Fljótlegt brauð með rósmarín og flögusalti


IMG_4971

*Unnið í samstarfi við Urtu*

Eitt af því besta sem ég veit er nýbakað brauð. Þó svo að heimabökuð brauð séu fljótleg að búa til þá tekur alltaf dálítinn tíma að láta gerdeig hefa sig. Mér finnst því alltaf gott að geta gripið til einhvers sem er fljótlegt en þó jafngott og nýbakað brauð. Þessi uppskrift lætur kannski lítið yfir sér við lestur en maður verður bara að prófa til að fatta hversu ljúffengt þetta brauð er! 😉 Ótrúlega einfalt en sjúklega gott. Frábær leið til að bjóða upp á heitt, stökkt og djúsí brauð með matnum á mettíma! Ég nota hér þara hvítlaukssaltið frá Urtu og það fæst Hagkaup, Kringlunni.

IMG_4961

Uppskrift

  • 400 g tilbúið pítsadeig
  • 3-4 msk ólífuolía
  • ca. 1 msk fersk rósmarín, saxað
  • Þara hvítlaukssalt eða annað gott flögusalt

IMG_4946

 Pítsadeiginu er rúllað út og skorið í ferninga. Olía hituð á pönnu og þegar hún er orðin mjög vel heit eru fjórar sneiðar af deiginu settar á pönnuna og þær steiktar á fremur háum hita, um það bil 1 mínútu á hvorri hlið eða þar til þær verða gullinbrúnar. Gott er að þrýsta deiginu dálítið niður á pönnuna með spaða. Um leið og brauðið er tekið af pönnunni er rósamaríni og þara hvítlaukssalti dreift yfir brauðið. Meiri olíu er bætt á pönnuna við þörfum og restin af brauðinu steikt á saman hátt. Mikilvægt er að hita olíuna mjög vel áður en brauðið er steikt. Borið fram heitt.

IMG_4959IMG_4968IMG_4954

Heitur brauðréttur með kjúklingi og beikoni


IMG_1281

Um daginn ákvað ég að búa til brauðrétt og að nota í hann kjúkling fremur en hefðbundna skinku eða pepperóni. Úr varð afar ljúffengur og matarmikill brauðréttur sem hentar vel á fermingarhlaðborðin sem eru í vændum næstkomandi mánuð. Við erum boðin í þrjár fermingar nú um páskana sem mér finnst afar skemmtilegt. Þegar við bjuggum í Svíþjóð misstum við af öllum fermingarveislum hjá vinum og ættingjum og þegar ég flutti til Íslands, 36 ára gömul, hafði ég einungis farið í eina fermingarveislu frá því að ég var unglingur, það var hjá stjúpsyni mínum! 🙂 Ég kann því afar vel að meta að geta verið með og fagnað á tímamótum í lífi fólksins í kringum okkur. Maður áttar sig kannski ekki á því hversu dýrmætt það er fyrr en maður býr erlendis. En aftur að uppskriftinni! Ég mæli með því að þið prófið þennan brauðrétt, hann er gómsætur! 🙂

Heitur brauðréttur með kjúklingi og beikoni:
  • ca. 15 brauðsneiðar
  • 500 g kjúklingabringur eða lundir, skorin í bita (ég notaði Rose Poultry)
  • 250 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 lítill rauðlaukur, saxaður smátt
  • ólífuolía og/eða smjör til steikingar
  • 1 msk kjúklingakraftur
  • 200 g Philadelphia ostur með papriku og lauki
  • 4-5 dl matreiðslurjómi
  • 1 msk sojasósa
  • Heitt pizzakrydd frá Pottagöldrum
  • salt & pipar
  • 200 g beikon
  • fersk steinselja
  • rifinn ostur
Ofn hitaður í 200 gráður. Mesta skorpan skorin frá brauðinu sem er síðan skorið í teninga og dreift á botn eldfasts móts. Kjúklingur, sveppir og laukur steikt á pönnu upp úr ólífuolíu og/eða smjöri. Þá er kjúklingakrafti bætt út á pönnuna. Því næst er Philadelphia osti, rjóma og sojasósu bætt út á pönnuna og sósan svo smökkuð til með heitu pizzakryddi, salti og pipar. Látið malla við vægan hita í smá stund, athugið að sósan á að vera þunn. Því næst er sósunni hellt yfir brauðið í eldfasta mótinu. Beikon er steikt og skorið í litla bita og dreift yfir sósuna. Þá er steinseljan söxuð smátt og henni dreift yfir beikonið. Að lokum er rifnum osti dreift yfir réttinn. Hitað í ofni í 20-25 mínútur eða þar til osturinn hefur fengið góðan lit.
IMG_1288IMG_1291

