Það er aldrei of mikið framboð af góðum uppskriftum að heitum brauðréttum. Mér finnst allavega gulls ígildi að eiga margar slíkar uppskriftir í handraðanum enda er ekki hægt að halda kökuboð án slíks réttar. Ég held að flestir gestgjafar séu sammála um að heitu brauðréttirnir eru alltaf vinsælastir í afmælum eða öðrum kökuveislum og ég passa mig alltaf á að vera með nóg af þeim, helst tvær tegundir. Ég er búin að setja inn nokkrar slíkar uppskriftir hingað á síðuna, hér, hér og hér. Nú bætist ein uppskriftin við, þetta er uppskrift sem ég skellti í um helgina út frá framboðinu í ísskápnum og heppnaðist svona ljómandi vel, alveg skotheldur brauðréttur! 🙂
Uppskrift:
- 16 – 18 brauðsneiðar, skornar í teninga (ég sker það mesta af skorpunni burtu)
- 250 g sveppir, skornir í sneiðar
- 1 blaðlaukur, hvíti hlutinn smátt saxaður
- 250 g skinka, skorin í bita
- 1 stór rauð paprika, skorin í bita
- 1 dós aspas (ca 400 g)
- salt og pipar
- góð kryddblanda (ég notaði Pasta Rossa frá Santa Maria)
- 1 msk Oscars grænmetiskraftur
- 1stk mexíkó ostur (150 g), skorinn niður í litla teninga
- 1stk bóndabrie ostur (100 g), skorinn niður í litla teninga (hægt að sleppa)
- 250 g fetakubbur (eða fetaostur án olíunnar), mulin niður
- 2 dl rjómi
- 2 dl mjólk
- 1 poki rifinn gratín ostur (200 g)
- Doritos ostasnakk (má sleppa)
Ofn hitaður í 200 gráður. Brauðteningum er dreift í smurt eldfast mót. Gott er að bleyta aðeins upp í brauðinu með aspassafanum. Sveppir, blaðlaukur, paprika og skinka steikt á pönnu og aspasnum bætt út í. Kryddað með salti, pipar, grænmetiskrafti og góðri kryddblöndu líkt og Pasta Rossa. Mexíkó osti, brieosti og fetaosti bætt út á pönnuna ásamt mjólk og rjóma. Látið malla við vægan hita þar til osturinn hefur bráðnað. Þá er blöndunni hellt yfir brauðteningana, því næst ostinum dreift yfir og Doritos flögum stungið ofan í hér og þar. Bakað við 200 gráður í 25 – 30 mínútur eða þar til osturinn hefur tekið góðan lit.
Gaman væri að vita hitaeiningar pr. skammt.
Æ, ég veit ekki hvort það væri nokkuð gaman Kolla, stundum þarf maður bara að njóta! 😉 En grínlaust þá hef ég ekki hugmynd en það er eflaust bara svipað og í flestum brauðréttum.
Þetta er mjög líkt mínum eftirlætisrétti sem að er mjög vinsæll. En mér langaði að benda þér á að prófa að setja aspasinn í töfrasprota, það er algjör snilld og þessir sem eru ekki hrifin af honum og plokka hann vanalega úr borða með bestu lyst 😉
Gott ráð Ingibjörg! 🙂 Takk fyrir kveðjuna!
Hlakka til að prófa þennan rétt …. en bendi á að hafa prentvæna útgáfu af uppskriftum, þessi er 5 blaðsíður í útprenti !
Ef þú velur „print“ neðst fyrir neðan uppskriftina og hakar svo í „single“ þá getur þú valið „3“ síður og færð þar með alla uppskriftina en ekki kommentin og annan óþarfa fyrir útprentun.
Var með þennan í afmæli seinustu helgi og prófaði að mauka aspasinn ei s og ein hérna fyrir ofan talaði um og það kom vel út 🙂
Rétturinn var mjög góður finnst einmitt svo gaman að eiga marga góða brauðrétti og hef prófað alla hjá þér og auðvitað eru þeir allir rosalega góðir 🙂
Hafi þennan seinustu helgi í afmæli og er mjög góður 🙂
Prófaði eins og hún talar um hér að ofan að mauka aspasinn og það kemur mjög vel út.
Finnst svo gott að eiga fullt af góðum brauðréttum og er komin með gott safn og hef auðvitað prófa alla sem er hér á síðunni og eru allir svo góðir 🙂
Gaman að heyra Halla Björk og takk fyrir kveðjuna! 🙂