Geggjuð mexíkósk ídýfa


IMG_5392

Já, ég ætla hreinlega að kalla þessa uppskift ”geggjuð mexíkósk ídýfa” því það lýsir henni langbest! Þegar ég var að undirbúa útskriftarveisluna hennar Óskar þá bauðst Anna Sif vinkona til að gera mexíkóska ídýfu sem hún hafði fengið uppskrift að hjá vinkonu sinni. Ég þáði boðið og skemmst er að segja frá því að þetta var eiginlega sá réttur sem hlaut mestu athyglina á hlaðborðinu. Þessi ídýfa er nefnilega svo geggjað góð að það hálfa væri nóg!! Það báðu eiginlega allir um uppskriftina og ég hef verið á leiðinni að setja hana hingað inn í allt sumar. Í gærkvöldi fór Anna vinkona með þessa ídýfu í boð og hún sendi mér skilaboð í dag um að ég yrði að drífa þessa uppskrift inn á alnetið því það voru allir að missa sig yfir ídýfunni og vantaði aðgang að uppskriftinni. Ég bar ídýfuna fram í Tostitos skálum (fást yfirleitt í Hagkaup) en það er líka rosalega gott að bera hana fram með Kirkland Tortilla chips sem fást í Costco.

Hérna kemur uppskriftin og ég segi það og skrifa, þið verðið elskuð af öllum þeim sem fá að smakka þessa sjúklega góðu ídýfu hjá ykkur! 🙂

IMG_5378

 Uppskrift:

Fyrir meðalstórt eldfast mót

  • 200 g rjómaostur
  • 1-2 dósir (fer eftir stærð mótsins) maukaðar pintóbaunir (refried beans) frá t.d. Old el paso eða Santa Maria
  • 1 krukka jalapeno (ca. 100 g án vökva), minna fyrir mildari ídýfu, saxað smátt
  • 1 dós 18% sýrður rjómi
  • 1/2 bréf af taco kryddblöndu
  • 1 meðalstór rauðlaukur, skorinn smátt
  • ca 300 g rifinn ostur
  • 2 krukkur (fer eftir stærð mótsins) taco sósa
  • ca 200 g (án vökva) svartar olífur , skornar í sneiðar
  • ca. 30 g ferskt kóríander, blöðin söxuð

Rjómaosti er smurt á botn eldfasta mótsins. Þá er niðursoðnu bauninum dreift jafnt yfir rjómaostinn. Jalapeno er saxað smátt og dreift yfir baunirnar. Þá er sýrðum rjóma blandað saman við hálft bréf af taco kryddi og blöndunni dreift yfir jalapenos. Því næst er smátt söxuðum rauðlauk dreift yfir sýrða rjómablönduna. Síðan er rifna ostinum dreift yfir rauðlaukinn. Þá er rifni osturinn þakinn með taco sósu. Því næst er söxuðum svörtum ólífum dreift yfir taco sósuna og loks er söxuðum kóríander blöðum dreift yfir ólífurnar.

Borið fram í t.d. Tostitos skálum (fást yfirleitt í Hagkaup) eða með Kirkland Tortilla chips sem fást í Costco.

IMG_5393IMG_5391

 

Skyr parfait og útskriftarveisla


IMG_5350IMG_5365

Í júnímánuði héldum við útskriftarveislu fyrir Óskina okkar sem var að útskrifast úr lögfræði með frábærum árangri. Við héldum veislu fyrir ættingja og vini kl. 17 en síðar um kvöldið var Ósk með partý fyrir vini sína.

19727265_10154738954713017_153126284_o

Ég bjó til hina ýmsa smárétti og keypti nokkra tilbúna. Mér finnst stóru rækjurnar úr Costco reglulega góðar (sjá umfjöllun hér) og bauð upp á þær með nokkrum tegundum af sósum, sojasósu, chili-majósósu og súrsætri sósu. Ég bjó líka til kjúklingaspjót og notaði þessa uppskrift. Þar sem nokkuð margir gestanna borða ekki kjöt keypti ég litlar grænmetis-vorrúllur úr Costco sem ég bar fram með súrsætri sósu ásamt Falafel bollum sem ég bar fram með tzasiki sósu. Einnig var ég með kotasælusalsað, sem við fáum bara ekki nóg af, og ég bý til hér um bil fyrir allar veislur. Það falla allir fyrir þessu einfalda, holla og bragðgóða salsa. Mér finnst ómissandi að bera það fram í Tostitos skálunum (fást oftast í Hagkaup). Anna vinkona bjó líka til rosalega góða mexíkóska ídýfu sem allir voru vitlausir í og ég held að hér um bil allir gestir hafi beðið um uppskriftina, ég mun setja hana hingað inn mjög fljótlega. Ég hægeldaði jafnframt nautalund, skar hana mjög þunnt, lagði hana á disk með smá klettasalati og gestir gátu svo dýft kjötsneiðunum í bernaisesósu. Það var mjög vinsælt og auðveldur réttur að útbúa á svona hlaðborð. Ég gerði einnig bruchetturnar góðu sem ég er með uppskrift að hér. Ég var svo heppin að stóri góði Brie osturinn var til í Costco og hann rataði því líka á veisluborðið ásamt kexi, sultu og berjum.