Pizzabrauð


Pizzabrauð

Nú er jólaundirbúningurinn að ná hámarki. Ég fór í síðustu viku til Boston og átti þar mjög ljúfa daga. Veðrið var ótrúlegt, 15-16 stiga hiti og sól, sumarblómin höfðu enn ekki fölnað! Bostonbúar voru agndofa yfir þessu veðri enda vanir vetrarhörkum. Það var ákaflega gott að fá smá frí frá kulda og klaka enda gengum við borgina enda á milli þessa fimm daga sem við dvöldum þar, heila 60 kílómetra samkvæmt gönguappinu. Það var afar gaman að skoða borgina en einna skemmtilegast var að fara á jólatónleikana hjá synfóníuhljómsveit Boston ásamt kór. Mér tókst hér um bil að kaupa allar jólagjafirnar líka. Ég reyndi að panta sem mest og lét senda á hótelið þannig að ég þyrfti ekki að vera að leita í búðunum. Nú þegar jólagjafirnar eru frá get ég farið að einbeita mér að matarstússi. Ég verð með hefðbundinn mat á aðfangadag, hamborgarhrygg. Á jóladag er ég með hangikjöt en ég er ekki alveg búin að ákveða hvað verður í matinn á annan í jólum. Ég er komin með nokkrar tegundir af ísum inn í frysti, allt nýjar tegundir í ár, meðal annars ný uppáhaldsútgáfa af Toblerone ís og svo dásamlega góður Bismark ís með myntusúkkulaði og hindberjum

Í dag langar mig hins vegar að færa hér inn á bloggið afar góða og einfalda uppskrift að ljúffengu pizzabrauði. Á morgun förum við á hefðbundið ættarjólaball þar sem allir koma með eitthvað á hlaðborð. Mér finnst sjálfri alltaf gott að fá mér eitthvað brauðkyns á slíkum hlaðborðum og þetta pizzabrauð myndi sóma sér vel þar.

Uppskrift:

  • 2 bréf þurrger (11.8 g bréfið)
  • 1 tsk hunang eða sykur
  • 3 dl volgt vatn
  • 1 tsk salt
  • 2 msk olía
  • 8-10 dl hveiti

Fylling:

  • 2-3 dl góð pizzasósa
  • 200 g pepperóni
  • ca. 300 g rifinn ostur
  • 2 mozzarellakúlur (120 g stykkið)
  • heitt pizzakrydd frá Pottagöldrum eða annað gott krydd

IMG_7580

Gerið er leyst upp í volga vatninu ásamt hunangi eða sykri þar til blandan byrjar að freyða, tekur ca. 10 mínútur. Hveiti og salti blandað saman við olíuna. Um það bil helmingnum af þessari blöndu er bætt út í gerblönduna og unnið með hnoðkrók í vél eða í höndum. Smátt og smátt er hveitiblöndunni bætt saman við og hnoðað þar til deigið hefur fengið passlega áferð, hvorki of blautt eða of þurrt. Þá er blautur klútur lagður yfir skálina og deigið látið hefast í 30 mínútur á hlýjum stað. Því næst er deiginu skipt í tvennt og hvor helmingur fyrir sig flattur út í rétthyrning, ca. 25 x 40 cm.

