðurlandsbraut. Deigið kemur frosið og kostar um 800 krónur pakkinn. Það er mjög fljótt að þiðna og auðvelt í notkun. Í þessari uppskrift eru rúllurnar hitaðar í ofni sem kemur vel út en auðvitað er örugglega enn meira djúsí að djúpsteikja þær. Það er lítið mál að útbúa þessar rúllur deginum áður og geyma þær í kæli. Svo er gott að hita þær aðeins upp í ofni áður en þær eru bornar fram. IMG_5790 Uppskrift (ca. 30-40 rúllur)

  • 600 g kalkúnahakk (fæst frosið hjá Víði)
  • 3 msk sesamolía
  • 2 msk bragðlítil olía
  • 6 hvítlauksgeirar, rifnir
  • 4-5 msk ferskt engifer, rifið
  • 250 g sveppir, saxaðir smátt
  • 1 stór blaðlaukur, saxaður smátt
  • ca. 2 meðalstór rauð chili aldin, fræhreinsuð og söxuð mjög smátt
  • 6 msk Hoisin-sósa
  • 10-12 dl fínt skorið kínakál
  • 1 pakki Wonton deig (fæst í Víetnömsku búðinni – Suðurlandsbraut)
  • olía til að pensla rúllurnar með
  • sweet chill sósa til að dýfa vorrúllunum í

Ofn stilltur á 190 gráður við undir- og yfirhita. Sesamolía og olía hituð á pönnu. Hvítlaukur og engifer er steikt í nokkrar mínútur (má ekki brenna). Þá er kalkúnahakkinu bætt út á pönnuna og það steikt. Því næst er sveppunum bætt út í og allt steikt í nokkrar mínútur. Svo er blaðlauk, chili og hoisin-sósu bætt út í látið malla í 1-2 mínútur og pannan því næst tekin af hellunni. Að síðustu er kínakálinu blandað saman við og blandan látin kólna dálítið. Einn Wonton ferningur er tekinn fram og ca. 2 tsk af blöndunni er sett inn í ferninginn, brotið lítið eitt upp á sitt hvorn endann og deiginu rúllað þétt upp. IMG_5666Gott er að hafa vatn í skál hjá sér og bleyta endann á deiginu þegar loka á samskeitunum á rúllunni. Þá er fingrinum dýft ofan í vatnið og brúnirnar bleyttar hæfilega mikið á deiginu. Rúllunum er raðað, með samskeytin niður, á ofnplötu klædda bökunarpappír. Rúllurnar eru penslaðar með olíu og settar inn ofn í um það bil 7-8 mínútur. Þá er þeim snúið við og þær bakaðar áfram í ca. 7-8 mínútur eða þar þær hafa náð fallegum lit og eru stökkar. Rúllurnar eru bornar fram með sweet chili-sósu. IMG_5669IMG_5671IMG_5793

Tíu tillögur af páskamat


páskar1

Núna er páskarnir að bresta á og margir líklega farnir að huga að páskamatnum. Mér finnst páskarnir dásamleg hátíð, laus við kröfur og hefðir. Jólin geta verið svo mislöng, í versta falli bara tveir dagar. Páskarnir eru hins vegar alltaf fimm frábærir frídagar. Það fylgja páskunum engar kvaðir um miklar skreytingar, uppsetningu á útiseríum, jólatrjám og slíku, hvað þá gjafakaup og bakstur. Páskarnir skreyta sig að mestu sjálfir með vorsólinni og Krókusum sem gægjast upp úr moldinni. Glaðlegir páskaungar, heiðgular páskaliljur og túlípanar hér og þar í húsinu ásamt skreyttum páskagreinum að sjálfsögðu … voilà … páskaskreytingarnar eru í höfn! Ekki er verra að þetta er lögboðin „borða mikið súkkulaði“ hátíð, hvernig er ekki hægt að elska slíka hátíð?! 🙂

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Við höfum komið upp tveimur páskahefðum. Önnur er kannski svolítið skrítin en hún er sú að við opnum páskaeggin á föstudeginum langa. Okkur fannst svo leiðinlegt að opna ekki páskaeggin fyrr en á páskadag, næst síðasta frídaginn, í stað þess að geta notið þeirra yfir alla páskana. Við ákváðum því að breyta bara hefðinni! Hin hefðin er sú að ég hef páskamatinn í hádeginu á páskadag. Það er eitthvað svo hátíðlegt að borða páskamatinn í hádeginu með páskamessuna í útvarpinu og hækkandi vorsól á lofti fyrir utan gluggann. Það er engin regla hjá mér hvað ég hef í matinn á páskadag. Undanfarin ár hef ég þó haft kalkún, hann er svo góður og svo er ekki síðra að eiga afgang af honum á annan í páskum. Ég hef líka oft haft ýmisskonar lambakjöt og jafnvel grillað nautakjöt en það er þó sjaldgæfara. Í ár verður stórfjölskyldan í mat hjá foreldrum mínum á laugardeginum og við fáum lambakjöt, ég hallast því að því að hafa kalkún á páskadag. Mér finnst líka ofsalega gott að borða góðan fiskrétt á páskunum til þess að vega upp á móti kjötinu. Ég mun örugglega velja einn ljúffengan fiskrétt af listanum hér að neðan og elda hann á föstudaginn langa.