IMG_5355

IMG_5382

IMG_5387

Við buðum upp á rauðvín og hvítvín. Fyrir svona veislur finnst mér mjög sniðugt að bjóða upp á vínið í kössum. Gæði kassavína eru orðin ákaflega góð og þau eru einkar handhæg í stórum veislum. Það fer dálítið eftir eðli veislna hversu miklu víni þarf að reikna með, en í hverjum kassa eru um það bil 24 glös (fer dálítið eftir stærð glasanna). Við buðum líka upp á bjór og mér finnst skemmtilegt og einhvern veginn aðeins meira „fancy“ að bjóða upp á bjórinn í flöskum. Í fyrra þegar Alexander útskrifaðist úr læknisfræði fékk hann klaka úr fiskvinnslu til þess að fylla heita pottinn með og bauð þannig upp á ískaldan bjór alla veisluna.

IMG_3647_4

Að þessu sinni notuðum við bala með klökum og þannig helst bjórinn kaldur alla veisluna. Það er gott ráð að binda upptakarann í spotta við balann svo hann fari ekki á flakk. Eins er sniðugt að hafa smá þurrku við balann til þess að geta strokið mögulega bleytu af  bjórnum. Ég keypti þennan skemmtilega vatnsdunk úr gleri í Costco. Það er gaman og ferskt að setja í hann ískalt vatn, klaka og límónur. Ég tók eftir því að það fór mun minna af gosi fyrir vikið.

IMG_5345IMG_5348

Auður tengdadóttir okkar útskrifaðist með stæl úr sálfræði í júní og þá útbjó hún svona skyr parfait eftirrétti fyrir sína veislu sem ég var svo hrifin af. Ég ákvað því að búa líka til þannig eftirrétt fyrir Óskar veislu. Á eftirrétta borðinu var ég jafnframt með rosalega flottan bakka með kranskakökum sem faðir Auðar útbjó en hann er bakari. Að auki var ég með makkarónukökur og ísfylltar vatnsdeigsbollur.

IMG_5374IMG_5367

Skyr parfait (þó svo að þetta sé ekki beint ”parfait“ samkvæmt tæknilegum skilgreiningum) er mjög skemmtilegur réttur að bjóða fram á smáréttaborði en það er vissulega líka hægt að setja hann í stórt form og bera hann fram þannig við önnur tækifæri. Ekki skemmir fyrir að þetta er réttur sem er besta að búa til daginn áður en hann er borinn fram. Ég skreytti glösin með bláberjum annars vegar og ástaraldin hins vegar, en það er hægt að nota ýmiss önnur ber. Uppskriftin hér að neðan dugar í meðalstórt eldfast mót eða um það bil 50 lítil einnota staupglös (5 cl). Skeiðarnar eru úr Söstrene grene.

IMG_5352

Uppskrift:

  • 1 stór dós vanilluskyr (500 ml)
  • 1/2 l rjómi
  • 1 vanillustöng
  • 260 g Lu kanilkex
  • 200 g frosin hindber
  • 1 msk sykur
  • Bláber (eða önnur ber) og/eða ástaraldin til skreytinga
  • 50 stk 5 cl einnota staup og skeiðar

Vanillustöngin er klofin og vanillufræin skafin úr. Rjóminn er þeyttur og þegar hann er hér um bil fullþeyttur er skyrinu, ásamt vanillufræjunum, bætt út og þeytt í smá stund til viðbótar eða þar til skyrið hefur blandast vel við rjómann. Lu kexið er mulið fínt í matvinnsluvél. Hindberin látin þiðna og síðan hituð potti, sykri blandað vel saman við. Blandan látin kólna. Því næst er skyrblöndunni komið fyrir í sprautupoka. Dálítil kexmylsna er sett með teskeið í botninn á hverju glasi. Því næst er skyrblöndu sprautað í glasið, um það bil til hálfs. Næst er sett dálitið hindberjamauk ofan í glasið, þá kexmylsna, aftur skyrblanda og loks er skreytt með smá kexmylsnu og bláberi eða ástaraldin. Best er að geyma glösin í kæli yfir nóttu og bera fram daginn eftir.

IMG_5323IMG_5326IMG_5328IMG_5332

 

Ítölsk brauðterta


IMG_0083

Það er vel við hæfi að setja inn uppskrift að ítalskri brauðtertu eftir dásamlega Ítalíuferð fjölskyldunnar. Vissulega eru Ítalir ekkert sérstaklega mikið að búa til brauðtertur held ég en hráefnin í þessari brauðtertu eru samt innblásinn af Ítalíu. Það var afar skemmtilegt að elda í Toskana og nýta góðu hráefnin sem héraðið hafði upp á að bjóða, grænmetið, ávextina, kryddjurtirnar og svo ekki sé talað um ferska pastað þeirra sem á nákvæmlega ekkert skylt við þurrkaða pastað sem við þekkjum hér heima. Uppistaðan í fæðunni okkar á meðan Ítalíudvölinni stóð var parmaskinka, melónur, mozzarella, tómatar, basilika, ólífuolía, brauð, pasta og parmesanostur – ásamt rauðvíni auðvitað, ekki slæmt það! 🙂