IMG_7587

Pizzasósunni er dreift á báða helmingana ásamt pepperóni, rifnum osti og niðurskornum mozzarella. Kryddað með góðu kryddi, t.d. heitu pizzakryddi, oregano og/eða basiliku. Þá er pizzunum rúllað upp frá langhliðinni og þær lagðar á ofnplötu klædda bökunarpappír. Rúllurnar eru penslaðar með vatni eða olíu og kryddaðar með saltflögum, pizzakryddi eða oregano. Rúllurnar látnar hefast í 30 mínútur. Ofn hitaður í 200 gráður og rúllurnar bakaðar í 30-35 gráður.

IMG_7589 IMG_7594

Rúllutertubrauð með pepperóni, sveppum og sólþurrkuðum tómötum


IMG_0148Núna fer sumarfríinu senn að ljúka en þetta sumar er búið að vera einstaklega ljúft. Þar stendur upp úr frábær Ítalíuferð og vikuferð á Vestfirði með stórfjölskyldunni en mér finnst Vestfirðirnir fegurstir allra staða á Íslandi. Auk þess er veðrið búið að vera frábært sem hefur boðið upp á allskonar notalegheit hér í bænum, veitinga- og kaffihúsaferðir, hjólaferðir, gönguferðir, grillveislur og allskonar skemmtilegt. Þar að auki tók ég upp á nýrri iðju, sjósundi, sem mér finnst æðislegt og stefni á að halda áfram með í vetur.

Uppskriftin sem ég ætla að setja hér inn í dag er að rúllutertubrauði. Mér finnst alltaf sérstaklega skemmtilegt að búa til eitthvað úr því sem ég á í ísskápnum, tilfinningin er svo góð þegar manni tekst að vera nýtinn. Að þessu sinni nýtti ég nokkra sólþurrkaða tómata sem ég átti í krús, afgang af fetaostkubbi og fleira og úr varð ákaflega gott rúllutertubrauð sem ég bauð upp á í fjölskyldukaffi sem er við höfum flest alla sunnudaga.

Uppskrift:

  • 1 rúllutertubrauð
  • smjör og/eða olía til steikingar
  • 250 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 púrrlaukur, skorinn í sneiðar
  • 1 bréf pepperóní (ca 150 g)
  • 1 pepperóníostur(150 g), sneiddur mjög smátt eða rifinn
  • 1/2 fetaostkubbur (ca 125 g), mulinn niður
  • 1 dl rjómi
  • 1 dl svartar ólífur, saxaðar
  • 8 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
  • salt, pipar og gott krydd (ég notaði Pasta Rossa frá Santa Maria)
  • rifinn ostur
IMG_0144
Sveppir steiktir á pönnu upp úr smjöri og/eða olíu. þegar þeir byrja að taka lit er púrrlauk og pepperóní bætt út á pönnuna og steikt í stutta stund. Því næst er pepperóníosti, fetaosti, rjóma, ólífum og sólþurrkuðum tómötum bætt á pönnuna og látið malla þar til osturinn er bráðnaður. Kryddað eftir smekk. Hellið blöndunni yfir rúllutertubrauðið, rúllið upp og dreifið rifnum osti yfir. Bakið við 200°C í um 20 mín. eða þar til osturinn hefur fengið góðan lit.
IMG_0146

Ítölsk brauðterta


IMG_0083

Það er vel við hæfi að setja inn uppskrift að ítalskri brauðtertu eftir dásamlega Ítalíuferð fjölskyldunnar. Vissulega eru Ítalir ekkert sérstaklega mikið að búa til brauðtertur held ég en hráefnin í þessari brauðtertu eru samt innblásinn af Ítalíu. Það var afar skemmtilegt að elda í Toskana og nýta góðu hráefnin sem héraðið hafði upp á að bjóða, grænmetið, ávextina, kryddjurtirnar og svo ekki sé talað um ferska pastað þeirra sem á nákvæmlega ekkert skylt við þurrkaða pastað sem við þekkjum hér heima. Uppistaðan í fæðunni okkar á meðan Ítalíudvölinni stóð var parmaskinka, melónur, mozzarella, tómatar, basilika, ólífuolía, brauð, pasta og parmesanostur – ásamt rauðvíni auðvitað, ekki slæmt það! 🙂