Hér eru tillögur af gómsætum páskamat (í engri sérstakri röð):

IMG_0796

Kalkúnn með brúnuðum kartöflum, sætkartöflumús, gljáðum gulrótum, waldorfsalati, rósakáli með beikoni og himneskri sósu

 

IMG_7407

Hægeldað lambalæri með kartöflum, rjómasósu, grænmeti og sætum kartöflum

 

Roas beef

Roastbeef með bearnaise sósu, kartöflugratíni og spínatsalati með jarðaberjum

 

IMG_7549

Hægeldaður lambahryggur með rauðvínssósu og hunangsgljáðu grænmeti

 

IMG_2352

Grillað lambafille með Hasselback kartöflum, grilluðu grænmeti og sveppasósu

 

Hamborgarhryggur

Gljáður hamborgarhryggur með kóksósu

 

IMG_2678

Grillað nautaribeye með heimagerðri bearnaise sósu og chilikartöflum með papriku

 

IMG_1941

Grilluð sirloin nautasteik með piparsósu

 

IMG_4237

Límónumarineruð laxaspjót með mangó- og avókadósalsa

 

IMG_8244

Ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu

 

IMG_0755

Ofnbakaður humar með heimatilbúnu hvítlaukssmjöri

Kalkúnaveisla


Um helgina héldum við árlega kalkúnaveislu fyrir kollega Elfars og eiginkonur. Við skiptumst á að halda veisluna og í ár var komið að okkur. Mér finnst kalkúnn afskaplega góður og skemmtilegur að elda. Að auki er meðlætið með kalkúni svo ofsalega gott. Ég hef alltaf kalkún á gamlárskvöld og á páskunum. Ég hef prófað ýmsar eldunaraðferðir og er komin niður á aðferð sem ég er býsna sátt við. Ég hef prófað að leggja kalkúinn í saltpækil í sólarhring, mér fannst það ekki virka sérstaklega vel en er mjög ánægð með þessa aðferð sem ég gef upp hér.

05996Með kalkúninum mælir Sævar Már Sveinsson vínþjónn með hvítvíni frá Chile: Casillero Del Diablo Chardonnay. Concha y Toro er eitt virtasta og stærsta víngerðarfyrirtæki veraldar og hefur undanfarin ár hlotið flest þau verðlaun sem vínfyrirtæki sækjast eftir.

Litur: Skærgulur. Eiginleikar: Meðalfylling, ósætt, fersk sýra. Bragð: Ananas, sítrus, vanilla.

Kalkúnn:

  • 1 kalkúnn
  • 1 askja kryddsmjör
  • 500 gr smjör (til að smyrja kalkúninn með og til þess að ausa yfir hann á meðan hann er í ofninum)
  • Kalkúnakrydd frá Pottagöldrum

Kalkúninn er látinn þiðna í ísskáp í 2- 4 sólarhringa, fer eftir stærð. Ef þú lest þetta núna, horfir á gaddfreðna kalkúninn þinn sem þú ætlaðir að elda á morgun og færð smá panikk, þá er þetta allt í lagi! 🙂 Það er hægt að setja kalkúninn í stóra fötu (eða ílát sem rýmir kalkúninn vel) fylla hana með ísköldu vatni, láta það fljóta vel yfir kalkúninn og passa að vatnið sé alltaf kalt. Þannig þiðnar til dæmis 7 kílóa kalkúnn á um það bil 8-10 tímum.

Því næst er kalkúnninn skolaður vel og þerraður bæði að utan og innan. Þá er hann smurður vel með bræddu smjöri. Þá eru gerðar raufar í bringurnar með hníf  og þær fylltar með kryddsmjöri.  Ég sting sem sagt beittum hníf í bringurnar, ca. 5 holur í hvora bringu. Ég hef þær ekkert mjög djúpar, kannski ca. 3-4 cm, ekki alveg niður að beini. Í raun bara nógu djúpar til að koma ca. 1-2 teskeiðum af kryddsmjöri í holuna. Þar sem hnífurinn breikkar frá hnífsoddinum þá víkkar líka holan þegar ofar dregur og þar með kemst töluvert mikið af smjöri í holuna þó hún sér ekkert svo djúp. Svo er kalkúnninn kryddaður vel með kalkúnakryddi og því nuddað vel inn í allan kalkúninn. Ég notaði allt kryddglasið. Fyllingin sett inn í fuglinn, ég set alltaf smá fyllingu líka undir skinnið á hálsinum.