11407268_10152976388282993_39985861688175300_n

Það er alveg magnað hvað hægt er að gera góða matrétti úr einföldum hráefnum svo fremi sem þau eru fersk og góð. Úr þessum hráefnum varð til einstaklega góður pastaréttur.

villa-in-poppi-tuscany-2

Mér leiddist ekkert í eldhúsinu með ferskt grænmeti af markaðnum! 😉

11391789_10152976389402993_8725255834746546953_n

Húsráðendur okkar voru frábærir og einn daginn fengum við til dæmis þessar heimalöguðu sultur frá þeim, það kallaði auðvitað á osta, kex og vín. Við höfum varla drukkið annað en Chianti vín í sumar, en þau eru frá Toskana. Í húsinu sem við leigðum var vínkjallari með miklu úrvali af Chianti vínum á afar góðu verði. Það var sama hvaða tegund við völdum, hver einasta flaska var eðalgóð!

11377390_10152972110087993_9213144157852679933_n

Útsýnið frá húsinu okkar var eiginlega óraunverulegt, svo magnað var það.

villa-in-poppi-tuscany

Þetta var uppáhaldsstaðurinn hans Elfars, enda var útsýnið þaðan ekki slæmt!

10476459_10152972108392993_8441051171073755090_n

Þessi mynd er tekin frá hengirólunni, hér sést yfir gamla bæinn Poppi og Poppi kastalann.

villa-in-poppi-tuscany-1

Sundlaugin okkar var frábær og miðdegissnarlið ekki síðra! 🙂

11350499_10152972109132993_8804694172672177064_n

Ég mæli heilshugar með húsinu Podere la Casina í Toskana, hér eru bókunarupplýsingar. En ef ég vík aftur að uppskriftinni sem mig langaði að halda til haga hér á síðunni. Mér finnst alltaf gott að geta gripið til allskonar brauðrétta fyrir veislur og þessi brauðterta er alveg tilvalin á veisluborðið, hún er fljótleg og afar bragðgóð.

IMG_0082 Uppskrift:

  • Brauðtertubrauð skorið á lengdina (fæst frosið, notið 5 lengjur af 7)

Fylling 1:

  • 30 g basilika, blöðin söxuð smátt (nokkur blöð geymd fyrir skreytingu)
  • ca. 8 st. sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
  • 250 g Mascarpone ostur
  • ca 1/2 dós (90g) 10% eða 18% sýrður rjómi
  • salt & pipar
  • hnífsoddur af cayenne pipar

Fylling 2:

  • 1 Stóri Dímon ostur (250 g), maukaður
  • 1 dós 10% eða 18% sýrður rjómi (180g)
  • salt & pipar

Ofan á brauðið

  • 1 dós sýrður rjómi 36%
  • ca 8 sneiðar parmaskinka
  • ca 8 sneiðar góð ítölsk pylsa
  • 12 – 14 kirsuberjatómatar
  • ca 15-20 svartar ólífur
  • nokkur basiliku blöð
  • einnig fallegt að skreyta brauðtertuna með t.d. klettasalati, ferskum timjankvistum og/eða mismunandi tegundum af baunaspírum
  • 11749739_10153054364637993_931005220_n

Brauðtertubrauðið sem kemur frosið er losað í sundur og látið þiðna. Á meðan er hráefnunum blandað saman fyrir fyllingarnar tvær og þær smakkaðar til með kryddi. Hvorri fyllingu fyrir sig smurt á tvær brauðlengjur og þær lagðar saman sitt á hvað, fimmta brauðlengjan er því næst lögð efst. Þá er brauðtertan smurð á alla kanta með 36% sýrðum rjóma. Að lokum er brauðtertan skreytt með parmaskinku, ítalskri pylsu, ólífum, kirsuberjatómötum, basilku og t.d. klettasalati, baunaspírum eða timjankvistum.

IMG_0079 IMG_0090

Fylltir sveppir


Fylltir sveppirÉg held að fáar þjóðir séu jafn þakklátar fyrir smá sólarglætu og við Íslendingar. Þegar ég bjó í Svíþjóð hneykslaðist ég oft á vanþakklæti Svía þegar kom að veðrinu. Sumrin í Svíþjóð eru dásamleg, bæði löng og hlý. Samt eru Stokkhólmsbúar stöðugt að kvarta yfir því að sumrin þeirra séu stutt, köld og blaut og þeir grínast jafnvel með að það ætti eiginlega ekki að vera byggjanlegt í svona köldu landi. Meðalhitinn í júlí í Stokkhólmi er þó nálægt 22 stiga hita! Þegar talað er um sumarveðrið í Stokkhólmi þá draga Stokkhólmsbúar gjarnan fram þá fáu daga þegar veðrið var ekki gott. Hér á Íslandi bregst það ekki, sama hversu slæmt sumarið hefur verið, alltaf má heyra okkur Íslendingana segja: „Við fengum nú rosalega góða tvo daga þarna snemma í sumar!“ eða eitthvað álíka. Ég ætla nú rétt að vona að þessir tveir dásamlegu sólardagar um helgina verði ekki þessir „tveir góðu dagar“ sem við þurfum að vitna í eftir sumarið! Reyndar munum við fjölskyldan fá okkar skerf af sól og líklega gott betur þar sem að við gerum húsaskipti í heilan mánuð í sumar og dveljum þá í Michigan í Bandaríkjunum en meðalhiti þar í júlí er hvorki meira né minna en 29 gráður.