11407268_10152976388282993_39985861688175300_n

Það er alveg magnað hvað hægt er að gera góða matrétti úr einföldum hráefnum svo fremi sem þau eru fersk og góð. Úr þessum hráefnum varð til einstaklega góður pastaréttur.

villa-in-poppi-tuscany-2

Mér leiddist ekkert í eldhúsinu með ferskt grænmeti af markaðnum! 😉

11391789_10152976389402993_8725255834746546953_n

Húsráðendur okkar voru frábærir og einn daginn fengum við til dæmis þessar heimalöguðu sultur frá þeim, það kallaði auðvitað á osta, kex og vín. Við höfum varla drukkið annað en Chianti vín í sumar, en þau eru frá Toskana. Í húsinu sem við leigðum var vínkjallari með miklu úrvali af Chianti vínum á afar góðu verði. Það var sama hvaða tegund við völdum, hver einasta flaska var eðalgóð!

11377390_10152972110087993_9213144157852679933_n

Útsýnið frá húsinu okkar var eiginlega óraunverulegt, svo magnað var það.

villa-in-poppi-tuscany

Þetta var uppáhaldsstaðurinn hans Elfars, enda var útsýnið þaðan ekki slæmt!

10476459_10152972108392993_8441051171073755090_n

Þessi mynd er tekin frá hengirólunni, hér sést yfir gamla bæinn Poppi og Poppi kastalann.

villa-in-poppi-tuscany-1

Sundlaugin okkar var frábær og miðdegissnarlið ekki síðra! 🙂

11350499_10152972109132993_8804694172672177064_n

Ég mæli heilshugar með húsinu Podere la Casina í Toskana, hér eru bókunarupplýsingar. En ef ég vík aftur að uppskriftinni sem mig langaði að halda til haga hér á síðunni. Mér finnst alltaf gott að geta gripið til allskonar brauðrétta fyrir veislur og þessi brauðterta er alveg tilvalin á veisluborðið, hún er fljótleg og afar bragðgóð.

IMG_0082 Uppskrift:

  • Brauðtertubrauð skorið á lengdina (fæst frosið, notið 5 lengjur af 7)

Fylling 1:

  • 30 g basilika, blöðin söxuð smátt (nokkur blöð geymd fyrir skreytingu)
  • ca. 8 st. sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
  • 250 g Mascarpone ostur
  • ca 1/2 dós (90g) 10% eða 18% sýrður rjómi
  • salt & pipar
  • hnífsoddur af cayenne pipar

Fylling 2:

  • 1 Stóri Dímon ostur (250 g), maukaður
  • 1 dós 10% eða 18% sýrður rjómi (180g)
  • salt & pipar

Ofan á brauðið

  • 1 dós sýrður rjómi 36%
  • ca 8 sneiðar parmaskinka
  • ca 8 sneiðar góð ítölsk pylsa
  • 12 – 14 kirsuberjatómatar
  • ca 15-20 svartar ólífur
  • nokkur basiliku blöð
  • einnig fallegt að skreyta brauðtertuna með t.d. klettasalati, ferskum timjankvistum og/eða mismunandi tegundum af baunaspírum
  • 11749739_10153054364637993_931005220_n

Brauðtertubrauðið sem kemur frosið er losað í sundur og látið þiðna. Á meðan er hráefnunum blandað saman fyrir fyllingarnar tvær og þær smakkaðar til með kryddi. Hvorri fyllingu fyrir sig smurt á tvær brauðlengjur og þær lagðar saman sitt á hvað, fimmta brauðlengjan er því næst lögð efst. Þá er brauðtertan smurð á alla kanta með 36% sýrðum rjóma. Að lokum er brauðtertan skreytt með parmaskinku, ítalskri pylsu, ólífum, kirsuberjatómötum, basilku og t.d. klettasalati, baunaspírum eða timjankvistum.