Stundum sleppi ég því að setja fyllinguna inn í fuglinn, í raun breytir hún engu fyrir sjálft kjötið en hún eykur eldunartímann. Þá set ég bara fyllinguna í eldfast mót og elda hana sér en fylli fuglinn af appelsínu- og sítrónubátum (gefa frá sér raka sem mýkir kjötið og gott bragð) og elda hann þannig – athugið samt að þannig verður eldunartíminn styttri (ég hendi appelsínu- og sítrónubátunum eftir eldun).

Nú er kalkúnninn lagður á ofngrind og ofnskúffa sett undir. Byrjað á því að steikja hann við 200 gráður í 15 mínútur. Þá er viskustykki dýft í brætt smjör, það breitt yfir kalkúninn og hitinn lækkaður í 120 gráður. Á meðan á eldunartíma stendur er bræddu smjöri ausið reglulega yfir kalkúninn (viskustykkið), þegar líður á eldunartímann er soðinu ausið yfir kalkúninn. Þegar 15 mínútur eru eftir af tímanum er viskustykkið tekið af og hitinn hækkaður í 200 gráður. Ég var með hitamæli í kalkúninum og tók hann út þegar hitinn var kominn í ca. 70-72 gráður (ég reyni að láta eldunina stoppa við 72 gráður en yfirleitt hækkar hitinn um 1-2 gráður eftir að fuglinn er tekinn úr ofninum). Þá er hann vafinn inn í álpappír og leyft að jafna sig í hálftíma. Eldunartíminn fer eftir stærð fuglsins, hvort hann er með fyllingu eða ekki og hver ofnhitinn er. Kalkúnninn var í 5 tíma í ofninum hjá mér en hann var 7 kíló og með fyllingu (hún eykur eldunartímann). Það gerir ca. 40 mínútur per kíló. Kalkúnninn varð ofsalega meyr og safaríkur við þessa eldunaraðferð. Ég mæli eindregið með því að nota kjöthitamæli, annars er erfitt að vita hvenær kalkúnninn er tilbúinn þar sem það fer eftir stærði fuglsins, bakarofninum, fyllingunni og fleira. Þessi kjöthitamælir sem ég nota á myndinni er hræódýr og virkar vel. Best er að stinga honum djúpt milli bringu og læris, þar eldast fuglinn seinast.

Kalkúnafylling:

Ég hef gert hefðbundnar fyllingar hingað til, með beikoni, brauði og fleira en hef ekki verið nógu hrifin af þeim. Mér hefur fundist fyllingin verða of mikið í anda við heitan brauðrétt. En núna prófaði ég hins vegar nýja fyllingu sem mér fannst frábærlega góð og fersk. Í henni eru meðal annars sætar og safaríkar perur, Dímon ostur og þurrkuð epli. Það er sniðugt að nota þurrkuð epli því þá verður fyllingin ekki of blaut.

  • 3 perur, skornar í litla bita
  • 1/2 poki þurrkuð epli, skorin í bita
  • 1 Dímon ostur, skorin í litla bita
  • 1 poki brauðteningar
  • 1 laukur, saxaður smátt
  • 1 engiferbútur, saxaður smátt
  • 4 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • kryddjurtir, t.d. kóríander, salvía og timjan, saxað gróft

Öllu blandað saman, gott að gera fyllinguna kvöldið áður. Fyllingin sett inn í fuglinn og líka inn í hálsinn. Ef það er afgangsfylling er hægt að setja hana í eldfast mót og baka sér.

Kalkúnasósa:

Sósan með kalkúninum er afar mikilvæg og ég legg mikið upp úr henni. Ég byrja á henni upp úr hádegi og læt soðið malla allan daginn til að fá kraftmikla og bragðgóða sósu. Þessi uppskrift er mjög stór, miðuð við allavega 15 manns.

  • 1 kíló gulrætur, skornar í bita
  • 2 laukar, skorinn í bita
  • 1 búnt sellerí, skorið í bita
  • 10 hvítlauksrif, söxuð gróft
  • ca 200 ml tilbúinn fljótandi kalkúnakraftur
  • kalkúnahálsinn (innan úr kalkúninum)
  • 4 lítrar vatn
  • 5 dl rjómi
  • sósujafnari
  • smjör til steikingar

Gulrætur, laukur, sellerí, hvítlaukur steikt á pönnu upp úr vænum skammti af smjöri þar til  grænmetið er mjúkt, þá er hálsinn af kalkúninum brúnaður að utan með grænmetinu. Allt fært yfir í stóran pott. Vatninu bætt út í ásamt stórum hluta af kalkúnakraftinum og soðið af miklum krafti (ég hafði stillt á 5 af 9) undir loki í 4-5 tíma. Ef að lokið er mjög óþétt og soðið sýður niður of hratt er gott að fylgjast með og bæta dálitlu vatni út í við þörfum. Það er ágætt viðmið að það verði eftir um það bil 2 lítrar eftir af soði í lokin þegar búið er að sigta grænmetið frá. Undir lokinn bæti ég út pottinn hluta af soðinu sem safnast hefur í ofnskúffunni undir kalkúninum, magnið þarf að meta dálítið eftir því hver mikið af soði er í skúffunni.