IMG_5747

Ég átti alltaf eftir að setja inn fleiri uppskriftir frá útskriftarveislunni hennar Óskar. Ég bauð þá upp á meðal annars fyllta sveppi sem voru afar ljúffengir. Þeir eru líka mjög hentugir á smáréttahlaðborð. Ég útbjó þá kvöldið áður og setti beint á ofnplötu með plastfilmu yfir og geymdi í ísskáp. Ég hitaði sveppina svo rétt áður en veislan hófst þannig að þeir voru enn volgir en það er vel hægt að bera þá fram kalda.

Uppskrift (ca. 16 sveppir):

  • 500 g sveppir (gott að velja meðalstóra sveppi, alla svipað stóra)
  • 1.5 msk olía
  • 4 -5  hvítlauksrif, saxaður mjög fínt eða pressaður
  • 1 blaðlaukur, hvíti hlutinn saxaður mjög smátt
  • Ítölsk hvítlauksblanda frá pottagöldrum (eða annað gott hvítlaukskrydd)
  • 1/4-1/2 tsk cayenne pipar
  • salt og grófmalaður svartur pipar
  • 1 box (200 g) Philadelphia rjómaostur með hvítlauki og kryddjurtum, látið ná stofuhita
  • ca. 50 g rifinn Parmesan ostur

IMG_5672

Ofn hitaður í 175 gráður og ofnplata klædd bökunarpappír. Sveppir hreinsaðir varlega með eldhúspappír og stönglarnir losaðir úr sveppunum. Sveppastönglarnir eru því næst saxaðir mjög smátt og þeir steiktir á pönnu ásamt hvítlauknum og blaðlauknum upp úr olíunni (þess skal gæta að laukurinn brenni ekki). Þegar sveppirnir hafa tekið lit er pannan er tekin af hellunni og látið kólna dálítið. Þá er rjómaosti, helmingnum af parmesan ostinum og kryddum bætt út í og blandað vel saman, smakkað til og kryddað meira eftir smekk. Sveppahöttunum er raðað á ofnplötuna. Hver sveppur er því næst fylltur vel að sveppa/ostablöndunni. Að lokum er afgangnum af rifna parmesan ostinum dreift yfir sveppina. Bakað í ofni við 175 gráður í um það bil 20 mínútur eða þar til sveppirnir byrja að mynda vökva og osturinn hefur brúnast.

IMG_5674IMG_5745

Snittur með lambafille og sætkartöflumús


Snittur með sætkartöflumús og lambafilleUm síðustu helgi skrifaði ég um útskriftarveislu Óskar. Í veislunni prófaði ég nokkra nýja smárétti og þessi uppskrift af ljúffengum snittum með lambakjöti og sætkartöflumús var einn af þeim. Uppskriftin var í sama Gestgjafa blaði og uppskriftin af vorrúllunum og kemur frá Happi. Ég prófaði líka að setja grillaða kjúklingabringu á snittuna og það var ákaflega gott, það er því auðvelt að skipta út lambakjötinu fyrir kjúkling ef maður kýs það heldur. Ég breytti upphaflegu uppskriftinni dálítið og skrifa hana hér inn breytta.

IMG_5856

Uppskrift, ca. 20 snittur

  • 200 g lambafille
  • 2 msk olía
  • 1 tsk cummin
  • chill explosion krydd
  • maldon salt
  • gófmalaður svartur pipar

Olía, cummin og chili-krydd hrært saman og lambakjötinu velt upp úr blöndunni. Kjötið grillað í nokkrar mínútur á útigrilli þar til það er steikt eftir smekk (mér finns best að hafa það vel rautt í miðjunni). Í lok eldunartímans er kryddað með salti og pipar. Kjötið er látið jafna sig eftir grillun í minnst 10 mínútur og því næst skorið í mjög þunnar sneiðar.

Sætkartöflumús:

  • 1 meðalstór sæt kartafla, skorin í fremur litla bita
  • 3 msk philadelphia rjómaostur
  • chili explosion krydd
  • ca. 1/2-1 tsk rósmarín
  • salt & pipar

Sæta kartaflan eru afhýdd og skorin í bita. Bitarnir eru því næst soðnir í 10-15 mínútur eða þar til kartöflurnar eru soðnar í gegn. Þá eru þær stappaðar saman við rjómaost og krydd í potti við lágan hita.

Hindberjasósa:

  • 2 dl frosin hindber
  • agave síróp, eftir smekk
  • maldon salt, eftir smekk

Hindberin afþýdd og sett í blandara, smakkað til með agave sírópi og örlítið af salti. Ef með þarf er hægt að þynna með vatni.

Brauð:

  • 1 snittubrauð (eitt snittubrauð gefur ca. 20 snittur, stærðin fer þó svolítið eftir því hvar brauðið er keypt.)
  • ólífuolía

Skraut og samsetning:

  • ristaðar furuhnetur
  • ferskt spínat, saxað gróft
  • fersk bláber

IMG_5665

Bakarofn stilltur á 220 gráður, undir- og yfirhita. Brauðin eru sneidd í mátulega þykkar sneiðar, dálítið á ská þannig að sneiðarnar verði stærri. Sneiðunum er raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír og hver og ein sneið pensluð með ólífuolíu. Brauðin bökuð við 220 gráður í nokkrar mínútur þar til þau eru orðin passlega gullinbrún. Þá eru þau tekin út og leyft að kólna.