IMG_0079 IMG_0090

Rúllutertubrauð með pestó og mozzarella


Rúllutertubrauð með pestói og mozzarellaÞegar ég var með afmæli um daginn langaði mig að breyta út af venjunni og hafa öðruvísi rúllutertubrauð. Ég var ekkert viss um að þetta yrði gott en svo fór að þessi rúllutertubrauð kláruðust fyrst af öllum réttunum. Mér finnst galdurinn liggja í að búa til sitt eigið pestó, það er svo ákaflega gott! En auðvitað er líka hægt að kaupa tilbúið pestó og nota það í staðinn. Eins og stundum þegar ég prófa einhvern nýjan rétt í veislum þá eru engin góð tækifæri til þess mynda afraksturinn en ég náði þó að smella einni mynd af sneið áður en allt kláraðist.

Uppskrift:

  • 1 rúllutertubrauð
  • ca. 140 g skinka (ég notaði reykta skinku frá Ali), skorin í bita
  • ca. 15 svartar ólífur, saxaðar gróft
  • 2 msk smátt saxaðaðir sólþurrkaðir tómatar (gott að nota dálítið af olíunni með)
  • 1 mozzarella ((kúlan í bláu pokunum, 120 g), skorin í bita
  • 1 dl rifinn parmesan ostur
  • salt og pipar
  • rifinn ostur og/eða parmesan ostur ofan á brauðið
  • ca. 2 dl pestó – tilbúið eða heimagert.
  • Heimagert pestó:
  • 30 g fersk basilika
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 70 g kasjúhnetur (eða furuhnetur)
  • 1 dl rifinn parmesan ostur
  • ca. 1.5-2 dl ólífuolía
  • salt og pipar

Öllu blandað vel saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél.pestó

Ofn hitaður í 180 gráður. Pestóinu er blandað saman við skinku, ólífur, sólþurrkaða tómata, mozzarella ost og rifinn parmesan ost. Smakkað til með salti og pipar. Rúllutertubrauðið er lagt á bökunarpappír. Blöndunni er því næst smurt á rúllutertubrauðið og því rúllað varlega upp með hjálp bökunarpappírsins, samskeytin látin snúa niður. Rúllan er þá færð á bökunarpappírnum yfir á ofnplötu. Rifnum osti og/eða rifnum parmesan osti dreift yfir rúlluna (ég notaði líka nokkrar sneiðar af mozzarella osti) og hún hituð í ofni í ca. 15 mínútur við 180 gráður eða þar til að rúllan er orðin heit í gegn og osturinn farinn að bráðna.

 

Mexíkóskur brauðréttur


Mexíkóskur brauðrétturÞað er aldrei of mikið framboð af góðum uppskriftum að heitum brauðréttum. Mér finnst allavega gulls ígildi að eiga margar slíkar uppskriftir í handraðanum enda er ekki hægt að halda kökuboð án slíks réttar. Ég held að flestir gestgjafar séu sammála um að heitu brauðréttirnir eru alltaf vinsælastir í afmælum eða öðrum kökuveislum og ég passa mig alltaf á að vera með nóg af þeim, helst tvær tegundir. Ég er búin að setja inn nokkrar slíkar uppskriftir hingað á síðuna, hér, hér og hér. Nú bætist ein uppskriftin við, þetta er uppskrift sem ég skellti í um helgina út frá framboðinu í ísskápnum og heppnaðist svona ljómandi vel, alveg skotheldur brauðréttur! 🙂

IMG_6250

Uppskrift:

  • 16 – 18 brauðsneiðar, skornar í teninga (ég sker það mesta af skorpunni burtu)
  • 250 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 blaðlaukur, hvíti hlutinn smátt saxaður
  • 250 g skinka, skorin í bita
  • 1 stór rauð paprika, skorin í bita
  • 1 dós aspas (ca 400 g)
  • salt og pipar
  • góð kryddblanda (ég notaði Pasta Rossa frá Santa Maria)
  • 1 msk Oscars grænmetiskraftur
  • 1stk mexíkó ostur (150 g), skorinn niður í litla teninga
  • 1stk bóndabrie ostur (100 g), skorinn niður í litla teninga (hægt að sleppa)
  • 250 g fetakubbur (eða fetaostur án olíunnar), mulin niður
  • 2 dl rjómi
  • 2 dl  mjólk
  • 1 poki rifinn gratín ostur (200 g)
  • Doritos ostasnakk (má sleppa)