Á meðan kalkúnninn bíður og jafnar sig er sósan kláruð. Soðið sigtað til að fá hreint soð með því að sigta allt grænmetið frá. Hreina soðið sett aftur í pottinn og hann látin standa á kaldri hellu í smá stund. Þá flýtur öll fitan á yfirborðið, hún veidd af og lögð til hliðar. Hluti af henni er notuð til að búa til smjörbollu sem síðan þykkir sósuna. Smjöbollan er gerð með því að hveiti og fitan er pískað saman í potti og þetta er hitað. Rjómanum bætt út soðið og sósan krydduð eftir smekk með salti og pipar. Restinni af kalkúnakraftinum bætt út í. Suðan látin koma upp og smjörbollunni hrært út í til að þykkja sósuna. Ég bætti líka við sósujafnara. Sósan látin malla þar til að kalkúninn er borinn á borð. Mikilvægt að smakka hana til með kryddum.

Meðlæti með kalkúninum (miðað við ca. 12-15 manns)

Sætkartöflumús

  • ca. 1.6 kíló sætar kartöflur (4 stykki)
  • 300 gr rjómaostur
  • salt og pipar
  • pekanhnetur

Sætar kartöflur soðnar, afhýddar og stappaðar saman með rjómaosti og kryddi. Karöflumúsin sett i eldfast mót, pekanhnetum stráð yfir og hitað í ofni við 180 gráður í ca. 15 mínútur. Það er lítið af pekanhnetur á myndinni en það var nú bara af því að ég átti svo lítið af þeim, fann ekki pokann sem ég keypti! Mér finnst betra að nota meira.

Rósakál með beikoni

  • 2 pokar frosið rósakál eða 500 gr ferskt
  • 1 beikonbréf
  • salt og pipar
  • 2 dl hvítvín
  • smjör til steikingar
  • möndluflögur ef vill

Rósakál soðið eftir leiðbeiningum ef það er frosið. Ef það er ferskt þá eru endarnir fyrst skornir af rósakálinu og ystu blöðin tekin af, hver haus skorinn í tvennt, soðið í 2-3 mínútur í söltu vatni. Smjör sett á pönnu, beikon skorið í litla bita og steikt á pönnunni. Rósakáli bætt út í steikt í smá stund, saltað og piprað. Hvítvíni hellt út á pönnuna og látið malla þar til það hefur soðið niður. Hægt að strá möndluflögum yfir rósakálið áður en það er borið fram.

Gláðar gulrætur

  • 1 kíló gulrætur, flysjaðar sneiddar langsum
  • 1 dl. púðursykur
  • 1 msk. karrí
  • smjör til steikingar
  • salt og pipar

Gulrætur snöggsoðnar, vatni hellt af og þær geymdar í potti. Smjör hitað á pönnu, karrí stráð út á, því næst púðursykri. Þegar púðursykurinn er bráðnaður er gulrótunum bætt út, kryddað með salti og pipar og þeim leyft að malla í blöndunni í smá stund.

Öðruvísi Waldorf salat

  • 3-4 græn epli, flysjuð og skorin í litla bita
  • góður klasi af grænum, steinlausum grænum vínberjum, skorin í tvennt
  • 1 stór dós ananas, skorinn í litla bita
  • 2 dósir sýrður rjómi
  • þeyttur rjómi
  • valhnetur til skreytinga, má sleppa

Öllu blandað saman saman.

IMG_6816

Brúnaðar kartöflur

  • 70 gr smjör
  • 200 gr sykur
  • 0,75 dl rjómi
  • 2 kíló kartöflur

Kartöflur soðnar og afhýddar. Smjör og sykur hitað á pönnu þar til blandan hefur bráðnað og dökknað þá er kartöflunum bætt út í. Rjómanum bætt við og kartöflunum vellt upp úr bráðinni á fremur háum hita þar til þær eru allar sykurhúðaðar jafnt.

Trönuberjasulta

  • 1 poki fersk trönuber
  • 2 dl appelsínusafi
  • 2 dl sykur

Allt sett í pott og soðið niður í ca. 20 mínútur á meðalhita. Hellt í skál og kælt.

Borið fram með ljúffengu hvítvíni frá Chile: Casillero Del Diablo Chardonnay.