Þegar brauðin eru orðin köld er sett vel af sætkartöflumús á hverja sneið. Því næst er grófsaxað spínat sett ofan á karöflumúsina, þá lambakjötssneið og að lokum er hindberjasósunni dreypt yfir. Skreytt með ristuðum furuhnetum og ferskum bláberjum. Athugið að hægt er að setja saman snittuna með smá fyrirvara en best er að setja hindberjasósuna á rétt áður en snitturnar eru bornar fram. IMG_5853 IMG_5857

 

 

Kalkúnavorrúllur og stúdentsveisla


IMG_5795Í gær var stór dagur hjá okkur fjölskyldunni en þá útskrifaðist Óskin okkar úr Versló. Mér finnst stúdentsútskriftir svo dásamlegar. Glæsileg ungmenni sem standa á þröskuldi fullorðinslífsins, menntaskólinn að baki og þau geta tekið hvaða þá stefnu í lífinu sem hugur og hjarta girnist. Ósk er metnaðarfull og dugleg, hún er löngu búin að ákveða að fara í lögfræði næsta haust og hún hlakkar mikið til að takast á við það verkefni. IMG_5762IMG_5736Við vorum með veislu heima í tilefni dagsins. Fyrst sátum við þó langa og skemmtilega athöfn i Háskólabíói. Það er með ólíkindum hversu hæfileikaríkir krakkar eru í Versló. Þarna tróðu upp krakkar úr útskriftarhópnum með glæsilegum söng, óperusöng, spiluðu Rachmaninoff á píanó og ég veit ekki hvað. Dúx skólans var sá hæsti í sögu skólans, fékk 9.8! Það þarf sannarlega ekki að bera kvíðboga fyrir framtíðinni þegar allir þessir flottu krakkar taka við keflinu af okkur „gamla“ fólkinu! 🙂 IMG_5848Við vorum með allskonar smárétti í veislunni. Ég útbjó allt sjálf fyrir utan þrennt, risarækjurnar og sushi frá Osushi og svo keypti ég líka glæsilegar litlar stúdentskökur frá Önnu konditori. Mér finnst svo fallegar stóru stúdentsterturnar hennar. Önnu KonditoriHins vegar vildi ég hafa allt í smáréttaformi. Ég bað því Önnu um að gera litlar kökur með stúdentshúfum sem hún og gerði – þvílíkt flott! 🙂 IMG_5797 IMG_5796Ég gerði að auki tvenns konar sæta bita, litlar Pavlovur og franska súkkulaðikökubita. Það er algjör snilld að búa til franska súkkulaðiköku og bera fram í litlum munnbitasneiðum með smá rjóma og jarðaberi, fullkomnun í einum munnbita! 🙂 Það er lítið mál að tvöfalda þessa uppskrift, setja hana í ofnskúffu og baka í 30 mínútur. Þegar kremið er komið á er gott að setja hana í kæli áður en hún er skorin niður í litla bita. Mér finnst best að setja svo rjómann og jarðaberið á rétt áður en kakan er borin fram, þannig er það ferskast. IMG_5741 Að auki gerði ég litlar Pavlovur sem eru alltaf svo góðar. IMG_5740 Að þessu sinni prófaði ég nokkrar nýjar smáréttauppskriftir sem lukkuðustu vel. IMG_5791IMG_5755 Ég fann uppskrift að skemmtilegum vorrúllum í Gestgjafanum (minnir að hún hafi komið frá Lukku í Happi). IMG_5746Ég breytti aðeins uppskriftinni eftir ábendingu vinkonu minnar sem prófaði þær um daginn. Í uppskriftinni er kjúklingur hakkaður. Hins vegar er tilbúið kalkúnahakk (frosið) í versluninni Víði og það kostar bara 799 krónur kílóið. Ég notaði það og einfaldaði aðeins uppskriftina, hún kom vel út og var mikið auðveldari en ég hélt. Wonton deigið er eins og örþunnt smjördeig sem kemur í litlum ferningum, ca. 50 stykki í pakka (misjafnt þó eftir tegundum), það fæst í Víetnömsku búðinni á Suðurlandsbraut. Deigið kemur frosið og kostar um 800 krónur pakkinn. Það er mjög fljótt að þiðna og auðvelt í notkun. Í þessari uppskrift eru rúllurnar hitaðar í ofni sem kemur vel út en auðvitað er örugglega enn meira djúsí að djúpsteikja þær. Það er lítið mál að útbúa þessar rúllur deginum áður og geyma þær í kæli. Svo er gott að hita þær aðeins upp í ofni áður en þær eru bornar fram. IMG_5790 Uppskrift (ca. 30-40 rúllur)