IMG_6228

Ofn hitaður í 200 gráður. Brauðteningum er dreift í smurt eldfast mót. Gott er að bleyta aðeins upp í brauðinu með aspassafanum. Sveppir, blaðlaukur, paprika og skinka steikt á pönnu og aspasnum bætt út í. Kryddað með salti, pipar, grænmetiskrafti og góðri kryddblöndu líkt og Pasta Rossa. Mexíkó osti, brieosti og fetaosti bætt út á pönnuna ásamt mjólk og rjóma. Látið malla við vægan hita þar til osturinn hefur bráðnað. Þá er blöndunni hellt yfir brauðteningana, því næst ostinum dreift yfir og Doritos flögum stungið ofan í hér og þar. Bakað við 200 gráður í 25 – 30 mínútur eða þar til osturinn hefur tekið góðan lit.

IMG_6251IMG_6257

Focaccia með hvítlauk og basiliku


IMG_6084Frábær helgi er að baki þar sem við nutum afar ljúffengs matar alla helgina. Eftir góða törn í garðvinnu á laugardaginn enduðum við úti að borða um kvöldið á Sjávargrillinu með góðum vinum. Þar fengum við dásamlega góðan mat í afar huggulegu umhverfi, ég mæli með þessum stað! 🙂 Í gær vorum við systkinin og fjölskyldur öll í mat hjá foreldrum mínum þar sem allir lögðu til eitthvað gott á kvöldverðaborðið. Ég gerði eftirrétt sem sló í gegn og fer því örugglega á bloggið við fyrsta tækifæri. Þessa ljúfu helgi enduðum við hjónin á bíóferð í gærkvöldi, sáum Edge of tomorrow og fannst hún stórgóð.

Um daginn bakaði ég ákaflega gott focaccia brauð og bauð stelpunum í saumaklúbbnum mínum. Mér finnst foccacia brauð svo góð og skemmtleg að baka. Bæði eru þau afar einföld og svo er hægt að gera svo mörg tilbrigði af brauðinu. Að þessu sinni gerði ég hvítlauks focaccia með ferskri basilku, dásamlega bragðgott brauð sem bragðast best nýbakað og volgt.

Uppskrift:

  • 1 pakki þurrger Kornax hveiti - blátt
  • 5 dl volgt vatn
  • 1 dl ólífuolía
  • 1 msk sykur
  • 2 tsk salt
  • ca. 12 dl Kornax brauðhveiti (í bláu pökkunum)

Fylling:

  • 1 dl ólífuolía
  • 1 box (30 g) basilika, blöðin notuð
  • 2 stór hvítlauksrif, saxaður mjög fínt
  • 1/2 sítróna, skoluð vel og hýðið rifið fínt
  • maldon salt
  • grófmalaður svartur pipar

Þurrgerið er hrært út í vatnið ásamt sykri, salti og ólífuolíu. Hveitinu er því næst bætt út í og deigið hnoðað í hrærivél eða í höndunum þar till það verður slétt og sprungulaust. Þá er deigið látið hefast undir viskastykki þar til það hefur tvöfaldast eða í um það bil 45-60 mínútur. Því næst er ofnskúffa smurð mjög vel með olíu, deigið sett í skúffuna og því þrýst jafnt út í alla kanta. Viskastykki lagt yfir og látið hefast í um það bil 30 mínútur. Á meðan er ofn hitaður í 250 gráður og fyllingin undirbúin.

Fylling:  Ólífuolíu og basiliku er blandað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Því næst er hvítlauk og sítrónuhýði bætt út í. Smakkað til með salti og pipar.

IMG_6075

Þegar brauðið hefur lyft sér er fingri stungið í deigið og myndaðar holur hér og þar. Fyllingunni er dreift jafnt yfir allt brauðið og bakað í miðjum ofni við 250°C í ca. 15 mínútur eða þar til brauðið er orðið fallega brúnt.

