Það er vel við hæfi að setja inn uppskrift að ítalskri brauðtertu eftir dásamlega Ítalíuferð fjölskyldunnar. Vissulega eru Ítalir ekkert sérstaklega mikið að búa til brauðtertur held ég en hráefnin í þessari brauðtertu eru samt innblásinn af Ítalíu. Það var afar skemmtilegt að elda í Toskana og nýta góðu hráefnin sem héraðið hafði upp á að bjóða, grænmetið, ávextina, kryddjurtirnar og svo ekki sé talað um ferska pastað þeirra sem á nákvæmlega ekkert skylt við þurrkaða pastað sem við þekkjum hér heima. Uppistaðan í fæðunni okkar á meðan Ítalíudvölinni stóð var parmaskinka, melónur, mozzarella, tómatar, basilika, ólífuolía, brauð, pasta og parmesanostur – ásamt rauðvíni auðvitað, ekki slæmt það! 🙂
Það er alveg magnað hvað hægt er að gera góða matrétti úr einföldum hráefnum svo fremi sem þau eru fersk og góð. Úr þessum hráefnum varð til einstaklega góður pastaréttur.
Mér leiddist ekkert í eldhúsinu með ferskt grænmeti af markaðnum! 😉
Húsráðendur okkar voru frábærir og einn daginn fengum við til dæmis þessar heimalöguðu sultur frá þeim, það kallaði auðvitað á osta, kex og vín. Við höfum varla drukkið annað en Chianti vín í sumar, en þau eru frá Toskana. Í húsinu sem við leigðum var vínkjallari með miklu úrvali af Chianti vínum á afar góðu verði. Það var sama hvaða tegund við völdum, hver einasta flaska var eðalgóð!
Útsýnið frá húsinu okkar var eiginlega óraunverulegt, svo magnað var það.
Þetta var uppáhaldsstaðurinn hans Elfars, enda var útsýnið þaðan ekki slæmt!
Þessi mynd er tekin frá hengirólunni, hér sést yfir gamla bæinn Poppi og Poppi kastalann.
Sundlaugin okkar var frábær og miðdegissnarlið ekki síðra! 🙂
Ég mæli heilshugar með húsinu Podere la Casina í Toskana, hér eru bókunarupplýsingar. En ef ég vík aftur að uppskriftinni sem mig langaði að halda til haga hér á síðunni. Mér finnst alltaf gott að geta gripið til allskonar brauðrétta fyrir veislur og þessi brauðterta er alveg tilvalin á veisluborðið, hún er fljótleg og afar bragðgóð.
- Brauðtertubrauð skorið á lengdina (fæst frosið, notið 5 lengjur af 7)
Fylling 1:
- 30 g basilika, blöðin söxuð smátt (nokkur blöð geymd fyrir skreytingu)
- ca. 8 st. sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
- 250 g Mascarpone ostur
- ca 1/2 dós (90g) 10% eða 18% sýrður rjómi
- salt & pipar
- hnífsoddur af cayenne pipar
Fylling 2:
- 1 Stóri Dímon ostur (250 g), maukaður
- 1 dós 10% eða 18% sýrður rjómi (180g)
- salt & pipar
Ofan á brauðið
- 1 dós sýrður rjómi 36%
- ca 8 sneiðar parmaskinka
- ca 8 sneiðar góð ítölsk pylsa
- 12 – 14 kirsuberjatómatar
- ca 15-20 svartar ólífur
- nokkur basiliku blöð
- einnig fallegt að skreyta brauðtertuna með t.d. klettasalati, ferskum timjankvistum og/eða mismunandi tegundum af baunaspírum
Brauðtertubrauðið sem kemur frosið er losað í sundur og látið þiðna. Á meðan er hráefnunum blandað saman fyrir fyllingarnar tvær og þær smakkaðar til með kryddi. Hvorri fyllingu fyrir sig smurt á tvær brauðlengjur og þær lagðar saman sitt á hvað, fimmta brauðlengjan er því næst lögð efst. Þá er brauðtertan smurð á alla kanta með 36% sýrðum rjóma. Að lokum er brauðtertan skreytt með parmaskinku, ítalskri pylsu, ólífum, kirsuberjatómötum, basilku og t.d. klettasalati, baunaspírum eða timjankvistum.