  • 600 g kalkúnahakk (fæst frosið hjá Víði)
  • 3 msk sesamolía
  • 2 msk bragðlítil olía
  • 6 hvítlauksgeirar, rifnir
  • 4-5 msk ferskt engifer, rifið
  • 250 g sveppir, saxaðir smátt
  • 1 stór blaðlaukur, saxaður smátt
  • ca. 2 meðalstór rauð chili aldin, fræhreinsuð og söxuð mjög smátt
  • 6 msk Hoisin-sósa
  • 10-12 dl fínt skorið kínakál
  • 1 pakki Wonton deig (fæst í Víetnömsku búðinni – Suðurlandsbraut)
  • olía til að pensla rúllurnar með
  • sweet chill sósa til að dýfa vorrúllunum í

Ofn stilltur á 190 gráður við undir- og yfirhita. Sesamolía og olía hituð á pönnu. Hvítlaukur og engifer er steikt í nokkrar mínútur (má ekki brenna). Þá er kalkúnahakkinu bætt út á pönnuna og það steikt. Því næst er sveppunum bætt út í og allt steikt í nokkrar mínútur. Svo er blaðlauk, chili og hoisin-sósu bætt út í látið malla í 1-2 mínútur og pannan því næst tekin af hellunni. Að síðustu er kínakálinu blandað saman við og blandan látin kólna dálítið. Einn Wonton ferningur er tekinn fram og ca. 2 tsk af blöndunni er sett inn í ferninginn, brotið lítið eitt upp á sitt hvorn endann og deiginu rúllað þétt upp. IMG_5666Gott er að hafa vatn í skál hjá sér og bleyta endann á deiginu þegar loka á samskeitunum á rúllunni. Þá er fingrinum dýft ofan í vatnið og brúnirnar bleyttar hæfilega mikið á deiginu. Rúllunum er raðað, með samskeytin niður, á ofnplötu klædda bökunarpappír. Rúllurnar eru penslaðar með olíu og settar inn ofn í um það bil 7-8 mínútur. Þá er þeim snúið við og þær bakaðar áfram í ca. 7-8 mínútur eða þar þær hafa náð fallegum lit og eru stökkar. Rúllurnar eru bornar fram með sweet chili-sósu. IMG_5669IMG_5671IMG_5793

Kjúklingaspjót í tælenskri grillsósu


IMG_4400

Í dag fórum við í fermingarveislu til dóttur Önnu æskuvinkonu minnar, hennar Önnu Daggar.

Önnur Ég útbjó kjúkling fyrir veisluna og notaði uppskrift sem birtist frá mér í fermingarblaði Fréttatímans nýverið. Í þeirri uppskrift þræddi ég kjúklinginn upp á spjót og grillaði þau.

IMG_4382Fyrir fermingarveisluna í dag hafði ég bitana staka og eldaði þá í ofni. Svo voru bitarnir bornir fram stakir með pinnum í og heit sósan til að dýfa þeim í. Hafa ber í huga að þegar þessi uppskrift er margfölduð þá þarf ekki að margfalda magnið á sósunni jafnmikið. Til dæmis gerði ég fjórfalda sósuuppskrift (og hefði getað haft þrefalda) fyrir veisluna í dag en sjöfaldaði magnið af kjúklingnum. Ég notaði sem sagt sex kíló af kjúklingbringum frá Rose Poultry sem gaf mér um það bil 320 fremur stóra bita.

ferming

Veislan í dag var frábær, góðar veitingar og fallega skreyttur salurinn. Fermingarstúlkan, Anna Dögg, er bæði í handbolta og skátum og þau áhugamál hennar komu inn sem þema í veisluna. Hún er líka búin að vera í myndlistaskóla og eftir hana liggja mörg leirlistaverk sem skreyttu gestaborðin.

borðin Það var mjög sniðugt að Anna Dögg valdi sér og pantaði m&m frá Bandaríkjunum í sérstökum litum með áritunum. Það kom skemmtilega út og Rice krispies kransakakan var skreytt með því. Hér er hægt að panta svona skemmtileg M&M en ég held að þeir sendi ekki til Íslands, Anna lét senda þetta til ættingja sinna sem búa í Bandaríkjunum (tók ca. 1 viku).

kaka

Anna vinkona hefur verið ótrúlega öflug í gegnum tíðina að búa til minningabækur fyrir börnin sín. Ég held að fáir komist með tærnar þar sem hún hefur hælana í þeim efnum! 🙂

albúmEn hér er uppskriftin af gómsæta kjúklingnum.

Uppskrift (um það bil 14 grillspjót með 4-5 bitum hvert):

  • 4 msk Huntz tómatpúrra
  • 4 msk púðursykur
  • 4 msk Blue Dragon sojasósa
  • 2 tsk cumin (krydd)
  • 2 tsk saxað kóríander í krukku frá Blue Dragon
  • 4 msk Blue Dragon sweet chilli sósa
  • 5 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð smátt
  • 1 dós Blue Dragon kókosmjólk (400 ml)
  • 900 g kjúklingabringur frá Rose Poultry
  • grillspjót (tréspjót þarf að leggja í bleyti í 30 mínútur fyrir notkun)

Öllum hráefnunum í sósuna, fyrir utan hvítlauk og kókosmjólk, er blandað saman í pott. Á meðan suðan kemur upp er hrært stöðugt í blöndunni þar til púðursykurinn er búinn að leysast upp. Þá er hvítlauknum og kókosmjólkinni bætt út pottinn og sósan látin ná suðu. Því næst er potturinn tekinn af hellunni og sósan látin kólna.