IMG_6085IMG_6092

Brauðbollur með eplum og gulrótum


IMG_5631

Ég er enn að jafna mig á tímamismuninum frá New York ferðinni. Það er aldrei neitt mál að fljúga „aftur í tímann“ til Bandaríkjanna en verra þegar flogið er heim aftur. Ég sef illa og er eitthvað hálf utan við mig vegna þess. Til dæmis bakaði ég ofsalega góða köku í dag – eða hún hefði verið mjög góð ef ég hefði ekki gleymt eggjunum! Ég ætla nú samt að gera þessa köku aftur strax í kvöld. Ég tók kökuna nefnilega út úr ofninum hálfbakaða þegar ég uppgötvaði eggjaleysið (treysti ekki að hún yrði í lagi án eggja), smakkaði á henni og maður minn hvað hún var bragðgóð! Hins vegar bakaði ég líka brauðbollur í dag sem heppnuðust ákaflega vel. Ég tók þær með mér í kaffi til afa og ömmu. Afi sagðist aldrei hafa fengið svona góðar brauðbollur áður. Ég geri mér alveg grein fyrir því að amma og afi tala nú kannski svona vel um réttina mína þar sem ég er barnabarnið þeirra en satt best að segja þá var ég líka ofsalega ánægð með brauðbollurnar í dag. 🙂 Þær voru einstaklega safaríkar og góðar, eplin og gulræturnar gera svo mikið fyrir þær. Eins notaði ég hveitið í bláu pökkunum frá Kornax en það er sérstaklega ætlað í brauðbakstur og mér finnst það gera öll brauð mikið léttari, mýkri og betri. Það er sniðugt við þessar bollur að þær er hægt að kaldhefa yfir nóttu í ísskáp og skella þeim í ofninn að morgni og gæða sér á nýbökuðum og safaríkum brauðbollum í morgunmat. Í dag gerði ég það hins vegar ekki heldur lét ég deigið bara hefast við stofuhita í eina klukkustund og það kom mjög vel út.

IMG_5640

Uppskrift:

  • 1 bréf þurrger (ca. 12 g) Kornax hveiti - blátt
  • 5 dl kalt vatn
  • 1-3 gulrætur (fer eftir stærð) eða sem samsvarar 2.5 dl af rifnum gulrótum
  • 2 epli eða sem samsvarar 3.5 dl af rifnum eplum
  • 2 msk olía
  • 2 msk hunang (fljótandi)
  • 2 tsk salt
  • 3 dl Durum mjöl frá Finax
  • ca 1 kíló blátt Kornax hveiti 

Vatnið er sett í skál og gerinu blandað saman við vatnið með písk. Gulrætur og epli eru afhýdd, rifin gróft og sett út í gerblönduna. Því næst er olíu, hunangi og salti bætt út og látið bíða í nokkarar mínútur. Að lokum er Durum mjöli og hveiti bætt út í og hnoðað saman í höndum eða vél þar til deigið er orðið slétt. Þá er plastfilma eða viskustykki sett yfir skálina og deigið látið hefast í ísskáp yfir nóttu (eða í eina klukkustund við stofuhita). Ofn stilltur á 225 gráður og bökunarplata klædd bökunarpappír. Deigið er sett á plötuna og flatt út jafnt í alla kanta. Því næst er deigið skorið í ferninga með pizzahníf eða beittum eldhúshníf.

IMG_5623 Þá er stungið hér og þar í degið með gaffli. Viskustykki sett yfir plötuna og látið hefast í 20 – 30 mínútur til viðbótar. Því næst er bökunarplatan sett inn í ofn og bakað við 225 gráður í um það bil 20 mínútur. Ein bökunarplata gefur um það bil 20 brauðbollur.