Kjúklingabringurnar eru skornar niður í hæfilega stóra bita. Kjúklingabitunum er blandað saman við tæplega helminginn eða 2/3 af sósunni og sett í kæli í nokkrar klukkustundir, helst yfir nóttu. Kjúklingabitarnir eru því næst þræddir upp á grillspjót og þau grilluð við meðalháan hita í um það bil 10 – 12 mínútur eða þar til kjötið er grillað í gegn – tíminn er breytilegur eftir grillum. IMG_4366  Það er líka hægt að grilla kjúklingaspjótin í bakarofni við 225 gráður. Spjótin eru borin fram heit eða köld með restinni af heitri sósunni.

IMG_4408

Asískar kjötbollur


IMG_3461

Um síðustu helgi hélt stóra stelpan mín upp á tvítugsafmælið sitt. Ég keypti hluta af veitingunum frá Osushi og bjó til eitthvað af þeim sjálf. Það var dálítið vatnsmelónuþema í gangi, við gerðum vatnsmelónu mojito sem var víst ákaflega góður drykkur. Hann er gerður úr Bacardi Melon (romm með vatnsmelónubragði), lime, vatnsmelónu, sírópi og fullt af ferskri myntu – ég set inn uppskriftina hér við tækifæri. Einn af þeim matréttum sem ég bjó til voru kjötbollur með asískri sósu. Ég gerði þær litlar og notaði þær sem smárétt en í raun er ekkert því til fyrirstöðu að búa til máltíð úr þeim og hafa þá til dæmis hrísgrjón með. Myndirnar voru teknar í miklum flýti og eru ekkert til að hrópa húrra fyrir en ekki láta þær fæla ykkur frá! 🙂

Asískar kjötbollurUppskrift (ca. 50 litlar kjötbollur):

  • 900 g nautahakk
  • 2 tsk sesamolía
  • 2.5 dl brauðmylsna
  • 1 tsk engifer (krydd)
  • salt & pipar
  • 2 egg
  • 3-4  hvítlauksrif, pressuð eða skorin smátt
  • 1 búnt vorlaukur (hvíti hlutinn saxaður smátt – græni hlutinn geymdur)
 Sósa:
  • 2 dl Hoisin sósa
  • 4 msk hrísgrjónaedik (rice vinegar)
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 2 msk sojasósa
  • 1 tsk sesamolía
  • 1 tsk engifer (krydd)
  • Sesam fræ og græni hlutinn af vorlauknum notað til skreytingar.

Ofn hitaður í 200 gráður. Nautahakkið er sett í skál ásamt kryddi, eggjum, brauðmylsnu, hvítlauki og vorlauki, blandað vel saman. Litlar bollur eru mótaðar úr hakkinu og raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 10-12 mínútur eða þar til bollurnar eru tilbúnar.

Á meðan bollurnar eru í ofninum er sósan útbúin. Öllum hráefnunum í sósuna er blandað vel saman. Þegar bollurnar eru tilbúnar er þeim velt upp úr sósunni eða henni hellt yfir bollurnar. Græni hlutinn af vorlauknum er saxaður og dreift yfir ásamt sesamfræjum.

Asískar kjötbollur

Æðislegur brauðréttur


Æðislegur brauðréttur

Annar sunnudagur í aðventu … tíminn þýtur svo sannarlega áfram. Í dag fórum við í árlegt aðventukaffi til Ingu frænku í tilefni afmælis hennar. Að vanda bauð hún upp á gómsætar veitingar, uppskriftir að flestum þeirra er einmitt að finna hér á Eldhússögum! 🙂 Jóhanna Inga tók rafmagnsgítarinn sinn með og tróð upp með afmælissöng og jólalögum. Hún er ansi dugleg á gítarinn þrátt fyrir að hafa bara lært á hann í eina önn. Ég hins vegar er orðin liðtækur rótari og get meira að segja stillt gítarinn fullkomlega þökk sé snilldar gítarstillingar-appi á símanum mínum, eins gott að það er til, annars væri lítið gagn í mér. Því miður varð Jóhanna Inga veik í boðinu og núna er hún komin með háan hita og er slöpp, vonandi jafnar hún sig fljótt af því.IMG_1831

Fyrir utan allar gómsætu veitingarnar sem Inga útbjó sjálf þá gerði ég einn brauðrétt auk þess sem Inga keypti gómsætar vestfirskar hveitikökur (sem eru ómótstæðilegar með smjöri og reyktum silungi!) af Önnu frænku okkar, sem er snilldar konditor, ásamt ljúffengum mömmukökum . Ég mæli sannarlega með því að þið kíkið á básinn hjá Önnu konditorí í jólaþorpinu í Hafnarfirði eða í bakaríið hennar og kaupið ykkur jólagott.

Recently Updated4

Brauðrétturinn sem ég gerði er ein af þeim uppskriftum sem var næstum því fallinn í gleymskunnar dá þótt að þetta sé „æðislegur brauðréttur“ eins og segir í titlinum. Mér finnst dálítið kjánalegt að láta einhvern rétt heita „æðislegur“ en ákvað bara að láta titilinn standa eins og hann stendur í gömlu uppskriftabókinni minni. Um daginn minnti Hildur vinkona mín mig á þennan brauðrétt og sagðist hafa fengið uppskriftina hjá mér. Hún fór að tala um að rétturinn hefði slegið í gegn hjá henni í saumaklúbbi. Ég mundi ómögulega eftir þessum brauðrétti og fletti í gegnum gömlu uppskriftabókina mína en ég hélt mig hafa fært allar uppskriftirnar hingað inn á bloggið. Svo var greinilega ekki því ég fann þessa uppskrift á snjáðri síðu í bókinni og það rifjaðist upp fyrir mér hversu vinsæll þessi brauðréttur hefur verið í veislum hjá mér í gegnum tíðina. Það er svo skemmtilegt við þennan rétt að það er ekki á honum rifinn ostur heldur þeyttar eggjahvítur með dálitlu majónesi og kryddum.

Uppskrift í fremur lítið eða meðalstórt form (á myndinni er ég með tæplega tvöfalda uppskrift í stóru formi):

  • ca. 12-14 brauðsneiðar skornar í teninga (ég sker skorpuna af)
  • 2 dl majónes
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 200 g skinka, skorin í sneiðar
  • aspas í dós (ca. 400 gramma dós)
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt eða sett í hvítlaukspressu
  • ca 150 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 stór rauð paprika, skorin í bita
  • ca. 1 tsk karrí
  • 1/4 tsk cayanne pipar
  • salt & pipar

Ofan á brauðréttinn:

  • ca. 2-4 eggjahvítur (fer eftir stærð formsins)
  • 3 msk majónes
  • hnífsoddur karrí
  • hnífsoddur cayanne pipar

Ofn hitaður í 200 gráður. Brauðteningunum er dreift í smurt eldfast mót. Gott er að bleyta aðeins upp í því með aspassafanum.IMG_1806Majónesi, sýrðum rjóma, skinku, aspas, sveppum og hvítlauki er hrært saman.IMG_1809 Kryddað með cayanne pipar, karrí, salti og pipar. Gott er að byrja með minna en meira af karrí og cayanne pipar og smakka sig svo áfram. Blöndunni er svo dreift yfir brauðið.IMG_1812 Eggjahvíturnar eru stífþeyttar. Því næst er majónesi og örlítið af cayanne pipar og karrí hrært varlega saman við og blöndunni smurt yfir brauðréttinn.IMG_1820 Hitað í ofni í ca. 25-30 mínútur.

IMG_1829Borið fram heitt.IMG_1875

Grillaður camembert með sólþurrkuðum tómötum og basilku


IMG_1047

Í gær vorum við með matarboð og ég ákvað að fara á bloggið mitt, velja eina vinsælustu kjúklingauppskriftina þar og bjóða gestunum upp á þann rétt. Ég var svo spennt á meðan á matarboðinu stóð því Anna Sif vinkona mín var að hlaupa heilt maraþon hlaup í New York á sama tíma. Algjör dugnaðarforkur, frekar nýfarin að hlaupa og ákvað að drífa sig bara í maraþon eins og ekkert væri. Tæknin er svo sniðug að við gátum fylgst með henni hlaupa á korti í tölvunni „live“. Hún rúllaði þessu upp stelpan eins og henni er von og vísa og sagðist vera til að að hlaupa annað maraþonhlaup daginn eftir! Ég vil nú meina að andlegi stuðningurinn frá okkur hérna meginn við hafið hafi örugglega haft sitt að segja! 😉 Við hámuðum í okkur góðan mat, skáluðum fyrir hlauparanum í ljúffengu rauðvíni á meðan við fylgdumst með hlaupinu. Þegar ég var úti í Stokkhólmi í sumar keypti ég þessar flottu servíettur í H&M home deildinni sem er oft með mjög skemmtilegar vörur. Mér fannst vel við hæfi að dekka borðið með þessum New York servíettum í gær.

IMG_1085

New York – Manhattan servíetta úr H&M Home

IMG_1080Kjúklingur með sætum kartöflum og mangósósu

Ég var með léttan forrétt fyrir matinn, grillaðan camenbert. Það er með ólíkindum hversu góðir slíkir ostar geta orðið þegar þeir eru bakaðir.

IMG_1052 Hérna fyllti ég ostinn með ferskri basiliku, sólþurrkuðum tómötum og hvítlauk en það eru í raun engin takmörk á því hvað hægt er að setja inn í ostinn. Til dæmis er örugglega gott að nota hnetur, hunang, mango chutney, aðrar ferskar kryddjurtir, chilisultu, þurrkaða ávexti eða hvað sem hugurinn girnist.

Uppskrift:

  • 1 camembert
  • 2-3 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • grófmalaður svartur pipar
  • flögusalt
  • ca. 1 dl fersk basilka, söxuð smátt
  • örlitla ólífuolíu

IMG_1050

Camembert osturinn er klofinn í tvennt. Sólþurrkaðir tómatar, hvítlaukur og basilika er dreift ofan á annan helming ostsins og kryddað með salti og pipar auk þess sem örlítið af ólífuolíu er dreift yfir. Hinn helmingurinn af ostinum er lagður yfir og pakkað vel í álpappír. Grillað við meðalhita á grilli í 10-15 mínútur eða þar til osturinn er farinn að bráðna vel. Borið strax fram með góðu brauði eða kexi.

IMG_1053