IMG_5628 IMG_5630 IMG_5638

Æðislegur brauðréttur


Æðislegur brauðréttur

Annar sunnudagur í aðventu … tíminn þýtur svo sannarlega áfram. Í dag fórum við í árlegt aðventukaffi til Ingu frænku í tilefni afmælis hennar. Að vanda bauð hún upp á gómsætar veitingar, uppskriftir að flestum þeirra er einmitt að finna hér á Eldhússögum! 🙂 Jóhanna Inga tók rafmagnsgítarinn sinn með og tróð upp með afmælissöng og jólalögum. Hún er ansi dugleg á gítarinn þrátt fyrir að hafa bara lært á hann í eina önn. Ég hins vegar er orðin liðtækur rótari og get meira að segja stillt gítarinn fullkomlega þökk sé snilldar gítarstillingar-appi á símanum mínum, eins gott að það er til, annars væri lítið gagn í mér. Því miður varð Jóhanna Inga veik í boðinu og núna er hún komin með háan hita og er slöpp, vonandi jafnar hún sig fljótt af því.IMG_1831

Fyrir utan allar gómsætu veitingarnar sem Inga útbjó sjálf þá gerði ég einn brauðrétt auk þess sem Inga keypti gómsætar vestfirskar hveitikökur (sem eru ómótstæðilegar með smjöri og reyktum silungi!) af Önnu frænku okkar, sem er snilldar konditor, ásamt ljúffengum mömmukökum . Ég mæli sannarlega með því að þið kíkið á básinn hjá Önnu konditorí í jólaþorpinu í Hafnarfirði eða í bakaríið hennar og kaupið ykkur jólagott.

Recently Updated4

Brauðrétturinn sem ég gerði er ein af þeim uppskriftum sem var næstum því fallinn í gleymskunnar dá þótt að þetta sé „æðislegur brauðréttur“ eins og segir í titlinum. Mér finnst dálítið kjánalegt að láta einhvern rétt heita „æðislegur“ en ákvað bara að láta titilinn standa eins og hann stendur í gömlu uppskriftabókinni minni. Um daginn minnti Hildur vinkona mín mig á þennan brauðrétt og sagðist hafa fengið uppskriftina hjá mér. Hún fór að tala um að rétturinn hefði slegið í gegn hjá henni í saumaklúbbi. Ég mundi ómögulega eftir þessum brauðrétti og fletti í gegnum gömlu uppskriftabókina mína en ég hélt mig hafa fært allar uppskriftirnar hingað inn á bloggið. Svo var greinilega ekki því ég fann þessa uppskrift á snjáðri síðu í bókinni og það rifjaðist upp fyrir mér hversu vinsæll þessi brauðréttur hefur verið í veislum hjá mér í gegnum tíðina. Það er svo skemmtilegt við þennan rétt að það er ekki á honum rifinn ostur heldur þeyttar eggjahvítur með dálitlu majónesi og kryddum.

Uppskrift í fremur lítið eða meðalstórt form (á myndinni er ég með tæplega tvöfalda uppskrift í stóru formi):

  • ca. 12-14 brauðsneiðar skornar í teninga (ég sker skorpuna af)
  • 2 dl majónes
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 200 g skinka, skorin í sneiðar
  • aspas í dós (ca. 400 gramma dós)
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt eða sett í hvítlaukspressu
  • ca 150 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 stór rauð paprika, skorin í bita
  • ca. 1 tsk karrí
  • 1/4 tsk cayanne pipar
  • salt & pipar

Ofan á brauðréttinn:

  • ca. 2-4 eggjahvítur (fer eftir stærð formsins)
  • 3 msk majónes
  • hnífsoddur karrí
  • hnífsoddur cayanne pipar

Ofn hitaður í 200 gráður. Brauðteningunum er dreift í smurt eldfast mót. Gott er að bleyta aðeins upp í því með aspassafanum.IMG_1806Majónesi, sýrðum rjóma, skinku, aspas, sveppum og hvítlauki er hrært saman.IMG_1809 Kryddað með cayanne pipar, karrí, salti og pipar. Gott er að byrja með minna en meira af karrí og cayanne pipar og smakka sig svo áfram. Blöndunni er svo dreift yfir brauðið.IMG_1812 Eggjahvíturnar eru stífþeyttar. Því næst er majónesi og örlítið af cayanne pipar og karrí hrært varlega saman við og blöndunni smurt yfir brauðréttinn.IMG_1820 Hitað í ofni í ca. 25-30 mínútur.

IMG_1829Borið fram heitt.IMG_1875